Hæstiréttur íslands

Mál nr. 528/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögbann
  • Samkeppni


Mánudaginn 20. september 2010.

Nr. 528/2010.

Sæmundur Steindór Magnússon

(Einar Jónsson hdl.)

gegn

Sparnaði ehf.

(Anton Björn Markússon hrl.)

Kærumál. Lögbann. Samkeppni.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms, þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumannsins á Akranesi um að hafna beiðni félagsins S um lögbann hjá SM og fallist á að sýslumanni bæri gegn tryggingu, sem hann mæti hæfilega, að leggja lögbann við því að SM starfaði til og með 5. nóvember 2010 sem launþegi, verktaki eða ráðgjafi hjá félaginu A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. september 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 24. ágúst 2010, þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumannsins á Akranesi 18. júní 2010 um að hafna beiðni varnaraðila um lögbann hjá sóknaraðila og fallist á að sýslumanni beri gegn tryggingu, sem hann mæti hæfilega, að leggja lögbann við því að sóknaraðili starfi til og með 5. nóvember 2010 sem launþegi, verktaki eða ráðgjafi hjá Allra ráðgjöf ehf. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og sér dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Sæmundur Steindór Magnússon, greiði varnaraðila, Sparnaði ehf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 24. ágúst 2010.

Mál þetta var þingfest 23. júlí 2010 og tekið til úrskurðar 16. ágúst sama ár. Gerðarbeiðandi er Sparnaður ehf., Holtasmára 1 í Kópavogi, en gerðarþoli er Sæmundur Steindór Magnússon, Vesturgötu 162 á Akranesi.

Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á Akranesi frá 18. júní 2010 um að synja sóknaraðila um að leggja lögbann við því að varnaraðili starfi hjá fyrirtækinu Allra ráðgjöf ehf., komi fram fyrir hönd þess félags, kynni það eða sinni nokkrum öðrum verkefnum fyrir félagið, hvort sem er launuðum eða ólaunuðum, meðal annars með því að veita ráðgjöf til félagsins, fram til 5. nóvember 2010. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að lagt verði fyrir sýslumann að leggja á lögbannið gegn tryggingu sem hann metur hæfilega. Þá krefst sóknaraðili þess að lögbannið girði fyrir að varnaraðili hafi samband við viðskiptamenn sóknaraðila, þar með talið starfsmenn þeirra, eða veiti viðskiptamönnum þjónustu sem talin verður á sama sviði og starf það sem varnaraðili sinnti hjá sóknaraðila, hvort heldur með eða án gjalds, og hvort sem er sem sjálfboðaliði, launþegi eða sjálfstæður verktaki. Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hrundið og ákvörðun sýslumanns frá 18. júní 2010 staðfest. Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert að greiða málskostnað.

I.

Sóknaraðili er einkahlutafélag sem stofnað var árið 2002. Samkvæmt vottorði Hlutafélagaskrár er starfsemi félagsins tengd vátryggingum og lífeyrissjóðum. Einnig hefur komið fram í málinu að sóknaraðili er með umboð fyrir þýska vátryggingarfélagið Bayern Versicherung Lebensversicherung AG, sem býður upp á viðbótarlífeyrissparnað hér á landi. Þá selur sóknaraðili tryggingar fyrir Tryggingamiðstöðina hf.

Hinn 15. janúar 2010 gerðu málsaðilar með sér ótímabundinn verksamning þar sem varnaraðili tók að sér ráðgjöf og sölu á þjónustu sóknaraðila. Í samningnum er tekið fram að starfsemi sóknaraðila sé þjónusta fyrir viðskiptavini við uppgreiðslu lána, vátryggingasala, auk þess að vera einkaumboðsaðili fyrir fyrrgreint þýskt fjármálafyrirtæki. Einnig er tekið fram að sóknaraðili bjóði upp á viðbótarlífeyrissparnað auk annarra fjármála- og tryggingaafurða. Í samningnum eru nánari ákvæði um fasta þóknun varnaraðila auk árangurstengdrar þóknunar og hvernig haga beri uppgjöri gagnvart varnaraðila. Þá er tekið fram að varnaraðila beri að gæta fyllsta trúnaðar um allt það sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og haldi trúnaðarskyldu eftir að samningi lýkur. Í samningnum er síðan að finna svohljóðandi ákvæði um samkeppni:

Starfsmanni er óheimilt næstu 6 mánuði eftir að hann lætur af störfum hjá Sparnaði að takast á hendur starf sem starfsmaður, verktaki eða ráðgjafi hjá öðrum eða í eigin þágu, enda sé starfið eða verkefni á sama sviði og starf það sem hann hefur sinnt hjá Sparnaði þannig að í bága fari við samkeppnishagsmuni félagsins vegna þeirrar sérstöku þekkingar og vitneskju sem starfsmaðurinn hefur fengið hjá Sparnaði og telst ekki til aðgengilegrar og almennrar þekkingar á viðkomandi sviði. Í samningsákvæði þessu um samkeppni merkir það að láta af störfum og starfslok það tímamark er starfsmaðurinn hættir að fá greidd laun frá félaginu án tillits til þess að hann hafi hætt að gegna skyldustörfum fyrr. Ákvæði þetta um samkeppni er því aðeins bindandi fyrri starfsmann að hann segi sjálfur upp störfum. Samkvæmt samningalögum telst ákvæðið ekki gilda ef starfsmanni er sagt upp störfum án sakar nema til komi sérstakur starfslokasamningur er inniheldur ákvæði um samkeppni eða starfsmaður hættir vegna vanefnda Sparnaðar á samningi aðila.

Með bréfi 5. maí 2010 sagði varnaraðili upp störfum hjá sóknaraðila og var hann að eigin ósk leystur strax frá störfum.

Um það leyti sem varnaraðili lét af störfum hjá sóknaraðila tók hann sæti í stjórn fyrirtækisins Fjármál og trygging ehf., en varnaraðili var annar af stofnendum félagsins. Nafni félagsins var síðan breytt í Allra ráðgjöf ehf. Samkvæmt vottorði Hlutafélagaskrár er tilgangur félagsins starfsemi umboðsmanna og miðlara í vátryggingum. Varnaraðili var upphaflega skráður framkvæmdastjóri félagsins en því var breytt og er Bryndís Gísladóttir skráður framkvæmdastjóri. Varnaraðili hefur frá upphafi haft prókúru fyrir félagið.

Hinn 10. maí 2010 ritaði lögmaður sóknaraðila bréf til varnaraðila og vísaði til þess að hann hefði stofnað fyrrgreint félag sem væri í beinni samkeppni við sóknaraðila um sölu á tryggingum, lífeyrissparnaði og öðrum fjármálagerningum. Var því haldið fram að þetta færi í bága við verksamning málsaðila frá 15. janúar 2010 og þess krafist að látið yrði af þessum athöfnum tafarlaust. Að öðrum kosti yrði sett fram krafa um lögbann hjá sýslumanni. Þá var áréttað að varnaraðili væri bundinn af trúnaðarskyldu gagnvart sóknaraðila. Þessu erindi sóknaraðila var ekki svarað.

II.

Með lögbannsbeiðni 3. júní 2010, sem barst sýslumanninum á Akranesi 8. sama mánaðar, var þess farið á leit að lagt yrði lögbann við því að varnaraðili starfaði hjá fyrirtækinu Allra ráðgjöf ehf., kæmi fram fyrir hönd þess, sæti í stjórn fyrirtækisins eða sinnti nokkrum öðrum verkefnum fyrir félagið, launuðum eða ólaunuðum, meðal annars með því að veita ráðgjöf til félagsins, fram til 5. nóvember 2010. Einnig var þess farið á leit að lögbannið tæki til þess að varnaraðila væri meinað að hafa samband við viðskiptamenn sóknaraðila, þar með talið starfsmenn þeirra, eða veitti viðskiptamönnum þjónustu sem talin yrði á sama sviði og starf það sem varnaraðili sinnti hjá sóknaraðila, hvort heldur með eða án gjalds, og hvort sem er sem sjálfboðaliði, launþegi eða sjálfstæður verktaki.

Eftir að sóknaraðili hafði lagt fram tryggingu til bráðabirgða að fjárhæð 2.000.000 króna, í samræmi við ákvörðun sýslumanns, var málið tekið fyrir 15. júní 2010. Málinu var síðan frestað til 18. sama mánaðar, en þá tók sýslumaður þá ákvörðun að hafna beiðni sóknaraðila um lögbann. Sú niðurstaða var reist á því að varnaraðili hefði fyrst og fremst í starfi hjá sóknaraðila aflað samninga um viðbótarlífeyrissparnað og aðeins lítillega selt skaðatryggingar. Hjá Allra ráðgjöf ehf. hefði varnaraðili hins vegar nær eingöngu selt skaðatryggingar. Einnig vísaði sýslumaður til þess að varnaraðili hefði lýst því yfir að hann ætlaði ekki að afla viðbótarlífeyrissparnaðar til 5. nóvember 2010, en með því hefði hann að hluta til fallist á lögbannskröfuna. Að þessu gættu taldi sýslumaður að hagsmunir sóknaraðila af því að fá lagt á lögbann væru ekki þess eðlis að unnt væri að taka kröfuna til greina. Einnig taldi sýslumaður að hagsmunir sóknaraðila væru nægjanlega tryggðir með réttarreglum um refsingar og skaðabætur fyrir röskun hagsmuna, sbr. 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990.

