Hæstiréttur íslands

Mál nr. 42/2001


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudagur 31

 

Fimmtudagur 31. maí 2001.

Nr. 42/2001.

 

Heimir Guðmundsson

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

gegn

Engilbert Hannessyni

(Magnús Thoroddsen hrl.)

 

Verksamningur. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.

 

Fasteign E skemmdist í jarðskjálfta. E fól H, sem var byggingarmeistari, að semja við Viðlagatryggingu Íslands um bætur vegna tjónsins og annast viðgerð á húsinu. E krafði H um tiltekna fjárhæð vegna aukaverka umfram þá verkþætti sem falist í samkomulagi við Viðlagatryggingu en H hafnaði greiðsluskyldu. Mjög skorti á að fyrir lægi hvað hefði þegar verið greitt af verkinu, hvernig staðið var að greiðslu reikninga, hvernig reikningar voru sundurliðaðir og hvenær þeir voru útgefnir. Því þótti ekki unnt að leysa úr þeim ágreiningi hvort einstakir reikningar vörðuðu verkþætti sem féllu innan verkáætlunar sem E hafði samþykkt. Var málinu því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. febrúar 2001. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 754.343 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 536.639 krónum frá 25. til 27. maí 1999, af 681.050 krónum frá þeim degi til 1. júní sama árs, en af 754.343 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Skemmdir urðu á íbúðarhúsi stefnda að Bakka í Ölfusi í jarðskjálfta 14. nóvember 1998. Var húsið vátryggt gegn slíku tjóni samkvæmt lögum nr. 55/1992 um Viðlagatryggingu Íslands. Stefndi fól áfrýjanda, sem er byggingarmeistari, að semja við Viðlagatryggingu Íslands um bætur vegna tjónsins og annast viðgerð á húsinu. Í málinu liggur fyrir skjal undirritað 2. desember 1998 af Frey Jóhannessyni og áfrýjanda, sem ber yfirskriftina: „Bakki Ölfusi Íbúðarhús – Áætlaður viðgerðarkostnaður Verðlag í nóv. 1998 með VSK“. Var þetta samkomulag áfrýjanda við Viðlagatryggingu um áætlaðan viðgerðarkostnað á húsinu, sem stefndi samþykkti. Í skjali þessu er viðgerðarkostnaður sundurliðaður í tuttugu og einum lið og heildarkostnaður áætlaður 4.239.200 krónur að teknu tilliti til endurgreiðslu á virðisaukaskatti af vinnu. Í máli þessu er deilt um skyldu stefnda til að greiða sex reikninga áfrýjanda, sem dagsettir eru á tímabilinu 25. maí 1999 til 1. júní sama árs. Heldur áfrýjandi því fram að reikningar þessir séu vegna aukaverka umfram þá verkþætti, sem falist hafi í fyrrgreindu samkomulagi við Viðlagatryggingu. Stefndi heldur því fram að reikningar þessir varði ýmist verkþætti, sem falli undir einstaka liði sundurliðunar í framangreindu samkomulagi við Viðlagatryggingu, eða verkþætti, sem hann hafi ekki beðið um að framkvæmdir yrðu. Hafi áfrýjandi jafnframt tekið að sér að vinna verkið þannig að greiðslur frá Viðlagatryggingu stæðu undir heildarkostnaði við það.

Í málinu liggja ekki fyrir aðrir reikningar vegna verksins en framangreindir sex reikningar, sem umdeildir eru. Ekki liggur fyrir hvað búið var að greiða þegar framangreindir reikningar voru gefnir út og hvernig staðið var að greiðslu annarra reikninga. Ekki liggur heldur fyrir hvernig aðrir reikningar voru sundurliðaðir, hvort þeir voru útgefnir eftir því, sem verkinu miðaði áfram, og hvernig staðið var að því að yfirfara þá og bera þá saman við fyrrgreinda áætlun. Af þessum sökum er meðal annars óljóst hvort búið var að greiða að fullu fyrir verkþætti, sem falla undir tiltekna liði í framangreindri áætlun og stefndi telur að reikningar áfrýjanda fyrir aukaverk eigi undir. Jafnframt er óljóst hvort greiðslur samkvæmt hinum almenna lið áætlunarinnar „annar kostnaður“ höfðu verið inntar af hendi og þá fyrir hvað.

Af framangreindum sökum er reifun málsins haldin þeim megin annmarka að ekki er unnt að leysa úr þeim ágreiningi aðila hvort einstakir reikningar varði verkþætti, er falli innan áætlunarinnar, og hvaða aðstöðu stefndi hafði til að fylgjast með hvort svo væri. Úr þessum annmörkum gátu aðilar bætt með því að leggja fram frekari gögn fyrir héraðsdóm og veita nánari upplýsingar um reikningsgerð og greiðslutilhögun. Þegar af þessari ástæðu ber að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi. Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Málinu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 1. nóvember 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 9. október sl. var þingfest í Héraðsdómi Suðurlands 16. febrúar 2000.

