Hæstiréttur íslands

Mál nr. 362/2002


Lykilorð

  • Farmsamningur
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. apríl 2003.

Nr. 362/2002.

Samskip hf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

gegn

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

og gagnsök

 

Farmsamningur. Skaðabætur.

A hf. samdi við franska verslunarkeðju um sölu á kavíar. Tók S hf. að sér að flytja kavíarinn til Frakklands, en S hf. átti sjálft að flytja þessa sendingu sjóleiðina til Hollands. Var kavíarinn settur í frystigám, sem S hf. lagði til, en það hafði gengist undir þann skilmála að hitastig á farminum yrði 0° meðan á flutningum stæði. Þegar gáminum hafði verið skipað upp í Hollandi barst 13° heitt loft út úr gáminum. Rifti franska verslunarkeðjan þá kaupunum og féllst A hf. á riftunina. Greiddi T hf., sem hafði vátryggt farminn, A hf. bætur fyrir vörusendinguna. Í máli sem T hf. höfðaði á hendur S hf. vegna þessa krafðist félagið nánar tiltekinnar fjárhæðar fyrir andvirði vörusendingarinnar auk endurgreiðslu geymslu- og förgunarkostnaðar. Talið var að frönsku verslunarkeðjunni hafi verið rétt að neita að taka við vörusendingunni vegna áhættu á að gæði hennar væru ófullnægjandi sökum óvissu um að áskildu hitastigi hafi verið haldið á henni meðan á flutningum stóð. Því bæri að líta svo á að farmurinn hafi skemmst í skilningi 1. mgr. 68. gr. siglingalaga, en engu breytti þótt ekki hafi verið leitt í ljós að vörurnar hafi af þessum sökum orðið óhæfar til manneldis eða geymsluþol þeirra rýrnað frá því, sem ætlast var til. Var ákvæði 1. mgr. 70. gr. laganna um að bætur skyldu ákveðnar eftir því verðgildi, sem vara mundi hafa haft ósködduð við afhendingu á réttum stað og tíma, ekki talið girða fyrir að T hf. gæti krafið S hf. um bætur fyrir annað sannanlegt tjón, sem stafaði beinlínis af vanefndum þess. Var krafa T hf. því tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. ágúst 2002. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hún verði lækkuð og málskostnaður á báðum dómstigum falli niður.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 21. október 2002. Hann krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 7.824.741 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 7.083.655 krónum frá 17. maí 2000 til 8. febrúar 2001 og af 7.824.741 krónu frá þeim degi til 1. júlí sama árs, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi á málið rætur að rekja til þess að aðaláfrýjandi tók að sér í febrúar 2000 að flytja fyrir Samherja hf. samtals 21.752 kg af kavíar, sem unninn hafði verið úr grásleppuhrognum, frá Reykjavík til Le Havre í Frakklandi, en aðaláfrýjandi átti sjálfur að flytja þessa sendingu sjóleiðina til Rotterdam í Hollandi. Kavíar þessi var framleiddur fyrir franska verslunarkeðju og settur í neytendaumbúðir, sem auðkenndar voru með vörumerki hennar. Fyrir liggur að farmurinn var 3. febrúar 2000 látinn í frystigám, sem aðaláfrýjandi lagði til, en hann hafði gengist undir þann skilmála að hitastig á farminum yrði 0° meðan á flutningum stæði. Gámurinn var síðan settur um borð í skip aðaláfrýjanda, sem lét úr höfn í Reykjavík næsta dag. Óumdeilt er að búnaður, sem tryggja átti síritun upplýsinga um hitastig í gáminum, hafi verið óvirkur meðan á för skipsins stóð til Rotterdam, en þangað kom það að kvöldi 8. febrúar 2000 samkvæmt framburði yfirstýrimanns fyrir héraðsdómi. Aðaláfrýjandi kveður á hinn bóginn skipverja hafa tvívegis á sólarhring á þessu tímabili lesið af mæli á gáminum, sem sýndi hitastig inni í honum, og hafi það ávallt verið 0°. Þegar gáminum hafði verið skipað upp í Rotterdam varð starfsmaður aðaláfrýjanda þess var 10. febrúar 2000 að mælir sýndi 13° hita á lofti, sem barst út úr gáminum. Kvaddir voru til viðgerðarmenn, sem greindu bilun í kælikerfi gámsins og gerðu þegar við það, en samkvæmt frásögn þeirra mun hitastig á útstreymislofti hafa verið komið niður í 2° einni klukkustund eftir að viðgerð var lokið. Starfsmaður aðaláfrýjanda í Rotterdam tilkynnti þessi atvik Samherja hf., sem greindi viðtakanda farmsins þegar frá þessu. Neitaði hann að taka við vörusendingunni með því að ekki væri tryggt að áskildu hitastigi hafi verið haldið meðan á flutningunum stóð og lýsti yfir riftun kaupanna. Samherji hf. féllst á riftunina og krafði gagnáfrýjanda, sem hafði vátryggt farminn, um bætur fyrir vörusendinguna. Skoðunargerðir, sem málsaðilarnir öfluðu sér ytra skömmu eftir að framangreind atvik gerðust, leiddu ekki í ljós að spjöll hafi orðið á vörusendingunni. Af ástæðum, sem eru nánar raktar í héraðsdómi, féllst gagnáfrýjandi allt að einu á kröfu Samherja hf. og greiddi félaginu 29. mars 2000 bætur í samræmi við vátryggingarskilmála að fjárhæð 7.792.002 krónur gegn framsali á réttindum þess á hendur aðaláfrýjanda. Af þessu tilefni bar gagnáfrýjandi upp endurkröfu 17. apríl 2000 við aðaláfrýjanda, sem hafnaði henni. Gagnáfrýjandi lét síðan 1. maí sama árs farga vörusendingunni og bar kostnaðinn af því, 348.254 krónur. Áður en til þess kom varð hann að greiða aðaláfrýjanda áfallinn geymslukostnað, 392.832 krónur. Í málinu krefur gagnáfrýjandi aðaláfrýjanda um þessa tvo síðastnefndu kostnaðarliði auk 7.083.655 króna, sem hann kveður hafa verið andvirði vörusendingarinnar.

