Hæstiréttur íslands

Mál nr. 614/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Innsetningargerð
  • Vitni


                                     

Þriðjudaginn 29. september 2015.

Nr. 614/2015.

Háfell ehf.

(Guðbjörg Anna Guðbjörnsdóttir hdl.)

gegn

Lýsingu ehf.

(Árni Ármann Árnason hrl.)

Kærumál. Innsetningargerð. Vitni.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu H ehf. um að leiða vitni fyrir héraðsdóm við aðalmeðferð í máli L hf. gegn H ehf. Í niðurstöðu Hæstaréttar var rakið að L hf. hafi lagt fram í málinu ýmis skjöl sem hann telji styðja kröfur sínar um að tilgreindir munir verði teknir úr vörslum H ehf. og fengnir sér samkvæmt 78. gr. laga nr. 90/1989. Ef vafi leiki á því að sú krafa verði tekin til greina á grundvelli þeirra skjala eða annarra sýnilegra sönnunargagna, vegna þeirra varna sem H ehf. hafi uppi, beri að synja um framgang aðfaragerðarinnar, sbr. síðari málslið 3. mgr. 83. gr. laganna.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. september 2015, sem barst réttinum 15. sama mánaðar, en kærumálsgögn bárust 23. þess mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. ágúst 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að leiða vitni fyrir héraðsdóm í máli varnaraðila gegn sóknaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur lagt fram í málinu samninga aðila, útprentanir úr ökutækja- og vinnuvélaskrám auk annarra skjala sem hann telur styðja kröfu sína um að tilgreindir munir verði teknir úr vörslum sóknaraðila og fengnir sér samkvæmt 78. gr. laga nr. 90/1989. Ef vafi leikur á að sú krafa verði tekin til greina á grundvelli þessara skjala eða annarra sýnilegra sönnunargagna, vegna þeirra varna sem sóknaraðili hefur uppi, ber að synja um framgang aðfarargerðarinnar, sbr. síðari málslið 3. mgr. 83. gr. laganna. Yrði varnaraðili þá að leita sér aðfararheimildar með því að höfða almennt einkamál, þar sem ekki gilda sömu takmarkanir á sönnunarfærslu.

Að þessu gættu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans að öðru leyti og sóknaraðila gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Háfell ehf., greiði varnaraðila, Lýsingu ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. ágúst 2015.

Mál þetta barst Héraðsdómi Reykjavíkur með bréfi mótteknu 11. febrúar sl. Gerðarbeiðandi er Lýsing hf., Ármúla 1, Reykjavík. Gerðarþoli er Háfell ehf., Skeifunni 11, Reykjavík.

Gerðarbeiðandi krefst í málinu dómsúrskurðar um að eftirtalin tæki verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum gerðarþola og fengin undirrituðum f.h. gerðarbeiðanda:

-          Ford Transit 300m Double Cab, fastanr. OY 604, árgerð 2008.

-          Komatsu PC450LC-7 beltagrafa, fastanr. EB 1243, árgerð 2006, ásamt neðangreindum fylgihlutum:

§  Miller MILL-PC450-BUG hraðtengi, skráningarnr. 103111, árgerð 2006.

§  Miller MILL-PC450-MB700 skófla, skráningarnr. 112957, árgerð 2006.

-          Komatsu HM 300-2 námubifreið, fastanr. EX T88, árgerð 2007.

-          Man TGA 41.440 vörubifreið m/palli, fastanr. TG S28, árgerð 2007.

-          Komatsu PC450LC-8 beltagrafa, fastanr. EB 1380, árgerð 2007.

-          Lagendorf SKS HS 20/28 malarvagn m/yfirbreiðslu, fastanr. SL R10, árgerð 2007.

-          Vökvafleygur MS55 AT, vörunúmer MS55AT-071-001, árgerð 2008.

-          Man TGA 26.480 dráttarbifreið, fastanr. RM F34, árgerð 2008.

