Hæstiréttur íslands
Mál nr. 124/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 30. apríl 2004. |
|
Nr. 124/2004. |
Rúbín ehf. (sjálfur) gegn sýslumanninum í Hafnarfirði (enginn) |
Kærumál. Nauðungarsala. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Máli R ehf. á hendur S var vísað frá héraðsdómi þar sem ekki var fullnægt skilyrðum 2. mgr. 73. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. mars 2004. Kærumálsgögn bárust réttinum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. febrúar 2004, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til j. liðar 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega „að úrskurði héraðsdómara verði hrundið og frávísunarkröfu varnaraðila hafnað“, en til vara „að úrskurði héraðsdómara verði hrundið og málinu vísað aftur heim í hérað til löglegrar dómsmeðferðar og úrlausnar að nýju.“ Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Í athugasemdum varnaraðila 18. mars 2004 kemur fram að hann geri engar kröfur fyrir Hæstarétti.
I.
Hinn 5. nóvember 2003 var fasteignin Hæðarbyggð 27 Garðabæ boðin upp á framhaldsuppboði. Sóknaraðili var gerðarþoli en hæstbjóðandi var Kaupþing Búnaðarbanki hf. er bauð 32.000.000 krónur í eignina. Með bréfum varnaraðila 20. nóvember 2003 var aðilum að nauðungarsölunni sent frumvarp að úthlutunargerð söluverðs, en samkvæmt frumvarpinu skyldi frestur til athugasemda renna út 4. desember 2003. Var frumvarpið á ný sent aðilum með bréfum 5. sama mánaðar, þar sem tilgreint var að frestur til athugasemda hefði verið lengdur til 12. sama mánaðar. Með bréfi 2. desember 2003 sendi sóknaraðili athugasemdir við frumvarpið þar sem kröfum tveggja tilgreindra gerðarbeiðenda var mótmælt „sem of háum og að hluta til röngum og ólögmætum“. Var um lagarök meðal annars vísað til VIII. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, einkum ákvæða 51. gr. laganna. Hinn 16. desember 2003 voru aðilum nauðungarsölunnar, þar á meðal sóknaraðila, send boðunarbréf til fundar samkvæmt 52. gr. laga nr. 90/1991, þar sem taka átti mótmælin fyrir. Fundurinn var haldinn 6. janúar 2004, en ekki var mætt til hans af hálfu sóknaraðila. Var þar tekin ákvörðun um að hafna framkomnum mótmælum hans. Var sú niðurstaða kynnt sóknaraðila með bréfi varnaraðila sama dag. Hæstbjóðanda var veitt afsal fyrir eigninni 22. janúar 2004 og afrit þess sent öðrum aðilum uppboðsins með bréfum sama dag. Með ódagsettu bréfi, mótteknu af Héraðsdómi Reykjaness 4. febrúar 2004, krafðist sóknaraðili úrlausnar dómsins „varðandi ágreining vegna frumvarps um úthlutun á uppboðsandvirði v. nauðungarsölu á fasteigninni Hæðarbyggð 27, Garðabæ.“ Ekki var vísað sérstaklega til lagaraka að öðru leyti en því að tilgreint var að gögn hefðu fengist hjá varnaraðila í samræmi við ákvæði 3. mgr. 73. gr. laga nr. 90/1991. Sóknaraðili skilaði ekki frekari greinargerð við rekstur málsins fyrir héraðsdómi. Með boðunarbréfum héraðsdóms 4. febrúar 2004 mun hafa verið tilkynnt að sýslumaðurinn í Hafnarfirði skyldi vera varnaraðili í máli þessu. Við þingfestingu málsins 16. sama mánaðar var bókað eftir varnaraðila að hann teldi að vísa bæri málinu frá dómi á þeim grunni að framkomin krafa sóknaraðila væri ekki þannig úr garði gerð að hún uppfyllti skilyrði laga nr. 90/1991, þar sem ekki væri tilgreind nein lagagrein um ástæður hennar. Þá væri ekki ljóst hvort varnaraðili ætti aðild að málinu og ekki heldur hvort sóknaraðili æskti þess að reka málið eftir XIII. kafla eða XIV. kafla laga nr. 90/1991. Í þinghaldi 23. febrúar 2004 var bókað eftir sóknaraðila að hann reisi málatilbúnað sinn á XIV. kafla laganna og vísaði hann sérstaklega til 80. gr. og 81. gr. þeirra. Eins og áður segir var málinu vísað sjálfkrafa frá dómi með úrskurði héraðsdóms 27. febrúar 2004. Var það gert á þeim grunni að skort hafi á hjá sóknaraðila að tilgreina hvort hann vildi að málið yrði rekið samkvæmt ákvæðum XIII. kafla eða XIV. kafla laga nr. 90/1991 og jafnframt að sóknaraðili hafi látið hjá líða að koma með skýr lagarök fyrir kröfu sinni. Þá lét héraðsdómari þess sérstaklega getið að 81. gr. laganna kveði á um að í kröfu um úrlausn samkvæmt XIV. kafla þeirra beri að tilgreina sérstaklega þá sem talið er að eigi aðild að málinu. Hvorki sé ljóst af málatilbúnaði sóknaraðila hverjir séu aðilar þess né á hverju þeir eigi að byggja varnir sínar, þar á meðal um skilyrði þess að kröfur sóknaraðila komist að.
