Hæstiréttur íslands

Mál nr. 462/2006


Lykilorð

  • Skuldamál
  • Lánssamningur


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. febrúar 2007.

Nr. 462/2006.

Lýsi hf.

(Sigurbjörn Magnússon hrl.)

gegn

J.H.S. ehf.

(Garðar Garðarsson hrl.)

 

Skuldamál. Lánssamningur.

J ehf. hafði frá árinu 1996 annast vinnslu á fiskhausum og hryggjum fyrir markað í Nígeríu samkvæmt verksamningi við L hf. í verkstæðishúsi í eigu L hf. í Þorlákshöfn. Að frumkvæði J ehf., og með samþykki L hf., var á árunum 2001 til 2002 ráðist í framkvæmdir við endurbætur á húsinu og tækjabúnaði þar, sem báðir aðilar töldu sig hafa hagsmuni af, og var tekið lán í því skyni frá F hf. Lánið var endurgreitt á árunum 2002 til 2003 með þeim hætti að lánveitandinn hélt eftir andvirði eins afurðagáms á mánuði sem hvor aðili, J ehf. og L hf., átti nánar tilgreinda hlutdeild í. Hvorki var gerður skriflegur samningur um lántökuna né endurgreiðslu lánsins. Í málinu krafðist J ehf. endurgreiðslu úr hendi L hf. á andvirði sinnar hlutdeildar í gámunum og byggði m.a. á því að L hf. yrði sem eigandi hússins og tækjanna að bera kostnað af endurbótum á þeim. Talið var ósannað að J ehf. hefði gert endurgreiðslukröfu á hendur L hf. fyrr en nær tvö ár voru liðin frá því að lánið var að fullu greitt. Í dómi Hæstaréttar kom fram að telja yrði að J ehf. hafi mátt vera ljóst að L hf. leit svo á að í gildi væri samningur um að J ehf. tæki þátt í endurgreiðslu lánsins með þeim hætti sem gert var og að J ehf. sætti sig við að fá ekki greiddan sinn hluta í skilaverði hvers gáms. Benti sá háttur sem J ehf. hafði á bókhaldi sínu til þess að hann hafi haft sama skilning og L hf. um þetta atriði. Þá var ljóst J ehf. var í lófa lagið að gera formlega athugasemdir við L hf. um þennan skilning ef hann taldi hann rangan. Yrði því að leggja sönnunarbyrðina á J ehf. fyrir því að L hf. hefði skuldbundið sig til að greiða J ehf. hlut félagsins í andvirði þessara gáma síðar en sú sönnun hefði ekki tekist. L hf. var því sýknað af kröfum J ehf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. ágúst 2006. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Óumdeilt er að forsvarsmaður stefnda óskaði eftir að ráðist yrði í framkvæmdir við endurbætur á verkstæðishúsi og tækjabúnaði áfrýjanda í Þorlákshöfn, þar sem stefndi annaðist vinnslu á fiskhausum og hryggjum fyrir markað í Nígeríu samkvæmt verksamningi við áfrýjanda. Áfrýjandi var tregur til að leggja fé í þetta og hafði stefndi þá samband við Fiskmiðlun Norðurlands hf., sem sá um útflutning afurðanna, og fékk það fyrirtæki til að lofa lánsfé til framkvæmdanna. Féllst áfrýjandi þá á óskir stefnda um endurbæturnar og þessa lántöku í því skyni að standa straum af kostnaðinum. Samningur málsaðila gerði á þessum tíma ráð fyrir að stefndi fengi greitt fyrir hvern gám sem svaraði 32,5% af skilaverði hans. Báðir aðilar töldu sig hafa hagsmuni af nefndum endurbótum enda leiddu þær til þess að framleiðslan jókst umtalsvert og þar með hagnaður beggja. Varð að samkomulagi að lánið yrði endurgreitt með þeim hætti að lánveitandinn héldi eftir andvirði eins gáms á mánuði, þar til lánið yrði að fullu greitt. Hvorki var gerður skriflegur samningur um lántökuna né endurgreiðslu lánsins. Áfrýjandi heldur því fram að samningur aðila hafi falið það í sér að stefndi tæki þátt í endurgreiðslu lánsins með þeim hætti að gera ekki kröfu til greiðslu fyrir sinn hlut í skilaverði þeirra gáma sem gengu til endurgreiðslunnar. Stefndi telur sig hins vegar ekki hafa gengist undir slíka skuldbindingu og byggir á því að áfrýjandi beri sönnunarbyrði fyrir staðhæfingu sinni um þetta.

