Hæstiréttur íslands

Mál nr. 438/2006


Lykilorð

  • Uppsögn
  • Stjórnsýsla
  • Andmælaréttur
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. mars 2007.

Nr. 438/2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands

(Jakob R. Möller hrl.)

gegn

Þjóðólfi Gunnarssyni

(Hörður F. Harðarson hrl.)

 

Uppsögn. Stjórnsýsla. Andmælaréttur. Skaðabætur.

Þ var sagt upp störfum hjá S og voru ástæður uppsagnarinnar sagðar vera langvarandi vandkvæði er fylgt hefðu störfum hans hjá S. Höfðaði hann mál á hendur S til greiðslu skaðabóta vegna uppsagnarinnar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að af rekstrarformi S leiddi að ekki teldist vera um ríkisstofnun að ræða í skilningi laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hins vegar var fallist á með Þ að S teldist vera stjórnvald í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og af þeim sökum hafi borið að gæta form- og efnisreglna þeirra laga við uppsögn hans. Með vísan til þess að Þ var ekki gefinn kostur á að tala máli sínu áður en ákvörðun um uppsögn var tekin svo sem skylt var samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga var uppsögn hans talin hafa verið ólögmæt og af því leiddi réttur hans til skaðabóta úr hendi S. Voru skaðabætur, sem S var gert að greiða Þ, metnar að álitum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. ágúst 2006. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málavöxtum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Um áfrýjanda gilda lög nr. 36/1982 um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Áfrýjandi er sjálfstæð stofnun með sérstakan fjárhag og lýtur sérstakri stjórn. Nokkrir aðilar stóðu að rekstri áfrýjanda á þeim tíma er atvik máls þessa urðu samkvæmt 3. gr. nefndra laga. Það voru ríkissjóður, borgarsjóður Reykjavíkur, Ríkisútvarpið og Seltjarnarneskaupstaður. Af þessu rekstrarformi leiðir að ekki telst vera um ríkisstofnun að ræða í skilningi laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 2. tl. 2. mgr. 2. gr. laganna.

Stjórnsýslulög nr. 37/1993 taka samkvæmt 1. mgr. 1. gr. til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Um áfrýjanda gilda sérstök lög og rekstrarkostnaður hans er greiddur af almannafé, sbr. 3. gr. laga nr. 36/1982. Með hliðsjón af þessu og vísan til fordæma Hæstaréttar verður fallist á með stefnda að áfrýjandi teljist vera stjórnvald í skilningi stjórnsýslulaga og hafi því borið að gæta form- og efnisreglna þeirra laga við uppsögn stefnda.

Stefnda var sagt upp 30. júní 2004 með þriggja mánaða uppsagnarfresti og ástæður uppsagnarinnar sagðar vera „langvarandi vandkvæði sem fylgt hafa störfum þínum hjá hljómsveitinni og sem þér hefur verið greint frá.“ Í bréfi 23. ágúst 2004 færði áfrýjandi fram frekari skýringar á uppsögninni. Er um þær vísað til áminningabréfs frá 4. júní sama ár og tveggja annarra frá 27. júní 2002 og 6. nóvember 2003. Við uppsögn stefnda bar að gæta ákvæða stjórnsýslulaga. Stefnda var ekki gefinn kostur á að tala máli sínu áður en ákvörðun var tekin svo sem skylt er samkvæmt 13. gr. þeirra. Með vísan til þessa er staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að uppsögn stefnda hafi verið ólögmæt og að af því leiði réttur til skaðabóta úr hendi áfrýjanda.

Ágreiningslaust er að samkvæmt ráðningarsamningi 8. febrúar 2002 var stefndi ráðinn ótímabundið til starfa hjá áfrýjanda með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti. Með hliðsjón af því, upplýsingum í málinu um launakjör stefnda og mótmælum áfrýjanda verða bætur til stefnda metnar að álitum 1.300.000 krónur. Dráttarvextir verða dæmdir frá þingfestingu málsins í héraði eins og nánar greinir í dómsorði.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði. 

Dómsorð:

Áfrýjandi, Sinfóníuhljómsveit Íslands, greiði stefnda, Þjóðólfi Gunnarssyni, 1.300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. september 2005 til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2006.