II.
Í kæru sinni til Hæstaréttar getur sóknaraðili þess að hann reisi kröfu sína á því að hann hafi í málskoti sínu til héraðsdóms uppfyllt lagaskilyrði þar sem hann hafi beint kröfugerð sinni „að þeim aðilum nauðungarsölunnar sem hann telur að skert hafi hagsmuni hans“, eða hinum tveimur tilgreindu uppboðsbeiðendum, Lífeyrissjóðnum Framsýn og Kaupþingi Búnaðarbanka hf. en ekki sýslumanninum í Hafnarfirði. Héraðsdómari hafi hins vegar ranglega boðað sýslumann til þinghalds og tilgreint hann sem varnaraðila. Þá kveður sóknaraðili ljóst að málskot hans til héraðsdóms sé reist á ákvæðum XIV. kafla laga nr. 90/1991, en hann hafi átt val um það hvort málið yrði rekið eftir þeim kafla eða XIII. kafla laganna. Hafi hann látið bóka um það sérstaklega við þingfestingu málsins að með það skyldi fara samkvæmt ákvæðum XIV. kafla. Hafi ákvæði 2. mgr. 73. gr. laganna því ekki átt að koma til álita. Þá beri að hafa í huga að sóknaraðili hafi í mótmælum sínum vísað til ákvæða 51. gr. en ekki 52. gr. laganna. Hafi héraðsdómur samkvæmt þessu ekki tekið málið fyrir efnislega eins og honum hafi borið.
Varnaraðili hefur í athugasemdum sínum til Hæstaréttar vísað til 6. mgr. 73. gr., sbr. 3. mgr. 46. gr. og 3. mgr. 82. gr. laga nr. 90/1991 til stuðnings því að hann eigi ekki aðild að málinu, enda hafi hann engra lögmætra hagsmuna að gæta vegna krafna sóknaraðila.
Þá hefur héraðsdómari sent Hæstarétti athugasemdir sínar þar sem hann tekur fram að miðað við málskot sóknaraðila til héraðsdóms og gögn er því fylgdu hafi hann talið að „spurningin væri um að fá úrlausn skv. 73. gr. laga nr. 90/1991.“
III.
Málatilbúnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti verður ekki skilinn öðruvísi en svo að hann krefjist þess að málinu verði vísað heim í hérað til efnismeðferðar. Hvorki er því haldið fram af hálfu sóknaraðila að hann hafi ekki fengið þær tilkynningar, sem að framan getur vegna nauðungarsölunnar, né að lögmæt forföll hafi staðið í vegi fyrir því að hann gæti sótt áðurnefndan fund 6. janúar 2004. Sóknaraðili telur að með málið eigi að fara samkvæmt ákvæðum XIV. kafla laga nr. 90/1991. Í þessu sambandi verður þó að horfa til inntaks kröfugerðar hans fyrir héraðsdómi, sem lýtur einvörðungu að því að tekin verði til greina mótmæli hans við frumvarpi að úthlutun söluverðs samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laganna. Þau mótmæli fengu hins vegar lögmælta afgreiðslu með því að sýslumaður tók sérstaka ákvörðun í samræmi við ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/1991 þar sem mótmælum sóknaraðila var hafnað. Sóknaraðili nýtti hins vegar ekki þá leið að freista þess að leita úrlausnar héraðsdóms um þá ákvörðun í samræmi við ákvæði 2. mgr. 73. gr. laga nr. 90/1991 og þá á grundvelli ákvæða XIII. kafla laganna. Lauk uppboðinu í samræmi við ákvæði V. kafla laga nr. 90/1991.
