Hæstiréttur íslands

Mál nr. 370/1999


Lykilorð

  • Hjón
  • Fjárskipti


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000.

Nr. 370/1999.

Jónas Jón Hallsson

(Magnús M. Norðdahl hrl.)

gegn

Kristjönu Albertsdóttur

(Friðjón Örn Friðjónsson hrl.)

 

Hjón. Fjárskipti.

J var dæmdur til að endurgreiða K kröfu sem hún greiddi, en J hafði tekið að sér að greiða kröfuna samkvæmt fjárskiptasamningi þeirra við skilnað. Fallist var á að krafa K sætti lækkun vegna skuldar við greiðslukortafyrirtæki sem hún hafði ekki greitt að því marki sem samningurinn kvað á um.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Hjörtur Torfason.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 20. september 1999. Hann krefst þess, að héraðsdómi verði breytt á þá leið, að dómkröfur stefndu verði lækkaðar um allt að 562.843 krónur. Hann krefst þess, að málskostnaður í héraði verði felldur niður en til vara lækkaður verulega. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms, þó þannig að áfrýjanda verði gert að greiða sér 744.249 krónur í stað 777.700 króna. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

I.

Málsaðilar fengu leyfisbréf til skilnaðar að borði og sæng 18. september 1996. Var þar tekið fram, að samkomulag væri um fjárskipti, sbr. samning þeirra 1. september 1996. Lögskilnaðarleyfi var gefið út 18. júní 1997, án þess að nokkrar breytingar væru gerðar á fjárskiptasamningnum.

Samkvæmt eignaskiptasamningnum tók áfrýjandi að sér að greiða skuldabréf við Íslandsbanka hf., þá að eftirstöðvum 545.980 krónur, auk vanskila 26.000 krónur. Greiddi hann af skuldabréfinu fram til 1. janúar 1997, er hann hætti því, og leysti stefnda skuldabréfið til sín í október 1998 með því að greiða bankanum alls 777.700 krónur. Í máli þessu krefur stefnda áfrýjanda um endurgreiðslu þess fjár.  Í héraði hafði áfrýjandi uppi kröfur til skuldajafnaðar í sjö liðum, en hefur hér fyrir dómi fækkað þeim niður í tvær. Krefst hann lækkunar dómkrafna annars vegar vegna visaskuldar, 325.284 krónur, sem stefnda hafi tekið að sér að greiða samkvæmt eignaskiptasamningnum, og hins vegar 237.559 króna lækkunar vegna þess að stefnda hafi ekki takmarkað tjón sitt vegna framangreinds skuldabréfs þannig að mikill vaxta- og innheimtukostnaður féll á skuldina.

II.

Eignaskiptasamningurinn er dagsettur 1. september 1996, en aðilar deila um það, hvenær hann hafði verið gerður. Stefnda heldur því fram, að hann hafi verið gerður seint í maí eða byrjun júní, þótt ekki væri gengið endanlega frá honum fyrr en 1. september, en áfrýjandi telur hann hafa verið gerðan skömmu fyrir dagsetningu hans. Telur stefnda, að samið hafi verið um, að hún tæki að sér að greiða visaskuldir vegna tímabilsins 18. apríl til maíloka, auk nokkurra raðgreiðslna og annarra úttekta í fyrrihluta júnímánaðar. Þetta hafi því verið úttektir, sem hafi átt að greiðast í júní og júlí. Í eignaskiptasamningnum er tekið fram, að stefnda taki að sér að greiða „Visaskuld v/júní“ 182.000 krónur og „Visaskuld v/júlí“ 143.284 krónur, eða samtals 325.284 krónur. Fyrir liggur, að 6. og 7. júní 1996 greiddi stefnda visaskuld vegna tímabilsins 18. apríl til 17. maí 1996 með gjalddaga 5. júní 1996, að fjárhæð 181.429,60 krónur, og 110.403 krónur inn á visaskuld vegna tímabilsins 18. maí til 17. júní 1996 með gjalddaga 3. júlí 1996. Visakort það, sem hér um ræðir, var á nafni áfrýjanda, en stefnda hafði aukakort með samþykki hans. Staðfest er af bankanum, að aukakortinu hafi verið sagt upp 31. maí 1996. Áfrýjandi bar ekki fyrir sig vanefndir stefndu um þetta í fyrirtökum vegna lögskilnaðarins og hreyfði fyrst athugasemdum í greinargerð sinni í héraði. Gegn mótmælum stefndu verður að telja ósannað, að orðalag samningsins hafi tekið til úttekta í júní og júlí fremur en til þeirra greiðslna, sem féllu í gjalddaga í þeim mánuðum. Samkvæmt því, sem að framan greinir, vantar 33.451,40 krónur til að stefnda hafi greitt umsamdar visaskuldir samkvæmt samningnum, og hefur hún lækkað kröfu sína sem því nemur.

