Hæstiréttur íslands
Mál nr. 463/2015
Lykilorð
- Líkamsárás
- Nauðung
- Ærumeiðingar
- Börn
- Barnavernd
- Frávísunarkröfu hafnað
- Dráttur á máli
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. júní 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verið ómerktur. Að þessu frágengnu krefst hann sýknu en ella að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfum verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að fjárhæð þeirra verði lækkuð.
Brotaþolinn A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 900.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Brotaþolarnir B, C og D krefjast staðfestingar héraðsdóms um einkaréttarkröfur sínar.
I
Aðalkröfu sína um frávísun málsins byggir ákærði í fyrsta lagi á því að rannsókn málsins hafi verið áfátt í verulegum atriðum. Brotaþolinn A, þáverandi eiginkona ákærða, hafi átt við andlega vanheilsu að stríða og liggi fyrir að hún hafi haft í hótunum við nafngreinda lögreglumenn. Hafi starfsmenn lögreglu á Suðurlandi verið vanhæfir til að fara með rannsókn málsins. Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð gögn sem sýna að áðurnefndar hótanir brotaþolans hafi komið fram eftir að rannsókn máls þessa lauk. Eru því ekki efni til að verða við kröfu ákærða um frávísun málsins af þessum sökum. Þá vísar ákærði einnig til þess að lögregla hafi látið farast fyrir að kanna „áreiðanleika og bakgrunn“ vitnisburðar sem lagður sé til grundvallar í málinu, meðal annars í ljósi geðheilsu brotaþolans A. Við meðferð málsins í héraði lá fyrir að brotaþolinn hafi átt við andlega vanheilsu að stríða. Dómurinn mat framburð hennar í ljósi þess. Er ekkert fram komið í málinu sem hnekkir því mati. Loks er krafa um frávísun málsins reist á því að ákæra uppfylli ekki skilyrði c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um að hafna frávísun málsins á þessum grunni.
Ákærði reisir kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms á því að mat héraðsdóms á munnlegum framburði ákærða og vitna sé í mikilvægum atriðum rangt. Ekkert er fram komið í málinu um að niðurstaða héraðsdóms um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða og vitna sé rangt svo einhverju skipti um úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt því verður ómerkingarkröfu ákærða hafnað.
II
Eins og rakið er í héraðsdómi er ákærða gefið að sök að hafa framið ýmis brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og barnaverndarlögum nr. 80/2002 gagnvart þremur börnum sínum og eiginkonu á heimili þeirra á árunum 2004 til 2012, svo sem nánar er lýst í sex liðum ákæru. Í fimm þeirra er hann að auki sakaður um stórfelldar ærumeiðingar samkvæmt 233. gr. b. almennra hegningarlaga, sbr. 3. gr. laga nr. 27/2006. Að undanskildum 3. og 5. lið ákæru kemur hvorki fram í lýsingu á háttsemi ákærða né annars staðar í henni hvort eða með hvaða hætti hann hafi smánað eða móðgað brotaþola. Staðfest verður niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða fyrir brot gegn lagaákvæði þessu samkvæmt 3. lið ákærunnar, en að því er varðar 5. lið hennar verður að gæta að því að líkamsárás á hendur brotaþolanum A, sem þar um ræðir, var framin í viðurvist brotaþolanna B og D. Með því verður litið svo á að ákærði hafi með þessari árás sinni brotið gagnvart brotaþolanum A gegn 233. gr. b. almennra hegningarlaga. Þá hefur ákærði haldið því fram að ætluð líkamsárásarbrot ákærða gegn A sem greinir í 5. og 6. lið ákæru og talin eru framin 27. ágúst 2011 og í árslok 2012 séu fyrnd. Háttsemin sem lýst er í þessum liðum ákæru varðar allt að eins árs fangelsi samkvæmt 217. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 81. gr. sömu laga fyrnist sök á tveimur árum þegar ekki liggur við broti þyngri refsing en eitt ár. Eftir 4. mgr. 82. gr. laganna rofnar fyrningarfrestur þegar rannsókn sakamáls hefst fyrir lögreglu gegn sökuðum manni. Ákærði gaf fyrst skýrslu við rannsókn málsins 7. mars 2013 og engin þau atvik eru fyrir hendi sem um getur í 5. mgr. 82. gr. sömu laga. Voru brot hans samkvæmt 5. og 6. tölulið ákæru því ófyrnd. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann um önnur atriði en að ofan greinir staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota hans til refsiákvæða.
Ákærði er sakfelldur fyrir mörg brot gegn almennum hegningarlögum og barnaverndarlögum gagnvart þremur ungum börnum sínum og tvær líkamsárásir gegn eiginkonu sinni, en brotin áttu sér stað á heimili þeirra um átta ára skeið. Á hinn bóginn verður ekki horft fram hjá því að lögregla lauk rannsókn málsins í nóvember 2013, en ákæra var ekki gefin út fyrr en 17. desember 2014. Þá liðu sjö mánuðir frá því að ríkissaksóknara bárust dómsgerðir frá héraðsdómi þar til málsgögn voru afhent Hæstarétti. Vegna þessara tafa á meðferð málsins getur ekki komið til álita að þyngja refsingu ákærða frá því sem ákveðið var í hinum áfrýjaða dómi, sem verður þannig staðfestur um refsingu hans, einkaréttarkröfur og sakarkostnað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanna brotaþola, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti, svo og útlagðan kostnað réttargæslumanns, allt eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 1.882.812 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 992.000 krónur, þóknun réttargæslumanna brotaþola, hæstaréttarlögmannanna Páls Arnórs Pálssonar og Torfa Ragnars Sigurðssonar, 248.000 krónur til hvors fyrir sig, og útlagðan kostnað fyrrnefnda réttargæslumannsins, 195.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands föstudaginn 5. júní 2015.
Mál þetta, sem þingfest var þann 15. janúar sl., og dómtekið þann 8. maí sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara, dagsettri 17. desember 2014, á hendur ákærða, X kennitala [...], [...], [...] „fyrir eftirgreind hegningarlaga- og barnaverndarlagabrot gagnvart þáverandi eiginkonu sinni, A, kennitala [...], og börnum sínum B, kennitala [...], C, kennitala [...] og D, kennitala [...], framin á árunum 2004 til 2012 á þáverandi heimili þeirra að [...], [...], sem hér greinir:
-
Fyrir ólögmæta nauðung, líkamsárásir, stórfelldar ærumeiðingar og barnaverndarlagabrot gagnvart B með því að hafa, í nokkur skipti á árunum 2004 til 2012, með ofbeldi hent B út af heimili sínu illa búinni til fótanna og ítrekað slegið og sparkað í líkama hennar, þar á meðal í bak og maga.
Telst þetta varða við 217. gr., 225. gr. og 233. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 98. gr. og 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
-
Fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, stórfelldar ærumeiðingar og barnaverndarlagabrot gagnvart B með því að hafa, í eitt skipti á tímabilinu 2009 til 2010, er B var [...], slegið hana þrisvar í líkama og höfuð með ryksuguröri sem var um hálft kíló að þyngd.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. og 233. gr. b. almennra hegningarlaga og 98. gr. barnaverndarlaga.
-
Fyrir líkamsárásir, stórfelldar ærumeiðingar og barnaverndarlagabrot gagnvart D með því að hafa ítrekað á árunum 2005 til 2012 veist með ofbeldi að D og m.a. slegið hana, sparkað og kýlt í líkama hennar þar á meðal í maga og rass, og einnig ítrekað sagt við hana að hann ætlaði að setja hana á sambýli en ummæli hans vöktu með henni mikla vanlíðan.
Telst þetta varða við 217. gr. og 233. gr. b. almennra hegningarlaga, áður 191. gr. sömu laga, og 98. gr. barnaverndarlaga.
-
Fyrir líkamsárásir, stórfelldar ærumeiðingar og barnaverndarlagabrot gagnvart C með því að hafa ítrekað á árunum 2008 til 2012 veist með ofbeldi að C og m.a. slegið hann og kýlt í líkama þar á meðal í bak, axlir og maga.
Telst þetta varða við 217. gr. og 233. gr. b. almennra hegningarlaga og 98. gr. barnaverndarlaga.
-
Fyrir líkamsárás, stórfelldar ærumeiðingar og barnaverndarlagabrot gagnvart D, B og A með því að hafa, þann 27. ágúst 2011, gert sig líklegan til að beita D og B líkamlegu ofbeldi en A þá gengið á milli börnum sínum til varnar og ákærði þá látið höggin dynja á líkama hennar, m.a. kýlt hana í vinstri handlegg, með þeim afleiðingum að hún hlaut þar mar.
Telst þetta varða við 217. gr. og 233. gr. b. almennra hegningarlaga og 98. gr. barnaverndarlaga.
-
Fyrir líkamsárás og stórfelldar ærumeiðingar gagnvart A með því að hafa í lok ársins 2012 hrint henni í eldhúsinu svo hún féll aftur fyrir sig á borðkant.
Telst þetta varða við 217. gr. og 233. gr. b. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Í ákæru er teknar upp einkaréttarkröfur A, B, D og C, en kröfurnar eru svohljóðandi:
„Einkaréttarkröfur:
Af hálfu A er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni bætur að fjárhæð kr. 900.000 með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. ágúst 2011 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Verði brotaþola ekki skipaður réttargæslumaður gerir hann auk þess kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar vegna lögmannsaðstoðar brotaþola að skaðlausu að meðtöldum virðisaukaskatti, samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram á síðari stigum málsins eða samkvæmt mati dómsins.
Af hálfu B er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.000.000 ásamt vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá tjónsdegi til þess dags er mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar, og dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 6. gr. vaxtalaga. Þá er gerð krafa til þess að réttargæslumanni verði ákveðin þóknun vegna réttargæslu skv. ákvörðun dómsins, sbr. 48. gr. laga nr. 88/2008.
Af hálfu D er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 800.000 ásamt vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá tjónsdegi til þess dags er mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar, og dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 6. gr. vaxtalaga. Þá er gerð krafa til þess að réttargæslumanni verði ákveðin þóknun vegna réttargæslu skv. ákvörðun dómsins, sbr. 48. gr. laga nr. 88/2008.
Af hálfu C er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni [sic] miskabætur að fjárhæð kr. 1.000.000 ásamt vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá tjónsdegi til þess dags er mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar, og dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 6. gr. vaxtalaga. Þá er gerð krafa til þess að réttargæslumanni verði ákveðin þóknun vegna réttargæslu skv. ákvörðun dómsins, sbr. 48. gr. laga nr. 88/2008.“
Ákæruvaldið gerir þær kröfur sem í ákæru greinir.
Af hálfu bótakrefjanda eru gerðar sömu kröfur og í ákæru greinir að því undanskildu að gerð er krafa um miskabætur að fjárhæð 800.000 krónur til handa brotaþolanum C.
Ákærði, sem neitar sök, krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi í heild eða einstökum liðum ákæru. Til vara krefst ákærði sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins. Þá krefst ákærði þess að einkaréttarkröfum verði vísað frá dómi, en til vara að þær verði lækkaðar. Verjandi ákærða krefst málsvarnarlauna og að þau verði greidd úr ríkissjóði.
Málavextir
Þegar rannsókn lögreglunnar á [...] á máli þessu hófst í byrjun marsmánaðar 2013 bjó ákærði að [...] ásamt eiginkonu sinni, brotaþolanum A, hér eftir nefnd A, og þremur börnum þeirra, brotaþolunum B, D og C, hér eftir nefnd B, D og C. Samkvæmt gögnum málsins mun félagsþjónustu [...] tvisvar hafa borist tilkynningar um ætlað ofbeldi gagnvart börnunum á [...]. Fyrri tilkynningin barst þann 27. febrúar 2009. Tilkynnandi, sem þá sinnti starfi stuðningsforeldis fjölskyldunnar, tilkynnti um ætlað ofbeldi móður í garð C. Eftir könnun barnaverndaryfirvalda, m.a. læknisrannsókn og viðtal við foreldrana, var málinu lokað. Síðari tilkynningin, sem barst nefndinni 5. febrúar 2013, laut að ætluðu líkamlegu ofbeldi ákærða gagnvart börnunum. Í framhaldi fór B í könnunarviðtal í Barnahúsi þann 27. febrúar 2013 að beiðni barnaverndaryfirvalda. Daginn eftir tilkynnti barnaverndarnefnd málið til lögreglunnar á [...] og var lögregluskýrsla tekin af B þann 1. mars 2013. Lögregluskýrslur voru teknar af A 5. mars og 26. júní sama ár. Þá voru skýrslur teknar af D og C fyrir dómi í Barnahúsi þann 5. mars 2013. Þá var tekin lögregluskýrsla af einu vitni 9. sama mánaðar.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 7. mars 2013. Hann neitaði alfarið sök og tjáði sig ekki um einstök kæruatriði. Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 11. mars 2013 var ákærða gert að sæta nálgunarbanni gagnvart brotaþolum í máli þessu í þrjá mánuði frá 7. mars 2013 að telja. Úrskurðurinn var staðfestur í Hæstarétti 15. sama mánaðar, sbr. mál Hæstaréttar nr. 163/2013, en nálgunarbanninu markaður lengri tími, þ.e. í sex mánuði, frá 7. mars til 7. september 2013.
Meðal gagna málsins er upplýsingaskýrsla um vettvangsskoðun lögreglu sem fór fram á heimili ákærða þann 7. mars 2013 og fylgdu skýrslunni ljósmyndir sem teknar voru bæði utan- og innanhúss að [...]. Í upplýsingaskýrslu lögreglu um skoðun og rannsókn á ryksuguröri kemur fram að A hafi mætt á lögreglustöðina á [...] með ryksugurör sem hún hafi kveðið mjög sambærilegt röri því sem B hafi verið lamin með þegar stúlkan var [...] gömul. Mun A hafa lýst því fyrir lögreglu hvernig ákærði hafi borið sig að þegar hann lamdi barnið, eins og segir í upplýsingaskýrslunni, og í framhaldinu voru teknar myndir sem sýna eiga ætlaða líkamsstöðu ákærða.
Í máli þessu liggja frammi gögn frá skóla-, félagsmála- og heilbrigðisyfirvöldum um hagi, líðan og heilsufar brotaþola. Meðal þeirra eru gögn frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins varðandi D frá árinu 2004. Þar kemur fram að stúlkan uppfylli greiningarviðmið í nánar tilteknum fötlunarflokkum. Í vottorði [...] um börnin þrjú kemur fram að tilvik hafi komið upp sem bent hafi til erfiðra heimilisaðstæðna. Einnig kemur þar fram að ákærði hafi lítið skipt sér af skólagöngu barnanna. Samkvæmt vottorðum heilsugæslunnar í [...] er ekkert í gögnum stofnunarinnar sem bendir til að börnin hafi sætt ofbeldi af neinu tagi á heimilinu. Gerð var grein fyrir komu A á heilsugæsluna í október 2013, þar fór fram skoðun á handlegg hennar og brotaþoli gerði grein fyrir áverka sem hún kvaðst hafi fengið af völdum ákærða á árinu 2011.
Einnig liggja frammi vottorð frá sérfræðingum sem sinntu börnunum eftir að mál þetta kom upp, þeirra E félagsráðgjafa, MSW, sem hitti börnin þrjú, sjö sinnum á tímabilinu 15. mars til 24. júní 2013, F, sérfræðings í geðhjúkrun barna og unglinga, sem hitti B í tvígang á árinu 2014 og G, félagsráðgjafa hjá félagsþjónustu [...].
Framburður ákærða og vitna fyrir dómi
Ákærði, sem neitaði alfarið sök í öllum ákæruliðum, tjáði sig ekki frekar um einstaka ákæruliði. Ákærði kvaðst aðspurður ekki muna hvort nákvæmlega eins ryksugurör og mynd sé af í gögnum málsins hafi verið á heimilinu 2009-2010. Aðspurður hvort ryksuga hafi verið á heimilinu á umræddum tíma svaraði ákærði, að einhvern tíma hafa verið til ryksugur, þær séu á flestum heimilum. Ítrekað aðspurður svaraði ákærði því játandi að til hafi verið ryksuga á heimilinu. Ákærði neitaði alfarið að hafa beitt fyrrverandi eiginkonu sína og börn ofbeldi. Heimilið hafi verið reglusamt, áfengi ekki haft um hönd, heimilishald árekstralaust, en fyrrverandi eiginkonu hans og B hafi ekki samið vel í seinni tíð. Fram kom að hann og A hafi verið í sambúð frá árinu [...] en gift sig árið [...] og ekkert komið upp á í þeirra sambandi.
