Hæstiréttur íslands

Mál nr. 65/2007


Lykilorð

  • Fasteign
  • Leigusamningur


         

Fimmtudaginn 25. október 2007.

Nr. 65/2007.

Arndís Gísladóttir

Hildur Gísladóttir

Ólafur Ágúst Gíslason og

Kristín Haraldsdóttir

(Ástráður Haraldsson hrl.

Eva B. Helgadóttir hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.

 Ágúst Sindri Karlsson hdl.)

 

Fasteign. Leigusamningur.

Aðilar málsins deildu um hvort áfrýjendur ættu afnotarétt að 13,2 ha lóð úr landi jarðarinnar Heiðarbæjar í Bláskógabyggð. Óumdeilt var í málinu að þáverandi ábúendur Heiðarbæjar hefðu gert samning við foreldra áfrýjanda K um leigu á lóð úr landi jarðarinnar undir sumarbústað þeirra. Í gögnum málsins lágu fyrir samningsdrög frá 1961 sem send hefðu verið af stefnda landbúnaðarráðuneytinu til umboðsmanns áfrýjenda. Í niðurstöðu Hæstaréttar kemur fram að ljóst væri að landbúnaðarráðuneytið hefði viðurkennt í verki að komist hefði á bindandi samningur um leigu lóðarinnar og hefði ráðuneytið farið með hann samkvæmt því efni sem fram kæmi í fyrrnefndum samningsdrögum. Einnig var litið til þess að landbúnaðarráðuneytið hefði aldrei nýtt sér þau vanefndaúrræði sem því hefðu verið tiltæk eða sagt samningnum upp. Að þessu virtu var viðurkenndur samningsbundinn afnotaréttur áfrýjenda að lóðinni.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 5. febrúar 2007. Þau krefjast þess að viðurkenndur verði afnotaréttur þeirra að 13,2 ha lóð úr landi jarðarinnar Heiðarbæjar í Bláskógabyggð, sem liggur milli Móakotsár að norðan og Torfadalslækjar að sunnan og er afmörkuð með nánar tilgreindum hnitum. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Óumdeilt er að árið 1941 eða 1942 gerðu þáverandi ábúendur ríkisjarðarinnar Heiðarbæjar í Þingvallasveit samning við Harald Árnason og eiginkonu hans um leigu á lóð úr landi jarðarinnar undir sumarbústað. Lóðin var síðar afmörkuð með girðingu og samkvæmt mælingu dómkvadds matsmanns reyndist hún vera 13,2 ha að stærð. Hjónin reistu bústað á lóðinni sem fullbúinn var 1943 og hefur hann síðan staðið athugasemdalaust á landinu. Við lát þeirra erfðu fimm börn þeirra bústaðinn sem þau munu hafa nýtt sameiginlega fram á sjöunda áratuginn, er tvær dætra þeirra, Erla og áfrýjandinn Kristín, keyptu hlut tveggja systkina sinna, en það þriðja seldi þeim systrum sinn hlut árið 1981. Við lát Erlu tóku börn hennar, áfrýjendurnir Arndís, Hildur og Ólafur Ágúst við eignarráðum á hennar hluta bústaðarins. Er hann nú í óskiptri sameign þeirra og Kristínar.

Af gögnum málsins má ráða að ábúandi jarðarinnar hafi átölulaust af hálfu stefnda tekið við greiðslum lóðarleigu á árabilinu 1953 til 1960. Landbúnaðarráðuneytið mun hafa hlutast til þess á árinu 1961 að greiðslur af leigulóðum í Þingavallasveit skyldu renna í ríkissjóð, en ekki til ábúenda eins og verið hafði og reikningar sem lagðir hafa verið fram í málinu bera með sér. Sama ár voru útbúin á staðlað eyðublað frá ráðuneytinu drög að lóðarleigusamningi milli þess og eiginmanns Kristínar, Jóns Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, sem mun í umboði eigenda hafa annast umsýslu lóðarinnar. Kom þar fram að Jóni væri leigð lóð úr landi jarðarinnar til 50 ára frá fardögum 1961 og var stærð hennar tilgreind „sem næst 14 ha.“ Skyldi leigutaki greiða árlega 1.050 krónur í leigu til jarðeignadeildar ríkisins. Í skilmálum samningsdraganna kom meðal annars fram að samningsaðilum hafi hvorum um sig verið heimilt að krefjast breytinga á leigugjaldi á 10 ára fresti.

Í desember 1981 tilkynnti ráðuneytið Jóni að hann skuldaði leigu vegna lóðarinnar. Var þess jafnframt getið að unnið væri að endurskoðun leigusamninga um lóðir í eigu ríkisins og stefnt að því að miða leigugjaldið við fasteignamat viðkomandi lóðar. Kom fram að leitað yrði samkomulags við hann um breytingu gjaldsins. Árið 1982 var endurgjaldi samkvæmt lóðarleigusamningum landbúnaðarráðuneytisins breytt og það miðað við 1% af fasteignamati lóða í stað fastrar fjárhæðar. Í kjölfar þess fékk Jón send ofangreind samningsdrög frá landbúnaðarráðuneytinu þar sem þess var farið á leit að samþykkt yrði að leigugreiðslan yrði framvegis 1% af fasteignamati lóðarinnar. Undirritaði Jón drögin 11. febrúar 1982 og endursendi ráðuneytinu. Hins vegar er óupplýst hvort þau voru jafnframt undirrituð af þess hálfu, en ljóst er að þau voru útbúin í ráðuneytinu. Með bréfi 30. september 1985 tilkynnti landbúnaðarráðuneytið leigutökum að frá og með „fardagaárinu 1985-1986“ yrði leiga fyrir jarðir, landspildur og aðrar eignir ríkisins innheimt með gíróreikningi. Vegna þessara breytinga hafi allir samningar verið yfirfarnir og færðir inn í tölvu og til þess að ganga úr skugga um að það hafi verið gert rétt væri útskrift af samningi leigutaka, eins og hann hafi verið skráður, sendur meðfylgjandi. Í slíkri útskrift úr eignaskrá ríkisins um skráningu leigusamnings varðandi lóð þá sem mál þetta snýst um kom fram að hún væri leigð Jóni Bjarnasyni samkvæmt samningi 1. júní 1961 til 1. júní 2011 og næmi stærð hennar 140.000 m2.

