Hæstiréttur íslands

Mál nr. 671/2017

A (Oddgeir Einarsson hrl.)
gegn
Barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Ebba Schram hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Vistun barns
  • Gjafsókn

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að dóttir A skyldi vistuð tímabundið utan heimilis hennar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. október 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 6. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2017 þar sem varnaraðila var heimilað að vista dóttur sóknaraðila, B, utan heimilis sóknaraðila til 12. janúar 2018. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að vistun stúlkunnar utan heimilis verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og að sóknaraðili verði dæmd til að greiða kærumálskostnað.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður, en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2017.

                Þetta mál, sem var tekið til úrskurðar 5. október 2017, barst dóminum 7. sept­em­ber sl.

                Sóknaraðili, Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, krefst þess að telpan B, kt. [...], sem lýtur forsjá móður sinnar, A, kt. [...], sem hefur skráð lögheimili að [...], Reykja­vík, verði vistuð utan heimilis varnaraðila á fósturheimili á vegum Barnavernd­ar­nefndar Reykjavíkur til 12. janúar 2018, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr., sbr. 1. mgr. 28. gr. barna­verndar­laga, nr. 80/2002.

                Varnaraðili, A, krefst þess aðallega að tímabili vistunar dóttur hennar utan heimilis verði mark­aður skemmri tími en sóknaraðili krefjist.

                Þá krefst varnaraðili málskostnaður úr hendi sóknaraðila að viðbættum virðis­auka­skatti eins og málið væri eigi gjaf­sóknar­mál.

Málsatvik

                Þetta mál varðar telpuna B sem er rúmlega 12 ára gömul og lýtur for­sjá móður sinnar, varnaraðila, A. Hún og faðir telpunnar, C, slitu samvistum á árinu 2015 og fer varnaraðili ein með for­sjá barnsins. Varnaraðili er greind með flogaveiki, athyglisbrest og ofvirkni (ADHD), kvíða og króníska bakverki eftir endurtekin umferðarslys. Hún hefur lengi verið óvinnu­fær vegna kvíða og þung­lyndis og tekur lyf vegna veikinda sinna meðal annars Con­certa, Tegretol, Riv­otril og Parkódín vegna verkja.

                C, forsjárlaus faðir telp­unnar, er fæddur í [...] og alinn þar upp. Hann lauk grunn­skóla­prófi en leidd­ist fljótt út í óreglu. Sambúð hans og varnaraðila var storma­söm og stóð með hléum en ítrekaðar tilkynningar bárust um að hann beitti varn­ar­aðila ofbeldi. Hann fór í vímuefnameðferð um mitt ár 2015. Hann vinnur nú utan heim­ilis, kveðst hafa haldið sér frá allri neyslu og er í sam­búð. Telpan hefur verið vistuð á heimili hans frá því í júní á þessu ári og unir hag sínum afar vel.

                Að sögn sóknaraðila, Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, hefur mál telpunnar verið til vinnslu, þó með hléum, allt frá fæðingu hennar um mitt ár 2005. Fyrsta árið var málið unnið í Reykjanesbæ. Áhyggjur voru af því að varnaraðili hefði neytt lyfja á með­göngunni og telpan sögð í lyfjafráhvörfum við fæðingu. Jafn­framt höfðu fagmenn áhyggjur af því að telpan þyngd­ist illa. Frá því að telpan fór í leikskóla hafa þeir sem að barninu standa, fjölskylda og fag­fólk, ítrekað tilkynnt barna­vernd­ar­yfir­völdum að þeir hafi áhyggjur af því að hún sækti leikskólann ekki reglulega og aðbún­aði hennar í umsjá varn­ar­aðila. Sömu áhyggjur hafa verið frá fyrstu stundu í skóla sem og af líðan telp­unnar. Telpan hefur lýst slæmum aðstæðum heima meðal annars vegna heimilis­ofbeldis. Síð­asta tilkynning frá skóla barst í mars sl. þar sem miklum áhyggjum var lýst af ástundun telpunnar og félags­legum aðstæðum hennar.

                Meðal gagna málsins eru 39 tilkynningar og fjöldi bakvaktarskýrslna, auk þess sem gerðar hafa verið sjö áætlanir um meðferð máls skv. 23. gr. barnaverndarlaga í sam­vinnu við varnaraðila. Tilkynnt hefur verið að telpan sé vanrækt, að hún sæki ekki leik­skóla og skóla og fólk hafi áhyggjur af aðstæðum hennar í umsjá varn­ar­aðila. Það eru ýmist almennir borgarar, lögregla, skóla­yfir­völd eða læknar á heilsugæslu og geð­deild sem tilkynna áhyggjur sínar. Margvíslegur stuðningur hefur verið reyndur á heim­il­inu í því skyni að efla uppeldisfærni varnaraðila og skapa telpunni við­unandi þroska­vænlegar aðstæður á heimilinu. Að mati sóknaraðila hafa þau stuðningsúrræði ekki megnað að breyta uppeldisaðstæðum á heimilinu, né aðstæðum telpunnar til lengri tíma litið. Þjón­ustu­úrræðið Greining og ráðgjöf – heim fór í reglulegar heim­sóknir á heim­ili varn­ar­aðila nánast allt árið 2011 og skilaði greinargerð dags. 1. nóv­em­ber 2011, þar sem meðal annars kom fram að varnaraðili hefði verið erfið til sam­starfs í upp­hafi og að hún skildi ekki alvarleika málsins. Almennt væri ekki mikil regla á heim­ilinu og ástandið væri á köflum óreiðukennt. Töldu ráðgjafar úrræðisins að varn­ar­aðili þyrfti við­eig­andi aðstoð í veikindum sínum, bæði endurhæfingu á Reykja­lundi og ráðgjöf vegna sam­skipta­vanda foreldra. Varnaraðila stóð til boða stuðn­ingur inn á heim­ilið frá þjón­ustu­mið­stöð, bæði í tilsjón og Stuðningurinn heim sem og meðferð á Teigi auk þess sem varn­ar­aðila var boðinn stuðningur til náms sem varn­ar­aðili afþakkaði ítrekað. Sótt var um viðtöl fyrir foreldra í Fjölskyldumiðstöðinni en þau komu ekki í bókaða tíma. Telpan var í tvígang vistuð utan heimilis á árinu 2007 hjá föður­foreldrum sínum vegna til­kynn­inga um lyfjamisnotkun varnaraðila og til­kynn­inga um slæmar aðstæður telp­unnar í umsjá foreldra sinna. Varnaraðili hefur jafn­framt notið ríkulegs fjár­stuðn­ings frá þjónustumiðstöð.