Hann kvaðst ekki geta skýrt framburði brotaþola á rannsóknarstigi en ástæða þess að hann sé borinn sökum í máli þessu kunni að vera sú að brotaþolar ætli sér að fá með því peninga frá honum. Fram kom að ákærði hafi ekki hitt börnin frá því hann var settur í nálgunarbann á árinu 2013. Honum væri ekki á móti skapi að hitta börnin en ekki viljað búa til fleiri leiðindamál í kringum þetta. Þá hafi börnin ekki haft samband við hann að fyrra bragði.
Brotaþolinn A lýsti atvikum sem fjallað er um í fimmta ákærulið þannig að í umrætt sinn hafi hún setið inni í herbergi gegnt herbergi D sem hafi verið að rífast við ákærða um Sólheima í Grímsnesi. D hafi sagt við ákærða að Sólheimar væru ekki hræðilegur staður eins og hann hefði ítrekað sagt við barnið. Kvað brotaþoli ákærða hafa, svo hún heyrði, ítrekað hótað D að hún yrði send á Sólheima og sagt að þar væru vitleysingar geymdir. Nánar aðspurð sagði brotaþoli að hótanir sem þessar hafi verið vikulega í fleiri mánuði frá 2011 allt þar til hún og börnin fóru af heimilinu í upphafi árs 2013. Brotaþoli kvað D hafa orðið slæma á taugum og framangreindar hótanir hafi ekki haft góð áhrif á hana.
Nánar aðspurð um 5. lið ákæru kvaðst brotaþoli muna eftir þessu atviki þar sem til hafi staðið að hún færi í vinnu um þetta leyti. Það hafi hún hins vegar ekki getað vegna afleiðinga atlögunnar. Ákærði hafi misst stjórn á sér og hún séð hann kýla D í magann með krepptum hnefa. Brotaþoli kvaðst hafa hlaupið til og náð að ganga á milli og D þá skriðið undir rúm en ákærði togað í hana. Þá kvaðst brotaþoli hafa öskrað á ákærða sem hafi í kjölfarið ítrekað kýlt brotaþola í vinstri upphandlegg með þeim afleiðingum að hún hafi fengið stóran marblett og lengi verið slæm í hendinni eftir þetta. Sérstaklega aðspurð kvað brotaþoli hin börnin hafa verið inn í eldhúsi og stofu en þau hafi án efa orðið vör við þetta. Brotaþoli kvaðst ekki hafa þorað að leita læknis, þau hafi öll verið hrædd við ákærða.
Varðandi 6. ákærulið kom fram hjá brotaþola að hún hafi í umrætt sinn verið við störf á garðyrkjustöð í nágrenninu þegar B hafi komið þangað á rifnum sokkum og greint frá því að ákærði væri brjálaður heima og hefði hent henni út úr húsinu og kastað í hana grjóti. Þær hafi ekið heim að [...] og þegar þangað kom hafi ákærði verið snarvitlaus, kastað grjóti í B og ekki viljað hleypa henni inn í húsið. Brotaþoli kvaðst hafa sagt að þetta gengi ekki, en hann orðið vitlaus og „skutlað“ brotaþola á eldhúsborð, staðið yfir henni og ætlað að lemja hana í höfuðið en B þá komið með stóran hníf og hótað að beita honum ef ákærði kæmi sér ekki í burtu. Við það hafi ákærði farið út. Brotaþoli kvaðst hafa fengið hnykk á háls og bak og fundið til undir herðablaði. Hún hafi ekki þorað að fara til læknis þar sem ákærði hafi á þessum tíma haft í hótunum við þau. Þá hafi hún óttast að hann myndi gera börnunum eitthvað ef hún segði frá.
Fram kom hjá brotaþola að andrúmsloft á heimilinu hafi verið mjög þvingað og ekkert hefði mátt út af bregða þá hafi ákærði tekið eitthvert barnanna og lamið eða kýlt, t.d. ef djús helltist niður. Versti tíminn hafi verið í skólafríum og þegar ákærði var atvinnulaus, en það hafi hann verið í langan tíma. Þá hafi ofbeldið gagnvart börnunum yfirleitt byrjað við skólaaldur. Brotaþoli kvaðst hafa verið á móti þessum aðförum en ákærði hafi sagt að hún væri aumingi og ræfill. Brotaþoli kvaðst hafa verið mjög hrædd við ákærða. Brotaþoli kannaðist ekki við að hafa greint frá því í skýrslutöku hjá lögreglu að systkinin hafi slegist mikið. Samskipti þeirra hafi verið góð en þau hafi rifist eins og gerist og gengur hjá systkinum. Þá kannaðist brotaþoli ekki við að systkinin hafi verið orðljót en þau hafi látið ákærða heyra það þegar hann hafi haft í hótunum við þau, sem brotaþoli kvaðst ekki hafa þorað að gera.
Aðspurð kvaðst brotaþoli hafa orðið vitni að því að ákærði hafi í eitt sinn, á árinu 2010, brjálast inni í eldhúsi við það að D hafi óvart hellt niður djús. Ákærði hafi kýlt barnið í magann en hætt þegar brotaþoli hafi öskrað og gargað og spurt hvort hann ætlaði að drepa barnið. Brotaþoli kvaðst hafa orðið vitni að fleiri tilvikum. Ákærði hafi misst stjórn á sér ef eitthvað bar út af og slegið D utan undir, en gat ekki tilgreint nákvæmlega fjölda skipta, mikið hafi gengið á, en líklega hafi hún séð ákærða veitast að D í fjögur eða fimm skipti. Þá kom fram að D hafi á árinu 2012 sagt sér að ákærði hafi í nokkur skipti lamið sig þegar brotaþoli var að heiman, t.d. í eitt skipti þegar hún hafi hellt niður djús. Sérstaklega aðspurð hvort brotaþoli kannist við tilvik sem tengist fjalli eða skáp sagðist brotaþoli hafa orðið vitni að því að þegar D hafi komið heim eftir heimsókn í sumarhús nærri heimili þeirra. Þá hafi ákærði brjálast og lamið stúlkuna.
Brotaþoli kvað ofbeldi gagnvart B hafa byrjað þegar barnið var [...] ára og kvaðst brotaþoli hafa orðið vitni að ofbeldi líklega fimm eða sex sinnum en það hafi staðið allt þar til hún og börnin fluttu af heimilinu. Ákærði hafi lamið, kýlt með krepptum hnefa og slegið barnið utan undir. Höggin hafi lent á líkama hennar og höfði og hún fengið marbletti og handaför. Hann hafi alla tíð beitt barnið ofbeldi og einnig kallað hana „litlu hóru“. Þegar brotaþoli var beðin um að lýsa þessu nánar greindi hún frá því að þau hafi búið við að ákærði hafi fengið æðisköst og þá misst stjórn á skapi sínu. Líkti brotaþoli ástandinu á heimilinu við það að ganga á nálum. Brotaþoli ítrekaði að hún hefði verið á móti þessum aðförum en ákærði hafi alltaf sagt að það yrði að taka í krakkana, þetta hafi honum fundist vera réttar uppeldisaðferðir.
Nánar aðspurð um einstök tilvik kvað brotaþoli ákærða hafa, þegar B var [...] ára, tekið ryksugurör úr járni og slegið barnið tvisvar í höfuðið. Brotaþoli kvaðst hafa heyrt mikinn grát og læti og þegar hún hafi komið inn í herbergi B hafi ákærði verið að lemja hana með ryksuguröri en barnið reynt að verja sig. Síðar í yfirheyrslunni kvaðst brotaþoli hafa séð ákærða slá barnið eitt högg í höfuðið. Brotaþoli kvaðst ekki vita hvort séð hafi á barninu þar sem hárið hafi verið fyrir, en náð að stoppa ákærða af og henda rörinu út um gluggann. Sérstaklega aðspurð kvaðst brotaþoli hafa í lok árs 2012, eins og áður greinir, tekið á vinnustað sínum á móti B grátandi eftir að ákærði hafði rekið barnið út úr húsinu á sokkunum einum og með möl í hárinu. Aðspurð hvort um hafi verið að ræða fleiri slík atvik lýsti vitnið atviki þegar brotaþoli hafi líklega verið [...] ára, en þá hafi ákærði í kjölfar rifrildis hent B út í snjóinn í nærfötunum einum klæða.
Brotaþoli kvað ákærða hafa lamið C nokkrum sinnum inni í eldhúsi í kjölfar þess að djús helltist niður. Í kjölfar barsmíða hafi barnið tekið upp á því að skemma hluti og þá hafi ákærði einnig beitt hann ofbeldi. Aðspurð lýsti brotaþoli því að ákærði hafi misst sig og bæði slegið barnið utan undir með flötum lófa og kýlt. Þetta hafi gerst í tengslum við lestur C sem hafi verið lesblindur. Þetta hafi verið þegar C var [...] ára og kvaðst brotaþoli hafa séð þrjú slík tilvik í tengslum við lærdóminn. Þá hafi ákærði einnig kýlt C í bakið úti á götu við verslunina á [...] og við [...] hafi hann slegið barnið utan undir. Drengurinn hafi ekki hlýtt og þá hafi ákærði sleppt sér. Líklega hafi C þá verið [...] ára. Aðspurð greindi brotaþoli frá því að rétt fyrir giftingu brotaþola og ákærða árið 2010 hafi C sagt sér frá því að ákærði hafi slegið sig í bakið í kjölfar þess að drengurinn hafi tekið flugvélamódel. Í framhaldinu hafi C kveikt í bifreið ákærða sem staðið hafi við skemmuna. Lögreglan hafi komið á vettvang en þegar brotaþoli hafi ætlað að greina lögreglu frá því sem í gangi væri á heimilinu hafi ákærði rekið lögregluna í burtu.
Brotaþoli lýsti því að ákærði hafi einnig lamið í veggi og gargað. Þegar hann hafi komið seint heim á kvöldin hafi hann vakið brotaþola, haldið vöku fyrir henni og rifist og skammast með þeim afleiðingum að brotaþoli hafi ekki náð að sofa eftir að ákærði sofnaði. Árið 2012 hafi hún ákveðið að yfirgefa heimilið, komið börnunum fyrir hjá vinkonu sinni meðan hún dvaldi á Reykjalundi og í Kvennaathvarfinu. Brotaþoli kvaðst hafa glímt við mikla verki eftir atvikið 27. ágúst 2011 og hafa farið í aðgerð á hendi 2014. Brotaþoli kvað líðan sína og barnanna miklu betri, nú búi þau við öryggi og séu laus við barsmíðar og hótanir. Líðan sín sé misjöfn, hún eigi við svefntruflanir að etja en í það heila líði henni betur. Ástæða innlagnar á geðdeild hafi verið taugaáfall sem og áfallastreituröskun í kjölfar sambúðarinnar. Fram kom hjá brotaþola að þegar hún hafi gefið fyrri skýrslu sína hjá lögreglu hafi hún verið mjög hrædd við ákærða. Einnig kom fram að hún hafi á þessum tíma talið sig samseka. Brotaþoli lýsti því að hafa í tvígang haft samband við nágranna sína, H og I, greint þeim frá því að ákærði ætlaði að berja C og beðið þá um að taka ákærða af heimilinu sem þeir hafi gert. Þá hafi hún beðið þá um að tala ákærða til. Hún kvaðst ekki hafa getað leitað til fjölskyldu sinnar. Hún hafi sagt tveimur konum í sveitinni frá ofbeldi ákærða sem nú séu látnar. Annarri þeirra hafi C sagt frá því að ákærði legði á hann hendur. Sérstaklega aðspurð kvaðst brotaþoli hafa gifst ákærða árið 2010 vegna fjárhagslegra ástæðna, þ.e. til að tryggja að hún fengi sinn hlut úr búinu.
Brotaþoli B kvað ofbeldi af hálfu ákærða hafa staðið yfir svo lengi sem hún muni eftir sér, það hafi verið nær daglegur viðburður og ákærði hafi í engu sinnt þeim. Brotaþoli kvaðst aldrei hafa langað til að fara heim og reynt að vera sem mest með vinkonu sinni. Aðspurð kvaðst brotaþoli fyrst, eða þegar brotaþoli var í 8. bekk, hafa sagt J vinkonu sinni frá ofbeldinu, m.a. atvikinu með ryksugurörinu. Hún lýsti einnig einelti sem þau systkinin hafi orðið fyrir í skóla, að móðir hennar hafi vitað af ofbeldinu en ekkert getað gert. Þá hafi þau ekki mátt leita til læknis. Síðar í yfirheyrslunni kvaðst brotaþoli, vegna líflátshótana ákærða, hafa beðið með að segja frá ofbeldinu þar til hún var komin í framhaldsskóla og móðir hennar dvaldi á Reykjalundi. Þá hafi hún, rétt fyrir skýrslutöku hjá lögreglu, sagt vinkonu sinni K og núverandi sambýlismanni sínum frá ofbeldinu. Brotaþoli lýsti því að eiga erfitt með að fara út í búð eða út að ganga vegna hræðslu við að hitta ákærða.
Fyrsta minning hennar sé frá því hún var [...] ára gömul þegar ákærði hafi af tilefnislausu slegið hana í höfuð og bak með ryksuguröri og hafi móðir hennar verið vitni að því. Ákærði hafi beitt sig sambærilegu ofbeldi árið áður en hún fermdist. Þá hafi hann rifið hana niður úr koju, hent henni í gólfið og lamið hana með rörinu. Hún hafi reynt að skríða undir rúm en hann náð í fót hennar og þá lamið hana með ryksuguröri úr járni í maga, höfuð og bak. Höggin hafi verið ítrekuð og ekki laus. Nánar aðspurð kvað brotaþoli ákærða hafa haldið um rörið með báðum höndum og beitt rörinu eins og hafnaboltakylfu. Hún hafi sparkað og reynt að berjast á móti. Meðan á þessu stóð hafi D verið í koju fyrir ofan og séð þetta og móðir hennar reynt að komast inn í herbergið. Móðir hennar hafi ekki verið sjónarvottur að atvikinu en vitað af því. Kvaðst brotaþoli hafa marist á fæti, maga og baki, fengið kúlur á höfuðið og lengi verið með höfuðverk á eftir og einnig fengið sjóntruflanir. Aðspurð um ástæðu þess að hún hafi lýst atvikum á annan veg í skýrslutöku hjá lögreglu, þ.e. að atlagan hafi byrjað inni í eldhúsi í kjölfar þess að hún hafi hellt niður mjólk, sagði brotaþoli það rétt vera en hún hafi ekki munað eftir því. Einnig var brotaþoli innt eftir því að í skýrslutöku hjá lögreglu hafi hún ekki lýst fyrsta skipti sem ákærði hafi beitt hana ofbeldi á þann veg sem hún hafi nú gert. Brotaþoli kvaðst hafa verið mjög reið þegar hún gaf skýrslu hjá lögreglu. Þá muni hún ekki nákvæmlega eftir því hvenær hver atlaga hafi átt sér stað, skiptin renni saman í minningunni.
Eitt skipti þegar móðir hennar hafi verið í vinnu, og brotaþoli líklega [...] ára, hafi ákærði hent henni út vegna þess að hún hafi, að hans mati, skorið of stóra ostsneið, en við það hafi ákærði brjálast. Hann hafi skipað henni að fara út á náttfötunum einum klæða og berfætt. Taldi brotaþoli tilvik sem þessi hafa verið [...] þegar hún hafi verið á aldrinum [...] ára. Þá hafi ákærði einnig kastað í sig grjóti eftir að út kom. Nánar lýsti brotaþoli atvikum þannig að ákærði hafi haft í frammi hótanir og sagt ef hún færi ekki út þá myndi hann drepa hana. Þá hafi hún í eitt skipti eftir að ákærði hafi hent henni út flúið á vinnustað móður sinnar, [...], en þangað sé um fimm mínútna gangur, og sagt móður sinni að hún vildi ekki fara heim. Þar hafi bóndinn, H og [...] kona hans, verið en brotaþoli kvaðst ekki hafa rætt við þau og þau ekki rætt við hana. Þegar hún og móðir hennar komu heim að [...] hafi hún farið inn í herbergi og læst að sér. Þegar ákærði kom hafi hann öskrað og sagt að hún ætti ekki að vera inni á heimilinu.
