Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-132

A (Jón Sigurðsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Soffía Jónsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Opinberir starfsmenn
  • Uppsögn
  • Stjórnsýsla
  • Miskabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 30. nóvember 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja þeim hluta dóms Landsréttar 3. nóvember 2023 í máli nr. 459/2022: Íslenska ríkið gegn A sem Landsréttur vísaði ekki frá héraðsdómi. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort uppsögn leyfisbeiðanda úr starfi hjá B hafi verið lögmæt og hvort forsendur að baki henni standist.

4. Með héraðsdómi var fallist á bótaskyldu gagnaðila þar sem forstöðumaður B hefði með ákvörðun sinni um að leggja niður starf leyfisbeiðanda brotið gegn rétti hans með saknæmum og ólögmætum hætti. Með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda, en krafa byggð á ætluðu tjóni hans vegna búferlaflutninga vísað frá héraðsdómi. Með dómi Hæstaréttar 13. desember 2023 í máli nr. 53/2023 var sú dómsathöfn Landsréttar staðfest. Í dómi Landsréttar er rakið að forstöðumenn ríkisstofnana hafi rúmar heimildir til að taka ákvarðanir um hagræðingu í rekstri og ákvörðun um niðurlagningu á starfi leyfisbeiðanda hafi verið tekin í kjölfar heildstæðrar greiningar á því hvernig unnt væri að mæta aðhaldskröfum fyrir B. Þá þótti ákvörðunin hafa byggst á málefnalegu mati og tókst leyfisbeiðanda að mati Landsréttar ekki að sýna fram á að uppsögnin hefði verið löngu áformuð eða að hana mætti rekja til persónu leyfisbeiðanda eða framgöngu í starfi. Var ákvörðunin því ekki talin ólögmæt, andstæð réttmætisreglu eða 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Enn fremur var ekki talið að B hefði brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. laganna.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því í fyrsta lagi að málið hafi verulegt almennt gildi meðal annars um túlkun og samspil ákvæða 19. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins varðandi breytingar á störfum starfsmanns og verksviði annars vegar og hins vegar 44. gr. sömu laga um niðurlagningu starfs og uppsögn starfsmanns. Leyfisbeiðandi telur að dómur Landsréttar feli í sér nýmæli þar sem vinnuveitanda hafi verið talið heimilt að breyta starfi og segja starfsmanni samhliða upp störfum, án þess að það komi fram í henni að verið sé að segja starfsmanni upp störfum eða leggja niður starf hans. Í öðru lagi byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði verulega hagsmuni sína þar sem ákvörðunin hafi bakað honum umtalsvert tjón. Í þriðja lagi byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til meðal annars þar sem að dómsniðurstaðan samræmist hvorki lögum né dómaframkvæmd á sviði opinbers starfsmannaréttar og að hæglega hefði mátt komast hjá uppsögn leyfisbeiðanda að gættri meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.