Hæstiréttur íslands

Mál nr. 445/2004


Lykilorð

  • Akstur sviptur ökurétti
  • Hraðakstur


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. mars 2005.

Nr. 445/2004.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Valentínusi Guðmundi Baldvinssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Akstur án ökuréttar. Hraðakstur.

V var gefið að sök hraðakstur og að hafa ekið sviptur ökurétti. V neitaði fyrri sakargiftunum en viðurkenndi þær síðari. Hélt hann því fram að við hraðamælinguna hefði ekki verið farið eftir verklagsreglum ríkislögreglustjóra um hraðamælingar með ratsjá. Talið var að ekkert hefði komið fram sem rýrði sönnunargildi mælingarinnar og var V því sakfelldur fyrir brotið. Með vísan til sakaferils hans og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 var V gert að sæta fangelsi í fimm mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. nóvember 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að  héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst aðallega sýknu af sakargiftum um hraðakstur og mildunar refsingar vegna aksturs sviptur ökurétti en til vara að refsing vegna beggja brotanna verði milduð.

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi ók ákærði bifreiðinni MR 627 austur Álfhólsveg í Kópavogi, á vegarkafla við hús nr. 20 a, að morgni 24. maí 2004. Mældi lögregla ökuhraða bifreiðarinnar þar klukkan 10.41 með ratsjá, sem sýndi 60 km á klukkustund. Er ákærða gefið að sök að hafa á áðurnefndum vegarkafla ekið með 57 km hraða á klukkustund að teknu tilliti til vikmarka, en þar var leyfður hámarkshraði 30 km á klukkustund. Ákærði neitar þessum sakargiftum en viðurkennir að hafa ekið sviptur ökurétti umrætt sinn. Hann reisir sýknukröfu sína varðandi hraðaksturinn meðal annars á því að við radarmælinguna hafi ekki verið farið eftir 6. gr. verklagsreglna ríkislögreglustjóra um hraðamælingar með ratsjá. Í henni segir að við upphaf og lok hraðamælinga skuli ávallt prófa ratsjá samkvæmt fyrirmælum framleiðanda. Standi hraðamæling lengur yfir en eina klukkustund í senn skuli prófa ratsjá á klukkustundar fresti. Af gögnum málsins er ljóst að lögreglumennirnir sem stóðu að hraðamælingunni prófuðu ratsjána með hefðbundnum hætti í samræmi við áðurnefnd fyrirmæli og verklagsreglur, bæði fyrir mælinguna og á ný áður en þeir héldu áfram mælingum síðar um daginn. Ekkert er fram komið í málinu sem rýrir sönnunargildi þessarar hraðamælingar. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða.

Á árunum 1981 og 1983 hlaut ákærði þrívegis refsingu fyrir akstur án ökuréttar. Í október 1992 gekkst hann undir sátt með greiðslu sektar fyrir slíkt brot. Í febrúar 1994 var hann dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir sams konar brot. Með dómi Hæstaréttar 2. júní 1994 var hann dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir akstur án ökuréttar og ölvun við akstur auk brota gegn áfengislögum en var jafnframt sviptur ökurétti ævilangt frá 28. janúar sama ár. Þá var hann dæmdur í október 1997 í tveggja mánaða fangelsi fyrir akstur án ökuréttar. Næst var hann dæmdur fyrir slíkt brot í apríl 1999 í fjögurra mánaða fangelsi og loks í fimm mánaða fangelsi með dómi Hæstaréttar 14. september 2000. Með þeim dómi var hann jafnframt sakfelldur fyrir ölvun við akstur, brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum. Voru þá liðin rúm sex ár frá því hann var síðast dæmdur fyrir ölvun við akstur. Má því miða við að refsing fyrir það brot eitt og sér hefði ekki orðið þyngri en sekt. Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til þessa sakaferils og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði, en ekki kemur til álita að dæma ákærða jafnframt til greiðslu sektar.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins í héraði og áfrýjunarkostnað þess, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, samtals 200.000 krónur.

Dómsorð:

Ákærði, Valentínus Guðmundur Baldvinsson, sæti fangelsi í fimm mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og áfrýjunarkostnað þess, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, samtals 200.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 14. október 2004.