Áfrýjandi krefst þess, að miðað verði við fjárhæð skuldabréfsins, sem hann tók að sér að greiða samkvæmt eignaskiptasamningnum, eins og hún var, er hann hætti að greiða af því 1. janúar 1997, eða 540.141 krónu í stað 777.700 króna, sem stefnda greiddi. Telur hann sig hafa haft lögmæta ástæðu til að halda að sér höndum um greiðslu skuldarinnar vegna vanefnda stefndu á samningnum. Eins og að framan greinir er ekki fallist á það, að stefnda hafi vanefnt samninginn svo að máli skipti, og verður krafa hennar tekin til greina eins og hún er nú orðin, 744.249 krónur með vöxtum svo sem segir í dómsorði.

Áfrýjandi greiði málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Jónas Jón Hallsson, greiði stefndu, Kristjönu Albertsdóttur, 744.249 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. desember 1998 til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefndu 100.000 krónur í málskostnað í héraði og 120.000 krónur, sem renni í ríkissjóð, í málskostnað fyrir Hæstarétti. Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar,  120.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var 26. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kristjönu Albertsdóttur, kt. 070749-3009, Hverfisgötu 78, Reykjavík, á hendur Jónasi Jóni Hallssyni, kt. 011049-3129, Hörgshlíð 24, Reykjavík, með stefnu, sem birt var 13. desember 1998.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 777.700 kr. með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. október 1998 til greiðsludags. Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrst skipti 15. október 1999 en síðan árlega þann dag. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda skv. gjaldskrá Lögmanna við Austurvöll auk virðisaukaskatts.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins. Til vara er þess krafist að dómkröfur verði verulega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

 

I.

 

Aðilum ber ekki saman um aðdraganda þessa máls en stefnandi lýsir honum á þennan hátt í stefnu: „Skuld þessi er samkvæmt eignaskiptasamningi dags. 01.09.1996, vegna skilnaðar stefnanda og stefndu. Stefndi útbjó samninginn sjálfur og staðfesti hann efni hans með undirritun sinni og stefnandi einnig.

 

Stefnandi og stefndi sóttu síðan um leyfi til skilnaðar að borði og sæng hjá Sýslumannsembættinu í Reykjavík og var það gefið út þann 18. september 1996. Í leyfinu er tekið fram að samkomulag sé um fjárskipti hjónanna sbr. samning þeirra ... .

Samkvæmt ofangreindum eignaskiptasamningi stefnanda og stefnda, tók stefndi að sér greiðslu skuldabréfs í Íslandsbanka hf., nr. 004488, þá að eftirstöðvum kr. 545.980.- auk vanskila kr. 26.000.- Stefnandi var útgefandi umrædds skuldabréfs og ábyrgðarmenn voru Már Elísson, kt. 071251-5949 og Bjarni Harðarson, kt. 300865-4619. Stefndi var hins vegar ekki skuldari skv. skuldabréfinu sjálfur. Þegar hann stóð ekki við ákvæði skilnaðarsamnings um greiðslu skuldabréfsins var gengið á stefnanda og ábyrgðarmenn af Íslandsbanka hf. en ekki stefnda.

 

Þann 18. apríl 1997 var fyrirtaka í hjónaskilnaðarmáli stefnanda og stefnda. Fór stefndi fram á lögskilnað með sömu skilnaðarskilmálum og samþykktir voru við skilnað að borði og sæng með þeirri breytingu þó, að stefnandi tæki að sér skuld við Íslandsbanka skv. skuldabréfi nr. 004488. Stefnandi var ekki mætt í fyrirtöku þann 09.05.97, hafnaði stefnandi því að taka að sér frekari skuldir en skv. fjárskiptasamningur gerði ráð fyrir (svo). Benti hún á vanreiknaðar skuldir á fasteign kr. 1.400.000.- auk greiðslu á víxli vegna einkahlutafélagsins, Summu ehf., kr. 310.000.- sem hún hafði þá greitt.