Fallist verður á með gagnáfrýjanda að franska félaginu, sem vörusendingu Samherja hf. var beint til, hafi verið rétt að neita að taka við henni vegna áhættu á að gæði hennar væru ófullnægjandi sökum framangreindrar óvissu um að áskildu hitastigi hafi verið haldið á henni meðan á flutningum stóð. Verður að líta svo á að gagnvart aðilunum að þeim kaupum hafi farmurinn þannig skemmst í skilningi 1. mgr. 68. gr. siglingalaga nr. 34/1985 í vörslum aðaláfrýjanda, en engu fær þar breytt þótt ekki hafi verið leitt í ljós að vörurnar hafi af þessum sökum orðið óhæfar til manneldis eða geymsluþol þeirra rýrnað frá því, sem ætlast var til. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að aðaláfrýjandi beri ábyrgð á tjóni, sem af þessu leiddi.

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. siglingalaga skulu bætur eftir 1. mgr. 68. gr. laganna ákveðnar eftir því verðgildi, sem vara mundi hafa haft ósködduð við afhendingu á réttum stað og tíma. Óumdeilt er í málinu að verðmæti vörusendingarinnar hafi samkvæmt reikningi numið fyrrgreindum 7.083.655 krónum. Ekki verður litið svo á að ákvæði 1. mgr. 70. gr. siglingalaga girði fyrir að farmflytjandi verði krafinn um bætur fyrir annað sannanlegt tjón, sem stafar beinlínis af vanefndum hans samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laganna. Fyrrgreindir liðir í kröfu gagnáfrýjanda, samtals 741.086 krónur, snúa gagngert að kostnaði af meðferð vörusendingarinnar eftir að hún hafði skemmst í vörslum aðaláfrýjanda. Í ljósi þeirrar meginreglu að tjónvaldi beri að bæta tjón, sem af bótaskyldri athöfn hans eða athafnaleysi hlýst, eru ekki efni til annars en að taka þessa kröfuliði gagnáfrýjanda einnig til greina.

Gagnáfrýjandi beindi sem fyrr segir kröfu að aðaláfrýjanda 17. apríl 2000 vegna bóta, sem hann hafði áður greitt Samherja hf. í skjóli vátryggingarsamnings þeirra. Samkvæmt 15. gr. þágildandi vaxtalaga nr. 25/1987 á gagnáfrýjandi því rétt til dráttarvaxta í samræmi við dómkröfu sína eins og í dómsorði greinir.

Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi svo sem segir í dómsorði.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Samskip hf., greiði gagnáfrýjanda, Tryggingamiðstöðinni hf., 7.824.741 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 7.083.655 krónum frá 17. maí 2000 til 8. febrúar 2001 og af 7.824.741 krónu frá þeim degi til 1. júlí sama árs, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 750.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2002.

                Mál þetta var höfðað 7. febrúar 2001 og dómtekið 30. f.m.

Stefnandi er Tryggingamiðstöðin hf., Aðalstræti 6-8, Reykjavík.

