Hæstiréttur íslands
Mál nr. 497/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
|
|
Fimmtudaginn 4. október 2007. |
|
Nr. 497/2007. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum(Júlíus Magnússon fulltrúi) gegn X (Bjarni Eiríksson hdl.) |
Kærumál. Nálgunarbann.
Með dómi Hæstaréttar var X gert að sæta nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a laga nr. 19/1991 í þrjá mánuði frá uppsögu dómsins, þannig að lagt var bann við því að hann kæmi á heimili Y, eða á lóð húss hennar, veitti henni eftirför, heimsækti hana eða setti sig í samband við hana, með til dæmis símhringingum eða sms- eða tölvuskilaboðum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. september 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. september 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði, þannig að lagt var bann við því að hann komi á heimili Y, [...], eða á lóð húss hennar, veiti henni eftirför, heimsæki hana eða setji sig í samband við hana, til dæmis með símhringingum, sms- eða tölvuskilaboðum. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður nálgunarbann staðfest, en hæfilegt þykir að það gildi í þrjá mánuði frá uppsögu dóms þessa.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að nálgunarbann skal gilda í þrjá mánuði frá uppsögu dóms þessa.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. september 2007.
Í máli þessu, sem tekið var til úrskurðar fyrr í dag, krefst lögreglustjórinn á Suðurnesjum þess, að varnaraðila, X, [...], Garðabæ, verði gert að sæta nálgunarbanni gagnvart Y, kt. [...], í ekki skemmri tíma en sex mánuði, þannig að X verði bannað að koma á framangreint heimili Y eða á lóð húss hennar, veita henni eftirför, heimsækja hana eða setja sig í samband við hana t.d. með símhringingum eða sms- eða tölvuskilaboðum.
Af hálfu varnaraðila er þess krafist að synjað verði um framgang kröfunnar. Hann telur hana tilhæfulausa og þá muni nálgunarbann hindra hann í að njóta umgengnisréttar við tvö börn sín sem búi á heimili kæranda.
I.
Í greinargerð sóknaraðila er vísað til tveggja kæra Y á hendur kærða, annars vegar kæra frá 18. júlí sl. vegna hótana og hins vegar kæra frá 3. ágúst sl. vegna húsbrots, líkamsárásar og hótana. Þann 18. september sl. var gefin út ákæra á hendur kærða fyrir framangreind ætluð brot hans. Vísar sóknaraðili kröfu sinni til stuðnings til ákvæða XIII. kafla A laga nr. 19/1991, sbr. lög nr. 94/2000 og til ákæru og framlagðra rannsóknargagna.
Samkvæmt gögnum málsins voru kærði og Y í hjúskap en skildu í júlí á síðastsa ári. Þau eiga tvö ung börn og deila um umgengnisrétt við þau. Í kæru hennar frá 18. júlí sl. lýsir kærandi því að kærði hafi sent sér nokkur sms-skeyti þann dag með svívirðingum um hana og í einu þeirra hafi hann hótað henni því að hún fengi að finna fyrir því þannig að hún gleymdi því aldrei ef hún væri með eitthvert kjaftæði. Kærandi tekur hótanirnar alvarlega og vísar kærandi til þess að kærði sé ofbeldisfullur með víni en hann hafi slegið hana hnefahöggi í andlitið rétt áður en þau skildu síðasta sumar.
Í greinargerð lögreglu frá 22. ágúst sl. kemur fram að Y hafi þann 3. ágúst sl. lagt fram kæru á hendur kærða fyrir að hafa ruðst inn á heimili hennar og lagt á hana hendur deginum áður. Læknir hafi skoðað kæranda sama kvöld og segi í læknisvottorði að kærandi hafi verið aum víða um líkamann, bólga og mar hefði verið undir auga, kúla aftan á höfði og marblettir á fótleggjum.
Kröfunni til stuðnings vísar sóknaraðili til framlagðra gagna og 110. gr. a, laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000.
II.
Í ljósi framangreindrar atvikalýsingar, gagna málsins og röksemda sóknaraðila telur dómari skilyrðum 110. gr. a, laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, fullnægt fyrir því að verða megi við kröfu sóknaraðila. Er það mat dómsins að hvorki sé líklegt né sennilegt að varnaraðili láti af hegðun sinni ef ekkert verður að gert. Verði að telja að kærandi hafi verulega hagsmuni af því að fá frið fyrir varnaraðila, enda hafi hún raunhæfa ástæðu til að óttast að varnaraðili láti verða af hótunum í hennar garð. Sé rökstudd ástæða til að ætla að varnaraðili muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði kæranda. Ekki verður á því byggt í máli um nálgunarbann að bannið muni hugsanlega raska umgengnisrétti barna við þann aðila sem banninu á að sæta. Ekki þykir ástæða til að marka nálgunarbanninu skemmri tíma en sex mánuði eða takmarka það frekar en krafist er. Með vísan til framangreinds ber því að fallast á kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðili, X, kt. [...], Garðabæ, skal sæta nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a laga nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, í 6 mánuði, þannig að lagt er bann við því að hann komi á heimili Y, kt. [...], eða á lóð húss hennar, veiti henni eftirför, heimsækji hana eða setji sig í samband við hana, t.d. með símhringingum eða sms- eða tölvuskilaboðum.