Hæstiréttur íslands
Mál nr. 456/2015
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Umgengni
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. júlí 2015. Hún krefst þess aðallega að sér verði falin forsjá barnanna A og B, en til vara að forsjá barnanna verði sameiginleg og lögheimili þeirra hjá sér. Þá krefst hún í báðum tilvikum að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar og stefnda verði gert að greiða sér einfalt meðlag með börnunum frá 1. október 2012 til 18 ára aldurs þeirra. Loks krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en umgengnina.
Í forsendum héraðsdóms kemur fram að aðilar séu sammála um að fyrri skipan á umgengni, aðra hverja helgi, henti ekki lengur þörfum barnanna vegna fjarlægðar milli foreldra. Í hinum áfrýjaða dómi var kveðið á um það að börnin hefðu umgengni við áfrýjanda í öllum lengri skólafríum svo og fjórar vikur á sumrin en ekkert um reglulega umgengni. Fyrir Hæstarétti krefst áfrýjandi þess að ákveðin verði regluleg umgengni eina helgi í mánuði auk þeirrar umgengni, sem kveðið er á um í héraðsdómi.
Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. barnalaga nr. 76/2003 á barn rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess. Mikilvægt er að börn haldi góðum tengslum við það foreldri sem þau eiga ekki lögheimili hjá og er því rétt að fallast á kröfu áfrýjanda um aukna umgengni, þannig að auk þeirrar umgengni sem ákveðin var í héraðsdómi bætist við ein helgi í hverjum mánuði.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en umgengni, en til viðbótar því sem þar er kveðið á um skulu börnin hafa umgengni við áfrýjanda, K, eina helgi í mánuði.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 12. júní 2015.
Mál þetta var þingfest 3. september 2014 og tekið til dóms 28. maí sl. Stefnandi er K, [...], [...], en stefndi er M, [...], [...].
Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur: Að stefnanda verði falin forsjá barna aðila, A, kt. [...], og B, kt. [...]. Að með dómi verði kveðið á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki fær forsjá barnanna. Til vara krefst stefnandi þess að forsjáin verði sameiginleg og að lögheimili barnanna verði hjá stefnanda. Stefnandi gerir í báðum tilvikum kröfu um greiðslu meðlags frá 1. október 2012 til 18 ára aldurs barnanna. Þá er að auki krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.
Stefndi gerir þær dómkröfur að kröfum stefnanda um forsjá barna aðila verði hafnað og að honum verði einum dæmd forsjá barna aðila og að stefnandi verið dæmd til að greiða lágmarksmeðlag með börnunum frá dómsuppsögu til fullnaðs 18 ára aldurs þeirra. Ennfremur er þess krafist að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki fær forsjá. Til vara krefst stefndi þess að forsjá verði dæmd sameiginleg og að lögheimili barnanna verði hjá honum. Þá er þess krafist að stefnandi verði dæmd til greiðslu málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
I
Stefnandi er fædd í [...] og kom til Íslands 1996 sem skiptinemi. Í framhaldi af því settist hún hér að og eignaðist dóttur sína C árið 1997. Barnsfaðir hennar og stefnandi fara sameiginlega með forsjá hennar. Aðilar þessa máls hófu sambúð 2004 og fluttu til [...] 2008 og ári síðar til [...]. Þau slitu samvistum í október 2012 og dvöldu bæði börnin þá hjá stefnanda en fóru í umgengni til stefnda. Í mars 2013 flutti fjölskyldan til Íslands. Flutti stefndi þá til [...] en stefnandi fékk íbúð á leigu í [...]. Flutti hún einu sinni innan [...] en í mars 2014 flutti hún í [...] og hefur búið þar síðan.
