Hæstiréttur íslands

Mál nr. 331/2015

Tryggingamiðstððin hf. (Valgeir Pálsson hrl.)
gegn
A (Bryndís Guðmundsdóttir hrl.)
og gagnsök

Lykilorð

  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Skaðabætur
  • Gjafsókn

Reifun

A hlaut líkamstjón þegar ekið var aftan á bifreið sem hún ók árið 2011. Í málinu var deilt um hvort gera ætti upp bætur fyrir varanlega örorku hennar á grundvelli lágmarkstekjuviðmiðs 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eða hvort ákvarða bæri árslaun A sérstaklega á grundvelli 2. mgr. sama ákvæðis. A hafði lokið við rúmlega helming af grunnnámi í hjúkrunarfræði á slysdegi og lauk því námi á tilsettum tíma. Með skírskotun til fyrri dóma Hæstaréttar í málum þar sem námsmenn voru ungir að árum og skammt á veg komnir í námi sínu þegar tjónsatvik urðu var niðurstaða Hæstaréttar að við uppgjör á bótum fyrir varanlega örorku A skyldi farið eftir reglu 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. maí 2015. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að tildæmd fjárhæð verði lækkuð og beri 4,5% ársvexti frá 20. janúar 2012 til dómsuppsögudags í Hæstarétti, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags og málskostnaður falli niður. 

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 10. júlí 2015. Hún krefst þess aðallega að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 6.052.951 krónu með 4,5% vöxtum frá 20. janúar 2012 til 13. október sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, að frádreginni greiðslu aðaláfrýjanda 8. október 2012 að fjárhæð 3.227.983 krónur. Til vara krefst hún staðfestingar héraðsdóms, en að því frágengnu að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 4.049.858 krónur með 4,5% vöxtum frá 20. janúar 2012 til 16. nóvember sama ár, en dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, að frádreginni fyrrgreindri greiðslu aðaláfrýjanda. Í öllum tilvikum krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi lýtur ágreiningur aðila eingöngu að því hvort bætur fyrir varanlega örorku gagnáfrýjanda skuli miðaðar við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 6. gr. laga nr. 37/1999, eða hvort árslaun skuli metin sérstaklega þar sem óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Verði fallist á að síðastnefnt ákvæði eigi við deila aðilar um við hvaða laun skuli miða.

Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur því verið slegið föstu að þegar tjónþoli er við nám þegar slys verður, en ekki kominn svo langt á veg að námslok séu fyrirsjáanleg, eigi regla 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga um lágmarkslaun við, sbr. dóma réttarins 13. febrúar 2003 í máli nr. 375/2002, 4. nóvember 2004 í máli nr. 188/2004, 19. desember 2006 í máli nr. 246/2006 og 1. október 2009 í máli nr. 20/2009. Í dómi Hæstaréttar 16. október 2003 í máli nr. 110/2003 hafði tjónþoli lokið 71% náms síns á slysdegi og í dómi réttarins 27. janúar 2005 í máli nr. 280/2004 hafði tjónþoli lokið ⅔ hlutum náms á þeim degi. Samkvæmt því voru tjónþolar taldir hafa verið komnir það langt með nám sitt að þeim voru dæmdar bætur á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.

Er gagnáfrýjandi varð fyrir því slysi, sem mál þetta á rætur sínar að rekja til, var hún 22 ára og hafði lokið 126 námseiningum af þeim 240 einingum sem þarf til að ljúka grunnnámi í hjúkrunarfræði, eða rúmlega helmingi námsins. Af þeim sökum verður ekki talið að námslok hennar hafi verið fyrirsjáanleg á slysdegi. Fær því eigi breytt þótt af hálfu [háskóli] séu taldar 90% almennar líkur á því að nemendur í hjúkrunarfræði við skólann, sem lokið hafa svonefndu „samkeppnisprófi“, svo sem gagnáfrýjandi hafði gert, ljúki náminu. Voru aðstæður gagnáfrýjanda því sambærilegar þeim er greinir í þeim fjórum dómsmálum sem fyrst voru nefnd. Með hliðsjón af þessu verður að fallast á með aðaláfrýjanda að við uppgjör á tjóni gagnáfrýjanda skuli farið eftir 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Þar sem aðaláfrýjandi hefur greitt bætur í samræmi við það verður krafa hans um sýknu tekin til greina.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest, en um gjafsóknarakostnað gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýkn af kröfum gagnáfrýjanda, A.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað. Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 800.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2015.

                Þetta mál, sem var tekið til dóms 16. desember 2014, er höfðað af A, kt. […], […], á hendur Trygg­inga­mið­stöð­inni hf., kt. […], Síðumúla 24, Reykjavík, til heimtu skaðabóta, auk drátt­ar­vaxta, málskostnaðar og virðisaukaskatts.

                Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi greiði henni 6.052.951 krónu með 4,5% vöxtum, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá 20. janúar 2012 til 13. október 2012 en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni greiðslu stefnda, 8. október 2012, að fjárhæð 3.126.977 krónur.

                Stefnandi krefst þess til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 4.049.858 krónur með 4,5% vöxtum, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá 20. janúar 2012 til 16. nóvember 2012 en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðslu­dags, allt að frádreginni greiðslu stefnda, 8. október 2012, að fjárhæð 3.126.977 krónur.

                Stefnandi krefst þess í báðum tilvikum að stefndi greiði henni málskostnað að skað­lausu, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, að teknu tilliti til virðisaukaskatts af mál­flutn­ingsþóknun.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar, sér að skaðlausu, úr hendi hennar.

                Til vara krefst stefndi verulegrar lækkunar á fjárkröfu stefnanda og að máls­kostn­aður verði látinn niður falla.

                Verði bætur að einhverju leyti dæmdar krefst stefnandi þess að þær beri 4,5% árs­vexti frá 20. janúar 2012 til endanlegs dómsuppsögudags, en beri dráttar­vexti, sam­kvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðslu­dags.