Stefndi er Samskip hf., Holtabakka v/Holtaveg, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér skaðabætur að upphæð 7.824.741 króna með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 7.083.655 krónum frá 17. maí 2000 til 8. febrúar 2001 en af 7.824.741 krónu frá þeim degi til 1. júlí s.á. en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags og málskostnað.

Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara lækkunar á kröfum stefnanda og í báðum tilvikum málskostnaðar úr hendi hans.

I

Með farmbréfi útgefnu 3. febrúar 2000 tók stefndi að sér fyrir Samherja hf. að flytja 23 bretti, 4.858 kassa, 21.752 kg. brúttó, af kavíar í 40 feta gámi, SANU 500511-2, með m/s Arnarfelli frá Reykjavík til Rotterdam og átti síðan að flytja gáminn áfram til Le Havre í Frakklandi.  Samkvæmt farmbréfinu skyldi flytja kavíarinn við 0° C.  Frá Akureyri til Reykjavíkur var varningurinn fluttur í tvennu lagi með kælibifreiðum og samkvæmt afgreiðsluseðlum var honum komið í vörslu stefnda 3. febrúar 2000.  Starfsmenn stefnda sáu um að raða brettunum í framangreindan gám sem var tengdur rafkerfi m/s Arnarfells og skráður í eftirlitskerfi þess að morgni 4. febrúar.  Skipið kom til Rotterdam 8. febrúar 2000 og samkvæmt vætti yfirstýri­mannsins Steins Ó. Sveinssonar var farminum landað síðla það kvöld eða um nóttina.

Frammi liggur yfirlýsing Wim van der Aa, starfsmanns stefnda í Rotterdam, dags. 13. júní 2000, um að þann 10. febrúar 2000 hafi hann símað til E. Eylands, starfsmanns Samherja hf., og tilkynnt honum að í gámnum SANU 500511-2, sem innihélt farm af kavíar sem komið hafði með m/s Arnarfelli, hafi hitastig loftsins sem kom út úr gáminum (átt er við loft sem leiðir frá vöru að kælielimenti – innskot dómsins), svokallaðs útlofts (return air) verið 13 stig á Celsíus og að hitastigs­skráningartæki gámsins hafi ekki verið virkt.  Sama dag hafi Smith-Holland gert við bilunina og tilkynnt að gámurinn væri í lagi.  Þann 11. hafi skoðunarmenn trygginga­félaga beggja aðila athugað innihald gámsins og farmurinn reynst vera í lagi.

Einar Eyland, sölustjóri hjá Samherja hf., staðfesti fyrir dóminum það sem að framan greinir um símtal Wim van der Aa.  Kvað hann það hafa verið að morgni þess 10. febrúar.  Hann kvaðst lengi hafa haft samstarf við Wim van der Aa sem sæi um dreifingu inn á Frakkland.  Wim hafi lýst því að þetta hafi komið í ljós við venju­bundið eftirlit þegar gámur hafi verið kominn í vöruskemmu, lofthiti hafi verið 13° C og að hann  hefði ekki hugmynd um  hve lengi gámurinn hefði verið bilaður.  Varan hafði verið framleidd fyrir stórmarkaðinn eða verslanakeðjuna E. Leclerc í Frakklandi undir vörumerki þeirra, LA ROUNDE DES MERS.  Kavíarinn, sem ýmist var svartlitaður eða rauðlitaður, var í glerkrukkum, 50 – 100 gr. í hverri.  Nafn viðtakanda var skráð á merkimiða glasanna svo og innihaldslýsing á frönsku.  Síðasti söludagur var skráður 31. júlí 2001.  Einar Eyland bar að E. Leclerc væri mikilvægasti viðskipta­aðili Samherja hf. og í umræddri sendingu hafi verið um 9,5 tonn netto af um 200 tonna viðskiptum á ári.  Hann kvaðst þegar hafa hringt til innkaupastjóra fyrirtækisins og tilkynnt um málið og hefði innkaupastjórinn ákveðið að liðnum tveimur klukku­stundum að hafna vörunni.  Hann kvaðst hafa skilið þá afstöðu enda um mjög viðkvæma vöru að ræða og áhætta ekki takandi á því að hún upplitaðist síðar vegna þess að kæliferill hefði rofnað.  Af sömu ástæðu m.a. hafi endurvinnsla í aðrar umbúðir ekki heldur þótt tæk.  Höfnun hins franska firma var staðfest samdægurs með símbréfi.  Þar segir m.a.:  “Geymsluskilyrði sem skráð eru á gámaeiningarnar og á kassana tilgreina 0-4° C og á heilbrigðisvottorði er þess krafist að geymslu- og flutningsskilyrði séu 0° C.  Það er engin trygging fyrir því að þessi skilyrði hafi verið uppfyllt meðan á flutningi þessa gáms stóð.  Við minnum á að vel getur verið að rof á kælingu hafi ekki beinar (immediate) og sjáanlegar (visible) afleiðingar að því er útlit varðar en leiðir óhjákvæmilega til upplitunar (discoloration) hrognanna eftir nokkurn tíma og fyrir síðasta söludag/neysludag (best before date) sem merktur er á krukkurnar.”