                D sál­fræðingur vann sálfræðilegt forsjárhæfnismat á varn­ar­aðila fyrri hluta árs 2007. Það var mat sálfræðingsins að andlegt ástand varnar­aðila væri alvarlegt vegna þunglyndis, kvíða, félags­fælni, ranghugmynda og framtaks- og atorku­leysis. Þá væri varnaraðili ósjálf­stæð, undir­gefin og háð nærveru annarra. Ekki væri þó efast um að varnaraðili gæti sinnt and­legum og líkamlegum þörfum dóttur sinnar og mælt væri með því að hún fengi víð­tækan stuðning til að skapa dóttur sinni við­un­andi aðstæður. Grunnforsenda þess væri þó sú að varnaraðili þæði þá aðstoð og eftir­lit sem félagsmála­yfir­völd teldu hana í þörf fyrir.

                Málið var bókað á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 13. des­ember 2016 þar sem fram kom að þær mæðgur hefðu notið sálfræðilegs stuðn­ings til langs tíma hjá Barnaverndinni auk þess sem stuðningsúrræðið Grein­ing og ráð­gjöf ‒ heim hefði verið inni í málinu, faðir hefði sótt stuðningsúrræðið Karlar til ábyrgðar og sótt hefði verið um á Reykjalundi fyrir varnaraðila. Frá þjón­ustu­miðstöð hefði varn­ar­aðili notið fjárhagsstuðnings auk þess sem hún hefði lokið þátttöku í Kvenna­smiðj­unni með góðum árangri. Lagt var til að málinu yrði lokað hjá Barna­vernd Reykja­víkur en vísað til áframhaldandi vinnslu á þjón­ustu­mið­stöð. Þaðan skyldi hún fá stuðn­ing sem fælist í tilsjón. Lagt yrði að varnaraðila að þiggja þann stuðn­ing til að koma lagi á skólasókn telpunnar.

                Í marsmánuði síðastliðnum tilkynnti skólastjóri í skóla telpunnar áhyggjur sínar af ástundun hennar og aðstæðum. Fram kom í tilkynningunni að engin breyt­ing hefði orðið á mætingum telpunnar í skólann þrátt fyrir ítrekaðar viðræður við varn­ar­aðila og fyrirhugaðan stuðning þjónustumiðstöðvar. Frá því málinu var lokað hjá Barna­vernd Reykjavíkur í árslok 2016 hafði telpan ítrekað verið fjarverandi frá skóla án skýringa og yfirleitt mætt of seint þegar hún mætti í skólann. Tíðar fjarvistir hennar væru farnar að hafa áhrif á námsframvindu hennar.

                Málið var á ný tekið fyrir á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykja­víkur 22. júní 2017 og þar bókað að frá því að málinu var lokað í árslok 2016 hefðu bor­ist sex alvarlegar tilkynningar frá skóla, þjónustumiðstöð, lögreglu, ættingja og undir nafnleynd þar sem áhyggjum var lýst af telpunni og aðstæðum hennar. Það var mat starfsmanna að telpan þyrfti að komast úr þeim aðstæðum sem hún byggi við hjá varn­ar­aðila, ljóst væri að varnaraðili glímdi við alvarlegan fíknivanda og hún ynni ekki með barnaverndaryfirvöldum, auk þess sem staða telpunnar á heim­il­inu var metin alv­ar­leg.

                Telpunni var skipaður talsmaður í samræmi við ákvæði 46. gr. barna­verndar­laga. E fjölskylduráðgjafi hefur gegnt því hlutverki og komið afstöðu telpunnar á framfæri. Í skýrslu talsmanns dags. 9. júlí sl. kemur fram að telp­unni líði vel á heimili föður og fjölskyldu hans, hún vilji gjarnan vera þar áfram og sam­skipti þeirra séu góð og átakalaus.