Málsatvik

                Stefnandi ók bifreiðinni […] vestur Miklubraut í Reykja­vík, 20. júlí 2011. Þar sem bifreiðin var kyrrstæð í röð bifreiða, til móts við Klambratún, var bifreiðinni […] ekið aftan á bifreið stefnanda. Sú kastaðist við það áfram og hafnaði aftan á þeirri sem stóð fyrir framan hana. Bifreiðin […] var tryggð lög­boð­inni ábyrgð­ar­trygg­ingu bifreiða hjá stefnda á slys­degi. Stefnandi leit­aði á slysa­deild Land­spítala - háskóla­sjúkrahúss samdægurs. Hún hlaut meðal annars höfuð­högg í slys­inu og togn­un­ar­áverka á hryggsúlu.

                Stefnandi og stefndi stóðu sameiginlega að því að óska mats B læknis og C lögmanns á afleiðingum slyssins fyrir stefn­anda. Í matsgerð sinni, dags. 8. september 2012, mátu þeir varanlegan miska stefn­anda 7 stig og varan­lega örorku hennar af völdum slyssins 7%. Þeir töldu jafn­framt að sex mánuðum eftir slysið, 20. janúar 2012, hefði heilsufar stefnanda af völdum þess verið orðið stöðugt, heilsa hennar hefði náð stöðug­leika­punkti (bata­hvörfum).

                Þegar stefnandi slasaðist stundaði hún nám í hjúkrunarfræði við […] og hafði þá lokið 126 ECTS-einingum, það er 52,50% af þeim 240 einingum sem þarf til að ljúka námi í því fagi við skólann.

                Lögmaður stefnanda sendi stefnda bótakröfu, 13. september 2012, sem byggð­ist á fyrirliggjandi matsgerð. Við útreikning bóta fyrir varan­lega örorku tók lögmaður hennar mið af launatöflu Útgarðs, félags háskólamanna, sem mun gilda fyrir hjúkr­un­ar­fræð­inga á almennum vinnu­mark­aði árið 2012, þar sem hann taldi laun stefn­anda næst­liðin þrjú ár fyrir slysið ekki gefa rétta mynd af fram­tíðartekjum hennar, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaða­bóta­laga nr. 50/1993. Stefn­andi hafi verið komin langt með nám í hjúkr­un­ar­fræði í […] á slysdegi og náms­lok fyrirséð.

                Stefndi féllst ekki á bótakröfu stefnanda og færði rök fyrir afstöðu sinni í tölvu­skeyti til lögmanns hennar, 8. október 2012. Stefndi taldi, þegar litið væri til þess að stefn­andi hefði á slys­degi ein­ungis lokið rétt liðlega helm­ingi námsins og námslok hafi því að mati stefnda ekki verið fyrir­sjá­an­leg, ekki unnt að leggja til grundvallar við ákvörðun bóta fyrir var­an­lega örorku þær tekjur sem krafa stefnanda byggðist á. Stefndi taldi ekki skil­yrði til annars en miða við lágmarkslaun skv. 3. mgr. 7. gr. skaða­bóta­laga nr. 50/1993, sbr. 6. gr. laga nr. 37/1999 um breytingu á þeim, en við bata­hvörf í janúar 2012 hafi þau numið 2.776.000 krónum. Samkvæmt þessum forsendum næmu bæt­urnar 3.795.057 krónum.

                Lögmaður stefnanda sendi stefnda að nýju bóta­kröfu 16. októ­ber 2012, en við útreikn­ing á bótum fyrir varan­lega örorku í þeirri kröfu var tekið mið af árslaunum stefn­anda árið 2008, ásamt 8% líf­eyris­sjóðsframlagi. Vísað var til þess að tekjuárin 2009 og 2010 hefði stefnandi verið í námi. Með tölvu­pósti, 19. októ­ber 2012, synjaði stefndi framangreindri bóta­kröfu, þar sem hann taldi ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaða­bóta­laga nr. 50/1993, ekki taka til aðstöðu stefn­anda. Með tölvuskeyti, 22. október 2012, benti lögmaður stefnanda stefnda á að við­mið­un­ar­tekjuár í bótakröfunni, væru 2008, 2009 og 2010. Stefn­andi hafi verið í fullri vinnu árið 2008 og allt fram á haustið 2009 þegar hún hafi hafið hjúkr­un­ar­námið. Af þeim sökum væri ekki hægt að fallast á að lág­marks­laun gæfu rétta mynd af líklegum fram­tíðar­tekjum stefn­anda. Stefn­andi hafi, á slysdegi, lokið helmingi náms í hjúkrun, námi sem hún væri að ljúka. Áður hefði hún meðal ann­ars starfað við umönnun og hefði því tekju­sögu á við­mið­un­ar­ár­unum. Þess var óskað að stefndi end­ur­skoð­aði afstöðu sína og tæki mið af launum stefn­anda árið 2008 við útreikn­ing bóta fyrir varanlega örorku. Með tölvu­pósti, 23. októ­ber 2012, til­kynnti stefndi að hann féllist ekki á framan­greinda kröfu stefnanda, einkum vegna þess að það væri mat hans að 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 tæki ekki til þeirra sem tækju sér frí frá námi og færu út á vinnu­markað í 2-3 ár milli mennta­skóla og háskóla. Stefndi taldi ekki eðlis­mun á ann­ars vegar þeim ein­stakl­ingum og hins vegar þeim sem færu beint í háskóla­nám.

                Þar sem ekki náðist samstaða um bótauppgjörið fékk stefnandi greiddar bætur vegna afleiðinga slyssins úr lögboðinni ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar […] hjá stefnda, samkvæmt upphaflegu bótatilboði stefnda, 8. október 2012:

Varanlegur miski skv. 4 gr. lögum nr. 50/1993 (9.544.000 x 7%)

668.080 kr.