Frammi liggur símbréf fyrirtækisins Smith-Holland, dags. 11. febrúar 2000, til stefnda.  Þar er vísað til þjónustubeiðni sem fyrirtækinu hafi borist 10. febrúar 2000 varðandi gáminn SANU 500511-2.  Er komið var á staðinn hafi “setpoint” verið (þ.e. gámurinn verið stilltur á) 0° C.  Aðloft “supply air” var–30° C (á stafrænum skjá, “digital display”) og “return air” 15° C.  Einingin/tækið hafi á þeim tíma ekki gert annað en að hita.  Fundist hafi brotinn/ónýtur nemi fyrir aðleitt loft (supply air sensor (–30° C í stað + 15° C).  Skipt hafi verið um þennan brotna hitanema og starfi einingin/tækið nú eðlilega.  Eftir klukkustund hafi aðleitt loft (innloft, “supply air”) reynst vera 0° C og útloft 2° C.  Einnig hafi komið í ljós að síritabúnaðurinn hefði fest og brotnað og hafi nýr verið settur í staðinn.  Engin skráning hafi verið á sírita­spjaldinu (“partlow chart”) áður en viðgerðin fór fram.

Samherji hf. sendi stefnda tölvuskeyti 10. febrúar 2000, en efni þess var ítrekað með bréfi 15. s.m., þar sem segir að hitastig í kæligámi með kavíar til Frakklands hafi verið orðið 14° C við komuna til Evrópu og geti varan ekki farið til viðskiptavinar.  Samherji hf. muni framleiða kavíarinn aftur og lýsi ábyrgð á tjóninu á hendur stefnda.

Stefnandi fékk tjónaskoðunarfélagið John Hudig & Son, og stefndi félagið Marine  Survey Bureau H.A. van Ameyde B.V. til að kanna ætlað tjón á farminum.  Skýrslur þeirra um skoðunina, sem þeir framkvæmdu sameiginlega þ. 11. febrúar 2000, liggja frammi.  Skýrslurnar eru í öllum meginatriðum samhljóða um allt það sem hér skiptir máli eins og frá verður greint.  Ekki var að sjá að neitt væri í ólagi inni í gámnum eða á  umbúðunum en 24 glerkrukkum var pakkað saman í pappakassa og allur umbúnaður við hæfi.  Málmlok glasanna voru innsigluð með poyethylene límbandi.  Í skýrslu John Hudig & Son segir að teknir hafi verið allmargir kassar sem hafi verið komið fyrir samsíða dyrunum og allmargar krukkur opnaðar.  Hitinn í kavíarnum (hrognunum) hafi verið mældur og hitinn í vörunni hið innra (pulp temperature) reynst vera 2° C.  Í skýrslu Marine Survey Bureau segir hið sama um mælt hitastig.  Skýrslunum ber saman um það að ekki hafi orðið vart við neina óeðlilega/frábrugðna lykt né heldur litbreytingar á kavíarnum (hrognunum).  Í því skyni að ganga úr skugga um hvort kavíarinn hefði skemmst /orðið fyrir tjóni eða ekki tóku skoðunarmenn tilhlýðilegan fjölda dæmigerðra sýnishorna af báðum tegundum kavíarsins (hrognanna).

Sýnishornin voru afhent efnarannsóknastofu “Dr. A. Verway” til þess að meta örveruinnihald (gerlatalningu “plate count”) og ástand kavíarsins.  Í vottorði rannsóknastofunnar, dags. 14. febrúar 2000 sem var kunngerð daginn eftir, segir um niðurstöður rannsókna að öll sýnishorn hafi verið eðlileg varðandi lykt, bragð og lit og gerlafjöldi við 30°C (ISO 4833) sé 590/gr. á rauðum hrognum en 1540/gr. á svörtum.  Um niðurstöður gerlatalningar vörunnar segir í símbréfi John Hudig & Son til stefnanda 15. febrúar 2000 að þær muni vera innan venjulegra marka varðandi þessa tegund fiskafurðar.

Í bréfi Marine Survey Bureau 2. mars 2000 til John Hudig & Son eru sett fram andmæli gegn þeirri fyrirætlun farmsamningshafa að eyða farminum þar sem  prófanir sýni að hann sé í góðu ástandi.