Eftir að aðilar fluttu til landsins í mars 2013 fóru börnin til [...] með föður sínum og dvöldu þar fram yfir páska. Sumarið 2013 dvöldu börnin fyrir norðan hjá stefnda en komu suður til stefnanda þegar skóli byrjaði í ágúst 2013. Dvöldu þau hjá henni allt skólaárið fram í júní 2014 er þau fóru norður til stefnda. Dvöldu þau hjá honum allt sumarið en þegar kom að skólabyrjun 22. ágúst sl. neitaði stefndi að skila börnunum og skráði þau í skóla á [...]. Með úrskurði héraðsdóms 2. október 2014 voru stefnanda fengin umráð barnanna með beinni aðfarargerð. Úrskurðurinn var staðfestur í Hæstarétti 17. október 2014.
Samkvæmt vottorði Þjóðskrár áttu börnin lögheimili hjá stefnanda frá komu þeirra til landsins 28. mars 2013 til 6. ágúst 2014 en þá flutti stefndi lögheimili þeirra að [...], [...].
Stefnandi leitaði til sýslumannsins í [...] 19. apríl 2013 og óskaði eftir slitum á skráðri sambúð aðila. Aðilar mættu hjá sýslumanni 26. apríl 2013 þar sem stefnandi fór fram á að forsjá yrði sameiginleg, lögheimili hjá henni og að stefndi greiddi meðlag með börnunum. Stefndi féllst ekki á þessa tilhögun og var málið því sent til sáttameðferðar samkvæmt 33. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þann 10. mars 2013 gaf sýslumaður út vottorð um að ekki hefði náðst sátt.
Undir rekstri aðfararmálsins var D sálfræðingur fenginn til þess að kanna viðhorf barnanna til málsins. Ræddi hann einu sinni við þau hvort í sínu lagi um afstöðu þeirra til búsetu og skólagöngu. Segir í skýrslu D að bæði börnin, A, 9 ára, og B, 7 ára, séu ráðvillt í þessum aðstæðum og í greinilegri hollustuklemmu á milli foreldra sinna. Tíminn frá skilnaði hafi verið þeim erfiður. Helst vildu þau búa hjá báðum foreldrum. Þegar rætt sé um að það sé ekki mögulegt velji þau bæði að vera í skóla á [...]. Báðum líði greinilega vel þar. Þar eigi þau vini og hafi margt fyrir stafni. B sé óþroskaðri en A og vilji greinilega þóknast öllum. Eins og staðan sé í dag sé þó vilji hans skýr þó að rök A séu meiri og sterkari fyrir því að vera í skóla á [...].
Í vetur hafa börnin dvalið í umgengni hjá stefnda aðra hverja helgi.
II
E sálfræðingur var dómkvödd til þess að gera sálfræðilega matsgerð í málinu og er matsgerð hennar dagsett 13. mars 3015. Matsmaður ræddi m.a. við kennara barnanna á [...] en þar gengu þau í skóla frá ágúst til októberloka 2014. Kennari A sagði að hún hafi staðið illa námslega og verið á eftir í öllum námsgreinum.
Hún hafi ekki getað lesið og því sæti allt annað eftir. Telpan væri hins vegar klár og gæti vel lært. Heimanámi hennar væri vel sinnt og framfarir hafi orðið hjá henni þann stutta tíma sem hún hafi sótt skólann. Lesturinn hjá B hafi líka verið tekinn föstum tökum og hann náð framförum. Heimanámi hans hafi einnig verið mjög vel sinnt af föður.
Matsmaður hafði eftir kennara A í [...] í [...], F, sem kennt hefur telpunni frá því í nóvember síðastliðinn, að námsleg staða hennar væri slæm. Hún sé næstum því ólæs og sé því stödd eins og nemandi sem er að hefja skólagöngu. Ólæsið komi niður á öðrum fögum. Öruggt sé að telpan sé ekki seinfær og geti lært. Ekki sé unnt að greina lesblindu að svo stöddu því að hún verði fyrst að læra að lesa. Heimanámi sé ekki sinnt, t.d. hafi ekki verið kvittað fyrir heimavinnu frá 2. febrúar sl. A segi að ekki sé tími heima til þess að sinna heimanámi. F staðfesti þessa frásögn sína fyrir dómi.