Mál þetta höfðaði Þjóðólfur Gunnarsson, kt. 060656-5769, Ástúni 12, Kópavogi, með stefnu birtri 24. ágúst 2005 á hendur Sinfóníuhljómsveit Íslands, kt. 570269-3569, Háskólabíói við Hagatorg, Reykjavík. 

Stefnandi krefst greiðslu bóta að fjárhæð 6.587.660 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. febrúar 2005.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun. 

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi.  Til vara krefst stefndi þess að stefnukröfur verði lækkaðar og að málskostn­aður verði felldur niður. 

Málið var dómtekið 26. maí sl. 

Stefnandi hóf störf hjá stefnda sem sviðsmaður á árinu 1986, en var ráðinn í stöðu sviðsstjóra hljómsveitarinnar með ráðningarsamningi dags. 8. febrúar 2002.  Ráðningin var ótímabundin. 

Á starfstíma sínum sem sviðsstjóri var stefnandi áminntur þrisvar sinnum.  Með bréfi 27. júní 2002 var hann áminntur „vegna mikillar óánægju með störf hans og árekstra við annað starfsfólk”.  Með bréfi 6. nóvember 2003 var hann áminntur vegna færslu akstursdagbókar.  Loks með bréfi dags. 4. júní 2004 var stefnanda veitt áminning.  Í bréfinu segir að á tónleikum hljómsveitarinnar „... á Listahátíð 19. og 20. maí s.l. komu fyrir atvik sem ollu hljómsveitinni verulegum álitshnekki, bæði hjá þeim sem lentu í þessu, en einnig hjá þeim sem voru áhorfendur að því sem gerðist.  Hljómsveitarstjórinn kvartaði undan því að nótnabók sem vera átti á púltinu eftir hlé hefði ekki verið þar og hann hefði því þurft að stjórna einu verki án nótna.  Síðan sendir þú blóm of snemma inná sviðið sem olli reiði og móðgun hjá söngkonunni en hneykslan hjá hljómsveit og hljómleikagestum.  Hvort tveggja eru verk sem þú átt að vita til hlítar hvernig meðhöndla ber.  Fyrir þetta er þér veitt formleg áminning.  Vakin er athygli þín á því að þetta er þriðja áminningin sem þú færð.” 

Stefnanda var ritað uppsagnarbréf 30. júní 2004.  Þar segir að ástæður upp­sagnarinnar séu langvarandi vandkvæði sem fylgt hafi störfum hans hjá hljómsveitinni og honum hafi verið greint frá. 

Stefnandi leitaði til SFR, stéttarfélags í almannaþjónustu.  Með bréfi dagsettu 19. ágúst 2004 óskaði formaður félagsins eftir rökstuðningi stefnda fyrir uppsögninni.  Erindi þessu var svarað með bréfi stefnda 23. ágúst.  Þar segir að stefndi sé ekki ríkisstofnun í skilningi laga nr. 70/1996 og því sé ekki skylt að rökstyðja uppsögn starfsmanns gagnvart stéttarfélagi.  Í framhaldi er nefnt að stefnandi hafi fengið þrjár skriflegar áminningar frá því að hann tók við starfinu á árinu 2000.  Þá segir:  „Til viðbótar þessu get ég sagt að mikil og stöðug óánægja var með störf Þjóðólfs bæði hjá hljóðfæraleikurum sem og hjá starfsfólki hér á skrifstofu.  Bæði ég og tónleikastjórinn ræddu margsinnis störf hans hér við hann með óskum um úrbætur, en allt kom fyrir ekki.” 

Lögmaður stefnanda ritaði stefnda bréf 6. janúar 2005 þar sem óskað var eftir viðræðum um bætur til stefnanda vegna ólögmætrar uppsagnar.  Lögmaður stefnda svaraði erindinu með bréfi 18. janúar þar sem lýst var afstöðu stefnda og neitað viðræðum um bótagreiðslu.  Í bréfinu kemur fram frekari rökstuðningur fyrir uppsögninni þar sem segir:  „Eftir síðasta áminningarbréfið kom enn upp óviðunandi tilvik, það er mikilvægt bréf beið í tvær vikur í bíl Þjóðólfs í stað þess að vera afhent, og var þá mælirinn fullur og Þjóðólfi var sagt upp ...” 

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu.  Stefndi leiddi hins vegar engin vitni og framkvæmdastjóri hans gaf ekki aðilaskýrslu. 

