Hæstiréttur íslands
Mál nr. 139/2005
Lykilorð
- Eftirlaun
- Kröfugerð
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Fimmtudaginn 27. október 2005. |
|
Nr. 139/2005. |
Keflavíkurverktakar hf. (Þórunn Guðmundsdóttir hrl.) gegn Jóni Halldóri Jónssyni (Andri Árnason hrl.) og gagnsök |
Eftirlaun. Kröfugerð. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.
J, sem var forstjóri B ehf., gerði árið 1986 eftirlaunasamning við félagið, þar sem gert var ráð fyrir að eftirlaun hans yrðu hundraðshluti af launum forstjóra félagsins eins og þau væru á hverjum tíma. B ehf. sameinaðist þremur öðrum félögum árið 1999 er mynduðu K hf. Skömmu síðar hóf J töku eftirlauna, sem miðuðust við þau laun, sem hann hafði haft sem forstjóri B ehf. en þau skyldu framvegis taka breytingum í samræmi við verðlagshækkanir. Í kjölfar skipulagsbreytinga á rekstri K hf. voru laun forstjóra félagsins lækkuð umtalsvert árið 2003 en eftirlaunagreiðslur til J voru lækkaðar að sama skapi. J taldi að skerðingin hefði verið óheimil og krafði K hf. um greiðslu ákveðinnar fjárhæðar, sem hann taldi vera eingreiðsluverðmæti eftirlaunaréttar hans. Til vara krafðist hann fjárhæðar, sem tók mið af útreikningi á lækkun eftirlauna hans. Í báðum tilvikum var gert ráð fyrir að með skerðingu eftirlaunanna hefðu eftirlaunakröfur J fallið í gjalddaga. Ekki var fallist á það enda lyti ágreiningur aðila að breytingu á fjárhæð eftirlauna, sem leiddi af túlkun K hf. á eftirlaunasamningnum. Til þrautavara krafðist J fjárhæðar, sem tók mið af mismun á þeim eftirlaunum, sem hann taldi sig eiga rétt til, og greiddra eftirlauna, auk viðurkenningar á því að eftirlaun hans skyldu framvegis taka mið af ákveðinni viðmiðun. Vísað var til þess að við framkvæmd samningsins frá 2000 til 2003 hefði K hf. ekki beitt hreinni eftirmannsreglu og ekki lægi annað fyrir en að J hefði verið sáttur við þá framkvæmd. Yrði að líta svo á að K hf. hefði orðið bundið af þeirri framkvæmd. Því var fallist á fjárkröfuna samkvæmt þrautavarakröfu en viðurkenningarkrafan þótti hins vegar of óákveðin og var vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. apríl 2005. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 10. júní 2005. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 96.282.190 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. febrúar 2004 til greiðsludags, allt að frádregnum 6.785.400 krónum, sem inntar hafi verið af hendi með jöfnum mánaðarlegum greiðslum á 339.270 krónum frá 1. mars 2004 til 1. október 2005. Til vara krefst gagnáfrýjandi greiðslu á 57.600.000 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. febrúar 2004 til greiðsludags. Til þrautavara krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Í aðalkröfu og varakröfu krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar á báðum dómstigum, en í þrautavarakröfu málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að hafna aðalkröfu og varakröfu gagnáfrýjanda, en að fallast á þá kröfu, sem hann gerði til þrautavara í héraði, um að aðaláfrýjandi yrði dæmdur til að greiða honum 7.405.390 krónur með dráttarvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. desember 2003 til greiðsludags. Samhliða þeirri kröfu hefur gagnáfrýjandi leitað dóms um viðurkenningu á rétti sínum til eftirlauna úr hendi aðaláfrýjanda, „sem reiknuð verði eftir sömu viðmiðunum og giltu um útreikning þeirra í nóvember 2003“, og var á það fallist í hinum áfrýjaða dómi. Samkvæmt málflutningi aðilanna fyrir Hæstarétti greinir þá á um forsendur fyrir útreikningi eftirlauna gagnáfrýjanda fyrir þann mánuð, sem vísað er til í dómkröfu þessari, meðal annars hvort þá hafi verið byggt á því að fjárhæð eftirlauna væri verðtryggð og hvernig slík verðtrygging kunni að hafa verið, en um þetta eru ekki viðhlítandi gögn í málinu. Dómkrafa þessi er því svo óákveðin að óhjákvæmilegt er að vísa henni sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Vísað er frá héraðsdómi kröfu gagnáfrýjanda, Jóns Halldórs Jónssonar, um að viðurkenndur verði réttur hans til greiðslu eftirlauna úr hendi aðaláfrýjanda, Keflavíkurverktaka hf., sem reiknuð verði eftir sömu viðmiðunum og giltu um útreikning þeirra í nóvember 2003.
Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður.
Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. janúar 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 21. desember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Jóni Halldóri Jónssyni, [...] Heiðargili 8, Keflavík, á hendur Keflavíkurverktökum hf., [...] byggingu 551, Keflavíkurflugvelli og Mæni ehf., [...] Hlíðarsmára 15, Kópavogi, með stefnu birtri 8. mars 2004.
Aðalkrafa
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda in solidum kr. 96.282.190,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. febrúar 2004 til greiðsludags, allt að frádregnum kr. 3.392.700,- sem greiddar voru með jöfnum mánaðarlegum greiðslum að fjárhæð kr. 339.270,- í fyrsta sinn 1. mars 2004 og síðan 1. hvers mánaðar þaðan í frá en í síðasta sinn 1. desember 2004. Komi þessar greiðslur til frádráttar dómkröfu á þeim dögum sem þær voru inntar af hendi.
Skýringar: Upphafleg aðalkrafa stefnanda hljóðaði á kr. 97.300.000,- með tilgreindum dráttarvöxtum. Upplýst var í stefnu að þegar að aðalmeðferð kæmi hefði stefnandi væntanlega fengið mánaðarlega greiðslur frá stefndu sem með réttu ættu að koma fjárhæð aðalkröfu til frádráttar. Endanleg aðalkrafa stefnanda tekur mið af þessu. Frá höfuðstól kröfunnar eru dregnar greiðslur sem stefnandi fékk í desember 2003, janúar og febrúar 2004, samtals kr. 1.017.810,- Fæst þá nýr höfuðstóll aðalkröfu, kr. 96.282.190,- Þeirrar fjárhæðar er krafist með tilgreindum dráttarvöxtum, allt að frádregnum kr. 3.392.700,- sem eru greiðslur stefndu til stefnanda fyrir mánuðina mars til og með desember 2004.
Varakrafa
Að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda in solidum kr. 57.600.000,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. febrúar 2004 til greiðsludags.
Skýringar: Varakrafa er óbreytt frá stefnu enda gerir hún einungis ráð fyrir að stefndu greiði stefnanda í eingreiðslu það sem upp á vantar til að stefnandi haldi sömu eftirlaunum og hann hafði í nóvember 2003 og fyrr, í samræmi við samning aðila. Greiðslur stefnda til stefnanda á árinu 2004 hafa því ekki áhrif á varakröfu.