          Mál þetta, sem dómtekið var 24. september síðastliðinn, er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Kópavogi 18. júní 2004 á hendur Valentínusi Guðmundi Baldvinssyni, kt. 160360-5699, Njálsgötu 86, Reykjavík, „fyrir umferðar­lagabrot, með því að hafa að morgni mánudagsins 24. maí 2004, ekið bifreiðinni MR-627, sviptur ökurétti, austur Álfhólsveg í Kópavogi, með 57 kílómetra hraða miðað við klukkustund, eftir vegarkafla við hús nr. 20a, þar sem leyfilegur hámarkshraði er 30 kílómetrar á klukkustund.

             Telst þetta varða við 1. sbr. 4. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 100 gr. umferðarlaga nr. 50,1987, sbr. lög nr. 82, 1998 og 57,1997.

             Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”

 

             Ákærði viðurkennir að hafa ekið í umrætt sinn austur Álfhólsveg í Kópavogi án ökuréttinda, en neitar að hafa ekið á 57 kílómetra hraða miðað við klukkustund eins og honum er gefið að sök í ákæruskjali.

Verjandi ákærða gerir þær kröfur að ákærða verði gerð vægasta refsing sem lög heimila vegna brots gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga og sýknu af kröfum ákæruvaldsins vegna brots gegn 1. sbr. 4. mgr. 37. gr. umferðarlaga. Einnig krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins sem greidd verði úr ríkissjóði.

Málsatvik og sönnunargögn.

             Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar sem gerð var 24. maí 2004, klukkan 19:07 af Jóhanni Birni Skúlasyni, lögreglumanni, var lögreglan að aka Álfhólsveg til vesturs klukkan 10:41 þennan sama morgun þegar þeir mældu hraða bifreiðarinnar MR-627, sem var ekið úr gagnstæðri átt.

             Hraði ökutækisins mældist 60 km/klst., en á þessum vegarkafla er leyfður hámarkshraði 30 km/klst.

             Lögreglan snéri samstundis við og veitti bifreiðinni eftirför og gaf ökumanni merki um að stöðva aksturinn. Ökumaður ók á talsverðum hraða suður Meltröð. Ljóst var að mati lögreglunnar að ökumaður hyggðist komast undan.

             Ók ökumaður austur Digranesveg og beygði norður Bröttubrekku á miklum hraða.

             Þegar lögreglan ók inn Bröttubrekku sá hún hvar bifreiðinni var ekið inn Víghólastíg til hægri á það miklum hraða að eftir verða hemlaför á götunni. Þar var ökumaðurinn búinn að leggja bifreiðinni í bifreiðastæði við hús nr. 15a og sá lögreglan ökumann fara út úr bifreiðinni og hlaupa meðfram húsinu til norðurs.

             Veitti lögreglan ökumanni eftirför og bað hann að stöðva. Fór lögreglan eftir ökumanninum gegnum garðinn og einnig gegnum garð við Bjarnhólastíg 18, en á götunni fyrir framan húsið féll hann niður. Lögreglan handtók ökumanninn þar klukkan 10:45 grunaðan um ölvun við akstur, þar sem það fannst áfengislykt frá vitum hans. Reyndist ökumaður vera ákærði í máli þessu.

             Var ákærði fluttur á lögreglustöð til yfirheyrslu. Í lögreglubifreiðinni á leið á lögreglustöð við Hverfisgötu var ökumanni kynnt sakarefnið að hafa ekið yfir hámarks­hraða sem og að hlýta ekki stöðvunarmerkjum lögreglu.

             Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa vitað hver hámarkshraðinn væri á vegar­kaflanum en haldið að hann væri 50 km/klst. Ennfremur kom fram að ákærði kvaðst ekki hafa verið að fylgjast með hraðamæli bifreiðarinnar og gerði því ekki athuga­semd við mælinguna.

             Fyrir dómi viðurkenndi ákærði akstur sviptur ökuréttindum. Á hinn bóginn kvaðst hann neita því að hafa ekið á 57 km hraða miðað við klukkustund. Hann kvaðst nýlega hafa ekið yfir hraðahrindun og ógerlegt hafi verið að ná hraða bifreiðarinnar upp í þann hraða sem hann er sagður hafa ekið á á svo stuttum vegarspotta. Það sé enn ólíklegra þar sem hann hafi einnig verið með þungan farm í bílnum og vél bif­reiðarinnar væri ekki kraftmikil. Aðspurður kvaðst ákærði ekki geta sagt til um það á hvaða hraða hann hafi ekið í umrætt sinn. Ennfremur kvaðst hann ekki minnast þess að aðrar bifreiðar hafi ekið í sömu akstursstefnu og hann þegar mæling lögreglunnar fór fram.