Stefnandi kvaðst telja að áminningin hafi ekki verið réttmæt.  Þetta væri ekki brottrekstrarsök.  Það hafi enginn tekið eftir þessu nema kannski framkvæmdastjórinn.  Hann kvaðst vera í starfi núna, en launin væru lægri en hann hafði hjá stefnda. 

Málsástæður og lagarök stefnanda. 

Stefnandi byggir á því að stefndi sé stjórnvald í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Telur hann að stefndi hafi brotið gegn andmælarétti sínum, svo og rannsóknar- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. 

Stefnandi segir að ekki hafi verið gætt að andmælarétti sínum, hvorki er hann var áminntur 4. júní, né er honum var sagt upp.  Með þessu hafi verið brotið gegn 10., 12. og 13. gr. stjórnsýslulaga. 

Þá komi fyrst fram í bréfi lögmanns stefnda 18. janúar 2005 að ástæða uppsagnarinnar hafi verið sú að mikilvægt bréf hafi ekki verið afhent í tvær vikur, en legið í bíl stefnanda.  Á þetta hafi aldrei verið minnst í tengslum við uppsögnina.  Þá sé þetta rangt.

Stefnandi mótmælir því að tilefni hafi verið til áminningar.  Ólögmæt sjónarmið hafi búið að baki ákvörðun um áminningu og uppsögn. 

Stefnandi telur að uppsögnin hafi verið ólögmæt samkvæmt lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.  Í stefnu er ítarlega rökstutt að 1. gr. laganna eigi við um stefnanda í starfi hans hjá stefnda.  Telur hann að stefndi sé ríkisstofnun.  Bendir hann á að hvergi í lögum nr. 36/1982 um hljómsveitina komi skýrt fram hvort um sé að ræða ríkisstofnun, sjálfseignarstofnun eða annars konar félag.  Í 2. mgr. 1. gr. segi að hljómsveitin sé sjálfstæð stofnun með sérstakan fjárhag og að hún lúti sérstakri stjórn. Málefni hennar heyri undir menntamálaráðuneytið. 

Stefnandi vitnar til skýrslu vinnuhóps er menntamálaráðherra skipaði til að fjalla um málefni hljómsveitarinnar.  Skýrslunni var skilað í maímánuði ársins 2003.  Vinnuhópurinn hafi talið að staða sveitarinnar og rekstrarform séu óljós.  Sé það orðað svo að hún sé einstök stofnun sem eigi sér enga hliðstæðu hér á landi hvað varði rekstarfyrirkomulag. 

Þá komi fram að vilji stjórnenda hljómsveitarinnar standi til þess að hún verði ekki talin ríkisstofnun vegna aukins kostnaðar er leiði af því að starfsmenn fengju réttarstöðu ríkisstarfsmanna. 

Þá rekur stefnandi þau atriði sem hópurinn taldi styðja það að hljómsveitin teldist ríkisstofnun.  Þar eru þessi atriði talin: 

Málefni hljómsveitarinnar heyri undir menntamálaráðuneytið. 

Menntamálaráðherra skipi stjórn, skv. tilnefningum. 

Fjárveitingar rekstaraðila séu ákveðnar af ríkinu samkvæmt gamalli venju. 

Fjármálaráðherra geri kjarasamninga. 

Ríkissjóður leggi út fyrir rekstrarkostnaði samrekstraraðila. 

Fjársýsla ríkisins færi bókhald skv. samningi við sveitina. 

Reikningar hennar séu birtir í ríkisreikningi. 

Ríkisendurskoðun endurskoði reikningana. 

Stefnandi kveðst telja að stefndi beri flest einkenni ríkisstofnunar og sé í raun rekinn sem slík, án þess að starfsmönnum sé veitt réttarstaða ríkisstarfsmanna skv. 1. nr. 70/1996. Stofnunin sé engan veginn nægilega sjálfstæð frá ríkisvaldinu, hvorki hvað varðar stjórnunarleg né fjárhagsleg málefni, til að hún geti talist vera annars konar félag.  Sérstaklega mótmælir stefnandi því að stefndi geti kallast „einstök stofnun”. 

Hann bendir á að stjórn skipuð af ráðherra beri ábyrgð á nær öllum málefnum stefnda.  Það eigi þó ekki við um kjarasamninga sem séu á ábyrgð fjármálaráðherra.  Ráðherra skipi stjórn samkvæmt tilnefningum sem séu ekki bindandi. 