Þá lýsti brotaþoli því að einu sinni, líklega 2008-2009, hafi ákærði ætlað að ráðast á C og hún þá gengið á milli og við það fengið högg. Í annað skipti hafi ákærði ráðist á sig í kjölfar þess að hún spurði hvort hann hefði slegið hundinn hennar. Aðspurð hvort hún gæti tilgreint fjölda skipta sem ákærði hafi lamið hana, sagðist brotaþoli ekki hafa talið þau, en á árunum 2004 til 2012 hafi varla liðið sá dagur sem hann hafi ekki lamið þau. Ofbeldið hafi verið alla hennar ævi og hún muni ekki eftir neinu góðu. Sérstaklega aðspurð kvað hún ákærða hafa beitt hana ofbeldi 3-4 sinnum í viku á umræddu tímabili, oftast af tilefnislausu þegar hann hafi reiðst, en honum hafi fundist allt vera þeim systkinum að kenna. Ákærði hafi kýlt þau í andlit, höfuð og maga og sparkað, hrint, kastað í þau dóti og grjóti.
Aðspurð um atvik sem lýst er í 5. tölulið ákærðu sagði brotaþoli að ákærði hafi ráðist á sig og D inni í herbergi. Þær hafi hlaupið til móður sinnar sem hafi verið inni í eldhúsi og hún gengið á milli. Við það hafi móðir hennar fengið högg á vinstri handlegg með þeim afleiðingum að hún hafi orðið blá og marin. Brotaþoli gat ekki gefið skýringu á því sem fram kom hjá móður hennar fyrir dómi, þ.e. að umrætt atvik hafi átt sér stað inni í herbergi. Brotaþoli ítrekaði að þannig hafi þetta verið í sinni minningu. Í annað skipti hafi ákærði verið að rífast við móður hennar og kallað hana öllum illum nöfnum inni í eldhúsi. Hann hafi hrint móður hennar sem hafi dottið aftur fyrir sig á eldhúsborð og meitt sig á baki og hendi. Brotaþoli kvaðst þá hafa gengið á milli með hníf og hótað að beita honum. Þá lýsti brotaþoli annarri atlögu ákærða að móður hennar, þ.e. inni á baði, en fyrir það er ekki ákært. Þá kvaðst brotaþoli áður hafa gripið til hnífs í tengslum við atvik sem þessi. Brotaþoli taldi að atvik sem lýst er í 6. tölulið ákæru hafi átt sér stað einhverju áður en atvik þau sem lýst er í 5. tölulið ákæru.
Brotaþoli kvaðst hafa orðið vitni að því að D, þá [...] ára, hafi sagt ákærða að halda kjafti. Við það hafi hann brjálast og elt D inn í herbergi þar sem hann hafi kýlt hana í magann. Þá hafi hún heyrt ákærða segja vikulega við D, af minnsta tilefni, að hún væri heimsk, aumingi og ætti að enda á sambýli. Þegar D hafi svarað í sömu mynt hafi hann ráðist á hana og lýsti brotaþoli því að í eitt sinni hafi ákærði, þar sem þau hafi öll setið inni í stofu, brjálast, rokið upp úr sófanum og kýlt brotaþolann D í bakið. Kvaðst vitnið hafa séð ofbeldi ákærða gagnvart D alla vega í tíu skipti, m.a. hafi hann kýlt D í bakið og hrint henni.
Þá hafi ákærði einnig ráðist á C. Í eitt skiptið vegna þess að C hafi átt erfitt með að lesa. Þá hafi ákærði kýlt C í öxlina. Við það hafi C hlaupið til sín og hún gengið á milli og fengið við það högg frá ákærða. Í annað skipti hafi C flúið undan ákærða, sem hafi haft í hótunum við hann, C farið undir rúm, brotaþoli læst herberginu, en ákærði sparkað og barið í hurðina. C hafi oft verið að fikta í hlutum niðri í skemmu og falið hluti fyrir ákærða sem hafi þá, að brotaþola ásjáandi, kýlt C í öxl eða maga. Brotaþoli kvaðst ekki muna eftir fleiri tilvikum en ákærði hafi alla vega veist að C alla vega í tuttugu skipti, þó hún geti ekki lýst atvikunum frekar en að framan greinir. Þetta hafi verið byrjað þegar C var [...] ára.
Brotaþolinn D gaf skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi 5. mars 2013. Þar kom fram að ákærði hafi lamið þau. Það hafi gerst mörgum sinnum. Greindi brotaþoli frá atviki í kjölfar þess að djús hafi hellst niður hjá henni. Þá hafi ákærði orðið vitlaus og lamið hana í magann. Hún hafi næstum því tapað andanum og liðið illa í maganum á eftir. Einnig hafi hann sparkað í rass hennar nokkrum sinnum. Þá greindi brotaþoli frá tilviki, þegar hún var krakki, en þá hafi ákærði, vegna þess að hún hafi hellt á gólfið, lamið sig með ryksugu. Það sama hafi gerst þegar hún hafi verið með gubbupest, [...] eða [...] ára, og ælt á gólfið. Hún hafi þá varið andlit sitt og högg lent á handleggnum. Síðar í yfirheyrslunni kom fram að ákærði hafi ekki beitt ryksugu gegn henni nema einu sinni. Einnig lýsti hún atviki í tengslum við að kettlingur slapp út hjá henni. Þá hafi ákærði orðið brjálaður og hún flúið upp í rúm í úlpunni en hann ógnað sér og í framhaldinu tekið úlpuna og lamið hana með henni. Brotaþoli kvað ákærða vilja setja sig á sambýli eins og amma hennar hafi búið á.
Fram kom hjá brotaþola að foreldrar hennar hafi ekki viljað að hún segði frá aðstæðum á heimilinu og móðir hennar hafi óttast að þau yrðu tekin frá henni og illa farið með þau í fóstri. Brotaþola kvaðst hafa liðið illa á heimilinu og heimilið hafi verið einangrað. Ákærði hafi aldrei sinnt þeim.
Brotaþoli kvað móður sína hafa fengið marblett á handlegginn eftir högg frá ákærða þegar hún hafi gengið á milli þegar ákærði hafi ætlað að lemja þau. Þetta kvaðst hún hafa séð með eigin augum. Þá hafi hann einu sinni lamið B með ryksugu. Einnig hafi hún séð ákærða lemja C þegar hann hafi ekki nennt að læra. Þá hafi C verið [...] ára.
Brotaþolinn kom einnig fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og gaf skýrslu. Þá greindi hún frá því að ekkert hefði mátt segja við ákærða þá hefði hann orðið vitlaus. Einu sinni, þegar hún var [...] ára hafi hún hellt niður djús. Þegar hún hafi ætlað þrífa hafi ákærði tekið æðiskast og kýlt hana í magann þannig að hún hafi verið við það að missa andann. Einu sinni þegar hún hafi látið illa hafi ákærði hótað að setja hana á Sólheima í Grímsnesi sem væri eins og fangelsi. Brotaþoli kvaðst hafa trúað þessu og liðið illa. Aðspurð sagði brotaþoli að þetta hafi hann oft sagt alveg frá því hún var [...] ára. Ofbeldið hafi byrjað þegar brotaþoli var í leikskóla en hún kvaðst ekki muna eftir einstökum skiptum. Nefndi brotaþoli í þessu sambandi að ef þau hoppuðu í rúmunum hafi hann misst stjórn á sér og slegið þau. Þá greindi brotaþoli frá því að einu sinni hafi hún verið veik og ælt á gólfið og þá hafi ákærði misst stjórn á sér og lamið hana. Brotaþoli kvaðst ekki muna nánar eftir atvikunum og lýsti því að hún væri hrædd við dómhús og vildi ekki greina frekar frá. Brotaþoli kvað rétt sem fram hafi komið í yfirheyrslu yfir henni í Barnahúsi um að ákærði hafi margoft lamið hana og sparkað nokkrum sinnum í hana.
Aðspurð hvort hún hafi séð ákærða beita systkini hennar ofbeldi sagðist brotaþoli hafa séð ákærða lemja B með ryksuguröri, en þau hafi stoppað ákærða. Þá hafi ákærði kastað steinum í B. Aðspurð kvað brotaþoli ákærða hafa lamið C af því hann hafi átt erfitt með að læra en gat ekki lýst atvikum nánar. Ef móðir þeirra hefði hjálpað C við lærdóminn hafi ákærði brjálast og lamið í borðið og við það hafi C orðið hræddur. Brotaþola kvaðst hafa liðið illa vegna þessara atvika. Lýsti brotaþoli ákærða sem „monster“.
Brotaþoli kvaðst aðspurð muna eftir að ákærði hafi ætlað að lemja hana og systur hennar og móðir þeirra gengið á milli. Ástæðan hafi verið sú að hún hafi svarað ákærða þegar hann hafi verið að ræða við hana um Sólheima. Við það hafi ákærði brjálast og brotaþoli þá skriðið undir rúm. Þegar ákærði hafi dregið hana undan rúmi hafi hún bitið ákærða í höndina. Þá hafi móðir hennar komið til að verja hana, þ.e. brotaþola. Þá kvaðst brotaþoli hafa séð ákærða ráðast á móður hennar, A, í eldhúsinu og hafi ákærði kýlt hana í vinstri upphandlegg þannig að A hafi fengið stóran marblett sem brotaþoli kvaðst hafa séð.
Brotaþoli kvaðst ekki hafa greint frá ofbeldinu en tók fram að allir á [...] hafi vitað um þetta en fundist það ekki koma þeim við. Fólk hafi séð þegar hann hafi lamið þau úti við, því það hafi hann líka gert. Fólkið hafi bara gengið í burtu. Nefndi brotaþoli í þessu sambandi H á [...], en honum hafi fundist þetta allt í lagi.
Brotaþolinn C gaf skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi 5. mars 2013. Hann kvað ákærða hafa fengið æðiskast þegar brotaþoli var [...] ára og barið þau, en mest sig. Högg með krepptum hnefa hafi lent á baki brotaþola. Líklega hafi hann verið [...], [...] eða [...] ára þegar þetta hafi fyrst gerst. Lýsti brotaþoli rifrildi milli systra sinna og að þá hafi ákærði tekið æðiskast. Einnig lýsti brotaþoli höggum frá ákærða með flötum lófa í maga en aðspurður kvaðst hann aldrei hafa verið rassskelltur. Brotaþoli greindi frá því að báðir foreldrar hans hafi sagt að hann mætti ekki segja M frá að hann væri barinn.
Þá kvað brotaþoli ákærða hafa lamið B einu sinni með ryksuguröri, hann hafi séð svolítið en ekki muna hvar höggin lentu. Þá hafi ákærði einu sinni lamið D. Aðspurður um atlögur ákærða gegn móður brotaþola var lýsing hans á atviki þegar móðir hans hafi verið að reyna að hjálpa þeim mjög óljós.
Brotaþolinn gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins og svaraði spurningum um ætlað ofbeldi ákærða gagnvart öðrum brotaþolum í skýrslutöku fyrir dómi í Barnahúsi. Hann lýsti því að ákærði hafi barið út af engu en ofbeldið hafi byrjað þegar brotaþoli var [...] ára og staðið alveg þar til þau fluttu frá [...], en það hafi verið B sem hafi verið mest lamin. Þetta hafi gerst oft, næstum því daglega en hann vildi helst gleyma þessu. Aðspurður kvað hann högg, sem hafi verið með krepptum hnefa, hafa lent á hönd brotaþola, baki og fótum. Brotaþoli kannaðist ekki við tilvik tengt því þegar hann og O, vinur brotaþola, hafi verið að leika sér saman. Brotaþoli kvað vini sína aldrei hafa komið heim að [...]. Þá greindi brotaþoli frá atviki við Litlu-Kaffistofuna, þá hafi ákærði öskrað á hann og kýlt að einhverjum manni ásjáandi.
Brotaþoli kvað ákærða hafa lamið B einu sinni með ryksuguröri og höggið lent á öxl hennar. Aðspurður kvaðst hann hafa séð það. Þá hafi ákærði kýlt D í magann, fætur og bakið, „voða mikið“. Einnig kvaðst hann hafa orðið vitni að því þegar ákærði hafi hótað að drepa B en móðir hans komið í veg fyrir það og B þá komið með hníf og hótað ákærða.
Vitnið I, nágranni ákærða, kvaðst ekki kannast við að A hefði í tvígang haft samband við vitnið og H og beðið þá um að taka ákærða af heimilinu vegna þess að ákærði hafi ætlað að ráðast á C. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið var við að ákærði hafi beitt börn sín eða eiginkonu ofbeldi. Ítrekað aðspurður kvað vitnið A aldrei hafa haft samband við hann og óskað eftir einhverskonar aðstoð og aldrei hafa heyrt um ofbeldi af hálfu ákærða inni á heimilinu. Vitnið kvaðst ekki geta gefið skýringu á framburði A fyrir dómi um afskipti vitnisins af ákærða. Vitnið kannaðist við vinskap B og dóttur vitnisins og greindi frá því að B hafi nokkrum sinnum gist á heimili vitnisins. Kvað hann B hafa talað mjög vel um ákærða og hafa fylgt honum töluvert mikið þegar hún var yngri. Vitnið kvað B alltaf hafa verið káta þegar hún dvaldi á heimili hans og hafi hann aldrei séð á henni áverka.
Vitnið K kvað vinkonu sína, B, hafa sagt sér frá ofbeldinu þegar þær bjuggu saman á heimavist, líklega árið 2012 eða 2013, þ.e. áður en B gaf skýrslu hjá lögreglu. Hún hafi greint vitninu frá því að þau öll, þ.e. móðir hennar og systkini, hafi verið beitt ofbeldi af hálfu ákærða meðan hún bjó að [...]. Hann hafi barið þau og verið vondur við þau en hafi ekki lýst því nánar. Fram kom hjá vitninu að B hafi sagt frá því að ákærði hafi lamið hana með ryksugu. Nánar mundi vitnið ekki eftir atvikum. Í dag lifi brotaþoli allt öðru lífi, hún sé nú glaðari og líði betur.
Vitnið J kannaðist ekki við að æskuvinkona hennar, B, hafi greint vitninu frá ofbeldi af hálfu ákærða. Aðspurð hvort hún hafi rætt við B um ákærða, sagði vitnið að þær hafi oft rætt saman en ekkert hafi verið rætt um ofbeldi. Vitnið kvaðst ekki hafa frétt af þessu fyrr en fjölskyldan flutti frá [...]. Vitninu var kynntur framburður B um þetta atriði fyrir dómi. Vitnið kvaðst ekki muna eftir þessu samtali. Taldi vitnið að slíku samtali gleymdi hún ekki, en þær hafi verið saman alla daga og B oft dvalið á heimili vitnisins. Fram kom að vitnið hafi komið í nokkur skipti á heimili B. Þar hafi verið eðlilegt heimilishald en ákærði yfirleitt ekki verið heima þegar hún hafi dvalið þarna. Framburður B bæði hjá lögreglu og fyrir dómi um að ákærði hafi beitt hana ofbeldi var ítrekað kynntur vitninu. Ítrekaði vitnið fyrri framburð sinn. Svör vitnisins um það hvort hún hafi séð áverka á B voru nokkuð misvísandi. Vitnið kannaðist við að hafa séð marbletti á B og innt B eftir því hvað hafi gerst, en B ekki svarað. Vitnið var sérstaklega spurð hvort einhver hafi rætt um það við hana hvað hún ætti að segja í skýrslutökunni fyrir dómi. Kvað vitnið svo ekki vera.