      Vextir á varanlegan miska skv. 16. gr. (4,5%)

37.035 kr.

Varanleg örorka skv. 3. mgr. 7. gr.  (2.776.500 x 16,089 x 7%)

3.126.977 kr.

     Vextir á varanlega örorku skv. 16. gr. (4,5%)

101.006 kr.

Samtala varanlegrar örorku og vaxta

3.227.983 kr.

Heildarsamtala miska- og örorkubóta og vaxta

3.933.098 kr.

Innheimtuþóknun ásamt virðisaukaskatti

327.327 kr.

Heildarsamtala greiðslu stefnda

4.260.425 kr.

                Stefn­andi var ekki sátt við uppgjörið og var málið því gert upp með fyrirvara við alla þætti þess, þar með talið árslaunaviðmið. Vegna þessarar afstöðu stefnda til við­miðs árslauna framtíðartekna stefn­anda óskaði hún eftir gjafsóknarleyfi og var beiðni hennar samþykkt 31. maí 2013. Málið var höfðað ári síðar með stefnu birtri 20. maí 2014.

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir á því að stefnda beri að greiða henni fullar bætur vegna afleið­inga umferðarslyssins 20. júlí 2011, sbr. I. kafla skaðabótalaga nr. 50/1993 með síð­ari breytingum, einkum 1. og 5. gr. þeirra, og í samræmi við meginreglur skaða­bóta­réttar. Stefnandi hafi ekið bifreið nr. […], sem ökumaður bifreiðar nr. […] ók aftan á. Það hafi leitt til þess að bifreið stefnanda hafnaði aftan á bifreið nr. […]. Ökumaður bif­reiðar nr. […] beri fulla bótaábyrgð á umferðarslysinu og sé bóta­skyldan óum­deild. Í 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 segi að sá sem beri ábyrgð á skrán­ing­ar­skyldu vélknúnu ökutæki skuli bæta það tjón sem hljótist af notkun þess, enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni öku­manns. Í 1. mgr. 90. gr. laganna segi að skráður eða skráningarskyldur eigandi vél­knú­ins öku­tækis beri ábyrgð á því og sé fébótaskyldur skv. 88. og 89. gr. laganna. Í 1. mgr. 91. gr. lag­anna segi að greiðsla bótakröfu vegna tjóns, sem hljótist af notkun skrán­ing­ar­skylds vél­knúins ökutækis, skuli vera tryggð með ábyrgðartryggingu hjá vátrygg­inga­félagi sem hafi starfsleyfi til að taka að sér ábyrgðartryggingu vélknúinna öku­tækja. Sam­kvæmt 95. gr. umferðarlaga sé vátryggingafélag greiðsluskylt gagnvart tjón­þola vegna bóta­krafna, skv. 1. mgr. 91. gr. Samkvæmt 1. mgr. 97. gr. umferðar­laga skuli mál til heimtu bóta gegn þeim sem sé bótaskyldur samkvæmt 90. gr. lag­anna jafn­framt höfða gegn því vátryggingafélagi sem hafi vátryggt ökutækið.

                Bifreið nr. […] hafi verið vátryggð hjá stefnda á slysdegi en D, hafi keypt vátrygginguna. Hinu stefnda trygg­ingar­félagi sé einu stefnt á grund­velli 1. mgr. 97. gr. umferðarlaga enda félagið greiðslu­skylt vegna trygg­ing­ar­innar, sbr. 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga.

                Stefnandi áréttar að ágreiningur málsaðila lúti einungis að því hvaða árslaun skuli leggja til grundvallar við útreikning bóta fyrir þá 7% varanlegu örorku er stefn­andi hlaut í umræddu slysi, auk vaxta af þeirri fjárhæð og greiðslu dráttarvaxta. Það sé ágrein­ings­laust að tjón stefnanda sé bóta­skylt úr lög­boð­inni ábyrgð­ar­tryggingu öku­tækis nr. […], en stefndi hafi nú þegar greitt stefn­anda hluta bótanna úr trygg­ing­unni. Ágreiningur aðila lúti nánar til­tekið að því hvort bætur fyrir var­an­lega örorku stefn­anda skuli mið­aðar við lág­marks­laun, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, eða hvort árslaun skuli metin sérstaklega á grund­velli 2. mgr. 7. gr. laganna þar sem aðstæður stefnanda hafi verið óvenjulegar og annar mæli­kvarði þannig réttari á lík­legar framtíðartekjur hennar.

                Eins og segi í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 sé heimildin til að víkja frá þeirri megin­reglu, að leggja tekjur síðastliðinna þriggja ára til grundvallar ákvörðun bóta, byggð á því að sá mælikvarði endurspegli ekki líklegar framtíðartekjur tjónþola. Þetta sé í samræmi við það meginmarkmið skaðabótalaga að tryggja tjónþola fullar bætur fyrir raunverulegt tjón sitt, að bætur verði hvorki hærri né lægri en tjóninu nemi. Stefn­andi telji rétt að ákvarða árslaun hennar á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laganna, en hún byggi á því að beiting 3. mgr. ákvæðisins, sem stefndi hafi lagt til grundvallar við upp­gjörið, gefi ekki rétta og raunhæfa mynd af áætluðum fram­tíðar­tekjum hennar og að hún fái þannig ekki raunverulegt tjón sitt bætt.

                Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. séu tvö skilyrði fyrir því að árslaun við útreikn­ing bóta fyrir varanlega örorku verði ákveðin sérstaklega. Annars vegar að aðstæður hafi verið óvenjulegar og hins vegar að þær aðstæður leiði til þess að annar mæli­kvarði sé rétt­ari á líklegar framtíðartekjur tjónþola en meðalatvinnutekjur síðustu þriggja alman­aks­ára fyrir slys, sbr. 1. mgr. 7. gr., eða lágmarkslaun, sbr. 3. mgr. 7. gr. laganna.