Samkvæmt orðsendingu 6. maí 1992 frá nafngreindum starfsmanni landbúnaðarráðuneytisins til fasteignmats ríkisins á Selfossi voru þeirri stofnun sendar ljósritaðar forsíður lóðarleigusamninga úr landi Heiðarbæjar. Jafnframt var þess getið að ekki hafi fundist fjórir samningar sem skráðir væru í tölvu og fimm tilteknar lóðir væru skráðar í fasteignamatinu sem ekki væru til samningar fyrir hjá ráðuneytinu. Samningurinn um lóð áfrýjenda var ekki meðal samninga í þessari upptalningu og verður því ekki annað séð en að á þessum tíma hafi ráðuneytið talið að samningur hafi verið gerður um lóð áfrýjenda og hann skráður í tölvukerfi þess. Meðal ljósritanna sem send voru fasteignamatinu var forsíða af útfylltum drögum af lóðarleigusamningi ráðuneytisins og Jóns og stærð lóðarinnar þar sögð vera sem næst 14 ha, en aftan við þann texta hafði verið handritað „á að vera 1,4 ha.“ Er ekkert sem bendir til þess að athugasemdin hafi verið gerð með vitund eða vilja Jóns Bjarnasonar eða eigenda lóðarinnar og hefur hún því enga þýðingu við úrslit málsins. Með bréfi landbúnaðarráðuneytisins til Jóns 16. júní 1994 var honum tilkynnt að ráðuneytið hafi farið þess á leit við ríkisbókhald að felld yrði niður skuld hans sem skráð væri í innheimtukerfi ríkissjóðs „vegna álagningar lóðarleigugjalds eftir sumarbústaðarlóð úr landi Heiðarbæjar“, fardagaárin 1985 til 1986 og 1993 til 1994. Taldi ráðuneytið að álagning gjaldsins fengi ekki staðist „þar sem ekki er í gildi leigusamningur um lóðina og sumarbústaður sá er á lóðinni stendur, talin eign Erlu Haraldsdóttur skv. skrá Fasteignamats ríkisins, því lóðarréttindalaus.“ 

Af því sem rakið hefur verið hér að framan er ljóst að allar götur frá árinu 1981 að minnsta kosti hefur landbúnaðarráðuneytið viðurkennt í verki að komist hafi á bindandi samningur um leigu lóðarinnar og farið með hann samkvæmt því efni sem fram kemur í samningsdrögunum frá 1961 sem ráðuneytið sendi Jóni Bjarnasyni til undirritunar vegna áðurnefndra breytinga á leigugjaldi lóðarinnar. Þá hefur stefndi aldrei nýtt sér þau vanefndaúrræði sem honum hafa verið tiltæk eða sagt samningnum upp. Verður aðalkrafa áfrýjenda um samningsbundinn afnotarétt þeirra að lóðinni samkvæmt þessu tekin til greina eins og nánar er lýst í dómsorði.

Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

       Viðurkenndur er samningsbundinn afnotaréttur áfrýjenda, Arndísar Gísladóttur, Hildar Gísladóttur, Ólafs Ágústs Gíslasonar og Kristínar Haraldsdóttur, yfir 13,2 ha lóð úr landi jarðarinnar Heiðarbæjar í Bláskógabyggð, sem liggur milli Móakotsár að norðan og Torfadalslækjar að sunnan, og auðkennd er á uppdrætti frá punkti 1 (x-hnit 392582.397, y-hnit 414632.351) að punkti nr. 2 (x-hnit 392541.091, y-hnit 414163.329) frá þeim punkti að punkti nr. 3 (x-hnit 392676.455, y-hnit 414122.101) frá þeim punkti að punkti nr. 4 (x-hnit 392767.348, y-hnit 414259.203) frá þeim punkti að punkti nr. 5 (x-hnit 392846.195, y-hnit 414232.095) frá þeim punkti að punkti nr. 6 (x-hnit 392900.803, y-hnit 414352.772) frá þeim punkti að punkti nr. 7 (x-hnit 392950.515, y-hnit 414447.923) frá þeim punkti að punkti nr. 8 (x-hnit 392990.594, y-hnit 414472.774) frá þeim punkti að punkti nr. 9 (x-hnit 392989.757, y-hnit 414487.489) frá þeim punkti að punkti nr. 10 (x-hnit 392832.429, y-hnit 414618.014) frá þeim punkti að punkti nr. 11 (x-hnit 392780.601, y-hnit 414621.514) frá þeim punkti að punkti nr. 12 (x-hnit 392743.294, y-hnit 414592.708) frá þeim punkti að punkti nr. 13 (x-hnit 392723.085, y-hnit 414513.184) frá þeim punkti að punkti nr. 14 (x-hnit 392664.592, y-hnit 414547.824) og frá þeim punkti að punkti nr. 15 (x-hnit 392598.501, y-hnit 414627.127).

         Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjendum samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. nóvember 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 21. september sl., er höfðað 15. febrúar 2005 af Arndísi Gísladóttur, Lindarseli 3, Reykjavík, Ólafi Ágústi Gíslasyni, Leirutanga 22, Mosfellsbæ, Hildi Gísladóttur, Miðtúni 90, Reykjavík, og Kristínu Haraldsdóttur Bergstaðastræti 44, Reykjavík, gegn íslenska ríkinu. 

 

Dómkröfur

    Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkenndur verði afnotaréttur stefnenda að lóð úr landi jarðarinnar Heiðarbæjar í Þingvallasveit.  Lóðin er um 13,2 ha. og liggur milli Móakotsár að norðan og Torfadalslækjar að sunnan.

