Hæstiréttur íslands
Mál nr. 378/2001
Lykilorð
- Samkeppni
- Aðild
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 21. mars 2002. |
|
Nr. 378/2001. |
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála(Brynjar Níelsson hrl.) gegn Hönnun hf. (Garðar Valdimarsson hrl.) |
Samkeppni. Aðild. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun máls frá héraðsdómi.
H hf. kærði ákvörðun S til Á, sem vísaði málinu frá. Stefndi H hf. þá Á og krafðist þess að frávísunarúrskurðurinn yrði felldur úr gildi og lagt fyrir Á að taka kæruna til efnislegrar meðferðar. Talið var að þar sem S var gagnaðili H hf. að málinu, væri þörf á aðild S að dómsmáli um gildi þessa úrskurðar. Á, sem gegnir hlutverki úrskurðarnefndar á málskotstigi innan stjórnsýslunnar, hafði enga þá lögvörðu hagsmuni af úrlausn málsins sem leitt gætu til aðildar Á að því. Vegna þessa annmarka á málsókn H hf. var málinu vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. október 2001. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins lagði stefndi fram kvörtun 30. nóvember 1999 til Samkeppnisstofnunar vegna notkunar nafngreinds manns á léninu honnun.com í atvinnurekstri sínum. Krafðist stefndi þess að notkunin yrði bönnuð og einnig að lagt yrði bann við tilteknum hætti á ritun firma gagnaðilans. Með ákvörðun samkeppnisráðs 15. desember 2000 var kröfum stefnda hafnað og ekki talin ástæða til íhlutunar þess á grundvelli samkeppnislaga nr. 8/1993. Stefndi kærði ákvörðun samkeppnisráðs til áfrýjanda 15. janúar 2001. Með úrskurði 22. febrúar sama árs vísaði áfrýjandi málinu frá á þeim grundvelli að kæran hafi borist eftir lok kærufrests samkvæmt 1. mgr. 9. gr. samkeppnislaga, sbr. 2. gr. laga nr. 24/1994. Höfðaði stefndi þá mál þetta 5. mars 2001 og krafðist þess að úrskurður áfrýjanda yrði felldur úr gildi og lagt fyrir hann að taka kæru stefnda til efnislegrar meðferðar. Tók áfrýjandi til varna í málinu og krafðist sýknu. Með héraðsdómi var úrskurður áfrýjanda felldur úr gildi, þar sem talið var að kæra stefnda hafi komið nægilega snemma fram.
II.
Stefndi kærði fyrrgreinda ákvörðun samkeppnisráðs til áfrýjanda með heimild í 1. mgr. 9. gr. samkeppnislaga með áorðnum breytingum. Áfrýjandi felldi úrskurð á þá kæru 22. febrúar 2001. Það gerði hann sem stjórnvald, sem fengið er með lögum vald til að leysa úr ágreiningsefni af þessum toga milli tveggja málsaðila. Var samkeppnisráð gagnaðili stefnda að því máli. Er því þörf á aðild samkeppnisráðs og stefnda að máli um gildi þessa úrskurðar. Áfrýjandi, sem gegnir hlutverki úrskurðarnefndar á málskotstigi innan stjórnsýslunnar, hefur hins vegar enga þá lögvörðu hagsmuni af úrlausn málsins, sem leitt gætu til aðildar hans að því, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í dómasafni 1997, bls. 643. Vegna þessa annmarka á málsókn stefnda verður að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2001.
I
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 17. maí sl., er höfðað með stefnu sem árituð er um birtingu 5. mars sl.
Stefnandi er Hönnun hf., kt. 430572-0169, Síðumúla 1, Reykjavík.
Stefndi er áfrýjunarnefnd samkeppnismála, kt. 540794-2439, Arnarhvoli, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður stefnda frá 22. febrúar 2001 í málinu nr. 5/2001 og að lagt verði fyrir stefnda að taka kæru stefnanda frá 15. janúar 2001 til efnislegrar meðferðar. Þá er krafist málskostnaðar.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu og málskostnaðar.
II
Málavextir eru þeir að í nóvember 1999 kærði stefnandi til Samkeppnisstofnunar notkun manns nokkurs á tilteknu léni í atvinnurekstri sínum. Krafðist hann þess að notkunin yrði bönnuð og einnig yrði lagt bann við ritun tiltekins firma. Á fundi samkeppnisráðs 15. desember 2000 var erindi stefnanda afgreitt með ákvörðun þar sem kröfum hans var hafnað. Taldi samkeppnisráð ekki vera ástæðu til íhlutunar í málinu.