Kennari B, G skýrði svo frá hjá matsmanni og einnig fyrir dómi að hún hafi kennt B frá því í nóvember sl. Námsleg stað hans sé mjög slök. Hann sé mjög mikið á eftir í lestri sem hái honum í öðrum fögum. Hann lesi sjaldan heima og skili aldrei unninni heimavinnu. G sagðist hafa rætt það við stefnanda en ekkert hafi breyst.
Í niðurstöðum matsmanns segir m.a. að fram hafi komið í tengslaprófum að báðir foreldrar sýni börnunum ástríki og gæti öryggis þeirra. Líkamlegri umönnun barnanna sé vel sinnt og börnin búi við gott atlæti á báðum heimilum. Börnin séu á eftir í námi. Matsmaður álítur að báðir foreldrar hafi vanrækt þær skyldur sínar og beri nokkuð jafna ábyrgð á því að börnin skuli ekki vera orðin læs. Faðir telji að móðir beri ein ábyrgð á ólæsi barnanna. Matsmaður telur það ómaklegt því að börnin hafi dvalið vikum og mánuðum saman hjá föður sínum eftir sambúðarslit. Eðlilegt sé að læsi barnanna sé ekki síst á ábyrgð föður þar sem íslenskan sé hans móðurmál.
Samkvæmt persónuleikaprófi sé stefnandi ekki haldinn neinum geðrænum kvillum. Stefndi hafi hins vegar svarað persónuleikaprófi á þann hátt að varasamt sé að túlka það. Hann dragi upp jákvæða mynd af sjálfum sér og gangist ekki við minni háttar veikleikum sem allar venjulegar manneskjur búi yfir. Greina hafi mátt innsæisskort í eigin hegðun. Það að blanda börnunum í deilur foreldra beri vott um stórlega skert innsæi. Með því móti hafi hann sett börnin í erfiða stöðu þar sem þau hafa verið tilneydd að taka afstöðu með öðru foreldri gegn hinu.
Matsmaður álítur að systkinin hafi ekki sætt líkamlegu harðræði af hendi móður en hún hafi engu að síður slegið til þeirra. Það komi ekki fram í tali þeirra og hegðun að þau óttist móður sína.
Tengsl barnanna voru metin með viðtölum, athugunum og tengslaprófum. Samkvæmt prófum eru tengslin sterkari við föður en móður. Niðurstaða matsmanns er að báðir foreldrar séu hæfir til að fara með forsjá barnanna.
III
Stefnandi byggir á að í 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 komi fram sú grundvallarregla að það skuli ráða niðurstöðu um hverju foreldri skuli dæmd forsjá barns, hvað sé barni fyrir bestu. Í ákvæðinu sjálfu og lögskýringargögnum með ákvæðinu sé kveðið á um þau atriði sem skipta máli við mat á því hvoru foreldri skuli dæmd forsjá barns. Stefnandi byggir kröfu sína um að henni verði dæmd forsjá barnanna fyrst og fremst á því að það sé börnunum fyrir bestu að henni verði einni falin forsjá þeirra.