Vitnið L, sambýlismaður B og barnsfaðir, kvaðst hafa kynnst B haustið 2013. Hún hafi kvartað undan eymslum í baki og rifbeinum og í tilefni þess hafi hún sagt vitninu frá því að hún hafi verið beitt miklu heimilisofbeldi af hálfu föður síns á yngri árum og alveg þangað til hún flutti að heiman. Um hafi verið að ræða andlegt- og líkamlegt ofbeldi. Hún hafi ekki sagt sér hve oft þetta hafi átt sér stað en greint frá því að hafa bæði verið lamin og hent í hana hlutum, s.s. skóm, grjóti og verkfærum. Þá hafi hún orðið fyrir hnefahöggum, ljótu orðbragði og verið niðurlægð. Þetta hafi hún sagt sér eftir að þau kynntust nánar. Vitnið kvað líðan brotaþola ekki góða og hún eigi erfitt með að hugsa um það sem hafi hent hana í æsku. Þá sé hún hrædd ef ofbeldi sé í gangi nærri henni.
Vitnið M, starfaði sem stuðningsforeldri barna ákærða á vegum barnaverndarnefndar á árunum 2005 til 2009. Fyrst til að byrja með hafi B dvalið á öðrum stað en síðan hafi hún verið hjá henni ásamt C og dvalið á heimili hennar aðra hverja helgi en D þá verið í helgardvöl fyrir fatlaða á [...]. Sérstaklega aðspurð kvað vitnið börnin ekki hafa greint frá heimilisofbeldi á þessum tíma. Aðspurð hvort eitthvað hafi bent til þess að ekki væri allt með felldu sagði vitnið að svo hafi verið, t.d. hafi C verið mjög hvekktur, fljótur að bera fyrir sig hendurnar og vitnið grunað að um væri að ræða andlegt ofbeldi. Hins vegar hafi ekkert bent til líkamlegs ofbeldis fyrr en sonur vitnisins hafi greint henni frá því en í kjölfar þess hafi hún hætt sem stuðningsforeldri. Vitnið kvað enga óvenjulega áverka hafa verið á börnunum á þessum tíma. Vitnið kvaðst, í kjölfar tilkynningarinnar til barnaverndarnefndar árið 2009, hafa farið inn á heimilið með félagsmálastjóra að hennar beiðni, en hjónin, ákærði og brotaþolinn A, hafi brugðist reið við afskiptunum. Fram kom að vitnið hafi aldrei orðið vitni að ofbeldi af hálfu ákærða.
Þegar D og C hafi dvalið á heimili hennar í byrjun árs 2013, meðan móðir þeirra dvaldi á Reykjalundi, hafi börnin greint vitninu frá ofbeldi ákærða í þeirra garð. C hafi aðallega rætt um ákærða og að hann hafi barið B og að hann, þ.e. C, hafi stungið ákærða í sköflunginn þegar ákærði var að berja B með ryksuguröri. C hafi einnig greint henni frá því að hann hafi tekið byssu föður síns og grafið hana niður þar sem hann hafi verið hræddur um að ákærði myndi skjóta þau. Einu sinni þegar C hafi lýst ofbeldi af hálfu ákærða, hafi C gripið fyrir munninn og sagt, ég má ekki segja þetta, pabbi lemur mig ef ég segi meira. C hafi sagt vitninu hvað gengið hafi á á heimilinu gagnvart þeim systkinum og lýst ýmiskonar ofbeldi, öskrum og látum í foreldrum sínum á kvöldin og nóttunni og kvaðst vitnið hafa reiknað með að þess vegna hafi honum fylgt svefnlyf þegar hann kom á heimili vitnisins. Aðspurð hvort drengurinn hafi greint henni frá því hve lengi þetta ofbeldi hafi staðið, hafi drengurinn sagt að hann muni ekki annað en svona atferli, ekki þekkt annað. Fram kom að C og D hafi dvalið hjá vitninu fram í júnímánuð 2013, en þá flutt með móður sinni á [...].
Vitnið kvað A, eftir dvöl á Reykjalundi, hafa verið áhyggjufulla og miður sín yfir að allt væri komið upp á yfirborðið og að hún yrði sett í fangelsi og rætt um að hún væri vond kona. Frekar hafi hún ekki tjáð sig um þetta mál. Fram kom að á þeim tíma sem vitnið var stuðningsforeldri, 2005-2009, hafi A rætt við sig um að ákærði beitti hana andlegu ofbeldi, þ.e. steytti hnefa framan í hana og öskraði á hana. Í næsta samtali þeirra hafi hún hins vegar verið mjög sátt með ákærða og hrósað honum.
Vitnið N, rannsóknarlögreglumaður, kom fyrir dóm og staðfesti að hafa tekið framlagðar myndir í málinu af húskynnum að [...] og þegar ryksugurör, sem A hafi komið með á lögreglustöðina, hafi verið myndað, sem og upplýsingaskýrslur þessu tengdar. Vitnið kvaðst aðspurt ekki hafa kannað það sérstaklega hvort hægt væri að læsa svefnherbergjum í húsinu. Þá kvaðst hann ekki vita til þess að áður en þetta mál fór af stað hafi lögreglu borist tilkynningar um ætlað heimilisofbeldi á heimilinu. Vitnið greindi frá því að hafa farið á vettvang þegar tilkynnt hafi verið um eld í bifreið í nágrenni við heimilið og muna eftir að ákærði hafi ekki mikið viljað ræða við lögreglu á vettvangi.
Vitnið G, félagsráðgjafi hjá barnavernd [...], kvaðst hafa, frá því í lok árs 2013 eftir flutning málsins frá barnavernd uppsveita Árnessýslu, átt reglulega fundi með brotaþolunum A, B, D og C. Tilsjónarmaður hafi verið hjá fjölskyldunni af hálfu barnaverndar uppsveita frá því fjölskyldan, þ.e. A og börnin fluttu á [...] í júnímánuði sama ár. Sá tilsjónarmaður vinni enn með fjölskyldunni. Vitnið kvað brotaþola hafa greint frá ofbeldi af hálfu ákærða í reglulegum viðtölum. Vitnið kvað vinnu sína með brotaþola hafi falist í því að styrkja þau og hjálpa þeim við að takast á við reiði sem hafi verið mjög mikil í upphafi meðferðar.
Vitnið kvað líðan A vera misjafna en andlegt ástand hennar hafi verið mjög slæmt á köflum og sérstaklega þegar hún ræði um ákærða og æsku sína. En eigi hún góða daga, þá geti hún rætt um þessi mál af yfirvegun. Kom fram að þannig hafi háttað til þegar vitnið hitti A nokkrum dögum fyrir skýrslugjöf vitnisins. Þá kom fram að brotaþolinn hafi þurft á innlögn á geðdeild að halda á þessu tímabili.
Ástandi brotaþolans B, sem vitnið kvaðst hafa hitt hálfsmánaðarlega fram á haustið 2014, lýsti vitnið þannig að hún hafi verið mjög reið út í ákærða og greint frá því að muna ekki eftir öðru en ofbeldi af hálfu föður. Hún hafi sagt sér að móðir þeirra hafi gengið á milli og fengið hnefahögg við það. B hafi einnig greint frá því að faðir hennar hafi slegið hana með ryksuguröri.
Vitnið kvað D hafa sagt sér frá því að ákærði hafi sagt að hún væri þroskaheft og eigi að vera inni á stofnun. Þá hafi hún sagt sér að ákærði hafi kýlt sig í maga og bak og lýst atviki þegar hún hafi varla náð andanum eftir högg í maga. Vitnið kvaðst hafa hitt C í um sex skipti einslega. Hann vilji lítið tjá sig um málið en það komi fyrir að hann segi upp úr þurru, pabbi lamdi mig í maga og bak, en hafi ekki viljað ræða það nánar. Vitnið kvað líðan C ekki hafa verið nógu góða, en hann vilji lítið ræða um það. Hann sé á kvíðalyfi sem virðist hjálpa honum.
Vitnið O, fyrrverandi bekkjarbróðir brotaþolans C, gaf skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi þann 8. maí sl. Vitnið lýsti einni heimsókn að [...] þegar vitnið var [...] eða [...] ára. Hann og systkinin hafi verið að leika sér niðri við læk og ekki strax sinnt kalli um að koma inn. Þegar inn í húsið kom hafi C verið sleginn á bert bakið, en vitnið kvaðst ekki mun hvort það hafi verið ákærði sem hafi verið þar að verki. Vitnið kvaðst hafa komið nokkrum sinnum inn á heimilið og þá verið allt í lagi, en sig minni að hann hafi verið hræddur í umrætt skipti um að hann yrði einnig sleginn.
Vitnið E, félagsráðgjafi, staðfesti greinargerð, dagsetta 25. júní 2013, og myndir sem henni fylgdu og brotaþolinn D teiknaði á meðferðartímanum. Vitnið kvaðst hafa hitt brotaþolana B, D og C að beiðni barnaverndaryfirvalda í sjö skipti á tímabilinu 15. mars til 24. júní 2013, í þeim tilgangi að meta áhrif ofbeldis sem komið hafi fram að börnin hafi búið við. Vitnið tók fram að hlutverk hennar hafi ekki verið að ná fram lýsingu þeirra af ætluðu ofbeldi en það hafi stundum komið upp í samtölum hennar við börnin. Börnin hafi ekki rætt um fjölda ofbeldistilvika en vitnið kvaðst hafa fengið á tilfinninguna að þetta hafi verið oft en með mismunandi hætti og lítill friður verið á heimilinu. Um hafi verið að ræða andlegt eða líkamlegt ofbeldi eða rifrildi milli foreldra. Komið hafi fram að ósætti hafi verið mikið milli systkina.
Vitnið kvað B hafa verið í mjög miklu ójafnvægi og vanlíðan allan tímann, m.a. sjálfsvígshótanir. Vitnið kvaðst hafa notað viðmiðunarlista gagnvart áfallastreituröskun og þunglyndi og hafi stúlkan uppfyllt öll einkenni sem með þurfi til að fá framangreindar greiningar. Aðspurð kvað vitnið vanlíðan brotaþola hafa tengst uppeldisaðstæðum hennar og því ofbeldi sem hún kvaðst hafa verið beitt af hendi ákærða.
Vitnið kvað D búa við þroskaskerðingu og einhverfu og það hafi tekið nokkurn tíma að ná trúnaðarsambandi við hana vegna tengslavanda. Þegar hún hafi tjáð sig hafi hún verið ótrúlega skýr en mikil hræðsla og vanlíðan hafi verið hjá henni og virst hafa einkennt líf hennar lengi. Stúlkan hafi lokað á tilfinningar sínar ef henni hafi fundist nóg komið, en þá lýst tilfinningum sínum í teikningum. Vanlíðan D megi rekja til mikils ótta við ákærða og þess að honum hafi verið kunnugt um að þau væru búin segja frá ofbeldinu. Hún hafi hræðst að ákærði myndi skaða þau. Vitnið kvað D hafa tilgreint dæmi um að ákærði hafi beitt hana ofbeldi og að hafa orðið vitni að ofbeldi hans gagnvart systkinum sínum og móður.
Vitnið kvað einna erfiðast hafa verið að ná tengslum við C, það hafi ekki hentað honum að sitja í viðtölum. Í byrjun hafi hann glímt við togstreitu, m.a. varðandi tilfinningar gagnvart ákærða. Hann hafi ekki viljað ræða um það sem hann hafi upplifað á heimilinu. En þegar hann var fluttur á [...] hafi hann opnað á umræðu sem beinst hafi að hræðslu hans um að lífi móður hans og systkina væri ógnað eftir að málið var orðið opinbert.
Fram kom hjá vitninu að grunnur að vanlíðan barnanna hafi að hennar mati verið hið ætlaða ofbeldi ákærða og lýsti vitnið þeirri skoðun sinni að ofbeldið hafi verið undirrótin og jafnframt hafi ofbeldið dregið úr möguleikum þeirra til að glíma við t.d. einmanaleika og einelti í skóla. Þá hafi líðan í skóla og einelti í skóla, sem B hafi sérstaklega rætt um, aukið á vanlíðan. Taldi vitnið að í huga barnanna hafi eineltið ekki verið aðalatriðið. Fram kom að börnin hafi talað um þrengsli á heimilinu og fátækt.
Vitnið F, geðhjúkrunarfræðingur, staðfesti vottorð, dagsett 12. nóvember 2014, varðandi brotaþolann B sem vitnið kvað barnavernd Árborgar hafa vísað til sín í greiningu og meðferð. Vitnið kvaðst aðeins hafa hitt stúlkuna í tvígang þar sem hún hafi hafnað meðferð. Hún hafi greint frá líðan sinni og einkennum og svarað spurningalista sem mæli hugrofseinkenni (A-DES), en hugrof sé varnarháttur sem þeir sem verða fyrir endurteknum áföllum þrói oft með sér. Ástæða þess að vitnið lagði listann fyrir stúlkuna hafi verið lýsingar hennar á langvarandi ofbeldi. B hafi verið með talsverð mikil hugrofseinkenni en hún hafi lýst því að eiga það til að detta út og þá ekki munað hvað hún hafi verið að gera stuttu áður. Stúlkan hafi lýst miklum tilfinningalegum óstöðugleika og skorti á reiðistjórnun og niðursveiflum. Einnig hafi hún lýst ofbeldi af hálfu föður frá unga aldri og þá hafi hún rætt um að móðir hennar væri mjög óstöðug og henni þætti erfitt að eiga í samskiptum við hana. Vitnið kvaðst ekki geta fullyrt að B hafi verið með áfallastreituröskun þar sem hún hafi aðeins hitt hana í tvö skipti og stúlkan ekki fyllilega treyst sér, hins vegar hafi viðtöl hennar við stúlkuna bent til þess að svo væri.
Vitnið H, nágranni og vinur fjölskyldunnar að [...], kvaðst enga vitneskju hafa haft um að börnin á [...] hafi verið beitt ofbeldi af neinum toga. Vitnið kvað A hafa rætt við sig um allt mögulegt, en aldrei minnst á ofbeldi á heimilinu. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið var við að B hafi komið illa til fara á heimili hans, en hún hafi oft komið þangað þegar móðir hennar var þar við störf. Kvaðst vitnið ekki minnast þess að stúlkan hafi einhvern tíma komið þangað í uppnámi. Vitninu var sérstaklega greint frá því að A hafi lýst því fyrir dómi að hún hafi leitað til vitnisins til að tala um fyrir ákærða og til að koma C af heimilinu af því ákærði ætlaði að lemja hann. Vitnið kvað drenginn hafa kveikt í gömlum bíl og þegar hann hafi komið á vettvang kvaðst hann hafa farið með drenginn í bíltúr að beiðni A, þ.e. til að koma í veg fyrir að ákærði yrði illur við drenginn og myndi skamma hann. Þá kvaðst vitnið ekki kannast við að A hafi beðið hann um tala um fyrir ákærða. Vitnið kvaðst ekki kannast við að hafa komið á heimilið ásamt I á [...] á þann hátt sem A hafði greint frá í skýrslutöku fyrir dómi og vitninu var kynnt.
Vitnið Ó, fyrrverandi félagsmálastjóri í uppsveitum [...], kvað fjölskylduna hafa þurft stuðning í uppeldismálum og áður en þetta mál barst barnavernd hafi komið upp grunur um ofbeldi gagnvart börnunum. Fram kom hjá vitninu að starfsmaður frá barnaverndarnefnd hafi ekki farið reglulega inn á heimilið en vitnið kvað A og M stuðningsforeldri hafa komið reglulega í viðtöl til vitnisins á skrifstofu hennar þar sem almennt hafi verið rætt um uppeldismál. Í tilefni tilkynningar frá M á árinu 2009 hafi málið verið kannað, rætt við foreldrana á heimilinu og C farið í læknisrannsókn. Ekki hafi verið talin þörf frekari aðgerða og foreldrar ekki sýnt samstarfsvilja.
Vitnið kvaðst hafa metið stöðuna á heimilinu þannig að ekki hafi verið um meðvitað markvisst ofbeldi gagnvart börnunum að ræða heldur meira úrræðaleysi þegar börnin hafi ekki hlýtt og látið reyna á mörk. Þá hafi verið gripið til örþrifaráða og börnin slegin eða gripið í þau. Kvaðst vitnið byggja þessa skoðun sína á löngum kynnum sínum af fjölskyldunni.