  Fiskmiðlun Norðurlands hf. innti lánsféð af hendi í tveimur samfelldum lotum, fyrst með fjórum greiðslum á tímabilinu 19. október 2001 til 14. janúar 2002, 41.696.000 krónur, og síðan með jafnmörgum greiðslum á tímabilinu 29. október 2002 til 15. janúar 2003, 25.000.000 krónur, þannig að samtals nam lánið 66.696.000 krónum. Gekk andvirði eins gáms á mánuði upp í lánið, vegna fyrri hlutans á tímabilinu 31. janúar 2002 til 24. janúar 2003 og vegna þess síðari á tímabilinu 21. febrúar 2003 til 31. október sama ár. Voru þá báðir lánshlutarnir að fullu greiddir.

Á þessu tímabili útbjó áfrýjandi mánaðarlega yfirlit yfir alla gáma sem seldir voru og hlut stefnda í andvirði þeirra, að undanskildum þeim gámi sem gekk til endurgreiðslu á láninu. Gerði stefndi síðan reikninga á hendur áfrýjanda fyrir sínum hlut samkvæmt yfirlitunum. Óumdeilt er að Fiskmiðlun Norðurlands hf. útbjó jafnframt mánaðarlega skjal þar sem fram kom andvirði þess gáms, sem notaður var til endurgreiðslu lánsins, og sendi báðum málsaðilum. Stefndi gerði áfrýjanda aldrei reikninga vegna ætlaðrar hlutdeildar sinnar í andvirði þessara gáma, bókaði engar tekjur vegna þeirra í bókhaldi sínu og færði þá heldur ekki mótfærslu með kröfu á hendur áfrýjanda, en þetta bar honum að gera samkvæmt þeim skilningi á þessum lögskiptum sem hann segist hafa haft og byggir kröfur sínar á.

Ósannað er að stefndi hafi gert kröfu á hendur áfrýjanda af því tilefni sem hér um ræðir, fyrr en eftir að honum hafði borist bréf áfrýjanda 3. ágúst 2005, þar sem samningi aðila um starfsemi stefnda í þágu áfrýjanda í verksmiðjunni í Þorlákshöfn var sagt upp. Voru þá liðin nær tvö ár frá því að lán Fiskmiðlunar Norðurlands hf. var að fullu greitt. Fram er komið að fyrirsvarsmenn málsaðila hafi rætt um málið á fundi 14. febrúar 2003 þar sem mismunandi sjónarmið voru uppi um skyldu stefnda til að taka þátt í endurgreiðslu lánsins. Þrátt fyrir það hafðist stefndi þá ekkert frekar að.

Samkvæmt framansögðu er ljóst að stefndi samþykkti frá upphafi að andvirði eins gáms í hverjum mánuði yrði notað til að greiða upp lánið og sætti sig við að fá ekki greiddan sinn hluta í skilaverði hans. Jafnframt verður að telja að honum hafi mátt vera ljóst, að áfrýjandi leit svo á að í gildi væri samningur um að stefndi tæki með þessum hætti þátt í endurgreiðslu lánsins. Bendir sá háttur sem stefndi hafði á bókhaldi sínu til þess að hann hafi haft sama skilning og áfrýjandi á því hvernig endurgreiðslum lánsins yrði skipt á milli aðilanna. Þá er ljóst að stefnda var í lófa lagið að gera formlega athugasemdir við áfrýjanda um þennan skilning á efni samnings þeirra um lántökuna og endurgreiðslu lánsins ef hann taldi skilning hans rangan. Við svo búið verður að leggja sönnunarbyrðina á stefnda fyrir því að áfrýjandi hafi skuldbundið sig til að greiða honum hlut hans í andvirði þessara gáma síðar. Sú sönnun hefur ekki tekist. Samkvæmt þessu verður lagt til grundvallar að samningur málsaðila hafi verið þess efnis sem áfrýjandi heldur fram og verður hann því sýknaður af kröfu stefnda.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður hvor aðili látinn bera sinn kostnað af meðferð málsins í héraði.

Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í Hæstarétti svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Lýsi hf., er sýkn af kröfu stefnda, J.H.S. ehf.

