Hæstiréttur íslands
Mál nr. 78/2007
Lykilorð
- Greiðslumark
- Fasteign
- Málsástæða
|
|
Fimmtudaginn 4. október 2007. |
|
Nr. 78/2007. |
Þorsteinn G. Eggertsson og Laufey Valsteinsdóttir (Jón Höskuldsson hrl.) gegn Ragnari Ólafssyni (Jóhannes Ásgeirsson hrl.) |
Greiðslumark. Fasteign. Málsástæða.
R var eigandi 1/3 hluta jarðarinnar K en sameigendur hans voru áfrýjandinn Þ og E. Þ var handhafi beingreiðslna vegna jarðarinnar en árið 2003 var greiðslumark jarðarinnar selt og ritaði R sem samþykkur eigandi undir tilkynningu um aðilaskipti að greiðslumarkinu. Með vísan til ákvæðis 1. mgr. 38. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum er kveður á um að greiðslumark skuli bundið við lögbýli og til fyrri fordæma Hæstaréttar þótti ljóst að R ætti rétt til eins þriðja hluta söluandvirðis greiðslumarksins. Í ljósi þess skýra og óumdeilda réttar varð ekki talið að með því einu að samþykkja framsal greiðslumarksins hefði R afsalað þessum rétti sínum. Sú málsástæða áfrýjenda er höfð var uppi fyrir Hæstarétti, að R hefði glatað rétti sínum til andvirðis greiðslumarksins þar sem R hefði verið sviptur eignarrétti að jörðinni K áður en hann hafði uppi kröfu sína, þótti of seint fram komin og kom því ekki til álita við úrlausn málsins, með vísan til 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 8. febrúar 2007. Þau krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Fyrir Hæstarétti hafa áfrýjendur reist kröfu sína á því að þar sem stefndi hafi verið sviptur eignarrétti að Kvíum I með innlausn landbúnaðarráðherra áður en hann hafði uppi kröfu um hlutdeild í andvirði hins selda greiðslumarks jarðarinnar hafi hann glatað þeim rétti er hann ella kynni að hafa haft. Málsástæða þessi er of seint fram komin og kemur því ekki til álita við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti með vísan til 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjendur verða dæmd til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Þorsteinn G. Eggertsson og Laufey Valsteinsdóttir, greiði óskipt stefnda, Ragnari Ólafssyni, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 10. nóvember 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 20. október sl., höfðaði stefnandi, Ragnar Ólafsson, Barmahlíð 6, Reykjavík, hinn 13. janúar 2006, gegn stefndu, Þorsteini G. Eggertssyni og Laufeyju Valsteinsdóttur, Kvíum II, Borgarbyggð.
Kröfur stefnanda eru að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða honum 524.333 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2004 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Kröfur stefndu eru að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
I.
Ólafur Eggertsson, faðir stefnanda og afi stefnda Þorsteins, andaðist 3. mars 1981 og fékk ekkja hans og móðir stefnanda, Sigríður Jónsdóttir, leyfi til setu í óskiptu búi. Við skipti á búi Ólafs 2. september 1982 varð fullt samkomulag um að Sigríður afhenti sonum sínum og Ólafs heitins, stefnanda Ragnari Ólafssyni, Þorgeiri Ólafssyni og Eggert Ólafssyni, föður stefnda Þorsteins, meðal annars jörðina Kvíar.
Handhafi beingreiðslna Kvía, bæði vegna mjólkur- og kindakjötsframleiðslu, var frá upphafi fyrrnefndur Þorgeir Ólafsson. Í desember 1995 og apríl 1996 seldi hann allt greiðslumark jarðarinnar í mjólk. Árið 2000 hætti hann síðan framleiðslu á kindakjöti og var greiðslumark jarðarinnar, 71,5 ærgildi, því ekki nýtt árin 2001 og 2002.
Með kaupsamningi 13. júní 2001 seldi Þorgeir Ólafsson eignarhluta sinn í Kvíum til Guðmundar Loga Ólafssonar. Þann eignarhluta seldi Guðmundur Logi til stefndu með kaupsamningi 21. mars 2003. Gaf hann út afsal fyrir eignarhlutanum til handa stefndu 16. maí sama ár.
Samkvæmt bréfi Bændasamtaka Íslands 3. febrúar 2005 varð stefndi Þorsteinn handhafi beingreiðslna vegna Kvía með tilkynningu 16. júní 2003, en undir tilkynninguna rituðu þáverandi eigendur jarðarinnar; stefndu, stefnandi og Eggert Ólafsson.