                Mál telpunnar var lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 11. júlí sl. Í greinargerð starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur, dags. 6. júlí 2017, sem lögð var fyrir fundinn, kom fram að þeir hefðu veru­legar áhyggjur af aðstæðum telpunnar á heim­ili varnaraðila. Reyndur hafi verið mikill og margvíslegur stuðningur í mörg ár sem hafi ekki skilað viðun­andi árangri til lengri tíma. Staðan nú væri óbreytt og færi versn­andi. Varnaraðili virtist sýna lítið frum­kvæði í að veita dóttur sinni þroska­væn­legar aðstæður, hún veitti henni tak­mark­aða eftir­fylgni og þrátt fyrir stuðning fagaðila í þeim efnum skilaði það litlum sem engum árangri. Varnaraðili virtist ekki ná að tryggja að líðan telpunnar væri við­un­andi né tryggja henni þroskavænleg skil­yrði. Hags­muni telpunnar þyrfti að hafa að leið­ar­ljósi og virða rétt hennar til þroska­væn­legra aðstæðna. Yrði ekki annað séð en að vægasta úrræði til að koma telp­unni og varn­ar­aðila til aðstoðar væri vistun utan heim­ilis. Því lögðu starfsmenn Barnaverndar Reykja­víkur til að telpan yrði vistuð utan heimilis í sex mánuði á meðan forsjárhæfni varn­ar­aðila væri endurmetin svo og líðan telpunnar. Þá yrði varn­ar­aðili að fara í inni­liggj­andi meðferð til að tak­ast á við vímuefnavanda sinn og sýna fram á edrú-mennsku. Á fundi Barna­verndar­nefndar Reykja­víkur 11. júlí 2017 kom fram að varn­ar­aðili hafnar samvinnu um vistun telpunnar utan heimilis og gerð endurmats á for­sjár­hæfni. Á fundinum tók Barna­vernd­ar­nefnd Reykjavíkur undir mat starfsmanna og taldi það þjóna hagsmunum telp­unnar best að vistast utan heim­ilis í allt að sex mán­uði á meðan fram færi mat á líðan telp­unnar og tengslum við móður auk end­ur­mats á for­sjár­hæfni hennar. Því úrskurð­aði nefndin um vistun telp­unnar utan heim­ilis í tvo mán­uði og fól borgarlögmanni að höfða mál þetta fyrir Héraðs­dómi Reykja­víkur og gera kröfu um að vistun telpunnar standi til 12. janúar 2018.

                Varnaraðili mótmælir málavaxtalýsingu sóknaraðila að nokkru leyti. Hún kveðst, þrátt fyrir að hún hafi ekki haft skilning á afskiptum barna­vernd­ar­nefnd­ar­innar, hafa samþykkt að gangast undir lyfjaleit sem staðfesti ekki að hún væri á lyfjum þegar barnið fæddist. Þegar hún fór heim af fæðingardeildinni hafi hún strax samþykkt að fá til­sjónarkonu á heim­ilið til þess að aðstoða við uppeldið. Síðar hafi hún, eins og gögn máls­ins sýni, reynt af fremsta megni að vinna með barna­vernd­ar­yfir­völdum. Í því skyni hafi hún þegið ýmiss konar aðstoð frá þeim svo sem að fara í meðferð, fá til­sjón­ar­konu, eftirlit, vistun barns­ins utan heim­ilis o.fl., þrátt fyrir að hún hafi ekki talið vist­un­ina nauð­synlega. Þetta hafi hún gert þrátt fyrir að telja afskipti barna­vernd­ar­yfir­valda ónauð­synleg á köflum. Hún hafi þó afþakkað þau stuðn­ings­úrræði sem hún hafi talið ber­sýni­lega óþörf, eða ekki henta aðstæðum þeirra, meðal annars þegar flutn­ingur milli sveitar­félaga var yfir­vof­andi.

                Varnaraðili sé þó orðin þreytt á tíðum afskiptum barnaverndaryfirvalda enda telur hún þau ekki alltaf á rökum reist. Sem dæmi hafi barnaverndaryfirvöld ítrekað rétt­lætt afskipti sín með staðhæfingum um að hún væri ófær um að sinna þörfum dóttur sinnar vegna fíkniefnaneyslu sinnar. Í gögnum málsins sé hvergi full­nægj­andi sönnun fyrir þessum staðhæfingum. Varnaraðili hafi ávallt neitað því að hún neytti fíkni­efna. Hún neitar því jafnframt að hún ofnoti lyf sem læknar skrifi upp á fyrir hana. Samkvæmt almennum sönnunar­reglum beri barna­verndar­yfir­völdum að sanna þá stað­hæf­ingu að varn­ar­aðili neyti fíkni­efna. Í gögnum máls­ins sé ekki nein full­nægj­andi sönnun þess efnis að hún noti fíkniefni. Til dæmis hafi ekki verið gert fíkni­efna­próf á henni þrátt fyrir ráðagerðir þess efnis við gerð áætlana um meðferð máls hjá barna­vernd­ar­yfir­völdum. Í eina skiptið sem varnar­aðili hafi farið í lyfja­próf hafi prófið ekki stað­fest meinta vímu­efna­neyslu hennar.

                Staðreyndin sé sú að hún noti eingöngu lyf sem læknar hafi ávísað henni og séu henni nauðsynleg við flogaveiki, ADHD, kvíða og krónískum bakverkjum eftir end­ur­tekin umferðarslys. Hún hafi lengi verið óvinnufær vegna kvíða og þung­lyndis og taki lyf vegna veikinda sinna. Þrátt fyrir að hafa aldrei átt við vímu­efna­vanda að stríða hafi hún orðið við óskum Barnaverndar um að fara í við­tal hjá SÁÁ og vímu­efna­meðferð. Það sé mat sál­fræð­ings að varnar­aðili stríði í reynd ekki við lyfja­fíkn. Hann hafi ekki heldur efast um hæfni hennar til að sinna and­legum og líkam­legum þörfum dóttur sinnar fengi hún til þess víð­tækan stuðn­ing. Hún hafi örsjaldan verið undir vægum áhrifum áfengis og það hafi verið stök tilvik en ekki við­var­andi ástand eða vanda­mál.