Lóðin er þannig hnitmerkt: frá punkti nr. G01 (A-hnit 392583.16 - N-hnit 414632.09) að punkti nr. G02 (A-hnit 392541.91 - N-hnit 414163.44) og frá þeim punkti að punkti nr. G03 (A-hnit 392677.45 - N-hnit 414122.40) og frá þeim punkti að punkti nr. G04 (A-hnit 392768.28 - N-hnit 414259.15) og frá þeim punkti að punkti nr. G05 (A-hnit 392847.33 - N-hnit 414232.61) og frá þeim punkti að punkti nr. G06 (A-hnit 392901.68 - N-hnit 414352.80) og frá þeim punkti að punkti nr. G07 (A-hnit 392939.53 - N-hnit 414424.31) og frá þeim punkti að punkti nr. G08 (A-hnit 392938.90 - N-hnit 414460.99) og frá þeim punkti að punkti nr. G09 (A-hnit 392904.18 - N-hnit 414537.40) og frá þeim punkti að punkti nr. G10 (A-hnit 392781.48 - N-hnit 414621.47) og frá þeim punkti að punkti nr. Gll (A-hnit 392744.15 - N-hnit 414592.69) og frá þeim punkti að punkti nr. G12 (A-hnit 392723.95 - N-hnit 414513.41) og frá þeim punkti að punkti nr. G13 (A-hnit 392665.70 - N-hnit 414547.61) og frá þeim punkti að punkti nr. G14 (A-hnit 392599.77 - N-hnit 414626.92) og frá þeim punkti aftur að punkti nr. G01 (A-hnit 392583.16 - N-hnit 414632.09).

Einnig er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi lögmanns stefnanda auk virðisaukaskatts. on, hrl.

 

    Dómkröfur stefnda eru þær að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda og að stefnendur verði dæmdir til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Málavextir

   Málavextir eru þeir að árið 1942 byggðu Haraldur Árnason, kaupmaður í Reykjavík, og eiginkona hans, Arndís Bartels sumarbústað í landi Heiðarbæjar í Þingvallasveit.  Jörðin er kirkjujörð og talin meðal eigna íslenska ríkisins.  Stefnendur halda því fram að Haraldur og Arndís hafi gert samning við þáverandi ábúendur jarðarinnar, Jóhannes og Einar Sveinbjörnssyni, um leigu á lóð úr landi jarðarinnar undir sumarbústaðinn.  Hafi leiga samkvæmt samningnum verið greidd til ábúenda jarðarinnar.  Skriflegur samningur liggur ekki fyrir um slíkt samkomulag.

   Stefnendur halda því jafnframt fram að samkvæmt samningi þeirra á milli hafi Einar girt lóðina af með gaddavírsgirðingu og hafi stærð lóðarinnar, innan þeirrar girðingar, verið sem næst 14 hekturum. Girðingar þessar hafi enn verið uppistandandi árið 1998 er þáverandi ábúandi jarðarinnar hafi látið fjarlægja þær án nokkurs samráðs við leigutaka. Stæði girðingarinnar sé þó enn auðrekjanlegt.

   Hafin var bygging sumarbústaðar árið 1942, og stóð hann fullbúinn vorið 1943.  Næstu ár á eftir nýttu þau hjón bústaðinn ásamt börnum sínum, Árna, Jóhönnu, Kristínu, Erlu og Birni. Hjónin féllu frá árin 1949 og 1950, og féll þá bústaðurinn í arf til barna þeirra fimm, sem nýttu hann í sameiningu fram á sjöunda áratuginn, er Erla og Kristín keyptu hlut systkina sinna. Áttu þær systur bústaðinn í óskiptri sameign síðan þar til Erla lést og börn hennar, þau Hildur, Arndís og Ólafur Ágúst, tóku við eignarráðum eftir hana.

   Stefnendur halda því fram að árið 1961 hafi leigusamningurinn verið endurnýjaður að frumkvæði landbúnaðarráðuneytisins. Sé þar tilgreint að landbúnaðarráðuneytið leigi hrl. Jóni Bjarnasyni (en Jón sé tengdasonur þeirra hjóna Haraldar og Arndísar, og hafi verið umsýslumaður fyrir hönd systranna Erlu og Kristínar við gerð samningsins) lóð úr landi Heiðarbæjar undir sumarbústað og sé stærð lóðarinnar sem næst 14 hekturum.  Hafi þessi samningur verið gerður í þremur eintökum, einu fyrir ráðuneytið, einu fyrir ábúanda og einu fyrir leigutaka.

   Þessi samningur liggur ekki fyrir undirritaður af landbúnaðarráðuneytinu en stefnendur hafa lagt fram ljósrit lóðarleigusamnings sem Jón Bjarnason hrl. hefur undirritað en hefur ekki verið undirritaður af hálfu landbúnaðarráðuneytisins eins og áður segir.  Á þessu skjali segir m.a. að lega lóðarinnar og takmörk hennar séu sýnd á loftmynd er fylgi samningnum.  Stærð lóðarinnar sé sem næst 14 ha.  Lóðin er leigð til 50 ára frá fardögum 1961 að telja en lóðin fellur að þeim tíma liðnum aftur til ríkisins.  Leigutaki skal greiða leigu í peningum ár hvert 1.050.00 krónur og greiðist leigan til Jarðeignadeildar ríkisins.  Gjalddagi á leigu skal vera 1. júlí ár hvert.

   Stefnendur halda því fram að þessi samningur hafi verið framkvæmdur athugasemdalaust.  Leiga samkvæmt samningnum hafi verið greidd skilvíslega í 21 ár, þar til landbúnaðarráðuneytið sendi Jóni Bjarnasyni í ársbyrjun 1982 eintak af samningnum, og fór þess á leit að samþykkt yrði að lóðarleigugreiðslan yrði framvegis 1% af fasteignamati lóðarinnar. Þær systur hafi samþykkt þessa tillögu ráðuneytisins, og hafi Jón undirritað samþykkisyfirlýsinguna fyrir þeirra hönd og endursent við svo búið samninginn til ráðuneytisins.  Ber umrætt ljósrit af leigulóðarsamningi með sér undirritun Jóns Bjarnasonar undir yfirlýsingu, dags. 11. febrúar 1982, um samþykki þess að lóðarleiga reiknist framvegis 1% af fasteignamati lóðar.

    Á árinu 1992 sendi landbúnaðarráðuneytið Fasteignamati ríkisins á Selfossi, með óformlegri orðsendingu, upplýsingar um lóðarleigusamninga úr landi Heiðarbæjar í Þingvallahreppi.  Í orðsendingunni er ekki getið um þá lóð sem um er deilt í máli þessu. Með orðsendingunni mun ráðuneytið hafa sent ljósrit af forsíðu lóðarleigusamnings frá 1961 sem áður er getið.  Þar hefur verið slegið hring utan um stærð lóðarinnar og handfært inn á að stærð lóðarinnar eigi að vera 1,4 ha. og eru settir stafirnir G. Ö. við breytinguna en talið er að þeir vísi til Guðmundu Ögmundsdóttur, þáverandi starfsmanns ráðuneytisins, sem sendi orðsendinguna.  Stefnendur benda á að tvær aðrar athugasemdir hafi, án samráðs við samningsaðila, verið skráðar á samninginn.  Annars vegar sé skrifað á samninginn: Lóð Haraldar Árnasonar kaupmanns, tengdasonur hans. Hins vegar sé strikað yfir eldra heimilisfang Jóns Bjarnasonar að Hrefnugötu 5, og skrifað Bergstaðastræti 44.