Stefnandi byggir á því að hún sé hæfari en stefndi til þess að fara með forsjá barnanna. Hún telur að hún sé bæði hæfari en stefnandi og betur til þess fallin að veita börnunum þann stuðning sem þau eigi rétt á og þarfnist. Hún telur að hún geti tryggt þeim góð uppeldisskilyrði. Stefnandi byggir einnig á því að tengsl hennar og barnanna séu mjög sterk. Það sé stefnandi sem hafi alla tíð borið hitann og þungann af umönnun þeirra og stutt þau í námi og leik. Hún hafi verið aðalumönnunaraðili barnanna frá fæðingu þeirra. Stefnandi geti veitt börnunum ást, umhyggju og gott heimili. Einnig geti hún tryggt þeim öryggi sem nauðsynlegt sé að þau hafi. Þá bendir hún á að verði henni dæmd forsjáin mun hún stuðla að eðlilegri og reglulegri umgengni barnanna við stefnda. Aðstæður stefnanda séu góðar. Hún leigi rúmgóða íbúð í [...] og hafi gert langtímaleigusamning um hana. Hún sé menntaður ferðamálráðgjafi frá [...]. Þá sé hún búin með eitt ár í viðskiptafræði við [...]. Hún hafi unnið ýmis störf í gegnum tíðina auk þess að reka sitt eigið fyrirtæki. Í dag vinni hún sem matráður við leikskólann [...] í [...]. Stefnandi sé reglusöm, hvorki reyki né drekki. Hún sé félagslynd og vinamörg. Áhugamál hennar snúi að fjölskyldunni, matseld, ferðalögum og veiðiferðum. Hún búi í dag með H en þau hafi kynnst í maí 2013. Hann starfi sem skólaliði við [...] og sé samband hans við börnin mjög gott.
Börnin gangi í [...] og gangi ágætlega en hafi þurft stuðning við íslenskuna, bæði við málfræði og lestur. Hafi þau fengið mjög góða þjónustu og aðstoð í skólanum. Börnin séu spænskumælandi og tali auk þess íslensku og ensku. Þeim gangi mjög vel félagslega og eigi marga vini.
Að öllu framangreindu virtu sé það börnunum fyrir bestu að þau eigi heimili sitt hjá stefnanda og að henni verði með dómi falin forsjá þeirra allt til 18 ára aldurs þeirra.
Verði ekki fallist á kröfu stefnanda um að henni verði einni falin forsjá barnanna gerir hún til vara þá kröfu að dómari dæmi að forsjáin verði sameiginleg og að lögheimilið verði hjá henni. Fallist dómari á að dæma sameiginlega forsjá gerir stefnandi kröfu um að lögheimili barnanna verði hjá henni. Til stuðnings kröfu sinni um að lögheimilið verði hjá henni vísar hún til þess sem komið hefur fram hér fyrr. Hún telur mjög mikilvægt að tryggt verði að lögheimili barnanna verði áfram hjá henni og að tryggt verði að þau búi á höfuðborgarsvæðinu og geti haldið áfram í því skólaumhverfi sem þau eru nú í.
Stefnandi telur nauðsynlegt að dómur kveði á um meðlag með börnunum. Kröfu sína um meðlag úr hendi stefnda byggir stefnandi á framfærsluskyldu foreldra, sbr. 53. gr. barnalaga nr. 76/2003, og lágmarksmeðlagsskyldu forsjárlauss foreldris samkvæmt 57. gr., sbr. 55. gr., sömu laga. Um heimild dómara til að kveða á um meðlagsskyldu í málinu vísar stefnandi til 4. mgr. 34. gr. laganna. Verði fallist á varakröfu stefnanda um sameiginlega forsjá og að lögheimilið verði hjá henni sé með vísan til framangreindra lagaákvæða gerð krafa um greiðslu meðlags úr hendi stefnanda.
Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum númer 50/1988.
IV
Stefndi telur að það þjóni hagsmunum barna hans best að forsjá þeirra sé hjá honum. Hann hafi fasta búsetu á Sauðárkróki þar sem hann ætli sér að búa áfram. Þar eigi hann stóra samhenta fjölskyldu. Hann hafi trygga vinnu og góðar aðstæður að öllu leyti. Hann hafi aldrei átt við nein áfengisvandamál eða geðræn vandamál að stríða og hann telur sig betur fallinn til að fara með forsjá barnanna en stefnandi. Stefndi hafi allt frá fæðingu barna aðila gætt þeirra a.m.k. til jafns á við stefnanda. Þegar hann hafi ekki verið að vinna hafi hann sinnt börnum sínum og verið til staðar fyrir þau.
