Hæstiréttur íslands
Mál nr. 423/2011
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Uppgjör
- Endurupptaka bótaákvörðunar
|
|
Fimmtudaginn 2. febrúar 2012. |
|
Nr. 423/2011.
|
Þröstur Sigmundsson (Ólafur Örn Svansson hrl.) gegn Tryggingamiðstöðinni hf. (Guðmundur Pétursson hrl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón. Uppgjör. Endurupptaka bótaákvörðunar.
Þ fékk greiddar skaðabætur úr hendi T hf. á grundvelli matsgerðar án þess að gerður væri fyrirvari af hans hálfu. Þ aflaði síðar álits örorkunefndar sem taldi örorkustig hans hærra en lagt hafði verið til grundvallar við uppgjörið. Í málinu var deilt um hvort skilyrði væru til að taka ákvörðun um bætur upp að nýju á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga. Hæstiréttur taldi að Þ hefði ekki fært sönnur á að niðurstaða örorkunefndar um hærra örorkustig yrði rakin til versnandi heilsu hans sem hafi verið ófyrirsjáanleg þegar lagt var mat á örorkuna áður. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sýknu T hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. júlí 2011. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 23.582.638 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 16. desember 2005 til 7. nóvember 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar á báðum dómstigum.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Gerð er skilmerkileg grein fyrir atvikum máls þessa og málatilbúnaði aðila í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar er rakið varð áfrýjandi fyrir slysi um borð í togaranum Víði 11. nóvember 2002. Fékk hann greiddar skaðabætur vegna tjóns af völdum slyssins úr hendi stefnda á grundvelli matsgerðar 15. september 2004, án þess að gerður væri fyrirvari af hans hálfu. Af þeim sökum verður ofangreind krafa áfrýjanda, sem reist er á álitsgerð örorkunefndar 28. júlí 2009, því aðeins tekin til greina gegn andmælum stefnda að skilyrði 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu fyrir hendi. Skilyrðin eru „að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið.“ Með þessu orðalagi er það gert að frumskilyrði fyrir því, að ákvörðun um bætur verði tekin upp að nýju samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga, að breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola sem ekki hafi verið fyrirsjáanlegar þegar ákvörðunin var tekin. Í samræmi við það kemur fram í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til laganna, að ekki sé heimilt að taka slíka ákvörðun upp að nýju á grundvelli ákvæðisins þótt örorkustig reynist hærra en gert var ráð fyrir ef ástæður þess eru aðrar en breytingar á heilsu tjónþola.
Ef áðurnefnd álitsgerð örorkunefndar 28. júlí 2009 er borin saman við matsgerðina 15. september 2004 verður ekki talið, að teknu tilliti til forsendna hins áfrýjaða dóms, að áfrýjandi hafi fært sönnur á að sú niðurstaða nefndarinnar, að ákvarða örorkustig hans 70% vegna ofangreinds slyss, verði rakin til versnandi heilsu hans sem hafi verið ófyrirsjáanleg þegar lagt var mat á örorkuna fimm árum áður. Með skírskotun til þess, sem að framan greinir, verður héraðsdómur því staðfestur.
Eins og atvikum er háttað verður hvor aðili látinn bera sinn kostnað af meðferð málsins fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2011.
Mál þetta var upphaflega dómtekið 28. janúar sl. en það er höfðað með stefnu birtri 16. desember 2009.
Málið var síðan endurupptekið og flutt að nýju 14. þessa mánaðar með því að dómur varð ekki lagður á það innan lögmælts frests vegna anna dómara.
Stefnandi er Þröstur Sigmundsson, Seljadal 5, Reykjanesbæ.
Upphaflega var Jónasi Haraldssyni, Reynimel 28, Reykjavík stefnt og Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24, Reykjavík, til réttargæslu. Enn fremur var Tryggingamiðstöðinni hf. stefnt til vara.
Í þinghaldi 23. september felldi stefnandi málið niður á hendur Jónasi Haraldssyni og Tryggingamiðstöðinni til réttargæslu.