-          Man TGA 41.440 vörubifreið m/palli, fastanr. BJ L76, árgerð 2008.

-          Mercedes Benz Atego sendibifreið, fastanr. UA 598, árgerð 2002.

-          Komatsu PC210LC-8 beltagrafa, fastanr. EB 1372, árgerð 2007, ásamt neðangreindum fylgihlutum:

§  ENGCON PUB80B Rotortilt, skráningarnr. M28047, árgerð 2007.

§  Miller R6-96“-DCB-80MM skófla, skráningarnr. 135099, árgerð 2007.

§  Miller R6-30“-S-MB6 skófla, skráningarnr. 126091, árgerð 2007.

-          Komatsu PW 140-7 hjólagrafa, fastanr. EA 0532, árgerð árgerð 2008, ásamt neðangreindum fylgihlutum:

§  ENGCON PUP65A Rotortilt, skráningarnr. M30933, árgerð 2008.

§  Miller R4-42“-S-MB5 skófla, skráningarnr. 126082, árgerð 2007.

§  Miller MILL-PW130-MB500 skófla, skráningarnr. 104469, árgerð 2006.

-          Hæðarmælir, skv. reikningi nr. 3933.

-          Lagendorf malarvagn, fastanr. VG 574, árgerð 1999.

-          Trimble GPS búnaður, skv. reikningi nr. 3937.

-          Komatsu PC 27 smágrafa, fastanr. IM 0386, árgerð 2004.

-          Rammer vökvafleygur, fastanr. DB 0909, árgerð 2004.

-          Caterpillar D6M jarðýta, fastanr. GB 0569, árgerð 1999.

-          Finlay 393 Hydrascreen (harpa), fastanr. SH 0120, árgerð 2001.

-          Gufutæki, fastanr. 151744, raðnúmer 2417.

-          Compair C62 loftpressa, fastanr. 151748, raðnúmer 1710003.

-          Topcon TP-L4G röraleiser, fastanr. 151752, raðnúmer VD1770.

-          Topcon RL-H1SA röraleiser, fastanr. 151756, raðnúmer UZ9047.

-          Topcon TP-L4G röraleiser, fastanr. 151760, raðnúmer VD2039.

-          Ritmo plastsuðuvél, raðnúmer 05550051.

-          Widos plastsuðuvél, raðnúmer 07sw51n10066.

-          Steypumót skv. fylgiskjali reiknings nr. 4026.

-          San Tip 11t sturtuvagn, skráningarnr. 144784, árgerð 2007,

-          Van Hool 3B0045 flatvagn, fastanr. TV 612, árgerð 1995.

-          Komatsu PW 160-7 hjólagrafa, fastanr. EA 0494, árgerð 2007.

Þá krefst gerðarbeiðandi málskostnaðar.

Gerðarþoli krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, til vara að kröfu gerðarbeiðanda verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar.

Af hálfu dómsins hefur verið ákveðið að flytja málið samhliða um form og efni.

Málið var tekið til úrskurðar 24. ágúst sl. um fram komna kröfu gerðarþola um að honum verði heimilað að leiða sem vitni til skýrslugjafar við aðalmeðferð málsins

Jóhann Gunnar Stefánsson, Kristínu Magnúsdóttur, Eið Haraldsson, Sigurbjörgu Leifsdóttur, Elvar Daða Eiríksson og Þorstein Magnússon, en um er að ræða fyrrverandi og núverandi starfsmenn aðila.

Gerðarbeiðandi mótmælir kröfu gerðarþola um að leiða ofangreind vitni.