Þrautavarakrafa
Að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda in solidum kr. 7.405.590,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 af 427.706,- frá 1.12.2003 til 15.12.2003, en af kr. 1.350.412,- frá 15.12.2003 til 1.1.2004, en af kr. 1.778.118,- frá þeim degi til 1.2.2004, en af kr. 2.205.824,- frá þeim degi til 1.3.2004, en af kr. 2.633.530,- frá þeim degi til 1.4.2004, en af kr. 3.061.236,- frá þeim degi til 1.5.2004, en af kr. 3.488.942,- frá þeim degi til 1.6.2004, en af kr. 3.916.648,- frá þeim degi til 1.7.2004, en af kr. 4.344.354,- frá þeim degi til 1.8.2004, en af kr. 4.772.060,- frá þeim degi til 1.9.2004, en af kr. 5.199.766,- frá þeim degi til 1.10.2004, en af kr. 5.627.472,- frá þeim degi til 1.11.2004, en af kr. 6.055.178,- frá þeim degi til 1.12.2004, en af kr. 6.482.884,- frá þeim degi til 15. desember 2004, en af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.
Jafnframt er þess krafist að viðurkenndur verði réttur stefnanda til eftirlaunagreiðslna úr hendi stefndu sem reiknuð verði eftir sömu viðmiðunum og giltu um útreikning þeirra í nóvember 2003.
Skýringar: Í stefnu á bls. 5 er gerð grein fyrir því, að verði hvorki orðið við aðal- eða varakröfu, heldur einungis gefinn aðfarardómur fyrir þegar orðinni lækkun eftirlauna við dómsuppkvaðningu, sé til þrautavara krafist viðurkenningar á rétti stefnanda til óskertra eftirlauna til framtíðar. Þrautavarakrafa tekur mið af þessu. Hún sundurliðast svo:
|
Mismunur fullra og greiddra eftirlauna frá desember 2003 til og með desember 2004, kr. 427.706,- pr. mán: 13 x 427.706,- |
kr. 5.560.178,- |
|
Ógreiddur 13. mánuður pr. 15.12. 2003 og 2004: 2 x 922.706,- |
kr.1.845.412,- |
|
Samtals |
kr.7.405.590,- |
Vakin er athygli á því, að mánaðarlegar greiðslur stefnanda fyrir tímabilið desember 2003 til desember 2004 eru ekki vísitöluuppfærðar í þessum útreikningi sem er stefndu fremur til hagsbóta. Hins vegar er til framtíðar krafist viðurkenningar á rétti stefnanda til eftirlauna í framtíðinni sem reiknaður verði eftir sömu viðmiðunum og giltu í nóvember 2003. Í því felst að mánaðarlegar greiðslur til stefnanda frá og með næstu greiðslu jafngildi því sem verið hefði, ef engar breytingar hefðu verið gerðar á útreikningsaðferðum eða viðmiðunum á sínum tíma.
Þrautaþrautavarakrafa
Að stefndi Keflavíkurverktakar hf. verði dæmdir til að greiða stefnanda kr. 96.282.190,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. febrúar 2004 til greiðsludags, allt að frádregnum kr. 3.392.700,- sem greiddar voru með jöfnum mánaðarlegum greiðslum að fjárhæð kr. 339.270,- í fyrsta sinn 1. mars 2004 og síðan 1. hvers mánaðar þaðan í frá en í síðasta sinn 1. desember 2004. Komi þessar greiðslur til frádráttar dómkröfu á þeim dögum sem þær voru inntar af hendi.
Að viðurkennt verði með dómi, að stefndi Mænir ehf. beri ábyrgð eftir reglu 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995 á kröfu stefnanda á hendur Keflavíkurverktökum hf., fáist ekki fullnusta kröfunnar hjá því félagi.
Skýringar: Telji dómur skilyrði ekki uppfyllt til að dæma megi Mæni ehf. til solidariskrar ábyrgðar með Keflavíkurverktökum hf. á kröfum stefnanda er þess krafist að staðfest verði ábyrgð þeirra til vara. Á ábyrgð stefnda Mænis ehf. mun því ekki reyna samkvæmt þessu nema stefnandi fái ekki fullnustu þeirrar kröfu sinnar hjá stefnda Keflavíkurverktökum hf., sem fallist verður á í málinu. Krafa stefnanda samkvæmt þessu gengur skemur en kröfur í stefnu og rúmast innan þeirra krafna, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, enda er það hvorki önnur krafa né hærri að krefjast ábyrgðar aðila til vara en að krefjast ábyrgðar hans in solidum, á greiðslu skuldar.
Þrautaþrautaþrautavarakrafa
Að stefndi Keflavíkurverktakar hf. verði dæmdir til að greiða stefnanda kr. 57.600.000,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. febrúar 2004 til greiðsludags.
Að viðurkennt verði með dómi, að stefndi Mænir ehf. beri ábyrgð eftir reglu 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995 á kröfu stefnanda á hendur Keflavíkurverktökum hf., fáist ekki fullnusta kröfunnar hjá því félagi.
Skýringar:Um skýringar vísast til umfjöllunar um varakröfu og hvað varðar ábyrgð stefnda Mænis ehf. til umfjöllunar um þrautaþrautavarakröfu.
Þrautaþrautaþrautaþrautavarakrafa
Að stefndi Keflavíkurverktakar hf. verði dæmdir til að greiða stefnanda kr. 7.405.590,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 af 427.706,- frá 1.12.2003 til 15.12.2003, en af kr. 1.350.412,- frá 15.12.2003 til 1.1.2004, en af kr. 1.778.118,- frá þeim degi til 1.2.2004, en af kr. 2.205.824,- frá þeim degi til 1.3.2004, en af kr. 2.633.530,- frá þeim degi til 1.4.2004, en af kr. 3.061.236,- frá þeim degi til 1.5.2004, en af kr. 3.488.942,- frá þeim degi til 1.6.2004, en af kr. 3.916.648,- frá þeim degi til 1.7.2004, en af kr. 4.344.354,- frá þeim degi til 1.8.2004, en af kr. 4.772.060,- frá þeim degi til 1.9.2004, en af kr. 5.199.766,- frá þeim degi til 1.10.2004, en af kr. 5.627.472,- frá þeim degi til 1.11.2004, en af kr. 6.055.178,- frá þeim degi til 1.12.2004, en af kr. 6.482.884,- frá þeim degi til 15. desember 2004, en af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.
Jafnframt er þess krafist að viðurkenndur verði réttur stefnanda til eftirlaunagreiðslna úr hendi stefnda Keflavíkurverktaka hf. sem reiknuð verði eftir sömu viðmiðunum og giltu um útreikning þeirra í nóvember 2003.
Að viðurkennt verði með dómi, að stefndi Mænir ehf. beri ábyrgð eftir reglu 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995 á kröfu stefnanda á hendur Keflavíkurverktökum hf., fáist ekki fullnusta kröfunnar hjá því félagi.
Skýringar:Um skýringar vísast til umfjöllunar um þrautavarakröfu og hvað varðar ábyrgð stefnda Mænis ehf. til umfjöllunar um þrautaþrautavarakröfu.
Málskostnaður
Í öllum framangreindum tilfellum er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu in solidum að skaðlausu, að viðbættum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.