 

Í eignaskiptasamningi þann 01.09.1996 hafði láðst að tilgreina hvernig fara ætti með skipti á einkahlutafélaginu Summu ehf. sem var sameign stefnanda og stefnda. Skömmu seinna undirritaði stefnandi framsal á sínum eignarhluta til stefnda í félaginu án endurgjalds og ábyrgðist með því á sig (svo) allar skuldir félagsins sem þá voru til staðar. Þar á meðal var ofangreindur víxill kr. 310.000.- sem stefnandi greiddi þann 2. maí 1997 með kr. 323.232,40.

 

Þann 26. maí 1997 var hjónaskilnaðarmálið tekið fyrir aftur hjá Sýslumanninum í Reykjavík en þá var eingöngu mættur Magnús Norðdahl lögmaður f.h. stefnda. Fór hann fram á að stefnandi legði fram gögn er staðfestu greiðslu ofangreinds víxils auk vanreiknings á fasteign. Ekki voru ítrekaðar kröfur um að skilnaðarsamningi yrði breytt á þá lund að stefndi losnaði undan skyldu til að greiða skuldabréf nr. 004488 við Íslandsbanka eins og skilnaðarsamningur gerði ráð fyrir.

 

Lögskilnaðarleyfi var síðan gefið út þann 18.06.1997, með sömu skilmálum og í leyfi til skilnaðar að borði og sæng, þ.e. án nokkurra breytinga á fjárskiptasamningi.

 

Í fjárskiptasamningi sagði að stefnandi haldi íbúð að Unufelli 21, Reykjavík, með fullum eignarhluta. Var það sakir þess að vegna misskilnings var talið af stefnda og stefnanda að við skil á íbúðinni til Húsnæðisnefndar Reykjavíkur, yrðu kr.1.396.164.-(svo). Báðum yfirsást að neðar á útreikningsblaðinu, dags. 21.05.1996, kom fram að þar fyrir utan væru skuldir samtals að fjárhæð kr. 2.209.979.- og áttuðu sig ekki á því að ekkert kæmi til útborgunar, eingöngu stæði eftir skuld við Húsnæðisnefnd Reykjavíkur. Þegar stefnandi gekk endanlega frá afsali eignarinnar til Húsnæðisnefndar, þann 25.10.1997, kom því ekkert til greiðslu en stefnandi skuldar enn kr. 1.504.790.- þar sem við endanlegt uppgjör námu veðskuldir kr. 2.578.491.- en eignarhluti stefnanda nam aðeins kr. 1.073.701.- Af þessu leiðir að mikið hallar á stefnanda skv. fjárskiptasamningi hennar og stefnda eða um eina og hálfa milljón. Því til viðbótar greiddi stefnandi víxil vegna Summu ehf., eftir að hafa framselt eignarhluta sinn í félaginu til stefnda án greiðslu.

 

Ítrekað var reynt að fá stefnda til að standa við sinn hluta eignarskiptasamningsins en án árangurs en innheimtuaðgerðum af hálfu Íslandsbanka var beint gegn stefnanda og ábyrgðarmönnum skuldabréfsins. Var því m.a. borið við af hálfu stefnda, að stefndi teldi að skattlagning sín hefði verið röng þar sem ekki hefði verið skilað inn sameiginlegu skattframtali hans og stefnanda. Það mál var kært af stefnda til skattyfirvalda en hann vildi ekki að ósk stefnanda skila inn sameiginlegu framtali eins og endurskoðandi þeirra lagði til, svo hægt væri að fá leiðréttingu. Þar fyrir utan breytir það engu um skyldu hans til greiðslu umkrafins skuldabréfs skv. eignaskiptasamningi.