Þá lækkaði hann upphaflega kröfu sína úr 38.692.830 krónum við aðalmeðferð. Nam lækkunin 15.110.192 krónum sem er uppreiknað eingreiðsluverðmæti bóta frá Tryggingastofnun Ríkisins og lífeyrissjóðum.
Stefnandi krefst þess nú að Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24, Reykjavík verði gert að greiða stefnanda 23.582.638 krónur með 4,5% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, frá 16. desember 2005 til 7. nóvember 2009, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
MÁLSATVIK
Stefnandi lýsir málsatvikum svo að hann hafi verið fyrsti vélstjóri á skipinu Víði EA-910, sem gert var út af Samherja hf., þegar hann varð fyrir slysi hinn 11. nóvember 2002. Slysið hafi viljað þannig til að stefnandi hafi verið á leið niður fjögurra metra háan, brattan stiga í vélarrúmi þegar brotsjór hafi komið á skipið með þeim afleiðingum að skipið hafi hallað um 40°. Við þetta hafi stefnandi misst hand- og fótfestu og dottið í lausu lofti niður stigann. Í fallinu hafi hann gripið með hægri hendi í rör eitt og lent á fótunum. Við átökin hafi brakað í öllum skrokknum og hafi hann um leið fengið mikið högg á bakið. Hafi stefnandi þá fundið fyrir miklum verk í hægri öxl, framan til í brjóstkassa og í baki á milli herðablaða og upp í háls. Þegar stefnandi hafi vaknað morguninn eftir hafi honum liðið eins og hann hefði lamast en hann hafi enga tilfinningu haft í líkamanum. Þegar í ljós hafi komið að hann hafi ekkert getað hreyft sig hafi verið ákveðið að hringja í lækni. Næstu daga hafi stefnandi legið að mestu fyrir í koju og að lokum verði fluttur með varðskipi í land. Hafi stefnandi þá verið fluttur á spítalann á Ísafirði en þar hafi hann legið inni í um sólarhring. Á Ísafirði hafi röntgenmyndir verið teknar af stefnanda en þær hafi ekki leitt í ljós brot á háls- og brjósthrygg. Hafi stefnanda verið ráðlagt að fara í nánari skoðun til Reykjavíkur sem hann og hafi gert. Hafi hann leitað til Ragnars Jónssonar, sérfræðings í bæklunarlækningum. Í áverkavottorði Ragnars, dags. 2. mars 2004, segi m.a:
„Við komu 22.11.2002 kvartaði hann um verki á milli herðablaða. Hann vaknar við dofa í báðum höndum. Hann hafði fundið fyrir kippum aftanvert í vinstra læri. Engin sérstök einkenni frá hægðum eða þvagi nema hægðartregða líklega vegna verkjalyfja. Ekkert magnleysi í höndum. Hann lýsti miklum verkjum og átti erfitt með hreyfingar.
Við skoðun var hann með stirðlegar hálshreyfingar, engin ókveðin eymsli í hálsi en mestu eymslin voru yfir u.þ.b. fimmta brjósthryggjarlið. Hann var með aðeins daufari sinaviðbrögð á þríhöfða hægra megin en annars ekkert ákveðið athugavert við taugaskoðun efri útlima. Það var erfitt að prófa krafta í hægri handlegg vegna verkja.
Hann var mjög stirðlegur við hreyfingar vegna verkja í brjósthrygg. Taugaskoðun ganglima var eðlileg.“
Eftir þetta hafi stefnandi farið í sjúkraþjálfun með takmörkuðum árangri. Hafi stefnandi verið frá vinnu í u.þ.b. sex mánuði og á þeim tíma hafi hann fundið fyrir miklum verkjum á milli herðablaða sem leitt hafi upp í höfuð og niður í bak. Jafnframt hafi hann fundið fyrir doða í höndum. Sökum þessa og áfallastreituröskunar hafi stefnandi átt mjög erfitt með svefn á þessu tímabili.