Kröfur stefnda Mænis ehf. eru svohljóðandi:
Aðallega að kröfum á hendur félaginu verði vísað frá dómi.
Til vara að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda.
Til þrautavara að kröfur stefnanda á hendur félaginu verði stórkostlega lækkaðar.
Kröfur stefnda Keflavíkurverktaka hf. eru svohljóðandi:
Aðallega að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda
Til vara að kröfur stefnanda verði stórkostlega lækkaðar.
Í öllum tilvikum gera báðir stefndu þær kröfur að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.
Málsatvik
Stefnandi starfaði sem forstjóri Byggingaverktaka Keflavíkur hf. um árabil. Með stofnun stefnda Keflavíkurverktaka hf., sem samþykkt var á stofnfundi félagsins, 20. október 1999, sameinuðust Byggingaverktakar Keflavíkur ehf., Járniðnaðar- og pípulagningarverktakar Keflavíkur ehf., Málaraverktakar Keflavíkur ehf. og Rafmagnsverktakar Keflavíkur ehf. Félögin fjögur sem mynduðu Keflavíkurverktaka hf. voru lögð niður við stofnun þess félags. Markmið Byggingaverktaka Keflavíkur ehf. var verktaka og þjónusta í byggingariðnaði, ýmis iðja, iðnaður, efniskaup og sala og annar skyldur atvinnurekstur. Markmið Járniðnaðar og pípulagningarverktaka Keflavíkur ehf. var verktaka í járniðnaðar og pípulögnum, markmið Málaraverktaka Keflavíkur ehf. var málningarstarfsemi og verktaka og þjónusta á því sviði, markmið Rafmagnsverktaka Keflavíkur ehf. var verktaka og þjónusta í rafiðnaði. Félögin áttu saman Keflavíkurverktaka sf. Félögin fjögur voru hvert með sinn framkvæmdastjóra og var stefnandi framkvæmdastjóri Byggingaverktaka Keflavíkur ehf. Stefndi Keflavíkurverktakar hf. yfirtók þannig rekstur fjögurra annarra félaga og var reksturinn því allverulega umfangsmeiri en rekstur Byggingaverktaka Keflavíkur ehf. Þó má ætla að rekstur Byggingaverktaka Keflavíkurverktaka ehf. hafi verið um 60% af rekstri Keflavíkurverktaka hf. Nýr forstjóri stefnda Keflavíkurverktaka hf. var ráðinn 28. júní 1999, en þá var undirbúningur að stofnun félagsins vel á veg komin. Hinn nýi forstjóri, Steindór Guðmundsson, tók strax við 20% starfi, en kom til fullra starfa 1. september 1999. Umsamin laun hans voru 750.000 kr. á mánuði.
Stefnandi lét af störfum 31. desember 1999. Stefnandi þáði laun hjá Keflavíkurverktökum sf. og Byggingaverktökum Keflavíkur ehf. fyrir desember 1999, samtals 1.041.461 kr. auk jólabónusa 999.881 kr.
Í samrunaáætlun Keflavíkurverktaka hf. var gert ráð fyrir því að félagið yfirtæki öll réttindi og skyldur Byggingaverktaka Keflavíkur ehf. meðal annars.
Stefnandi gerði eftirlaunasamning við Byggingaverktaka Keflavíkur hf. árið 1986. Í a-lið eftirlaunasamningsins segir: “Forstjóri á rétt á að láta af störfum með eftirlaunum í lok þess mánaðar sem hann nær 65 ára aldri. Eftirlaun skulu vera hundraðshluti af launum forstjóra B.V.K. hf., eins og þau eru á hverjum tíma. Skulu þau nema 5% fyrir hvert srafsár (sic), þar til náð er eftirlaunum sem nema 90% af mánaðarlaunum. Starfsár skulu miðast við þann tíma er forstjóri hóf starf hjá B.V.K hf.”
Stefnandi hóf töku eftirlauna í janúar 2000. Fjárhæð eftirlauna hans fyrir janúar 2000 nam 629.763,54. Á sama tíma fékk Steindór Guðmundsson, forstjóri stefnda Keflavíkurverktaka hf., 752.475 kr. í laun.
Fjárhæð eftirlauna stefnanda voru 90% af þeim launum sem hann fékk fyrir desember 1999, sem framkvæmdastjóri Byggingaverktaka Keflavíkur ehf., að frádregnum 121.215 kr., sem var greiðsla sem hann fékk frá Lífeyrissjóðnum Framsýn. Þessi útreikningur hafi verið gerður á grundvelli ákvörðunar stjórnarformanns stefnda Keflavíkurverktaka hf. og endurskoðanda félagsins. Þá hafi verið ákveðið að stefnandi fengi vísitöluhækkanir á eftirlaun sín, svo sem starfsmenn skrifstofu stefnda Keflavíkurverktaka hf. fengu. Þessara vísitöluhækkana naut stefnandi allt til miðs árs 2003, að þær voru felldar niður, en vísitöluhækkun launa starfsmanna á skrifstofu stefnda var felld niður 1. júní 2002. Stefnandi naut því vísutöluhækkananna lengur en starfsmenn stefnda.
Nýr forstjóri, Róbert Trausti Árnason, kom til starfa hjá stefnda Keflavíkurverktökum hf. í mars 2000. Laun hans námu 950.000 kr. á mánuði eins og ráðningarsamningur hans, dags. 23. mars 2000, ber með sér. Þau voru óbreytt ári seinna. Í ráðningarsamningi Róberts Trausta var kveðið á um það að hann skyldi fá 13. mánuðinn greiddan og fékk stefnandi það einnig, enda þótt hann hefði ekki fengið slíkt sem forstjóri Byggingaverktaka Keflavíkur ehf.
Eisch Holding SA, fyrirtæki, sem skráð er í Luxembourg, hafði þann 14. janúar 2002 eignast 97,32% í stefnda Keflavíkurverktökum hf. Ný stjórn stefnda Keflavíkurverktaka hf. hóf endurskipulagningu á rekstri félagsins. Á stjórnarfundi í stefnda Keflavíkurverktökum hf. 15. ágúst 2002 var samþykkt að skipta félaginu á grundvelli XIV. kafla hlutafélagalaga nr. 2/1995 og skyldi skiptingin miðast við 1. júlí 2002. Eignum félagsins var skipt á milli stefndu, Keflavíkurverktaka hf. og Mænis ehf. (áður Vallarfasteignir ehf.).
Á árinu 2002 óskaði Bjarni Pálsson stjórnarformaður stefnda Keflavíkurverktaka hf. eftir viðræðum við stefnanda um að stefndi keypti sig frá eftirlaunaskuldbindingunni við stefnanda með greiðslu einnar fjárhæðar. Hittust málsaðilar á fundum vegna málsins en samnigar tókust ekki með aðilum.
