Hæstiréttur íslands
Mál nr. 582/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Mánudaginn 8. september 2014. |
|
Nr. 582/2014. |
A (Björn Jóhannesson hrl.) gegn Velferðarsviði
Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A
var svipt sjálfræði í tvö ár.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. september 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. ágúst 2014 þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu um sviptingu sjálfræðis verði hafnað, en til vara að henni verði markaður skemmri tími. Í báðum tilvikum krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærðar úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda
sóknaraðila, Björns Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur, greiðist
úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29.
ágúst 2014.
Með
beiðni, dagsettri 19. ágúst 2013, hefur velferðarsvið Reykjavíkurborgar krafist
þess að A, kt. [...], til heimilis að [...] í
Reykjavík, verði svipt sjálfræði tímabundið til tveggja ára á grundvelli
a-liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Um aðild er vísað
til d-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga.
Varnaraðili
krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað, en til vara að
sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Þá er krafist hæfilegrar
þóknunar úr ríkissjóði vegna starfa skipaðs verjanda varnaraðila, sbr. 1. mgr.
17. gr. lögræðislaga.
Með
beiðni sóknaraðila fylgir læknisvottorð B geðlæknis, dags. 12. ágúst 2014. Þar
kemur fram að varnaraðili sé [...] ára fráskilin kona sem hafi verið
atvinnulaus um tíma og á framfærslu félagsþjónustunnar undanfarin þrjú til
fjögur ár. Fullyrt er í vottorðinu að [...] varnaraðila hafi látist úr
arfgengum taugahrörnunarsjúkdómi, [...], en 50% líkur séu á því að erfa hann
hafi foreldri haft sjúkdóminn. Einkenni hans komi fram hjá sjúklingum um miðjan
aldur. Þau séu fyrst væg og óljós en ágerist svo og verði mjög alvarleg og
hamlandi þegar sjúkdómurinn hafi hrjáð sjúklinginn lengi. Einkennin lýsi sér
með vaxandi ósjálfráðum hreyfingum og vitrænni skerðingu auk skerðingar á
innsæi, dómgreind og breytingum á persónuleika og tilfinningalífi. Á seinni
stigum sjúkdómsins geti komið fram geðrofseinkenni svo sem heyrnarofskynjanir
auk þess sem sjúklingar geti orðið stjarfir. Oft fylgi miklir
kyngingarörðugleikar sjúkdómnum sem valdi því að sjúklingurinn nærist alls
ekki.
Fram
kemur í vottorðinu að sterkur grunur hafi vaknað á síðustu árum að varnaraðili
sé haldinn þessum sjúkdómi. Samkvæmt upplýsingum frá borgarlækni og
aðstandendum hafi færni hennar verið að skerðast og ósjálfráðar hreyfingar að
aukast á síðustu fimm til tíu árum. Þá hafi borið á aukinni vitrænni skerðingu,
hún hafi ekki greitt reikninga, misst eigið húsnæði, auk þess sem hún hafi haft
söfnunaráráttu, ekki sinnt persónulegri umhirðu og ekki haldið íbúð sinni
hreinni. Þá hafi borið á skertu innsæi varnaraðila og hún sýnt tregðu við að
þiggja aðstoð, neitað að ræða við lækna og ekki viljað hleypa starfsfólki Félagsþjónustunnar
inn til sín. Þá hafi varnaraðili stundað betl að undanförnu í íbúðarhverfi
sínu.
Í
vottorðinu kemur fram að við klíníska skoðun komi varnaraðili einkennilega
fyrir, hún geifli sig mikið í andliti og sé með mikið af ósjálfráðum
hreyfingum, bæði í fótum og í höndum. Hún hafi engan skilning eða tilfinningu
fyrir sjúkdómi sínum og afneiti því að vera með hann. Á sama tíma sé hún mjög
markalaus, daðrandi og hafi engan skilning á ástandi sínu. Hún sé
dómgreindarlaus og hafi ekki tilfinningu fyrir því að hún borði mjög lítið, en
hún hafi horast mikið og sé langt undir kjörþyngd, sé illa hirt og ósnyrtileg.