Vitnið P, sálfræðingur, kvaðst hafa verið umsjónarmaður stuðningsbrautar [...] á árunum 2002-2006 þegar B og D hafi verið þar í skóla og þá kynnst þeim og A. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vör við að stúlkurnar hafi verið beittar líkamlegu ofbeldi. Hins vegar hafi vitnið haft áhyggjur af aðbúnaði á heimilinu, t.d. hafi skort á þekkingu foreldra varðandi einhverfu. Vitnið tók fram að ákærði hafi aldrei komið í skólann á þessum tíma, samstarf við skóla hafi verið í höndum móður. Á þessum tíma hafi A ekki rætt um að ákærði hafi beitt hana ofbeldi.
Þá kvaðst vitnið, að beiðni félagsmálayfirvalda [...], frá því í maí 2013 fram á haust, alls í átta skipti, sinnt A. Vinnan hafi fyrst og fremst miðað að gera A kleift að ráða við athafnir daglegs lífs og einnig að vinna að því að auka samstarfsvilja A í samskiptum við félagsmálayfirvöld. Brotaþoli hafi stundum verið í miklu ójafnvægi á þessum tíma og reið út í stuðningskerfið. Konan eigi að baki langa áfallasögu allt frá barnæsku en vitnið kvaðst ekki hafa lagt fyrir hana greiningu. A hafi lýst því að ákærði hafi einu sinni haldið sér og einu sinni hrint sér, en hafi ekki virst vera hrædd við ákærða. Þá hafi hún nefnt að ákærði hafi lamið B með ryksugu. Vitnið kvað A ekki hafa rætt um að hún hafi beitt börnin ofbeldi.
Vitnið R, skólastjóri [...], kvað engar grunsemdir hafa verið hjá skólayfirvöldum um að börnin hafi verið beitt einhvers konar ofbeldi. Ýmislegt í þeirra hegðun hafi bent til vanlíðunar og því verið grunur um ýmsa félagslega erfiðleika á heimilinu. T.d. hafi verið erfiðleikar í samskiptum við heimilið og þá hafi börnin brugðist mjög harkalega við smá uppákomum í skólanum. Því hafi málefnum barnanna þrisvar sinnum verið vísað formlega til barnaverndarnefndar en auk þess hafi hún rætt símleiðis við Ó félagsmálastjóra vegna barnanna, líklega að minnsta kosti tvisvar á vetri. Einnig hafi málefni barnanna verið tekin fyrir á nemendaverndarráðsfundum. Vitnið kvað erfiðleika fyrst og fremst hafa tengst C og fyrri hluta skólagöngu B. Hegðun D hafi hins vegar getað skýrst af fötlun hennar.
Vitnið S, læknir, staðfesti að hafa sinnt brotaþolanum A við komu á heilsugæslu 13. október 2013, og að hafa ritað framlagðan samskiptaseðil um það tilvik, þ.e. áverka á handlegg vegna meintrar atlögu ákærða árið 2011, sbr. 5. tölulið ákæruskjals.
Niðurstaða
-
Aðalkrafa ákærða, sem neitar sök, er að ákæru í máli þessu verði vísað frá dómi í heild eða einstökum liðum hennar. Máli sínu til stuðnings vísar ákærði í fyrsta lagi til þess að ákæran uppfylli ekki skilyrði c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Bæði sé óljóst hvenær hinir ætluðu atburðir hafi átt að eiga sér stað og þá sé ætlaðri refsiverðri háttsemi ekki lýst með fullnægjandi hætti í ákæru.
Í 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um efni ákæru. Kemur þar fram að greina skuli í ákæru svo glöggt sem verða má, m.a. hver sú háttsemi er sem ákært er út af og hvar og hvenær brotið er talið framið. Í málum af þessu tagi getur verið örðugt eða ómögulegt að greina sundur og lýsa með nákvæmni fjölda áþekkra tilvika sem hafa gerst margsinnis á margra ára tímabili. Kann ákæruskjal að markast af þessu, án þess þó að leiði til ónýtingar máls. Að þessu virtu er ekki fallist á það með ákærða að 1., 3. og 4. töluliðir ákæru uppfylli ekki þær kröfur um efni ákæru sem gerðar eru í 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Sama á við um 2., 5. og 6. tölulið ákæru.
Í öðru lagi vísar ákærði til þess að rannsókn málsins hafi ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008, með þeim afleiðingum að viðamikil rannsókn hafi farið fram fyrir dómi. Samkvæmt 53. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 er markmið rannsóknar lögreglu að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar fyrir dómi. Við rannsókn máls skal vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Samkvæmt 145. gr. sömu laga skal ákærandi, þegar hann hefur fengið gögn máls í hendur, ganga úr skugga um að rannsókn sé lokið. Að þeirri athugun lokinni ber honum annað hvort að láta rannsaka málið betur, telji hann þess þörf, eða taka eftir atvikum ákvörðun um hvort sækja skuli mann til sakar samkvæmt 152. gr. laganna.
Að mati ákæranda lágu nægar upplýsingar um sakarefnið fyrir þegar tekin var ákvörðun um saksókn á grundvelli 145. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt dómafordæmi Hæstaréttar getur ákvörðun um saksókn ekki sætt endurskoðun dómstóla við úrlausn máls, sbr. dóma réttarins nr. 140/2011 og 578/2011. Þá vísast í þessu sambandi einnig til 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008, en þar segir að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Kröfu ákærða um frávísun ákæru í máli þessu er hafnað.
II.
Töluliðir 1, 2, 3, 4 og 5 að undanskildum tölulið 2, sem tilgreinir eitt tiltekið atvik, eiga það sameiginlegt að ákærða er gefið að sök hegningar- og barnaverndarlagabrot gegn þremur börnum sínum á sameiginlegu heimili þeirra að [...]. Ákærði lýsti heimilinu sem reglusömu. Áfengi hafi þar ekki verið haft um hönd og heimilishald árekstralaust. Þá hafi ekkert komið upp á í sambandi þeirra hjóna þau átján ár sem þau hafi búið saman.
Eiginkona ákærða, brotaþolinn A, lýsti andrúmsloftinu á heimilinu sem mjög þvinguðu og hafi ekkert mátt út af bregða þá hafi ákærði tekið eitthvert barnanna og lamið eða kýlt. Brotaþoli kvaðst hafa verið mjög hrædd við ákærða sem hafi fengið æðisköst og misst stjórn á skapi sínu. Líkti vitnið ástandinu á heimilinu við það að ganga á nálum. Versti tíminn hafi verið í skólafríum barnanna og þegar ákærði hafi langtímum verið atvinnulaus. Ofbeldið gagnvart börnunum hafi yfirleitt byrjað við skólaaldur. Ákærða hafi fundist það réttar uppeldisaðferðir að taka í krakkana eins og hann hafi orðað það. A lýsti því að hafa í tvígang leitað eftir aðstoð nágranna sinna, vitnanna I og H, vegna hegðunar ákærða í garð C. Við þennan framburð A könnuðust framangreind vitni ekki fyrir dómi og kváðust aldrei hafa orðið vör við neitt ofbeldi.
Brotaþolinn B lýsti ofbeldi af hálfu ákærða sem nær daglegum viðburði. Ofbeldið hafi oftast verið að tilefnislausu og hafa staðið yfir svo lengi sem vitnið muni eftir. Ákærði hafi reiðst af tilefnislausu og kennt þeim systkinunum um allt og í engu sinnt þeim. Brotaþolinn D bar á sama veg, ákærði hafi aldrei sinnt þeim. Ekkert hafi mátt segja þá hafi hann orðið vitlaus. Sér hafi liðið illa á heimilinu sem hafi verið einangrað. Þá kallaði brotaþolinn ákærða „monster“. Brotaþolinn C lýsti ítrekuðu ofbeldi af hálfu ákærða gegn þeim systkinum en tók fram að hann vildi gleyma þessum atburðum.
Rannsókn lögreglu í máli þessu hófst, eins og áður greinir, í kjölfar könnunarviðtals sem tekið var af brotaþolanum B í Barnahúsi í lok febrúar 2013. Eftir þann tíma hafa nokkrir sérfræðingar komið að málum barnanna og móður þeirra, m.a. vitnið E félagsráðgjafi, en hjá henni mættu börnin í þrjú viðtöl á tímabilinu 15. mars til 24. júní 2013. Í framburði vitnisins fyrir dómi kom fram að brotaþolinn B hafi verið í miklu ójafnvægi og glímt við mikla vanlíðan, m.a. sjálfsvígshugsanir. Var það mat vitnisins að vanlíðan brotaþolans hafi tengst uppeldisaðstæðum brotaþola og því ofbeldi sem hún lýsti að hafa orðið fyrir af hálfu ákærða. Líðan brotaþolans, D sem býr við andlega fötlun, hafi einkennst af miklum ótta við ákærða sem hún hafi greint frá að hafi beitt hana ofbeldi. Vitnið kvað brotaþolann C, sem ekki hafi viljað ræða um heimilisaðstæður, hafa glímt við togstreitu, m.a. tengda tilfinningum hans til ákærða. Að mati vitnisins hafi ofbeldi sem börnin hafi sætt verið undirrót þeirrar andlegu vanlíðunar sem þau hafi átt við að stríða. Vegna þessa hafi dregið úr möguleikum þeirra til að glíma við einmanaleika og einelti í skóla.
Brotaþolinn B kvaðst hafa sagt æskuvinkonu sinni og nágranna, J, dóttur vitnisins I, frá ofbeldinu þegar þær voru í grunnskóla, en við þennan framburð brotaþolans kannaðist vitnið J ekki fyrir dómi. Vitnin K, vinkona brotaþolans B, og L, sambýlismaður brotaþolans, staðfestu fyrir dómi að brotaþolinn B, hafi um það leyti sem mál þetta kom til kasta lögreglu, sagt þeim frá ofbeldi ákærða í hennar garð. Brotaþolinn D kvaðst fyrir dómi ekki hafa greint frá ofbeldi ákærða en tók fram að allir á [...] hafi vitað um ofbeldið. Tilgreindi vitnið sérstaklega í þessu sambandi vitnið H á [...], en sagði að honum hafi fundist það í lagi. Brotaþolinn C greindi frá því að báðir foreldrar hans hefðu bannað honum að segja stuðningsforeldrinu M frá ofbeldinu.
Fyrir dóm komu vinir og nágrannar fjölskyldunnar, þeir I og H. Var framburður þeirra samhljóða um að þeir hafi ekki orðið varir við að börnin á [...] hafi sætt ofbeldi af hálfu ákærða. P, fyrrverandi starfsmaður stuðningsdeildar [...] á þeim tíma sem brotaþolarnir B og D voru þar í skóla, bar einnig á sama veg. Það gerði og R, skólastjóri [...], en tók fram að hegðun barnanna þriggja hafi bent til vanlíðunar og málefni þeirra því í nokkur skipti verið tilkynnt til barnaverndar. Þá verður ekki annað ráðið af framburði Ó, fyrrverandi félagsmálastjóra, en að á tímabilinu 2004 til 2012 hafi barnaverndaryfirvöldum ekki borist tilkynning um ætlað ofbeldi af hálfu föður í garð barnanna. Hins vegar virðist sem málefni fjölskyldunnar hafi verið til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum í nokkuð langan tíma og fyrir liggur að brotaþolinn D dvaldist í helgarvistun á [...] og brotaþolarnir B og C hjá stuðningsfjölskyldu aðra hvora helgi á árunum 2005-2009. Stuðningsforeldrið, M, kvað börnin aldrei hafa greint frá ofbeldi á heimilinu í þeirra garð, en fyrir liggur að vitnið tilkynnti um ofbeldi móður í garð brotaþolans C á árinu 2009. Þá lýsti vitnið því að brotaþolinn C hafi verið fljótur að bera fyrir sig hendurnar. Samkvæmt gögnum málsins og framburði N, rannsóknarlögreglumanns hjá lögreglunni á Suðurlandi, liggur fyrir að lögreglu höfðu ekki borist tilkynningar um ætlað heimilisofbeldi að [...] áður en mál þetta kom upp. Framlögð vottorð lækna voru ekki staðfest fyrir dómi, en eins og rakið er í málavaxtalýsingu var þar í engu vikið að áverkum tengdum ofbeldi.
III.
Brotaþolinn A gaf tvisvar skýrslu hjá lögreglu, nánar tiltekið þann 5. mars og 26. júní 2013. Verulegt ósamræmi var í framburði hennar varðandi ætlað ofbeldi ákærða milli fyrri yfirheyrslu vitnisins hjá lögreglu, þar sem brotaþoli gerði frekar lítið úr háttsemi ákærða, og fyrir dómi. Fyrir dómi kvað brotaþoli framangreint ósamræmi hafa stafað af því að hún hafi verið niðurbrotin og logandi hrædd við ákærða í fyrri skýrslutöku hjá lögreglu. Þá hafi hún á þessum tíma talið sig samseka. Þegar höfð eru í huga atvik þessa máls, aðstæður brotaþola í fyrri yfirheyrslunni, en heimilið hafði þá nýlega verið leyst upp og brotaþoli dvaldi í Kvennaathvarfinu en yngri börnin tvö voru vistuð á vegum félagamálayfirvalda, er það mat dómsins að eðlilegar skýringar hafi komið fram á misræmi milli fyrri og seinni skýrslutöku brotaþola hjá lögreglu, og að framburður brotaþolans A fyrir dómi um alla ákæruliði sé í öllum meginatriðum í samræmi við síðari framburð hennar hjá lögreglu.
Nokkurs ósamræmis gætti í framburði brotaþolans B hjá lögreglu og fyrir dómi. Brotaþoli skýrði misræmi hvað einstök atvik varðar fyrir dómi með vísan til þess að hún hafi verið mjög reið og mikið gengið á í höfði hennar þegar hún gaf skýrslu hjá lögreglu, stuttu eftir að hún greindi frá hinu ætlaða ofbeldi ákærða í hennar garð. Að virtum atvikum þessa máls, löngum tíma og fjölda atvika sem ákæra tekur til, ungum aldri brotaþolans þegar hluti hinna ætluðu atvika á að hafa átt sér stað, er það mat dómsins með hliðsjón af framburði vitnisins E félagsráðgjafa um slæmt andlegt ástand brotaþola stuttu eftir að brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu, að eðlilegar skýringar hafi komið fram á misræmi milli framburðar brotaþolans B hjá lögreglu og fyrir dómi.
Brotaþolinn D gaf skýrslu fyrir dómi meðan málið var á rannsóknarstigi, þ.e. í Barnahúsi þann 5. mars 2013. Þá kom brotaþoli fyrir dóm við aðalmeðferð málsins. Þrátt fyrir andlega fötlun brotaþolans var framburður hennar í báðum yfirheyrslum skýr og greinargóður þó svo það hafi ekki leynt sér að síðari yfirheyrslan reyndist brotaþola mjög erfið. Að virtum atvikum þessa máls, löngum tíma og fjölda atvika sem ákæra tekur til, ungum aldri brotaþolans þegar hluti hinna ætluðu atvika á að hafa átt sér stað, er það mat dómsins að í öllum meginatriðum hafi verið samræmi í framburð brotaþolans D í skýrslutökunum tveimur.
Brotaþolinn C gaf skýrslu fyrir dómi meðan málið var á rannsóknarstigi, þ.e. í Barnahúsi þann 5. mars 2013. Þá kom brotaþolinn aftur fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og svaraði spurningum um ætlaða refsiverða háttsemi ákærða í garð annarra brotaþola. Framburður brotaþola var skýr og greinargóður svo langt sem hann náði en brotaþoli, sem er ungur að árum, virtist eiga nokkuð erfitt með að einbeita sér meðan á skýrslutökunni stóð og voru lýsingar hans á einstökum atvikum nokkuð knappar. Þá tók brotaþoli fram í síðari yfirheyrslunni að hann vildi gleyma þessu máli. Þrátt fyrir framangreinda annmarka og að virtum atvikum þessa máls, löngum tíma og fjölda atvika sem ákæra tekur til, ungum aldri brotaþolans þegar hluti hinna ætluðu atvika á að hafa átt sér stað, er það mat dómsins að í öllum meginatriðum hafi verið samræmi í framburði brotaþolans C í skýrslutökunum tveimur.
IV.