 

Stefnandi hefur að fullu staðið við sinn hlut samningsins og ber stefnda að gera það sama. Stefndi ber greiðsluskyldu gagnvart stefnanda á þeirri fjárhæð er hún varð að inna af hendi gagnvart Íslandsbanka auk alls kostnaðar, er stefndi lét undir höfuð leggjast að greiða skuld þá (svo) er hann samdi um við stefnanda að greiða skv. fjárskiptasamningi þeirra. Stefnandi innleysti skuldabréfið til sín þann 15. október 1998 en þá nam skuldin með dráttarvöxtum og kostnaði samtals kr. 767.331.-"

 

Stefnandi lýsir málavöxtum í greinargerð sinni á eftirfarandi hátt:

„1.Stefnandi og stefndi undirrituðu eignaskiptasamning þann 1.9 1996. Samninginn samdi stefnandi en stefndi vélritaði hann.

2.Það er rangt að "láðst" hafi að ganga frá skiptum á Summu ehf. Sjálf útbjó stefnandi með eigin hendi drög að skulda- og eignaryfirliti sbr. dskj. 24. Samkvæmt því námu skuldir kr. 1.517.950.00. útistandandi kröfur námu kr. 146.935.00 og vörur að andvirði kr. 36.000.00 höfðu verið pantaðar og lágu í tolli. Þegar til kom námu skuldir kr. 1.710.051.00. Þar af skuldir með persónulegri ábyrgð stefnanda kr. 848.000.00. Á árinu 1995 var tap á reglulegri starfsemi kr. 330.918.00 án fjármunatekna og gjalda. Skuldir 31.12 1995 námu kr. 1.623.795.00 og eignir kr. 537.980.00. Sjá dskj. 25. Á árinu 1996 var tap á reglulegri starfsemi kr. 153.909.00 án fjármunatekna og gjalda. Skuldir 31.12 1996 námu kr. 1.776.625.00 og eignir kr. 278.183.00. Sjá dskj. 25. Hinn 4.10 1996 fékk stefndi prókúru fyrir félagið sbr. dskj. 26 og úr var að hann tók að fullu og öllu við rekstri þess gegn því að sjá til þess að stefnandi, sem bar persónulega ábyrgð á verulegum hluta af skuldum félagsins, bæri ekki skaða af. Undanskiln var skv. eigin tillögu stefnanda, víxill að fjárhæð kr. 310.000.00, sem hún ein bar ábyrgð á. Stefndi tók að öðru leyti að sér ábyrgð á skuldum félagsins, á í þeim enn.

3.Stefnandi heldur því fram að það hafi dulist stefnanda hvernig fara myndi um uppgjör á íbúð hennar í verkamannabústöðum sem hún hafði keypt og skuldsett áður en hún og stefndi tóku upp sambúð. Það er fjarri lagi. Uppgjör dags. 21.5 1996 tilgreinir nákvæmlega hvaða skuldir er um að ræða og dylst ekki við lestur skjalsins að ekki var um inneign að ræða heldur skuld. Þennan útreikning kynnti hún ekki fyrir stefnda. Þau voru hins vegar ásátt um að þar sem stefnandi hafði keypt íbúðina áður en þau gengu í hjúskap skyldi íbúðin vera hennar en ekki hans og ekki koma undir skiptin. Í því fólst búsetu öryggi fyrir stefnanda sem ekki þótti ástæða til að raska enda alkunna að eignamyndun í félagslega íbúðakerfinu er og hefur verið neikvæð um langt skeið. Hinn 21.5 1996 voru áhvílandi skuldir 1.091.045.00 umfram eignarhlut stefnanda. Dskj. 4. Hinn 25.1 1997 hafði munur þessi vaxið í kr. 1.797.403.00 eða um 706.358.00. Dskj. 8. Ástæður þess voru fyrst og fremst slæm meðferð stefnanda á íbúð sinni og viðvarandi vanskil hennar eftir að sambúð stefnanda og stefnda lauk eins og sést þegar uppgjörsblöð þessi eru borin saman. Lögmaður stefnanda byggir engar kröfur á málavaxtalýsingu sinni hér að lútandi enda tekið fram í eignaskiptasamningi aðila að stefnandi haldi íbúðinni eða öllu heldur búseturéttinum. Íbúðin mun síðan hafa verið seld á nauðungaruppboði á árinu 1997 sbr. dskj. 22 en engin gögn liggja frammi um það hvernig því uppboði reiddi af. Þess má geta að um áramótin 1998/1999, þá er Húsnæðisstofnun var lögð niður og Íbúðalánasjóður stofnaður, munu hafa verið afskrifaðar kröfur af þessum toga fyrir 10 milljarða króna.