Þá færist hún undan því að taka lyf. Þá er í vottorðinu tekið fram að
varnaraðili hafi verið skoðuð og metin af C taugalækni og að hann telji, út frá
sjúkrasögu og skoðun, að hún sé með [...] sjúkdóm og ráðlagt frekari
rannsóknir. Í niðurstöðu vottorðsins segir að varnaraðili sé með vefrænan
hrörnunarsjúkdóm í miðtaugakerfi sem eigi einungis eftir að versna og gera
sjúklinginn algerlega háðan félagslegri og utanaðkomandi aðstoð. Hún geti á
engan hátt séð um sig sjálf eða verið ein í íbúð. Því sé nauðsynlegt að hún
verði svipt sjálfræði til langframa svo hægt verði að veita henni nauðsynlega
aðstoð.
Með
kröfu sóknaraðila fylgdi einnig vottorð D geðlæknis vegna beiðni um
nauðungarvistun. Þar kemur fram að komið hafi verið með varnaraðila 29. júlí
sl. í fylgd borgarlæknis og lögreglu á geðdeild til nánara mats og meðferðar
vegna sterks gruns um að hún væri orðin veik af [...] sjúkdómnum. Fram kemur að
hún hafi ekki viljað leggjast inn og reynt að flýja sjúkrahúsið við komu.
Við
meðferð málsins gaf B geðlæknir skýrslu. Staðfesti hann það sem fram kemur í
vottorði sínu og svaraði spurningum um efni þess. Gat hann þess að
sjúkdómsgreiningin lægi fyrir og styddist við mat á einkennum ásamt sterkri
ættarsögu, en sjúkdómurinn væri arfgengur. Eftir sem áður væru frekari
rannsóknir fyrirhugaðar í samráði við C taugalækni. Áréttaði B það mat sitt að
varnaraðili væri orðin svo langt leidd af taugahrörnunarsjúkdómnum að hún gæti
ekki lengur séð um sig sjálf og vísaði þá einkum til þeirra breytinga sem orðið
hafi á hugarástandi hennar. Þá sé hún í algerri afneitun á því að vera haldin
þessum sjúkdómi. Batahorfur væru engar og langlíklegast væri að einkenni ættu eftir
að versna. Því væri það mat hans að nauðsynlegt væri að svipta hana til
langframa, en rétt væri að byrja á sviptingu til tveggja ára.
Varnaraðili
gaf einnig skýrslu. Kvaðst hún vera mjög hraust og kannaðist ekki við að vera
með skerta færni.
Eftir
að málið var tekið fyrir 25. ágúst sl. barst dóminum niðurstaða DNA-rannsóknar
á blóðsýni úr varnaraðila sem Erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítalans
sendi Baylor Collage of Medicin til greiningar. Svar barst 19. ágúst 2014. Í
niðurstöðunum kemur fram að leitað hafi verið „að auknum [...] sem tengist
[...] sjúkdómi“. Hafi slík aukning ([...]) fundist á öðrum [...] sem „samsvari
[...] sjúkdómi“. Hin [...] hafi hins vegar haft eðlilegan fjölda [...]
([...]).
Í
ljósi framangreindrar niðurstöðu DNA-rannsóknar og með vísan til vottorðs B
geðlæknis og skýrslu hans fyrir dómi þykir fram komin viðhlítandi sönnun þess
að varnaraðili sé með [...] sjúkdóm. Þá er í ljós leitt að sjúkdómurinn leggst
þannig á varnaraðila að hún er ekki fær um að sjá um sig sjálf einkum vegna
skertrar dómgreindar. Gögn málsins, sem og skýrsla varnaraðila sjálfrar fyrir
dómi, gefa enn fremur til kynna að hún hafi afar takmarkaðan skilning á þeim
hömlum sem sjúkdómurinn hefur í för með sér, enda neiti hún því alfarið að vera
með sjúkdóminn. Það er því mat dómsins að svo sé komið fyrir heilsu varnaraðila
að hún sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum, sbr. a-lið 4. gr.
lögræðislaga nr. 71/1997, og að þörf sé á því að hún verði svipt sjálfræði til
þess að veita megi henni þann stuðning og aðstoð sem í boði er. Batahorfur eru
engar og allar líkur á því að varnaraðila muni hraka frekar. Því er á það
fallist að ekki sé efni til þess að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri
tími en krafist er.
Samkvæmt
1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist málskostnaður úr ríkissjóði, þ.m.t.
þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Björns Jóhannessonar hrl., sem þykir
hæfilega ákveðin 125.500 krónur og hefur þá verið tekið tillit til
virðisaukaskatts.
Ásmundur
Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Varnaraðili,
A, kt. [...], er svipt sjálfræði í tvö ár.
Málskostnaður
greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Björns
Jóhannessonar hrl., 125.500 krónur.