Þá hafi stefndi hlutverk í almannaþágu eins og ríkisstofnanir.  Tilgangurinn með starfsemi stefnda sé ekki tekjuöflun eins og rekstur sjálfseignarstofnunarinnar Háskólabíós sé.  Ríkissjóður beri mestan hluta rekstrarkostnaðar.  Aðrir rekstraraðilar taki ekki sjálfstæða afstöðu til fjárlagatillagna.  Ákvörðun Alþingis í fjárlögum bindi alla aðilana. 

Þá séu laun starfsmanna greidd af Fjársýslu ríkisins og þeir eigi aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. 

Því telur stefnandi að hann hafi unnið í þjónustu ríkisins í skilningi 1. gr. laga nr. 70/1996.  Uppsögn hans hafi falið í sér brot á réttindum hans samkvæmt lögunum.  Tilgangur áminningar sé að gefa viðkomandi tækifæri til að bæta sig í starfi.  Því sé ekki unnt að segja manni upp af sömu ástæðu og áminnt var fyrir.  Nýtt brot á starfsskyldum verði að koma til.  Stefndi mótmælir því sem segir í bréfi lögmanns stefnda um mikilvægt bréf.  Það sé hreinn fyrirsláttur enda hafi ekki verið á þetta minnst, hvorki í uppsagnarbréfinu né í síðari rökstuðningi framkvæmdastjórans. 

Stefnandi segir að sér hafi ekki verið gefinn kostur á að andmæla áður en hann var áminntur með bréfinu 4. júní 2004.  Hafi því verið brotið gegn rétti sínum samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996.  Þá hafi hin tilgreinda háttsemi ekki verið brot samkvæmt 21. gr. laganna og hvorki verið tilefni áminningar né uppsagnar. 

Bótakröfu miðar stefnandi við laun í starfi sviðsstjóra í tvö ár.  Erfitt sé að finna störf er hæfi starfsreynslu hans hér á landi.  Hann sé menntaður bifreiðasmiður.  Hann hafi verið atvinnulaus þar til hann var ráðinn til Öryggismiðstöðvar Íslands í júní 2005.  Tekjur þar séu svipaðar því er hann hafði áður, en unnið sé á vöktum. 

Þá krefst stefnandi miskabóta að fjárhæð 500.000 krónur.  Vísar hann hér til 26. gr. laga nr. 50/1993.  Í uppsögninni felist ólögmæt meingerð. 

Stefnandi vísar til laga nr. 37/1993, laga nr. 70/1996 og laga nr. 36/1982, auk almennra reglna vinnuréttar. 

Málsástæður og lagarök stefnda. 

Stefndi mótmælir öllum málsástæðum, kröfum og lagarökum stefnanda. 

Stefndi kveðst ekki vera ríkisstofnun í skilningi laga nr. 70/1996.  Stefnandi geti því ekki byggt á þeim lögum.  Í 2. tl. 2. mgr. 2. gr. laganna segi að lögin taki ekki til starfsmanna þeirra stofnana sem að einhverju leyti séu í eigu annarra en ríkisins.  Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1982 segi að hljómsveitin sé sjálfstæð stofnun með sérstakan fjárhag og lúti sérstakri stjórn.  Samkvæmt 3. gr. sé rekstrarkostnaður greiddur af fjórum aðilum, ríkissjóði, Ríkisútvarpinu, Reykjavíkurborg og Seltjarnarneskaupstað.  Ljóst sé því að stefndi sé í eigu fleiri aðila en ríkisins.  Ákvæði laga nr. 70/1996 gildi því ekki um gerð og slit ráðningarsamninga við starfsmenn, heldur almennar reglur vinnuréttar. 

Stefndi mótmælir því að uppsögn stefnanda sé ólögmæt samkvæmt stjórn­sýslulögum nr. 37/1993.  Stefndi mótmælir því ekki að hann sé stjórnvald í skilningi 2. mgr. 1. gr. laganna.  Það leiði þó ekki til þess að lögin gildi um uppsögn starfs­manna.  Telur hann að uppsögn stefnanda sé ekki stjórnvaldsákvörðun sem gæta þurfi formreglna laganna við.  Vísar hann til þess að lögin gildi samkvæmt 1. mgr. 1. gr. þeirra þegar stjórnvöld taki ákvarðanir um réttindi og skyldur manna.  Fram komi í greinargerð að til stjórnvaldsákvarðana teljist ákvarðanir um ráðningu og uppsögn opinberra starfsmanna.  Lögin gildi því ekki um ráðningu og uppsögn annarra starfsmanna. 