4.Því er sérstaklega mótmælt að stefnandi hafi staðið við eignaskiptasamning aðila ..."

 

II.

 

Stefnandi sundurliðar dómkröfur sínar á eftirfarandi hátt: Skuldabréf nr. 004488 við Íslandsbanka hf. greiddi stefnandi 15. október 1998. Heildarfjárhæðin með dráttarvöxtum og kostnað var 767.331. Þar af voru 376.661 kr. greiddar hjá Lögfræðiþjónustunni hf. en 390.6l70 kr. hjá Íslandsbanka hf. Gefið var út nýtt skuldabréf að fjárhæð 750.000 kr. Andvirði bréfsins að frádregnu lántökugjaldi nam 741.510 kr. Mismunur á heildarskuldinni og þeirri fjárhæð sem gekk upp í greiðslu skuldabréfsins, nam 25.821 kr. Þessi mismunur var greiddur með því að stefnandi samþykkti víxil að fjárhæð 29.000 kr. Að frádregnum vöxtum og kostnaði 1.878,70 kr. greiddust 27.121,30 kr. af andvirði víxilsins. þannig að 1.300 kr. komu í hlut stefnanda.

Sundurliðun stefnufjárhæðar verður þá þannig:

 

Greitt skuldabréf 004488

kr.

767.331.-

Lántökukostnaður v/skuldabréfs

kr.

8.490.-

Lántökukostnaður v/víxils

kr.

1.879.-

Samtals stefnufjárhæð

kr.

777.700.-

 

Stefnandi byggir á því að við undirritun fjárskiptasamnings, sem lagður var til grundvallar útgáfu leyfis til skilnaðar að borði og sæng og útgáfu lögskilnaðarleyfis, hafi komist á bindandi og fullgildur samningur milli stefnanda og stefnda. Krafa stefnanda á hendur stefnda hvíli á meginreglu um skuldbindingargildi samninga svo og á grunnreglum kröfuréttar en stefnda beri að greiða gjaldfallin vanskil ásamt kostnaði. Þá kveðst stefnandi einnig byggja á reglum um skaðabætur innan samninga.

 

Stefndi tíundar málsástæður sínar og lagarök þannig: Eignaskiptasamningur aðila bindur stefnda til að greiða eða taka að sér að greiða ákveðnar skuldir, sem þar eru tilgreindar, en ekki skuldir sem síðar komu í ljós eða síðar reyndi á. Stefnandi vanefndi eignaskiptasamninginn þegar haustið 1996 og gaf stefnda réttmæta ástæðu til að halda að sér höndum um greiðslu þeirra skuldbindinga sem hann bar ekki ábyrgð á gangvart þriðja manni en sem hann skyldi greiða skv. eignaskiptasamningi aðila. Þannig hafi stefnandi samkvæmt samningi aðila tekið að sér að greiða skuldir við VISA-Ísland vegna júní og júlí 1996 að fjárhæð 325.284 kr. Stefndi varð að greiða þessa kröfu.

Eftir að gengið var frá eignaskiptasamningi aðila féllu á stefnda tvennskonar ábyrgð sem stofnað hafði verið til meðan á hjúskap aðila stóð og ekki er getið um í eignaskiptasamningi: Annars vegar solidarísk ábyrgð stefnanda og stefnda gagnvart þriðja manni og hins vegar ábyrgð, sem stefndi hafði tekið á sig gagnvart þriðja manni á meðan aðilar voru í hjúskap, og hann neyddist til að standa við eftir að gengið hafði verið frá eignaskiptasamningi. Þann 6. maí 1996 kveðst stefndi hafa gengið í solidaríska ábyrgð með stefnanda fyrir skuld dóttur stefnanda, Erlu Harðardóttur, vegna bifreiðakaupa. Skuldin hafi gjaldfallið vegna vanskila og þegar ganga hefði átt að stefnda, en áður en krafan yrði send til lögfræðilegrar innheimtu, hafi stefndi séð um að bifreiðin var seld og hafi hann greitt upp eftirstöðvar lánsins til að takmarka fyrirsjáanlegt tjón sitt, enda hafi stefnandi og dóttir hennar engan vilja sýnt til að greiða. Innbyrðis ábyrgð stefnanda og stefnda á greiðslu í þessu tilviki sé pro rata og krefst stefndi að helmingur þessarar fjárhæðar, 151.116 kr., verði skuldajafnað við dómkröfur stefnanda.

