Hæstiréttur íslands

Mál nr. 233/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Mánudaginn 7

 

Mánudaginn 7. júní 2004.

Nr. 233/2004.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Sigmundur Hannesson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. júní 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 16. júní 2004 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Fyrir liggur að varnaraðili kom hingað til lands ásamt tveimur öðrum mönnum 6. maí 2004 og framvísaði fölsuðu vegabréfi. Ætluð brot hans geta varðað hann fangelsisrefsingu samkvæmt 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og II. og III. kafla laga nr. 96/2002 um útlendinga. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sbr. og 6. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002, til að beita varnaraðila gæsluvarðhaldi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2004.

             Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að dómurinn úrskurði að X, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 16. júní 2004 kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglustjórans í Reykjavík komi fram að embætti ríkislögreglu­stjórans hafi gefið út beiðni til lögregluyfirvalda um handtöku 3 manna […] X, […], sem hafi komið til […] maí sl., en þeir hafi framvísað vegabréfum við eftirlit og hafi þeim verið hleypt inn í landið. Við eftirgrennslan lögreglu 25. maí sl. hafi þremenningarnir verið handteknir í húsnæði að […] þar sem þeir hefðu leigt sér herbergi. Þeir hafi framvísað vegabréfum sem hafi gefið til kynna að þeir væru hinir eftirlýstu. Eftir handtökuna og flutning á lögreglustöð hafi þeir óskað eftir hæli. Við nánari skoðun á vega­bréfum hafi komið í ljós að þau hafi verið fölsuð og liggi fyrir að einu þeirra hafi verið stolið í innbroti í Danmörku […] apríl sl. Dönsk lögregluyfirvöld hafi óskað aðstoðar íslenskra lögreglu­yfirvalda við rannsókn þess máls. 

Með úrskurði héraðsdóms hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag, 2. júní, kl. 16:00. Einn hinna kærðu hafi skotið málinu til Hæstaréttar með kæru 27. maí 2004 og með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 224/2004 hafi úrskurður héraðsdóms verið staðfestur.

Unnið sé að rannsókn málsins í samvinnu við alþjóðadeild ríkislögreglustjórans, Interpol og dönsk lögregluyfirvöld.  Rannsóknin beindist að því að staðfesta hverjir þremenningarnir væru, upplýsa um ferðir þeirra og hugsanlega vitorðsmenn, þekkta sem óþekkta, hér á landi, upplýsa um hina meintu fölsun og notkun vegabréfanna og veita dönsku lögreglunni rannsóknaraðstoð. Því beindist rannsókn lögreglu að því hvort kærði ætti aðild að brotum gegn útlendingalöggjöfinni og almennum hegningarlögum.

Enn sé óvíst hver kærði sé raunverulega, en nafn í vegabréfi því sem hann framvísaði sé ekki hið sama og það sem hann hafi gefið upp hjá lögreglu. Af hálfu ríkislögreglustjóra hafi fingrafarasýni kærða verið sent Interpol í því skyni að bera kennsl á hann. Komið hafi í ljós í því sambandi að kærði sé þekktur undir ýmsum nöfnum í nokkrum löndum, m.a. í Þýskalandi og Noregi.

Kærði hafi kannast við að hafa keypt vegabréf til þess að koma til landsins og ljóst sé að kærði hafi framvísað fölsuðu vegabréfi við komuna hingað. Þá liggi fyrir að þremenningarnir hafi látið hjá líða að tilkynna yfirvöldum um veru sína hér eins og skylt sé samkvæmt 1. mgr. 4. gr. útlendingalaga nr. 96/2002 þrátt fyrir að hafa verið á landinu um tæplega þriggja vikna skeið. Fyrst eftir handtöku hafi komið fram umsókn frá þremenningunum um hæli hér á landi. 

Rökstuddur grunur þyki vera kominn fram um skjalafals opinberra ferðaskilríkja sem notuð hafi verið til að blekkja landamæraverði og fyrir liggi rökstuddur grunur um brot gegn útlendingalögum og hugsanleg tengsl við innbrot í Danmörku.  Óvíst sé hver kærði sé og hver hafi verið tilgangur komu hans til landsins. Ekki sé hægt að útiloka að meint brot kærða kunni að tengjast skipulagðri alþjóðlegri brotastarfsemi.

Rannsókn lögreglu hafi og leitt í ljós að þremenningarnir hafa átt í talsverðum samskiptum við mann á Íslandi. Sá maður hafi gefið sig fram við lögreglu eftir að hans hafði verið leitað en sterkur rökstuddur grunur sé um að hann hafi veitt aðstoð við eða skipulagt ólöglega komu þremenningana hingað til lands, sbr. f-lið 2. mgr. og 3. mgr. 57. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002.  Að mati lögreglu þyki vera kominn fram rökstuddur grunur um aðild kærða að meintum brotum þess manns, en þau brot varði við framan­greind lagaákvæði. 

[...]

             Meint brot gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga geti varðað fangelsi allt að 8 árum. Meint brot gegn f-lið 2. mgr. og 3. mgr. 57. gr. laga um útlendinga geti varðað fangelsi allt að 6 mánuðum eða 6 árum ef um skipulagða brotastarfsemi sé að ræða. Önnur brot gegn II. og III. kafla laga nr. 96/2002 geti varðað fangelsi, sbr. 57. gr. laganna.

Ljóst sé að hér sé um mjög óvenjulegt sakarefni að ræða og að rannsókn málsins sé þung í vöfum en sá tími sem krafist er að kærði sæti gæsluvarðhaldi taki mið af því.  Meðal annars sé nauðsynlegt að afla gagna frá útlöndum.

             Verið sé að rannsaka meint brot gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og II. og III. kafla um útlendinga nr. 96/2002.  Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

 

             Af gögnum málsins verður ráðið að rannsókn lögreglunnar beinist að því að upplýsa meðal annars hver þáttur kærða sé í hinni meintu skipulögðu starfsemi sem talin er rekin í hagnaðarskyni og felist í aðstoð við útlendinga við að koma ólöglega til landsins. Fyrir liggur að kærði kom til landsins 6. maí sl. með falsað vegabréf sem hann hefur viðurkennt að hafa notað með því að framvísa því við yfirvöld er hann kom hingað. Brot hans getur varðað fangelsisrefsingu samkvæmt 1. mgr. 155. gr. almennra hegningar­laga og 2. og 3. mgr., sbr. 6. mgr. 57. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002. Rannsókn á hinum meintu brotum er ekki lokið. Verður með vísan til þessa að telja nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi áfram, ella kynni hann að torvelda rannsóknina. Er því fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála fyrir því að gæsluvarðhaldskrafan verði tekin til greina. Ekki þykja efni til að ákveða styttri gæsluvarðhaldstíma.

Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 16. júní 2004 kl. 16.00