             Þá byggðust varnir ákærða á þeirri málsástæðu að prófun ratsjártækisins eftir hraðamælingu hafi ekki farið eftir ákvæðum 6. og 10. gr. verklagsreglna ríkis­lögreglustjóra frá 30. september 2002.  Í 6. gr. sé mælt fyrir um að við upphaf og lok hraðamælinga skuli ávallt prófa ratsjá samkvæmt fyrirmælum framleiðanda. Standi hraðamæling lengur yfir en 1 klst. í senn skuli prófa ratsjá á klukkustundar fresti. Í máli þessu hafi ratsjáin verið prófuð fyrir mælingu klukkan 10:25 og eftir mælingu kl. 13:11. Hraðamæling fór fram klukkan 10:41. Í máli þessu líði því lengri tími á milli þess sem tækið er prófað en fyrir er um mælt í 6. gr. verklagsreglna ríkislögreglustjóra. Verði því ekki með óyggjandi hætti hægt að leggja til grundvallar að tækið hafi verið í lagi þegar mæling fór fram. Í öðru lagi er sýkna byggð á þeirri málsástæðu að lögreglan í Kópavogi hafi ekki haldið akstursdagbók og því ekki gætt ákvæða 10. gr. sömu verklagsreglna.

             Af hálfu sækjanda er á því byggt að 6. gr. verklagsreglna ríkislögreglustjóra sé sérregla sem ríkislögreglustjóri hafi sett og sé þrengri en ákvæði handbókar sem fylgi viðkomandi ratsjá sem sé af gerðinni Kustom varðandi prófun tækisins. Á blaðsíðu 8 í viðkomandi handbók segir um prófun tækisins: „For the purpose of assuring accuracy and functionality, we recommend the circuit test, lamp test, and the complete tuning fork test be conducted at the beginning and end of each patrol shift. Record the results in a radar log, such as the one shown at the rear of this manual. If the unit fails any of these tests, it shoud be removed from service immediately and taken to an authorized service center for repair.”

             Af hálfu sækjanda er á það bent að samkvæmt handbók um notkun ratstjárinnar sé gert ráð fyrir því að ratsjáin sé prófuð á klukkustundar fresti þegar verið sé að vinna með hana, en ekki einungis við upphafi og lok vaktar eins og mælt sé fyrir um í handbókinni. Með því að prófa tækið oftar sé verið að takmarka tjónið reynist tækið bilað, þannig að heilt dagsverk fari ekki í súginn. Það að prófun á ratsjánni hafi ekki farið fram áður en klukkustund leið frá því að hraðamæling átti sér stað á sér eðlilegar skýringar. Hér hafi verið um óvanlegt mál að ræða. Veita þurfti ákærða eftirför bæði á bíl og hlaupandi. Þá hafi ákærði verið grunaður um ölvun við akstur sem hafi leitt til þess að hann var handtekinn og færður á lögreglustöð og síðan færður til blóðsýnatöku til rannsóknar á alkóhólmagni í blóði ákærða. Allt þetta hafi tekið sinn tíma sem skýri af hverju prófun á ratsjánni hafi ekki farið fram innan klukku­stundar frá því að hraðamæling átti sér stað. Á hinn bóginn er á það að líta að tækið var í lagi þegar prófun var gerð klukkan 13:11. Það sé því ekkert sem bendi til þess að það hafi ekki verið í lagi þegar hraðamælingin fór fram. 

             Þá er þeirri málsástæðu algerlega mótmælt af hálfu sækjanda að með því að halda ekki sérstaka dagbók þar sem hraðamælingar eru sérstaklega skráðar eins og tíðkast hefur, þá hafi lögreglan ekki farið að ákvæðum 10. gr. verklagsreglna ríkis­lögreglustjóra frá 30. september 2002. Á því er byggt að lögreglan í Kópavogi fari í einu og öllu eftir ákvæðum 10. gr. verklagsreglnanna. Dagbók sé haldin með hverri ratsjá með þeim hætti sem 10. gr. verklagsreglna ríkislögreglustjóra mæli fyrir um.