                Meðal gagna málsins séu nokkrar tilkynningar, bakvaktarskýrslur og áætlanir um með­ferð máls. Varnaraðili áréttar að margar þessara tilkynninga verði raktar til ástands sem hún beri ekki ábyrgð á, heldur varða þær fíkniefnanotkun og heimilis­of­beldi barns­föður hennar. Í þeim tilvikum hafi varnaraðili reynt af fremsta megni að vera til staðar fyrir dóttur sína. Varnaraðili og barnsfaðir hennar hafi slitið sam­vistum árið 2015 og því ætti hegðun hans inni á heimilinu ekki að hafa áhrif á mat á aðstæðum hennar nú.

                Þrátt fyrir að barnaverndaryfirvöld haldi því ítrekað fram að aðstæður hennar séu óvið­un­andi bendi sum gögn málsins til þess að dóttur varnaraðila líði almennt vel, að hún sé glaðlynd og sé ávallt snyrtileg. Ekki séu áhyggjur af aðstæðum hennar umfram það að skólasókn hennar sé á köflum ábótavant. Í tilkynningum skóla segi að líðan telpunnar sé oftast góð, að hún mæti með nesti og að umhirða hennar og aðbún­aður sé í góðu lagi. Hafi dóttir hennar einhvern tíma verið ósnyrtileg séu það ein­stök til­vik en ekki við­var­andi vandamál.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

                Í 27. gr. barnaverndarlaga eru ákvæði um heimildir barnaverndarnefndar til að úrskurða um vistun barns utan heimilis í þeim tilvikum þegar ekki liggur fyrir sam­þykki foreldris. Gert er ráð fyrir að uppfyllt séu sömu skilyrði og getið er um í 1. mgr. 26. gr., þ.e. að úrræði skv. 24. og 25. gr. hafi ekki skilað árangri eða eftir atvikum að barna­verndarnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að þau séu ófullnægjandi. Í b-lið 1. mgr. 27. gr. er kveðið á um að barnaverndarnefnd geti kveðið á um vistun barns utan heim­ilis í allt að tvo mánuði m.a. til að tryggja öryggi barns eða veita því nauð­syn­lega með­ferð og aðhlynningu. Með vísan til málsatvika og allra gagna málsins er ljóst að skil­yrðum b-liðar 1. mgr. 27. gr. og 28. gr. barnaverndarlaga er fullnægt.

                Að mati sóknaraðila hefur dóttir varnaraðila búið við vanrækslu og vanlíðan um allt of langt skeið. Þrátt fyrir ýmiss konar stuðningsaðgerðir af hálfu sóknaraðila þykir ljóst að aðstæður telpunnar í umsjá varnaraðila eru óviðunandi. Úrræði á borð við Greining og ráð­gjöf –  heim og tilsjón á heimili hafa verið reynd en að mati starfs­manna þar hefur sá stuðningur ekki skilað viðunandi árangri og er fullreyndur. Ítrek­aðar tilkynningar hafa bor­ist er varða áhyggjur af aðbúnaði og utanumhaldi varnar­aðila á telpunni og afar slæmri skólasókn hennar. Ekki er hægt að una við það að varn­ar­aðili hafni hvað eftir annað stuðningsúrræðum fyrir telpuna og sig og að sá stuðn­ingur sem varnaraðili fær skili ekki meiri árangri en raun ber vitni. Það er því mat sókn­ar­aðila að þörf sé á frek­ari aðgerðum til stuðnings telpunni og aðstoðar hvað varðar bætta stöðu og líðan hennar.

                Krafa sóknaraðila um vistun telpunnar utan heimilis varnaraðila byggist á því að nauðsynlegt sé að veita telpunni tækifæri til að dafna og þroskast við stöðugleika og viðunandi uppeldisskilyrði fjarri óreglusömu líferni móður sinnar, sem skapar ótryggt uppeldisumhverfi. Enn fremur er krafan reist á því að samhliða gefist varnar­aðila tækifæri til að ná tökum á lífi sínu svo hún geti skapað dóttur sinni viðunandi upp­eldisskilyrði og unnt sé að sameina þær mæðgur á ný. Að því virtu sem nú hefur verið rakið er ljóst að varnaraðili er í dag óhæf til að bera ábyrgð og sinna upp­eldis­skil­yrðum gagnvart telpunni. Ekki er þó loku fyrir það skotið, eins og áður hefur komið fram, að varnaraðili geti sinnt uppeldisskyldum sínum gagnvart telpunni þegar hún hefur tekist á við vanda sinn enda eru tengsl þeirra góð.

                Sóknaraðili hefur gætt meðalhófs við alla meðferð máls þessa og reynt að fá varn­ar­aðila til samvinnu án árangurs. Krafa sóknaraðila er að sú vistun telpunnar vari til 12. janúar 2018. Á þessu tímabili verður gert mat á líðan telpnanna og henni veittur sá stuðn­ingur sem talinn er við hæfi. Einnig muni varnaraðili undirgangast mat á for­sjár­hæfni og vinna bug á vímuefnafíkn sinni. Sóknaraðili hafi sýnt varnaraðila þolin­mæði, en krafa um vistun telpunnar utan heimilis varnaraðila var ekki sett fram fyrr en öll önnur úrræði voru reynd til þrautar, án árangurs. Með skírskotun til alls framan­rit­aðs, megin­reglna í barnaverndarstarfsemi, sbr. 4. gr. barnaverndarlaga og gagna máls­ins, gerir sóknaraðili þá kröfu að telpan verði áfram vistuð utan heimilis varnaraðila til 12. janúar 2018 samkvæmt 28. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, enda hafa önnur og vægari úrræði ekki skilað tilætluðum árangri.