Börn aðila séu náttúrubörn sem vilji helst dvelja á [...] hjá föður sínum. Þar séu allar aðstæður fyrir börnin eins og best verður á kosið.
Mikil óreiða hafi verið á lífi stefnanda. Stefndi hafi miklar áhyggjur af því að börnin geti ekki sótt neina aðstoð við heimanám sitt, hvorki til móður sinnar eða sambýlismanns hennar.
Stefndi muni ekki koma í veg fyrir að börn aðila umgangist móður sína og hennar fjölskyldu fái hann forsjá barnanna. Hins vegar hafi hann miklar áhyggjur af því að móðir barnanna muni koma í veg fyrir að þau umgangist og þekki hans stórfjölskyldu, lendi forsjá barnanna hjá henni. Stefndi byggir kröfu sína um forsjá barnanna á 34. gr. barnalaga nr. 76/2003, enda telur hann allar forsendur vera til þess að forsjá barnanna sé betur komið hjá honum en stefnanda.
Hver sem úrslit máls þessa verða fyrir dómi telur stefndi nauðsynlegt að kveðið verði á um það hvernig umgengni þess foreldris, sem ekki fær forsjá, við börnin verði hagað, enda hafi samskipti hans við stefnanda verið með þeim hætti allt frá sambúðarslitum að stefndi hafi ekki getað rætt nokkur málefni við hana. Krafa stefnda vegna umgengni byggist á 4. mgr. 34. gr. barnalaga. Krafa um greiðslu meðlags byggist á sama ákvæði.
Krafa stefnda um málskostnað byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr.
V
Eins og að framan er rakið hófu aðilar sambúð 2004 og eignuðust A 2005 og B 2006. Þau slitu sambúð í október 2012 og fluttu hingað til lands í mars 2013. Frá þeim tíma hefur stefndi búið á [...] en stefnandi fyrir sunnan, nú í [...]. Sumarið 2013 dvöldu börnin fyrir norðan hjá stefnda en komu suður til stefnanda þegar skóli byrjaði í ágúst 2013. Dvöldu þau hjá henni allt skólaárið fram í júní 2014 er þau fóru norður til stefnda og voru hjá honum allt sumarið. Þegar kom að skólabyrjun 22. ágúst sl. neitaði stefndi að skila börnunum og skráði þau í skóla á [...]. Með úrskurði héraðsdóms 2. október 2014 voru stefnanda fengin umráð barnanna með beinni aðfarargerð. Í vetur hafa börnin dvalið hjá stefnda í umgengni aðra hverja helgi.
Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 kveður dómari á um hvernig forsjá barns eða lögheimili verði háttað eftir því sem barni er fyrir bestu. Í greinargerð með þessu ákvæði barnalaga segir að þau atriði sem komi til skoðunar við ákvörðun um forsjá barns séu m.a. tengsl barns við hvort foreldri um sig, dagleg umönnun og umsjá, persónulegir eiginleikar og hagir hvors foreldris um sig og svo barnsins, óskir barns, kyn og aldur, systkinahópur, húsnæðismál, liðsinni vandamanna hvors um sig, breytingar á umhverfi og umgengni barns forsjárlauss foreldis.
Fram kemur hjá hinum dómkvadda matsmanni að báðir foreldrar eru hæfir uppalendur. Að dómi matsmanns sýna báðir foreldrar börnunum ástríki og gæta öryggis þeirra. Líkamlegri umönnun barnanna er vel sinnt af báðum foreldrum og börnin búa við gott atlæti á báðum heimilum. Fram kemur í matsgerð að foreldrar eru um margt ólíkir, enda frá ólíkum menningarheimum. Þannig sé faðir duglegur að gera ýmislegt með börnunum utandyra eins og að fara í göngutúra og út að hjóla. Móðir sé aftur á móti heimakær og búi börnum reglusamt og gott heimilislíf.