    Stefndi bendir á í þessu sambandi að þessi orðsending og ljósrit af samningi hafi ekki verið send til nokkurs af stefnendum eða neins þess sem telur til réttar yfir lóðinni sem leigutaki.  Hún skapi engan rétt fyrir stefnendur, enda ekki beint að þeim.  Um sé að ræða upplýsingagjöf milli opinberra stofnana.  Athygli veki þó að stærð þeirra lóða sem getið sé um í orðsendingunni sé víðsfjarri því að vera 14 ha. heldur sé sú stærsta tilgreind 1,3 ha. en aðrar minni.

    Þann 16. júní 1994 ritaði landbúnaðarráðuneytið Jóni Bjarnasyi bréf, þar sem tilkynnt var að ráðuneytið hefði sent Ríkisbókhaldi beiðni um niðurfellingu á skuld vegna álagningar lóðarleigugjalds eftir sumarbústaðarlóð úr landi Heiðarbæjar, fardagaárin 1985/86 til 1993/94.  Væri það gert þar sem að áliti ráðuneytisins fengi álagningin ekki staðist þar sem ekki væri í gildi leigusamningur um lóðina og sumarbústaður sá sem á lóðinni stæði, talinn eign Erlu Haraldsdóttur samkvæmt skrá Fasteignamats Ríkisins, því lóðarréttindalaus.

    Stefnendur kveða þetta bréf hafa verið það fyrsta sem þau heyrðu um að svo virtist sem safnast hafi saman nokkurra ára lóðarleigugjöld.  Kveða þau Jón Bjarnason þá þegar hafa farið á fund bréfritara, Jóns Höskuldssonar, og boðið fram greiðslu á skuldinni, en þeirri beiðni hafi verið hafnað á þeirri forsendu að ekki væri í gildi neinn lóðarleigusamningur um lóðina.  Jón Bjarnason hafi hins vegar lýst því yfir að gerður hefði verið samningur við Harald Árnason og hann síðan endurnýjaður.  Hafi fundi þeirra lokið svo að Jón kvaðst mundu leita að samningum þessum.  Leitin hafi sóst seint og hafi ekki borið annan árangur varðandi fyrri samninginn en að Unnur Frímannsdóttir, ekkja Einars Sveinbjörnssonar, hafi tjáð honum að hún minntist þess að Haraldur Árnason hefði gert samning við Einar skömmu fyrir lýðveldishátíðina, en þrátt fyrir leit hafi hún ekki fundið samninginn í sínum fórum.  Seinni samningurinn, frá 1961, hafi að lokum fundist í vörslu landbúnaðarráðuneytisins og hafi Jón fengið í hendur afrit ráðuneytisins af þeim samningi, sem sé sá sem fjallað sé um að framan og hafi verið sendur til Jóns árið 1982 til samþykktar um breytingu á leigugjaldi.  Er sá samningur barst í hendur Jóns hafi hann farið á fund þáverandi landbúnaðarráðherra, Guðmundar Bjarnasonar, og rakið fyrir honum sögu málsins og beðið hann um að gengið yrði frá málinu við fyrstu hentugleika, þannig að hann gæti greitt þá fjárhæð sem hann skuldaði.  Hafi hann einnig gengið á fund Guðna Ágústssonar er hann tók við embætti landbúnaðarráðherra en úrlausn málsins hafi ekki fengist.

    Í bréfi landbúnaðarráðuneytisins til Jóns Bjarnasonar, dags. 19. júlí 2000, sem ráðuneytið nefnir svar við beiðni hans um gerð lóðarleigusamnings undir bústað í landi Heiðarbæjar, eru færð fram sömu rök ráðuneytisins og áður um að ekki sé í gildi lóðarleigusamningur og að db. Erlu Haraldsdóttur sé skráður eigandi sumarbústaðarins samkvæmt skrám Fasteignamats ríkisins.  Stefnendur benda á í þessu sambandi að þau hafi aldrei farið fram á að gerður yrði samningur um sumarbústaðarlóð, heldur aðeins farið fram á að ráðuneytið viðurkenni tilvist samninganna frá 1942 og 1961, sbr. framlögð bréf Jóns Bjarnasonar til ráðuneytisins.

    Í stefnu kemur fram að eftir að núverandi lögmaður stefnenda hafi komið að málum árið 2002 hafi verið haldnir allmargir fundir með starfsmönnum ráðuneytisins til að freista þess að leysa málið án atbeina dómstóla en þær viðræður hafi ekki leitt til árangurs sem að mati stefnenda sé ásættanlegur og sé þeim því nauðugur sá kostur að stofna til málareksturs þessa.

Málsástæður stefnenda og lagarök

    Krafa stefnenda er á því byggð að í gildi sé leigusamningur á milli stefnenda og stefnda um lóð úr landi jarðarinnar Heiðarbæjar í Þingvallasveit.  Á lóðinni hafi í rúm 60 ár staðið um það bil 120 m2 sumarhús sem sé í fullum eignarumráðum stefnenda og sem þau hafi nýtt í samræmi við tilganginn með byggingu þess allan þennan tíma.  Húsið hafi í upphafi verið afar vandað að allri gerð og hafi verið haldið við og nýtt af stefnendum.

    Stefnendur telja að stefndi hafi í framkvæmd viðurkennt tilvist og efni leigusamnings aðila allt til þessa dags. Skriflegra gagna um upphaflegan leigusamning aðila njóti ekki við í málinu.  Þannig sé óljóst á hvaða heimildum ábúendur Heiðarbæjar hafi byggt er þeir í öndverðu hafi afmarkað og leigt Haraldi Árnasyni og Arndísi Bartels hina umþrættu lóð.  Staðreynd sé hins vegar að það hafi þeir gert og að á lóðinni var reist myndarlegt hús innan girðingar sem markaði umfang lóðarinnar og sem nútíma mælingatækni sýni að sé nær 14,3 ha.  Með ráðstöfunum sínum síðar hafi stefndi fallist á þennan gerning og viðurkennt réttmæti hans.  Þannig sé bersýnilegt að samningurinn frá 1961 sé gerður á samningsform stefnda.  Það hafi verið stefndi sem sent hafi afrit þess samnings til samþykktar um breytt leigugjald 1982 og stefndi hafi um árabil innheimt lóðarleigu vegna lóðarinnar.