                Sóknaraðili byggir kröfu sína meðal annars á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, lögum um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, nr. 19/2013, lögum um mann­réttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994, alþjóðasamningi Sameinuðu þjóð­anna um borg­ara­leg og stjórnmálaleg réttindi og lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Skilyrði vistunar barns utan heimilis skv. 28. gr. barnaverndarlaga ekki uppfyllt

Skilyrði vistunar skv. 28. gr.

                Aðalkröfu sína byggir varnaraðili meðal annars á því að skilyrði vistunar barns utan heimilis skv. 28. gr. barnaverndarlaga séu ekki uppfyllt. Í því skyni bendir hún á að til þess að Barnavernd hafi heimild til að úrskurða um vistun barns utan heim­ilis, þegar samþykki foreldris liggi ekki fyrir, þurfi sömu skilyrði og getið er um í 1. mgr. 26. gr. að vera uppfyllt. Í þessu felist að úrræði skv. 24. og 25. gr. hafi ekki skilað árangri eða að þau séu ófullnægjandi.

Stuðningsúrræði

                Varnaraðili telur að stuðningsaðgerðir hafi ekki verið fullreyndar. Því sé barna­vernd­ar­yfirvöldum í raun skylt að beita vægari úrræðum áður en dóttir hennar er vistuð utan heimilis í svo langan tíma. Þeim beri að vinna að því sem sé best fyrir barnið. Varnaraðili telur eðli málsins samkvæmt að svo löng vistun utan heimilis sé bæði íþyngjandi fyrir barnið og valdi óþarfa róti í lífi hennar.

                Varnaraðili hafnar því að hún hafi ítrekað, eins og sóknaraðili haldi fram, hafnað stuðn­ings­úrræðum. Hún hafi oft verið sam­vinnu­fús, eins og rakið sé í lýs­ingu mála­vaxta. Hún bendir á að mörg stuðnings­úrræðanna hafi verið reynd á þeim tíma er hún bjó með barnsföður sínum. Gögn máls­ins sýni að upp­eldisskilyrði telpunnar hafi verið slæm vegna fíkniefnavanda hans og heimil­is­ofbeldis af hans hálfu. Varn­ar­aðili og faðir telp­unnar hafi slitið samvistum 2015. Þá hafi heimilisaðstæður mæðgn­anna breyst gífur­lega. Eftir þessar breytingar í lífi varnar­aðila sé sérstak­lega brýnt að hún fái aðstoð Barnaverndar með þeim stuðningsúrræðum sem mögu­leg eru.

                Varnaraðili telur gögn málsins ekki sýna fram á að stuðningsúrræði hafi verið reynd til hlítar. Hún telur sig fyrst og fremst vanta stuðning til þess að ná enn betri tökum á lífi sínu til þess að skapa dóttur sinni viðunandi uppeldisskilyrði.

Dagleg umönnun telpunnar og uppeldi

                Varnaraðili telur sig aldrei hafa vanrækt barnið. Með stuðningi frá félags­þjón­ustu og starfsmönnum barna­verndaryfirvalda hafi hún alla burði til þess að sjá um dag­lega umönnun barnsins. Mat sálfræðings styðji þetta. Jafnframt bendir hún á að ekk­ert í gögnum málsins bendi til þess að upp­eld­is­aðferðir hennar hafi verið ófull­nægj­andi eða þeim verulega ábótavant.

Hagsmunir barnsins

                Varnaraðili telur hagsmuni dóttur sinnar skv. 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga meðal ann­ars felast í því að hún þurfi ekki að upplifa óþarfa röskun í lífi sínu. Hags­munum hennar sé best borgið hjá sér enda séu tengsl mæðgnanna mikil og sterk. Varn­ar­aðili mótmælir því að þessar ráðstafanir séu nauðsynlegar til þess að tryggja öryggi telp­unnar, enda sé hún örugg heima hjá sér. Hún hafnar þeim rökum sókn­ar­aðila að þessar ráðstafanirnar séu gerðar til að veita dóttur hennar stöð­ug­leika. Varnar­aðili telji vistun barns utan heimilis, í öðru skóla­hverfi, til svo langs tíma til þess fallna að raska stöðugleika barnsins. Mun meiri stöðug­leiki felist í því fyrir barnið að fá að vera heima hjá sér.

Samvinnufýsi

                Varnaraðili hafnar þeim staðhæfingum barnaverndaryfirvalda að hún hafi hvað eftir annað hafnað stuðningsúrræðum fyrir sig og telpuna. Í gögnum málsins séu ýmis dæmi þess að hún hafi þegið aðstoð þeirra eins og rakið var í lýsingu mála­vaxta. Hún hafi eingöngu hafnað aðstoð þegar hún hafi verið bersýnilega óþörf eða hentað aðstæðum hennar illa. Í því skyni vísar hún til þess að hún sé reiðubúin að fara í fíkni­efna­með­ferð til þess að ná betri stjórn á nauðsynlegri lyfjaneyslu sinni og að hún sé reiðu­búin að vinna með barna­verndaryfirvöldum í öðrum væg­ari úrræðum.

Ósannaður fíkniefnavandi varnaraðila

                Að lokum áréttar varnaraðili að hún stríði ekki við fíkniefnavanda. Rök sókn­ar­aðila fyrir því að hún sé vanhæf til þess að sjá um dóttur sína virð­ast að mestu leyti byggja á þeim meinta vanda. Varn­ar­aðili telur barnaverndar­nefnd ekki hafa rannsakað meinta fíkni­efnaneyslu hennar nægjanlega áður en hún kvað upp úrskurð sinn skv. 41. gr. barna­verndar­laga og 11. gr. stjórn­sýslu­laga enda séu ekki fyrir hendi nein gögn sem ótvírætt renni stoðum undir þessar ásakanir.