Hinn 9. júlí 2003 var greiðslumark Kvía selt og tók sú sala gildi 1. janúar 2004. Vegna sölunnar rituðu Ásbjörn Sigurgeirsson og Kristín Siemsen, sem kaupendur, stefndu, sem seljendur, og stefnandi og Eggert Ólafsson, sem samþykkir eigendur lögbýlis, undir skjal, dagsett áðurgreindan dag, er bar yfirskriftina „Tilkynning um aðilaskipti að greiðslumarki í sauðfé.“
Stefndu fóru þess á leit við landbúnaðarráðuneytið með bréfi 18. júní 2004 að fá að leysa til sín eignarhluta stefnanda í Kvíum á grundvelli 14. gr. þágildandi jarðalaga, nr. 65/1976. Með ákvörðun ráðuneytisins frá 19. nóvember það ár var fallist á þá beiðni.
Með bréfi 18. nóvember 2005 krafði stefnandi stefndu um einn þriðja hluta söluandvirðis greiðslumarks Kvía. Hann höfðaði síðan mál á hendur stefndu 13. janúar sl. til heimtu kröfunnar samkvæmt áðursögðu.
II.
Stefnandi kveðst reisa kröfur sínar á því að skv. 38. og 53. gr. laga nr. 99/1993 sé greiðslumark bundið við lögbýli. Eignarhald greiðslumarks fylgi því eignarhaldi lögbýlis.
Með skiptayfirlýsingu 2. september 1982 hafi stefnandi orðið eigandi þriðjungshluta jarðarinnar Kvía. Hann hafi því verið eigandi þriðjungshluta greiðslumarks jarðarinnar þegar stefndu seldu greiðslumark jarðarinnar í sauðfé 9. júlí 2003, en salan hafi tekið gildi 1. janúar 2004, sbr. bréf Bændasamtaka Íslands frá 3. febrúar 2005.
Stefnandi vísar til þess að skv. 38. gr. laga nr. 99/1993 skuli á hverju lögbýli aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi réttar til beingreiðslu. Stefndu hafi verið skráð handhafar beingreiðslna samkvæmt tilkynningu frá 16. júní 2003 með samþykki sameigenda að Kvíum. Þau hafi síðan selt greiðslumark jarðarinnar 9. júlí 2003, eins og áður segi, með samþykki sameigenda sinna, stefnanda og Eggerts Ólafssonar. Í samþykki stefnanda hafi hins vegar ekki falist afsal á rétti til eins þriðja hluta söluandvirðis greiðslumarksins, svo sem stefndu haldi fram í málinu. Fallast beri því á kröfu stefnanda um að stefndu greiði honum einn þriðja hluta söluandvirðisins.
Dráttarvaxta kveðst stefnandi krefjast frá 1. janúar 2004, en þann dag hafi sala stefndu á greiðslumarki Kvía tekið gildi, sbr. áðurnefnt bréf Bændasamtaka Íslands.
Hvað málskostnað varðar tekur stefnandi sérstaklega fram að hann sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi gagnaðila sinna.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til fyrrgreindra ákvæða laga nr. 99/1993. Einnig vísar hann til meginreglu samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar segir stefnandi meðal annars fá stoð í lögum nr. 7/1936, auk almennra reglna kröfuréttarins um efndir samninga.
III.
Stefnda Laufey reisir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á þeirri málsástæðu að hún sé ekki réttur aðili málsins, en aðildarskortur leiði til sýknu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnda Laufey hafi aldrei verið skráður handhafi þess greiðslumarks sem stefnandi reisi meinta kröfu sína á og verði því ekki krafin um söluverð þess.
Stefndu byggja sýknukröfu sína annars á þeirri málsástæðu að stefnandi hafi, með því að gefa samþykki sitt fyrir sölunni án nokkurs fyrirvara eða áskilnaðar um greiðslu úr hendi stefndu, afsalað sér hlutdeild í söluverðinu. Þá hafi stefndu aldrei gefið stefnanda loforð um að greiða honum hluta söluverðsins. Málsaðilum hafi verið þessi skilningur að fullu kunnur enda hafi stefnandi ekki krafið stefndu um greiðslu eftir að salan fór fram. Það hafi ekki verið fyrr en rúmum tveimur árum síðar, eftir að stefndu leystu til sín eignarhluta stefnanda í jörðinni Kvíum í óþökk stefnanda, sem hann fyrst beindi meintri og órökstuddri kröfu sinni að stefndu. Verði það að teljast skjóta stoðum undir það að ekkert samningssamband hafi verið á milli stefnanda og stefndu.