Hinn 23. maí 2003 hafi stefnandi farið í endurhæfingu á Reykjarlundi og verið þar til 5. ágúst 2003. Á þessum tíma hafi stefnanda tekist að styrkja sig eilítið og líðan batnað að einhverju marki. Á Reykjarlundi hafi stefnandi hlotið verkjameðferð hjá Magnúsi Ólafssyni lækni. Í vottorði Magnúsar, dags. 14. mars 2004, segi m.a:
„Brjósthryggur er fremur flatur og hreyfingar í baki allar fremur stirðar, þó sérstaklega í efri brjósthrygg. Góðar hreyfingar í axlaliðum og álagspróf benda ekki til sina- eða sinafestumeina í axlagrind. Veruleg eymsli eru bakvöðvum og einnig yfir hryggjartindi í brjóstbakinu, einkum frá TH: VI¬TH:VIII. Taugaskoðun er eðlileg.”
Vegna verulegra svefntruflana, [... ]hafi stefnandi hitt Ingólf S. Sveinsson geðlækni. Í vottorði hans, dags. 10. júní 2004, segi m.a:
„Þröstur sem verið hafði verið hraustur maður fyrir lenti í harkalegu slysi í vondu veðri þann 11. nóvember 2002 um borð í Víði EA 910. Hann slasaðist meðal annars á baki og öxl við fall niður stiga í vélarrúmi skipsins.
Þótt þarna hafi ekki brotnað bein varð þetta mjög slæmur áverki, væntanlega vegna tognana. Annar hluti áverkans var sá að hann upplifði ýtrustu skelfingu, fann sig um stund vera lamaðan og hjálparvana er hann vaknaði upp breyttu í vitundarástandi í myrkri daginn eftir slysið. (Different State of Consciousness). Sú reynsla festist í honum og er kölluð áfallastreita (P.T.S.D.) og varð efni í martraðir mánuðum saman eftir slysið.
Hann fékk ófullnægjandi meðferð í nokkra mánuði eftir slysið og var þar verst að hann varð fyrir miklu langvarandi svefntapi og verkir breiddust út eins og alltaf gerist þegar þreyta, spenna og streita hækkar vöðvaspennuna.
Á Reykjarlundi tókst að snúa þróun mála við hægt og hægt og útskrifaðist hann þaðan bjartsýnn. Meðferðin hafði hins vegar ekki skilað neinni verkfærni. Hann þurfti áframhaldandi meðferð. Í framhaldinu kom bakslag og varð hann mjög hrakinn og vonlaus í nóvemberbyrjun 2003. Var þá meðferðin endurskoðuð. Hæg framför í gangi síðan og hefur sjúklingur stundað meðferð mjög vel og gerir enn.
Ástand hans í júní 2004 er þannig að hann hefur ekki úthald til þriggja klukkustunda léttrar vinnu. Hann hefur endurheimt minni og einbeitingu og andlegt ástand er mun betra. Notar verulegt magn lyfja til að hafa svefn sæmilegan, þarf [...] og nokkurt magn verkja- og gigtarlyfja. Verkir koma í brjósthrygg og axlir við álag, þreytu og vissar svefnstellingar. Hann er alls ófær til að starfa á sjó og vart líkur á að hann geti nokkurn tímann unnið svo erfiða vinnu. Einnig ófær til annarra starfa en Þröstur er marksækinn maður og væntanlega mun hann halda áfram að bæta færni sína sem hann getur. Árangurinn kemur hægt. Spádómar um vinnufærni eiga ekki við enn sem komið er.“
Þremur árum eftir slysið, þ.e. sumarið 2005, hafi stefnandi flutt til Spánar. Á meðan á dvöl á hans á Spáni stóð hafi hann talið sig hafa náð töluverðum heilsufarslegum bata. Tveimur árum síðar hafi stefnandi á hinn bóginn ákveðið að flytja aftur til Íslands. Eftir að hafa dvalið á Íslandi í skamman tíma hafi stefnanda farið að versna aftur og fundið fyrir miklum verkjum og stirðleika.