    Með bréfi stefnda til Jóns Bjarnasonar hrl. frá 16. júní 1994, hafi stefndi valið að synja fyrir tilvist samningsins en ekki að viðurkenna tilvist hans eða bera fyrir sig vanefndir. Þessi málatilbúnaður stefnda standist bersýnilega ekki.  Samningur aðila hafi athugasemdalaust verið framkvæmdur um áratuga skeið.  Sú frásögn ráðuneytisins að hann hafí aldrei verið til sé því augljóslega röng. Þá sýni bréfasendingar stefnda til Fasteignamats ríkisins 1992 stefndi hafi talið samning aðila meðal þeirra samninga um lóðarleigu sem í gildi væru á vegum ráðuneytisins.

    Þá hafi ráðuneytið frá 1994, og þrátt fyrir að synja fyrir tilvist samningsins, í raun viðurkennt rétt stefnenda með því að engar ráðstafanir hafi verið gerðar til að hindra afnot þeirra af lóðinni. Stefnendur hafi ítrekað freistað þess að ná samkomulagi við ráðuneytið sem aðilar gætu við unað en ekki fengið fullnægjandi boð sem þau gætu sætt sig við.

    Fasteignagjöld vegna húseignarinnar hafi skilvíslega verið greidd allan tímann og eignin talin fram til skatts meðal eigna stefnenda frá öndverðu.  Þá liggi fyrir í málinu gögn sem sýni að stefndi hafi innheimt lóðarleigu vegna lóðarinnar um árabil.

    Stefnendur byggja á því að telja verði, í ljósi þeirrar aðstöðu sem hér sé uppi, að löglíkur séu til þess að húsi stefnenda, sem athugasemdalaust hafi staðið í landi jarðarinnar Heiðarbæjar í 60 ár, hafí fylgt lóðarréttindi.

    Stefnendur telja einnig að jafnvel þótt ekki yrði talið að í gildi sé leigusamningur milli aðila hafi þau unnið afnotarétt að hinni umþrættu lóð fyrir hefð.  Umráð og nýting lóðarinnar hafi verið í þeirra höndum og þeirra sem þau leiði rétt sinn frá óslitið í meira en sextíu ár.  Stefnendur eigi hús sem varanlega hafi verið skeytt við hina umþrættu lóð allan þennan tíma og þau hafa nytjað lóðina og farið með hana á allan hátt sem sitt umráðasvæði á leigutímanum. Vísist um þetta til 7. gr. hefðarlaga nr. 46 frá 1905.

    Vísað er til hefðarlaga nr. 46/1905. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði með síðari breytingum. Vísað er til þess að stefnendur eru ekki virðisaukaskattskyldir og beri því nauðsyn til að fá dæmt álag á málskostnað er nemi fjárhæð virðisaukaskatts.  Vísist um þetta til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

 

Málsástæður stefnda og lagarök

   Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnendur hafi ekki lýst því hvaða heimildir ábúendur hafi upphaflega haft til að leigja Haraldi Árnasyni og konu hans lóð úr jörðinni, en byggt sé á því að um sé að ræða jörð í eigu ríkisins.  Sé sá „samningur“ að auki fullkomlega óupplýstur um allt efni sitt og liggi ekkert fyrir um hann, hvorki efni hans, tímamörk eða nokkuð annað.  Sé ófært að byggja á honum.

    Þá er af hálfu stefnda á það bent að stefnendur geri kröfu um að viðurkenndur verði afnotaréttur af umræddri lóð en engin takmörkun sé gerð um að afnotarétturinn verði afmarkaður í tíma eða gerð efnisleg takmörkun á afnotaréttinum, eins og þó sé í téðum „samningi“.

    Stefnendur byggi á því að í gildi sé „samningur“, sá sem lýst sé á dskj. nr. 3 (sic. en telja verður að stefndi eigi við dskj. nr. 4).  Stefnukrafan gangi hins vegar mun lengra.  Þess sé ekki krafist í stefnu að viðurkenndur verði afnotaréttur samkvæmt samningi frá 1942 eða frá 1961, heldur sé gerð mun víðtækari krafa.  Krafan í stefnu eigi sér enga stoð, ef gengið sé út frá því að byggt sé á umræddum samningi.  Ekki séu í stefnu boðnar fram leigugreiðslur eða gerður um það áskilnaður að viðurkenndur verði afnotaréttur gegn því að leigugreiðslur verði inntar af hendi.  Sé gert ráð fyrir að afnotarétturinn komi til stefnenda án þess að þeim beri að greiða fyrir hann.  Ekki sé gerð krafa um að viðurkennt verði að leigusamningur sé í gildi.  Þannig sé ljóst að krafa stefnenda beinist að því að þeim verði viðurkenndur og játaður mun ríkari og meiri réttur en umræddur samningur myndi færa þeim.  Þessu til viðbótar sé svo að nefna að „samningurinn“ geri ráð fyrir að lóðin sé leigð til ársins 2011, en stefnukröfur geri enga slíka takmörkun.

   Sé krafist sýknu þegar af þeirri ástæðu að krafist er mun ríkari réttar en „samningur“ frá 1942, eða „samningur“ frá 1961 eða þess vegna frá 1982, hefði fært leigutaka.  Ekkert styðji það að stefnendur gætu átt meiri rétt en leiða mætti af „samningum“ sem þeir kveða hafa verið gerða.

   Hafi verið í gildi samningur frá 1961, eða þess vegna frá 1982, þá hafi stefnendur eða leigutakar fyrir löngum tíma fyrirgert öllum rétti sínum vegna greiðslufalls.  Sé því mótmælt af hálfu stefnda að greitt hafi verið leigugjald og samkvæmt „samningi“ frá 1961 hafi leigutaki þannig fyrirgert öllum lóðarleigurétti sínum og jörðin fallið aftur til ríkisins.  Séu mörg ár liðin síðan stefndi hafi áréttað þetta, sbr. bréf landbúnaðarráðherra, dags. 16. júní 1994, en því bréfi hafi verið beint til þess manns sem fram hafi komið fyrir hönd „leigutaka“ og hafi raunar verið tilgreindur sem leigutaki á „samningnum“.