Þá reisa stefndu sýknukröfu sína einnig á því að meint krafa stefnanda sé niður fallin vegna tómlætis. Stefnandi hafi enga tilraun gert til að innheimta meinta kröfu sína og með því sýnt af sér algjört tómlæti við innheimtu hennar.
Hvað málskostnað varðar taka stefndu sérstaklega fram að þau séu ekki virðisaukaskattsskyldir aðilar og beri þeim því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi gagnaðila.
Að lokum segjast stefndu mótmæla dráttarvaxtakröfu stefnanda, þar með talið upphafsdegi dráttarvaxta.
Til stuðnings sýknukröfu sinni vísar stefnda Laufey sérstaklega til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vísa stefndu annars til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða og stofnun löggerninga.
IV.
Í þinghaldi 21. júlí 2006 lýstu málsaðilar því yfir að með þeim væri ekki tölulegur ágreiningur. Ágreiningur þeirra snýr því eingöngu að efnislegu réttmæti stefnukröfunnar.
Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum skal greiðslumark bundið við lögbýli. Framsal greiðslumarks lögbýlis er heimilt samkvæmt lögunum, en sé ábúandi annar en eigandi lögbýlis þarf samþykki ábúanda og eiganda fyrir framsali greiðslumarks. Hefur Hæstiréttur Íslands ítrekað slegið því föstu í dómum sínum að greiðslumark sé réttur sem bundinn sé lögbýli, greiðslumarkið hafi ákveðið verðmæti í kaupum og fylgi lögbýli við eigendaskipti, hafi greiðslumarkið ekki áður verið framselt með lögmætum hætti til annars lögbýlis.
Svo sem rakið er í kafla I liggur frammi í málinu skjal, dagsett 9. júlí 2003, er ber yfirskriftina: „Tilkynning um aðilaskipti að greiðslumarki í sauðfé.“ Varðar skjal þetta sölu 71,5 ærgilda greiðslumarks Kvía í sauðfé. Undir skjalið rita bæði stefndu sem seljendur. Samkvæmt því verður lagt til grundvallar við úrlausn málsins að stefndu hafi bæði verið seljendur greiðslumarksins og þar af leiðandi móttakendur söluandvirðis þess, enda var stefndu Laufeyju það í lófa lagið að gera leiðréttingar á skjalinu, þegar hún ritaði nafn sitt á það, teldi hún efni skjalsins ekki rétt. Að þessu virtu var stefnanda rétt að höfða mál þetta á hendur báðum stefndu.
Fyrir liggur að stefndu öfluðu samþykkis sameigenda sinna, þ.m.t. stefnanda, fyrir framsali greiðslumarks jarðarinnar Kvía, en stefnandi ritaði nafn sitt til samþykkis framsalinu á fyrrnefnt skjal frá 9. júlí 2003 hinn 11. sama mánaðar. Eins og rakið var að framan átti stefnandi rétt til eins þriðja hluta söluandvirðis greiðslumarksins á grundvelli þáverandi eignarréttar síns að Kvíum. Í ljósi þess skýra og óumdeilda réttar verður ekki talið að með því einu að samþykkja framsal greiðslumarksins hafi stefnandi afsalað sér réttinum. Með sömu rökum verður heldur ekki á það fallist með stefndu að stefnandi hafi með því að láta ógert að krefja þau um sinn hluta söluandvirðisins þar til 18. nóvember 2005 glatað tilkalli til þess vegna tómlætis.
Samkvæmt öllu framansögðu dæmast stefndu til að greiða stefnanda einn þriðja hluta söluandvirðis umrædds greiðslumarks jarðarinnar Kvía, sem óumdeilt er í málinu að numið hafi 524.333 krónum, með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. desember 2005, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna, til greiðsludags.
Með vísan til niðurstöðu dómsins hér að framan, sbr. 1. mgr. 130. gr. og 2. mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, dæmast stefndu til að greiða stefnanda óskipt málskostnað er hæfilega telst ákveðinn svo sem í dómsorði greinir.
Dóm þennan kveður upp Benedikt Bogason héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð:
Stefndu, Þorsteinn G. Eggertsson og Laufey Valsteinsdóttir, greiði stefnanda, Ragnari Ólafssyni, óskipt 524.333 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. desember 2005 til greiðsludags.
Stefndu greiði stefnanda óskipt 250.000 krónur í málskostnað.