Stefndu barst bréf, dags. 2. janúar 2003, frá lögmanni stefnanda, þar sem vitnað var til breytinga á rekstri stefnda Keflavíkurverktaka hf. og sagt að þessu hafi verið haldið leyndu fyrir stefnanda. Þá sagði í bréfinu að vegna ákvæða 3. mgr. 133. gr. hlutafélagalaga, útheimti þetta ekki sérstakar aðgerðir af hálfu stefnanda. Í bréfinu var síðan tekið fram að ef ekki bærust athugasemdir við þetta liti stefnandi svo á að félögin væru samþykk afstöðu stefnanda. Lögmaður stefndu svaraði þessu bréfi með bréfi, dags. 31. janúar 2003, þar sem tekið var fram að stefndi Keflavíkurverktakar hf. myndi eftir sem áður fylgja ákvæðum hlutafélagalaga. Þá var tekið fram að ekki væri fallist á að félagið hefði leynt stefnanda upplýsingum sem vörðuðu hagsmuni hans.
Í júní 2003 lét Róbert Trausti af störfum sem forstjóri Keflavíkurverktaka hf. Yfirverkfræðingur stefnda, Kári Arngrímsson, sem verið hafði staðgengill forstjóra, tók tímabundið við framkvæmdastjórastarfinu. Af þessu tilefni var ekki gerður nýr ráðningasamningur við Kára. Við hlið Kára var Bjarni Pálsson starfandi stjórnarformaður stefnda. Laun hans voru 550.000 kr. á mánuði. Svo fór að Bjarni kom meira og meira inn í daglegan rekstur félagsins. Í nóvember 2003 tók Bjarni síðan við sem forstjóri félagsins, en án þess að laun hans breyttust nokkuð, sbr. ráðningarsamning hans.
Með bréfi stefnda Keflavíkurverktaka, dags. 1. desember 2003, var stefnanda tilkynnt að Bjarni Pálsson hefði tekið við sem forstjóri fyrirtækisins frá og með 1. desember 2003 og samkvæmt eftirlaunasamningnum bæri að endurreikna eftirlaun stefnanda samkvæmt því. Laun Bjarna væru 550.000 kr. á mánuði. Eftirlaun stefnanda voru því ákveðin 339.270 kr. fyrir desembermánuð 2003. Einnig var felld niður greiðsla fyrir 13. mánuðinn, sem stefnandi hafði fengið greiddan árin 2000-2002.
Með bréfi lögmanns stefnanda dags. 9. desember 2003 var þessu mótmælt og skorað á stefndu að leiðrétta desembergreiðsluna. Var tekið fram að mál yrði höfðað án frekari viðvörunar á hendur báðum stefndum ef ekki yrði búið að færa þetta í lag fyrir 20. desember 2003. Stefndi varð ekki við því. Fékk stefnandi eftirlaun sín í janúar, febrúar og mars 2004 greidd eftir sama mælikvarða og notaður var í desember 2003.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Af hálfu stefnanda er tekið fram að hann hafi starfað sem forstjóri Byggingaverktaka Keflavíkur hf. um árabil.
Þann 9. apríll 1986 hafði verið gerður samningur milli stefnanda og Byggingaverktaka Keflavíkur hf. um eftirlaunarétt forstjóra. Sagði í honum m.a., að eftirlaun forstjóra skyldu vera tiltekinn hundraðshluti af launum forstjóra B.V.K. hf. eins og þau væru á hverjum tíma. Hóf stefnandi töku eftirlauna samkvæmt samningnum hjá stefnda Keflavíkurverktökum hf. í janúar 2000. Hafi launin verið miðuð við laun stefnanda eins og þau voru áður en hann lét af störfum. Í viðbót við föst mánaðarleg eftirlaun hafi hann svo fengið greiddan 13. mánuðinn í desember árin 2000, 2001 og 2002. Enginn ágreiningur eða athugasemdir hafi komið fram um viðmiðun eftirlaunanna fyrr en í nóvember 2003. Hafi skuldbinding stefnda Keflavíkurverktaka hf. vegna þeirra verið reiknuð og birt í ársreikningum félagsins á sömu forsendu.
Dómkröfur stefnanda eru byggðar á útreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings 26. janúar 2004 á eingreiðsluverðmæti eftirlauna og makalífeyris. Aðalkrafan hljóði um eingreiðslufjárhæð allra ógreiddra eftirlauna og makalífeyris samkvæmt samningnum miðað við desember 2003. Varakrafan sé hins vegar byggð á útreikningi þeirrar lækkunar, sem stefndi Keflavíkurverktakar hf. hafi ákveði einhliða.
Til stuðnings dómkröfum sínum vísar stefnandi til meginreglna um skuldbindingargildi samninga sem og til ólögfestra reglna um túlkun samninga. Enginn ágreiningur hafi verið með málsaðilum um viðmiðun við laun sem notuð hafi verið við útreikning á eftirlaunum stefnanda. Sá háttur sem á þessu hafi verið hafður hljóti því að teljast réttur samkvæmt samningnum, jafnvel þó að túlka mætti orðalag hans á annan hátt. Hvað sem þessum hugleiðingum líði sé á því byggt að stefndu hafi ekki undir neinum kringumstæðum heimild til að breyta framkvæmd samningsins einhliða og án samþykkis stefnanda.
Þá er einnig á því byggt að stefndu hafi ekki heimild til þess í lögskiptum aðilanna að gera breytingar í rekstri sínum þannig að verði stefnanda til tjóns að því er eftirlaun hans snertir. Fyrirsvarsmaður stefndu, Bjarni Pálsson, hafi staðið fyrir breytingum í rekstri, sem virðast hafa haft þau markmið að skerða réttindi stefnanda. Fyrst hafi hann skipt fyrirtækinu upp og fært út úr því umtalsverð umsvif. Síðan láti hann tilkynna stefnanda að hann hafi gert sjálfan sig að forstjóra með mun lægri laun en fyrri forstjóri hafði og slíkt eigi að hafa áhrif til stórfelldrar lækkunar á eftirlaunaskuldbindingunni. Þetta framferði fái ekki staðist. Það veki raunar athygli í þessu sambandi að við hlið Bjarna Pálssonar hjá stefnda Keflavíkurverktökum hf. starfi maður að nafni Kári Arngrímsson, sem einnig hafi prókúruumboð fyrir félagið. Skorað sé á stefndu að leggja fram upplýsingar um starfssvið Kára hjá félaginu og launakjör auk þess sem lagðar verði fram staðfestar upplýsingar um laun Bjarna Pálssonar og eftir atvikum annarra stjórnenda fyrir störf sín hjá meðstefnda Mæni ehf. Ef dómurinn fallist ekki á að viðmiðun fyrir útreikning eftirlauna stefnanda eigi að vera sú sama sem verið hefur, er á því byggt til vara að leggja beri saman laun yfirstjórnenda beggja félaganna til notkunar fyrir þessa viðmiðun.