   Því sé alfarið mótmælt af hálfu stefnda að hann hafi í framkvæmd viðurkennt tilvist og efni leigusamnings.  Stefndi hafi ekkert haft að segja um byggingu þess húss sem á umræddri lóð standi og hafi þess vegna allt eins mátt gera ráð fyrir að það væri á vegum ábúenda Heiðarbæjar.

   Stefndi hafi ekki samþykkt neinn samning um lóðina, hvorki með orðum né athöfnum. Að „samningurinn“ frá 1961 hafi verið á eyðublaði frá ráðuneytinu segi ekkert til um það, en vel kunni að vera að um uppkast hafi verið að ræða.

   Stefndi hafi ekki innheimt leigugjald fyrir lóðina. Fyrir mistök hafi verið sendir út gíróseðlar vegna lóðarinnar, en stefnendum sé eða megi vera ljóst að um mistök hafi verið að ræða, enda sú afstaða stefnda löngu komin fram að enginn samningur væri fyrir hendi.  Greiðsluseðlar sem áður voru sendir út hafi verið afturkallaðir og „skuld“ samkvæmt þeim felld niður.

   Stefnendur hafi ekki sýnt fram á að nokkurn tíma hafi verið greitt leigugjald fyrir téða lóð og sé öllum fullyrðingum stefnenda um það mótmælt sem ósönnuðum.

   Um langt árabil hafi sá háttur verið hafður á í ráðuneytinu að greiðsla leigugjalds fyrir lóðir í landi Heiðarbæjar var færð á samninginn sjálfan, þannig að samningarnir voru áritaðir um greiðslu líkt og skuldabréf. „Samningurinn“ frá 1961 beri engar slíkar áritanir.  Hann sé að öðru leyti afar frábrugðinn hinum en það varði stærð lóðanna. Hinar lóðirnar séu allar mun minni, eða flestar minni en einn ha., en engin nái 2 ha. að stærð.

    Sendingar á gögnum milli landbúnaðarráðuneytisins og Fasteignamats ríkisins um téða lóð breyti engu.  Þær sendingar séu ekki gagnvart stefnendum og skapi þeim engan rétt.  Aðeins sé um að ræða sendingu gagna milli ríkisstofnana í upplýsingaskyni. Þá verði að hafa í huga að sú orðsending varði ekki umrædda lóð sérstaklega og sé hennar raunar alls ekki getið í orðsendingunni.

    Að fasteignagjöld vegna húseignarinnar hafi verið greidd skipti engu máli, en hér sé aðeins fjallað um lóðina og leigu vegna hennar.  Húsið sjálft sé utan deilunnar og í sjálfu sér ekki bornar brigður á eignarrétt að því.  Sama gegni um erfðafjárskýrslu og skattframtöl.  Hvað stefnendur hafi talið og haldið breyti engu og síst um húsið sjálft sem á lóðinni standi, en það sé ekki ágreiningsefnið.

    Það að stefndi hafi ekki gert að því beinan reka að ryðja burt húsinu og lagt á um það að húsið skyldi fjarlægt verði ekki lagt honum til lasts.  Aðeins sé um það að ræða að gæta mðalhófs í stjórnsýslu og fara með gát gagnvart verðmætum borgaranna. Hefur margsinnis komið fram sá skilningur ráðuneytisins að ekki sé fyrir hendi leigusamningur og langlundargeð ráðuneytisins gagnvart stefnendum skapi þeim hvorki leigu-, afnota- né eignarrétt.  Sé þess jafnframt að gæta að margsinnis hafi verið fundað um þetta svo að ná megi lausn sem stefnendur og aðrir megi við una en það ekki tekist, þrátt fyrir vilja ráðuneytisins til að ljúka málinu á þann hátt sem tíðkist á þessum slóðum.

    Ekki virðast efni til að draga í efa að upp úr 1942 hafi verið girt land sem sé tæpir 14 ha., eða nákvæmlega 136370, en það sé samkvæmt korti unnu af Verkfræðistofu Suðurlands og séu hnitin tekin nákvæmlega upp eftir gamla girðingarstæðinu á hinu umþrætta landi.  Það kort sé ekki í samræmi við það kort sem stefnendur hafi lagt fram.  Þetta land sé hins vegar ekki girt í einu lagi heldur í minni einingum eins og sjáist.  Verulegur hluti þess lands sé hestagirðing sem í áranna rás hafi verið nýtt af ábúendum Heiðarbæjar til beitar.  Stefnendur hafi ekki nýtt þetta land.  Hinn stóri hlutinn á kortinu sé nánast alfarið óræktaður og ekkert verið fyrir hann gert.  Á kortinu sé svo sýnd stærð lóðar sem væri 1,4 ha.  Sennilegt sé að Haraldur Árnason og kona hans hafí reist girðinguna fyrir ábúendur Heiðarbæjar, en það hafi verið skilyrði fyrir vilyrði um leigulóð.

   Einu not stefnenda og forvera þeirra sé trjáplöntun í skógræktarreit, bygging kofa undir aflagða díselrafstöð, bygging bátaskýlis sem nú sé horfið, og bústaðurinn sjálfur. Að öðru leyti hafi ekki verið um að ræða nýtingu eða ræktun landsins.  Helstu nytjar alls þessa umþrætta lands séu frá ábúendum Heiðarbæjar.

   Hafi verið til leigusamningur í gildi, þá er því mótmælt af hálfu stefnda að lóðinni sé rétt lýst í stefnu, en stefndi vísi til þess hnitakorts sem hann hafi lagt fram.  Sé ljóst að hestagirðingin hafi aldrei verið hluti leigulóðar.  Þá sé því mótmælt að umrædd lóð hafi verið svo stór og sé 1,4 ha. mun raunhæfari stærð, en þá sé höfð hliðsjón af öðrum samningum á sama svæði.  Sé ljóst að í ráðuneytinu hafi verið litið svo á að talan 14 ha. væri prentvilla.  Sé ljóst að um langt árabil hafi spildan verið talin 1,4 ha. og stefnendur ekki gert við það athugasemdir.

