Hæstiréttur íslands

Mál nr. 77/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
  • Farbann


                                                         

Miðvikudaginn 6. febrúar 2013.

Nr. 77/2013.

Sýslumaðurinn á Akranesi

(Halla Bergþóra Björnsdóttir settur sýslumaður)

gegn

X

(Ingi Tryggvason hdl.)

Kærumál. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi. Farbann.

Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þess í stað var X látinn sæta farbanni.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. febrúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 1. febrúar 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 28. febrúar 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá er krafist „málsvarnarlauna“.

Sóknaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar. Til vara krefst hann  áframhaldandi gæsluvarðhalds vegna rannsóknarhagsmuna, en að því frágengnu að varnaraðili verði látinn sæta farbanni til sama tíma og gæsluvarðhalds er krafist.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest sú niðurstaða hans að ekki séu uppfyllt skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Samkvæmt 2. mgr. 95. gr. fyrrgreindra laga er það frumskilyrði fyrir gæsluvarðhaldi í þágu almannahagsmuna að fyrir hendi sé sterkur grunur um að sakborningur hafi framið brot sem honum er gefið að sök. Í máli þessu bera tvær systur, hvor fyrir sig, varnaraðila sökum um margendurtekin kynferðisbrot gagnvart sér um nokkurra ára skeið. Af hálfu varnaraðila er sök eindregið neitað. Standa þannig orð varnaraðila gegn orðum brotaþola. Þótt framburður brotaþola kunni að undangenginni ákæru og sönnunarfærslu fyrir dómi að leiða til sakfellingar er á þessu stigi máls varhugavert að telja fram kominn svo sterkan grun að uppfyllt sé fyrrgreint skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til gæsluvarðhalds.

Varnaraðili, sem er erlendur ríkisborgari og hefur takmörkuð tengsl við landið, er undir rökstuddum grun um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Samkvæmt því og með vísan til b. liðar 1. mgr. 95. gr. og 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 verður varnaraðila bönnuð brottför af landinu þann tíma sem gæsluvarðhaldi var ætlað að standa eins og í dómsorði greinir.

Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Varnaraðila, X, er bönnuð brottför af landinu allt til fimmtudagsins 28. febrúar 2013 klukkan 16.

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 1. febrúar 2013.

Lögreglustjórinn á [...] hefur krafist þess að kærða, X, kt. [...], [...], [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 28. febrúar 2013 kl. 14.00, aðallega á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til vara á grundvelli 2. mgr. 95. gr. s.l. og til þrautavara er þess krafist að kærði sæti farbanni meðan á rannsókn málsins stendur yfir eða í allt að fjórar vikur frá úrskurðardegi sbr. 100. gr., sbr. b. liður 95. gr. s.l.

Kærði mótmælir kröfu um gæsluvarðhald en samþykkir að sæta farbanni. Til vara gerir hann þá kröfu að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist er.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að til rannsóknar hjá lögreglunni [...] séu nú tvær kærur á hendur kærða, annars vegar kærur barnaverndarnefndar [...] og A, [...] vegna samneytis/nauðgunar en þar komi fram að barnið B, kt. [...], dóttir A, hafi tjáð sig um að henni hafi verið nauðgað oftsinnis undanfarin fimm ár og sé gerandinn kærði, og hins vegar sé einnig til rannsóknar hjá lögreglunni kæra, C f.h. dóttur sinnar D, kt. [...], dags. 22. janúar sl., á hendur kærða fyrir að hafa brotið kynferðislega gegn D á árunum 2008-2010.

Hinn 16. janúar 2013 hafi verið tekin vitnaskýrsla af E, kt. [...], systur brotaþola og komi m.a. fram í skýrslunni að brotaþoli hefði skrifað henni bréf þar sem brotaþoli hafi sagt frá því að kærði, vinur mömmu þeirra, hafi nauðgað henni frá því hún var 7 til 8 ára og hann hafi gert það síðast 22. desember sl., daginn áður en hún [...].  Þá hafi komið fram hjá vitninu E að mamma hennar hafi skilið við föður þeirra fyrir um 5 árum og hafi þessi maður flutt inn á heimilið til móður þeirra um talsverðan tíma. E hafi sagt að sér hafi alltaf fundist skrýtið hvað kærði hafi verið mikið inni á heimilinu og að móðir hennar virtist ekki vilja hafa hann þar. E kvaðst hafa gengið til sálfræðings árið 2006 og hún hafi talað við hann um að sér þætti framkoma kærða undarleg og sálfræðingurinn hafi m.a. hringt í fulltrúa barnaverndar í [...] og starfsmenn hennar hafi fullyrt að ekkert væri að.  E hafi sagt að hún hafi vitað að kærði hafi sofið upp í hjá systur þeirra sem heiti D og sé nú 17 ára, henni hafi þótt það undarlegt og fleiri hafi verið sama sinnis og hafi hún spáð í hvort kærði væri að misnota stelpurnar.