Stefndi heldur fram að áður en eignaskiptasamningurinn var gerður hafi aðilar stofnað til yfirdráttarskuldar á tékkareikningi nr. 114 við Búnaðarbanka Íslands og gengið sameiginlega í ábyrgð. Skuld á tékkareikningi þessum hafi numið 150.000 kr. 1. september 1996 en hennar sé ekki getið í eignaskiptasamningi. Til tryggingar hafði stefnandi gefið út víxill að fjárhæð 150.000 kr. sem samþykktur var af stefnda. Samningur aðila um eignaskipti geti þessa ekki. Víxil þennan kveðst stefndi hafa greitt og krefst hann þess að 75.000 kr., það er helmingi fjárhæðarinnar, verði skuldajafnað við kröfu stefnanda.

Stefndi kveður ógreidda skatta aðila 10. september 1996 hafa numið 79.967 kr. Þetta hafi verið gjöld utan staðgreiðslu skv. álagningu í ágúst 1996. Telur stefndi 39.983 kr. til skuldajafnaðar við kröfu stefnanda.

Á sambúðartíma aðila kveðst stefndi hafa gengið í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldum sonar síns. Skömmu eftir að ritað hafi verið undir eignaskiptasamning aðila hafi hann neyðst til að leysa þær til sín og hafi hann af því tilefni gefið út nýtt skuldabréf að fjárhæð 1.660.000 kr. Stefndi kveðst byggja á því að aðilar þessa máls beri sameiginlega og jafna ábyrgð skv. lögum um fjármál hjóna á efndum enda þótt skuldarinnar hafi ekki verið getið í eignaskiptasamningi. Þarna sé heimilt að skuldajafna við dómkröfur stefnanda.

Á því er einnig byggt að stefnandi hafi ekki leitast við að takmarka tjón sitt. Hann hafi látið kröfu þá sem dómkrafa er byggð á og er samkvæmt skuldabréfi, sem stefndi hafði ekki ábyrgst með áritun sinni á bréfið, drabbast mánuðum saman með þeim afleiðingum að á féllu dráttarvextir og lögfræðikostnaður, sem stefnda gafst ekki færi á að hindra eða koma í veg fyrir.

 

III.

 

Niðurstaða:

 

Svo sem greint hefur verið frá tók stefndi með samningi aðila, dags. 1. september 1996, að sér að greiða skuld stefnanda skv. skuldabréfi, dags. 28. apríl 1993, upphaflega að fjárhæð 780.000 kr., en þegar stefndi samþykkti að greiða skuldina að eftirstöðvum 545.980 kr. auk „vansk. 26.000.00.-". Stefndi kveðst „umyrðalaust" hafa greitt afborganir af skuldabréfi þessu fram að gjalddaganum 1. janúar 1997 en í desember 1996 hafi hann tilkynnt „umboðsmanni" stefnanda, Erlu Harðardóttur, sem er dóttir stefnanda, að hann myndi ekki greiða frekar af umræddu skuldabréfi „ m.a. vegna vanefnda stefnanda á samningi aðila og vegna þeirra ábyrgða sem hann hafði þá þegar neyðst til þess að leysa til sín".

Stefndi staðhæfir að stefnandi hafi vanefnt samning aðila með því að láta á hann falla skuldir við VISA-Ísland samtals að fjárhæð 325.284 kr. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að stefndi hafi greitt þá skuld við VISA-Ísland, sem skuldaskipta-samningur aðila tiltekur að stefnandi eigi að greiða. Gegn mótmælum stefnanda verður því ekki fallist á að stefnandi hafi vanefnt að þessu leyti samning aðila.