                Til stuðnings þeirri málsástæðu sinni að beita beri 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 vísar stefnandi fyrst til þess að í athugasemdum við 6. gr. frumvarps til laga nr. 37/1999, sem breyttu 7. gr. laga nr. 50/1993, segi að 2. mgr. sé rýmkuð þannig að mati verði beitt í þeim til­vikum þegar viðmiðun við síðustu þrjú tekjuár fyrir slys þyki af einhverjum ástæðum ekki rétt­mæt. 

                Stefnandi byggi á því að það sé röng niðurstaða hjá stefnda að miða útreikn­ing bóta fyrir varanlega örorku við lágmarkslaun. Stefnandi byggi aðallega á því að náms­lok hennar í hjúkrunarfræði við […] hafi sannanlega verið fyrir­séð á slys­degi. Ljúka þurfi samkeppnisprófum til þess að öðlast rétt til náms í hjúkrun­ar­fræði­deild þess háskóla. Stefnandi byggi á því að brottfall úr hjúkrun sé afar lítið hafi nem­andi staðist samkeppnisprófin, ein­ungis 5%. Óum­deilt sé að hún hafi lokið 52,5% náms­ins á slys­degi og hafi hún því lokið meira en helm­ingi af fjög­urra ára námi. Stefn­andi hafi útskrifast sem hjúkrunarfræðingur í júní 2013 og starfi nú við hjúkrun […]. Hún stefni auk þess á [framhaldsnám]. Stefn­andi byggi á því að náms­lok hennar hafi því sannanlega verið fyrir­sjá­an­leg, í samræmi við þann skiln­ing sem lagður hafi verið í 2. mgr. 7. gr. lag­anna í rétt­ar­fram­kvæmd hingað til.

                Stefnandi byggi á því að við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku beri að miða við meðaltekjur hjúkrunarfræðinga. Þá beri að líta til þess að í matsgerð hafi við mat á var­an­legri örorku verið miðað við að í framtíðinni myndi stefnandi starfa sem hjúkr­un­ar­fræðingur. Stefnandi telji því að annar mælikvarði en lágmarkslaun sé réttari varð­andi líklegar framtíðartekjur hennar. Sá mælikvarði eigi að miðast við þá menntun sem hún hafi verið langt komin með að afla sér á slysdegi.

                Stefnandi telji aðallega að miða beri árslaun hennar við 5.713.286 krónur en við útreikn­ing­inn sé stuðst við launatöflu hjúkrunarfræðinga á almennum vinnu­mark­aði, sem gilti frá 1. mars 2012, að viðbættu 8% framlagi í lífeyrissjóð. Sú fjár­hæð hafi verið lögð til grundvallar upphaflegri kröfu til stefnda.

                Stefnandi byggi á því að verulega ósanngjarnt sé að miða ekki við árslaun hjúkr­un­ar­fræðinga í hennar tilviki. Afar ólíklegt verði að teljast að nem­andi hætti skyndi­lega námi eftir að hafa þreytt og staðist samkeppnispróf til þess að fá að hefja námið og eftir að hafa lagt meira en helming þess að baki. Stefnandi byggi á því að ein­ungis 5% nemenda í hjúkr­un­ar­fræði hætti þrátt fyrir að hafa staðist samkeppnispróf en brott­fall úr háskólum almennt sé mun hærra. Árið 2002-2003 hafi brottfall nem­enda af háskóla­stigi á Íslandi verið 14,7%. Brottfall nemenda hafi verið hlut­falls­lega jafn­mikið fimm árum áður, þrátt fyrir mikla fjölgun nemenda. Auk þess hafi stefnandi nú lokið nám­inu. Verulega ósann­gjarnt sé að nem­andi sem hafi verið kominn svona langt í námi sínu, og hafi staðist sam­keppn­is­próf til að fá inn­göngu í námið, skuli fá greiddar bætur fyrir var­an­lega örorku á grund­velli lág­marks­launa skaðabótalaga, í stað meðal­launa í því starfi sem stefnandi hafi verið langt komin með að mennta sig til að sinna.

                Eins og áður segi starfi stefnandi nú sem hjúkrunarfræðingur og hyggist gera það áfram og telji því fyrrgreind árslaun gefa réttustu mynd af lík­legum fram­tíðar­tekjum sínum.

                Verði ekki fallist á að miða við meðallaun samkvæmt aðalkröfu krefjist stefn­andi þess til vara að miðað verði við árslaun hennar árið 2008, að fjárhæð 3.595.943 krónur en við þann útreikning sé miðað við upplýsingar úr skattframtali stefnanda fyrir tekju­árið 2008, uppreiknuð fram að batahvörfum, 20. janúar 2012, að við­bættu 8% lífeyrissjóðsframlagi. Stefnandi hafi lokið námi í menntaskóla á þremur og hálfu ári og útskrifast sem stúdent […]. Eftir það hafi hún tekið sér frí frá skóla í eitt og hálft ár. Frá útskrift hafi stefn­andi starfað sem […] í fullu starfi, fram að sumr­inu 2008 þegar hún hóf störf við […]. Frá hausti 2008 og fram að hausti 2009, þegar hún hóf nám í hjúkrun, hafi hún starfað við […]. Stefnandi hafi því tekjusögu á við­mið­un­ar­árunum þ.e. árin 2008, 2009 og einnig 2010.

                Með vísan til framangreinds telur stefnandi að skilyrði 2. mgr. 7. gr. séu upp­fyllt og því beri að ákvarða árslaun hennar sérstaklega en ekki miða við lág­marks­laun skv. 3. mgr. 7. gr. laganna eins og stefndi telji rétt, þar sem það leiði ekki til þess að hún muni fá tjón sitt bætt að fullu.