Samkvæmt framanrituðu fullnægði sóknaraðili ekki skilyrðum 2. mgr. 73. gr. laga nr. 90/1991 til að mega bera mál þetta undir héraðsdóm. Að þessu virtu er staðfest ákvörðun héraðsdómara um frávísun málsins. Reynir þá ekki sérstaklega á önnur atriði, svo sem aðild sýslumanns að málinu.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Máli þessu er sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. febrúar 2004.
Málið er tekið til úrskurðar með vísun í 1. mgr. 74. gr. og 1. mgr. 82. gr. laga nr. 90/1991 á grundvelli frumathugunar, þó að skýringa hafi verið leitað í málinu hér fyrir dómi.
Með ódagsettri kæru sem barst dóminum 4. febrúar s.l. krefst sóknaraðili þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði um ágreiningsefni vegna mótmæla uppboðsþola við frumvarpi Sýslumannsins í Hafnarfirði varðandi úthlutun uppboðsandvirðis vegna nauðungarsölu á eign gerðarþola Hæðarbyggð 27, Garðabæ, sem fram fór 5. nóvember s.l. og var KB banki (áður Kaupþing Búnaðarbanki) hæstbjóðandi.
Af hálfu sýslumansins hefur verið bent á að vísa beri málinu frá án kröfu þar sem kæran uppfylli ekki skilyrði laga nr. 90/1991, með því að ekki sé tilgreind nein lagagrein um ástæðu kærunnar, en sóknaraðili hefur vísað til mótmæla sinna dags. 2. desember s.l., skjal nr. 244, en á það vantaði 3. blaðsíðu, sem barst réttinum í þinghaldi 16. febrúar s.l. og er þar tilvísun í 51. gr. laga nr. 90/1991. Fram er komið hjá sýslumanni að frestur til að skila mótmælum hafi verið framlengdur til 12. desember og komu mótmæli sóknaraðila fram innan tiltekins tíma og tók sýslumaður afstöðu til þeirra 6. janúar s.l. og sendi sóknaraðila tilkynningu þar um sama dag til sóknaraðila, en ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að sóknaraðili hafi átt að fá þessa tilkynningu og skv. 2. mgr. 73. gr. laga nr. 90/1991, hafði hann þá viku til að tilkynna sýslumanni að hann ætlaði að leita úrlausnar dómstóla um ágreiningsefnið en slík tilkynning mun ekki hafa borist sýslumanni.
Vísun sóknaraðila í 52. gr. laganna í mótmælum hans í bréfi dags. 2. desember s.l. bendir samt til þess, að hann hafi kært til Héraðsdóms skv. XIII. kafla laganna, þó að síðar hafi hann nefnt XIV. kafla laganna. Þá hefur sýslumaður bent á, að ekki verði séð að hann,sýslumaður, eigi aðild að málinu sbr. 6. mgr. 73. og 3. mgr. 82. gr. laganna.
Telja verður að það sé frumskilyrði til að kæra sé tekin til meðferðar fyrir dómi, að í henni eða mótmælum sem hún byggi á komi fram hvort hún byggi á XIII. eða XIV. kafla laga nr. 90/1991 og þar séu og skýr lagarök fyrir kröfunni. Þá er í 81. gr. laganna kveðið á um, að í kæru skv. XIV. kafla verði taldir aðilar að málinu, en þess er ekki getið í kærunni.
Þegar þetta er virt, verður að telja að það miklir ágallar séu á kærunni, þar sem ekki verður ráðið af henni hverjir sé aðilar í málinu, né gæti þeim verið ljóst á hverju þeir eigi að byggja varnir sínar í málinu vegna ónógra lagaraka þ.á.m. um skilyrði þess að kröfur sóknaraðila komist að. Það þykir því ekki komist hjá því að víkja málinu frá dómi án kröfu.
Úrskurð þennan kveður upp Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari.
ÚRSKURÐARORÐ
Máli þessu um ágreining um úthlutun uppboðsandvirðis vegna nauðungarsölu á fasteigninni Hæðarbyggð 27, Garðabæ er vísað frá dómi án kröfu.