Til stuðnings þeirri málsástæðu að stefndu sé óheimilt að lækka eftirlaun stefnanda einhliða með þeim hætti, sem gert hafi verið, er bent á að eftirlaunin hafi verið reiknuð í ársreikningi Keflavíkurverktaka hf. undanfarin ár á verði sem miðist við þau eftirlaun, sem stefnandi hafi tekið um nær fjögurra ára skeið. Meðal annars hafi skuldbindingin verið reiknuð á þennan hátt þegar núverandi eigendur keyptu fyrirtækið á árinu 2001 og hafði án nokkurs vafa samsvarandi áhrif a kaupverð hlutabréfanna til lækkunar. Með einhliða aðgerðum sínum séu þessir sömu kaupendur nú að freista þess að vinna þetta fé á nýjan leik, núna úr hendi stefnanda. Þetta framferði sé hvort tveggja í senn siðlaust og löglaust. Hið sama sé að segja um hótanir Bjarna Pálssonar við stefnanda í desember 2002, þegar hann hafi látið í það skína að hann kynni aðferðir til að hafa eftirlaunaréttinn af stefnanda. Blasi við að snillibrögðin í desember 2003 hafi áttt að þjóna því markmiði.
Aðalkrafa stefnanda er á því byggð að öll eftirlaunakrafa hans sé fallin í gjalddaga vegna framferðis stefndu, sem m.a. feli í sér yfirlýsingu um vanefndir á öllum gjalddögum framtíðarinnar. Er á því byggt að þetta dugi til að verða megi við kröfu stefnanda um að öll skuldbindingin teljist þar með í gjalddaga fallin. Hafi því verið lýst yfir í bréfi lögmanns stefnanda 9. desember 2003 að þessi krafa yrði gerð ef ekki yrði þegar í stað orðið við áskorun um að leiðrétta greiðslur til stefnanda. Það bréf hafi ekki einu sinni verið virt svars. Hafi stefndu ekki skýrt það einu orði á hvaða grundvelli þeir hafi fellt niður greiðslur til stefnanda á 13. mánuðinum, sem hann hafi fengið fram til desember 2003.
Til vara er á því byggt að núvirði lækkunarinnar teljist gjaldfallið ef ekki verði fallist á aðalkröfuna. Verði ekki orðið við aðal- eða varakröfum heldur einungis gefinn aðfarardómur fyrir þegar orðinni lækkun eftirlauna við dómsuppkvaðningu sé til þrautavara gerð krafa um viðurkenningu á rétti stefnanda til óskertra eftirlauna áfram til framtíðar. Við aðalmeðferð málsins var lögð fram bókun um endanlega kröfugerð stefnanda með sérstökum skýringum varðandi einstaka kröfuliði, svo sem rakið hefur verið.
Vísað er til almennra reglna íslensks réttar á sviði kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og kröfurétt sem af þeim stofnist. Um kröfur á hendur Mæni ehf. er vísað sérstaklega til 3. mgr. 133. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995. Um málskostnað er vísað til ákvæða í XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi beri ekki virðisaukaskattskyldu og beri því að bæta þeim skatti við tildæmdan málskostnað honum til handa. Lagatilvísanir til stuðnings kröfu um dráttarvexti komi fram í kröfugerðinni sjálfri.
Málsástæður og lagarök stefnda
1. Almennt.
Stefndu mótmæla sjónarmiðum og röksemdum stefnanda fyrir því að öll eftirlaunakrafa stefnanda sé fallin í gjalddaga vegna framferðis stefndu, sem m.a. feli í sér yfirlýsingu um vanefndir á öllum gjalddögum framtíðarinnar. Stefndu hafi ekkert aðhafst sem feli í sér yfirlýsingu um vanefndir á gjalddögum framtíðarinnar. Eftirlaunasamningnum hafi ekki verið sagt upp og stefndi Keflavíkurverktakar hf. greiði stefnanda í dag eftirlaun samkvæmt samningnum svo sem stefndi telji að túlka eigi hann. Það að eftirlaunaþegi sé óánægður með breytingar sem gerðar séu á eftirlaunum hans geri það ekki að verkum að eftirlaunin gjaldfalli í heild sinni. Það sé vel þekkt að upphæð eftirlauna taki breytingum, bæði til hækkunar og lækkunar, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 101/2002 frá 24. október 2002. Breytingin leiði ekki til gjaldfellingar.
Sérstaklega er mótmælt fullyrðingu í stefnu þess efnis að Bjarni Pálsson hafi staðið að breytingum í rekstrinum sem virðast hafa haft það að markmiði að skerða réttindi stefnanda. Stefndi Keflavíkurverktakar hf. sé fyrirtæki í fullum rekstri. Rekstur félagsins snúist ekki um að greiða stefnda eftirlaun. Það hafi engar breytingar verið gerðar í rekstrinum sem hafi það að markmiði að skerða réttindi stefnanda.
Markmiðið með eignaskiptingu milli stefndu hafi verið hagræðing í rekstri. Þessi hagræðingaraðgerð hafi verið mjög að ryðja sér til rúms á þessum tíma og hafi mörg fyrirtæki nú gert þetta. Það hafi engin ástæða eða lagaskylda verið til þess að gera kröfuhöfum stefnda Keflavíkurverktaka hf. sérstaka grein fyrir þessari ráðstöfun enda hafði hún engin áhrif á hagsmuni þeirra, sbr. 3. mgr. 133. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995. Kröfuhafar stefnda Keflavíkurverktaka hf. hafi því alls ekki verið verr staddir eftir skiptinguna en þeir voru fyrir hana.
2.Aðalkrafa stefnda Mænis ehf. um frávísun.
Aðalkrafa stefnda Mænis ehf. er að kröfur stefnanda á hendur honum verði vísað frá dómi á þeim grundvelli að stefnandi hafi enga lögvarða hagsmuni af málssókn gegn félaginu, sbr. 24. og 25. gr. laga nr. 91/1991. Fari svo ólíklega að krafa stefnanda á hendur stefnda, Keflavíkurverktökum hf., verði viðurkennd er að mati stefnda óþarft að höfða mál gegn honum þar sem krafa hans væri tryggð samkvæmt 3. mgr. 133. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995. Þar segir:
„Ef kröfuhafi í félaginu, sem tekið hefur þátt í skiptingunni, fær ekki fullnustu kröfu sinnar í því félagi sem kröfuna skal greiða ber hvert hinna þátttökufélaganna óskipta ábyrgð á skuldbindingum sem stofnast höfðu þegar upplýsingar um skipingaráætlunina voru birtar.
Hugsanleg krafa stefnanda á hendur stefnda Mæni ehf. verði ekki virk fyrr en stefndi Keflavíkurverktakar hf. hefur verið úrskurðaður gjaldþrota og stefnandi ekkert fengið upp í lýsta kröfu sína. Þá taka ákvæði 3. mgr. 133. gr. hlutafélagalaga við. Stefndi Mænir ehf. bæri óskipta ábyrgð á skuldbindingunni. Að mati stefnda sé því í raun óþarft að höfða mál þetta þar sem enginn ágreiningur hafi verið um þetta atriði á milli aðila og úrlausnin hafi því ekkert raunhæft gildi fyrir réttarstöðu stefnanda. Þessa skoðun hafi stefnandi sjálfur staðfest í bréfi lögmanns síns dags. 2. janúar 2003.
3.Aðalkrafa stefnda Keflavíkurverktaka hf. og varakrafa stefnda Mænis ehf. um sýknu.