Foreldrar standa ekki jafnt að vígi varðandi stuðning frá ættingjum. Fjölskylda stefnanda býr í [...] og tengslanet hennar á Íslandi er byggt á vinum og fjölskyldu sem hún tengdist þegar hún kom til Íslands sem skiptinemi. Hún býr með portúgölskum manni sem hefur ekki fjölskyldutengsl á Íslandi. Stefndi á stóra fjölskyldu á [...] sem hann og börnin eru mjög vel tengd og þau geta leitað til hvenær sem er.
Matsmaður telur að tengsl barnanna við foreldrana séu góð. Í tengslaprófi kemur fram að telpan er í nánum og góðum tengslum við sitt nánasta fólk. Sterkustu tengslin samkvæmt prófinu eru við föður. Í tengslaprófi hjá drengnum bendir niðurstaða til þess að hann sé í góðum og nánum tengslum við foreldra sína. Tengslin við föður drengsins mælast sterkust.
Dómurinn telur að tveir góðir kostir séu í boði nú þegar ákveða þarf börnunum uppeldisstað. Virðast báðir foreldrarnir vel færir um að mæta margvíslegum þörfum barnanna. Við úrskurð í málinu skal hafa það eitt til hliðsjónar sem telja verður að sé börnunum fyrir bestu. Verður þá að líta til tengsla- og uppeldissögu barnanna, stöðu þeirra í dag og framtíðarþarfa og hafa í huga að þau munu í nánustu framtíð ekki geta notið jafnra návista við foreldra sína. Ræður þar miklu að annað foreldrið býr í [...] og hitt á [...]. Báðir aðilar gera kröfu um að fara einir með forsjá barnanna en til vara gera þeir kröfu um að forsjá þeirra verði sameiginleg hjá báðum aðilum. Að ofansögðu, og með tilliti til þess að aðilar eru báðir taldir hæfir til að fara með forsjá, telur dómurinn að það henti börnunum betur að forsjá þeirra sé sameiginleg hjá báðum aðilum.
Þegar litið er til stöðu barnanna í dag kemur fram að námsleg staða þeirra er mikið áhyggjuefni. Samkvæmt framburði kennara er telpan skörp en námsleg staða hennar er slæm. Hún sé næstum ólæs og sé stödd eins og barn sem sé að hefja skólagöngu og sé því þremur árum á eftir jafnöldrum sínum. Hún sé í sérkennslu í 10 tíma á viku en framfarir séu litlar. Heimanámi sé ekki nægilega vel sinnt og ekki hafi verið kvittað fyrir heimavinnu í langan tíma. Skólinn hafi bent móður á að sinna úrbótum en því hafi ekki verið sinnt. Varðandi drenginn segir kennari hans námslega stöðu hans vera slaka. Drengurinn sé mikið á eftir jafnöldrum í lestri sem hái honum í öðrum námsgreinum þar sem allt byggist á að geta lesið. Fram komi hjá kennara við [...] að drengurinn lesi sjaldan heima og skili aldrei unninni heimavinnu. Kennari hafi bent móður á mikilvægi heimavinnu en ekkert hafi breyst. Framfarir hjá drengnum séu engar og að undanförnu hafi honum farið aftur en ekki fram á við. Þegar horft er til þess að kennarar barnanna telja að þau geti vel lært, en orsökina fyrir slæmri stöðu þeirra sé að leita í slöku aðhaldi og of litlum stuðningi, telur dómurinn að í þessum efnum halli meira á móður en föður. Verulega virðist skorta á innsæi móður í þessar grunnþarfir barnanna. Má í því sambandi vísa í tíð skólaskipti og getu- og skilningsleysi móður í að styðja við nám barnanna. Þann stutta tíma sem börnin dvöldu hjá föður síðastliðið haust og voru í Árskóla var heimanámi aftur á móti vel sinnt og greinilegar framfarir urðu.