                Dómkröfur stefnanda byggist á því að stefnda beri að greiða henni fullar skaða­bætur og þær skuli taka mið af matsgerð B læknis og C hrl., þar sem fram komi að varanleg örorka stefn­anda sé 7% og var­an­legur miski 7 stig. Málsaðilar deili eingöngu um forsendur útreikn­ings bóta fyrir var­an­lega örorku og því sé eingöngu krafist bóta fyrir varan­lega örorku í aðal- og vara­kröfu stefnanda. Í bæði aðalkröfu og varakröfu sé dregin frá bóta­greiðsla stefnda, fyrir varanlega örorku, samkvæmt upp­gjörs­til­lögu stefnda sem var undir­rituð 31. októ­ber 2012. Við uppgjörið hafi, að kröfu stefnda, verið tekið mið af lág­marks­launa­við­miði skaða­bóta­laga, sbr. 3. mgr. 7. gr., en lögmaður stefnanda hafi sam­þykkt bóta­til­boðið meðal annars með fyrirvara við mat á var­an­legum afleiðingum slyssins og árs­launa­við­mið við útreikning á bótum fyrir var­an­lega örorku. Aðalkrafa stefnanda reikn­ist svona:

Varanleg örorka skv. 5.-8. gr. laga nr. 50/1993

6.434.474 kr.

5.713.286 kr. * 16,089 * 7%

 

Samtals

6.434.474 kr.

                Við útreikning bóta fyrir varanlega örorku hafi verið tekið mið af launatöflu hjúkr­un­ar­fræðinga á almennum vinnumarkaði árið 2012, að við­bættu 8% fram­lagi í líf­eyris­sjóð en stefnandi hafi á slysdegi lokið 126 einingum af 240 (52,5%) í námi sínu í hjúkrunarfræði.

                Stefnandi krefjist greiðslu 4,5% vaxta samkvæmt 16. gr. skaða­bóta­laga nr. 50/1993 af 6.434.474 krónum frá 20. janúar 2012 til 13. október 2012, þegar mán­uður var lið­inn frá því að krafa stefnanda var send stefnda 13. septem­ber 2012, en með drátt­ar­vöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­trygg­ingu, frá þeim degi til greiðsludags. Varakrafa stefnanda reiknist þannig:

Varanleg örorka skv. 5.-8. gr. laga nr. 50/1993

4.049.858 kr.

3.595.943 kr. * 16,089 * 7%

 

Samtals

4.049.858 kr.

                Við útreikning varanlegrar örorku sé tekið mið af launum stefnanda árið 2008, upp­reiknuðum fram að stöðugleikapunkti, 20. janúar 2012, að viðbættu 8% fram­lagi í líf­eyr­is­sjóð, en stefnandi hafi verið í námi í hjúkrunarfræði árin 2009 og 2010.

                Stefnandi krefjist greiðslu 4,5% vaxta samkvæmt 16. gr. skaða­bóta­laga nr. 50/1993 af 4.049.858 krónum frá 20. janúar 2012 til 16. nóvember 2012, þegar mán­uður var liðinn frá því að krafa stefnanda var send stefnda 16. október 2012, en með drátt­ar­vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­trygg­ingu frá þeim degi til greiðsludags.

                Í bæði aðalkröfu og varakröfu krefjist stefnandi málskostnaðar samkvæmt fram lögðum máls­kostnaðarreikningi og virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyld. Þar sem lög­mönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni sé stefnanda nauð­syn­legt að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnda.

                Stefnandi vísar til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum, einkum 1., 5., 7. og 16. gr. laganna, sbr. lög nr. 42/1996 og 37/1999. Kröfu um greiðslu mótframlags í lífeyrissjóð styður stefnandi við ákvæði laga nr. 129/1997 um skyldu­tryggingu lífeyrisréttinda o.fl. Aðild stefnda styðst við III. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og laga nr. 30/2004 um vátrygg­ingar­samn­inga, einkum 44. gr. þeirra. Val á varnarþingi byggir stefnandi á ákvæðum V. kafla laga nr. 91/1991, einkum 33. gr. Hann vísar einnig til laga nr. 38/2001 um vexti og verð­trygg­ingu. Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað byggist á ákvæðum laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi tekur fyrst fram að það sé ágreiningslaust að hann beri ábyrgð á því líkamstjóni sem stefnandi hlaut í árekstrinum 20. júlí 2011, skv. 91. gr. og 1. mgr. 95. gr., sbr. 89. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breyt­ingum. Jafnframt sé ekki heldur ágrein­ingur um það að einungis stefnda sé stefnt í þessu máli, sbr. einkum 1. og 3. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Málsaðilar deili ein­vörð­ungu um það hvaða árslaun beri að leggja til grundvallar við ákvörðun bóta stefnanda fyrir var­an­lega örorku.

                Aðalkrafa stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku nemi 6.434.474 krónum, en við útreikning kröfunnar sé miðað við árslaun að fjárhæð 5.713.286 krónur sem stefn­andi segi taka mið af launatöflu hjúkrunarfræðinga á almennum vinnumarkaði að við­bættu 8% framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs. Stefnandi telji kröfuna eiga sér stoð í 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

                Í 1. mgr. 7. gr. laganna sé mælt fyrir um það hvað skuli að meginreglu telj­ast til árslauna við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku. Samkvæmt 2. mgr. sé á hinn bóg­inn heimilt að víkja frá meginreglunni og skuli árslaun metin sér­stak­lega séu aðstæður tjónþola óvenjulegar og ætla megi að annar mæli­kvarði sé rétt­ari á líklegar fram­tíðar­tekjur hans. Til þess að ákvæðinu verði beitt þurfi tjón­þoli að sýna fram á að skil­yrðum þess sé fullnægt, þ.e. að óvenjulegar aðstæður hafi verið fyrir hendi, að annar mælikvarði á líklegar framtíðartekjur tjónþola sé réttari en sá sem mælt sé fyrir um í 1. mgr. og loks í þriðja lagi hver sá mælikvarði skuli vera.