Ákvörðun samkeppnisráðs var boðsend lögmanni stefnanda 18. desember 2000 og tók ritari á lögmannsstofunni við henni sama dag. Stefnandi vildi ekki una þessari ákvörðun og með bréfi 15. janúar sl. kærði hann ákvörðunina til stefnda.
Með úrskurði stefnda 22. febrúar sl. var kæru stefnanda vísað frá og byggði stefndi þá ákvörðun sína á því að kæran hefði borist of seint.
Í máli þessu er ágreiningur aðila um það hvort kæra stefnanda til stefnda á úrskurði samkeppnisráðs hafi borist of seint eða ekki.
III
Stefnandi byggir kröfu sína á því að úrskurður stefnda fái ekki staðist þar sem kæra stefnanda hafi réttilega komið fram innan kærufrests samkvæmt 1. mgr. 9. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993. Bendir stefnandi enn fremur á, þessu til stuðnings, ummæli í nefndaráliti um ákvæði það, er síðar varð að núgildandi 9. gr. samkeppnislaganna. Stefnandi telur að ráða megi af þessum ummælum að ætlunin hafi verið að skýra ákvæði 9. gr. samkeppnislaga til samræmis við almennar reglur stjórnsýsluréttarins. Þá leggur stefnandi áherslu á að með lagaákvæðinu hafi hugtakið kærufrestur verið tekið upp í samkeppnislög til samræmis við viðurkennda hugtakanotkun í stjórnsýslurétti.
Stefndi byggir á því að í 1. mgr. 9. gr. samkeppnislaga sé tekið svo til orða að kæra þurfi að hafa “borist innan 4 vikna frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina.” Í samkeppnislögum sé hins vegar ekki að finna sérstaka reglu um það hvenær kæra teljist hafa borist stefnda. Stefnandi telur því að miða verði við stjórnsýslulög nr. 37/1993 og þau gildi þar sem samkeppnislögum sleppi að þessu leyti.
Stefnandi bendir á að í 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga sé að finna sérstaka reglu um það hvenær kæra teljist nógu snemma fram komin. Samkvæmt reglunni teljist kæra komin fram nógu snemma ef bréf, sem hana hafi að geyma, sé komið til æðra stjórnvalds eða afhent pósti áður en fresturinn er liðinn. Stefnandi telur að í samræmi við almennar venjur í stjórnsýslurétti verði að beita reglunni við úrlausn þess hvort kæra stefnanda hafi verið nægilega snemma fram borin. Af þessu leiði að taka verði mið af póststimplun bréfsins sem sent var stefnda en hann sé 15. janúar 2001.
Samkvæmt framansögðu telur stefnandi túlkun stefnda á 1. mgr. 9. gr. samkeppnislaga bersýnilega ranga. Bendir hann á að í greininni sé ekki mælt fyrir um það hvenær kæra hafi borist stefnda. Verði því að leggja til grundvallar 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga þar sem samkeppnislögum sleppi. Af hálfu stefnanda er lögð áhersla á að 1. mgr. 9. gr. samkeppnislaga sé undantekningarregla, sem mæli fyrir um sérstakan og styttri kærufrest en samkvæmt almennum reglum. Af þessu leiði að ekki beri að beita íþyngjandi skýringu við greinina svo sem stefndi hafi lagt til grundvallar í úrskurði sínum. Sjónarmið um réttaröryggi leiði einnig til þess að túlka verði ákvæði svo að það leggi ekki meiri byrði á stefnanda en beinlínis leiði af orðalagi þess. Af hálfu stefnanda er bent á að sú ályktun verði dregin af 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga að sérákvæði laga, sem mæli fyrir um málsmeðferð sem veiti aðila minna réttaröryggi en stjórnsýslulögin, þoki fyrir hinum almennu ákvæðum þeirra. Þótt viðurkennt sé að löggjafanum sé heimilt að kveða á um styttri kærufrest en 3 mánuði fengi ekki staðist að setja sérreglur þar sem það sé undir ytri atvikum komið hvort kæra teljist nægilega snemma fram komin. Það bendi heldur ekkert til þess að vakað hafi fyrir löggjafanum að veita aðilum minna réttaröryggi en stjórnsýslulögin geri að þessu leyti. Af framangreindu leiði að túlkun sem geri ráð fyrir því að það sé undir ytri atvikum komið hvort kæra berist innan kærufrests víki fyrir 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.
Þá leggur stefnandi sérstaka áherslu á að stefndi hafi ekki opna skrifstofu þar sem unnt sé að afhenda kærur. Með bréfi Samkeppnisstofnunar 18. desember 2000, þegar lögmanni stefnanda var sendur úrskurður hennar, var honum sérstaklega bent á að senda kæruna í tiltekið pósthólf í Reykjavík. Stefnanda hafi því verið ómögulegt að koma kæru til stefnda með öðrum hætti en í pósti. Ef túlkun stefnda væri lögð til grundvallar væri það því alfarið undir ytri atvikum komið hvort kæra teldist hafa borist stefnda innan kærufrestsins. Þar sem stefndi sé ekki með opna skrifstofu þýði þessi túlkun hans að kærufrestur sé í reynd mun skemmri en 4 vikur þar sem kærum verði ekki komið til hans með öðrum hætti en með pósti. Þá bendir stefnandi einnig á þá sönnunarörðugleika sem niðurstaða stefnda leiði til. Kærendum sé ómögulegt að staðreyna hvort og hvenær kæra berist stefnda “á þann stað þar sem nefndin getur vitjað hennar með eðlilegum hætti” eins og segi í úrskurði stefnda. Í honum sé fullyrt að kæra stefnanda hafi borist í pósthólf stefnda 16. janúar sl. Stefnandi kveðst ekki vera í aðstöðu til að draga þá fullyrðingu í efa, enda verði þá við það að miða að pósthólf stefnda hafi verið tæmt í lok næsta dags á undan. Af framangreindu telur stefnandi ljóst að þessi sérstaka túlkun stefnda leiði ti verulegrar skerðingar á réttaröryggi kærenda í samkeppnismálum. Engu máli skipti hvenær kæra sé send þannig að búseta manna eða seinagangur í póstþjónustu geti ráðið úrslitum um hvort kæra teljist nógu snemma fram komin. Það geti ekki hafa vakað fyrir löggjafanum að hafa þennan hátt á.
Stefnandi kveður lögmanni sínum hafa borist ákvörðun samkeppnisráðs 18. desember 2000 og hafi fresturinn því byrjað að líða daginn eftir, sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga. Er það þetta sem miðað sé við í niðurstöðu úrskurðar stefnda. Ákvörðunin var kærð með bréfi 15. janúar 2001 sem póstlagt var sama dag og sé það einnig staðfest í úrskurði stefnda. Leggja verði til grundvallar að það sé dagurinn sem miða beri við að kæran hafi komið fram, sbr. 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Þegar þetta sé virt megi ljóst vera að kæra stefnanda hafi borist innan 4 vikna frests, sbr. 1. mgr. 9. gr. samkeppnislaga eins og skýra verði hana í ljósi stjórnsýslulaga.
IV
Af hálfu stefnda er á því byggt að skrifleg kæra stefnanda hafi ekki borist honum innan kærufrests. Í skýru orðalagi 1. mgr. 9. gr. samkeppnislaga segi að skrifleg kæra skuli berast innan 4 vikna frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Af hálfu stefnda er því haldið fram að ákvæðið gefi enga heimild til frávika frá þeirri reglu. Stefnanda hafi verið tilkynnt um ákvörðunina 18. desember sl. og samkvæmt því hafi kæra þurft að berast stefnda fyrir lok 15. janúar 2001. Kæran hafi ekki borist í pósthólf stefnda fyrr en 16. janúar 2001 og haldi stefnandi öðru fram þá beri hann sönnunarbyrðina fyrir því.