Málskostnaður í héraði fellur niður.

Stefndi greiði áfrýjanda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. maí 2006.

                Mál þetta höfðaði J.H.S. ehf., kt. 630196-2489, Völuteigi 4, Mosfellsbæ, með stefnu birtri 14. desember 2005 á hendur Lýsi hf., kt. 440269-5089, Fiskislóð 5-9, Reykjavík.  Málið var dómtekið 11. maí sl. 

                Stefnandi krefst greiðslu á 25.543.528 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2004 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar. 

                Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

                Árið 1996 hóf stefnandi að starfa sem verktaki við þurrkun á fiskhausum og hryggjum í verksmiðju Hnotskurnar ehf. í Þorlákshöfn.  Hnotskurn ehf. var sameinuð stefnda á árinu 2004.  Ekki var gengið frá skriflegum verksamningi, en tvö uppköst að samningi hafa verið lögð fram í dóminum, sem sögð eru stafa frá stefnda.  Bæði eru óundirrituð. 

                Hnotskurn ehf., nú stefndi Lýsi hf., var eigandi húsnæðisins í Þorlákshöfn og þeirra tækja og þess búnaðar sem notaður var við vinnsluna.  Þá lagði stefndi til hrá­efni og afurðir voru seldar í hans nafni.  Starfsmenn stefnanda önnuðust vinnsluna.  Stefnandi fékk í upphafi greitt ákveðið kílóverð, misjafnt eftir tegundum, en síðar var fyrirkomulaginu breytt þannig að hann fékk 32,5% af skilaverði. 

                Á tímabilinu frá 19. október 2001 til 15. janúar 2003 greiddi Fiskmiðlun Norðurlands, nú Salka-fiskmiðlun, samtals 66.696.000 krónur sem lán til stefnda til að fjármagna endurbætur á vinnslustöðinni.  Samningur þessi um lánveitingu var munnlegur.  Var svo um samið að fiskmiðlunin héldi eftir andvirði eins gáms í hverjum mánuði þar til lánið væri að fullu greitt.  Lán þetta var vaxtalaust. 

                Lánið var endurgreitt á tímabilinu frá 31. janúar 2002 til 31. október 2003.  Eins og áður segir var það gert þannig að í stað þess að greiða til stefnda, var fjárhæð sem svaraði skilaverði eins gáms færð til greiðslu skuldarinnar í hverjum mánuði.  Stefnandi fékk heldur ekki greitt fyrir þessa gáma.  Um þetta snýst ágreiningur aðila.  Stefnandi telur að hann eigi að fá sinn hlut af þessum gámum eins og öðrum.  Stefndi telur að stefnandi hafi átt að taka þátt í að greiða upp lánið. 

                Stefán Jónsson, forsvarsmaður stefnanda, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann sagði að samningsuppkast hefði verið unnið af Hnotskurn og lagt fyrir, en einhverra hluta vegna hefði það aldrei verið undirritað.  Hann kvaðst þó telja að eftir því hefði verið farið.  Varðandi þær endurbætur sem gerðar voru sagði Stefán að verksmiðjan hefði að mörgu leyti verið óhagkvæm.  Hann hefði því að eigin frumkvæði haft samband við Fiskmiðlun Norðurlands og spurt hvort þeir gætu komið að því að fjármagna endurbætur.  Því hafi verið vel tekið og hann hefði því beint málinu til Katrínar Pétursdóttur hjá stefnda og stefndi og Fiskmiðlunin hefðu síðan samið um þessa lánveitingu. 

                Um þá tilhögun að dregið var frá þeirra hlut við endurgreiðslu lánsins sagði Stefán að þeir hafi ekki ætlast til þess að þeir fengju sinn hlut strax, en hefðu alltaf gert ráð fyrir því að fá það endurgreitt með einhverjum hætti.  Þeir hefðu til að mynda verið tilbúnir til að eignast hlut í félaginu til að ljúka skuldinni.  Samvinnan við stefnda hafi gengið vel og þeir hafi viljað halda henni áfram.  Stefán sagði að 14. febrúar 2003 hefði Katrín Pétursdóttir komið á fund til þeirra og þá hafi henni verið sagt að það þyrfti að ganga frá málinu.  Það hafi ekki komið neitt út úr því. 