                Allt framangreint sýni að ekki er hægt að fallast á kröfur sóknaraðila um vistun telp­unnar utan heimilis skv. 28. gr. barnaverndarlaga.

Meðalhófsregla

                Varnaraðili vísar til þess að sóknaraðili sé bundinn af meðalhófsreglu 12. gr. stjórn­sýslulaga, nr. 37/1993, sbr. 38. gr. barnaverndarlaga. Í því felist að barna­vernd­ar­yfir­völd skuli aðeins taka íþyngj­andi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verði ekki náð með öðru og væg­ara móti. Brot á meðalhófsreglu við töku ákvörð­unar leiði til þess að ákvörðun sé ógildanleg.

                Varnaraðili krefst þess að vistun dóttur hennar utan heimilis vari skemur en til 12. janúar 2018. Hún vísar í fyrsta lagi til þess að svo löng vistun valdi dóttur hennar röskun og sé ekki það besta fyrir hana. Þá vísar hún til þess að svo langur tími sé ekki nauð­synlegur fyrir sig til þess að ná betri tökum á lífi sínu heldur muni skemmri vistun nægja henni til þess. Varnaraðili bendir einnig á að mun heppi­legra væri að vistun­inni lyki áður en ný önn hefst hjá dóttur hennar í skóla til þess að kom­ast hjá óþarfa raski að þessu leyti fyrir dóttur sína.

                Með vísan til þessa sé ekki hægt að fallast á að sóknaraðili hafi gætt með­al­hófs við töku ákvörðunar um vistun telpunnar á fósturheimili á vegum barna­vernd­ar­nefnd­ar­innar til 12. janúar 2018.

                Varnaraðili byggir aðal- og varakröfu sínar á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, aðal­lega 24.-28. gr., 38. gr. og 41. gr. og stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, aðallega 11. og 12. gr. Hún vísar einnig til 71. gr. stjórnarskrárinnar, laga um um samning Sam­ein­uðu þjóð­anna um réttindi barnsins, nr. 19/2013, laga um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994, alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórn­mála­leg rétt­indi og laga um um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Krafa hennar um máls­kostnað styðst aðallega við 60. og 61. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

Niðurstaða

                Sóknaraðili krefst þess að dóttir varnaraðila verði vistuð utan heimilis varnar­aðila á fósturheimili á vegum Barnavernd­ar­nefndar Reykjavíkur til 12. janúar 2018. Sóknaraðili telur sig ekki geta beitt vægari úrræðum til þess að tryggja hagsmuni barns­ins á meðan Barnavernd Reykjavíkur liðsinnir varnaraðila við að koma lífi sínu á réttan kjöl.

                Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrir­rúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Eftir 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóð­anna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, skal það sem barni er fyrir bestu ávallt hafa forgang, meðal annars þegar félagsmálastofnanir og dómstólar gera ráð­staf­anir sem varða börn.

                Samkvæmt b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga getur barna­verndar­nefnd, ef brýnir hagsmunir barns mæla með því, kveðið á um töku þess af heimili í allt að tvo mán­uði til að tryggja öryggi þess eða til að unnt sé að gera við­eig­andi rann­sókn á barn­inu og veita því nauðsynlega meðferð og aðhlynningu. Í 1. mgr. 28. gr. lag­anna segir að telji barnaverndarnefnd nauðsynlegt að ráðstöfun sam­kvæmt b-lið 27. gr. þeirra standi lengur en þar er kveðið á um skuli hún gera kröfu um það fyrir héraðs­dómi.

                Við meðferð barnaverndarmála ber að fylgja meginreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sérreglum barnaverndarlaga nr. 80/2002, um málsmeðferð. Ein af grund­vall­ar­regl­um stjórnsýsluréttar, meðalhófsreglan, er lögfest í 12. gr. stjórnsýslulaga. Hún er einnig skráð í 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga þar sem segir að barna­verndar­yfir­völd skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðn­ings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Jafnframt skuli þau ávallt miða við að beitt sé vægustu ráð­stöf­unum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Því aðeins skuli gert ráð fyrir íþyngj­andi ráðstöfunum að lögmæltum mark­miðum verði ekki náð með öðru og væg­ara móti. Í þessari grundvallarreglu felst meðal ann­ars að stjórn­valdi ber að velja það úrræði sem er vægast geti fleiri úrræði, sem völ er á, þjónað því mark­miði sem að er stefnt.

                Ákvæði 27. gr. barna­verndar­laga sam­ræmist þessari megin­reglu. Sam­kvæmt því á barna­verndar­nefnd að velja væg­asta úrræði sem völ er á hverju sinni og telja má að að gagni megi koma og aldrei ganga lengra í beitingu þess úrræðis en nauð­syn­legt er. Í 1. mgr. 4. gr. barna­vernd­ar­laga segir að í barna­verndar­starfi skuli beita þeim ráðstöf­unum sem ætla má að barni séu fyrir bestu og að hags­munir barna skuli ávallt hafðir í fyrir­rúmi í starf­semi barna­verndaryfirvalda.

                Varnaraðili krafðist upphaflega sýknu af kröfum sóknaraðila. Þess krefst hún ekki lengur heldur aðeins þess að vistun barnsins utan heimilis verði markaður skemmri tími en sóknaraðili krefst.

                Eins og rakið var í lýsingu málavaxta hefur Barnavernd Reykjavíkur fylgst með líðan dóttur varn­ar­aðila og aðstæðum varnaraðila til þess að sinna þörfum barns­ins og ala það upp frá því það var tæplega árs gamalt en fram að þeim tíma hafði annað sveitarfélag lið­sinnt varnaraðila við umönnun barnsins.

