Hæstiréttur íslands
Mál nr. 737/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. október 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2016, þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 17. október sama ár um að varnaraðili sætti nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að hann verði staðfestur.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar, en þó þannig að nálgunarbannið gildi í 6 mánuði.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður krafa sóknaraðila tekin til greina á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur með þeirri breytingu að varnaraðili, X, sæti nálgunarbanni í 6 mánuði frá 17. október 2016 að telja.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2016.
Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að staðfest verið ákvörðun hans þess efnis að X (varnaraðili) skuli sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili barnsmóður sinnar A (brotaþoli), að [...] í [...] á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið. Jafnframt er lagt bann við því að varnaraðili veiti henni eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti. Ákvörðunin var tekin með heimil í a og b lið 4. gr. laga 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili skv. frumkvæði lögreglustjórans, sbr. 3. mgr. 3. gr. sömu laga.
Lögregla vísar til þess að varnaraðili liggi nú undir sterkum grun um að hafa að kvöldi 16. október sl. veist að brotaþola á heimili hennar. Mun hann hafi komið á heimili brotaþola, sem ekki hafi verið sátt við það, og hafi komið til orðasks þeirra á milli sem hafi endað með því að varnaraðili hafi veist að brotaþola, skellt henni á gólf, togaði í hönd hennar svo að hún hafi fengið roða á höndina, tekið af henni símann og gripið fyrir munn hennar. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi varnaraðili verið ölvaður og í annarlegu ástandi. Í skýrslu lögreglu hafi komið fram að börn þeirra 3 og 4 ára hafi horft upp á ofbeldið en þau búi á heimilinu. Þá hafi einnig komið fram að brotaþoli óttist kærða.
Þá sé varnaraðili grunaður um refsiverða háttsemi gagnvart brotaþola 6. október sl. í Máli nr. 007-2016-[...] með því að hafa slegið hana hnefahögg í andlitið á heimili hennar með þeim afleiðingum að hún fékk glóðarauga.
Lögregla hafi áður haft afskipti af varnaraðila vegna heimilisofbeldis, í máli 007-2015-[...] frá 30. janúar 2015. Hann hafi lokið afplánun fangelsisrefsingar þann 13. júlí 2016 vegna auðgunar, fíkniefna og umferðarlagabrota. Þá sæti hann ákærumeðferðar vegna alvarlegrar líkamsárásar.
Varnaraðila hafi verið birt ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um nálgunarbann þann 17. október sl. kl. 14.55. Innan við klukkustund síðar eða kl. 15.27 þann sama dag barst lögreglu tilkynning þess efnis að hann væri kominn að íbúð brotaþola og væri að berja á dyr hennar og reyna að komast inn. Hafi hann verið handtekinn þar skömmu síðar. Þá sé hann undir sterkum grun um að hafa brotið aftur gegn nálgunarbanninu með því að hafa sent henni fjölda skilaboða frá kl. 19.21 þann 17. október sl. til kl. 4.40 þann 18. október.
Í ljósi ofangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt þegar litið sé til fyrri sögu varnaraðila þá sé talin hætta á að hann muni halda háttsemi sinni áfram sé hann látinn afskiptalaus. Það sé mat lögreglustjóra að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2001 séu uppfyllt enda liggi fyrir rökstuddur grunur um að hann hafi brotið gegn brotaþola og að hætta sé á því að hann haldi áfram að raska friði hennar í skilning 4. gr. laga nr. 85/20011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Sé ekki talið sennilegt að friðhelgi hennar verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.
Niðurstaða:
Lögð hafa verið fyrir dóminn afrit rannsóknargagna lögreglu, sem eru tilefni ákvörðunar lögreglustjóra frá 17. þ.m. um að varnaraðili skuli sæta nálgunarbanni en efni þeirra er rakið hér að framan. Þá liggja fyrir gögn, m.a. skýrsla um smáskilaboð sem varnaraðili sendi brotaþola eftir að nálgunarbannið tók gildi. Í skýrslu lögreglu frá 16. þ.m. kemur m.a. fram að brotaþoli hafi greint lögreglu frá því að hún vildi varnaraðila út úr lífi sínu. Hún kvað hann vera í neyslu og væri hún hrædd við hann í því ástandi. Hún sæi hjá honum geðveikiseinkenni líkt og hjá bróður hans. Hún væri að velta fyrir sér að fara fram á nálgunarbann. Eins og rakið hefur verið tók lögreglustjóri að eigin frumkvæði málið til meðferðar með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2011.
Með hliðsjón af þeim gögnum tekur dómurinn undir það mat lögreglustjóra að ekki þyki sennilegt að friðhelgi brotaþola verði verndað með öðrum hætti en að varnaraðili sæti nálgunarbanni. Þykja því uppfyllt skilyrði a og b liða 4. gr. laga nr. 85/2011 til þess að staðfesta ákvörðun lögreglustjóra, eins og nánar greinir í úrskurðarorði, þó þannig að nálgunarbannið gildi í þrjá mánuði.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., sem ákveðst 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Einnig greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Snorra Sturlusonar hdl., 200.000 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna er tekið tillit til virðisaukaskatts.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Staðfest er nálgunarbann er lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu lagði á X kt. [...], þó þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili barnsmóður sinnar A, kt. [...] að [...] í [...] á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, í þrjá mánuði frá 17. október 2016 að telja. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., sem ákveðst 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Einnig greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Snorra Sturlusonar hdl., 200.000 krónur.