1. töluliður ákæru
Ákærða er gefið að sök ólögmæt nauðung, líkamsárásir, stórfelldar ærumeiðingar og barnaverndarlagabrot á átta ára tímabili gagnvart dóttur sinni, brotaþolanum B, þegar stúlkan var á aldrinum [...] ára. Í fyrsta lagi með því að hafa í nokkur skipti með ofbeldi hent brotaþola út af heimili sínu illa búinni til fótanna. Brotaþolinn B lýsti því fyrir dómi að ákærði hafi, þegar brotaþoli hafi verið á aldrinum [...] ára, þrisvar til fjórum sinnum hent henni út af heimilinu. Brotaþoli lýsti einu slíku atviki þegar hún hafi líklega verið [...] eða [...] ára, þ.e. árið 2009 eða 2010. Þá hafi brotaþoli að mati ákærða skorið of þykka ostsneið, ákærði hafi brjálast, ráðist á hana og skipað henni að fara út sem hún hafi gert. Ákærði hafi komið á eftir henni og hent í hana grjóti. Kvaðst brotaþoli þá hafa farið á vinnustað móður sinnar og þar hitt fyrir, m.a. vitnið H, vinnuveitanda móður brotaþola, en ekki greint H frá því sem gerst hafi. Þeir sem þarna hafi verið staddir hafi orðið mjög hissa þegar hún kom þangað á náttfötunum og berfætt. Vitnið H kannaðist ekki við framangreindan framburð brotaþolans B fyrir dómi.
Vitnið A, móðir brotaþola, lýsti fyrir dómi að brotaþolinn B hafi í lok árs 2012 komið á vinnustað vitnisins grátandi á sokkaleistunum með möl í hárinu eftir að ákærði hafði rekið brotaþola út af heimilinu. Sagði vitnið framangreindan atburð hafa verið undanfara atvika sem lýst er í 6. tölulið ákæru. Þá hafi ákærði, í kjölfar rifrildis milli hans og brotaþolans B, um hávetur hent brotaþolanum B, þá [...] ára, út á nærfötunum einum klæða.
Í öðru lagi er ákærða gefið að sök að hafa á umræddu tímabili ítrekað slegið og sparkað í líkama brotaþola, þar á meðal í bak og maga. Fyrir dómi kvaðst brotaþolinn B ekki muna eftir öðru en nær daglegu ofbeldi af hálfu ákærða. Nánar aðspurð kvað brotaþoli ofbeldið hafa verið þrisvar til fjórum sinnum í viku. Ákærði hafi reiðst að tilefnislausu og kennt brotaþola og systkinum hennar um allt sem aflaga fór. Fyrsta minning um ofbeldi af hálfu ákærða kvað brotaþoli vera frá því hún var [...] ára gömul þegar ákærði hafi slegið hana í höfuð og bak með ryksuguröri. Þá hafi hún í eitt skiptið fengið högg frá ákærða þegar hún hafi verið að verja C bróður sinn. Fram kom hjá brotaþola að ákærði hafi lamið og sparkað í hana. Hún muni hins vegar ekki nákvæmlega eftir því hvenær hver atlaga hafi átt sér stað, í minningunni renni skiptin saman.
Vitnið A greindi frá því fyrir dómi að ofbeldi ákærða gegn brotaþolanum B hafi byrjað þegar stúlkan var [...] ára gömul og staðið allt þar til vitnið flutti að heiman í byrjun árs 2013. Um hafi verið að ræða fimm eða sex skipti og hafi ákærði slegið brotaþola utan undir, lamið hana og kýlt og hafi högg lent á líkama hennar og höfði og hún fengið mar og handaför.
Vitnin D og C, báru bæði um ofbeldi ákærða gegn brotaþolanum B. Vitnið C kvaðst hafa „séð svolítið“ þegar ákærði hafi barið brotaþola með ryksuguröri. Greindi vitnið frá því að brotaþolinn B hafi mest verið lamin. Þá hafi ákærði hótað að drepa B en móðir þeirra komið í veg fyrir það, en B þá hótað ákærða með hníf. Vitnið D kvaðst hafa séð ákærða lemja brotaþolann B með ryksuguröri. Þá hafi ákærði einnig kastað steinum í brotaþolann B. Í eitt skipti hafi ákærði ætlað að lemja vitnið og brotaþolann B en móðir þeirra náð að stöðva það.
Brotaþolinn B lýsti fyrir dómi að hafa búið við stöðugt ofbeldi af hálfu ákærða á þeim árum sem ákæruliðurinn tekur til. Framburður brotaþola er studdur af framburði móður hennar, vitnisins A, og fær einnig stoð í framburði systkina hennar, vitnanna D og C. Í III. kafla hér að framan hefur verið fjallað sérstaklega um framburð brotaþolans B hjá lögreglu og fyrir dómi. Dómurinn metur framburð brotaþolans B trúverðugan í öllum meginatriðum. Lýsti brotaþoli með skýrum hætti hvernig andrúmsloft hafi ríkt á heimilinu og hvernig ákærði hafi rokið upp og gripið til ofbeldis af minnsta tilefni gagnvart henni. Eðli málsins samkvæmt átti brotaþoli erfitt með að greina frá því hvenær nákvæmlega einstakir atburðir hafi átt sér stað sem og hvar í húsinu atburðarás hafi byrjað og endað. Eins og rakið er í kafla II. hér að framan fær framburður brotaþolans B ekki stoð í framburði nágranna eða annarra þeirra sem starfa sinna vegna sinntu henni eða höfðu afskipti af heimili hennar með einum eða öðrum hætti á umræddu tímabili. Það þykir þó ekki draga úr trúverðugleika brotaþolans B enda er til þess að líta að ákærði, sem brotaþoli bjó hjá, er faðir hennar. Þekkt er að við slíkar aðstæður eru börn mjög treg til að segja frá því sem miður fer á heimili þeirra og þau telja að þurfi að fara leynt. Þá er til þess að líta að brotaþolinn B greindi vitnunum K og Lfrá ofbeldi ákærða í hennar garð eftir að mál þetta kom upp.
Ákærði, sem eins og áður segir neitar sök, tjáði sig ekki um þennan lið ákæru eins og rakið er í II. kafla hér að framan. Að mati dómsins voru lýsingar ákærða á heimilislífinu að [...] ekki trúverðugar og vísast í því sambandi til framburðar starfsmanna [...], vitnisins R skólastjóra, sem lýsti því að hegðun barnanna hafi bent til erfiðleika á heimilinu og að erfiðleikar hafi verið í samskiptum heimilis og skóla, og vitnisins P, sem um tíma starfaði sem umsjónarmaður stuðningsbrautar skólans, og kvaðst hafa haft áhyggjur af aðbúnaði barnanna á heimilinu. Þá verður ekki annað ráðið af framburði vitnisins Ó, fyrrverandi félagsmálastjóra, en að talsvert hafi skort upp á að börnin hafi búið við fullnægjandi uppeldisaðstæður. Að mati dómsins voru skýringar ákærða á framburði brotaþola á rannsóknarstigi ótrúverðugar, en ákærði kvað skýringuna kunna að vera þá að brotaþolar hafi með framburði sínum ætlað að fá frá honum peninga.
Brotaþolinn B og vitnið A lýstu því báðar fyrir dómi að brotaþolinn B hafi komið illa búin til fótanna í lok árs 2012 á vinnustað vitnisins A, þar sem vitnið H hafi meðal annarra verið staddur. Vitnið H kvaðst fyrir dómi hvorki kannast við að brotaþolinn B hafi komið á heimili hans illa búin til fótanna né í uppnámi. Við mat á framburði vitnisins H er til litið, eins og rakið er í II. lið hér að framan, að vitnið kannaðist ekki við þann framburður vitnisins A að hún hafi í tvígang leitað til vitnisins og vitnisins I í þeim tilgangi að bjarga brotaþolanum C frá barsmíðum ákærða. Brotaþolinn D greindi frá því fyrir dómi að allir á [...] hafi vitað um ofbeldið. Þá nafngreindi brotaþolinn áðurnefndan H sérstaklega og sagði að vitnið H hafi vitað af ofbeldinu en fundist það vera í lagi. Að framansögðu virtu er það mat dómsins að framburður vitnisins H, sem kvaðst vera góður vinur ákærða og fjölskyldunnar, um ástand brotaþolans B í umrætt sinni sé ekki trúverðugur. Gegn neitun ákærða þykir því, með vísan til framburðar brotaþolans B, sem fær stoð í framburði vitnisins A, framkomin lögfull sönnun þess að ákærði hafi í lok árs 2012 hent brotaþolanum B illa búinni til fótanna út af heimilinu. Þá þykir einnig, gegn neitun ákærða, með vísan til framburðar brotaþolans B, sem fær stoð í framburði vitnisins A, framkomin lögfull sönnun þess að ákærði hafi á árinu 2008, þegar brotaþolinn B var [...] ára, hent brotaþolanum B út á nærfötunum einum klæða. Með framangreindri háttsemi braut ákærði gegn 225. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Gegn neitun ákærða, þykir með vísan til framburðar brotaþolans B og vitnanna A, D og C, framkomin lögfull sönnun þess að ákærði hafi á umræddu tímabili ítrekað slegið og sparkað í líkama brotaþolans B, eins og nánar greinir í ákæru, og með því brotið gegn 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá þykir ákærði einnig hafa, með háttsemi þeirri sem hann hefur verið sakfelldur fyrir, brotið gegn barnaverndarlögum nr. 80/2002, og eru brot hans að þessu leyti rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Með vísan til framburðar vitnanna E og F þykir sannað að framangreind háttsemi ákærða hafi skaðað brotaþolann B andlega.
Ákærða er einnig gefið að sök stórfelldar ærumeiðingar gagnvart brotaþolanum B. Samkvæmt 233. gr. b. almennra hegningarlaga skal sá sæta fangelsi allt að tveimur árum sem móðgar eða smánar maka sinn eða fyrrverandi maka, barn sitt eða annan mann sem er nákominn geranda, og verknaður verður talinn fela í sér stórfelldar ærumeiðingar. Ákvæðið kom inn í almenn hegningarlög með lögum nr. 27/2006 sem tóku gildi 3. apríl 2006, en með lögunum var 191. gr. sömu laga felld úr gildi. Í athugasemdum sem fylgdu með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 27/2006 segir um framangreint ákvæði 233. gr. b., að móðgun í merkingu þessa ákvæðis geti átt sér stað í orðum eða athöfnum. Markmið ákvæðisins sé einkum að sporna við því að höfð séu í frammi ummæli eða athafnir á milli nákominna sem taldar verða á grundvelli almenns og hlutlægs mælikvarða fela í sér stórfelldar ærumeiðingar, sem og ýmsar athugasemdir eða athafnir geranda sem beinast m.a. að útliti, persónulegum eiginleika eða hátterni brotaþola.
Eins og 1. töluliður ákæru er úr garði gerður telur dómurinn að ekki hafi verið nægilega afmarkað hvernig ákærði hafi almennt móðgað og smánað brotaþola á umræddu tímabili. Ekki verður heldur ráðið hvort í ákæru sé verið að vísa til ummæla eða athafna af hálfu ákærða. Þá er hvorki vísað til þess hvort um hafi verið að ræða endurtekna háttsemi né hvers eðlis háttsemin hafi verið. Ákærði verður því ekki sakfelldur fyrir brot gegn 233. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Fallist er á það með ákæruvaldinu að meta skuli háttsemi þá sem ákærða er gefið að sök í 1. tölulið ákæru sem framhaldandi atlögu eða fleiri en eina atlögu að sömu persónu, sbr. dóm Hæstaréttar frá 11. febrúar 2010 í málinu nr. 504/2009. Rannsókn máls þessa hófst í kjölfar kæru barnaverndarnefndar uppsveita Árnessýslu til lögreglu í lok febrúar 2013. Síðasta rannsóknargagn lögreglu er dagsett 28. ágúst sama ár. Upplýst var undir rekstri málsins að rannsóknargögn voru send ríkissaksóknara þann 12. nóvember 2013 og ákæra útgefin 17. desember 2014. Með því að háttsemi ákærða, sem hann hefur verið fundinn sekur um samkvæmt 1. tölulið ákæru varðar bæði við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 98. gr. og 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, leiðir af 4. mgr. 81. gr. laga nr. 19/1940, að miða ber fyrningarfrest brotanna við ákvæði barnaverndarlaga sem geymir þyngri refsimörk, þ.e. allt að [...] ára fangelsi. Voru því brot ákærða samkvæmt 1. tölulið ákæru ekki fyrnd þegar ákæra var gefin út 17. desember 2014.
2. töluliður ákæru
Ákærða er gefið að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás, stórfelldar ærumeiðingar og barnaverndarlagabrot gagnvart brotaþolanum B, þegar hún var [...] ára, með því að hafa slegið stúlkuna þrisvar í líkama og höfuð með ryksuguröri sem hafi verið um hálft kíló að þyngd. Fyrir dómi greindi brotaþoli frá því að ákærði hafi, í kjölfar þess að hann hafi reiðst brotaþola, í tvígang slegið hana með ryksuguröri, fyrst þegar hún hafi verið [...] ára og aftur ári fyrir fermingu brotaþola. Aðdraganda síðara atviksins lýsti brotaþoli þannig að ákærði hafi rifið sig niður úr koju, hent í gólfið og lamið sig með ryksuguröri úr járni. Hún hafi reynt að skríða undir rúm en ákærði náð í fót hennar og þá lamið hana föstum höggum með rörinu í maga, höfuð og bak. Ákærði hafi haldið um rörið með báðum höndum og beitt rörinu eins og hafnaboltakylfu. Hún hafi sparkað og reynt að berjast á móti. Meðan á þessu stóð hafi D systir hennar verið upp í koju og séð atburðinn. Þá hafi móðir þeirra reynt að komast inn í herbergið. Hún hafi ekki verið sjónarvottur en vitað um atvikið. Kvaðst brotaþoli hafa marist á fæti, maga og baki, fengið kúlur á höfuðið og lengi verið með höfuðverk á eftir og einnig sjóntruflanir.
Vitnið A lýsti atvikum þannig fyrir dómi að þegar brotaþolinn B hafi verið [...] ára hafi ákærði slegið brotaþola einu sinn í höfuðið með ryksuguröri úr járni. Vitnið kvaðst hafa heyrt mikinn grát og læti og þegar hún hafi komið inn í herbergi brotaþola hafi ákærði verið að lemja stúlkuna, sem hafi reynt að verja sig. Vitnið gat ekki upplýst hvort séð hafi á stúlkunni þar sem hárið hafi verið fyrir. Tók vitnið fram að hún hafði náð að stöðva ákærða og henda rörinu út um gluggann. Vitnið D lýsti því fyrir dómi að hafa séð ákærða lemja brotaþola með ryksugu eins og vitnið orðaði það, en þau náð að stöðvað það. Vitnið C kvaðst hafa séð ákærða slá brotaþolann B, líklega þegar hún hafi verið [...] ára, með ryksuguröri, líklega í bakið.
Þrátt fyrir framburð brotaþolans B um að vitnið A hafi ekki verið sjónarvottur að umræddu atviki þykir mega byggja á framburði vitnisins A um að hún hafi komið inn í herbergið og séð hluta atburðarásarinnar áður en vitnið hafi náð að stöðva ákærða. Fær framburður vitnisins að hluta til stoð í framburði vitnisins D sem tók fram að tekist hafi að stöðva atburðarásina. Með vísan til framburðar brotaþolans B og vitnisins A verður lagt til grundvallar að umrætt ryksugurör hafi verið úr járni og áþekkt því sem í ákæru greinir. Þykir óljós og ótrúverðugur framburður ákærða um ryksugueign heimilisins á þessum tíma þar engu um breyta. Í umfjöllum um 1. tölulið ákæru hefur verið fjallað um trúverðugleika framburðar ákærða og brotaþolans B og vísast til þess sem þar er rakið.