   Takist stefnendum að sýna fram á að þeir hefðu greitt gjald af lóðinni þá verði að benda á að lóðarleigan skyldi samkvæmt „samningnum“ reiknast sem 1% af fasteignamati og fasteignamatið hafi um langt árabil gengið út frá því að lóðin væri 1,4 ha., en gjald samkvæmt því væri einungis lítið brot af gjaldi fyrir lóð sem væri 14 ha. Hafi ráðuneytið einhvern tíma ætlað sér að leigja stefnendum og forverum þeirra téða lóð þá sé bert að vilji ráðuneytisins hafi aldrei staðið til að leigja meira en 1,4 ha. og þetta megi stefnendum vera ljóst.

    Ekki geti stefnendur breytt kröfum sínum frá þeim hnitum sem þeir hafi lagt upp með í stefnukröfum sínum. Ef ætti að minnka kröfur um landið þá yrði að nefna til sögunnar ný hnit. Ekki sé aðeins um að ræða tiltekna stærð lands heldur verði jafnframt að afmarka legu þess.

   Veki athygli í stefnu að ekki skuli vísað til meginreglna samningaréttar um að samninga skuli halda fyrst byggt sé á því að gildir samningar séu um lóðarleiguna.  Sé í málatilbúnaði einungis vísað til laga um hefð nr. 46/1905 en engum öðrum lagagrunni skotið undir kröfur stefnenda.  Verði þeim grundvelli málsins ekki breytt.

   Tilvísun til hefðarlaga eigi hér ekki við og sé haldlaus.  Í 2. gr. hefðarlaga segi berlega að skilyrði fyrir hefð á fasteign sé 20 ára óslitið eignarhald.  Ekki sé því þó haldið fram að eignarréttur hafi nokkurn tímann skapast yfir lóðinni.  Í 2. gr. laganna segi ennfremur að hafi hefðandi fengið hlutinn til láns eða leigu þá geti slík umráð ekki heimilað hefð. Stefnendur byggi á leigusamningi sem þeir kveða vera fyrir hendi.

   Í 7. gr. hefðarlaga segi að notkun með samsvarandi skilyrðum og gilda um eignarhefð skapi afnotarétt.  Notkun á umræddri lóð skapi þannig ekki afhotarétt enda haldi stefnendur því fram að notkunin byggist á leigusamningi og girði það fyrir að hefð megi vinna.

   Kjarni málsins sé þannig að krafist sé viðurkenningar á afnotarétti, sem sé byggður á tilvist samnings sem ósannað sé að hafi verið til, um lóð sem ósannað sé hversu stór er. Krafíst sé rýmri réttar en „samningurinn“ hefði veitt.  Hafi verið fyrir hendi samningur þá hafi leigutaki fyrirgert öllum rétti samkvæmt honum vegna eigin vanefnda, en stefnendur hafi ekki sýnt fram á að nokkurn tíma hafi verið greidd leiga fyrir lóðina. Vísað sé til hefðarlaga en slík afnot sem hér um ræði geti ekki skapað hefð.  Ekki sé byggt á reglum samningaréttar eða öðrum lagasjónarmiðum en hefð.

     öðru  leyti  sé málatilbúnaði,  málsástæðum og  lagarökum  stefnenda mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

 

Niðurstaða

    Haraldur Árnason, kaupmaður í Reykjavík, og eiginkona hans reistu sér sumarbústað í landi Heiðarbæjar í Þingvallasveit á árinu 1942.  Samkvæmt framburði Sveinbjörns Einarssonar, annars af núverandi ábúendum jarðarinnar og sonar fyrri ábúanda, fyrir dómi, var reist girðing umhverfis bústaðinn.  Taldi Sveinbjörn föður sinn og bróður hafa reist girðinguna en Haraldur hafi kostað hana.  Hafi girðingin verið tvískipt og innan girðingar hafi verið beitarhólf sem hafi verið afgirt og hafi ekki verið nýtt af eigendum sumarbústaðarins.

    Í matsgerð dómkvadds matsmanns segir að mjög greinilegt sé að girt hafi verið umhverfis landið kringum sumarbústaðinn en einnig greinilegt að landinu hafi verið skipt með girðingu milli punkta.  Fylgdi matsmaður ummerkjum eftir girðingar, gerði uppdrátt og hnitsetti landið innan girðingar í samræmi við matsbeiðni.  Niðurstaða matsmannsins er að lóðin sé 7,1 ha. án beitarhólfsins en 13,2 ha miðað við ystu mörk.

    Stefnendur gera kröfu til þess í málinu að viðurkenndur verði afnotaréttur þeirra að 13,2 ha. lóð í kringum sumarbústaðinn í samræmi við hnitmerkingar hins dómkvadda matsmanns.

    Kröfur sínar reisa stefnendur á því að í gildi sé leigusamningur á milli stefnenda og stefnda um þessa lóð og er málið höfðað til viðurkenningar á afnotarétti af henni.

    Telja verður að umræddur sumarbústaður hafi verið reistur í fullri sátt við ábúendur jarðarinnar á sínum tíma.  Enginn skriflegur lóðarleigusamningur liggur fyrir frá þeim tíma sem sumarbústaðurinn var reistur, hvorki við ábúendur jarðarinnar né við íslenska ríkið.  Liggur því ekkert fyrir um afnotarétt eigenda sumarbústaðarins af lóð á þessum tíma.

    Samkvæmt framburði Atla Más Ingólfssonar, deildarstjóra í landbúnaðarráðuneytinu, var ekki óalgengt hér áður fyrr að landeigendur heimiluðu aðilum að vera með lóð undir sumarbústað á landi sínu.  Samningar sem ábúendur ríkisjarða gerðu í þessa veru, án samþykkis ríkisins, hafi verið virtir af ríkisins hálfu á þann hátt að ríkið hafi gert nýja leigulóðarsamninga við þessa aðila.  Samkomulag hefur ekki náðst milli aðila þessa máls um gerð slíks samnings. 

    Stefnendur byggja á því að stefndi hafi með ráðstöfunum sínum fallist á að samningur væri til staðar.  Þannig hafi stefndi sent stefnendum árið 1982 afrit leigulóðarsamnings til samþykktar um breytt leigugjald.  Þá hafi stefndi jafnframt um árabil innheimt lóðarleigu vegna lóðarinnar.