Í símbréfi Marine Survey Bureau 10. mars 2000 til John Hudig & Son segir að síritaspjald kæligámsins sé í vörslu félagsins og fylgi bréfinu en ekkert hitastig sé skráð á hann þar sem skrifari kælieiningarinnar hafi ekki starfað sem skyldi.  Þetta sé þó upphaflegi diskurinn (spjaldið) eins og staðfest sé með stimpli aftan á honum.  Þá segir að frá stefnda í máli þessu hafi verið fengin hitastigsskrá skipsins sem fengin hafi verið með daglegri skráningu (tvisvar á dag) hitastigs sem lesið hafi verið af gáminum (þ.e.a.s. á skjá/”digital display”).  Skráin, sem sýni skjáaflesturinn 0°C alla  ferðina, er einnig látin fylgja bréfinu.

Í framlagðri skoðunarskýrslu John Hudig & Son, dags. 20. desember 2000, segir að félaginu hafi þ. 23. mars 2000 verið falið að eyða farminum á sem ódýrastan hátt.  Farminum hafi síðan verið eytt 1. maí 2000.

Þann 29. mars 2000 fékk Samherji hf. greiðslu samkomulagsbóta að upphæð 7.792.002 krónur frá stefnanda máls þessa og afsalaði jafnframt til hans öllum endurgreiðslum eða kröfum á hendur þriðja aðila vegna tjónsins.

Með bréfi stefnanda til stefnda 17. apríl 2000 var krafist endurgreiðslu framangreindrar bótafjárhæðar.  Kröfunni var hafnað 19. s.m.

II

Stefnandi vísar til þess að hann hafi vátryggt kavíar þann sem stefndi flutti til Hollands í febrúar 2000 og greitt 8.533.088 krónur vegna tjónsins.  Hann byggir rétt til endurkröfu á 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Hann byggir kröfu sína á hendur stefnda einnig á almennu skaðabótareglunni utan samninga.  Sú fjárhæð, 7.792.002 krónur, sem stefnandi greiddi Samherja hf. fól í sé verðgildi sendingarinnar, 7.083.655 krónur, að viðbættum 10%.  Dómkrafa stefnanda, 7.824.741 króna, er þannig sundur­liðuð að 7.083.655 krónur samsvara verðgildi varningsins, 392.832 krónur eru vegna geymslugjalds sem stefnandi greiddi og 348.254 krónur eru vegna kostnaðar sem stefnandi greiddi við förgun sendingarinnar.

Stefnandi kveður stefnda bera sem farmflytjanda ábyrgð á tjóni sínu, sbr. 21. gr. og 1. mgr. 68. gr. siglingalaga nr. 34/1985.

Stefndi hafi tekið að sér að flytja kavíarinn við 0° C en hann hafi haft átján mánaða geymsluþol við 0-4° C.  Stefndi hafi ekki staðið við það loforð.  Afleiðing þeirrar vanefnda hafi verið að kæliferill hinnar viðkvæmu vöru hafi verið rofinn og þar með hafi ekki lengur verið forsendur til að setja vöruna á markað því að ekki hafi lengur verið hægt að ábyrgjast geymsluþol hennar.  Kavíarinn hafi verið framleiddur fyrir verslunarkeðjuna E.  Leclerc í Frakklandi, undir vörumerki þeirra, La Ronde des Mers, og verulegir viðskiptahagsmunir í húfi.  Framleiðandinn hafi kannað það ítar­lega hvort forsendur væru fyrir því að endurvinna kavíarinn og selja á ný og reyna þannig að draga úr tjóninu en niðurstaða orðið sú að það væri ekki réttlætanlegt.  Því hafi ekki verið um annað að ræða en að farga öllum kavíarnum sem var í gámnum.

Stefnandi kveður stefnda ekki hafa lagt fram nein gögn sem sýni að umsamið hitastig hafi nokkurn tíma verið á kavíarnum frá því honum var hlaðið í gáminn af starfsmönnum stefnda og þar til tilkynning frá starfsmanni stefnda barst Samherja hf. 10. febrúar 2000.  Í því efni vísar stefnandi einkum til þess annars vegar að óumdeilt sé að síritaspjald það, sem ætlað var að mæla hitastig í gámnum, virkaði aldrei og hins vegar þess að sú fullyrðing stefnda sem felist í upplýsingum á hitastigsskrá, að enginn þeirra 36 gáma sem á honum er, hafi sýnt frávik frá umsömdu flutningshitastigi  á 5 daga siglingu bendi eindregið til þess að ekki hafi verið lesið af hitamæli á allri siglingunni og hið sama gildi um það að stefndi hafi ekki látið af hendi aflestrarblöð sem nota átti í ferð skipsins.