Niðurstaða.

             Ákærði hefur játað að hafa ekið austur Álfhólfsveg mánudaginn 24. maí 2004 án ökuréttinda. Er hann fundinn sekur um brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga, en með játningu ákærða, sem samrýmist gögnum málsins, telst sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi að hafa ekið án ökuréttinda umræddan dag og er brot þar rétt heimfært til refsiákvæða.

             Ákærði hefur uppi þá vörn í málinu að hann hafi ekki ekið á eins miklum hraða og honum er gefið að sök í ákæru. Ekki hafi verið færð fram lögfull sönnun fyrir dómi um aksturshraða bifreiðar ákærða þar sem prófun ratsjár eftir hraða­mælingu hafi ekki farið fram með þeim hætti sem kveðið er á um í 6. gr. verklags­reglna ríkislögreglustjóra um hraðamælingar með ratsjá.

             Í umrætt sinn notaði lögreglan ratsjá af gerðinni Kustom KR-005. Samkvæmt handbók um notkun ratsjárinnar, sem er á ensku, er mælt með að prófun fari fram í upphafi og lok vaktar. Er það nokkuð rýmra ákvæði en kemur fram í 6. gr. verklags­reglna ríkislögreglustjóra, en þar er mælt fyrir um að standi hraðamæling lengur yfir en 1 klst. í senn skuli prófa ratsjá á klukkustundar fresti. Í máli þessu hélt lögreglan ekki áfram að standa að hraðamælingum eftir að hraði bifreiðar ákærða var mældur klukkan 10:41, heldur þurfti lögreglan að veita ákærða eftirför. Eftir að ákærði hafði náðst var hann handtekinn vegna gruns um ölvunarakstur og þurfti því að færa ákærða á lögreglustöð til skýrslutöku og töku blóðs til rannsóknar á vínandamagni í blóði ákærða vegna gruns um brot gegn 45. gr. umferðarlaga. Að því búnu hélt lögreglan áfram við hraðamælingar og var þá ratsjáin prófuð á ný og reyndist í lagi. Tilgangur ríkislögreglustjóra að mælast til þess að ratsjá sé mæld á klukkustundar fresti, þegar verið er að vinna við hraðamælingar er sá að bili tækið, þá verði það uppgötvað sem fyrst, þar sem allar mælingar frá síðustu prófun skulu ógiltar. Í máli þessu reyndist tækið í lagi þegar prófun fór að nýju fram klukkan 13:11. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu verjanda að þar sem lengri tími hafi liðið milli prófunar á ratsjá, en kveðið er á um í 6. gr verklagsreglna ríkislögreglustjóra, verði að líta svo á lögfull sönnun hafi ekki verið færð fram fyrir dómi um ökuhraða mældrar bifreiðar.

             Jafnframt er krafist sýknu á þeirri málsástæðu að lögreglan í Kópavogi hafi ekki haldið dagbók eins og 10. gr. verklagsreglna ríkislögreglustjóra frá 30. september 2002 kveði á um.

             Á það verður ekki fallist þar sem sækjandi sýndi dóminum möppu viðkomandi ratsjár, þar sem afrit af lögregluskýrslum um hraðakstur eru varðveittar. Verður ekki annað séð en dagbók fyrir ratsjá sé haldin samkvæmt ákvæðum nefndra reglugerðar  ríkislögreglustjóra.

             Þá var sýkna ennfremur byggð á þeirri málsástæðu að lögreglan hafi ekki læst mældan hraða í ratsjánni í umrætt sinn og því ekki sýnt ákærða mældan hraða á skjá ratsjárinnar.

             Fyrir dómi kvaðst annar lögreglumaðurinn, Daði Gunnarsson, ekki muna hvort mældur hraði hafi verið læstur í umrætt sinn. Hinn lögreglumaðurinn, Jóhann Björn Skúlason, taldi að mældur hraði hafi verið læstur í ratsjá en vildi þó ekki fullyrða það með óyggjandi hætti.

             Báðir lögreglumennirnir hafa sótt námskeið í meðferð ratsjárinnar.