Stefnandi er Heimir Guðmundsson, kt. 310557-3239, Lyngbergi 6, Þorlákshöfn.

Stefndi er Engilbert Hannesson, kt. 111217-2039, Bakka, Ölfusi.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 754.343 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 536.639 krónum frá 25. maí 1999 til 27. maí 1999, en þá af 681.050 krónum frá 27. maí 1999 til 1. júní 1999, en þá af 754.343 krónum frá 1. júní 1999 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krafðist hann málskostnaðar að mati dómsins.

Málavextir

Mál þetta var upphaflega dæmt sem útivistarmál og áritað um aðfararhæfi 22. febrúar 2000. Stefndi krafðist endurupptöku málsins á grundvelli XXIII. kafla laga nr. 91/1991 og var málið endurupptekið með bókun í þingbók 10. apríl 2000. Stefndi skilaði greinargerð sinni 3. maí 2000.

Tildrög máls þessa má rekja til jarðskjálfta sem varð 14. nóvember 1998 og olli skemmdum á íbúðarhúsi stefnda að Bakka í Ölfusi. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 55/1992 um Viðlagatryggingu Íslands, bætir tryggingin tjón af völdum slíkra náttúruhamfara. Óumdeilt er að stefndi fól stefnanda, sem er byggingameistari, að semja við Viðlagatryggingu fyrir sína hönd um viðgerðarkostnað á húsinu og vera umboðsmaður sinn gagnvart Viðlagatryggingu, auk þess að annast endurbætur á húsinu. Í málinu hefur verið lagt fram skjal sem ber yfirkriftina ,,Bakki Ölfusi, íbúðarhús-áætlaður viðgerðarkostnaður, verðlag í nóv. 1998 með VSK”.

Skjal þetta er samningur stefnanda máls þessa og Viðlagatryggingar um viðgerðarkostnað á húsi stefnda að fjárhæð 4.689.200 krónur, dagsett 2. desember 1998 og undirritað af stefnanda og Frey Jóhannessyni tæknifræðingi. Stefnandi annaðist endurbætur á húsi stefnda í samræmi við samning þennan og fékk greitt samkvæmt honum. Stefnandi hefur krafið stefnda um greiðslur viðgerðakostnaðar á húsi hans, sem hann kveður vera vegna viðgerða sem stefndi hafi sjálfur beðið um, en ekki hafi verið innifaldar í samningi þeim sem gerður var milli stefnanda og Viðlagatryggingar. Ágreiningur málsins stendur um hvort stefnda beri að greiða þá reikninga sem stefnandi hefur lagt fram vegna þess kostnaðar. Hæsti reikningurinn er vegna klæðningar á norðurgafl og bílskúrsveggi, dagsettur 25. maí 1999 að fjárhæð 223.738 krónur.

Stefndi hefur viðurkennt að hafa beðið stefnanda um nýjar útirhurðir og kveðst reiðubúinn að greiða stefnanda kostnað vegna þess.

Fyrir dóminn komu aðilar málsins og vitnið Bjarki Sveinn Smárason. Þá gaf Freyr Jóhannesson tæknifræðingur símaskýrslu.

Málsástæður og lagarök aðila

Stefnandi kveður kröfu sína byggða á sex reikningum sem séu vegna efnis og smíðavinnu sinnar í þágu stefnda, að Bakka, Ölfusi. Reikningar þessir séu að upphæð 139.898, með gjalddaga 25. maí 1999, 118.753 krónur með sama gjalddaga, 223.738 með sama gjalddaga, 54.250 krónur með sama gjalddaga, 144.411 krónur með gjalddaga 27. maí 1999, og 73.293 krónur með gjalddaga 1. júní 1999.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en reglan fái m.a. lagastoð í 5. og 6. og 28. gr. laga nr. 39/1922. Kröfu um dráttarvexti, þar með talið vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefndi kveðst hafa ráðið stefnanda til að lagfæra skemmdir á húsi sínu af völdum jarðskjálfta og veitt honum umboð til þess að semja við Viðlagatryggingu Íslands um skaðabótagreiðslu er fullnægjandi væri til að bæta tjónið. Hafi stefndi lagt ríkt á við stefnanda að hann semdi þannig við Viðlagatryggingu að bótaféð nægði að fullu fyrir viðgerðunum, enda hefði stefndi ekki sjálfur fé aflögu í þessa framkvæmd. Stefnandi hafi samið við Frey Jóhannesson, byggingatæknifræðing á vegum Viðlagatryggingar um áætlaðan viðgerðarkostnað á íbúðarhúsi stefnda að Bakka og hafi sá kostnaður numið 4.689.200 krónum. Stefnandi sé sérfræðingur á sviði byggingarmála og það hafi því verið á hans ábyrgð, að kostnaðaráætlun stæðist, en ekki ábyrgð stefnda, sem ekki hafa sérþekkinguna. Stefndi telji sér því ekki skylt að greiða stefnanda vegna viðgerðanna umfram það sem stefnandi hafi samið um við Viðlagatryggingu og stefnandi hafi talið fullnægjandi til að lagfæra skemmdir. Þar sem stefnandi hafi í samningum sínum við Viðlagatryggingu farið út fyrir umboð það sem stefndi hafi veitt honum, verði hann að bera meintan umframkostnað sjálfur er sé stefnda óviðkomandi. Af hálfu stefnda er byggt á skuldbindingargildi loforða og lagareglum um umboð, samkvæmt lögum nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Málskostnaðarkröfu sína reisir stefndi á 129. gr. sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Óumdeilt er að stefnandi hefur ekki fengið greitt fyrir þau verk, sem hann hefur unnið í þágu stefnda, og ekki eru tilgreind í samningi þeim sem hann gerði fyrir hönd stefnda við Viðlagatryggingu.

