Hæstiréttur íslands
Mál nr. 467/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júní 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júní 2016, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns verði hafnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili mál á hendur varnaraðila 17. desember 2015 og krafðist þess að hún yrði svipt forsjá þriggja dætra sinna, sem væru vistaðar á heimili á vegum sóknaraðila. Með dómi 3. febrúar 2016 varð Héraðsdómur Reykjavíkur við þeirri kröfu sóknaraðila, en varnaraðili áfrýjaði dóminum 23. sama mánaðar og er ráðgert að málið verði munnlega flutt fyrir Hæstarétti 9. september 2016. Eftir áfrýjun héraðsdómsins leitaði varnaraðili með beiðni 29. apríl 2016 eftir dómkvaðningu manns til að leggja mat á nánar tilgreind atriði í tengslum við hæfni hennar til að fara með forsjá dætra sinna, en gegn andmælum sóknaraðila tók héraðsdómur þá beiðni til greina með hinum kærða úrskurði.
Við meðferð fyrrnefnds máls sóknaraðila á hendur varnaraðila fyrir héraðsdómi lágu fyrir tvær sérfræðiskýrslur sálfræðings um forsjárhæfni hennar, sem sóknaraðili hafði aflað. Fyrir héraðsdómi leitaði varnaraðili ekki matsgerðar dómkvadds manns til að fá þeim skýrslum hnekkt. Í beiðni hennar, sem nú er komin fram um dómkvaðningu matsmanns, og málatilbúnaði hennar fyrir Hæstarétti hefur ekki verið vísað til tiltekinna atriða í forsendum sérfræðiskýrslnanna, sem hún telur að hnekkja megi með matsgerð. Að þessu gættu og með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 eru ekki efni til að verða við kröfu varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, en um gjafsóknarkostnað varnaraðila fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hafnað er beiðni varnaraðila, A, um dómkvaðningu matsmanns.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júní 2016.
Með beiðni, sem barst héraðsdómi 29. apríl sl., hefur sóknaraðili, A, kt. [...], [...], Reykjavík, óskað eftir því, með vísan til XI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að dómkvaddur verði einn sérfróður og óvilhallur matsmaður til þess að meta atriði tengd forsjárhæfni hennar.
Við þingfestingu málsins 20. maí sl. mótmælti varnaraðili fram kominni beiðni.
Sóknaraðili óskar þess nánar tiltekið að eftirtalin atriði verði metin:
1. Forsjárhæfni [sóknaraðila], þ. á m. helstu persónueinkenni hennar, tilfinningaástand og tengslahæfni og jafnframt hvort sóknaraðili teljist ófær um að sinna daglegri umönnun og uppeldi B, C og D með hliðsjón af aldri þeirra og þroska.
2. Hvernig háttað sé andlegri heilsu [sóknaraðila] og hvort líklegt sé að [sóknaraðili] sé ófær um að annast B, C og D af þeim sökum eða að börnunum sé hætta búin vegna andlegrar vanheilsu, greindarskorts eða geðsjúkdóms, sé [sóknaraðili] haldin slíkum sjúkdómum.
3. Hvernig háttað er tilfinningalegu sambandi og tengslum milli [sóknaraðila] og barna hennar og hver skilningur [sóknaraðila] á þörfum barnanna er.
4. Hvort fullvíst sé að líkamlegri og andlegri heilsu B, C og D eða þroska þeirra sé hætta búin fari sóknaraðili með forsjá barnanna eða hvort breytni [sóknaraðila] sé líkleg til að valda þeim alvarlegum skaða.
5. Hvort önnur úrræði en forsjársvipting gætu komið að gagni til að tryggja velferð B, C og D.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að beiðni sóknaraðila verði hafnað.
Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 1. júní sl.