Með tölvupósti 25. júní 2010 tilkynnti lögmaður sóknaraðila sýslumanni að krafist yrði úrskurðar dómsins um ákvörðun hans. Krafa þess efnis barst síðan dóminum 7. júlí sama ár.

III.

Sóknaraðili vísar til þess að með skriflegum verksamningi 15. janúar 2010 hafi varnaraðili tekið að sér störf í þágu sóknaraðila við ráðgjöf og miðlun á þeirri þjónustu sem sóknaraðili hafi upp á að bjóða. Í starfi sínu hafi varnaraðili haft aðgang að ýmsum trúnaðarupplýsingum um starfsemina, svo sem viðskiptakjör og afslætti, og því hafi samningurinn haft að geyma ákvæði um trúnaðarskyldu. Jafnframt bendir sóknaraðili á að með samningnum hafi verið lagt bann við því að varnaraðili tæki að sér störf í samkeppni við sóknaraðila. Heldur sóknaraðili því fram að varnaraðili hafi gerst brotlegur við þessi ákvæði með því að stofna fyrirtækið Allra ráðgjöf ehf., setjast í stjórn þess og hefja rakleitt störf í samkeppni við sóknaraðila eftir að varnaraðili sagði upp starfi sínu hjá sóknaraðila 5. maí 2010.

Sóknaraðili tekur fram að varnaraðili hafi með engu móti verið leystur undan þeim samkeppnishömlum sem leiða af verksamningi aðila. Einnig hafi varnaraðili ekki orðið við tilmælum að láta af þeim athöfnum sem fara í bága við samninginn. Telur sóknaraðili fyrirsjáanlegt að varnaraðili muni í sínu nýja starfi nýta sér þá sérþekkingu sem hann aflaði sér í stafi hjá sóknaraðila hafi hann ekki þegar gert það. Þetta telur sóknaraðili til þess fallið að valda honum verulegu tjóni án þess þó að unnt sé með góðu móti að leiða í ljós umfang tjónsins.

Sóknaraðili hafnar þeirri túlkun sýslumanns á Akranesi á samkeppnisákvæði verksamningsins að það nái eingöngu til nákvæmlega sömu starfa og varnaraðili gegndi hjá sóknaraðila. Því breyti engu þótt varnaraðili hafi í sínu nýja starfi aðallega miðlað vátryggingum frekar en viðbótarlífeyrissparnaði. Í þessu sambandi tekur sóknaraðili fram að félagið miðli tryggingum fyrir Tryggingamiðstöðina hf. Jafnframt bendir sóknaraðili á að hæglega mætti komast hjá samkeppnisákvæði af þessu tagi ef það ætti að sæta svo þröngri túlkun. Þá telur sóknaraðili að ætlað brot á umræddu samningsákvæði verði ekki eingöngu virt út frá sölustarfi heldur verði einnig að hafa í huga þær upplýsingar sem varnaraðili býr yfir um starfsemi sóknaraðila og geta komið til góða við samkeppni. Einnig telur sóknaraðili engu skipta yfirlýsingu varnaraðila þess efnis að hann sjálfur muni ekki afla viðbótarlífeyrissparnaðar til 5. nóvember 2010, enda muni það fyrirtæki sem varnaraðili starfar hjá eftir sem áður starfa á sama sviði og sóknaraðili.  

Sóknaraðili telur hafið yfir allan vafa að varnaraðili sinni hjá Allra ráðgjöf ehf. verkefnum á sama sviði og þau störf sem hann hafði með höndum hjá sóknaraðila. Varnaraðili hafi því virt að vettugi verksamning aðila um að efna ekki til samkeppni í sex mánuði eftir að hann lét af störfum. Telur varnaraðili að þessi tímalengd eða þær hömlur sem varnaraðili gekkst undir séu með engu móti ósanngjarnar þannig að í bága fari við 1. mgr. 37. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936.

Samkvæmt framansögðu heldur sóknaraðili því fram að fyrir hendi séu öll skilyrði til að lögbann verði lagt við athöfnum varnaraðila, sbr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Þá telur sóknaraðili augljóst að hagsmunir hans séu ekki nægjanlega tryggðir með réttarreglum um refsingu eða skaðabætur.