Verk þau sem stefnandi skyldi vinna samkvæmt samningi þessum og hefur fengið greitt fyrir eru meðal annars samkvæmt lið 1.3 að ,,klæða útveggi” og er kostnaður samkvæmt þeim lið 476.000 krónur og samkvæmt lið 1.5 ,,klæða bílskúrsveggi” 367.200 krónur. Við kostnaðarlið varðandi klæðningu á útveggjum er enginn fyrirvari um að norðurgafl húss sé undanskilinn klæðningu, en hæstur reikninga stefnanda í máli þessu er reikningur vegna klæðningar á norðurgafli húss og bílskúr að fjárhæð 223.738 krónur.

Í framburði Freys Jóhannessonar fyrir dómi kom fram að hann hefði hitt stefnda á heimili hans og kvað þá hafa farið yfir vissa hluti, en mundi þó ekki nákvæmlega hvort þeir hefðu rætt hvern einasta lið samningsins. Fyrir dómi kvað stefnandi að viðbrögð stefnda við reikningum sínum vegna klæðningar á norðurgafli húss og bílskúr, hafi verið þau, að hann hafi sagt að hann ætti ekki að greiða þá reikninga heldur Viðlagatrygging Íslands.

Stefndi kvaðst fyrir dómi hafa lagt á það ofuráherslu við stefnanda að hann mætti ekkert vinna við húsið, nema verk sem Viðlagatrygging greiddi.

Í málinu er fram komið hver viðbrögð stefnda voru við reikningum stefnda og má af þeim ráða að stefnandi hafi staðið í þeirri trú að þau verk sem stefnandi vann í þágu stefnda hafi falist í samningi þeim sem stefnandi hafði gert fyrir hönd stefnda.

Við samningsgerð við Viðlagatryggingu kom stefnandi fram fyrir hönd stefnda. Hann vann verk þau sem tilgreind eru í samningi milli Viðlagatryggingar og stefnanda og fékk fyrir þau greitt samkvæmt samningnum, en einnig vann hann önnur verk í þágu stefnda á sama tíma.

Telja verður að í ljósi þeirrar stöðu sem stefnandi hafði í samningssambandi aðila, bæði sem byggingameistari og umboðsmaður stefnda við gerð kostnaðaráætlunar og í samningum við Viðlagatryggingu, að á stefnanda hafi hvílt sú ábyrgð að vinna verk þau sem greind voru á kostnaðaráætlun innan ramma hennar, en gera stefnda sérstaklega grein fyrir því að tiltekin önnur verk stefnanda féllu utan áætlunarinnar og fyrir þau bæri stefnda að greiða sérstaklega. Þar sem ekki verður séð að það hafi verið gert og svo hafi um samist milli aðila, verður að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda, nema kröfu vegna vinnu og efnis við útihurðir, en þá kröfu hefur stefndi viðurkennt. Á dómskjali nr. 7, sem er reikningur vegna vinnu við fataskápa, útihurðir, gluggafög og ísetningu á gluggafögum/hurðum, kemur fram að fyrir 2 stk. útihurðir krefst stefnandi 67.470 króna og fyrir vinnu við ísetningu á gluggafögum/hurðum krefst hann 19.060 króna. Stefndi hefur samþykkt að greiða efni og vinnu við útihurðir og ber honum því að greiða efniskostnað vegna hurðanna, en auk þess þykir rétt að hann greiði helming þeirrar fjárhæðar sem tilgreind er sem ísetning á gluggafögum/hurðum, þannig að samtals greiði stefndi stefnanda 77.000 krónur auk virðisaukaskatts að fjárhæð 18.865 krónur, samtals 95.865 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af þeirri fjárhæð frá 1. júlí 1999, til greiðsludags, sbr. 3. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.

Í ljósi þessarar niðurstöðu þykir rétt að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð

Stefndi, Engilbert Hannesson, greiði stefnanda Heimi Guðmundssyni 95.865 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af þeirri fjárhæð frá 1. júlí 1999 til greiðsludags.

Hvor aðila greiði sinn kostnað af málinu.