Stefndi segir að um ráðningu stefnanda hafi gilt almennar reglur vinnuréttar.  Ráðningin hafi verið með gagnkvæmum uppsagnarfresti og áminning hafi ekki verið nauðsynlegur undanfari uppsagnar. 

Stefndi segir að þó ekki hafi verið skylt að áminna stefnanda hafi það verið gert til þess að hann ætti þess kost að bæta ráð sitt.  Þar sem hann hafi ekki gert það hafi að sjálfsögðu verið hægt að segja honum upp, án tillits til áminningarinnar. 

Þó stefndi telji að lög nr. 70/1996 gildi ekki í þessu tilviki verði hann að mótmæla þeirri málsástæðu stefnanda að ekki sé unnt að segja upp af sömu ástæðu og áminnt er fyrir.  Hvergi sé á það minnst í 21. eða 44. gr. laganna.  Eðli máls samkvæmt hljóti uppsögn að byggjast á sama grundvelli og áminning ef starfsmaður bætir ekki ráð sitt.  Stefndi kveðst telja að stefndi hafi sýnt af sér ámælisverða háttsemi sem hafi ekki samræmst starfsskyldum hans. 

Þá styður stefndi sýknukröfu sína þeim rökum að skaðabótakrafa stefnanda sé með öllu ósönnuð.  Engin gögn hafi verið lögð fram um tjónið og sé krafan því órökstudd og ósönnuð.  Sú meginregla gildi að stefnandi verði að sanna að hann hafi orðið fyrir tjóni og hvert það sé.  Þá sé ósannað að stefnandi hafi tapað launum í tvö ár. 

Varakrafa um lækkun stefnukröfu er studd því að krafan sé of há.  Stefnandi hafi ekki verið launalaus í tvö ár eða orðið fyrir tjóni sem því nemur.  Fram komi í stefnu að hann hafi verið atvinnulaus í átta mánuði.  Þá mótmælir stefndi því að miða eigi við annað en föst laun stefnanda þá mánuði sem hann var atvinnulaus.  Ekki eigi að taka tillit til ökutækjastyrks og umsaminnar óunninnar yfirvinnu. 

Þá beri að lækka bótakröfuna um fjárhæð sem nemur staðgreiðslu af launum samkvæmt 7. tl. 5. gr. laga nr. 45/1987 með síðari breytingum. 

Þá mótmælir stefndi miskabótakröfu sem órökstuddri og ósannaðri, ekkert liggi fyrrir um að réttur til miskabóta hafi stofnast.  Fyrir því beri stefnandi sönnunarbyrðina. 

Stefndi mótmælir kröfu um dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi. 

Stefndi vísar til almennra reglna vinnuréttar, laga nr. 36/1982, laga nr. 70/1996, laga nr. 37/1993 og almennra reglna skaðabótaréttar. 

Forsendur og niðurstaða. 

Stefnandi var ráðinn til starfa hjá stefnda með skriflegum ráðningarsamningi sem mælti fyrir um þriggja mánaða gagnkvæman uppsagnarfrest.  Uppsögn slíks samnings er almennt heimil án sérstakra tilefna.  Annað gildir ef stefnandi verður talinn ríkisstarfsmaður í skilningi laga nr. 70/1996.  Þá kynnu ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að leiða til annarrar niðurstöðu. 

Meginágreiningur aðila snýst um það hvort telja beri að stefndi sé ríkisstofnun og þar með að lög nr. 70/1996 gildi um réttarstöðu starfsmanna hljómsveitarinnar. 

Um stefnda gilda lög nr. 36/1982.  Í 1. gr. laganna segir að hljómsveitin sé sjálfstæð stofnun með sérstakan fjárhag sem lúti sérstakri stjórn.  Við þetta er því bætt að málefni hennar heyri undir menntamálaráðuneytið.  Stjórn hljómsveitarinnar ræður framkvæmdastjóra. 

