Hæstiréttur íslands
Mál nr. 373/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 4. júní 2013. |
|
Nr. 373/2013.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Guðmundur St. Ragnarsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. júní 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 10. sama mánaðar klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Hinn 1. júní 2013 var óskað eftir aðstoð lögreglu [...]. Á vettvangi hitti lögregla fyrir húsráðanda sem greindi frá því að tveir menn hefðu ruðst inn og beitt hann ofbeldi. Þeir hefðu síðan bundið hann og haft á brott með sér skotvopn í eigu hans. Við rannsóknina beindist grunur að varnaraðila um aðild að málinu og játaði hann að hafa tekið við skotvopnunum og vísaði á þau þar sem þau voru falin í húsakynnum sem hann hafði aðgang að. Samkvæmt þessu er fyrir hendi rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi í það minnsta gerst sekur um hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en slíkt brot varðar fangelsisrefsingu.
Rannsókn þessa máls er skammt á veg komin og verður fallist á það með lögreglu að ætla megi að varnaraðili geti torveldað hana gangi hann laus, sbr. a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Jafnframt er fullnægt skilyrðum b. liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga til að varnaraðili sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krefst þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að, X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til mánudagsins 10. júní n.k. kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í kröfu lögreglu kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar meint húsbrot, rán, frelsissviptingu og hylmingu.
Í gærdag hafi lögreglu borist tilkynning frá fjarkskiptamiðstöð Ríkislögreglustjóra um að ruðst hafi verið inn til manns að [...] og hann rændur. Á vettvangi hitti lögregla fyrir brotaþola, A, sem við skýrslutökur tjáði lögreglu að tveir ungir karlmenn hefðu bankað upp á hjá honum. Þeir hafi hulið andlit sín. Hann hafi neitað að hleypa þeim inn en þá hafi annar þeirra dregið upp hníf. Brotaþoli hafi reynt að loka útidyrahurðinni en þeir hafi ruðst inn á hann. Hafi þeir hrint honum og sparkað í klof hans. Í kjölfarið hafi þeir bundið fætur hans og hendur. Þeir hafi síðan spurt um skotvopn í hans eigu og brotaþoli hafi upplýst þá um lykla að skotvopnaskáp sem staðsettur var í geymslu. Annar aðilinn hafi þá náð í lykilinn og farið út úr íbúðinni en hinn hafi orðið eftir. Skömmu síðar hafi sá aðili er fór út komið og náð í hinn. A kvaðst hafa komið sér að glugga með því að hoppa og þá séð [...] bifreið með upphafsstafina [...] fyrir utan húsið. A kvaðst svo hafa farið út og leitað aðstoðar hjá nágranna sínum. A upplýsti lögreglu jafnframt um að alls 8 skotvopn hefðu verið fjarlægð úr skápi hans.
Um 16:00 í gær var meðkærði, Y, stöðvaður á [...] bifreið, með skráninganúmer [...]. Við skýrslutökur játaði hann hafa hafa ekið tveimur aðilum, Þ og Æ að [...] og beðið þar eftir þeim. Eftir það hafi hann ekið þeim að [...] þar hafi sem honum hafi verið sagt að fara út og bíða eftir þeim. Þeir hafi farið í burtu í 20 mínútur og svo komið að sækja hann.
Á grundvelli framangreindra upplýsinga taldi lögregla yfirgnæfandi líkur á að skotvopnunum hefði verið komið í húsnæði að [...] en einn hinna grunuðu mun hafa tengsl við vélhjólasamtökin [...] og talið var að nefnt húsnæði tengdist einnig þeim samtökum. Þar voru fyrir B og kærði, X, sem voru í kjölfarið handtekin og flutt á lögreglustöð.
Við skýrslutökur upplýsti kærði að Þ og annar aðili hefðu komið með skotvopn ferðatösku til hans og farið svo. Þriðji aðili hefði beðið úti í [...] á meðan. Kærði vísaði síðar á skotvopnin sem voru afar vandlega falin bak við falskan lista ofan við fataskáp í svefnherbergi. Kærði kvað Æ hafa haft samband við sig föstudagskvöldið s.l og spurt hann þá hvort hann gæti geymt fyrir hann skotvopn. Hann hafi samþykkt það en hafi ekki vitað hvaðan skotvopnin kæmu. Að launum átti kærði hugsanlega að fá eitt skotvopnanna.
Með vísan til framangreinds og til gagna málsins er að mati lögreglu rökstuddur grunur um að kærði eigi þátt í þeim brotum sem til rannsóknar eru, að minnsta kosti að því er varðar hylmingarbrot.
Rannsókn málsins er á frumstigi. Miðað við það fram er komið í málinu á lögregla eftir að hafa uppi á tveimur nafngreindum aðalmönnum í brotinu. Má ætla að ef sakborningur verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að hafa samband við meinta samverkamenn í málinu. Jafnframt er sú hætta fyrir hendi að sakborningar í málinu kunni að reyna að hafa áhrif á framburði hvers annars fái þeir tækifæri til. Lögregla telur það brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á framkomna kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna svo unnt sé að hafa uppi á framangreindum aðilum og fá fram framburði þeirra m.a. um þátt kærða í meintum brotum. Af framangreindum ástæðum er einnig farið fram á að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.
Til rannsóknar eru ætluð brot gegn 231. gr., 226. gr., 252. gr. og 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við þessum brotum gegn síðar nefndum tveimur ákvæðum liggur allt að 16 ára fangelsisrefsing. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur er vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Með tilliti til almannahagsmuna verður á það fallist að brotið sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að kærði gangi ekki laus á meðan mál hans er til meðferðar, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Verður því orðið við kröfunni eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Það er mat dómsins að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði kunna að verða uppvís að broti er varðar gæti allt að sextán ára fangelsi, ef sannast.
Þegar litið er til alls framanritaðs telur dómurinn að uppfyllt séu skilyrði a liðar 1. mgr. 95. gr. 88/2008 til að verða við kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um gæsluvarðhald og er hún tekin til greina eins og hún er sett fram. Þá er með sömu rökum fallist á að kærði sæti einangrun skv. b lið 1. mgr. 99. gr. laganna.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, kt. [...], [...], skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til 10. júní n.k. kl. 16:00. Kærði skal sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu.