Hæstiréttur íslands

Mál nr. 627/2011


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Áfengislagabrot


                                     

Þriðjudaginn 19. júní 2012.

Nr. 627/2011.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

Erik Jensen

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

Ávana- og fíkniefni. Áfengislagabrot.

E var ákærður fyrir áfengis- og fíkniefnalagabrot með því að hafa tekið við samtals 1 kg af amfetamíni og 400 g af hassi og haft í vörslum sínum og selt hluta fíkniefnanna, fyrir að hafa ræktað 24-26 kannabisplöntur sem gáfu af sér 200-300 g af kannabis sem ákærði seldi, fyrir að hafa framleitt 15 lítra af landa sem ákærði seldi og fyrir að hafa haft í vörslum sínum u.þ.b. 114 g af hassi, 1 g af marijúana, 23 g af kannabislaufum, 309 kannabisfræ, 60 g af amfetamíni og 6, 18 g af kókaíni. Með játningu E var hann fundinn sekur um brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 2. gr. sbr. 4., 5., og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni og a- og b- liði 2. mgr. 4. gr., sbr. 2. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að ákærði, sem ekki hafði áður sætt refsingum, hafði játað brot sín greiðlega og sótt fíkniefnameðferð. Vegna alvarleika hinnar refsiverðu háttsemi þótti aftur á móti ekki fært að skilorðsbinda refsingu hans sem var ákveðin fangelsi í 18 mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. nóvember 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, sem gerð var með vísan til a. og b. liðar 196. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Af hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms. 

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð og bundin skilorði.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Erik Jensen, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 283.450 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra mánudaginn 31. október 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 4. október s.l., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 5. júlí 2011, á hendur Erik Jensen, kt. [...], Akureyri, fyrir áfengis- og fíkniefnalagabrot framin á Akureyri svo sem hér greinir:

„1.  Stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa frá árinu 2006 til 20. apríl 2010, tekið við af ónafngreindum manni samtals 1 kg af amfetamíni og 400 gr. af hassi og haft í vörslum sínum og selt hluta fíkniefnanna til ónafngreindra manna.

Telst þetta varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001.

Brot framin á ofangreindu heimili ákærða að[...] nema annað sé tekið fram:

2.  Fíkniefnalagabrot með því að hafa vorið 2009 í frystigámi sem staðsettur var á plani við sláturhús, í sölu- og dreifingarskyni ræktað 24-26 kannabisplöntur sem gáfu af sér 2-300 g af kannabis sem ákærði seldi ónafngreindum mönnum.

Telst þetta varða við 2. gr. sbr. 4., 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

3.  Áfengislagabrot með því að hafa í upphafi ársins 2010 í bragga við hesthús, framleitt 15 lítra af áfengi, landa, sem ákærði seldi ónafngreindum mönnum.

Telst þetta varða við a- og b-liði 2. mgr. 4. gr., sbr. 2. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998.

4.  Fíkniefnalagabrot með því að hafa um nokkurt skeið og fram til 20. apríl 2010 haft í vörslum sínum 7,9 g af hassi sem fannst í hesthúsi og samtals 3,74 g af hassi, 53,1 g af amfetamíni og 6,18 g af kókaíni sem fundust á skrifstofu í sláturhúsi og kjötvinnslu B. Jensen.

5.  Fíkniefnalagabrot með því að hafa á sama tíma og getur i ákærulið 4, haft í vörslum sínum samtals 101,73 g af hassi, 0,9 g af marijúana, 23,3 g af kannabislaufum, 6,6 g af amfetamíni og 309 kannabisfræ sem fundust í frystikistu í þvottahúsi og ferðatösku í bílskúr á heimili foreldra ákærða að Skógarhlíð 21 en þar hafði ákærði komið efnunum fyrir nokkru áður.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni auk 6. gr. að því er varðar önnur efni en amfetamín og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni og auglýsingu nr. 232/2001 að því er varðar vörslur ákærða á kókaíni.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá er þess krafist að framangreind 113,37 g af hassi, 59,7 g af amfetamíni, 6,18 g af kókaíni, 0,9 g af marijúana, 23,3 g af kannabislaufum og 309 kannabisfræ sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.