                Að sögn stefnanda hafi hún lokið stúdentsprófi […] 2007 og eftir það tekið sér frí frá námi í um eitt og hálft ár uns hún hóf háskólanám sitt í hjúkrunarfræði […] 2009. Hún hafi svo verið við námið í tvo vetur (2009-2010 og 2010-2011) og verið í sumar­vinnu á […] er hún slasaðist. Hún hafi þá átt aðra tvo vetur eftir í nám­inu og átt eftir að ljúka á þeim tíma 114 ECTS-einingum sem eftir voru af þeim 240 ein­ingum sem þarf til að ljúka grunnnámi í hjúkrunarfræði. Aðstæður stefn­anda hafi því í alla staði verið venjulegar og ekki á neinn hátt frábrugðnar aðstæðum ann­arra sem stundi háskóla­nám. Þessu breyti ekki þótt stefnandi hafi gert hlé á námi í eitt og hálft ár eftir stúd­ents­próf, enda ekkert í gögnum málsins sem bendi til þess að hún hafi ætlað út á vinnu­mark­að­inn til frambúðar en síðan snúist hugur og hafið nám að nýju.

                Eins og staða stefnanda hafi verið í náminu á slysdegi hafi náms­lok þá ekki verið fyrirsjáanleg. Ekki verði séð að námslok stefnanda hafi verið fyrirsjáanleg á fyrr­greindum tíma þótt fram hafi komið í skýrslu, sem unnin var af Hag­fræði­stofnun fyrir heil­brigðis- og trygg­inga­mála­ráðu­neytið á árunum 2004-2006, að brott­fall nema í hjúkr­un­ar­fræði væri um 5%. Ekki skipti heldur máli í þessu sambandi þótt stefn­andi hafi lokið námi sínu tæpum tveimur árum eftir slysið.

                Í ljósi þess sem að framan greini sé allsendis ósannað að skilyrði 2. mgr. 7. gr. skaða­bóta­laganna um óvenjulegar aðstæður hafi verið fyrir hendi í tilviki stefnanda.

                Af þeirri töflu sem stefnandi segist byggja aðalkröfu sína á verði ekki með neinu móti séð hvernig þau mánaðarlaun, sem hún dragi þar út, tengist launum hjúkr­un­ar­fræðinga. Því sé ósannað að þetta sé sá mælikvarði sem rétt sé að leggja til grund­vallar við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku stefn­anda. Þar með sé ekki heldur full­nægt því skilyrði 2. mgr. 7. gr. að sýnt sé fram á réttan mælikvarða á framtíðartekjur stefn­anda. Ákvæðum 2. mgr. 7. gr. skaða­bóta­lag­anna verði því ekki beitt þegar árs­laun séu metin við ákvörðun bóta fyrir var­an­lega örorku hennar.

                Þar sem stefnandi hafi verið í námi á slysdegi og því nýtt vinnugetu sína að veru­legu leyti þannig að hún hafi haft takmarkaðar vinnutekjur, sbr. 8. gr. skaða­bóta­lag­anna, beri í sam­ræmi við dómafordæmi að miða árslaun hennar við þau lág­marks­laun sem til­greind séu í 3. mgr. 7. gr. laganna, eða 1.200.000 krónur. Þessi árs­laun nemi 2.776.500 krónum, þegar þau hafi verið leiðrétt samkvæmt lánskjaravísitölu frá gild­is­töku lag­anna til þess tíma er heilsufar stefnanda var orðið stöðugt, eða til jan­úar 2012, sbr. 15. gr. laganna. Ekki sé deilt um það að stuðull við útreikning bót­anna, sbr. 6. gr. lag­anna, skuli vera 16,089. Tjón stefnanda vegna varanlegrar örorku nemi því (2.766.500 x 16,089 x 7%) 3.126.977 krónum og þá fjárhæð hafi stefndi greitt stefn­anda auk bóta fyrir var­an­legan miska, vaxta og innheimtuþóknunar að með­töldum virð­is­auka­skatti. Með þessum bótum hafi stefnandi fengið tjón sitt að fullu bætt lögum sam­kvæmt. Þar sem það sé ósannað að stefnandi eigi rétt til frekari bóta fyrir var­an­lega örorku en hún hafi þegar fengið greiddar verði ekki hjá því komist að sýkna stefnda af kröfum hennar. Aðalkrafa stefnda sé reist á því.

                Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda krefst hann þess til vara að dómkröfur stefn­anda verði lækkaðar verulega. Varakrafan byggist á því að krafa stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku sé of há. Jafnvel þótt fallist yrði á að miða bæri við önnur árs­laun, við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku en gert hafi verið við uppgjörið í októ­ber 2012, sé engu að síður ósannað með öllu að þau viðmiðunarlaun sem stefn­andi byggi kröfu sína á séu réttur mælikvarði á þau laun sem hún hefði haft að loknu námi.

                Þá beri að gæta þess að við uppgjör bóta, 8. október 2012, hafi stefndi greitt stefnda 101.006 krónur í vexti af bótum fyrir varanlega örorku eins og nánar greini í bóta­til­boði félagsins frá sama degi. Þessa vexti beri að draga frá þeim bótum sem stefn­anda kunni að verða tildæmdar, auk höfuðstóls bóta fyrir varanlega örorku eins og stefn­andi geri ráð fyrir í dómkröfum sínum. Að öðrum kosti, miðað við vaxtakröfu sína, fengi stefnandi tvígreidda vexti sem nemi fyrrgreindri vaxtafjárhæð fyrir tíma­bilið 20. janúar 2012 til 8. október 2012. Því eigi að koma til frádráttar tildæmdum bótum (3.126.977 + 101.006) 3.227.983 krónur 8. október 2012.