Í 3. gr. laganna segir að ríkissjóður, Ríkisútvarpið, Reykjavíkurborg og Seltjarnarnesbær standi að rekstri sveitarinnar og greiði rekstrarkostnað í ákveðnum hlutföllum.  Í 4. mgr. 3. gr. er gert ráð fyrir því að Ríkisútvarpið öðlist tiltekin réttindi með framlagi sínu.  Ekki virðist gert ráð fyrir því að aðrir rekstraraðilar öðlist sérstök réttindi, en í lögunum er ekki að finna neina skýrgreiningu á stöðu rekstraraðilanna, t.d. hvort telja beri þá „eigendur” hljómsveitarinnar og þeirra réttinda sem til verða í starfi hennar.  Í 2. mgr. er gert ráð fyrir því að öðrum sveitarfélögum verði „heimilað” að gerast aðilar að rekstri hljómsveitarinnar.  Meðal efnis í  frumvarpi til laga um breytingu á lögum þessum (132. löggjafarþing, þskj. 518) sem flutt var sl. vetur var að felld skyldi niður aðild Seltjarnarnesbæjar að rekstri sveitarinnar, en ekki var gert ráð fyrir því að sérstakt fjárhagslegt uppgjör ætti sér stað.  Mætti þó vænta þess að slíkt uppgjör færi fram ef í rekstraraðild fælust einhvers konar réttindi. 

Lög nr. 36/1982 voru fyrstu lögin sem sett voru um starfsemi hljómsveitarinnar.  Var hún þó stofnuð löngu fyrr og var framan af örugglega ekki ríkisstofnun.  Fyrsta frumvarp til laga um sveitina var lagt fram á Alþingi 1977 (99. löggjafarþing, þskj. 29).  Í 3. gr. þess frumvarps sagði að hljómsveitin væri „sameign eftirgreindra aðila í sömu hlutföllum og þeir greiða stofn- og rekstrarkostnað ...”  Fylgir síðan upptalning eigendanna og hlutfallstölur.  Málið varð eigi útrætt. 

Á 100. löggjafarþingi var lagt fram frumvarp um hljómsveitina að nýju (þskj. 612).  Nú var í 3. gr. ákveðið að tilgreindir aðilar stæðu að rekstri sveitarinnar og greiddu stofn- og rekstrarkostnað í ákveðnum hlutföllum.  Ekki sagði að þessir aðilar væru sameigendur að sveitinni.  Þessi breyting frá fyrra frumvarpi er ekki skýrð í greinargerð.  Í öðru samhengi segir þó um fjárframlög einstakra aðila að framlag Ríkisútvarpsins væri gegn vinnu sveitarinnar, en að fjárveiting frá sveitarfélögunum væri til að styðja veitta þjónustu.  Þá er talað um beinan fjárstuðning ríkissjóðs. 

Á 101. (þskj. 21) og 102. löggjafarþingi (þskj. 23)  var frumvarpið flutt óbreytt frá 100. löggjafarþingi. 

Á 103. löggjafarþingi var frumvarpið flutt nokkuð breytt (þingskjal 737).  Um þau atriði sem hér reynir á varða þær breytingar þó litlu. 

Loks á 104. löggjafarþingi (þskj. 3) var frumvarpið samþykkt, en með því frumvarpi var tekin upp greinargerð er fylgt hafði frumvarpinu árið áður. 

Af greinargerðum með frumvörpum þessum verður ekki ráðið að vilji höfunda hafi staðið til þess að gera hljómsveitina að ríkisstofnun.  Svo hefur þó tekist til að áhersla er lögð á að hljómsveitin sé sjálfstæð stofnun og því bætt við að hún heyri undir menntamálaráðuneytið. 

Í greinargerð með frumvarpinu á 103. löggjafarþingi (þskj. 737), sem eins og áður segir var tekið upp með því frumvarpi sem síðar var samþykkt, segir m.a.:  „Megintilgangur frumvarpsins er að setja á stofn Sinfóníuhljómsveit Íslands sem sjálfstæða menningarstofnun, er starfi undir menntamálaráðuneytinu.  Með frumvarpi þessu er stefnt að því að tryggja fjárhagsgrundvöll hljómsveitarinnar, setja stofnuninni hæfileg markmið og verkefni með lögum og gera henni kleift að taka upp samninga við aðra á sviði menningarmála.  Frumvarpið stefnir að því að allur rekstur hljómsveitarinnar verði sjálfstæður og hafi það fyrst og fremst að markmiði að þjóna því menningarhlutverki sem sinfóníuhljómsveitir um allan heim gegna.” 