Hinn 17. janúar 2013 hafi verið tekin skýrsla af móður brotaþola, A. Hafi hún sagst ekki vita mikið um málið en þau hefðu alltaf litið á kærða sem heimilisvin og hann hefði verið mikið á heimilinu. Á sínum tíma hafi borist kærur til barnaverndar um að samband kærða við dætur hennar, B og D, væri óeðlilegt og hefði barnavernd í [...] komið á heimili þeirra fyrir nokkrum árum og tekið viðtöl við bæði D og B en þær hefðu báðar þvertekið fyrir að eitthvað óeðlilegt væri í gangi. Eftir að brotaþolinn B hefði sagt frá ætluðum kynferðisbrotum kærða gagnvart henni hefði hún setið heima og hugsað um málið. Væru ýmis atriði sem henni hafi fundist skrýtin farin að koma heim og saman. Kærði hafi hagað sér mjög einkennilega í kringum brotaþola, hann hefði verið að kaupa handa henni hluti, gefa henni peninga og margt slíkt. A hefði kynnst kærða þegar hún hafi verið nýskilin. Hann hefði orðið mikill heimilisvinur og oft gist á heimilinu. Hann hefði svo misst vinnuna í febrúar 2008 og þá um haustið hefði hann fengið vinnu í [...].  Eftir að hann flutti til [...] hafi hann komið til þeirra flestar helgar. Hún hafi sjálf margspurt brotaþola B út í samband hennar við kærða en hún alltaf neitað að eitthvað hefði komið fyrir. Brotaþoli B hefði farið í mörg stuðningsviðtöl hjá F hjá barnavernd og D hjá hjá barnavernd. A sagðist krefjast þess að kærða yrði refsað fyrir það sem hann gerði brotaþola. Hún sagði að þetta væri maður sem þær væru allar búnar að treysta. Tekin hafi verið önnur skýrsla af móður brotaþola í gær og hefði hún staðfest að kærði hefði meira og minna gist hjá miðdóttur hennar þegar hann hafi verið hjá þeim en einnig stundum annars staðar.

Tekin hafi verið vitnaskýrsla af vitninu H hinn 17. janúar sl. og hafi hann skýrt frá því að brotaþolinn B hafi í byrjun desember á síðasta ári sagt honum frá því að kærði hefði beitt hana kynferðisofbeldi frá því að hún var 10 ára og það haldið áfram þar til í mars í fyrra.  Fram hafi komið hjá H að kærði hafi misnotað brotaþola meira að segja einu sinni í herbergi hennar þegar mamma hennar var heima.  Sagði hann að kærði hafi gist heima hjá brotaþola á þeim tíma, þ.e. fyrir og um jólin. Hann sagðist síðast sjálfur hafa hitt brotaþola hinn 23. desember sl. en þá hafi kærði verið að keyra hana. 

Hinn 21. janúar sl. hafi verið tekin vitnaskýrsla af brotaþolanum B í Barnahúsi þar sem hún hafi lýst mjög grófum kynferðisbrotum sakbornings gegn sér á árunum 2008-2012, fyrst er hún hafi verið 7-8 ára og fram á mitt síðasta ár.  Alls hafi hin ætluðu brot gegn henni staðið í u.þ.b. fimm ár. Hafi þau falist í ítrekuðu samræði, fyrstu tvö skiptin í endaþarm en ítrekuð skipti um leggöng, alls um eða yfir 25 skipti.  Hafi fyrsta skiptið átt sé stað í rúmi móður hennar sem verið hafi sofandi og brotaþoli 7 ára gömul. Hafi samræði í fyrsta skiptið í leggöng verið mjög sárt og hafi henni blætt í nokkra daga á eftir. Þessum tilvikum  hafi fjölgað eftir því sem hún hafi orðið eldri. Hún kvað kærða ekki hafa haft sáðlát við endaþarmsmökin en alltaf þegar um samræði í leggöng hafi verið að ræða hafi hann haft sáðlát og þurrkað vel eftir sig. Tvisvar sinnum hafi hann látið „það“ yfir hana og hafi henni fundist það ógeðslegt. Þá hafi hann margoft farið í „sleik“ við hana, káfað á henni alls staðar innan klæða og reynt að láta hana snerta á sér kynfærin en hún hafi komist hjá því. Oftast hafi þetta gerst þegar hún hafi verið ein heima með honum eða að heimilisfólk væri sofandi og hafi hann ýmist verið undir áhrifum áfengis eða edrú. Þá hafi hann beðið hana um að segja ekki frá. Brotaþoli staðfesti að kærði hefði verið vanur að sofa í rúmi systur sinnar.