             Eins og fram kemur í 7. gr. verklagsreglna ríkislögreglustjóra skal eftir föngum tryggja sönnur á mældum hraða, meðal annars með því að skrá í vettvangs­skýrslu helstu atriði mælingar, umsögn kærða um ætlað brot og gefa honum kost á að undirrita skýrslu. Það var gert. Ennfremur segir í 7. gr. að heppilegt sé að læsa niðurstöðu mælingar á skjá mælitækis og sýna kærða. Það sé þó ekki skilyrði fyrir gildi hraðamælingar og rýrir ekki gildi hennar, verði því ekki við komið. Vettvangs­skýrslan ber það ekki með sér að ákærða hafi verið sýndur mældur hraði á skjá ratsjárinnar. Hins vegar ber skýrslan með sér að mældur hraði hafi verið 60 km. hraði miðað við klukkustund.

             Ekki verður fullyrt hvort mældur hraði hafi í umrætt sinn verið læstur í ratsjánni og ákærða sýndur mældur hraði. Hins vegar hafa báðir lögreglumennirnir borið fyrir dómi að þeir hafi séð hinn mælda hraða á ratsjárskjánum og annar ber að ákærða hafi verið sýndur mældur hraði. Þá kemur einnig fram í framburði þeirra að ekki hafi verið neinir aðrir bílar á ferðinni á þessum slóðum þegar mæling fór fram. Kemur það og saman við framburð ákærða.

             Þykir dómara að þessu öllu virtu að það sé hafið yfir allan skynsamlega vafa að sakfella beri ákærða fyrir brot gegn 1. sbr. 4. mgr. 37. gr. umferðarlaga.

             Ákærði hefur talsverðan sakarferil sem hófst er á var á 18 aldursári. Eftir að ákærði náði 18 ára aldri hefur hann tólf sinnum gengist undir sátt vegna áfengislaga­brota, umferðarlagabrota, fíkniefnabrota og minniháttar hegningarlagabrota. Hann hlaut fyrst dóm 6. apríl 1981, 30 daga varðhald, skilorðsbundið í tvö ár fyrir nytjastuld og ölvunarakstur og var sviptur ökurétti í 12 mánuði. Ennfremur 29. desember 1981 hlaut hann sektardóm fyrir ýmis umferðalagbrot og var sviptur ökurétti ævilangt.  Hinn 12. desember 1986 var hann dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi í Hæstarétti fyrir þjófnað. Hinn 6. maí 1992 var hann dæmdur í Þýskalandi í tveggja ára fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir fíkniefna- og hegningarlagabrot. Hinn 17. febrúar 1994 var hann dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir umferðarlagabrot. Hinn 2. júní 1994 var hann í Hæstarétti dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir umferðar- og áfengislagabrot og sviptur ökurétti ævilangt. Hinn 31. október 1997 hlaut hann tveggja mánaða fangelsi fyrir sviptingarakstur. Ákærði gekkst undir sektargreiðslu í mars 1998 vegna líkams­árásar. Hinn 6. nóvember 1998 hlaut hann sektardóm fyrir fíkniefnabrot. Hinn 19 apríl 1999 var hann dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir sviptingarakstur. Hinn 29. júní 2000 var hann dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir þjófnað. Þá var hann dæmdur í Hæstarétti 14. september 2000 til fimm mánaða fangelsisvistar fyrir ölvunar- og sviptingarakstur og áréttuð var ævilöng svipting ökur­éttar. Loks hlaut hann dóm 25. júlí 2002 fyrir tilraun til brots, sem varða innflutning og söludreifingu á miklu magni af hassi. Refsing var ákveðin sem hegningarauki við tvo síðustu dóma frá árinu 2000. Hlaut ákærði níu mánaða fangelsi og var fullnustu sex mánaða af refsingunni frestað í þjú ár.

             Við ákvörðun refsingar verður að líta til þessa sakarferils, sbr. að nokkru 5. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en ákærði hefur marg­ítrekað gerst sekur um akstur án ökuréttar. Þykir refsing hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Ennfremur verður ákærða gert að greiða 20.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu en sæta ella fangelsi í 6 daga.

             Loks ber samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar. Er þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðinn 45.000 krónur.

Ólöf Pétursdóttir dómstjóri kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

             Ákærði, Valentínus Guðmundur Baldvinsson, sæti fangelsi í 6 mánuði.

             Ákærði greiði 20.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu, en sæti ella fangelsi í 6 daga.

             Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 45.000 krónur.