                Stefndi mótmælir varakröfu stefnanda eindregið þar sem hún hafi ekki laga­stoð fremur en aðalkrafa hennar. Þótt hún hafi gert hlé á námi sínu að loknu stúdents­prófi, eins og fyrr geti, og verið á vinnumarkaði árið 2008 og fram á mitt ár 2009 hafi hún alls ekki skapað sér tekjusögu þannig að óvenjulegar aðstæður hafi verið fyrir hendi í júlí 2011 þegar hún slasaðist.

                Stefndi áréttar að hann telji að ekki hafi verið lögð fram fullnægjandi sönnun­ar­gögn um þær við­mið­unar­tekjur sem stefnandi byggi á í aðal­kröfu sinni. Við svo búið sé ekki unnt að taka kröf­una til greina. Því séu ekki skilyrði til að dæma dráttarvexti fyrr en frá dóms­upp­sögu­degi ellegar einum mánuði eftir að full­nægj­andi sönn­un­ar­gögn hafi verið lögð fram, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

                Málskostnaðarkröfur stefnda, bæði í aðalkröfu og varakröfu, eru reistar á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

                Stefnandi, A, slasaðist 20. júlí 2011 þegar bifreið sem var tryggð hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni, ók aftan á kyrrstæða bifreið sem stefn­andi sat í en sú bifreið kastaðist á næstu bifreið framan við hana í röðinni. Við þennan árekstur tognaði stefnandi á hryggsúlu. Stefnandi og stefndi stóðu sameiginlega að mati á afleiðingum slyssins og mátu læknir og lögmaður miska hennar til 7 stiga en var­an­lega örorku 7%.

                Það er óumdeilt að stefndi beri ábyrgð á því tjóni sem stefnandi varð fyrir svo og að fullnægjandi sé að stefna honum einum. Stefnandi og stefndi deila um það eitt hvort stefnda beri að greiða stefn­anda árs­laun út frá viðmiði 2. eða 3. mgr. 7. gr. skaða­bóta­laga nr. 50/1993.

                Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. er það meginreglan, við ákvörðun bóta fyrir varan­lega örorku, að meðalatvinnutekjur tjónþola, að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til líf­eyris­sjóðs, þrjú síðustu almanaksár fyrir slysdag séu lagðar til grundvallar árs­launa­við­miði. Hafi tjónþoli ekki haft fastar tekjur næstliðin þrjú ár fyrir slysdag kann þetta við­mið fyrir framtíðartekjur hans að reynast óeðlilegt. Komið er til móts við þær aðstæður í 2. mgr. 7. gr. en samkvæmt því ákvæði er skylt að meta árslaun sérstaklega séu aðstæður tjónþola óvenjulegar og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á lík­legar framtíðartekjur hans en þær tekjur sem hann hafði síðustu þrjú ár fyrir slysdag.

                Stefnandi slasaðist 20. júlí 2011. Hún útskrifaðist úr menntaskóla […] 2007. Sam­kvæmt skattframtali starfaði hún við fjölbreytileg störf árið 2008 og fékk laun frá fjórum vinnuveitendum, þar á meðal […]. Árið 2009 stöf­uðu tekjur hennar mestmegnis af umönnun á sama stað. Haustið 2009 hóf hún nám í hjúkr­un­ar­fræði við […] og hafði, þegar slysið varð, lokið tveimur náms­árum, 126 einingum, eða 52,5% af þeim 240 ein­ingum sem þarf til að ljúka því námi. Að mati dómsins eru þessar aðstæður ekki sam­bæri­legar þeim sem gengið er út frá í 1. mgr. 7. gr., annars vegar þar sem hún vann hjá mörgum vinnu­veit­endum árið 2008 við ger­ólík störf en það eru ekki aðstæður sem allur almenningur býr við og var hins vegar við nám næstu tvö ár en aflaði sér tekna með námi. Þessar óvenju­legu aðstæður valda því að þær tekjur sem hún aflaði sér á þremur síðustu árum fyrir slys­dag þykja alls ekki réttur mælikvarði á fram­tíðar­tekjur hennar.

                Þegar viðmiði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 sleppir stendur valið milli 2. eða 3. mgr. 7. gr. Stefndi telur síðastnefnda viðmiðið, lágmarkslaun, eiga við um aðstæður stefn­anda. Þar sem hún hafi einungis lokið helmingi náms síns hafi námslok hennar ekki verið fyrirsjáanleg. Á slysdegi hafi hún því verið í svipaðri stöðu og mennta­skóla­nemi eða háskólanemi sem legði ekki stund á starfsnám.

                Stefnandi byggir á því að námslok hennar hafi verið fyrirsjáanleg þótt hún hafi ein­ungis lokið helmingi námstímans þar sem rannsóknir sýni að aðeins örfáir af þeim, sem hefji námið, hverfi frá námi. Hún hafi unnið við umönnun þegar hún hóf námið og hafi sinnt umönn­un­ar­störfum  á náms­tím­anum. Jafnframt hafi stefnandi lokið námi á til­settum tíma og hafi frá útskrift starfað sem hjúkr­un­ar­fræð­ingur. Allt þetta sýni að hún hafi, þegar á slysdegi, ákveðið starfsvettvang sinn og námslok hennar hafi því verið fyrir­sjáan­leg.

                Ásamt stefnanda gáfu skýrslu fyrir dómi E, skrifstofustjóri heil­brigðis­vísindasviðs og F, forseti heilbrigðisvísindasviðs […]. Meðal gagna málsins er bréf þar sem þær svöruðu fyrir­spurn lög­manns stefnanda. Svörin eru unnin úr lykiltölum skólans sem birtar eru á heima­síðu hans. Vitnin staðfestu fyrir dómi, það sem segir í bréfinu, að af þeim nem­endum sem stand­ist sam­keppnis­próf til þess að komast inn í hjúkrunarfræðideildina ljúki 89% nem­enda námi eftir 5 ár og 96% nemenda ljúki námi eftir 6 ár frá því að þeir hófu nám í hjúkr­un­. Tekið er fram að það sé afar sjaldgæft að nem­endur í hjúkr­unar­fræði við […] hætti námi eftir að hafa þreytt og náð sam­keppn­is­prófi. Jafn­framt segir í bréfinu að 90% líkur séu á að sá sem hafi lokið 126 ein­ingum af 240 í því fagi ljúki náminu.