Sú aðferð ákærða að slá brotaþola, sem þá var barn að aldri, með ryksuguröri, þ.á m. í höfuð, var sérstaklega hættuleg. Þá má einnig leggja til grundvallar, samkvæmt framburði brotaþolans B um það hvernig ákærði hafi borið sig að, að ásetningur ákærða hafi verið einbeittur. Að öllu framansögðu virtu þykir, gegn neitun ákærða, framkomin lögfull sönnun þess að ákærði hafi á umræddum tíma slegið brotaþolann B með ryksuguröri eins og nánar greinir í 2. tölulið ákæru. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum ákærulið og varðar brot ákærða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 98. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Með sömu rökum og tilgreind eru í lið IV. í umfjöllun um 1. tölulið ákæru, verður ákærði ekki sakfelldur fyrir brot gegn 233. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
3. töluliður ákæru
Ákærða er gefið að sök líkamsárásir, stórfelldar ærumeiðingar og barnaverndarlagabrot á átta ára tímabili gagnvart dóttur sinni, brotaþolanum D, þegar stúlkan var á aldrinum [...] ára. Í fyrsta lagi með því að hafa ítrekað veist með ofbeldi að brotaþola og m.a. slegið hana, sparkað og kýlt í líkama hennar þar á meðal í maga og rass. Brotaþolinn D, sem býr við andlega fötlun, lýsti bráðu skaplyndi ákærða sem hafi misst stjórn á skapi sínu og í kjölfarið slegið þau systkinin. Sagði brotaþoli ofbeldi ákærða gegn henni hafi byrjað þegar hún hafi verið í leikskóla, en kvaðst ekki muna eftir einstökum atvikum. Þó lýsti hún atviki í kjölfar þess að hún hafi hellt niður. Við það hafi ákærði orðið vitlaus og lamið hana í magann þannig að hún hafi næstum tapað andanum og liðið illa á eftir, eins og brotaþoli orðaði það. Brotaþoli kvað ákærða nokkrum sinnum hafa sparkað í rass hennar og lamið hana með ryksugu þegar hún var yngri. Lýsti brotaþoli atviki þegar hún var [...] eða [...] ára gömul, en þá hafi ákærði, í kjölfar þess að brotaþoli hafi ælt á gólfið, lamið hana. Þá hafi ákærði einu sinni lamið sig með úlpu af því hún hafi misst kettling út úr húsinu.
Vitnið A, móðir brotaþola, kvað ofbeldi ákærða gagnvart brotaþola hafi verið ítrekað, líklega í fjögur eða fimm skipti á umræddum tíma. Vitnið lýsti atvikum þann 27. ágúst 2011, sbr. 5. tölulið ákæru, en þá hafi ákærði misst stjórn á sér og kýlt brotaþolann D í magann með krepptum hnefa. Þá kvaðst vitnið hafa séð ákærða lemja brotaþola eftir að stúlkan hitti fólk í sumarbústað í grennd við heimilið. Fyrir dómi kvað vitnið B ákærða hafa beitt brotaþola ofbeldi alla vega í tíu skipti, m.a. kýlt hana í bakið og hrint henni. Lýsti vitnið atviki sem átt hafi sér stað inn í stofu en þá hafi brotaþolinn D svarað ákærða fullum hálsi, ákærði brjálast, rokið upp úr sófanum og kýlt brotaþolann D í bakið. Vitnið C kvað ákærða hafa kýlt brotaþolann D „voða mikið“ í magann, fætur og bak.
Í öðru lagi er ákærða gefið að sök að hafa ítrekað sagt við brotaþolann D að hann ætlað að setja hana á sambýli. Brotaþolinn D greindi frá því fyrir dómi að ákærði hafi viljað setja hana á sambýli eins og amma hennar hefði dvalið á. Mátti skilja brotaþola þannig að hún tengdi dvöl ömmu sinnar á sambýli við ýmislegt slæmt sem hent hefði ömmu hennar. Brotaþoli bar að ákærði hafi, frá því hún var [...] ára, hótað að setja hana á Sólheima í Grímsnesi sem væri eins og fangelsi. Þessu kvaðst brotaþoli hafa trúað og og liðið illa. Vitnið A kvað ákærða hafa ítrekað sagt að setja ætti brotaþolann D á Sólheima í Grímsnesi, sem væri hræðilegur staður. Slík ummæli hafi ákærði látið falla vikulega frá árinu 2011 allt þar til hún og börnin fóru af heimilinu í upphafi árs 2013. Hafi þetta ekki haft góð áhrif á brotaþola sem hafi orðið slæm á taugum. Vitnið B kvaðst hafa heyrt ákærða segja vikulega við brotaþolann D að hún væri heimsk og aumingi og ætti að enda á sambýli. Vitnið C var ekki sérstaklega spurður um ætluð ummæli ákærða í garð brotaþolans D.
Brotaþolinn D lýsti fyrir dómi að hafa búið við ofbeldi af hálfu ákærða frá því hún var í leikskóla. Framburður brotaþolans er studdur af framburði móður hennar, vitnisins A, og fær einnig stoð í framburði systkina hennar, vitnanna B og C. Í III. kafla hér að framan hefur verið fjallað sérstaklega um framburð brotaþolans D, annars vegar í skýrslutöku fyrir dómi í Barnahúsi og hins vegar við aðalmeðferð málsins. Eins og brotaþolarnir A og B lýsti brotaþolinn D bráðu skaplyndi ákærða og því hvernig hann hafi af minnsta tilefni rokið upp og gripið til ofbeldis gegn brotaþolanum D. Brotaþolinn D kvaðst ekki muna eftir einstökum atvikum en lýsti þó með skýrum hætti nokkrum tilvikum. Brotaþolinn D býr við andlega fötlun. Þrátt fyrir það er framburður hennar trúverðugur að mati dómsins, enda var framburður brotaþolans skýr í öllum meginatriðum svo langt sem hann náði. Eins og rakið er í kafla II. hér að framan fær framburður brotaþolans D ekki stoð í framburði nágranna eða annarra þeirra sem starfa sinna vegna sinntu henni eða höfðu afskipti af heimili hennar með einum eða öðrum hætti á umræddu tímabili. Í þessu sambandi vísast einnig til umfjöllunar um 1. tölulið ákæru þar sem sérstaklega var fjallað um trúverðugleika framburðar nágranna fjölskyldunnar, vitnisins H. Það þykir því ekki draga úr trúverðugleika brotaþolans D enda er til þess að líta að ákærði, sem brotaþoli bjó hjá, er faðir hennar. Eins og í tilviki brotaþolans B er þekkt að við slíkar aðstæður eru börn mjög treg til að segja frá því sem miður fer á heimili þeirra og þau telja að þurfi að fara leynt, auk þess sem brotaþolinn D skýrði frá því fyrir dómi að foreldrar hennar hefðu ekki viljað að hún segði frá aðstæðum á heimilinu. Þá er til þess að líta að brotaþolinn D greindi vitninu M frá ofbeldi ákærða í hennar garð þegar brotaþoli dvaldi á heimili vitnisins fyrst eftir að mál þetta kom upp. Um trúverðugleika framburðar ákærða vísast til umfjöllunar um 1. tölulið ákæru.
Þó svo fallast megi á það með ákærða að umræður á heimili um að barn, sem býr við fötlun, fari á sambýli feli eitt út af fyrir sig ekki í sér stórfelldar ærumeiðingar, er til þess að líta að samkvæmt framburði brotaþolans D og vitnanna A og B var ekki um það að ræða að ákærði hafi rætt við brotaþola um vistun eða dvöl utan heimilis af umhyggju fyrir brotaþolanum. Þvert á móti þykja umrædd ummæli ákærða í garð brotaþolans D hafa verið til þess fallin að móðga og smána brotaþolann í orðum. Með vísan til framburðar brotaþolans D og áðurnefndra vitna var um að ræða ítrekuð ummæli sem beindust að persónulegum eiginleikum brotaþolans D.
Gegn neitun ákærða, þykir með vísan til framburðar brotaþolans D og vitnanna A, B og C, framkomin lögfull sönnun þess að ákærði hafi á umræddu tímabili ítrekað slegið, sparkað og kýlt brotaþolann D, eins og nánar greinir í ákæru, og með því brotið gegn 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá þykir einnig framkomin lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um stórfelldar ærumeiðingar gegn brotaþolanum D með ítrekuðum ummælum um að hann ætlaði að setja hana á sambýli. Með framangreindri háttsemi sem ákærði hefur verið fundinn sekur um braut hann einnig gegn 98. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Með vísan til þess sem rakið er í niðurlagi umfjöllunar um 1. tölulið ákæru, voru brot ákærða samkvæmt 3. tölulið ákæru ekki fyrnd þegar ákæra var gefin út 17. desember 2014.
4. töluliður ákæru
Ákærða er gefið að sök líkamsárásir, stórfelldar ærumeiðingar og barnaverndarlagabrot á fimm ára tímabili gagnvart syni sínum, brotaþolanum C, þegar drengurinn var á aldrinum [...] ára. Í fyrsta lagi með því að hafa ítrekað veist með ofbeldi að brotaþola og m.a. slegið hann og kýlt í líkama, þ.á m. í bak, axlir og maga. Brotaþolinn C greindi frá því fyrir dómi að ákærði hafi tekið æðisköst og barið þau, en þó mest sig. Taldi brotaþoli að ofbeldi í hans garð hafi byrjað þegar brotaþoli var [...] ára og hafi ákærði næstum því daglega lamið hann út af engu. Tilgreindi brotaþoli að ákærði hafi, þegar brotaþoli var [...] ára, kýlt sig í bakið. Þá lýsti brotaþolinn C höggum og kýlingum frá ákærða sem lent hafi í maga, á fótum, á baki og höndum brotaþolans. Brotaþoli, sem átti erfitt með að lýsa einstökum tilvikum, skýrði frá því að hann vildi gleyma þessu.
Vitnið A greindi frá því fyrir dómi að ákærði hafi lamið brotaþola í nokkur skipti vegna þess að drengurinn hafi hellt niður. Ákærði hafi misst sig, eins og vitnið orðaði það, þegar brotaþoli hafi átt í erfiðleikum með að lesa, og bæði slegið brotaþola með flötum lófa og kýlt hann. Vitnið kvað brotaþola hafa í kjölfar ofbeldisins skemmt og tekið ýmsa hluti, t.d. flugvélamódel, og hafi slík háttsemi brotaþolans C þá aftur kallað á ofbeldi ákærða í hans garð. Þetta hafi átt sér stað þegar brotaþoli hafi verið [...] ára og kvaðst vitnið hafa séð þrjú slík tilvik. Þá vísast til framburðar vitnisins A í II. kafla hér að framan um samskipti hennar við vitnin H og I. Fyrir dómi lýsti vitnið B þremur atlögum ákærða gegn brotaþola. Í fyrsta lagi hafi ákærði kýlt brotaþola í öxlina vegna þess að hann hafi átt erfitt með að lesa. Í öðru lagi hafi ákærði kýlt brotaþola í öxl og maga eftir að brotaþoli hafi fiktað í eða skemmt hluti. Þá lýsti vitnið því að ákærði hafi haft í hótunum við brotaþola sem hafi flúið undan honum inn í herbergi en ákærði þá sparkað og barið í hurðina. Taldi vitnið að ákærði hafi veist að brotaþola í tuttugu skipti en kvaðst ekki geta lýst atvikum frekar en að framan greinir. Vitnið D kvaðst hafa séð ákærða lemja brotaþola þegar hann hafi ekki nennt að læra. Þá hafi C verið [...] til [...] ára. Þá hafi brotaþoli orðið hræddur þegar ákærði hafi brjálast og lamið í borðið. Nánar gat vitnið ekki lýst atvikum. Eins og rakið er í kafla II hér að framan könnuðust vitnin I og H ekki við þann framburð vitnisins að vitnið A hafi leitað til þeirra til að forða brotaþolanum C frá ákærða. Hins vegar kannaðist vitnið H við að hafa farið með brotaþolann C í bíltúr eftir að drengurinn hafi kveikt í bifreið, til að koma í veg fyrir að ákærði yrði illur við brotaþolann C og myndi skamma hann, eins og vitnið orðaði það.
Brotaþolinn C kvað ákærða hafa beitt sig ofbeldi nær daglega frá [...] ára aldri. Framburður brotaþolans er studdur af framburði móður hans, vitnisins A, og fær einnig stoð í framburði systra hans, vitnanna B og D. Vitnin A, B og D bera allar á sama veg að ofbeldi ákærða gegn brotaþolanum C hafi tengst erfiðleikum brotaþolans við nám. Þá bera vitnin A og B báðar um ofbeldi ákærða gegn brotaþolanum C í kjölfar þess að brotaþoli hafi skemmt hluti.
Í III. kafla hér að framan hefur verið fjallað sérstaklega um framburð brotaþolans C, annars vegar í skýrslutöku fyrir dómi í Barnahúsi og hins vegar við aðalmeðferð málsins. Eins og brotaþolarnir A, B og D lýsti brotaþolinn C bráðu skaplyndi ákærða og að ekki hafi mikið þurft til að hann reiddist og gripi til ofbeldis gegn brotaþolanum C. Brotaþolinn C átti erfitt með að greina frá einstökum atvikum og mátti ráða að í síðari yfirheyrslunni vildi brotaþolinn gleyma og loka á umrædda atburði. Þrátt fyrir erfiðleika brotaþolans við að greina frá einstökum atvikum og erfiðleika sem brotaþoli átti við að einbeita sér meðan á yfirheyrslum stóð, metur dómurinn framburð brotaþolans C trúverðugan enda var hann skýr í öllum meginatriðum svo langt sem hann náði. Eins og rakið er í kafla II. hér að framan fær framburður brotaþolans C ekki stoð í framburði nágranna eða annarra þeirra sem starfa sinna vegna sinntu honum eða höfðu afskipti af heimili hans með einum eða öðrum hætti á umræddu tímabili. Í umfjöllun um 1. tölulið ákæru var fjallað um trúverðugleika vitnisins H. Með vísan til þess sem þar var rakið er það ekki trúverðugt að mati dómsins að vitnið og nágranni fjölskyldunnar, vitnið H, hafi ekki orðið var við ofbeldið. Þá þykir framburður vitnisins um tildrög og ástæðu þess að hann hafi farið með brotaþolann C í bíltúr að beiðni vitnisins A benda til þess að hann hafi þekkt skaplyndi ákærða og það hvernig hann hafi brugðist við gagnvart börnum sínum þegar honum mislíkaði. Þá verður við mat á trúverðugleika brotaþolans C að líta til þess að ákærði, sem brotaþoli bjó hjá, er faðir hans. Eins og í tilviki brotaþolanna B og D er þekkt að við slíkar aðstæður eru börn mjög treg til að segja frá því sem miður fer á heimili þeirra og þau telja að þurfi að fara leynt. Þá er til þess að líta að brotaþolinn C greindi vitninu M frá ofbeldi sem hann hafi búið við af hálfu ákærða þegar brotaþoli dvaldi á heimili vitnisins fyrst eftir að mál þetta kom upp. Um trúverðugleika framburðar ákærða vísast til umfjöllunar um 1. tölulið ákæru.
Gegn neitun ákærða, þykir með vísan til framburðar brotaþolans C og vitnanna A, B og D, framkomin lögfull sönnun þess að ákærði hafi á umræddu tímabili ítrekað slegið og kýlt brotaþolann C, eins og nánar greinir í ákæru, og með því brotið gegn 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með sömu rökum og tilgreind eru í lið IV. í umfjöllun um 1. tölulið ákæru, verður ákærði ekki sakfelldur fyrir brot gegn 233. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með framangreindri háttsemi sem ákærði hefur verið fundinn sekur um braut hann einnig gegn 98. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Með vísan til þess sem rakið er í niðurlagi umfjöllunar um 1. tölulið ákæru, voru brot ákærða samkvæmt 4. tölulið ákæru ekki fyrnd þegar ákæra var gefin út 17. desember 2014.