Vegna slyssins hafi verið aflað mats læknanna Atla Þórs Ólasonar og Leifs N. Dungal um afleiðingar slyssins. Í matsgerð þeirra, dags. 15. september 2004, hafi verið komist að eftirfarandi niðurstöðum:
Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. skbl.:
o 100% frá 11. nóvember 2002 til 5. ágúst 2003.
Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl.:
o Rúmliggjandi: 26. maí 2003 til 5. ágúst 2003
o Batnandi án þess að vera rúmliggjandi: 11. nóvember 2002 til 5. ágúst 2003.
Stöðugleikatímapunktur:
o 5. ágúst 2003.
Varanlegur miski skv. 4. gr. skbl.:
o 20%
Varanleg örorka skv. 5. -7. gr. skbl.:
o 20%
Hefðbundin, varanleg læknisfræðileg örorka:
o 20%
Stefnandi hafi verið verulega ósáttur við framangreinda matsgerð og talið að matsmenn hefðu verulega vanmetið afleiðingar slyssins, þ.e. miska og varanlega örorku, og ranglega áætlað stöðugleikatímapunkt. Hafi hann komið óánægju sinni á framfæri við þáverandi lögmann sinn með bréfi, dags. 4. október 2004, þar sem gerðar séu ítarlegar athugasemdir við matsgerðina.
Með bréfi lögmannsins, dags. 11 október 2004, hafi þess verið farið á leit við matsmenn að örorkumatið yrði endurskoðað og tillit tekið til athugasemda stefnanda sem fylgt hafi bréfinu. Í bréfinu segi nánar tiltekið:
„Eins og sést á meðfylgjandi ljósriti í tvíriti af bréfi Þrastar til undirritaðs ásamt fylgigögnum, gerir hann sundurliðaðar athugasemdir við örorkumatið, eins og fram kemur í athugasemdum hans og fylgigögnum, sem vísast til.
Með vísan til þessara athugasemda Þrastar er ljóst, að hann er að óska eftir því við ykkur örorkumatslæknana, að örorkumatið verði endurskoðað og væntanlega tekið tillit athugasemda að öllu eða einhverju leyti.“
Í bréfi matsmanna, dags. 18. október 2004, er erindi aðalstefnda svarað og segir þar orðrétt:
„Matsmenn hafa farið ítarlega yfir framlögð gögn og athugasemdir og varpa þær skýrara ljósi á málavexti. Athugasemdir breyta hins vegar ekki niðurstöðu matsgerðarinnar. Matsmenn benda á að ef ágreiningur kemur upp um niðurstöðu matsgerðarinnar getur annarhvor málsaðila óskað eftir áliti Örorkunefndar samkvæmt 10. gr. skaðabótalaga.“
Stefnandi hafi verið mjög ósáttur við þessar málalyktir en ákveðið engu að síður að gera málið upp við stefnda, Tryggingamiðstöðina hf., enda hefði hann fengið fullvissu frá lögmanni sínum um að málinu „yrði ekki lokað“, þ.e. það yrði gert upp með fyrirvara um varanlegar afleiðingar slyssins. Mál stefnanda hafi verið gert upp án nokkurs fyrirvara og fullnaðarkvittun gefin út hinn 7. desember 2004, stefnanda óafvitandi.
Með matsbeiðni, dags. 8. janúar 2008, fór stefnandi þess á leit við örorkunefnd, skv. heimild í 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, að nefndin léti í ljós álit sitt á varanlegum afleiðingum slyss stefnanda hinn 11. nóvember 2002. Í niðurstöðum nefndarinnar, dags. 28. júlí 2009, segir m.a.:
„Eftir vinnuslysið 11. nóvember 2002 varð tjónþoli óvinnufær og hefur ekki snúið aftur til vinnu. Hann hefur verið metinn til meira en 75% örorku hjá Tryggingarstofnun ríkisins með endurmati í ágúst 2010. Tjónþoli er í mati hjá Tryggingarstofnun talinn hafa langvinn verkjaheilkenni, vefjagigt og þjást af áfallahugröskun.