Málvextir og helstu málsástæður aðila

                Aðilar hafa gert með sér fjármögnunarleigusamninga um framagreindar bifreiðar og tæki sem gerðarþoli, sem er verktakafyrirtæki sem sérhæfir sig í jarðvegsframkvæmdum og ýmiss konar mannvirkjagerð, hefur nýtt við verkframkvæmdir sínar. Gerðarbeiðandi vísar til stuðnings aðfarabeiðni m.a. til þess að gerðarþoli hafi vanrækt að greiða gerðarbeiðanda leigugjald af umræddum samningum. Þá hafi gerðarþoli vanrækt að greiða bifreiðagjöld, þungaskatt og vinnueftirlitsgjöld af fjölmörgum bifreiðum, vélum og tækjum og hafi kostnaður vegna þess fallið á gerðarbeiðanda. Enn fremur hafi lögboðnar ábyrgðartryggingar fjölda bifreiða og véla verið felldar niður vegna vanskila gerðarþola. Gerðarþoli hafi ekki orðið við ítrekuðum tilmælum um greiðslu vanskilanna og gerðarbeiðandi því rift fjármögnunarleigusamningunum vegna fyrrgreindra vanskila þann 4. júlí 2013. Þar sem gerðarþoli hafi ekki staðið í skilum samkvæmt fjármögnunarleigusamningunum og neitað að afhenda gerðarbeiðanda eignir sínar sé krafist umráða yfir tækjunum með tilvísun í 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Ágreiningur er með aðilum hvort umræddir samningar séu um leigu eða lán. Gerðarþoli telur að um lánssamninga sé að ræða og hefur höfðað dómsmál þar sem hann krefst þess að viðurkennt verði með dómi að samningar þeir sem eru grundvöllur aðfararbeiðni þessarar, að undanskildum tveimur samningum, hafi falið í sér ólögmæta verðtryggingu samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Telur gerðarþoli að verði fallist á þá viðurkenningarkröfu standi hann ekki í skuld við gerðarbeiðanda vegna afborgana skv. samningunum heldur eigi hann þvert á móti fjárkröfu á hann.

Til stuðnings því að gerðarþola verði heimilað að leiða umrædda fyrrverandi og núverandi starfsmenn aðila sem vitni í málinu vísar  hann til þess að þeir hafi komið að gerð samninga þeirra sem um ræðir í málinu. Hafi vitnisburður þeirra þýðingu við mat á því hvort um sé að ræða leigu eða lánssamninga. Miklir hagsmunir séu í húfi í málinu og því sé nauðsyn á að þeir komi fyrir dóminn.

Gerðarbeiðandi vísar til þess að skv. 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 um aðför sé meginreglan sú að vitnaleiðslur fari ekki fram. Sé vafi um rétt gerðarbeiðanda til aðfarar beri hann hallann af sönnun í málinu og verði þá að hafna aðfararbeiðni.

Niðurstaða

Mál þetta er rekið á grundvelli 13. kafla laga nr. 90/1989 um aðför. Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 83. gr. laganna skulu mats- og skoðunargerðir og vitnaleiðslur að jafnaði ekki fara fram þegar mál er rekið eftir 13. kafla laganna. Í athugasemdum með frumvarpi því, er varð að nefndum lögum, kemur fram að regla þessi eigi sér stoð í því viðhorfi að ætlast er til að aðfararhæfar kröfur séu það skýrar að þær þarfnist ekki stuðnings af sönnunargögnum sem þessum. Ef brestur er á því beri að jafnaði að hafna aðför, sbr. 3. mgr. 83. laganna. Eftir venju beri að skýra heimild til að víkja frá banni við sönnunarfærslu af þessu tagi þröngt. Að mati dómsins hefur gerðarþoli ekki fært fullnægjandi rök fyrir því að í máli þessu standi svo sérstaklega á að efni séu til að víkja frá áðurnefndri meginreglu 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989. Verður því að hafna kröfu hans um að leiða vitni við aðalmeðferð málsins.

Málskostnaðar var ekki krafist í þessum þætti málsins.

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 15. júní sl.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu  gerðarþola, Háfells ehf., um að leiða vitni til að gefa skýrslu við aðalmeðferð máls þessa, er hafnað.