   Fyrir liggur í málinu ljósrit af drögum að lóðarleigusamningi, sem ber ártalið 1961. Atli Már Ingólfsson, deildarstjóri í landbúnaðarráðuneytinu, bar fyrir dómi að hann teldi að skjalið hefði verið útbúið í ráðuneytinu.  Í upphafi skjalsins segir: „Landbúnaðarráðherra gjörir kunnugt:  Að ég leigi hér með hrl. Jóni Bjarnasyni til heimilis Hrefnugötu 5, Reykjavík lóð úr landi kirkjujarðarinnar Heiðarbæ í Þingvallasveit til byggingar sumarbústaðar.“  Þar kemur einnig fram að lega lóðarinnar og takmörk séu sýnd á loftmynd er fylgi samningnum.  Stærð lóðarinnar sé sem næst 14 ha.  Þá segir að lóðin sé leigð til 50 ára frá fardögum 1961 að telja en lóðin falli að þeim tíma liðnum aftur til ríkisins.

    Skjalið virðist hafa verið útbúið 1961 en var ekki undirritað þá, hvorki af hálfu ráðuneytisins né eigenda sumarbústaðarins. 

    Samkvæmt því sem fram hefur komið voru Jóni Bjarnasyni, sem var umsýslumaður eigenda bústaðarins, send fyrrgreind drög að lóðarleigusamningi til samþykkta á því að lóðarleiga reiknist framvegis 1% af fasteignamati lóðar.  Var þetta á árinu 1982.  Engin gögn í málinu styðja þó að leiga hafi verið greidd af umræddri lóð fram að þeim tíma  Hinn 11. febrúar 1982 undirritar Jón yfirlýsingu á skjalið um að hann samþykki að lóðarleiga reiknist framvegis 1% af fasteignamati lóðar.  Á þessi samningsdrög ritar Jón Bjarnason einnig undir yfirlýsingu um að hann sé samþykkur samningnum og skuldbindi sig til að halda hann í öllum greinum.  Ekki voru umrædd samningsdrög undirrituð af ráðinuneytinu 1982 eða síðar. 

   Ekki er ágreiningur um það í málinu að Jón Bjarnason hrl. hafi verið umsýslumaður eigenda sumarbústaðarins og komið fram í máli þessu fyrir hönd þeirra gagnvart ráðuneytinu.

   Í skriflegri aðilaskýrslu stefnda kemur fram að gögn ráðuneytisins sýni að frá árinu 1986 til ársins 1993 hafi ekki verið greitt af umdeildu landi þrátt fyrir að þá hafi verið lagt á landið jarðarafgjald í ráðuneytinu, eða í 8 ár.  Þessa skuld hafi ráðuneytið fellt niður, sbr. bréf ráðuneytisins til Jóns Bjarnasonar hrl., dags. 16. júní 1994.  Í bréfi ráðuneytisins kemur fram að álagning þessi fáist ekki staðist þar sem ekki sé í gildi leigusamningur um lóðina og sumarbústaðurinn sé því lóðarréttindalaus.

   Til stuðnings fullyrðingum sínum um að lóðarleiga hafi verið greidd hafa stefnendur lagt fram ljósrit tveggja greiðsluseðla vegna lóðarleigu með gjalddaga 31. desember 1988 og 31. desember 1991.  Hvorugur greiðsluseðlanna ber með sér að hafa verið greiddur.

   Í aðilaskýrslu stefnda kemur einnig fram að eftir 1994 hafi stefnendum ekki verið sendir reikningar vegna lóðarleigu.  Árin 2003 og 2004 hafi þeim fyrir mistök verið sendir reikningar en sú álagning hafi einnig verið felld niður.

    Þegar virt er það sem fram hefur komið í málinu þykir stefnendum ekki hafa tekist að sýna fram á að í gildi sé milli málsaðila leigusamningur um afnot stefnenda af lóð í landi Heiðarbæjar, hvorki munnlegur né skriflegur.  Þykir ekki sýnt fram á í málinu að stefndi hafi með ráðstöfunum sínum eða á annan hátt fallist á að slíkur samningur væri í gildi.  Enda þótt ráðuneytið hafi lagt á landið jarðarafgjald eða lóðarleigu árin 1985 til 1994, skuld sem síðar var felld niður, þykir sú athöfn ráðuneytisins ekki verða túlkuð á þann veg að í henni felist viðurkenning á því að gildur samningur um afnotarétt stefnenda hafi þá verið kominn á milli aðila,  enda hefur ekki verið sýnt fram á að lóðarleiga hafi verið  greidd af umræddu landi. 

    Ekki er fallist á að stefnendur geti byggt neinn rétt á bréfasendingum stefnda við Fasteignamat ríkisins.  Enda þótt stefndi hafi ekki gripið til aðgerða við að fá bústaðinn fjarlægðan eða reynt að hindra afnot stefnenda af lóðinni verður það ekki túlkað sem viðurkenning stefnda á lóðarréttindum stefnenda. 

    Stefnendur byggja einnig á því að þótt litið verði svo á að leigusamningur sé ekki í gildi milli aðila þá hafi þau unnið afnotarétt að hinni umþrættu lóð fyrir hefð og vísa til 7. gr. hefðarlaga nr. 46/1905.

    Þegar virt er það sem fram hefur komið í málinu þykja stefnendur ekki hafa sýnt fram á að þeir hafi nýtt umrætt land að öðru leyti en því að sumarbústaður hefur staðið þar frá 1942.  Girðingum hefur ekki verið við haldið og samkvæmt framburði Sveinbjörns Einarssonar fyrir dómi hafa ábúendur í Heiðarbæ nýtt umrætt svæði síðustu áratugina fyrir beit vor og haust.

    Samkvæmt framansögðu þykja stefnendur ekki hafa sýnt fram á að þau eigi afnotarétt af lóð úr landi jarðarinnar Heiðarbæjar, hvorki samkvæmt samningi né á grundvelli hefðar.  Ber því að sýkna stefnda af kröfum þeirra í málinu.

    Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri kostnað sinn af málinu.

    Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

    Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnenda, Arndísar Gísladóttur, Ólafs Ágústs Gíslasonar, Hildar Gísladóttur og Krístínar Haraldsdóttur.

    Málskostnaður fellur niður.