                Vegna þessa máls er ekki þörf á að rekja það allt umfram það sem gert hefur verið. Sumt af því tengist óboðlegum heimilisaðstæðum svo og ósamlyndi varnar­aðila og föður telp­unnar sem bjó með hléum á heimilinu. Hann mun ekki hafa búið á heim­il­inu frá miðju ári 2015 en síðustu afskipti lögreglu af honum þar eru frá því í lok ágúst 2015.

                Í byrjun mars 2016 tilkynnti skólastjóri [...] Barnavernd að telpan sækti skólann illa svo og að heimanámi hennar væri ábótavant. Þrátt fyrir að varn­ar­aðila hafi ítrekað verið bent á þetta hafi skólasókn og heimanám telpunnar ekki batnað. Í framhaldi af því var gerð áætlun um meðferð máls samkvæmt 23. gr. barna­vernd­ar­laga. Í október var haldinn fundur með varnaraðila, dóttur hennar, full­trúa skól­ans og fulltrúa þjónustumiðstöðvar. Það var niðurstaða fundarins að varn­ar­aðili lof­aði að taka sig á varðandi skólasókn telpunnar. Þjónustumiðstöð ætlaði að skoða sjálf­styrk­ing­ar­námskeið fyrir mæðgurnar og varnaraðili ætlaði að sækja stuðning hjá VIRK starfsendurhæfingu. Þjónustumiðstöðin og skólinn hugðust einnig vinna saman. Fram kom að sýnt þætti að varnaraðili gæti ekki komið reglu á skólasókn barnsins án stuðn­ings. Að öðru leyti var ekki gerð athugasemd við aðbúnað telpunnar. Málinu var síðan lokað hjá Barnavernd um miðjan desember 2016.

                Í byrjun mars 2017 tilkynnti skólastjóri [...] að skólinn hefði áhyggjur af ástundun telpunnar og aðstæðum hennar. Þrátt fyrir að skólinn hefði ítrekað rætt við varn­ar­aðila hefði skólasókn ekki batnað og miklar fjarvistir væru þegar farnar að hafa áhrif á námsframvindu barnsins. Upp úr miðjum mars var varnaraðili ökumaður í umferð­ar­óhappi. Í lok mars var tilkynnt að barnið væri vanrækt. Varn­ar­aðili væri aug­ljós­lega undir áhrifum lyfja alla daga og barnið illa hirt.

                Síðla í maí lentu varnaraðili og unnusti hennar í umferðarslysi um miðja nótt þegar annað hvort þeirra ók á vegrið. Þá var telpan ein heima. Þvagsýni sem varnar­aðili gaf sýndi MET, OP og THC. Starfsmaður Barnaverndar fór á heim­ilið en ákveðið var að aðhafast ekkert þótt móðuramma barnsins, sem var komin á heim­ilið, væri undir áhrifum lyfja.

                Í lok maí tilkynnti skólastjóri [...] að varnaraðili og unnusti hennar hefðu komið í skólann í annarlegu ástandi. Sömuleiðis hafði barnið sagt kennara sínum að næstliðin helgi hefði verið erfið.

                Varnaraðili kom á fund Barnaverndar 1. júní sl. Hún var þá reikul í spori og mjög drafandi. Fram kom að hún tæki ekki lengur þátt í starfi VIRK starfs­endur­hæf­ingar. Hún taldi ekki ástæðu til þess að Barnavernd hefði afskipti af henni og barn­inu.

                Snemma í júní síðastliðnum tilkynnti þjónustumiðstöð að starfsmenn hefðu miklar áhyggjur af barninu í umsjá varnaraðila. Varnaraðili væri drafandi og gleymin en æki engu að síður bíl. Síðar í mánuðinum tilkynnti föðurafi barnsins, sem barnið er hjá aðra hverja helgi, að hann hefði áhyggjur af barninu hjá móður þess, sem væri nánast með­vitund­ar­laus vegna lyfjaneyslu og sinnti telpunni ekkert.

                Á meðferðarfundi 22. júní sl. var lagt til að barnið yrði vistað utan heimilis í sex mánuði vegna bágra heimilisaðstæðna. Á meðan tæki varnaraðili á vímu­efna­vanda sínum, færi í inniliggjandi með­ferð og héldi sig frá vanabindandi efnum í kjöl­far þess. Að vímuefnameðferð lok­inni færi varnaraðili í forsjárhæfnismat.

                Þennan dag fór telpan til föður síns og fjölskyldu hans í [...]. Þegar hún hafði verið þar í rúmar tvær vikur ræddi talsmaður hennar við hana þar og var hún ánægð með vistina. Að sögn talsmannsins voru tengsl feðginanna góð og samskipti þeirra áreynslulaus og eðlileg.

                Áætlun um meðferð máls skv. 23. gr. laga nr. 80/2002 var gerð 27. júní í sam­vinnu við varnaraðila.

                Lögregla var kölluð að heimili varnaraðila 10. júlí sl. vegna ofbeldis sam­býlis­manns varnaraðila gegn henni.

                Varnaraðili samþykkti ekki að barnið yrði vistað utan heimilis hennar. Af þeim sökum kvað sókn­ar­aðili upp þann úrskurð 12. júlí sl. að vista skyldi telpuna utan heim­ilis í tvo mán­uði og fól borgarlögmanni að höfða mál og krefjast þess að vista mætti barnið utan heimilis í sex mánuði talið frá 12. júlí sl.