                Stefán sagði að hann hefði alltaf fengið afrit af reikningum Fiskmiðlunarinnar sem gengu til greiðslu lánsins.  Hann kvað það ekki rétt að hann hefði í nokkrum tilvikum beðið um að greiðslu yrði frestað fram yfir mánaðamót. 

                Katrín Pétursdóttur, forstjóri stefnda Lýsis, sagði í skýrslu sinni að Stefán Jónsson hefði óskað eftir því að gerðar yrðu miklar endurbætur á verksmiðjunni.  Hann hefði sótt það mjög fast og útvegað lán frá Fiskmiðluninni.  Hún kvaðst hafa skilið þetta svo að stefnandi hefði verið reiðubúinn til að taka þátt í kostnaði af endur­bótunum með þessum hætti, enda hefði þetta verið mikil hagræðing fyrir stefnanda.  Hún kvaðst muna eftir fundi í Þorlákshöfn þar sem stefnandi hefði óskað eftir endurgreiðslu á sínum hlut.  Hún hefði þá skýrt þeim frá því hver sinn skilningur væri. 

                Katrín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Sölku-fiskmiðlunar, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hún staðfesti að Stefán Jónsson hefði nokkrum sinnum óskað eftir því að beðið væri með að skuldfæra í nokkra daga fram yfir mánaðamót.  Þau hefðu orðið við því. 

                Pétur Pétursson, sem situr í stjórn stefnda, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann sagði að það hefði komið mjög flatt upp á sig þegar stefnandi vildi fá greiddan sinn hlut af gámunum sem fóru upp í lánið. 

                Hilmar Daníelsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Fiskmiðlunar Norðurlands, kvaðst í skýrslu sinni hafa litið á Stefán Jónsson sem framkvæmdastjóra Hnotskurnar, hann hafi séð um reksturinn í Þorlákshöfn.  Hann hafi samið um lánveitinguna fyrst við Stefán Jónsson, en síðan hefði Katrín Pétursdóttir staðfest samkomulagið.

                Málsástæður og lagarök stefnanda. 

                Stefnandi byggir á því að af samningi og viðskiptavenjum milli stefnanda og stefnda, og í ljósi þess að stefndi var eigandi verksmiðjunnar, liggi fyrir að það hafi ekki verið í verkahring stefnanda að leggja fram fé til endurbóta á verksmiðju stefnda.  Stefndi hafi verið þinglýstur eigandi verksmiðjunnar og vélanna. 

                Stefnandi segir að hlutur sinn af skilaverðinu, sem notaður hafi verið til endurgreiðslu lánsins, hafi numið 26.818.845 krónum.  Í greinargerð er því haldið fram að af þeirri fjárhæð hafi stefndi endurgreitt 1.275.317 krónur.  Með þeirri endurgreiðslu hafi stefndi viðurkennt greiðsluskyldu sína.  Ítrekað hafi verið leitað eftir greiðslu úr hendi stefnda, m.a. á fundi 14. febrúar 2003.  Síðari tillögum stefnanda hafi ekki verið svarað. 

                Stefnandi segir í stefnu að eftirstöðvar nemi stefnufjárhæðinni, en undir rekstri málsins komst hann að því að þær væru í raun nokkru hærri.  Ekki náðist samkomulag milli aðila um hækkun stefnukröfu.  Stefnandi krefst dráttarvaxta frá 1. janúar 2004. 

                Stefnandi vísar til meginreglna um efndir fjárskuldbindinga og skuldbindingargildi samninga.

                Málsástæður og lagarök stefnda. 

                Stefndi telur að samningar aðila hafi verið munnlegir.  Ekki hafi verið skrifað undir þau samningsdrög sem útbúin höfðu verið.  Á sama hátt hafi verið samið um endurbætur verksmiðjunnar munnlega.  Samkomulagið hafi verið þrí­hliða, milli málsaðila og Fiskmiðlunarinnar.  Stefndi kveðst ekki hafa haft neinn hug á að endurbæta verksmiðjuna, en hafi fallist á það fyrir þrábeiðni stefnanda.  Samið hafi verið um lánið og að aðilar myndu endurgreiða það í ákveðnum hlut­föllum.  Stefnandi hafi haft verulega hagsmuni af endurbótunum, fyrst og fremst með mikilli hagræðingu.  Segir stefndi að samið hafi verið um að stefnandi greiddi 32,5% lánsins, þ.e. að endurgreiðsla yrði í sama hlutfalli og skipting tekna af framleiðslunni. 