5. töluliður ákæru
Ákærða er gefið að sök líkamsárás, stórfelldar ærumeiðingar og barnaverndarlagabrot gagnvart brotaþolunum D, B og A með því að hafa, þann 27. ágúst 2011, gert sig líklegan til að beita brotaþolana D og B líkamlegu ofbeldi en brotaþolinn A þá gengið á milli börnum sínum til varnar og ákærði þá látið höggin dynja á líkama brotaþolans A, m.a. kýlt hana í vinstri handlegg, með þeim afleiðingum að hún hlaut þar mar. Brotaþolinn A lýsti atvikum þannig fyrir dómi að ákærði hafi verið að rífast við vitnið D um Sólheima í Grímsnesi og ákærði þá misst stjórn á sér og kýlt vitnið D í magann með krepptum hnefa. Brotaþolinn A kvaðst hafa hlaupið til og náð að ganga á milli og vitnið D þá skriðið undir rúm en ákærði togað í hana. Þá kvaðst brotaþoli hafa öskrað á ákærða sem hafi í kjölfarið ítrekað kýlt brotaþola í vinstri upphandlegg með þeim afleiðingum að hún hafi fengið stóran marblett og lengi verið slæm í hendinni eftir þetta. Sérstaklega aðspurð kvað brotaþoli hin börnin hafa verið inni í eldhúsi og stofu en þau hafi án efa orðið vör við þetta. Brotaþoli kvaðst ekki hafa þorað að leita læknis, þau hafi öll verið hrædd við ákærða. Fram kom hjá brotaþolanum A að ástæða þess að hún myndi nákvæma dagsetningu væri sú að hún hafi átt að byrja í vinnu um þetta leyti en ekki getað það vegna afleiðinga atlögunnar.
Vitnið D lýsti því fyrir dómi að móðir hennar, brotaþolinn A, hafi fengið marblett á handlegginn eftir högg frá ákærða þegar brotaþolinn A hafi gengið á milli þegar ákærði hafi ætlað að lemja þau. Í síðari yfirheyrslu fyrir dómi kvaðst vitnið D muna eftir því að ákærði hafi ætlað að lemja vitnið og systur hennar, vitnið B, og móðir þeirra, brotaþolinn A, þá gengið á milli. Í umrætt skipti kvaðst vitnið hafa verið að rífast við ákærða um Sólheima, ákærði brjálast og brotaþoli þá skriðið undir rúm. Þá hafi brotaþolinn A komið til að verja vitnið. Ákærði hafi ráðist á brotaþolann A inni í eldhúsi og kýlt hana í vinstri upphandlegg þannig að hún hafi fengið stóran marblett sem brotaþoli kvaðst hafa séð. Vitnið B lýsti atvikum fyrir dómi með svipuðum hætti og vitnið D. Ákærði hafi ráðist á vitnið og vitnið D inni í herbergi. Þær hafi hlaupið til móður sinnar, brotaþolans A, sem hafi verið inni í eldhúsi og hún gengið á milli. Við það hafi móðir hennar fengið högg á vinstri handlegg með þeim afleiðingum að hún hafi orðið blá og marin. Vitninu var kynntur framburður brotaþolans A, sem rakinn er hér að framan, en vitnið B ítrekaði framburð sinn um að brotaþolinn A hafi verið inni í eldhúsi þegar ákærði hafi kýlt brotaþolann. Er framburður vitnisins að þessu leyti í samræmi við framburð vitnisins D.
Í III. kafla hér að framan hefur verið fjallað sérstaklega um framburð brotaþolans A hjá lögreglu og fyrir dómi og vísast til þess sem þar segir. Fyrir dómi lýsti brotaþoli með skýrum hætti hvernig andrúmsloft hafi ríkt á heimilinu og hvernig ákærði hafi rokið upp og gripið til ofbeldis af minnsta tilefni. Lýsingar brotaþola fyrir dómi á þeim tveimur atlögum sem ákærða eru gefnar að sök gagnvart brotaþolanum, sbr. og 6. tölulið ákæru, voru skýrar og greinargóðar. Eins og rakið er í kafla II. hér að framan fær framburður brotaþolans A ekki stoð í framburði nágranna hennar. Það þykir þó ekki draga úr trúverðugleika brotaþolans A enda þekkt að ofbeldi af hendi maka inni á heimili fari leynt. Þá er til þess að líta að brotaþolinn A greindi P frá ofbeldi ákærða í hennar garð eftir að mál þetta kom upp. Um trúverðugleika framburðar ákærða vísast til umfjöllunar um 1. tölulið ákæru.
Gegn neitun ákærða þykir með vísan til framburðar brotaþolans A og vitnanna B og D framkomin lögfull sönnun þess að ákærði hafi, þegar brotaþolinn A hafi gengið á milli til varnar dætrunum B og D, kýlt brotaþolann A í vinstri handlegg með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir. Með framangreindri háttsemi þykir ákærði einnig hafa misboðið dætrum sínum, þeim B og D, með því að beita móður þeirra ofbeldi að stúlkunum ásjáandi og þannig einnig brotið gegn 98. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Eðli málsins samkvæmt verður ákærði hins vegar ekki sakfelldur fyrir barnaverndarlagabrot gagnvart brotaþolanum A. Með sömu rökum og tilgreind eru í lið IV., í umfjöllun um 1. tölulið ákæru, verður ákærði ekki sakfelldur fyrir brot gegn 233. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
6. töluliður ákæru
Ákærða er gefið að sök líkamsárás og stórfelldar ærumeiðingar gagnvart eiginkonu sinni, brotaþolanum A, með því að hafa í lok árs 2012 hrint konunni í eldhúsinu svo hún féll aftur fyrir sig á borðkant. Brotaþolinn A greindi frá því fyrir dómi að umrætt atvik hafi átt sér stað í kjölfar þess að dóttir hennar, B, hafi komið á vinnustað brotaþola á sokkaleistunum eftir að ákærði hafi hent stúlkunni út af heimilinu. Þegar heim kom hafi brotaþoli sagt ákærða að þetta gengi ekki og ákærði þá „skutlað“ brotaþola á eldhúsborðið, staðið yfir henni og ætlað að lemja hana í höfuðið þegar B hafi komið aftan að ákærða með stóran hníf og hótað að beita honum færi ákærði ekki út, sem hann hafi svo gert. Brotaþoli kvaðst ekki hafa þorað að leita læknis þar sem ákærði hafi á þessum tíma haft í hótunum við þau og vitnið óttast að hann myndi gera börnunum eitthvað ef hún segði frá.
Vitnið B lýsti atvikum þannig fyrir dómi að einhvern tíma að sumri til, fyrir atvik það sem lýst er í 5. tölulið ákæru, hafi ákærði og móðir hennar verið að rífast inni í eldhúsi og vitnið komið þar að. Ákærði hafi hrint brotaþola sem hafi fallið aftur fyrir sig en þó ekki lent á neinu. Þegar ákærði hafi ætlað að kýla móður hennar hafi vitnið gengið á milli með hníf í hendi. Vitnið lýsti þessu til viðbótar tveimur atlögum ákærða gegn brotaþolanum A, annars vegar inni á baðherbergi og hins vegar inni í eldhúsi, en þá hafi ákærði hrint brotaþolanum A í kjölfar rifrildis á eldhúsborðið og brotaþoli við það marist neðarlega á mjöðm. Vitnið P bar fyrir dómi að brotaþoli hafi, eftir að mál þetta kom upp, greint vitninu frá því að ákærði hafi í tvö aðskilin skipti haldið og hrint brotaþola. Um trúverðugleika framburðar brotaþolans A og ákærða vísast til fyrri umfjöllunar.
Gegn neitun ákærða þykir með vísan til samhljóða framburðar brotaþolans A og vitnisins B, sem fær að nokkru leyti stoð í framburði vitnisins P, framkomin lögfull sönnun þess að ákærði hafi gert sekur um þá háttsemi sem lýst er í 6. tölulið ákæru. Þrátt fyrir að ónákvæmni gæti í lýsingum vitnisins B annars vegar um það hvort brotaþolinn A hafi í greint sinn fallið aftur fyrir sig á borðkant og hins vegar hvað tímasetningar varðar, þykir það ekki rýra framburð vitnisins að þessu leyti, enda til þess að líta að brotaþoli greindi fyrir dómi frá þremur aðskildum atlögum ákærða gegn brotaþolanum A og kann það að skýra framangreint misræmi. Með framangreindri háttsemi braut ákærði gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með sömu rökum og tilgreind eru í lið IV., í umfjöllun um 1. tölulið ákæru, verður ákærði ekki sakfelldur fyrir brot gegn 233. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
V.
Ákærði hefur verið fundinn sekur um brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga í fimm tilvikum, í einu tilviki gegn 2. mgr. 218. gr. sömu laga, í tveimur tilvikum gegn 225. gr. sömu laga og í einu tilviki gegn 233. gr. b. sömu laga. Þá hefur ákærði verið fundinn sekur um brot gegn 98. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 í fimm tilvikum og í einu tilviki gegn 1. mgr. 99. gr. sömu laga. Ákærði hefur ekki áður sætt refsingum. Í máli þessu hefur ákærði verið sakfelldur fyrir margvísleg og langvarandi hegningar- og barnaverndarlagabrot gegn börnum sínum, sem honum var treyst fyrir og voru brotin framin á um átta ára tímabili inni á sameiginlegu heimili þeirra þar sem börnin áttu að eiga tryggt skjól og búa við vernd. Af framburði sérfræðinga sem hafa haft með börnin að gera eftir að mál þetta kom upp má ljóst vera að háttsemi ákærða hefur haft alvarlegar afleiðingar á andlega heilsu barnanna. Um var að ræða ung og varnarlaus börn sem gögn málsins bera með sér að glímdu öll við vanlíðan á umræddum tíma, áttu erfitt uppdráttar í skóla, auk þess sem brotaþolinn D bjó við andlega fötlun. Þá hefur ákærði einnig verið fundinn sekur um ofbeldi gagnvart eiginkonu sinni, sem bjó við líkamlega fötlun, inni á sameiginlegu heimili þeirra og í viðurvist barnanna B og D. Ákærði á sér engar málsbætur. Við ákvörðun refsingar verður því litið til 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt þessu og með vísan til 77. gr. áðurnefndra laga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 15 mánaða fangelsi og eru engin skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna.
VI.
Miskabótakröfur brotaþola, sem byggjast á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eru raktar í ákæru og voru reifaðar við munnlegan málflutning. Í kafla II. hér að framan er gerð grein fyrir lýsingum brotaþola og vitna á aðstæðum og líðan brotaþola í máli þessu á þeim tíma sem ákæra tekur til og vísast til þess sem þar kemur fram í eftirfarandi umfjöllun um miskabótakröfur brotaþola.
Brotaþolinn A: Vitnið P sálfræðingur, sem brotaþolinn A sótti viðtöl til frá maí 2013 fram á haust það ár, kvað brotaþola, sem eigi að baki langa áfallasögu, hafa verið í miklu ójafnvægi á umræddum tíma. Á sama veg bar vitnið G, starfsmaður félagsþjónustu [...], sem hefur haft með heimili brotaþola að gera frá árslokum 2013. Með vísan til þess að ákærði hefur verið sakfelldur fyrir líkamsárásir gegn brotaþolanum A ber honum að greiða brotaþola miskabætur sem þykja hæfilega ákveðnar 500.000 krónur. Vextir samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, verða dæmdir frá 27. ágúst 2011 til 12. ágúst 2013, en þá var mánuður liðinn frá því bótakrafan var birt ákærða, en dráttarvextir frá þeim degi til greiðsludags.
Brotaþolinn B: Vitnið E félagsráðgjafi, lýsti alvarlegri vanlíðan brotaþolans og miklu ójafnvægi á vordögum 2013. Þá hafi brotaþoli uppfyllt öll einkenni áfallastreituröskunar og þunglyndis. Vitnið F, geðhjúkrunarfræðingur, lýsti því fyrir dómi að próf sem vitnið lagði fyrir brotaþola, hafi sýnt að brotaþoli hafi verið með talsverð mikil hugrofseinkenni á fyrri hluta ársins 2014, en hugrof sagði vitnið vera varnarhátt sem þróist oft hjá þeim sem verða fyrir endurteknum áföllum.
Með vísan til þess að ákærði hefur verið sakfelldur fyrir líkamsárásir, þ.m.t. einu sinni fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, og barnaverndarlagabrot gegn brotaþolanum B ber ákærða að greiða brotaþola miskabætur sem þykja hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur. Krafist er vaxta frá tjónsdegi samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001. Áskilnaður um upphafsdag vaxta uppfyllir ekki skilyrði c-liðar 2. mgr. 173. gr. laga nr. 88/2008. Verða vextir því dæmdir frá 12. júlí 2013, en þá var bótakrafan birt ákærða, og dráttarvextir frá 12. ágúst 2013 til greiðsludags, en þá var mánuður liðinn frá birtingu bótakröfunnar.
Brotaþolinn D: Vitnið E félagsráðgjafi, lýsti því að mikil hræðsla og vanlíðan hafi verið hjá brotaþolanum D og virst hafa einkennt líf hennar lengi. Einnig hafi brotaþoli óttast ákærða í kjölfar þess að búið var að segja frá ofbeldinu. Með vísan til þess að ákærði hefur verið sakfelldur fyrir líkamsárásir, stórfelldar ærumeiðingar og barnaverndarlagabrot gegn brotaþolanum D ber ákærða að greiða brotaþola miskabætur sem þykja hæfilega ákveðnar 800.000 krónur. Krafist er vaxta frá tjónsdegi samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001. Áskilnaður um upphafsdag vaxta uppfyllir ekki skilyrði c-liðar 2. mgr. 173. gr. laga nr. 88/2008. Verða vextir því dæmdir frá 12. júlí 2013, en þá var bótakrafan birt ákærða, og dráttarvextir frá 12. ágúst 2013 til greiðsludags, en þá var mánuður liðinn frá birtingu bótakröfunnar.
Brotaþolinn C: Vitnið E félagsráðgjafi, kvað brotaþolann C hafa glímt við togstreitu gagnvart tilfinningum sínum í garð ákærða og ekki viljað ræða atvik. Eftir að brotaþoli fluttist á [...] hafi hann greint frá því að hann væri hræddur um líf móður sinnar og systra vegna þess að málið gegn ákærða hafi verið gert opinbert. Með vísan til þess að ákærði hefur verið sakfelldur fyrir líkamsárásir, og barnaverndarlagabrot gegn brotaþolanum C ber ákærða að greiða brotaþola miskabætur sem þykja hæfilega ákveðnar 800.000 krónur. Krafist er vaxta frá tjónsdegi samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001. Áskilnaður um upphafsdag vaxta uppfyllir ekki skilyrði c-liðar 2. mgr. 173. gr. laga nr. 88/2008. Verða vextir því dæmdir frá 12. júlí 2013, en þá var bótakrafan birt ákærða, og dráttarvextir frá 12. ágúst 2013 til greiðsludags, en þá var mánuður liðinn frá birtingu bótakröfunnar.
Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þar með talinn útlagðan sakarkostnað samkvæmt yfirliti saksóknara, 188.250 krónur vegna vinnu verjanda á rannsóknarstigi. Ákærði greiði einnig þóknun skipaðs verjanda síns, Óskars Sigurðssonar hrl., 1.874.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 13.920 krónur í ferðakostnað. Þá skal ákærði einnig greiða þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþolans A, Jónínu Guðmundsdóttur, hdl., 915.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, sbr. 48. gr., 216. gr. og 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008, vegna starfa hennar á rannsóknarstigi málsins og við að halda fram kröfunni fyrir dómi, og 25.288 krónur í ferðakostnað. Loks ber ákærða einnig að greiða þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþolanna B, D og C, Torfa Ragnars Sigurðssonar, hrl., 1.445.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, sbr. 48. gr., 216. gr. og 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008, vegna starfa hans á rannsóknarstigi málsins og við að halda fram kröfum fyrir dómi, og 41.760 krónur í ferðakostnað.
Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnum Hirti O. Aðalsteinssyni dómstjóra og Sigurði G. Gíslasyni héraðsdómara.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 15 mánuði.
Ákærði greiði brotaþolanum A 500.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. ágúst 2011 til 12. ágúst 2013, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði brotaþolanum B 1.000.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 12. júlí 2013 til 12. ágúst 2013, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði brotaþolanum D 800.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 12. júlí 2013 til 12. ágúst 2013, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði brotaþolanum C 800.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 12. júlí 2013 til 12. ágúst 2013, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, samtals 4.503.218 krónur, þar með talin þóknun skipaðs verjanda ákærða, Óskars Sigurssonar hrl., 1.874.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 13.920 krónur í ferðakostnað, sem og þóknun skipaðra réttargæslumanna brotaþola, Jónínu Guðmundsdóttur, hdl., 915.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 25.288 krónur í ferðakostnað, og Torfa Ragnars Sigurðssonar, hrl., 1.445.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 41.760 krónur í ferðakostnað.