                Sama dag tilkynnti föðurafi telpunnar áhyggjur af aðbúnaði barnsins hjá varn­ar­aðila og því að varnaraðili hygðist taka barnið með sér til útlanda. Í lok júlí tilkynnti hann að utanlandsferð varnaraðila með sambýlismanni sínum og móður hefði verið skelfi­leg vegna ofbeldis og hótana sambýlismanns varnaraðila og því mildi að barnið hefði ekki farið með.

                Þar eð varnaraðili sýndi ekki samvinnu vegna meðferðaráætlunar sem var gerð 27. júní sl. gerði Barnavernd Reykjavíkur einhliða áætlun um meðferð máls 31. ágúst sl.

                Lögregla var kölluð að heimili varnaraðila 8. september sl. vegna ofbeldis sam­býlis­manns hennar gegn henni. Íbúðin var í algerri óreiðu. Dýralæknir var kall­aður til vegna ástands dýra á heimilinu og lógaði einu dýri.

                Faðir greindi frá því í símtali við Barnavernd 13. september að barninu vegn­aði vel í skólanum og sækti [...]-kennslu alla virka daga.

                Varnaraðili greindi frá því í símtali við Barnavernd sama dag að hún væri reiðu­búin að athuga vímuefnameðferð því hallað hefði undan fæti hjá henni og var ákveðið að hún kæmi til viðtals mánudaginn 18. september.

                Aðfaranótt 1. október sl. var lögregla kölluð að heimili varnaraðila vegna heim­il­is­ófriðar. Hún og sambýlismaður hennar voru bæði í annarlegu ástandi þegar lög­reglu bar að og voru þau bæði flutt í fangaklefa.

                Á því leikur ekki nokkur vafi að varnaraðili er ekki fær um að hafa dóttur sína hjá sér eins og ástand hennar er og ekki fyrr en hún hefur náð tökum á fíknivanda sínum. Því er ótvírætt að sóknaraðili gat ekki beitt vægara úrræði en að vista dóttur hennar utan heim­ilis. Á það hefur varn­ar­aðili fallist með því að falla frá kröfu sinni um sýknu. Hún telur sex mán­uði þó of langan tíma, einkum vegna þess að hún vill ekki að dóttir hennar þurfi að flytjast á milli skólahverfa eftir að skólastarf er hafið í janúar 2018.

                Þegar þessi úrskurður er kveðinn upp eru liðnir tæpir þrír mánuðir frá því að sókn­ar­aðili kvað upp þann úrskurð að vista bæri dóttur varnaraðila utan heimilis til þess hvort tveggja að ná barninu úr óviðunandi aðstæðum þar og styðja varnaraðila í því að koma lífi sínu á réttan kjöl með því að fara í vímuefnameðferð. Í framhaldi af því yrði for­sjár­hæfni hennar metin og að því loknu metið hvort hagsmunir dóttur varnar­aðila væru nógu vel tryggðir hjá henni.

                Varnaraðili hefur nú árum saman tekið fjöldamörg vanabindandi lyf daglega. Sam­kvæmt lögregluskýrslum frá þessu ári hafa fíkniefni einnig mælst í blóði hennar. Til þess að unnt sé að meta forsjárhæfni hennar án lyfja þarf hún fyrst að fara í afeitrun. Þegar málið var tekið til úrskurðar var ekki vitað hvenær hún kæmist í afeitr­un­ina. Jafnframt er óvíst hversu langan tíma sú afeitrun tekur. Eftir hana þarf varnar­aðili að fara í inniliggjandi meðferð í nokkrar vikur. Mat á forsjárhæfni varnaraðila getur ekki hafist fyrr en hún hefur útskrifast úr þeirri meðferð og verður komin í eftir­með­ferð á göngudeild. Dómurinn fær því ekki séð að niðurstaða forsjárhæfnismats geti legið fyrir fyrir 12. janúar 2018.

                Dómurinn telur því rétt að fallast á vistun barnsins utan heimilis til þess tíma sem sóknaraðili krefst til þess að freista megi að ná því markmiði sem er stefnt að með vist­un­ar­úrræðinu, það er að ná varnaraðila úr fjötrum gríðarlegrar lyfjaneyslu og meta þá hæfni hennar til að annast barnið. Úrræðið er ekki íþyngjandi fyrir telpuna enda segir hún tals­manni sínum að sér líði vel hjá föður sínum og hún sækir nú skóla á réttum tíma og fer í íþróttir að eigin vali daglega.

                Varnaraðili krafðist ekki málskostnaðar úr hendi sóknaraðila. Rétt þykir að máls­kostn­aður milli aðila falli niður. Sóknaraðili krefst málskostnaðar eins og málið væri ekki gjaf­sókn­ar­mál og vísar til ákvæða 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 því til stuðn­ings.

                Sóknaraðili hefur lögbundna gjafsókn í málinu, sbr. ákvæði 61. gr., sbr. 1. mgr. 60. gr., laga nr. 80/2002. Hún fékk gjafsókn með bréfi inn­an­ríkis­ráðu­neyt­isins, dag­settu 22. september 2017. Málflutningsþóknun lög­manns hennar, Oddgeirs Ein­ars­sonar hrl., 580.000 krónur, skal greidd úr ríkis­sjóði. Við ákvörðun fjár­hæð­ar­innar var tekið tillit til skyldu til að greiða virðis­aukaskatt af þóknuninni.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Vista skal telpuna B utan heimilis varnaraðila, A á fósturheimili á vegum sóknaraðila, Barnavernd­ar­nefndar Reykja­víkur, til 12. janúar 2018.

                Málskostnaður milli aðila fellur niður.

                Gjafsóknarkostnaður varnaraðila sem er mál­flutn­ings­þóknun lögmanns hennar, Odd­geirs Einarssonar hrl., 580.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkis­sjóði.