Eftirlaun séu í raun ekkert annað en framlenging á launagreiðslum. Einu tilfellin sem viðurkennt sé í dómsmálum að vinnuveitandi þurfi að greiða ógreidd laun með eingreiðslu sé þegar um ólögmæta uppsögn vinnuveitandans hafi verið að ræða. Stefndu hafi ekki sagt upp eftirlaunasamningi þeim sem stefnandi gerði við Byggingaverktaka Keflavíkur ehf. á sínum tíma. Stefnandi hafi notið eftirlauna frá stefnda Keflavíkurverktökum hf. í rúm fjögur ár. Samkvæmt eftirlaunasamningnum frá árinu 1986 átti að miða eftirlaunin við 90% af launum forstjóra Byggingaverktaka Keflavíkur ehf. Það starf sé ekki lengur til og enginn hafi vitað það betur en stefnandi er hann lét af störfum. Stefnandi hafi hins vegar engan reka gert að því að ganga frá nýjum eftirlaunasamningi. Framkvæmd samningsins hafi verið á ýmsa vegu og alls ekki samkvæmt orðanna hljóðan. Eftirlaun stefnanda hafi t.d. verið vísitölubundin allt fram á mitt ár 2003. Ekkert sé minnst á slíkt í eftirlaunasamningnum. Skrifstofufólk, sem vann hjá stefnda, hafi fengið slíkar vísitölutryggingar á sín laun til 1. júní 2002. Stefnandi hafi engar athugasemdir gert við það. Lífeyrisgreiðslur sem stefnandi hafi fengið frá Lífeyrissjóðnum Framsýn hafi verið dregnar frá eftirlaunum hans, en á það sé ekki minnst í eftirlaunasamningnum. Þá hafi stefnandi fengið greiddan 13. mánuðinn til viðbótar eftirlaunum sínum vegna þess að forstjóri stefnda fékk 13. mánuðinn. Það var því farið að líta til launa forstjóra stefnda til viðmiðunar á eftirlaunum stefnanda. Eftirlaun stefnanda hafi tekið breytingum án þess að það hafi leitt til gjaldfellingar þeirra í heild sinni. Stefndi Keflavíkurverktakar hf. telur sér heimilt að gera eðlilegar breytingar á eftirlaunum stefnanda í samræmi við breytingar á launum forstjóra stefnda, án þess að það leiði til þess að eftirlaunin gjaldfalli í heild sinni. Þá er bent á það að hvergi í lögum sé heimild til að gjaldfella eftirlaunaskuldbindingar. Það sé algengt að menn séu ósammála um upphæð eftirlauna, en óánægja eftirlaunaþega með upphæð eftirlauna feli það ekki í sér að eftirlaunin gjaldfalli í heild sinni.
Í eftirlaunasamningi stefnanda segi skýrt í a-lið samningsins að eftirlaun stefnanda skulu vera hundraðshluti af launum forstjóra Byggingaverktaka Keflavíkur ehf., eins og þau séu á hverjum tíma. Samningurinn geri því ráð fyrir því að eftirlaun stefnanda geti verið breytileg. Stefndu telja jafnframt að stefnandi hafi samþykkt að heimilt væri að breyta samningnum með því að gera ekki nýjan eftirlaunasamning þegar Byggingaverktakar Keflavíkur ehf. hafi verið lagðir niður með sameiningu í stefnda Keflavíkurverktaka hf. Eftirlaun miðist venjulega við áunnin réttindi í lífeyrissjóði, sem orðið hafa til með greiðslu lífeyris til viðkomandi sjóðs. Launþegar greiði í lífeyrissjóði og þiggi eftirlaun miðað við þann rétt sem þeir hafi áunnið sér á starfstíma sínum. Stefnandi hafi kosið að greiða ekki í lífeyrissjóð, nema hin síðustu ár, og tekið áhættuna af því að félagið sem hann vann hjá yrði til um aldur og ævi og væri þess umkomið að greiða honum eftirlaun.
Stefndu hafna því enn fremur að félögin hafi gert nokkuð það er heimili gjaldfellingu eftirlauna stefnanda í heild sinni. Stefnandi byggi á því að uppskipting stefnda hafi valdið honum tjóni og skert réttindi hans. Þann 2. janúar 2003 ritaði stefnandi bréf til stefnda þar sem greint var frá því að stefnandi teldi að með uppskiptingu stefnda hafi fjárhagur þess rýrst í veigamiklum atriðum. Taldi stefnandi þetta samt sem áður ekki útheimta sérstakar aðgerðir af hans hálfu vegna ákvæða 3. mgr. 133. gr. hlutafélagalaga, sem leiðir til að bæði félögin bera sameiginlega ábyrgð á eftirlaunakröfu hans.
Þá sé rétt að benda á það að rekstur Keflavíkurverktaka hf. í dag sé gjörólíkur rekstri Byggingaverktaka Keflavíkur ehf. Það sé alls ekki um sama fyrirtækið að ræða, svo sem fyrr sé rakið. Þau laun sem forstjóri Keflavíkurverktaka hf. fái í dag, 550.000 kr. séu ekki lág laun.
Rekstur stefnda Keflavíkurverktaka hf. hafi breyst mikið frá því sem var þegar félögin fjögur störfuðu inn á Keflavíkurflugvelli, ásamt Íslenskum aðalverktökum hf., í skjóli einokunar á verktakasamningum við varnarliðið. Félagið hafi verið komið í samkeppnisrekstur og það hafi tekið nokkurn tíma að aðlaga félagið breyttu umhverfi. Skipting félagsins á árinu 2002 hafi m.a. verið liður í því að aðlaga félagið að samkeppnisumhverfi. Tæpast sé hægt að segja að um sama félag sé að ræða. Umsvifin innan Keflavíkurflugvallar höfðu dregist gríðarlega saman og tók félagið í auknum mæli þátt í opnum útboðum á verkefnum víða um land. Kveðið hafi verið á um það í eftirlaunasamningi stefnanda frá árinu 1986 að eftirlaun hans skyldu vera 90% af launum framkvæmdastjóra Byggingaverktaka Keflavíkur hf. eins og þau væru á hverjum tíma. Byggingaverktakar Keflavíkur hf., sem höfðu haft um 60% af umsvifum stefnda Keflavíkurverktaka hf. eftir sameiningu félaganna fjögurra, séu ekki til lengur. Eftirlaun stefnanda höfðu verið reiknuð út með ýmsum hætti frá 1. janúar 2000. Nýr eftirlaunasamningur hafði ekki verið gerður. Í ljósi breyttra aðstæðna töldu fyrirsvarsmenn stefnda því ekki óeðlilegt að eftirlaun stefnanda tækju mið af launum forstjóra stefnda Keflavíkurverktaka hf. eða miðað við 550.000 kr. á mánuði, sbr. launaseðil Bjarna fyrir febrúar 2004.
Stefndi mótmælir því að fjárhæð eftirlaunaskuldbindinga stefnda í ársreikningi feli í sér viðurkenningu á því að eftirlaun stefnanda geti ekki tekið breytingum. Eftirlaunasamningur aðila feli í sér að hann geti breyst og fjárhæðir í ársreikningi gefi aðeins til kynna stöðu krafna á hverjum tíma. Benda megi á að eftirlaunaskuldbindingar hafi lækkað milli áranna 2000 og 2001 og geti slíkt vart talist athugavert.