IV.

Þótt málsaðilar hafi gert með sér verksamnings 15. janúar 2010 vísar varnaraðili til þess að fyrirkomulagið hafi verið á þann veg að verklaun voru ekki greidd beint til varnaraðila heldur til fyrirtækisins Seltinds ehf. sem varnaraðili starfaði hjá. Samkvæmt þessu telur varnaraðili að hann hafi í raun ekki átt aðild að samningssambandinu og því sé kröfu um lögbann ranglega beint að sér.

Verði fallist á að krafa um lögbann verði höfð uppi gegn varnaraðila andmælir hann því að störf í þágu Allra ráðgjafar ehf. brjóti gegn verksamningi aðila. Í því sambandi bendir varnaraðili á að verkefni hans hjá sóknaraðila séu með engu móti hliðstæð við þau störf sem hann hafi með höndum hjá Allra ráðgjöf ehf. Í starfi hjá sóknaraðila hafi varnaraðili nær eingöngu sinnt því að gera samninga um viðbótarlífeyrissparnað. Þannig hafi varnaraðili ekki nema að mjög óverulegu leyti miðlað tryggingum eins og hann geri í því starfi sem hann gegnir hjá Allra ráðgjöf ehf.

Varnaraðili mótmælir því að skilyrði lögbanns séu fyrir hendi samkvæmt 24. gr. laga nr. 31/1990. Í því sambandi bendir varnaraðili á að með lögbanni því sem sóknaraðili leitar eftir sé vegið að atvinnufrelsi varnaraðila og rétti hans til að afla sér lífsviðurværis. Telur varnaraðili að lögbanni verði ekki beitt með því móti, enda sé lögbann í eðli sínu neyðarráðstöfun og um það gildi ströng skilyrði. Jafnframt bendir varnaraðili á að hann hafi lýst því afdráttarlaust yfir að hann muni ekki gera samninga í starfi sínu hjá Allra ráðgjöf ehf. um viðbótarlífeyrissparnað. Því sé ekki fyrir hendi byrjuð eða yfirvofandi athöfn sem brjóti gegn lögvörðum hagsmunum sóknaraðila. Einnig telur varnaraðili að réttarreglur um skaðabætur tryggi nægjanlega hagsmuni sóknaraðila auk þess sem hagsmunir hans af því að fá lagt á lögbann séu mun minni en hagsmunir varnaraðila af því að afla sér lífsviðurværis. Lögbann verði því ekki lagt á, sbr. 1. og 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. 

Þá heldur varnaraðili því fram að sú skuldbinding sem hann gekkst undir með verksamningi aðila sé mun víðtækari en efni stóðu til og því skerði hún með ósanngjörnum hætti atvinnufrelsi hans. Af þeim sökum sé varnaraðili ekki bundinn af loforðinu, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 7/1936.

Loks bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi í starfsemi sinni vanefnt skyldur sínar gagnvart viðsemjendum þannig að varnaraðila hafi ekki verið stætt á því að gegna áfram störfum. Þessu til stuðnings bendir varnaraðili á að samningi um viðbótarlífeyrissparnað við mann að nafni Gísli Finnur Aðalsteinsson hafi verið sagt upp í júní 2010 vegna vanefnda, en nefndur Gísli stofnaði fyrirtækið Allra ráðgjöf ehf. með varnaraðila og er hann stjórnarformaður félagsins. Tekur varnaraðili fram að hann hefði aldrei fallist á þær samkeppnishömlur sem verksamningur aðila hefur að geyma ef hann hefði haft vitneskju um starfshætti sóknaraðila. Að þessu gættu telur varnaraðili að umrætt samningsákvæði sé ósanngjarnt í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936 og því verði ákvæðinu vikið til hliðar.

V.

Málsaðilar gerðu með sér verksamning 15. janúar 2010 þar sem varnaraðili tók að sér ákveðin verk í þágu sóknaraðila. Jafnframt gekkst varnaraðili undir trúnaðarskyldu gagnvart sóknaraðila og að efna ekki til samkeppni í sex mánuði eftir starfslok. Með bréfi 5. maí 2010 sagði varnaraðili upp verksamningnum. Að þessu gættu er kröfu sóknaraðila um lögbann vegna ætlaðra brota á samningnum réttilega beint að varnaraðila. Skiptir þá engu þótt verklaun hafi verið gerð upp fyrir milligöngu fyrirtækis í eigu varnaraðila.