Hinn 22. janúar sl. hafi C komið á lögreglustöðina [...] og lagt fram kæru f.h. dóttur sinnar D, kt. [...], á hendur kærða fyrir að hafa brotið kynferðislega gegn D á árunum 2009-2010.  Af kæruskýrslu föður komi fram að hann að hann hafi ekki vitað mikið um málið annað en að kærði hefði brotið kynferðislega gegn D á árunum 2008-2010. Hann og móðir D, A, hefðu skilið árið 2007.  Hann hafi vitað að stuttu eftir að hann hafi flutt út hafi kærði verið kominn inn á heimilið. Hann hafi orðið þess áskynja þegar tekið hafi að líða á árið 2008 að sögur gengju [...] um að kærði væri í sambandi við D dóttur hans. Hann hefði heyrt af löngum rúntum kærða með D eina í bílnum. Hann hefði þá ákveðið að ræða þetta við kærða og gera barnavernd aðvart, en hann hafi verið fullvissaður  um að dætrum hans stafaði ekki ógn af kærða.  Um áramótin 2010-2011 hafi D farið að heiman frá móður sinni og flutt til hans og um haustið 2011 hafi hún svo farið til náms [...]. Hún hafi ekkert búið hjá mömmu sinni eftir það. C krafðist þess að kærða yrði refsað lögum samkvæmt fyrir kynferðisbrotin gegn D.

Lögreglan hafi tvisvar sinnum tekið skýrslu af brotaþolanum D, í fyrra skiptið þann 21. janúar s.l. í tengslum við ætlað brot gegn systur hennar, en þar hafi  komið fram að hún hafi líka sætt kynferðislegri misnotkun af hálfu kærða. Vitnið hafi ekki skýrt frá allri misnotkuninni fyrr en í skýrslutöku lögreglunnar þann 29. janúar sl. og sagðist hún ekki hafa viljað segja frá öllu í fyrri skýrslutöku því það væri svo óþægilegt að segja frá.