Stefnandi hafi engar athugasemdir gert við það að svo væri vikið frá eftirlaunasamningi þeim sem hann gerði á árinu 1986 og að eftirlaun hans tækju þar með mið af kjörum forstjóra stefnda Keflavíkurverktaka hf. Þá hafi hann ekki gert athugasemdir við það að greiðslur til hans úr Lífeyrissjóðnum Framsýn væru dregnar frá eftirlaunum hans frá stefnda Keflavíkurverktökum hf. eða að eftirlaun hans væru vísitölutryggð.
Þá sé rétt að benda á að til þess að hægt sé að verða við aðalkröfu stefnanda verði hann að sýna fram á að einhverjar aðgerðir stefndu hafi leitt til þess að eftirlaunakrafan gjaldféll í heild sinni. Aðalrök stefnanda fyrir því að eftirlaunin hafi gjaldfallið í heild sinni, og ástæða þess að stefnandi fór af stað með þetta mál, sé sú breyting sem gerð hafi verið á eftirlaunum hans í nóvembermánuði 2003. Ef ekki verði fallist á aðalkröfu stefnanda þá sé ekki heldur hægt að fallast á varakröfu hans. Ef ekki sé fallist á aðalkröfuna feli það í sér að breytingin sem gerð var á eftirlaununum í nóvember 2003 hafi verið eðlileg. Varakrafa stefnanda sé byggð á útreikningi sem taki mið af eftirlaununum eins og þau voru eftir breytinguna. Varakrafan miðast þá við það að breytingin hafi verið eðlileg og þegar af þeirri ástæðu hafi eftirlaunin ekki gjaldfallið í heild sinni. Málsástæðum fyrir varakröfu sé því hafnað um leið og þeim sé hafnað fyrir aðalkröfunni. Varakrafa stefnanda sé því röklaus.
Að lokum greinir stefnandi frá kröfum sínum með eftirfarandi hætti: „Verði ekki orðið við aðal- eða varakröfum heldur einungis gefinn aðfarardómur fyrir orðinni lækkun eftirlauna við dómsuppkvaðningu er til þrautavara gerð krafa um viðurkenningu á rétti stefnanda til óskertra eftirlauna áfram til framtíðar. Verða lagðar fram við dómtöku málsins upplýsingar um greiðslur til stefnanda fram til þess tíma.” Stefndi telur þessa framsetningu algjörlega óskiljanlega. Ómögulegt sé að átta sig á því hvaða aðfarardóm eigi að veita fyrir lækkun eftirlauna ef ekki sé orðið við aðal- og varakröfunni. Fyrir hvaða fjárhæð eigi að heimila aðför? Engin tengsl séu milli dómkrafna og málsástæðna og takmarki stefnandi þannig allar málefnalegar varnir stefnda. Þá séu engin gögn lögð fram til rökstuðnings þrautavarakröfu stefnanda. Sú leið hafi hins vegar ekki verið farin að krefjast frávísunar málsins af þessum sökum, heldur sé þetta til frekari rökstuðnings fyrir sýknukröfum stefndu.
Til rökstuðnings fyrir varakröfu stefnda Mænis ehf. sé einnig bent á að sýkna eigi félagið vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi hafi aldrei verið starfsmaður stefnda, Mænis ehf., og félagið hafi aldrei átt nein samskipti við stefnanda. Félagið hafi verið stofnað þremur árum eftir að stefnandi hætti hjá stefnda Keflavíkurverktökum hf. og því örðugt að sjá hvernig hann gæti átt tugmilljóna bótakröfu á hendur stefnda.
Samkvæmt framansögðu beri að taka aðalkröfur stefnda Keflavíkurverktaka hf. og varakröfu stefnda Mænis ehf. til greina og sýkna félögin af kröfum stefnanda.
5. Varakrafa stefnda Keflavíkurverktaka hf. og þrautaþrautavarakrafa stefnda Mænis ehf. um verulega lækkun bótakrafna.
Aðalkrafa stefnanda sé að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða honum 97.300.000 kr. Varakrafan sé að fjárhæð 57.600.000 kr. Upphæð beggja krafna sé byggð á útreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings. Í útreikningum hans komi fram að umræddar 97.300.000 kr. skiptist þannig að eingreiðsluverðmæti lífeyris stefnanda sé 79.400.000 kr. en eingreiðsluverðmæti makalífeyris sé 17.900.000 kr. Varakrafan skiptist þannig að eingreiðsluverðmæti eftirlauna stefnanda sé talið nema 47.000.000 kr. og eingreiðsluverðmæti makalífeyris 10.600.000 kr. Maki stefnanda sé ekki aðili að þessu máli og geti stefnandi ekki höfðað mál fyrir hennar hönd til greiðslu á makalífeyri hennar. Því ber að lækka dómkröfur stefnanda sem nemur upphæð makalífeyrisins.
Stefndu benda einnig á að stefnandi fái greidd eftirlaun mánaðarlega, sem koma eigi til frádráttar. Skilja megi orð stefnanda í stefnu svo að aðal- og varakrafa verði lækkaðar sem því nemi á síðari stigum málsins.
Þá verði að telja að stefnda Keflavíkurverktökum hf. hafi verið heimilt að fella niður greiðslur fyrir 13. mánuðinn til stefnanda. Stefnandi hafi ekki fengið 13. mánuðinn meðan hann var í starfi og ekkert kveðið á um slíka greiðslu í eftirlaunasamningnum. Forstjóri stefnda hafi fengið þessa greiðslu á tímabili.
Málskostnaðarkrafa stefndu byggir á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. gr. og 130. gr. laganna.
Niðurstaða
Fallist er á með stefnda Mæni ehf. að óþarft hafi verið að beina jafnframt kröfum að honum í máli þessu, sbr. ákvæði 3. mgr. 133. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995. Ber því að vísa kröfum stefnanda á hendur stefnda Mæni ehf. frá dómi, en málskostnaður fellur niður.
Stefnandi byggir aðalkröfu sína í málinu á því að eftirlaunakrafa hans sé gjaldfallin í heild sinni. Til rökstuðnings fyrir dómkröfu sinni vísar hann til meginreglunnar um skuldbindandi gildi samninga og ólögfestra reglna um túlkun samninga. Þá byggir stefnandi á því að stefndu hafi ekki haft heimild til þess í lögskiptum aðilanna að gera breytingar á rekstrinum þannig að það yrði stefnanda til tjóns að því er eftirlaun hans varðar. Stefnandi byggir á því að öll eftirlaunakrafa stefnanda sé fallin í gjalddaga vegna framferðis stefndu, sem m.a. feli í sér yfirlýsingu um vanefndir á öllum gjalddögum framtíðarinnar.
Á þessi sjónarmið stefnanda verður ekki fallist. Ágreiningur aðila varðar túlkun á eftirlaunasamningi við stefnanda og er deilt um þau viðmið, sem stefndi hefur lagt til grundvallar greiðslu eftirlauna til stefnanda samkvæmt þeim samningi frá og með desember 2003. Sú breyting á fjárhæð eftirlauna, sem túlkun stefnda á samningnum hefur leitt til gerir það ekki að verkum að eftirlaunakrafa stefnanda sé öll eða að hluta fallin í gjalddaga fallin. Engar forsendur eru til að líta svo á. Ber því að hafna aðal- og varakröfu stefnanda í málinu.