Stefndi byggir á því að ákvæði 1. mgr. 9. gr. samkeppnislaga hafi sjálfstætt gildi gagnvart stjórnsýslulögum að þessu leyti, enda sérákvæði um kærufrest í málum sem þessum. Í þessu ákvæði segi skýrt að kæra skuli berast innan tilgreinds frests. Af hálfu stefnda er því haldið fram að skýra verði ákvæðið eftir orðanna hljóðan og kæran teljist því fyrst hafa borist, þegar hún hafi verið komin á þann stað sem mögulegt var að vitja hennar. Stefndi bendir á að þetta ákvæði hafi komið inn í samkeppnislög með lögum nr. 24/1994. Eðlilegt hafi þótt að stytta kærufrest í málum þessum vegna þess að talið hafi verið nauðsynlegt út frá hagsmunum viðskiptalífsins að þau yrðu leidd til lykta á sem skemmstum tíma. Því segi í ákvæðinu að kæran skuli berast stefnda innan tiltekins frests en ekki sé notað orðalag 27. gr. stjórnsýslulaga um að kæran skuli borin fram innan frestsins. Skilgreining 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga á því hvenær kæra teljist komin fram eigi því ekki við í þessu máli.
Af hálfu stefnda er mótmælt þeirri fullyrðingu stefnanda að kærendum sé almennt ómögulegt að staðreyna hvort og hvenær kæra berist í pósthólf stefnda. Stefnandi hafi getað tryggt að kæran bærist í pósthólfið samdægurs með því að fara með bréfið í viðkomandi pósthús. Öll bréf, sem stíluð séu á pósthólf, séu borin í þau jafnharðan og þau berist viðkomandi pósthúsi. Stefnandi hafi hins vegar mátt vita að verulegar líkur væru á því að bréf, sem póstlagt væri í Kópavogi, kæmist ekki til viðtakanda fyrr en daginn eftir.
V
Það er ágreiningslaust að ákvörðun samkeppnisráðs, sem tekin var 15. desember sl., barst lögmanni stefnanda 18. sama mánaðar. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 skal skrifleg kæra berast stefnda innan fjögurra vikna frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Kæra stefnanda hefði því orðið að berast stefnda fyrir lok 15. janúar sl. til að fullnægt væri kröfu framangreinds ákvæðis en, eins og að framan var rakið, telur stefndi kæruna hafa komið of seint fram. Það er enn fremur ágreiningslaust að kæra stefnanda var póstlögð í Kópavogi 15. janúar og að hún var borin í pósthólf stefnda daginn eftir, 16. janúar.
Dómurinn fellst á það með stefnda að orðalag 1. mgr. 9. gr. samkeppnislaga eigi ekki að skýra öðruvísi en eftir orðanna hljóðan og samkvæmt því verður kæra að hafa komist til stefnda innan fjögurra vikna, þ.e.a.s. kæran verður að vera komin á þann stað, er stefndi getur gengið að henni. Hér er hins vegar á það að líta að stefndi hefur ekki opna starfsstöð. Þá hefur heldur ekki verið sýnt fram á að hann hafi bréfsíma eða netfang. Þetta styðst reyndar við bréf Samkeppnisstofnunar 18. desember sl. til lögmanns stefnanda, sem með fylgdi framangreind ákvörðun samkeppnisráðs. Í bréfinu er vakin athygli á málskotsheimild til stefnda en síðan segir: "Skrifleg rökstudd kæra skal berast til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, pósthólfi 347, 121 Reykjavík, innan fjögurra vikna frá móttöku þessa bréfs." Það er því ljóst, a.m.k í tilviki stefnanda sem hér um ræðir, að ætlast var til þess að hann sendi kæru sína með póstinum.
Hvorki stefnandi né aðrir, sem notfæra sér þjónustu póstsins, geta vitað fyrir fram hversu langan tíma tekur að koma sendingum til skila. Stefnandi var því í raun jafnnær um það hvenær kæra hans myndi berast stefnda, hvort sem hann hefði póstlagt hana á fyrsta eða síðasta degi frestsins. Þá verður hér að hafa í huga til samanburðar reglu 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en samkvæmt henni telst kæra nógu snemma fram komin ef bréf, sem hefur hana að geyma, er afhent pósti áður en frestur rennur út.
Með vísun til framanritaðs er það niðurstaða dómsins, miðað við framangreindar aðstæður stefnda til að taka við kærum, að fallast á með stefnanda að kæra hans, sem póstlögð var innan lögmælts kærufrests, hafi þannig verið komin nægilega snemma fram. Samkvæmt þessu verður krafa stefnanda tekin til greina og stefndi dæmdur til að greiða honum 120.000 krónur í málskostnað.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð
Úrskurður stefnda, áfrýjunarnefndar samkeppnismála, frá 22. febrúar 2001 í málinu nr. 5/2001 er felldur úr gildi.
Stefndi greiði stefnanda, Hönnun hf., 120.000 krónur í málskostnað.