I
Málsatvik
Með stefnu, sem þingfest var 18. desember 2015, höfðaði varnaraðili mál á hendur sóknaraðila og krafðist þess að hún yrði svipt forsjá þriggja dætra sinna, þeirra B, fæddrar 2002, C, fæddrar 2005 og D, fæddrar 2009, sem nú eru vistaðar á heimili á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur, sbr. a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Í málinu lágu fyrir tvær skýrslur Brynjars Emilssonar sálfræðings um forsjárhæfnismat sóknaraðila sem aflað var af varnaraðila máls þessa áður en málið var höfðað. Sú fyrri er dagsett 31. janúar 2014 og sú síðari 3. nóvember 2015. Í fyrra matinu kom fram að sóknaraðili væri með verulega þroskaskerðingu. Var forsjárhæfni hennar talin skert en hún væri þó með nægjanlega hæfni fengi hún langtímastuðning. Taldi sálfræðingurinn sóknaraðila hafa sýnt að hún gæti verið til samvinnu næðist að vinna traust hennar. Lagði hann fram tillögur um langtímastuðning við sóknaraðila og nálgun, að teknu tilliti til þessa, en ljóst væri að hana skorti skilning og getu til að standa ein að ýmsum þáttum uppeldis telpnanna. Er síðara mat sálfræðingsins var unnið hafði sóknaraðili notið aðstoðar þjónustumiðstöðvar í sínu hverfi, aðstoðar á vegum sérhæfða úrræðisins Ylfu og úrræðisins Stuðningurinn heim. Niðurstaða þessa mats var að sóknaraðili hefði hvorki nægjanlega né nauðsynlega hæfni til þess að fara með forsjá dætra sinna áfram og að stuðningsúrræði væru fullreynd. Voru því ekki gerðar tillögur um frekari stuðning til sóknaraðila af hálfu sálfræðingsins.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-[...]/2015 var fallist á kröfu varnaraðila og sóknaraðili svipt forsjá dætra sinna. Varnaraðili áfrýjaði málinu til Hæstaréttar. Var áfrýjunarstefna gefin út 23. febrúar sl. og málið þingfest 23. mars sl. Sætir málið flýtimeðferð fyrir Hæstarétti og er þar rekið undir númerinu [...]/2016.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Af hálfu sóknaraðila hefur fram komið að hún sætti sig ekki við ofangreinda niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur. Málinu hafi því verið áfrýjað til Hæstaréttar í því skyni að fá dóminum hnekkt þar sem lagaskilyrði 29. gr. laga nr. 80/2002, um sviptingu forsjár, væru ekki uppfyllt að hennar mati. Hún standi frammi fyrir því að missa forsjá þriggja dætra sinna. Það varði hana því miklu að geta fært sönnur á að hún sé hæf til fara með forsjá þeirra.
Sóknaraðili kveðst efnislega vera ósammála niðurstöðu forsjárhæfnismats Brynjar Emilssonar frá 3. nóvember 2015 og freisti þess nú að hnekkja niðurstöðu þess og niðurstöðu héraðsdóms sem byggði á því mati. Telur hún sig hæfa til að gegna forsjárskyldum sínum fái hún stuðning eins og fram hafi komið í fyrra forsjárhæfnismati sálfræðingsins frá 3. janúar 2014. Aðstæður hennar séu nú breyttar og fjölskylda hennar viljug til að veita henni meiri stuðning. Liður í því sé að sýna fram á fyrir Hæstarétti að hún geti farið með forsjá dætra sinna, og fá þar með niðurstöðu héraðsdóms hnekkt, sé að afla nýs mats sem taki mið af því að aðstæður hennar séu nú breyttar hvað varðar þann stuðning sem hún geti fengið frá fjölskyldu sinni til annast um dætur sínar. Forsjársvipting sé viðurhlutamikið úrræði sem ekki beri að beita nema í undantekningartilvikum og að undangenginni ítarlegri rannsókn af hálfu barnaverndarnefndar.
Sóknaraðili kveðst byggja beiðni sína á XI. kafla laga nr. 91/1991 en í þeim kafla sé að finna skýra heimild til að beiðast dómkvaðningar matsmanna fyrir öðrum dómi en þar sem mál sé rekið og gert sé ráð fyrir öflun matsgerðar milli dómstiga í 1. mgr. 76. gr. laganna, sbr. og 75. gr. þeirra.
Sóknaraðili kveður það meginreglu að aðilar eigi rétt á því að afla þeirra sönnunargagna sem þeir telji þörf á málstað sínum til framdráttar. Almennt sé það hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að takmarka þann rétt. Þá verði einnig að líta til þess að í málum sem rekin eru eftir barnaverndarlögum sé málsaðilum játaður ríkur réttur til að koma að nýjum gögnum og jafnvel nýjum málsástæðum, sbr. 57. gr. laga nr. 80/202. Þá kveðst sóknaraðili alfarið mótmæla þeim sjónarmiðum varnaraðila að þar sem ekki hafi verið óskað eftir nýju mati undir rekstri málsins í héraði hafi sóknaraðili firrt sig rétti til að gera það nú á milli dómstiga.
Þá sé því hafnað að þessi gagnaöflun raski rekstri málsins í Hæstarétti þrátt fyrir að málið sæti þar flýtimeðferð. Fyrir liggi að málið sé ekki komið á dagskrá réttarins og ekki verði úr því leyst fyrir réttarhlé. Þá sé það ekki komið á dagskrá réttarins í september nk. Ljóst sé því að málið mun ekki tefjast af þessum sökum.
Þá fellst sóknaraðili ekki á að sönnunarfærslan sé þarflaus. Slík sjónarmið geti ekki átt við í málinu þar sem sóknaraðili freisti þess að sýna fram á forsjárhæfni sína með góðum vilja og aðstoð nánustu fjölskyldu sinnar.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili krefst þess að beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns verði hafnað. Um sé að ræða þarflausa öflun sönnunargagns, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Í málinu liggi fyrir tvær skýrslur um forsjárhæfnismat sóknaraðila sem séu vandaðar og faglega unnar þar sem lagt sé fullnægjandi mat á þau atriði sem tilgreind séu í beiðni sóknaraðila.