Starfsmenn stefnda hafi hvorki áður né eftir að hafa hlaðið í gáminn í Reykja­vík gengið úr skugga um hvort síritaspjald gámsins virkaði eðlilega svo og stafrænn hitamælir.  Hefðu þeir gert það hefði þeim orðið það ljóst að síritaspjaldið virkaði ekki og hitamælirinn sýndi hærri hita en flutningsfyrirmælin gerðu ráð fyrir.  Stefnandi telur því ljóst að gámurinn hafi verið óhaffær við upphaf ferðar og tjónið bein afleiðing af þeirri staðreynd en á því beri stefndi ótvírætt ábyrgð samkvæmt siglingalögum.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefndi beri ekki ábyrgð á tjóninu á grundvelli 68. gr. siglingalaga telur stefnandi að það tómlæti stefnda að leggja ekki fram gögn sem sýni að umsömdu flutningshitastigi hafi verið haldið hafi bakað honum skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda á grundvelli almennu skaðabótareglunnar utan samninga.  Um það er bent á að stefnda sé fullkunnugt að stefnandi beri ekki að bæta farmtjón á kælivöru þegar tjónið verði rakið til fráviks frá umsömdu flutningshitastigi nema frávikið standi í 24 klst. eða lengur.

III

Af hálfu stefnda er á því byggt að sönnunarbyrðin um það að umræddur farmur hafi skemmst meðan hann var í vörslum stefnda hvíli á stefnanda.  Aldrei hafi annað komið í ljós um ástand farmsins en að hann væri í góðu lagi, algerlega óskemmdur og allur til staðar í umræddum gámi í Rotterdam.  Skjalleg samtímagögn hafi verið lögð fram um fullnægjandi ástand gámsins við lestun í Reykjavík og fullnægjandi hitastig samkvæmt ákvæðum farmskírteinisins á leiðinni frá Reykjavík til Rotterdam.  Bilun skynjarans og skráningarbúnaðarins á gámunum, sem hafi komið í ljós og verið snarlega gert við samdægurs í Rotterdam þ. 10. febrúar 2000, hafi hvorki valdið skemmdum á farminum né valdið stefnanda fjárhagslegu tjóni á annan hátt.

Allt hugsanlegt tjón stefnanda sé til komið vegna þeirrar aðgerðar Samherja hf. að leysa móttakanda farmsins undan  móttökuskyldu  og kaupum á farminum áður en niðurstöður skoðunarmanna um ástand farmsins lágu fyrir svo og vegna eyðingar stefnanda sjálfs á farminum í framhaldi af því.

Öll tiltæk gögn, sem sýni umsamið flutningshitastig, hafi verið afhent skoðunar­mönnum stefnanda strax og tilefni gafst.

Þá er á því byggt að hálfu stefnda að jafnvel þótt stefnandi teldist hafa orðið fyrir tjóni sem tengdist flutningi farmsins bæri að sýkna stefnda á grundvelli 4. mgr. 68. gr. laga nr. 34/1985 þar sem það falli undir yfirsjón eða vanrækslu gagnvart lágmörkun tjónsins að semja við farmsamningshafa á þann hátt og á þeim tíma sem gert var.

Að lokum er því mótmælt að stefndi eða starfsmenn hans hafi aðhafst eða látið eitthvað ógert sem réttlæti skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda á grundvelli almennu skaðabótareglunnar.

Varakrafa stefnda er reist á eigin sök stefnanda og því að stefndi verði ekki gerður ábyrgur fyrir afleiddu tjóni stefnanda.  Þá er vísað til þess að lækka beri dómkröfuna þar sem ekkert mat hafi farið fram á markaðsvirði vörunnar.

IV

Skoðun og rannsókn farmsins leiddi ekki í ljós skemmdir eftir því sem fram er komið.

Alkunna má telja að varningur sá, sem um ræðir í  málinu, er viðkvæm kælivara í þeim skilningi að forðast beri rof á kæliferli.  Undir rekstri málsins, 2. nóvember 2001, var dr. Kristberg Kristbergsson, dósent í matvælavinnslu og –tækni í Háskóla Íslands dómkvaddur til að láta í té skriflegt og rökstutt álit á eftirfarandi spurningum: 

“1.  Hafi hitastig í því lofti, sem lék um kavíarinn í umræddri sendingu, á einhverjum tímapunkti náð 14°C er þá ástæða til að ætla að geymsluþol kavíarsins geti verið skert?