                Það hafi loks verið 7. nóvember 2005, eftir að stefndi hafði sagt upp samningi aðila, að stefnandi setti skriflega fram kröfur sínar um greiðslu. 

                Stefndi kveðst hafna þeim málatilbúnaði stefnanda að hann hafi ekki átt að taka þátt í kostnaði við endurbætur verksmiðjunnar.  Segir hann fullyrðingar stefnanda bæði rangar og ósannaðar.  Beri stefnandi sönnunarbyrði fyrir stað­hæfingum sínum um málsatvik.  Endurbæturnar hafi verið gerðar að frumkvæði stefnanda og hann hafi haft af þeim verulegan hag.  Það hafi stefndi einnig haft og því hafi verið samið um skiptingu kostnaðarins. 

                Stefndi segir að stefnandi hafi aldrei gert neinar athugasemdir er hann fékk símbréf Fiskmiðlunarinnar sem sýndu endurgreiðslu lánsins af skilaverði.  Þá hafi stefnandi í einhverjum tilvikum beðið um seinkun á greiðslu.  Það samræmist ekki því að hann hafi ekki átt að greiða.  Þá hafi hann ekki gert neinar kröfur fyrr en eftir að samningi aðila var sagt upp. 

                Stefndi mótmælir því sérstaklega að hann hafi endurgreitt stefnanda 1.275.317 krónur.  Það sé byggt á misskilningi og vísar hann til yfirlits Sölku-fiskmiðlunar um endurgreiðslu lánsins.  Þessi greiðsla hafi aldrei verið færð sem greiðsla á láninu heldur gerð upp á venjubundinn hátt. 

                Forsendur og niðurstaða.

                Ljóst er af gögnum málsins að aldrei var greitt til stefnanda í þeim tilvikum að skilaverð gekk til greiðslu skuldarinnar við Fiskmiðlunina.  Hafna verður þeirri málsástæðu stefnanda að stefndi hafi með einni greiðslu viðurkennt greiðsluskyldu sína. 

                Stefnandi tók að sér sem verktaki afmörkuð verkefni í þágu stefnda.  Ekki er í raun ágreiningur milli aðila um þessa verkaskiptingu.  Aðalatriðið sem hér skiptir máli er að stefndi bar sem eigandi húsnæðisins og alls búnaðar kostnað af viðhaldi og endurbótum.  Er mælt fyrir um þá tilhögun í þeim samningsdrögum sem lögð voru fram í málinu og er hún í samræmi við almennar reglur. 

                Af þessari almennu reglu leiðir að stefndi ber sönnunarbyrðina fyrir því að samið hafi verið um að stefnandi greiddi að hluta til kostnað við þær endurbætur sem hér er fjallað um. 

                Ekki var gert samkomulag um breytingar á samningi aðila.  Stefnanda var ekki tryggður lengri samningstími, til tryggingar því að hann næði að bæta sér upp framlög til endurbótanna.  Þá hefur verið sýnt fram á með skýrslum forsvarsmanna beggja aðila að stefnandi leitaði eftir endurgreiðslu sinna framlaga áður en til þess kom að samningi aðila var sagt upp.  Að þessu virtu er ósannað að stefndi hafi í orði eða verki fallist á að bera hluta af kostnaði við endurbætur á verksmiðju stefnda, þó að hann hafi í reynd fallist á að taka þátt í fjármögnun með því að greiðslum til hans seinkaði. 

                Við aðalmeðferð féll stefndi frá varakröfu um lækkun stefnukrafna, en því er ekki lengur haldið fram að stefnukrafan sé of há.  Verður stefndi dæmdur til að greiða stefnukröfuna.  Dráttarvaxta er krafist frá 1. janúar 2004.  Formleg krafa var ekki sett fram af hálfu stefnanda fyrr en með bréfi lögmanns hans 7. nóvember 2005.  Verða dráttarvextir dæmdir frá 7. desember 2005, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. 

                Í samræmi við niðurstöðu málsins verður stefnda gert að greiða stefnanda 1.100.000 krónur í málskostnað. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

                Stefndi, Lýsi hf., greiði stefnanda, J.H.S. ehf., 25.543.528 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 7. desember 2005 til greiðsludags. 

                Stefndi greiði stefnanda 1.100.000 krónur í málskostnað.