Annars vegar sé um að ræða skýrslu Brynjars Emilssonar sálfræðings, frá 3. janúar 2014, um forsjárhæfni sóknaraðila. Forsjárhæfnismatið sé afar vandað og vel rökstutt en við matsvinnuna hafi öll hefðbundin og viðeigandi sálfræðipróf verið lögð fyrir sóknaraðila, svo sem greindarpróf og persónuleikapróf. Hins vegar sé um að ræða skýrslu sálfræðingsins frá 3. nóvember 2015 í kjölfar þess að varnaraðili hafði óskað eftir endurmati á forsjárhæfni sóknaraðila. Hafi þá legið fyrir að frá því fyrra matið var framkvæmt var búið að veita sóknaraðila margvíslegan stuðning án sýnilegs árangurs og því talið nauðsynlegt að meta hvaða frekari stuðning væri hægt að veita henni. Sóknaraðili hafi engar athugasemdir gert við matsmann eða matsvinnuna þegar forsjárhæfnismatið fór fram og þá hafi hún ekki óskað eftir nýju mati eða yfirmati undir rekstri málsins í héraði.
Gögn málsins sýni ekki fram á að nokkuð hafi breyst í aðstæðum sóknaraðila frá því síðara matið fór fram. Þá séu þær spurningar sem sóknaraðili óskar nú eftir að verði svarað efnislega þær sömu og þegar hafi verið lagt mat á í málinu og niðurstöður liggja fyrir um í skýrslum áðurnefnds sálfræðings. Séu þær spurningar sem sóknaraðili setji nú fram tilgangslausar til sönnunar þeim atriðum sem tiltekin séu í matsbeiðni, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.
Einnig verði að líta til þess að málið sætir flýtimeðferð í Hæstarétti, samkvæmt 53. gr. b. laga nr. 80/2002. Öflun nýrrar matsgerðar muni því líklega leiða til tafa á meðferð málsins.
IV
Niðurstaða
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar sl. í máli nr. E-[...]/2015 var sóknaraðili svipt forsjá þriggja dætra sinna. Málinu hefur nú verið áfrýjað til Hæstaréttar, sætir þar flýtimeðferð, og er rekið þar undir málsnúmerinu [...]/2016. Héraðsdómur var skipaður tveimur sérfróðum meðdómsönnum. Í málinu lágu fyrir tvær skýrslur Brynjars Emilssonar sálfræðings sem gerði forsjárhæfnismat á sóknaraðila, sú fyrri frá 3. janúar 2014 en hin síðari frá 3. nóvember 2015.
Í fyrra matinu kom fram að sóknaraðili væri með verulega þroskaskerðingu. Var forsjárhæfni hennar talin skert en hún væri þó með nægjanlega hæfni fengi hún langtímastuðning. Í síðara matinu kom fram að sóknaraðili hefði hvorki nægjanlega né nauðsynlega hæfni til þess að fara með forsjá dætra sinna áfram og að stuðningsúrræði væru fullreynd.
Sóknaraðili er efnislega ósammála niðurstöðu síðara matsins og freistar þess nú að afla nýs mats til stuðnings því að hún sé fær um að annast dætur sínar þrjár. Af hennar hálfu er á því byggt að aðstæður hennar séu nú breyttar að því leyti að stuðningsnet hennar sé sterkara en áður. Hún eigi góða fjölskyldu, tvo bræður, mágkonur og foreldra sem vilji styðja hana í uppeldishlutverkinu. Í ljósi þessa sé hún fær um að fara með forsjá dætra sinna. Auk þess hafi hún sjálf tekið framförum sem geri hana hæfari til að hugsa um dætur sínar. Sóknaraðili hefur því óskað eftir að fram fari nýtt mat á forsjárhæfni sinni með tilliti til þessara breyttu aðstæðna. Er málið rekið fyrir dóminum á grundvelli ákvæða XI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í XI. kafla laga nr. 91/1991 er veitt heimild til að afla sönnunargagna fyrir öðrum dómi en þeim þar sem mál er rekið. Í 73.-76. gr. eru skilyrði og réttarfarsreglur um mál samkvæmt XI. kafla nánar tilgreind. Samkvæmt 76. gr. gildir ákvæði 75. gr. og þar með ákvæði kaflans í heild, þegar gagna er aflað í héraði í tengslum við rekstur máls fyrir æðra dómi.