2.  Er ástæða til að ætla að skemmdir á kavíarnum, sem slík hitahækkun kann að valda, komi strax/fljótlega fram eftir að hitastigið hefur hækkað eða geta þær komið fram síðar?  Eins og áður sagði átti geymsluþol vörunnar að vera 18 mánuðir.”

Niðurstaða faglegs mats, dags. 10. janúar 2002, sem dr. Kristberg Kristbergs­son staðfesti fyrir dóminum, er sú að báðum spurningum verði að svara játandi, eða eins og nánar greinir:  “Ef hitastig í því lofti sem lék um kavíarinn í umræddri sendingu hafi á einhverjum tímapunkti náð 13°C þá er ástæða til að ætla að það valdi nægilegum hitabreytingum í kavíarnum til að ætla að geymsluþol kavíarsins geti verið skert.  Í öðru lagi er líklegt að slíkar breytingar kæmu fram síðar þó vissulega sé ekki hægt að fullyrða slíkt.  Vegna þess hve flókin efnasamsetning er í þessu tilfelli er ógerlegt að fullyrða um hvað hefði hugsanlega getað gerst nema með því að fram­kvæma all umfangsmiklar rannsóknir.  Það er hins vegar alveg ljóst að ef einhverjum þætti sem ætlaður er til að tryggja geymsluþol í svokölluðum kælivörum er breytt umtalsvert að þá hefur forsendan  fyrir geymsluþolinu brostið.”

Innst í frysti- og kæligámi er komið fyrir frysti”elementi” sem kælir loft í ákveðið hitastig.  Eftir hringrás frá “elementinu” (aðleitt loft “supply air”) um varninginn skilar það sér að “elementinu” ( útloft “return air”) og þar er skynjari sem metur hitastig og skráir á síritaspjald.  Síritinn er utanáliggjandi búnaður með glugga til aflesturs af síritaspjaldinu. 

Fram er komið að síritaspjald gámsins var alautt, þ.e. án allra skráninga.  Að auki var á umræddum gámi skjár með stafrænni birtingu hitastigs.  Frammi liggur hitastigsskrá m/s Arnarfells vegna umræddrar ferðar sem sýnir ávallt 0°C að því er tekur til þess gáms sem hér um ræðir kl. 09.00 og 20.00 daglega, í fyrsta sinn kl. 09.00 þ. 4. febrúar og síðast  kl. 20.00 þ. 8. febrúar.  Yfirstýrimaður m/s Arnarfells í ferðinni, Steinn Ó. Sveinsson, bar sem vitni fyrir dóminum að hásetar hefðu fengið aflestrargögn sem þeir hafi útfyllt eftir aflestur af gámunum og afhent sér að því loknu.  Hann hafi síðan fært jafnóðum inn á tölvu eftir aflestrarblöðunum og væri hitastigsskráin útprentun tölvufærslnanna.  Hann kvað hafa verið búið að fleygja frumaflestrargögnum áður en um þau var beðið. Hann kvaðst muna að háseti hefði sagt sér að ekki væri í lagi með síritann í umræddum gámi og hafi armur, sem ritar á spjaldið, verið brotinn af.  Ekki hafi verið hægt að gera við þetta um borð vegna þess að varahluti vantaði.  Hann kvað starfsmenn stefnda í Reykjavík tengja gáma og sá, sem lesti gám, eigi að kanna hvort síritaspjald (síritabúnaður) virki.  Sé svo ekki eigi að gera við. 

Steinn Ó. Sveinsson skýrði ennfremur svo frá að gámur eins og hér um ræðir (sem stilltur er á 0°C –innskot dómsins) færi ekki á afhrímingu.  Tekið skal hér fram að hinir sérfróðu meðdómsmenn telja framlagða hitastigsskrá ekki verða metna ótrúverðuga. 

Samkvæmt skoðunargerð (Pre-Trip Inspection) á umræddum frystigámi 18. janúar 2000 var hann að öllu leyti í lagi, þ.m.t. vélbúnaður, kælikerfi og skráningar­búnaður.  Jón Ragnarsson, starfsmaður stefnda sem annaðist skoðunina og skráði niðurstöður hennar, staðfesti hana fyrir dóminum.  Hann bar jafnframt að starfsmenn stefnda eigi við hleðslu í gám að kanna hvort síritaspjald og stafrænn hitamælir virki og skrá á síritaspjaldið m.a. gámanúmer, hitastig (sem stillt er á), ferðanúmer og lestunar- og losunarhöfn.  Þetta er í samræmi við leiðbeiningarreglur Hf. Eimskipa­félags Íslands um meðferð frystigáma og almennt viðurkennd vinnubrögð sem hinum sérfróðu meðdómendum eru kunn.  Stefndi varð hins vegar ekki við áskorun stefnanda um að leggja fram “þær starfsreglur, ef til eru, sem starfsmenn hans eiga að vinna eftir við eftirlit, hleðslu og frágang á frysti- og kæligámum sem lesta á um borð í skip stefnda.”   Jón Ragnarsson kvað frystigáma ekki vera flutta um borð, komi í ljós að síritaspjald og digitalmælir virki ekki, fyrr en gert hafi verið við.  Hann kvað samsvar­andi eftirlit fara fram, skráningu hitatalna og þ.h., eftir uppskipun.