Samningur stefnanda við Byggingaverktaka Keflavíkur hf. um eftirlaunarétt er dagsettur 9. apríl 1986. Í a-lið eftirlaunasamningsins segir: “Forstjóri á rétt á að láta af störfum með eftirlaunum í lok þess mánaðar sem hann nær 65 ára aldri. Eftirlaun skulu vera hundraðshluti af launum forstjóra B.V.K. hf., eins og þau eru á hverjum tíma. Skulu þau nema 5% fyrir hvert srafsár (sic), þar til náð er eftirlaunum sem nema 90% af mánaðarlaunum. Starfsár skulu miðast við þann tíma er forstjóri hóf starf hjá B.V.K hf.”
Svo sem fram er komið hóf stefnandi töku eftirlauna samkvæmt samningi þessum í janúar 2000. Fjárhæð eftirlauna hans fyrir þann mánuð var 629.763 kr. og voru 90% af þeim föstu launum, 834.420 kr., sem hann hafði fengið sem framkvæmdastjóri Byggingaverktaka Keflavíkur ehf. fyrir desember 1999, að frádreginni 121.215 kr. greiðslu sem hann hafði fengið frá Lífeyrissjóðnum Framsýn, sem var í samræmi við ákvæði c- liðar eftirlaunasamningsins. Svo sem fram kemur í tölvubréfi endurskoðandans Guðmundar Kjartanssonar til Maríu Þorgrímsdóttur, launafulltrúa stefnda, dags. 3. janúar 2000, skyldi einnig taka tillit til verðlagshækkana sem stefnandi hefði fengið, ef hann væri í starfi.
Í janúar 2000 voru föst laun þáverandi forstjóra stefnda Keflavíkurverktaka hf., Steindórs Guðmundssonar, 752.475 kr. í föst laun. Nýr forstjóri, Róbert Trausti Árnason, kom til starfa hjá stefnda Keflavíkurverktökum hf. í mars 2000. Laun hans námu 950.000 kr. á mánuði eins og ráðningarsamningur hans, dags. 23. mars 2000, ber með sér. Þau voru óbreytt ári seinna. Í ráðningarsamningi Róberts Trausta var kveðið á um það að hann skyldi fá 13. mánuðinn greiddan og fékk stefnandi það einnig, en áður hafði hann fengið sambærilega greiðslu sem desemberuppbót. Stefnandi fékk 13. mánuðinn greiddan þar til sú greiðsla var felld niður er eftirlaun hans voru endurreiknuð og lækkuð einhliða í desember 2003.
Þegar litið er til þess með hvaða hætti ákvæði a-liðar eftirlaunasamningsins við stefnanda var útfært frá því að samningurinn kom til framkvæmda í janúar 2000 og þar til honum var breytt einhliða af hálfu stefnda Keflavíkurverktaka hf. í desember 2003 liggur fyrir samkvæmt framansögðu að ekki var framfylgt hreinni eftirmannsreglu að því er launakjör stefnanda varðar. Þannig var ekki tekið mið af föstum launum þeirra tveggja forstjóra, sem störfuðu hjá stefnda Keflavíkurverktökum hf. eftir að stefnandi lét af störfum hjá fyrirtækinu og þar til Bjarni Pálsson varð forstjóri þess, en þá höfðu verulegar skipulagsbreytingar átt sér stað í rekstri fyrirtækisins. Við ákvörðun launa til stefnanda var tekið mið af þeim launum sem hann hafði síðast sem forstjóri Byggingaverktaka Keflavíkur ehf. að viðbættri vísitöluhækkun launa.
Stefnda ber að efna þá skuldbindingu sem til var stofnað með samningum um eftirlaunarétt stefnanda frá 1986. Breytingar á rekstri stefnda og skipting félagsins á árinu 2002 breyta engu um skuldbindingargildi þess samnings gagnvart stefnanda. Þá verður ekki séð að nokkur ástæða hafi verið til þess fyrir stefnanda að fara fram á að gerður yrði nýr eftirlaunasamningur við stefnda Keflavíkurverktaka hf., sem hafði yfirtekið eftirlaunaskuldbindinguna gagnvart stefnanda. Liggur og ekki annað fyrir en stefnandi hafi verið sáttur við upphaflegar efndir samningsins af hálfu stefnda.
Eftir atvikum þykir rétt að um greiðslur samkvæmt eftirlaunasamningnum fari eftir þeirri tilhögun sem var á útfærslu og framkvæmd hans á tímabilinu frá janúar 2000 til og með nóvember 2003, áður en til lækkunar kom vegna endurútreiknings stefnda, þ.m.t. greiðsla fyrir 13. mánuðinn. Ber því að fallast á þrautavarakröfu stefnanda í málinu, sem ekki hefur sætt sérstökum tölulegum andmælum, eins og í dómsorði greinir. Jafnframt er viðurkenndur réttur stefnanda til eftirlaunagreiðslna úr hendi stefnda sem reikna skal eftir sömu viðmiðunum og giltu um útreikning þeirra í nóvember 2003.
Þá ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda 970.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar, þó ekki útlagðs kostnaðar vegna útreiknings tryggingastærðfræðings að fjárhæð 44.045 kr., sem stefnandi skal sjálfur bera.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Kröfum stefnanda á hendur stefnda Mæni ehf. er vísað frá dómi, en málskostnaður fellur niður.
Stefndi, Keflavíkurverktakar hf., greiði stefnanda, Jóni Halldóri Jónssyni, kr. 7.405.590,- með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af kr. 427.706,- frá 1.12.2003 til 15.12.2003, en af kr. 1.350.412,- frá 15.12.2003 til 1.1.2004, en af kr. 1.778.118,- frá þeim degi til 1.2.2004, en af kr. 2.205.824,- frá þeim degi til 1.3.2004, en af kr. 2.633.530,- frá þeim degi til 1.4.2004, en af kr. 3.061.236,- frá þeim degi til 1.5.2004, en af kr. 3.488.942,- frá þeim degi til 1.6.2004, en af kr. 3.916.648,- frá þeim degi til 1.7.2004, en af kr. 4.344.354,- frá þeim degi til 1.8.2004, en af kr. 4.772.060,- frá þeim degi til 1.9.2004, en af kr. 5.199.766,- frá þeim degi til 1.10.2004, en af kr. 5.627.472,- frá þeim degi til 1.11.2004, en af kr. 6.055.178,- frá þeim degi til 1.12.2004, en af kr. 6.482.884,- frá þeim degi til 15. desember 2004, en af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.
Viðurkenndur er réttur stefnanda til eftirlaunagreiðslna úr hendi stefnda sem reikna skal eftir sömu viðmiðunum og giltu um útreikning þeirra í nóvember 2003.
Stefndi, Keflavíkurverktakar hf., greiði stefnanda, Jóni Halldóri Jónssyni 970.000 krónur í málskostnað.