Jafnframt er með vísan til 7. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, krafist upptöku á eftirtöldum munum sem notaðir höfðu verið eða ætlaðir voru til ólögmætrar ræktunar kannabisjurta og meðferðar fíkniefna og uppsetningar á búnaði til ræktunar fíkniefna, sem lögreglan lagði hald á við rannsókn málsins:

1.   Lampar af gerðinni Gewiss 83, 9 stk.  2.  Lampar af gerðinni Box Lama Q/402-94-CR, 2 stk.  3.  Borðvifta, 2 stk.  4.  Vifta með 15 cm röri, 1 stk.  5.  Lofthreinsarar 2 stk.  6.  Pera 400 W, 1 stk.  7.  Veggvifta, 1 stk.  8.  Fjöltengi, 6 stk.  9.  Hitamælar, 2 stk.  10.  Rakamælir, 1 stk.  11.  Tímarofar, 2 stk.  12.  Þrífossfat, 2 kg.  13.  Græna þruman, blómaáburður, ½ líter.  14.  Plastbalar, 5 stk.

Loks er þess krafist, með vísan til 1. mgr. 28. gr. áfengislaga, að gerð verði upptæk neðangreind áhöld sem með ólögmætum hætti voru notuð eða ætluð voru til notkunar við bruggun eða tilbúning áfengra drykkja og lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

1.  Heimasmíðað eimingartæki, 1 stk.  2.  Kolasía, 1 stk.  3.  Glerkútur, 1 stk.  4.  Áltaska, 1 stk.  5.  Vatnslásar, 7 stk.  6.  Ger, 4 kg.  7.  Fellir, 4 stk.  8.  Áfengismælir, 1 stk.  9.  Hitamælir, 1 stk.  10.  Sykurmælir, 1 stk.“

Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfa.

I.

Samkvæmt gögnum hófst eiginleg rannsókn þessa máls vegna rökstuddra grunsemda lögreglunnar á Akureyri um fíkniefna- og áfengislagabrota ákærða.  Var ákærði handtekinn á heimili sínu 20. apríl 2010, en í framhaldi af því fór fram víðtæka rannsókn á ætluðum brotum ákærða, m.a. með skýrslutökum og húsleitum.  Lagði lögregla hald á þau fíkniefni ásamt þeim tækjum og tólum sem lýst er í ákæru.

Við skýrslutökur lögreglu 21., 24. og 26. apríl nefnt ár greindi ákærði m.a. frá því að hann hefði verið í fjárhagserfiðleikum á árinu 2006 og af þeim sökum fengið töluverða fjármuni að láni hjá ónafngreindum aðilum.  Staðhæfði ákærði að þegar hann hefði ekki getað endurgreitt lánið, hefði hann vegna þvingana nefndra aðila tekið að sér að dreifa þeim fíkniefnum sem lýst er í 1. tl. ákæru.  Ákærði staðhæfði að fíkniefnadreifing hans hefði farið fram í nokkur skipti og þá aðallega á tímabilinu frá árinu 2006 til ársloka 2008.  Ákærði bar að undir lokin hefði fíkniefnaneysla hans verið orðin slík að hann hefði mestmegnis neytt þess efnis sjálfur sem hann fékk til dreifingar.  Hann bar að það hassefni sem lögreglan lagði hald á við rannsókn málsins hefði verið hluti þess efnis sem hann fékk sent á fyrrnefnda tímabilinu, sbr. 1. tl. ákæru. 

Ákærði greindi frá því að hann hefði tekið við til dreifingar um 300 gr. af amfetamíni skömmu áður en hann var handtekinn af lögreglu á vordögum 2010.  Kvaðst hann hafa neytt verulegs hluta af efninu, selt lítinn hluta þess, en lögreglan lagt hald á afganginn. 