Fyrst velja þarf á milli foreldra er það niðurstaða dómsins að það þjóni betur hagsmunum barnanna að dvelja hjá stefnda og ganga í skóla á [...]. Einna þyngst vegur alvarleg námsleg staða barnanna og dómurinn telur að þegar horft sé til framtíðar sé líklegra að börnin nái námsárangri í samræmi við greind og fái aðhald sem nauðsynlegt er ef þau hafa lögheimili hjá föður. Hjá föður þekkja þau vel til umhverfisins, þar hefur þeim líkað vel að vera, eiga vini og eru í reglulegum og góðum tengslum við föðurfjölskyldu. Einnig er litið til þess sem fram kemur í tengslaprófi að börnin séu tengd báðum aðilum en tengsl þeirra við föður séu meiri og sterkari.
Þegar allt framangreint er virt verður talið með vísan til 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 að það sé börnunum fyrir bestu að aðilar fari sameiginlega með forsjá þeirra en að þau hafi lögheimili hjá stefnda.
Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. barnalaga á barn rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldri sitt sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess. Við skilnað eða slit á sambúð hvílir sú skylda á báðum foreldrum að grípa til þeirra ráðstafana sem við verður komið til að tryggja að sá réttur barnsins sé virtur. Í málinu hefur komið fram að aðilar eru sammála um að fyrri skipan á umgengni, aðra hverja helgi, henti ekki lengur þörfum barnanna vegna fjarlægðar milli foreldra. Verður því dæmt að börnin hafi umgengni við stefnanda í öllum lengri skólafríum. Um jól dvelji þau hjá stefnda en fari til stefnanda annan dag jóla og verði fram að skólabyrjun eftir áramót. Í vetrarleyfi og um páska dvelji þau hjá stefnanda. Á sumrin dvelji börnin samtals fjórar vikur hjá stefnanda samkvæmt nánara samkomulagi aðila sem þau geri fyrir 15. maí ár hvert. Á meðan víki regluleg umgengni um helgar.
Samkvæmt 6. mgr. 57. gr. barnalaga verður fallist á kröfu stefnda um að stefnandi greiði einfalt meðlag með börnunum frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra.
Með vísan til 1. mgr. 44. gr. barnalaga ákveðst að áfrýjun dóms þessa fresti ekki réttaráhrifum hans.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila. Stefnda hefur gjafsókn í málinu. Allur gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Sonju Maríu Hreiðarsdóttur hdl. Af hálfu lögmannsins var lagður fram málskostnaðarreikningur ásamt tímaskýrslu. Þykir þóknun lögmannsins að teknu tilliti til umfangs málsins og framlagðs málskostnaðarreiknings hæfilega ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti 1.800.000 krónur.
Með vísan til 1. mgr. 44. gr. barnalaga frestar áfrýjun dóms ekki réttaráhrifum hans.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Guðfinnu Eydal og Helga Viborg sálfræðingum.
Dómsorð
Stefnandi, K, og stefndi, M, skulu fara sameiginlega með forsjá barnanna A og B. Börnin skulu eiga lögheimili hjá stefnda.
Stefnandi greiði einfalt meðlag með börnunum frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra.
Stefnandi skal hafa umgengnisrétt við börnin í öllum lengri skólafríum. Um jól dvelji þau hjá stefnda en fari til stefnanda annan dag jóla og verði fram að skólabyrjun eftir áramót. Í vetrarleyfi og um páska dvelji þau hjá stefnanda. Á sumrin dvelji börnin samtals fjórar vikur hjá stefnanda samkvæmt nánara samkomulagi aðila sem þau geri fyrir 15. maí ár hvert. Á meðan víki regluleg umgengni um helgar.
Málskostnaður fellur niður milli aðila. Allur gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Sonju Maríu Hreiðarsdóttur hdl., 1.800.000 krónur.
Áfrýjun dóms frestar ekki réttaráhrifum hans.