Hæstiréttur íslands

Mál nr. 159/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni


                                     

Mánudaginn 9. mars 2015.

Nr. 159/2015.

Hilda ehf.

(Guðmundur Ingvi Sigurðsson hrl.)

gegn

Saga Capital hf.

(Ástráður Haraldsson hrl.)

Kærumál. Vitni.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu S hf. um að fá að leiða G sem vitni við aðalmeðferð í máli félagsins gegn H ehf., en G hafði að beiðni slitastjórnar S hf. ritað tvær skýrslur sem voru meðal gagna málsins. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom m.a. fram að því væri ekki haldið fram að G hefði verið endurskoðandi S hf. ellegar komið með öðrum hætti að starfsemi félagsins á tilgreindu tímabili eða þeim gerningum sem fjallað hefði verið um í fyrri skýrslu hans. Yrði hann því ekki leiddur fyrir dóm sem vitni á grundvelli VIII. kafla laga nr. 91/1991, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 190/1996. Þar sem G hefði ekki verið dómkvaddur sem matsmaður samkvæmt IX. eða XII. kafla laganna væri ekki heldur unnt að leiða hann fyrir dóm til skýrslugjafar eftir 65. gr. þeirra. Með vísan til þessa voru ekki talin vera skilyrði til að verða við kröfu S hf. um að fá að leiða G sem vitni fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og var kröfu félagsins því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.  

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. febrúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. febrúar 2015 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að fá að leiða Guðjón Norðfjörð sem vitni við aðalmeðferð málsins. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að áðurgreindri kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Meðal gagna málsins eru tvær skýrslur sem ritaðar voru af Guðjóni Norðfjörð, löggiltum endurskoðanda, fyrir slitastjórn varnaraðila. Hefur fyrri skýrslan, sem dagsett er 22. maí 2013, að geyma „úttekt á tilteknum gerningum í starfsemi félagsins á árunum 2008–2011, ásamt annarri skoðun í tengslum við gerningana.“ Í síðari skýrslunni frá 2. október 2013 var lagt „mat á gjaldfærni félagsins“ á framangreindu tímabili. Varnaraðili hefur krafist þess að fá að leiða áðurnefndan Guðjón sem vitni við aðalmeðferð málsins til að staðfesta efni skýrslnanna og svara spurningum að því lútandi. Féllst héraðsdómur sem fyrr greinir á þá kröfu.

 Af 1. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 verður dregin sú ályktun að aðili að einkamáli megi færa þar sönnur fyrir umdeildum atvikum með því að leiða fyrir dóm vitni til að svara munnlega spurningunum um slík atvik sem það hefur skynjað af eigin raun. Því er ekki haldið fram af hálfu varnaraðila að Guðjón Norðfjörð hafi verið endurskoðandi félagsins ellegar komið með öðrum hætti að starfsemi þess á framangreindu tímabili eða  þeim „gerningum“ sem fjallað var um í skýrslu hans 22. maí 2013. Verður hann því ekki leiddur fyrir dóm sem vitni á grundvelli VIII. kafla laga nr. 91/1991, sbr. dóm Hæstaréttar 21. maí 1996 í máli nr. 190/1996 sem birtur er á bls. 1785 í dómasafni það ár. Þar sem umræddur maður hefur ekki verið dómkvaddur sem matsmaður samkvæmt IX. eða XII. kafla laganna er heldur ekki unnt að leiða hann fyrir dóm til skýrslugjafar eftir 65. gr. þeirra.

Samkvæmt framansögðu brestur skilyrði til að verða við kröfu varnaraðila um að fá að leiða Guðjón Norðfjörð sem vitni fyrir dóm við aðalmeðferð málsins. Verður kröfunni því hafnað.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, Saga Capital hf., um að fá að leiða Guðjón Norðfjörð sem vitni við aðalmeðferð í máli félagsins á hendur sóknaraðila, Hildu ehf.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. febrúar 2015.

Í málinu liggja fyrir tvær skýrslur sem aflað var af stefnanda, önnur um mat á gjaldfærni stefnanda á tilteknum tíma og hin um úttekt á tilteknum gerningum á nánar greindu tímabili.

Þótt ágreiningur sé um sönnunargildi þessara skýrslna, breytir þar engu um að stefnanda verður ekki meinað að kalla höfund þeirra fyrir dóm til að staðfesta efni þeirra og svara spurningum að því lútandi. Verður stefnanda samkvæmt því heimilað að leiða Guðjón Norðfjörð löggiltan endurskoðanda sem vitni við aðalmeðferð málsins.

Úrskurðinn kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Stefnanda, Saga Capital hf., er heimilt að leiða Guðjón Norðfjörð fyrir dóm sem vitni við aðalmeðferð málsins.