Hæstiréttur íslands
Mál nr. 508/2002
Lykilorð
- Þjófnaður
- Ítrekun
- Vanaafbrotamaður
- Dráttur á máli
- Hegningarauki
|
|
Fimmtudaginn 27. febrúar 2003. |
|
Nr. 508/2002. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Bjarna Leifi Péturssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Þjófnaður. Ítrekun. Vanaafbrotamaður. Dráttur á máli. Hegningarauki.
B, sem er vanaafbrotamaður, var dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir þrjú þjófnaðarbrot. Við ákvörðun refsingarinnar var litið til þess að B hafði ítrekað gerst sekur um þjófnað og að hann hafði drýgt eitt brotanna í félagi við annan mann.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. júní 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og hún skilorðsbundin.
Ákærði áfrýjaði héraðsdómi til Hæstaréttar með símskeyti til héraðsdómara sem barst ríkissaksóknara 24. apríl 2000. Var ákærði þá í afplánun á 120 daga fangelsisrefsingu, sem honum hafði verið dæmd fyrir umferðarlagabrot samkvæmt tveimur dómum upp kveðnum 2. nóvember 1999 og 7. janúar 2000. Lauk hann afplánun refsingarinnar að fullu 13. júní 2000, en þann sama dag var, sem fyrr segir, gefin út áfrýjunarstefna í málinu. Ekki tókst að birta honum stefnuna þar sem hann hvarf af landi brott. Mun ákærði hafa verið búsettur í Danmörku frá miðju ári 2000 og fram á síðastliðið haust. Samkvæmt bréfi ríkislögreglustjóra til lögreglunnar í Kaupmannahöfn 30. ágúst 2000 var stefnan send utan til birtingar í Danmörku, en ekki tókst sú birting fyrr en 14. nóvember 2002 þegar ákærði var kominn á ný til landsins. Krefst ákærði þess meðal annars með hliðsjón af þessum drætti að refsing hans verði milduð. Ákærði hvarf af landi brott án þess að gera ráðstafanir til þess að í hann næðist. Var það því við hann sjálfan að sakast að ekki tókst fyrr að birta honum stefnuna.
Ákærði hefur frá árinu 1975 hlotið 37 refsidóma, aðallega fyrir ýmis hegningarlagabrot, þar af 26 vegna auðgunarbrota, síðast 3. júlí 1995 þegar hann var dæmdur í 4 mánaða fangelsi fyrir þjófnað og hylmingu. Eftir það var hann dæmdur í desember 1998 til greiðslu sektar vegna fíkniefnabrots og tvívegis eftir það fyrir umferðarlagabrot á árunum 1999 og 2000, eins og að framan er rakið. Þá var hann dæmdur í héraðsdómi í Kaupmannahöfn 2. apríl 2001 til greiðslu sektar fyrir brot gegn 276. gr. og 1. mgr. 287. gr. danskra hegningarlaga. Með brotum þeim, sem hann er hér sakfelldur fyrir, hefur hann nú ítrekað gerst sekur um þjófnað. Ber því að ákveða honum refsingu með vísan til 71. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði, sem er vanaafbrotamaður, drýgði eitt af brotunum, sem mál þetta varðar, í félagi við annan mann. Verður við ákvörðun refsingar því einnig litið til 2. mgr. 70. gr. og 72. gr. almennra hegningarlaga, sbr. og 77. gr. laganna. Að öllu þessu virtu verður niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða staðfest.
Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 70.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2000.
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 15. febrúar sl. á hendur ákærðu, Bjarna Leifi Péturssyni, kt. 150658-2419, Snorrabraut 35, Reykjavík, og Grétari Magnússyni, kt. 041162-2019, óskráðum í hús, "fyrir eftirtalda þjófnaði framda í Reykjavík á árinu 1999:
I.
Ákærða Bjarna Leifi:
1. Þriðjudaginn 27. júlí farið inn í útigeymslu við Hverfisgötu 58 og stolið rafmagnssnúru með straumbreyti, veiðivesti, vigt, vöðlum og 3 fluguboxum, samtals að verðmæti um kr. 50.000. (Mál nr. 010-1999-17822)
2. Aðfaranótt fimmtudagsins 30. desember farið inn í geymslu við Lokastíg 28a og stolið stingsög og 3 borvélum, samtals að verðmæti um kr. 90.000.
(Mál nr. 010-1999-31102)
II
Ákærðu báðum með því hafa í félagi þriðjudaginn 27. júlí, við Sölvhólsgötu 11, stolið borvél, boxi sem innihélt 24 skrúfbita, stingsög, töng og vinkildrifi, samtals að verðmæti um kr. 70.000. (010-1999-17824)
Ofangreind brot teljast varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar".
Málavextir
I. Ákærði, Bjarni Leifur.
1. Ákærði viðurkenndi hjá lögreglu að hafa farið inn í geymsluna við Hverfisgötu 58 og stolið þeim verðmætum sem ákært er fyrir. Hér fyrir dómi vildi hann ekki segja annað en að hann vísaði til lögregluskýrslunnar. Málið hefur þó sætt aðalmeðferð og hefur m.a. rannsóknarlögreglumaður sá sem yfirheyrði ákærða staðfest að skýrslan sé efnislega rétt. Fyrir liggur að verðmætin sem stolið var fundust heima hjá ákærða. Er ákærði orðinn sannur að þessum þjófnaði og broti gegn 244. gr. almennra hegningarlaga.