Lög nr. 36/1982 segja ekki berum orðum að Sinfóníuhljómsveit Íslands sé sjálfseignarstofnun.  Þó að vilji til þess kunni að felast í orðum greinargerðar má eins skilja tilvísun til þess að menningarstofnun sé sett á stofn svo að um sé að ræða ríkisstofnun í venjulegum skilningi.  Verður ekki fallist á að hljómsveitin sé sjálfseignarstofnun.  Hljómsveitin var til löngu áður en lögin voru sett, en þau og reglugerð samkvæmt þeim setja starfsemi hennar tæmandi reglur.  Hljómsveitin er rekin að öllu leyti sem ríkisstofnun væri, nema hvað tvö sveitarfélög greiða til ríkissjóðs tiltekið hlutfall af opinberum fjárframlögum til sveitarinnar.  Þó skilja beri 3. gr. laganna svo að ríkissjóður sé ekki ábyrgur fyrir fjárhagsskuldbindingum sveitarinnar nema að ákveðnum hluta, verður að telja að Sinfóníuhljómsveit Íslands sé ríkisstofnun og að stefnandi hafi verið ráðinn í þjónustu ríkisins í skilningi laga nr. 70/1996. 

Uppsögn stefnanda úr starfi var samkvæmt framangreindu byggð á því að stefnandi hefði gerst sekur um mistök í starfi, slík sem fjallað er um í 21. gr. laganna.  Bar því samkvæmt 44. gr. að veita honum áminningu og gefa kost á að bæta ráð sitt.  Samkvæmt lokamálslið 21. gr. laga nr. 70/1996 bar að gefa stefnanda kost á að tala máli sínu áður en honum var veitt áminning.  Þessa var ekki gætt áður en hann var áminntur þann 4. júní 2004.  Þá byggir uppsögnin á sömu atvikum og áminnt var fyrir.  Rétt er hjá stefnda að uppsögn getur byggst á sams konar yfirsjónum og áminnt er fyrir, en ekki þeim hinum sömu.  Stefndi hefur ekki reynt að sanna þær ávirðingar sem hann ber á stefnanda og eru þær því ósannaðar gegn mótmælum stefnanda.  Þarf þá ekki að fjalla frekar um hvort ástæður uppsagnarinnar hafi verið málefnalegar. 

Uppsögn stefnanda var ólögmæt.  Því ber stefnda að bæta stefnanda tjón hans af uppsögninni.  Atvik eru hins vegar ekki með þeim hætti að dæmdar verði miska­bætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga.  Stefnandi var atvinnulaus um skeið eftir að hann hvarf úr starfi hjá stefnda.  Hann hefur síðan haft atvinnu, en kveðst hafa lægri tekjur.  Er að álitum hæfilegt að miða bætur til hans við laun í tólf mánuði.  Miða verður við venjulegar launagreiðslur til hans, en ekki verður tekið tillit til endur­greiðslu kostnaðar, svo sem bifreiðastyrks.  Ekki verður fjallað um skattgreiðslur eða skil á staðgreiðslu í þessu máli. 

Krafa stefnanda um greiðslu á 6.587.660 krónum miðar sennilega við að hann hafi haft 274.486 krónur í mánaðarlaun.  Þó er sá galli á stefnu að þessu leyti að hann kveðst krefjast 500.000 króna miskabóta, en heildarfjárhæð stefnukröfu er samt sem áður óbreytt.  Verður því að telja að launaviðmiðun í kröfunni sé 6.087.660 krónur á tveimur árum, eða 253.652,50 krónur á mánuði.  Má eftir atvikum og með hliðsjón af framlögðum launaseðlum stefnanda fallast á að rétt sé að miða við þessa fjárhæð, en eins og áður segir er ekki rétt að reikna með bifreiðastyrk.  Stefnanda verða því dæmdar 3.043.830 krónur.  Dráttarvextir dæmast eins og krafist er frá 6. febrúar 2005.

Stefndi skal greiða stefnanda málskostnað, sem er hæfilega ákveðinn 700.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

Stefndi, Sinfóníuhljómsveit Íslands, greiði stefnanda, Þjóðólfi Gunnarssyni, 3.043.830 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. febrúar 2005 til greiðsludags og 700.000 krónur í málskostnað.