Samkvæmt verksamningi málsaðila skuldbatt varnaraðili sig til að takast ekki á hendur starf sem starfsmaður, verktaki eða ráðgjafi hjá öðrum eða í eign þágu, enda væri starfið eða verkefni á sama sviði og starf það sem varnaraðili sinnti hjá sóknaraðila. Samkvæmt sama samningi tók varnaraðili að sér ráðgjöf og sölu á þjónustu sóknaraðila. Í málinu hefur komið fram að starfsemi sóknaraðila felst aðallega í því að afla samninga um viðbótarlífeyrissparnað og miðla tryggingum. Eftir að hafa sagt upp störfum hjá sóknaraðila 5. maí 2010 hóf varnaraðili störf hjá fyrirtækinu Allra ráðgjöf ehf., en varnaraðili er annar af stofnendum fyrirtækisins og situr í stjórn þess. Samkvæmt vottorði Hlutafélagaskrár er starfsemi þess félags að miðla vátryggingum. Jafnvel þótt lagt verði til grundvallar að varnaraðili hafi í starfi hjá sóknaraðila fyrst og fremst starfað við að afla samninga um viðbótarlífeyrissparnað og hjá fyrirtækinu Allra ráðgjöf ehf. hafi hann með höndum að miðla vátryggingum verða þau verkefni sem hann annast nú talin á sama sviði og starf það sem hann sinnti hjá sóknaraðila. Er þá haft í huga að starfsemi sóknaraðila felst meðal annars í að miðla vátryggingum. Þá skiptir ekki máli hvort varnaraðili sjálfur aflar viðskipta eða sinnir öðrum störfum hjá Allra ráðgjöf ehf. þar sem vitneskja um starfsemi sóknaraðila getur bersýnilega haft áhrif við samkeppni, svo sem við stjórnun og markaðssetningu.

Varnaraðili hefur borið því við að ákvæði í verksamningi aðila sem meinar honum að efna til samkeppni við sóknaraðila sé víðtækara en nauðsyn ber til í því skyni að varna samkeppni og skerði með ósanngjörnum hætti atvinnufrelsi hans. Samningsákvæðið sé því ekki bindandi fyrir varnaraðila, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 7/1936. Umrætt samningsákvæði þjónar lögmætum tilgangi þótt það setji vissulega nokkrar skorður við frelsi varnaraðila til að hefja störf hjá öðrum en sóknaraðila. Þær hömlur gilda þó aðeins um skamman tíma og verður ekki fallist á það með varnaraðila að samningsákvæðið fari í bága við nefnt ákvæði samningalaga. Þá getur engu breytt um gildi þessarar skuldbindingar þótt síðar hafi komið í ljós að sóknaraðili hafi vanefnt samning um viðbótarlífeyrissparnað gagnvart óviðkomandi þriðja manni.

Samkvæmt þessu verður fallist á það með sóknaraðila að varnaraðila sé óheimilt samkvæmt verksamningi aðila að gegna þeim störfum sem hann hefur með höndum hjá Allra ráðgjöf ehf. í sex mánuði frá 5. maí 2010. Þá verður ekki fallist á það með varnaraðila að réttarreglur um skaðabætur tryggi nægjanlega hagsmuni sóknaraðila eða að hagsmunir hans af því að fá lagt á lögbannið séu mun minni en hagsmunir varnaraðila af því að það verði ekki lagt á, sbr. 1. og 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Í samræmi við þetta og með því að fullnægt er að öðru leyti skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 fyrir lögbanni við þeirri athöfn varnaraðila að gegna störfum á sama sviði hjá Allra ráðgjöf ehf. og hann hafði áður með höndum hjá sóknaraðila verður lögbannskrafan tekin til greina svo sem í úrskurðarorði greinir, en í þeim efnum er tekið mið af orðalagi ákvæðisins um samkeppni í verksamningi málsaðila.

Eftir þessum málsúrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað svo sem greinir í úrskurðarorði.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun sýslumannsins á Akranesi 18. júní 2010 um að hafna beiðni sóknaraðila, Sparnaðar ehf., um lögbann hjá varnaraðila, Sæmundi Steindóri Magnússyni, er felld úr gildi. Ber sýslumanni gegn tryggingu, sem hann metur hæfilega, að leggja lögbann samkvæmt kröfu sóknaraðila við því að varnaraðili starfi til og með 5. nóvember 2010 sem launþegi, verktaki eða ráðgjafi hjá Allra ráðgjöf ehf.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 439.250 krónur í málskostnað.