Tjónþoli hefur leitað til ýmissa aðila til þess að fá betri líðan en lítið orðið ágengt. Hann hefur ekki getað unnið og ekki treyst sér til þess að læra annað þó hann hafi reynt. Hann vann í tómstundum við framleiðslu úr hrauni „Perlur og tár“ en seldi fyrirtækið þar sem hann treysti sér ekki að reka það lengur. Hann getur í dag lítið sinnti þyngri störfum á sínu heimili og hefur dregið mjög úr sínum frítímaáhugamálum.
Við skoðun þá var að finna einkenni eins og geta sést við tognun á hálshrygg og baki. Þá var að finna einkenni eins og sjást við áfallahugröskun. Gerð var ný segulómun af hálfi og brjósthrygg sem leiddi í ljós vægar slitbreytingar.“
Samantekið voru niðurstöður Örorkunefndar eftirfarandi:
Stöðugleikatímapunktur:
o 5. ágúst 2003
Tímabundið atvinnutjón, sbr. 2. gr. skbl.:
o 100% frá 11. nóvember 2002 til 5. ágúst 2003 S cs)
Þjáningabætur, sbr..3. gr. skbl.:
o Veikur frá 11. nóvember 2002 til 5. ágúst 2003
o Rúmliggjandi: 11. nóvember 2002 til 17. nóvember 2002 og frá 26. maí 2003 til 5. ágúst 2003.
Varanlegur miski, sbr. 4. gr. skbl.:
o 20%
Varanleg örorka, sbr. 5.-7. gr. skbl.:
m 70%
Með bréfi, dags. 7. október 2009, gerði stefnandi kröfu á hendur stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., um greiðslu bóta vegna varanlegrar örorku stefnanda. Bótakrafan hafi verið reist á áliti örorkunefndar og numið mismun á niðurstöðu nefndarinnar og matsgerðar Atla Þórs Ólasonar og Leifs N. Dungal, við mat á varanlegri örorku, þ.e. 38.692.830 krónum (70% - 20% = 50% x 6.131.500 x 12,621). Í kröfubréfinu var því m.a. haldið fram að lögmaður hans hafði sýnt af sér slíka vanrækslu við uppgjör málsins að skilyrði hefðu skapast fyrir bótaskyldu úr starfsábyrgðartryggingu lögmannsins. Í kröfubréfinu var því jafnframt borið við að endurupptökuskilyrði 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 væru fyrir hendi.
Með bréfi stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., dags. 4. nóvember 2009, hafi kröfum stefnanda alfarið verið hafnað og sé því stefnanda nauðugur kostur að höfða mál til innheimtu bóta vegna varanlegrar örorku sem rekja megi til vinnuslyss hans hinn 11. nóvember 2002.
Stefnandi telur sig hafa orðið fyrir tjóni, er nemi mismun niðurstöðu örorkunefndar og matsgerðar Atla Þórs Ólasonar og Leifs N. Dungal á varanlegri örorku stefnanda.
Í kröfugerð á hendur aðalstefnda er krafist vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 16. desember 2005 til 7. nóvember 2009, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.
Telji dómurinn, þrátt fyrir niðurstöðu örorkunefndar, að hinar auknu afleiðingar hafi komið til eftir að Atli Þór Ólason og Leifur N. Dungal framkvæmdu umrædda matsgerð, er á því byggt að skilyrði séu til endurupptöku málsins á hendur varastefnda með vísan til 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, enda hafi þá átt sér stað ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsu stefnanda. Þá séu breytingarnar verulegar en munur á matsgerð örorkunefndar og fyrrgreindu mati nemi 50% til hækkunar á varanlegri örorku. Um málavexti og útreikning bótakröfunnar vísast til umfjöllunar hér að framan en bótakrafan byggi á mati örorkunefndar. Samkvæmt vátryggingaskilmálum varastefnda séu bótafjárhæðir reiknaðar samkvæmt skaðabótalögum.