Brotaþolinn D hafi skýrt svo frá að hún myndi eftir að mamma sín hefði skilið við pabba hennar seinni part árs 2007 og nokkrum vikum síðar hefði kærði skyndilega birst á heimilinu.  Hann hefði verið kærasti mömmu hennar eða þannig hefði það komið henni fyrir sjónir.  Þau hefðu sofið í sama herberginu í fyrstu og oft verið að knúsast og kyssast á meðan hún sá til. Það hafi síðan verið í febrúar 2008 þegar kærði fótbrotnaði í vinnunni að hann hafi fengið herbergi hennar til afnota og verið með herbergið fram á sumarið 2008.  Hún hefði á meðan sofið í stofunni.  Þegar kærði hefði verið farinn að ná sér hefði hann farið fram í stofuna til að sofa þar, en hún flutt aftur inn í sitt herbergi.  Nokkrum dögum, eða a.m.k. stuttu eftir að þetta átti sér stað, hafi hún verið frammi í stofu um miðja nótt að horfa á sjónvarp og hefði kærði verið þar líka.  Hún hafi legið í sófanum og þá hefði kærði sem sat henni til fóta farið að strjúka fætur hennar og smám saman fært sig ofar þar til hann var farinn að strjúka kynfæri hennar utan klæða.  Hún hefði þá fært sig frá honum og farið inn í herbergi sitt til að sofa. Stuttu eftir að þetta gerðist, nokkrum dögum síðar, hafi kærði fært sig inn í herbergi til hennar og farið að sofa þar inni ásamt henni.  Þá hefði hann strax byrjað að strjúka henni um brjóstin og káfað á kynfærum hennar innan klæða og sett fingurna inn fyrir skapabarma og reynt að stinga fingrum inn í leggöng hennar. Þetta hefði gengið svona í nokkurn tíma en svo hefði kærði farið alla leið og haft við hana samfarir.  Þetta hafi verið um haustið 2008. Frá haustinu 2008 hafi kærði alltaf sofið inni herbergi hennar í sama rúmi og hún og hefði hann káfað á henni næstum því á hverju kvöldi og haft við hana samfarir a.m.k. aðra hverja viku. Var brotaþoli spurð ítrekað að því hversu oft þetta hefði gerst og sagði hún að samfarirnar hefðu staðið allt frá haustinu 2008 þegar hann færði sig úr stofunni inn í svefnherbergið hennar, þar til hún flutti út af heimilinu um eða eftir jólin 2010.  Aðspurð um hvenær sólarhringsins brotin áttu sér stað eða hvort þetta hafi gerst þegar þau voru ein, sagði brotaþoli að þetta hefði gerst eftir að mamma hennar fór að sofa á kvöldin.  Brotaþoli sagði aðspurð að kærði hefði oft verið mikið drukkinn en hann hefði drukkið mikið og bæði brotið gegn henni undir áhrifum og ekki.  Brotaþoli var spurð um framburð kærða um að þær hefðu sett hann í rúm og sagði hún að hún hefði aðstoðað mömmu sína við að hátta hann ofan í rúm til hennar vegna þess að hann hefði stundum verið ósjálfbjarga af drykkju. Aðspurð um tíðni brota kærða hafi hún sagt að samfarirnar hefðu ekki verið alveg vikulega, en a.m.k. aðra hverja viku allan tímann. Þegar kærði hafi flutt út af heimilinu til [...] hefði hann komið til þeirra um nánast hverja helgi og alltaf í fríum og oft í miðri viku. Alltaf eða nánast alltaf hefði hann gist í herbergi hennar ásamt henni og sofið uppi í rúmi með henni. Spurð um tíðni þess að hann strauk innan klæða um kynfæri hennar sagði hún það hafa verið nánast á hverju kvöldi þegar hann svaf í rúmi hennar. Brotaþoli var spurð hvort hún myndi eftir viðtölum við barnaverndarstarfsmenn árið 2009 þar sem hún hafi verið spurð um samband hennar við kærða.  Sagðist hún muna eftir þessu og hefði þá neitað að nokkuð óeðlilegt hefði átt sér stað.  Um ástæður þess að hún hefði neitað þá sagði brotaþoli að hún hefði ekki viljað að nokkur annar kæmist að þessu, af því hún hefði skammast sín svo mikið.  Hún hefði ekki viljað að þetta fréttist út um allt en hún hefði vitað að fólk væri byrjað að tala um þetta.  Önnur ástæða hefði verið að þegar kærði var inni á heimilinu þá hefði mamma þeirra verið góð við þær, en þegar hann hefði ekki verið þar hefði hún ekki verið góð við hana og yngri systur hennar, heldur hefði hún alltaf verið að öskra á þær og leggja á þær hendur, aðallega yngri systurina.  Þá hefði kærði sagt við hana nokkrum sinnum að enginn mætti komast að því hvað þau væru að gera því þá færi hann í fangelsi.

                Í fyrri skýrslutökunni hafi hún einnig sagt að hún hefði aldrei gert neitt við hann, en hann hefði reynt að fá hana til að snerta sig, þ.e. að snerta á honum kynfærin, en hún hafi ekki gert það. Aðspurð um fleiri atriði sagði brotaþoli að hún muni eftir því að áður en hann hafi farið að áreita hana hafi hann kysst hana á munninn.  Hún sagði að það hafi síðan gerst aftur og aftur síðar.  Þá hafi hann reynt að fara með tunguna upp í hana, en hún hafi reynt að forðast það.  Hún sagðist þá aldrei hafa kysst strák.  Hún sagðist hafa getað forðast tunguna á honum með því að bíta saman tönnum.  Þetta sagði hún að hefði gerst margoft, stundum hefði hann verið að reyna þetta allan daginn þegar þau voru tvö ein heima.