Sóknaraðili byggir á því að umbeðin matsgerð sé henni nauðsynleg til þess að hnekkja niðurstöðu héraðsdóms í máli nr. E-[...]/2015. Telur hún niðurstöðu síðara forsjárhæfnismatsins ekki vera efnislega rétta. Ljóst sé að nýtt mat og önnur niðurstaða myndi ráða úrslitum um hvort fallist yrði á sjónarmið hennar í Hæstarétti. Þá verði ekki séð að öflun matsins sé í andstöðu við reglur um málshraða eða aðrar réttarfarsreglur enda sé lagaheimild fyrir hendi til öflunar sönnunargagna milli dómstiga skýr og ótvíræð. Engu breyti í þessu tilviki þótt málið sæti flýtimeðferð þar sem það sé ekki enn komið á dagskrá í Hæstarétti og öflun matsgerðar hefði því engin áhrif á rekstur málsins þar.
Varnaraðili byggir m.a. á því að umbeðið mat sé tilgangslaust til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Í málinu liggi fyrir tvö vönduð og vel unnin forsjárhæfnismöt. Þá hafi sóknaraðili engar athugasemdir gert við framkvæmd matsins þegar það var unnið eða óskað eftir nýju mati undir rekstri málsins í héraði.
Sóknaraðili hefur í matsbeiðni sinni sett fram spurningar sínar í nokkrum liðum eins og nánar kemur fram í kröfugerð hans og þegar hefur verið lýst. Þótt matsbeiðnin sé ekki efnismikil eða ítarleg verður ekki annað séð en að hún sé í samræmi við 61. gr., sbr. 1. mgr. 79. gr., laga nr. 91/1991, um efnislegt innihald og framsetningu og hvað aðili hyggst sanna með öflun hennar. Af hálfu sóknaraðila var einnig gerð fyllri grein fyrir tilurð hennar í munnlegum málflutningi um kröfu hans.
Samkvæmt 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 getur dómari meinað aðila um sönnunarfærslu telji hann bersýnilegt að atriði sem aðili vill sanna skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar.
Þótt fallast megi á með varnaraðila að spurningar þær sem sóknaraðili setur fram í beiðni sinni eigi sér að nokkru leyti efnislega samsvörun í þeim forsjárhæfnismötum sem lágu fyrir í hinum áfrýjaða dómi getur það þó ekki leitt til þess að beiðninni verði hafnað. Ber að líta til þess að forsendur nýs umbeðins mats eru þær að félagslegar aðstæður sóknaraðila séu nú aðrar og betri en áður. Þá liggja fyrir fjölmörg fordæmi Hæstaréttar um að í lögum nr. 91/1991 sé ekki girt fyrir að til viðbótar eldri matsgerð sé aflað nýrrar matsgerðar sem ætlað er að gefa ítarlegri upplýsingar um matsefnið en áður hafa fengist eða þá að ný matsgerð taki að einhverju leyti til annarra atriða en sú fyrri. Er ekki unnt að neita sóknaraðila um sönnunarfærslu á þessum grundvelli.
Jafnframt verður að telja, eins og mál þetta liggur fyrir dóminum, að ekki verði fullyrt að bersýnilegt sé að umbeðin matsgerð sé þarflaus, skipti ekki máli eða sé tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður einnig að hafa í huga að í 1. mgr. 76. gr. sömu laga nr. 91/1991, sbr. 75. gr. og IX. kafla þeirra, er að finna heimild til handa aðilum að afla matsgerðar á milli dómstiga.
Þótt vera kynni að unnt væri að fallast á að sóknaraðili hefði átt þess kost að afla umbeðinnar matsgerðar á fyrri stigum er ekki hægt að líta svo á að hún hafi með því firrt sig rétti til að afla nýs mats á þessu stigi málsins. Þá verður ekki séð að öflun mats muni valda töfum á meðferð þess í Hæstarétti jafnvel þótt málið sæti þar flýtimeðferð. Tók varnaraðili að nokkru undir það í munnlegum málflutningi um kröfu sóknaraðila. Er ekki unnt að meina sóknaraðila um þessa sönnunarfærslu á þeim grundvelli einum að málið sæti flýtimeðferð. Þá verður einnig við þetta úrlausnarefni að hafa í huga eðli þeirra mála sem falla undir lög nr. 80/2002 og þær sérreglur sem um þau mál gilda, sbr. t.d. 57. gr. laganna. Þá er og mikilvægt að málið verði eins vel upplýst og kostur er áður en endanlegur dómur verður á það lagður.
Í ljósi alls þess sem að framan greinir verður því fallist á kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns í samræmi við fram komna matsbeiðni. Með hliðsjón af niðurstöðu málsins verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við rekstri málsins 27. maí sl.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Fallist er á beiðni sóknaraðila, A, um dómkvaðningu matsmanns samkvæmt framlagðri matsbeiðni á dómskjali nr. 1.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 150.000 krónur í málskostnað.