Ákærði skýrði frá því að hann hefði hafið ræktun kannabisplantna árið 2009, sbr. 2. tl. og selt afraksturinn.  Að auki kvaðst hann hafa hafið áfengisbruggun nefnt ár og selt það magn sem lýst er í 3. tl. ákæru.  Frásögn ákærða var að öðru leyti í samræmi við það sem fram kemur í ákæruskjali.

II.

Hér fyrir dómi hefur ákærði skýlaust játað sakargiftir samkvæmt ákæruskjali.  Ákærði staðfesti jafnframt efni framangreindra yfirheyrsluskýrslna lögreglu, líkt og hann hafði áður gert við rannsókn málsins.

Mál þetta var rekið með hliðsjón af 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008. 

Þar sem játning ákærða er í samræmi við rannsóknargögn lögreglu þykir nægjanlega sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er réttilega heimfært til refsiákvæða.

III.

Ákærði, sem er fæddur 11. september 1961, hefur samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins ekki áður sætt refsingum.

Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að ákærði hefur m.a. gerst sekur um stórfellt fíkniefnalagabrot, sbr. 1. tl. ákæru,.  Ber af þeim sökum að líta til 1. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.  Til refsilækkunar ber, sbr. m.a. 5. tl. 1. mgr. 70. gr. og 9. tl. 1. mgr. 74. gr. hegningarlaganna, að líta til þess að ákærði hefur við alla meðferð málsins játað brot sín greiðlega og að hann hóf samkvæmt framlögðum vottorðum strax eftir að afskiptum lögreglu lauk í apríl 2010 fíkniefnameðferð, en hann er nú í svokallaðri göngudeildar eftirmeðferð.  Að þessu virtu og með hliðsjón af 77. gr. hegningarlaga þykir refsing ákærða eftir atvikum hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði.  Vegna alvarleika hinnar refsiverðu háttsemi ákærða þykir ekki fært að skilorðsbinda refsingu hans, en til frádráttar henni skal koma gæsluvarðhald sem ákærði sætti við lögreglurannsókn málsins, samtals 6 dagar.

Að kröfu ákæruvalds og með vísan til framangreinda laga og reglugerðarákvæða skulu upptæk til ríkissjóðs þau fíkniefni og tól og tæki sem lýst er í ákæru.

Með vísan til 218. gr. laga nr. 88, 2008 ber að dæma ákærða til að greiða sakarkostnað málsins samtals 229.811 krónur.  Skipaður verjandi ákærða lýsti því yfir fyrir dómi að hann krefðist ekki málflutningsþóknunar.

Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Erik Jensen, sæti fangelsi í 18 mánuði.  Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald ákærða sem hann sætti í samtals 6 daga.

Ákærði sæti upptöku á 113,37 grömmum af hassi, 59,7 g af amfetamíni, 6,18 g af kókaíni, 0,9 g af marijúana, 23,3 g af kannabislaufum og 309 kannabisfræi.  Jafnframt sæti ákærði upptöku á eftirgreindum búnaði sem lögreglan lagði hald á við rannsókn málsins:  Lampar af gerðinni Gewiss 83, 9 stk.  Lampar af gerðinni Box Lama Q/402-94-CR, 2 stk.  Borðvifta, 2 stk.  Vifta með 15 cm röri, 1 stk.  Lofthreinsarar 2 stk.  Pera 400 W, 1 stk.  Veggvifta, 1 stk.  Fjöltengi, 6 stk.  Hitamælar, 2 stk.  Rakamælir, 1 stk.  Tímarofar, 2 stk.  Þrífosfat, 2 kg.  Græna þruman, blómaáburður, ½ líter.  Plastbalar, 5 stk.  Heimasmíðað eimingartæki, 1 stk.  Kolasía, 1 stk.  Glerkútur, 1 stk.  Áltaska, 1 stk.  Vatnslásar, 7 stk.  Ger, 4 kg.  Fellir, 4 stk.  Áfengismælir, 1 stk.  Hitamælir, 1 stk.  Sykurmælir, 1 stk.

Ákærði greiði 229.811 krónur í sakarkostnað.