Hæstiréttur íslands

Mál nr. 430/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001.

Nr. 430/2001.

K

(sjálf)

 

gegn

 

M

 

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Málskostnaður.

M höfðaði mál á hendur K og krafðist forsjár B, sonar þeirra. Svo fór að gerð var dómsátt milli þeirra þess efnis, að forsjá B fluttist frá K til M, en óleyst var úr ágreiningi um málskostnað. Talið var óhjákvæmilegt að líta svo á, að K hefði með dómsáttinni tapað málinu í öllu verulegu. Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 varð því til samræmis að dæma K til greiðslu málskostnaðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. nóvember 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. nóvember 2001, þar sem kveðið var á um málskostnað í máli varnaraðila gegn sóknaraðila, sem var lokið að öðru leyti með dómsátt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hvor aðili verði látinn bera sinn kostnað af málinu fyrir héraðsdómi, en til vara að málskostnaður úr hendi hennar til varnaraðila verði lækkaður. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, K, greiði varnaraðila, M, 50.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. nóvember 2001.

Málið var höfðað 6. júní 2000 og lokið með dómsátt um annað en málskostnað 15. ágúst 2001.  Stefnandi er M.  Stefnda er K.

Í málinu var deilt um forsjá B, sonar málsaðila.

I.

Málsaðilar gengu í hjúskap 1984.  Á hjúskapartímanum ól stefnda tvo drengi, B og C.  Fjöl­skyldan flutti búferlum til … 1986, þar sem aðilar slitu hjúskap í október 1994.  Var þá gengið frá samkomulagi um að stefnda færi ein með forsjá barnanna.  Af gögnum málsins verður ráðið að aðilar hafi þó áfram búið saman fram í apríl 1996 og að stefnda hafi flutt til Íslands með synina tvo í júlí 1998.  B fór aftur til … í júní 1999 með leyfi stefndu, til tímabundinnar dvalar, en hefur búið þar meira og minna síðan hjá stefnanda.  B er nú á sautjánda aldursári og inn­ritaðist í framhaldsskóla … síðast­liðið haust.

Að sögn stefnanda höfðaði hann málið vegna eindregins vilja B til að búa hjá honum í … og halda áfram skólagöngu þar.  Drengurinn hefði ekki viljað hverfa aftur til Íslands eftir tímabundna dvöl í … og stefnda ekki ljáð því máls að hann yrði þar áfram.  Stefnda tók til varna í málinu.  Hún dró í efa félagslegar aðstæður stefnanda og hæfni hans sem forsjárforeldris og lýsti efasemdum um að vilji drengsins stæði til þess að búa hjá M.

II.

Í þinghaldi 19. júlí 2000 var leitað sátta með aðilum og ákveðið að leita álits­gerðar nafn­greinds sálfræðings um viðhorf B og gefa honum, þá fimmtán ára gömlum, kost á að tjá sig um málið.  Álitsgerð um þetta efni frá 23. ágúst 2000 var lögð fram í næsta þing­haldi í málinu 15. september sama ár.  Þrátt fyrir niður­­stöðu álitsgerðarinnar, þess efnis að B hefði tekið ákvörðun um að vilja búa hjá M í … og að sú ákvörðun væri að mati sálfræðingsins vel ígrunduð og trúverðug, krafðist K í sama þinghaldi að dómurinn hlutaðist til um að aflað yrði sérfræðilegra álitsgerða um félagslegar aðstæður og hæfni beggja málsaðila sem upp­alenda.  Álits­gerðir um þetta efni frá 15. febrúar og 13. júní 2001 voru lagðar fram í þinghaldi 12. júlí sama ár.  Af þeim verður ekki annað ráðið en að báðir foreldrar séu hæfir upp­alendur og treystandi fyrir forsjá B.  Þar eð sættir tókust ekki í málinu greindan dag var ákveðið að dómari og sálfræðingur myndu ræða eins­lega við B í þing­haldi 14. ágúst og gera aðilum í framhaldi grein fyrir afstöðu hans til for­sjár­­deilunnar.  Er skemmst frá því að segja að B lýsti yfir eindregnum vilja til að búa áfram í …, hjá M.  Ágreiningi aðila um for­sjá B var lokið með dómsátt í þinghaldi degi síðar á þann veg að forsjá B fluttist frá stefndu til stefnanda.  Jafn­framt var í sáttinni gengið frá sam­komu­lagi um umgengni stefndu við B fram til átján ára aldurs hans.

Óleyst var úr ágreiningi aðila um málskostnað.  Þar sem þeir hugðust báðir sækja um gjafsóknarleyfi var meðferð málsins frestað 15. ágúst og það ekki tekið fyrir að nýju fyrr en í gær, þegar fyrir lá að aðilum hafði báðum verið synjað um gjafsókn.

Stefnandi krefst málskostnaðar og vísar þeirri kröfu til stuðnings meðal annars til ákvæða 130. gr. og b-liðs 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Fyrir liggur tímaskýrsla lögmanns hans vegna útseldrar vinnu að málinu, sem nemur krónum 402.185 með virðisaukaskatti.  Stefnda krefst aðallega málskostnaðar úr hendi stefnanda, en til vara að málskostnaður verði felldur niður. 

III.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal sá er tapar máli í öllu verulegu að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum máls­kostnað.  Frá þessu má víkja ef veruleg vafaatriði eru í máli eða ef aðili vinnur mál að nokkru og tapar því að nokkru eða ef þeim sem tapar máli hvorki var né mátti vera kunnugt um þau atvik sem réðu úrslitum fyrr en eftir að mál var höfðað, sbr. 3. mgr. 130. gr.  Má þá dæma annan aðilann til að greiða hluta málskostnaðar hins eða láta hvorn þeirra bera sinn kostnað af málinu.

Sonur málsaðila B var rúmlega fimmtán ára þegar hann lýsti yfir afdráttar­lausum vilja til að búa áfram hjá stefnanda í … , en þar hefur hann átt heimili lengstan hluta ævinnar.  Að fengnum álitsgerðum um félags­legar aðstæður aðila hvors fyrir sig og hæfni þeirra sem uppalenda og könnun öðru sinni á afstöðu B, rúmu ári síðar, sem staðfesti eindreginn vilja hans til búsetu hjá stefnanda, var gerð dómsátt í samræmi við dómkröfu stefnanda um forsjá.  Samhliða var gengið frá formlegu samkomulagi um umgengnis­rétt stefndu við B til átján ára aldurs hans, en af málatilbúnaði aðila verður ekki ráðið að teljandi ágreiningur hafi staðið um umgengni, á hvorn veg sem forsjárdeilan hefði farið.

Af framansögðu er óhjákvæmilegt að líta svo á að með dómsáttinni hafi stefnda tapað málinu í öllu verulegu.  Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 130. gr. laga um með­ferð einka­mála verður því til samræmis að úrskurða stefndu til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir með hliðsjón af eðli og umfangi málsins hæfilega ákveðinn 300.000 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Kostnaður vegna gagnaöflunar undir rekstri málsins, sbr. 3. mgr. 60. gr. barnalaga nr. 20/1992, greiðist úr ríkissjóði, en hann nemur krónum 356.001.

Úrskurðinn er kveðinn upp af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara.

ÚRSKURÐARORÐ:

Stefnda, K, greiði stefnanda, M, 300.000 krónur í málskostnað.