                Tekin hafi verið skýrsla af kærða hinn 23. janúar sl. þar sem hann neiti alfarið ásökunum um kynferðisbrot gegn þeim systrum. Rannsókn lögreglu sé langt komin en seinnipartinn í gær hafi borist bráðabirgðasálfræðimat, I sálfræðings, á kærða þar sem fram komi áhyggjur matsmanns af geðrænum einkennum.  Segi í matinu að kærði virðist áttaður á stað og stund en svör hans séu samhengislaus og telji matsmaður að hugsanlega séu til staðar geðrofseinkenni.  Þá komi fram viðhorf og hugsunarháttur hjá kærða sem sé vel þekktur meðal manna sem hafi kynferðislegan áhuga á börnum.

                Varðandi mál B hafi kærði sagst hafa flutt inn á heimilið og talið að það hafi verið í mars 2008. Hann hafi fótbrotnað árið 2009 og þá búið inni á heimilinu. Hann hafi lýst brotaþola þannig að það þyrfti að taka utanum hana. Honum hafi verið kynnt að í framburði brotaþola hafi komið fram að ofbeldið hafi byrjað í kringum áramótin 2007 – 2008.  Þá hafi það fyrst gerst í rúmi móður hennar, en þá hafi hann reynt samfarir við hana í endaþarm.  Þá hafi honum verið tjáð að brotaþoli hefði sagt að næsta skipti hafi verið ca. viku síðar, og eftir það hafi það gerst margoft að hann hafi haft „samfarir“ við hana um leggöng, oftar en 25 sinnum.  Kærði sagði þetta vera lygi. Kærði hafi sagst hafa flutt í [...] fyrir rúmum fjórum árum og á þeim tíma komið reglulega í heimsókn á heimilið.  Hann hafi dvalið hjá þeim flestar helgar á því tímabili, þ.e. síðastliðin rúm fjögur ár.  Hann hafi síðan dregið úr því og sagt það hafa farið eftir því í hvernig skapi A móðir telpnanna hafi verið.  Þegar þau hafi búið að [...] hafi hann sofið í rúmi D systur B og oft verið fullur.  Hann hafi sagt að þær mæðgur D og A hafi háttað hann og sett hann í rúmið.  Þá hafi hann lýst skrýtnu ástandi á heimilinu og m.a. hafi B verið að slá í kynfæri hans að móður hennar ásjáandi.  Fram hafi komið að fjölskyldan hafi flutt að [...] í febrúar í fyrra og hann hafi hjálpað við að flytja.  Þar kvaðst hann hafa sofið í herbergi B á dýnu á gólfinu.  Hann hafi neitað því að hafa verið í kynferðissambandi við A, móður B í þessi 4 til 5 ár sem hann var heimilisvinur, en fyrsta árið hefðu þau verið par. Hann hafi neitað ítrekað að hafa brotið gegn B kynferðislega.

Varðandi mál D hafi hann neitað sakargiftum um að hann hefði á árunum 2008-2010 misnotað hana kynferðislega í a.m.k. 10 skipti, þ.e. strokið henni um brjóst og kynfæri og stungið fingrum í kynfæri hennar, en sagðist hafa komið við brjóst hennar óviljandi.  Þá kvað hann það rétt vera að hann hefði sofið í herbergi D og í sama rúmi og hún í 2-3 mánuði. Fram kemur í greinargerðinni að ekki hafi unnist tími til að kynna kærða framburð brotaþola frá 29. janúar sl.

Af þessum sökum sé aðallega krafist áframhaldandi gæsluvarðhalds á grundvelli rannsóknarhagsmuna.  Ljóst sé að dómkveðja verði matsmenn til þess að meta geðheilbrigði kærða og mikilvægt að það sé rannsakað ofan í kjölinn.  Vegna rannsóknarhagsmuna sé því nauðsynlegt að kærði verði áfram í gæslu svo hægt sé að framkvæma þessa mikilvægu rannsókn.  Hér sé um að ræða sérstakar upplýsingar um geðheilbrigði kærða og ljóst að það taki tíma að rannsaka það og þess vegna sé farið fram á 4 vikur auk þess sem hér sé um að ræða mjög alvarlegar ásakanir.  Ekki sé krafist að kærði sæti einangrun meðan á gæslu stendur.