2. Ákærði viðurkenndi hjá lögreglu að hafa farið inn á Lokastíg 28a og stolið þeim verðmætum sem ákært er fyrir. Hér fyrir dómi vildi hann ekki segja annað en að hann vísaði til lögregluskýrslunnar. Málið hefur þó sætt aðalmeðferð og hefur m.a. rannsóknarlögreglumaður sá sem var viðstaddur yfirheyrsluna yfir ákærða staðfest að skýrslan sé efnislega rétt. Fyrir liggur að verðmætin sem stolið var fundust heima hjá ákærða. Er ákærði orðinn sannur að þessum þjófnaði og broti gegn 244. gr. almennra hegningarlaga.
II. Ákærðu báðir.
Fyrir liggur að ákærðu voru handteknir kl. 15.55 þriðjudaginn 27. júlí sl. á gatnamótum Hverfisgötu og Smiðjustígs eftir að boð höfðu borist til lögreglunnar að tveir menn væru á bifreiðastæði við Þjóðleikhúsið að eiga þar við bíla. Reyndust þeir vera í mikilli vímu og hefur komið fram hjá þeim að þeir hafi bæði verið drukknir og undir áhrifum lyfja. Í grárri íþróttatösku sem ákærði, Grétar, var með fundust m.a. handborvél, stingsög og töng. Þá fundust á ákærða, Bjarna Leifi, box með 24 skrúfbitum og vinkildrif. Rétt eftir að ákærðu höfðu verið handteknir var tilkynnt um þjófnað á sams konar hlutum frá Sölvhólsgötu 11 sem er rétt fyrir neðan þann stað, sem ákærðu voru handteknir, eins og alkunna er. Sá sem saknaði þessara verðmæta, Sigurður Sigvaldason, bar kennsl á þau og tók við þeim úr höndum lögreglu. Kvaðst hann hafa verið að vinna við innréttingar þarna ásamt öðrum. Hafi þeir brugðið sér afsíðis í kaffi. Maður nokkur hafi komið og rekið inn nefið í kaffistofuna til þeirra og sagt: “Ég er að villast”, og farið aftur. Þegar þeir komu til baka úr kaffihléinu hafi verið horfin borvél, box með skrúfbitum, stingsög, töng og vinkildrif. Hringt hafi verið í lögregluna og tilkynnt um þetta.
Þegar ákærðu voru yfirheyrðir hjá lögreglu daginn eftir sögðust þeir ekki muna eftir atburðum gærdagsins að öðru leyti en því að Grétar sagðist hafa verið á “fylleríi” frá því fyrir helgina og verið að koma af veitingastaðnum Keisaranum ásamt meðákærða, Bjarna Leifi. Kvaðst hann hafa neytt valíums og rópanóls ofan í áfengisdrykkju. Ákærði, Bjarni Leifur, gat ekki annað sagt af ferðum sínum og gerðum en að hann hefði verið við drykkju ásamt meðákærða, Grétari, og fleirum daginn áður og hefði hann þar að auki ekki sofið neitt nóttina áður. Þá sagðist hann hafa fengið valíum og rópanól hjá meðákærða, Grétari. Fyrir dómi hefur ákærði, Bjarni Leifur, sagt að hann hafi engu við skýrslu sína hjá lögreglu að bæta en meðákærði, Grétar, að hann muni ekki til þess að hafa stolið neinu á Sölvhólsgötu. Hann segist muna eftir því að hafa verið á Keisaranum við drykkju þennan dag en ekki muna með hverjum. Hann neitar því að hafa verið með þýfi á sér þegar hann var tekinn.
Niðurstaða
Þrátt fyrir neitun ákærða, Grétars, að hann hafi verið með hluta af þýfinu í fórum sínum þegar ákærðu voru handteknir, verður að telja sannað, með því sem fyrir liggur í málinu og rakið var hér fyrst, að ákærðu hafi stolið þeim verðmætum sem ákært er fyrir. Eru þeir þannig orðnir sannir að broti gegn 244. gr. almennra hegningarlaga.
Refsing og sakarkostnaður
Ákærði, Bjarni Leifur, á að baki gríðarlangan og mikinn sakferil. Hann hefur frá árinu 1975 hlotið 39 refsidóma, aðallega fyrir hegningarlagabrot. Refsing ákærða nú verður hegningarauki við tvo dóma í nóvember og janúar sl. sem hann hlaut fyrir umferðarlagabrot. Er þá litið til þess einnig að hann hefur ekki hlotið dóm fyrir hegningarlagabrot frá því á árinu 1995. Refsingin þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði, Grétar, á að baki mikinn sakferil. Frá árinu 1979 hefur hann hlotið 27 refsidóma, bæði fyrir hegningar- og umferðarlagabrot. Síðast var ákærði dæmdur fyrir hegningarlagabrot í ágúst 1998 og var sá dómur síðar staðfestur í Hæstarétti. Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði.
Dæma ber ákærða, Grétar, til þess að greiða verjanda sínum, Erni Clausen hrl., 45.000 krónur í málsvarnarlaun en annan sakarkostnað mun ekki hafa leitt af málinu.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Bjarni Leifur Pétursson, sæti fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði, Grétar Magnússon, sæti fangelsi í 3 mánuði.
Ákærði, Grétar, greiði verjanda sínum, Erni Clausen hrl., 45.000 krónur í málsvarnarlaun.