Stefndi kveðst hafa greitt skuld Erlu Harðardóttur við Tryggingamiðstöðina hf. að fjárhæð 302.232 kr. skv. reikningi félagsins, dags. 30. janúar 1997. Stefnandi hafi borið óskipta ábyrgð með stefnda á greiðslu skuldarinnar og verði því helmingi þeirrar upphæðar skuldajafnað við dómkröfur stefnanda. Fyrir dómi kvaðst stefndi ekki hafa krafið Erlu um endurgreiðslu. Erla kom sjálf fyrir dóm sem vitni og sagðist greiða stefnda þessa skuld jafnskjótt og hún hefði til þess efni. Móðir hennar, stefnandi þessa máls, hefði aftur á móti hvorki átt aðild að né haft afskipti af viðskiptum hennar við Tryggingamiðstöðina hf. Þannig er krafa stefnda á hendur stefnanda óviss og ógjaldfallin. Verður því ekki fallist á skuldajöfnuð svo sem stefndi í þessu falli krefst.

Stefndi segir að fyrir gerð eignaskiptasamnings aðila 1. september 1996 hafi aðilar stofnað til yfirdráttarskuldar á tékkareikningi nr. 114 við Búnaðarbanka Íslands og gengið í sameiginlega ábyrgð fyrir honum. Skuld á tékkareikningi þessum hafi 1. september 1996 numið 150.000 kr. sem stefndi hafi greitt. Hann telji því 75.000 kr. til skuldajafnaðar kröfu stefnanda. Stefnandi mótmælti því að hafa borið óskipta ábyrgð með stefnda á greiðslu þessarar skuldar og ekki liggja fyrir gögn í málinu sem sanna að staðhæfing stefnda um þetta sé rétt. Skortir því skilyrði skuldajöfnunar.

Stefndi heldur fram að almennar reglur kröfuréttar, svo og reglur um sameiginlega ábyrgð hjóna á skuldum, sem stofnað er til á meðan á hjúskap stendur, valdi því að hann eigi rétt til að stefnandi greiði helming af skattaálagningu hans sem eftir stóð ógreidd 10. september 1996 að fjárhæð 79.967 kr. Lög og reglur leiða ekki sjálfkrafa til sameiginlegrar ábyrgðar hjóna á skuldum eins og stefndi heldur fram. Um skuldaábyrgð hjóna gilda ákvæði X. kafla laga nr. 31/1993. Stefndi á ekki rétt á að stefnandi greiði honum 39.983 kr. með þeim hætti sem hann krefst.

Þá vill stefndi byggja á því að hafa neyðst til að leysa til sín skuldir sonar síns, skuldir, sem hann hafi ábyrgst meðan á sambúð hans og stefnanda stóð. Hann hafi orðið að gefa út nýtt skuldabréf að fjárhæð 1.660.000 kr. Ekki er því haldið fram af stefnda að stefnandi hafi samþykkt með einhverjum hætti að taka á sig ábyrgð á greiðslu þeirrar skuldar. Engin efni eru því til að stefndi eigi þar kröfu á hendur stefnanda að fjárhæð 830.000 kr. eins og hann staðhæfir.

Stefndi krefst þess að til grundvallar uppgjöri aðila verði miðað við að skuld við Íslandsbanka skv. skuldabréfi nr. 4488 hafi samtals numið 540.141 kr. með vöxtum og verðbótum 1. janúar 1997. Frá þeim degi beri hann ekki ábyrgð á áfallandi vöxtum og kostnaði. Á þetta sjónarmið verður ekki fallist. Komi til vanefnda á greiðslu á skuld verða dráttarvextir og innheimtukostnaður viðbót við þá kröfu sem skuldari verður að inna af hendi til að verða laus mála. Í máli þessu hefur stefndi hvorki sýnt fram á að vextir séu ofreiknaðir né að innheimtukostnaður sé óhæfilegur. Aftur á móti hefur stefnandi gert nákvæma grein fyrir stefnufjárhæð.

Samkvæmt framangreindu verður fallist á dómkröfur stefnanda að öðru leyti en því að dráttarvextir verða reiknaðir frá 13. desember 1998 til greiðsludags.

Hæfilegur málskostnaður stefnanda úr hendi stefnda þykir vera 160.000 kr., þar með talinn virðisaukaskattur á málflutningsþóknun.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Stefndi, Jónas Jón Hallsson, greiði stefnanda, Kristjönu Albertsdóttur, 777.700 kr. með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. desember 1998 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 160.000 kr. alls í málskostnað.