Varakrafan er studd þeim rökum að framburður systranna, brotaþola í máli þessu, sé mjög trúverðugur og nákvæmur. Vitni styðji framburð brotaþola um að kærði hafi sofið í sama rúmi og annar brotaþolinn í um 2 og ½ ár.  Auk þess sem yngri brotaþolinn lýsi því að brotin hafi ágerst eftir að hún varð eldri og sé það í samræmi við að eldri brotaþolinn flytur út 2010.  Þá liggi fyrir játning kærða að hann hafi sofið í sama rúmi og eldri brotaþoli í einhvern tíma, þó ekki eins langan og vitnin vilji meina og hann hafi óviljandi rekið sig í brjóst hennar.  Þá hafi eldri brotaþoli greint frá ástæðum þess að hún hafi ekki greint barnaverndarnefnd á sínum tíma frá misnotkuninni og séu þær ástæður mjög trúverðugar.  Rannsókn lögreglu hafi staðfest að dvöl kærða á heimilinu sé í samræmi við frásögn brotaþola um ætluð kynferðisbrot kærða. Þá styðji bráðabirgðamat sálfræðingsins kröfu þessa þar sem fram komi viðhorf og hugsunarháttur hjá kærða sem sé vel þekktur meðal manna sem hafi kynferðislegan áhuga á börnum.

Varakrafan sé því byggð á því sem að framan greini svo og vegna alvarleika hinna kærðu verknaða sem geti varðað allt að 16 ára fangelsisrefsingu, en um sé að ræða brot gegn 194. gr. og 1. og 2. mgr. 202 og almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Rannsókn málsins sé vel á veg komin. Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna til dagsins í dag. Samkvæmt þessu sé kærði undir sterkum grun um að hafa framið svívirðileg kynferðisbrot gegn tveimur stúlkum, unnin í krafti yfirburðarstöðu kærða gagnvart brotaþolunum og m.t.t. almannahagsmuna sé ekki forsvaranlegt að hann gangi laus. Krafan nú sé reist á almannahagsmunaákvæði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og þess krafist að hún nái fram að ganga. Verði að telja nauðsynlegt með hliðsjón af eðli hinna ætluðu brota að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til rannsóknar og til meðferðar í réttarvörslukerfinu.

Til þrautavara sé krafist farbanns þar sem talin sé veruleg hætta á að kærði, sem sé [...] og skráður til heimilis á [...], [...], sem skráð er atvinnuhúsnæði, og ekki er vitað til þess að hann eigi fjölskyldu hér á landi, muni reyna að yfirgefa Ísland í þeim tilgangi að koma sér með einum eða öðrum hætti undan rannsókn, málsókn, eða fullnustu refsingar.

Eins og rakið hefur verið hér að framan hafa tvær stúlkur sem eru systur borið sakir á kærða fyrir kynferðisbrot gagnvart þeim, önnur þeirra fyrir dómi við yfirheyrslu skv. 59. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála en hin tvívegis við yfirheyrslu hjá lögreglu. Kærði mun hafa farið að venja komur sínar á heimili brotaþola síðla árs 2007 er hann kynntist móður þeirra og brotaþolinn B segir brot hans gagnvart sér hafa hafist þá eða í byrjun árs 2008, en hún er fædd 17. maí 1999. Hún hefur lýst því í skýrslutöku í Barnahúsi að kærði hafi ítrekað nauðgað henni og hafi brotin gagnvart henni staðið yfir í u.þ.b. fimm ár, síðast hafi hann gert tilraun til að hafa mök við hana þann 22. desember sl. Að sögn brotaþolans D braut kærði fyrst gagnvart henni síðla sumars eða haustið 2008 þegar hann fór að sofa í sama rúmi og hún, en hún er fædd þann 15. desember 1995. Hefur brotaþolinn D lýst því að kærði hafi ítrekað haft samfarir við hana eða í u.þ.b. tvö og hálft ár og hafi hann ekki látið af háttsemi sinn fyrr en um áramótin 2010/2011 er hún flutti til föður síns. Þá liggja fyrir skýrslur vitna um samband kærða við brotaþola og styðja þær frásagnir þeirra. Fyrir liggur að kærði hefur oft sofið í rúmi annarrar systurinnar og einnig liggur fyrir að hann hefur oft dvalið á heimili systranna og haft lykil að heimili þeirra. Fjölskyldan virðist hafa litið á kærða sem heimilisvin en þrátt fyrir grunsemdir annarra um afbrigðilega hegðun kærða gagnvart stúlkunum leiddi könnun barnaverndarnefndar árið 2009 ekki til þeirrar niðurstöðu að kærði hefði brotið gegn þeim. Hefur brotaþolinn D gefið trúverðugar skýringar á því hvers vegna hún greindi ekki á þeim tíma frá háttsemi kærða. Að mati dómsins eru skýrslur beggja brotaþola í máli þessu trúverðugar.