Kröfur stefnanda á hendur stefnda styðjist við kjarasamninga sjómanna, 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985, vátryggingaskilmála varastefnda vegna slysatryggingar sjómanna, skaðabótalög nr. 50/1993, með síðari breytingum og almennar ólögfestar reglur íslensks réttar um skaðabætur en Samherji hf., þ.e. útgerðin, var með gilda slysatryggingu hjá varastefnda á tjónsdegi.
Í kröfugerð stefnanda er krafist 4,5% vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá 16. desember 2005 til 7. nóvember 2009, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.
Kröfur stefnanda styðjast við skaðabótalög nr. 50/1993, með síðari breytingum og almennar ólögfestar reglur íslensks réttar um skaðabætur, þ.á m. sakarregluna. Einnig vísar stefnandi kröfum sínum til stuðnings til siglingalaga nr. 34/1985.
Krafa um vexti á hendur aðalstefnda byggist á 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum. Krafa um dráttarvexti byggist á III. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, einkum 1. mgr. 6. gr. og 9. gr. laganna.
Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur aðili skv. lögum nr. 50/1988 og ber því nauðsyn til að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.
Óumdeilt er í máli þessu að á þeim tíma er hér um ræðir var í gildi slysatrygging sjómanna hjá varastefnda TM hf. vegna skipverja ms. Víðis EA 910.
Um þá trygginguna giltu skilmálar stefnda nr. 781.
Bótaskylda er jafnframt viðurkennd, enda hafi stefndi gert upp tjón stefnanda 7. desember 2004 samkvæmt örorkumati læknanna Atla Þórs Ólasonar og Leifs N. Dungal, sem aðal og varastefndi hafi aflað sameiginlega.
Skilja verði málatilbúnað stefnanda á þann veg að hann telji að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu sinni frá því upphaflegt uppgjör átti sér stað 7. desember 2004 , sem hafi leitt til verulegrar hækkunar á varanlegri örorku úr 20 % í upphaflegu mati í 70 % í álitsgerð örorkunefndar.
Um heilsufarlegar breytingar sínar vísi stefnandi til álitsgerðar örorkunefndar frá 28. júlí 2009.
Stefndi mótmælir niðurstöðum örorkunefndar en í álitsgerð hennar virðist ekki að neinu leyti tekið tillit til alvarlegs slyss sem stefnandi hafi lent í árið 1993 og hafi þá verið metinn til 30% varanlegrar örorku og m.a. greindur með persónuleikabreytingar vegna framheilaskaða vegna þess.
Álitsgerðin hafi því ekki sönnunargildi í málinu og hnekki ekki hinu upphaflega mati þeirra Atla Þórs Ólasonar og Leifs N. Dungal, sem lagt hafi verið til grundvallar uppgjörinu 7. desember 2004 og þegar af þeirri ástæðu verði að sýkna stefnda þar sem stefnandi hafi ekki sannað að málsástæður hans að þessu leyti eigi við rök að styðjast og vafalaust sé að sönnunarbyrðin sé hans.
Hvað sem því líði telur stefndi að niðurstöður álitsgerðar örorkunefndar heimili ekki endurupptöku samkvæmt 11. grein skaðabótalaga.
Skilyrðin sem uppfylla þurfi séu tvö, annars vegar að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola og jafnframt að miska eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið.
Bæði skilyrðin þurfi að uppfylla til þess að endurupptaka sé heimil.
Við samanburð á matsgerð þeirra Atla Þórs og Leifs og álitsgerð örorkunefndar sé ljóst að sú sé ekki raunin.
Sama miskastig, 20 %, sé metið í báðum matsgerðunum, en það sé miskinn, sem mæli hina raunverulegu heilsufarsskerðingu, þ.e. hefðbundna læknisfræðilega örorku.
Þá séu hinir upphaflegu matslæknar og örorkunefndin sammála um stöðugleikapunktinn, þ.e. hinn 5. ágúst 2003.
Hér sé því ekki um það að ræða að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda frá hinu upphaflega uppgjöri og skilyrði endurupptöku því ekki fyrir hendi.