Upphaf málsins verður rakið til þess að fulltrúi Samherja hf., sem fékk skilaboð frá fulltrúa stefnda í Rotterdam um að hitastigið 13°C hefði mælst og ekki væri hægt að segja til um hve lengi það hefði varað með hliðsjón af því að ekki hefði verið skráð á síritaspjald gámsins, kom þessum skilaboðum áfram til kaupanda vörunnar áður en skoðun hafði farið fram á gámi og vöru af viðurkenndum skoðunar­mönnum.  Kaupandinn hafnaði samdægurs móttöku vörunnar þar sem 18 mánaða geymsluþol hennar krefðist stöðugs hitastig 0-4°C.  Hér væri því um frábrigði að ræða sem réttlætti höfnun á móttöku farmsins.

Vegna vöntunar á síritaskráningu skortir upplýsingar um hitastig á tímabilum fyrir lestun og eftir uppskipun, þ.á.m. að því leyti sem hér skiptir mestu, þ.e. frá kl. 20.00 þ. 8. febrúar fram á morgun þ. 10. s.m.  Athygli vekur að ekki var gert við það sem aflaga hafði farið eftir að til Rotterdam var komið en borið var við skorti á varahlutum um borð í m/s Arnarfelli er bilunin kom í ljós á leiðinni.  Af framansögðu leiddi að nauðsynleg gögn skorti því til sönnunar að stefndi hefði efnt skyldu sína um flutning við umsamið hitastig.  Varningurinn varð við það ósöluhæfur og ekki verður dregið í efa að endurvinnsla kavíarsins í aðrar umbúðir eftir að kaupandinn E. Leclerc hafði rift kaupin hafi verið óraunhæfur kostur.  Þetta jafngildir því fyllilega að farmurinn hafi skemmst algerlega eða glatast, sbr. 1. mgr. 68. gr. siglingalaga nr. 34/1985. 

Tjón stefnanda (Samherja hf.) varð vegna þess að gámurinn, sem stefndi lagði til við flutning á kavíar (grásleppuhrognum) fyrir Samherja hf., var við upphaf ferðar ekki farmhæfur þar sem síritahitaskráningartæki gámsins starfaði ekki og af því leiddi  að ekki var unnt að sýna fram á að umsömdu hitastigi hefði verið haldið á gámnum.  Þetta varð fyrir vanrækslu starfsmanna stefnda.  Stefndi ber því ábyrgð á tjóninu  samkvæmt 1. mgr. 68. gr. siglingalaga.

Verðgildi varningsins, sbr. 1. mgr. 70. gr. siglingalaga, er réttilega fundið sem fjárhæð vörureikningsins og mats var ekki þörf.  Kröfuliðir stefnanda vegna afleidds tjóns, sem lúta að endurgreiðslu kostnaðar við geymslu og förgun varningsins, eru studdir fullnægjandi gögnum og er fallist á þá með vísun til þess, sem segir í 1. mgr. 68. gr. siglingalaga, að farmflytjanda beri “að bæta tjón sem af því hlýst” og þeirrar meginreglu að tjónþoli skuli svo settur sem tjónsatburð hafi eigi að höndum borið.  Eigi er fallist á að sýkna beri stefnda eða lækka bætur vegna ætlaðrar sakar stefnanda, yfirsjónar eða vanrækslu enda var riftun kaupandans réttmæt og samþykki Samherja hf. við henni eðlileg og er ekki heldur á annan hátt sýnt fram á sök af hálfu stefnanda eða þess sem hann leiðir rétt sinn frá.

Niðurstaða málsins er samkvæmt þessu sú að dæma beri stefnda til að greiða stefnanda 7.824.741 (7.083.655+ 392.832 + 348.254) krónu með vöxtum sem greinir í dómsorði.  Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.

Mál þetta dæma Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari og meðdómendurnir Ásgeir Guðnason, vélfræðingur og kennari við Vélskóla Íslands, og Jón B. Hafsteins­son skipaverkfræðingur.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Samskip hf., greiði stefnanda, Tryggingamiðstöðinni hf., 7.824.741 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 7. febrúar 2001 til 1. júlí s.á. en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.