Meðal rannsóknargagna er bráðabirgðamat I, sérfræðings í klínískri sálfræði, dagsett í gær, en honum var að beiðni lögreglu dagsettri 28. janúar sl. falið að kanna sálrænt heilbrigðisástand, hugarástand og siðferðisvitund kærða ásamt því að meta kynferðislegar hvatir hans. Matsmaðurinn lýsir í vottorði sínu áhyggjum af geðrænum einkennum kærða.  Hann virðist áttaður á stað og stund en öll svör hans einkennist af samhengisleysi, hann vaði úr einu í annað og svör hans séu sundurlaus og óljós. Telur matsmaður hugsanlegt að geðrofseinkenni séu til staðar sem virðist blandast trúmálum. Fram hafi komið í viðtölum ákveðin viðhorf kærða til kynferðis sem nauðsynlegt sé að kanna betur. Hann nefni m.a. að yngri systirin hafi byrjað að klæða sig kynferðislega um 10 ára aldurinn og hafi farið að nálgast hann kynferðislega. Hún hafi verið í sturtu og hafi viljað fá kærða til sín svo hann gæti þvegið henni. Þá hafi hann gripið hana við sjálfsfróun þegar hún hafi verið 11-12 ára gömul. Hann virðist mjög upptekinn af blæðingum stúlkunnar og kynþroska og að stúlkan hafi verið að táldraga hann. Matsmaður telur þennan hugsunarhátt vel þekktan meðal manna sem hafi kynferðislegan áhuga á börnum og hefur hann áhyggjur af því hve upptekinn kærði sé almennt af stúlkunni og sérstaklega kynþroska hennar.

Eins og rakið hefur verið hér að framan hefur kærði sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna, en samkvæmt gögnum málsins var hann fyrst úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 18. janúar sl. til 25. janúar sl. en þann dag var gæsluvarðhaldið framlengt og rennur sá gæsluvarðhaldsúrskurður út kl. 14:00 í dag. Rannsókn málsins er vel á veg komin eins og rakið er í greinargerð lögreglustjóra og hafa verið teknar ítarlegar skýrslur af báðum brotaþolum og öðrum vitnum í máli þessu. Verður því ekki talið að kærði geti spillt rannsókn málsins með óskertu frelsi og því eru ekki uppfyllt skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og verður kröfu um gæsluvarðhald á hendur kærða á þeim grundvelli því hafnað. 

Samkvæmt framansögðu og með vísan til rannsóknargagna verður hins vegar  að telja að kærði sé undir sterkum grun um að hafa brotið ítrekað kynferðislega gegn tveimur ungum stúlkum og leikur grunur á því að þessi háttsemi kærða gagnvart þeim hafi staðið yfir árum saman.  Ætluð brot hans þykja varða við 194. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga og geta varðað fangelsi allt að 16 árum.

Skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008 um alvarleika brota sem sterkur grunur er um að kærði hafi framið er því uppfyllt í máli þessu. Samkvæmt framangreindu lagaákvæði er það einnig skilyrði þess að gæsluvarðhaldi verði beitt að brot sé þess eðlis að ætla megi gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Kærði er grunaður um alvarleg kynferðisbrot gegn tveimur ungum stúlkum eins og rakið er hér að framan og þá bendir framangreint bráðabirgðaálit sálfræðings til þess að kærði sé haldinn barnagirnd. Ríkir almannahagsmunir standa til þess að menn sem sterklega eru grunaðir um svo alvarleg brot gegn ungum börnum, gangi ekki lausir. Þá ber að líta til nýlegra fordæma Hæstaréttar Íslands í sambærilegum málum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, atvika máls þessa og rannsóknargagna málsins verður með tilliti til almannahagsmuna fallist á það með lögreglustjóra að ætluð brot þau sem sterkur grunur er um að kærði hafi framið séu þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að hann gangi ekki laus á meðan mál hans er til meðferðar í réttarvörslukerfinu, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Er því fallist á kröfu lögreglustjóra á þessum grundvelli eins og nánar greinir í úrskurðarorði.  

                Hjörtur O. Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 28. febrúar 2013 kl. 14:00.