Varanleg örorka sé vissulega metin mun hærri í álitsgerð örorkunefndar, 70 % í stað 20% í upphaflega matinu, en miðað við fyrirliggjandi gögn sé það ekki breyting á heilsufari sem valdi því.
Í greinargerð með 11. grein skaðabótalaga sé sérstaklega tekið fram að ekki sé heimilt að beita ákvæðinu þó örorkustig reynist hærra en áður hafi verið gert ráð fyrir, ef ástæða þess sé ekki breyting á heilsu tjónþola.
Það sé því ljóst að ekki séu hér lagaskilyrði til þess að verða við kröfu stefnanda um endurupptöku uppgjörsins frá 7. desember 2004 og því beri að sýkna varastefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.
Vaxtakröfu sé mótmælt, enda eigi hún ekki stoð í lögum.
Vextir áfallnir fyrir 16. desember 2005 séu fyrndir, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905 og vegna fyrrnefndra galla á gagnaöflun stefnanda geta engin efni verið til þess að fallast á dráttarvaxtakröfu hans, nema þá í fyrsta lagi frá dómsuppsögu, verði kröfur hans að einhverju leyti teknar til greina.
NIÐURSTAÐA
Ágreiningur aðila snýst um það hvort skilyrði séu til þess að taka upp að nýju ákvörðun um bætur samkvæmt uppgjöri aðila frá 7. desember 2004 sem byggt var á mati læknanna dr. Atla Þórs Ólasonar og Leifs N. Dungal frá 15. september 2004.
Samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er heimilt að kröfu tjónþola að taka upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorkubætur. Skilyrði endurupptöku er að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. Ef mál er endurupptekið er heimilt að skjóta ákvörðun um miskastig eða örorkustig aftur til úrlausnar örorkunefndar, sbr. 10. gr.
Samkvæmt ákvæði þessu eru skilyrði endurupptöku annars vegar að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola og að af því leiði að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið.
Í mati læknanna frá 15. september 2004 er komist að þeirri niðurstöðu að batahvörf miðist við 5. ágúst 2003, varanlegur miski stefnanda skv. 4. gr. skaðabótalaga sé 20%, varanleg örorka skv. 5. gr. skaðabótalaga sé 20% og að hefðbundin læknisfræðileg örorka sé 20%.
Í álitsgerð örorkunefndar eru batahvörf sögð 5. ágúst 2003, varanlegur miski 20% og varanleg örorka stefnanda 70%.
Í beiðni lögmanns stefnanda til örorkunefndar er þess óskað að nefndin meti hver sé varanleg örorka tjónþola vegna slyss hans 11. nóvember 2002, hver sé varanlegur miski vegna afleiðinga slyssins, hvert sé tímabil þjáningabóta stefnanda, hvert sé tímabundið atvinnutjón stefnanda og hver sé stöðugleikapunktur samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 37/1999. Eins og sést af þessari upptalningu var þess ekki óskað að því yrði svarað hvort ófyrirsjáanlegar breytingar hefðu orðið á heilsu stefnanda. Álitsgerð örorkunefndar og niðurstaða matsmanna um batahvörf og varanlegan miska stefnanda eru samhljóða en þau atriði lúta að heilsufari hans og þykja ekki gefa vísbendingu um að breytingar hafi orðið á heilsufari stefnanda frá því sem sjá mátti fyrir er aðila gerðu upp tjón hans hinn 7. desember 2004. Sú staðreynd að örorkunefnd mat varanlega örorku stefnanda mun hærri en lagt var til grundvallar við uppgjör nægir ekki ein og sér til þess að fallist verði á það með stefnanda að skilyrði séu til þess að endurupptaka ákvörðun um bætur frá 7. desember 2004.
Samkvæmt þessu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda en málskostnaður fellur niður.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp þennan dóm.
DÓMSORÐ
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., skal sýkn af kröfum stefnanda, Þrastar Sigmundssonar.
Málskostnaður fellur niður.