                Í framburði E kom auk þess fram að deildin fylgdist mjög vel með fram­vindu náms sérhvers nemanda þar sem hver og einn væri dýrmætur. Deildin gerði allt sem hægt væri til þess að nemendur hættu ekki námi. Á síðast­liðnum fjórum árum hefði einungis einn nemandi hætt námi í hjúkrun við skólann. Hefði ástæða þess hvorki verið námið né skólinn heldur sérstakar persónulegar aðstæður þessa nem­anda.

                Stefnandi hafði lokið 126 einingum af 240 á slysdegi, 20. júlí 2011. Hún lauk námi sínu og hefur starfað við hjúkrun frá námslokum.

                Að mati dómsins er ekki hægt að fallast á það með stefnda að það eitt, hversu hátt hlutfall eininga af heildarfjölda námseininga tjónþoli hafði lagt að baki á slys­degi, eigi að ráða mati á því hvort námslok hans séu fyrirsjáanleg eða ekki. Að mati dóms­ins verður ekki litið fram hjá gögnum sem staðfesta að hafi nemandi staðist sam­keppn­is­próf til þess að hefja nám í hjúkrun við […] og hafi lokið 126 ein­ingum af 240 séu 90% líkur fyrir því að hann ljúki námi. Þegar svo litlar líkur eru til þess að nemandi hverfi frá námi þrátt fyrir að einungis tveimur árum af fjórum sé lokið verður ekki annað ályktað en að yfirgnæfandi líkur séu á því að hann muni ljúka námi og námslok séu því fyrirsjáanleg. Í ljósi þessara gagna telur dómurinn að náms­lok stefnanda hafi verið fyr­ir­sjáan­leg á slysdegi.

                Stefnandi lauk námi á tilsettum tíma, fékk leyfi Landlæknisembættisins, […] 2013, til þess að starfa sem hjúkrunar­fræð­ingur og hefur unnið við hjúkrun frá þeim tíma. Hún hafði því þegar á slysdegi valið sér framtíðarstarf og þykir því engan veg­inn fært að leggja árslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. til grundvallar við ákvörðun bóta hennar.

                Stefndi byggði upphaflega dómkröfu sína á launatöflu Útgarðs, félags háskóla­manna, sem gilti frá 1. mars 2012. Við aðalmeðferð málsins lækkaði stefnandi fjár­kröfu sína og byggði endanlega dómkröfu á launatöflu Félags íslenskra hjúkrunar­fræð­inga, sem gilti frá 1. mars 2012. Í töflunni eru níu þrep, númeruð frá 0-8, og 18 flokkar. Stefnandi miðar við laun í 4. þrepi og 9. flokki og nefnir miðgildi. Þessi tafla hafði ekki tekið gildi þegar sá dagur rann til viðar að heilsufar stefnanda væri orðið stöð­ugt, 20. janúar 2012. Meðal fram lagðra gagna er einnig launatafla Félags íslenskra hjúkr­un­ar­fræðinga, sem gilti frá 1. júní 2011 og ekki verður annað séð en hún hafi einnig gilt 20. janúar 2012. Mánaðarlaun í 4. þrepi hennar 9. flokki nema 400.677 krónum.

                Stefndi taldi að ekki væri byggjandi á þessum launatöflum þar sem á þeim væri ekki nein lögformleg staðfesting þess efnis að þær væru réttar. Enda þótt fallist sé á það með stefnda að vandaðra hefði verið að fá staðfestingu stéttarfélags stefnanda eða viðsemjanda félagsins á því að þessar töflur væru réttar, verður þessum skjölum ekki hafnað sem sönnunar­gögnum þar sem þau sýna að þau eru prentuð af heimasíðu Fjár­sýslu ríkisins. Ganga verður út frá því að opinberar stofnanir birti ekki rangar upp­lýs­ingar nema fyrir algera slysni. Af þeim sökum þykir ekki þurfa að vefengja efni þess­ara launa­taflna.

                Að mati dómsins verður að líta svo á að stefnandi hafi, þegar í janúar 2012, ákveðið sitt framtíðarstarf. Þar sem stefnandi er félagsmaður í félagi íslenskra hjúkr­un­ar­fræðinga eins og framlögð gögn sýna, þykir eðlilegt og sanngjarnt að miða við launa­töflu þess félags.

                Á heimasíðu fjármálaráðuneytisins eru birt meðallaun starfsmanna ríkisins í hverjum mánuði ársins og birtast þessi gögn með um það bil fimm mánaða töf. Sam­kvæmt þessum upplýsingum voru meðaldag­vinnu­laun kvenhjúkrunarfræðinga í janúar 2012 366.561 króna en með yfir­vinnu­launum, vaktaálagi, og öðrum launum námu heild­ar­laun kvenhjúkrunarfræðinga að með­al­tali 491.152 krónum í janúar 2012.

                Því þykir síst ósanngjarnt að miða framtíðartekjur stefnanda við miðgildi dag­vinnu­launa í þeirri launatöflu sem gilti þegar heilsufar stefnanda var orðið stöðugt. Með því að ganga út frá miðgildi er alfarið horft fram hjá yfirvinnulaunum, yfir­vinnu­álagi, stór­hátíðar­launum, vaktaálagi og bakvaktaálagi sem vænta má að sé nú þegar og verði hluti af launum stefnanda í framtíðinni.

                Dóminum reiknast til að bætur stefnanda, samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaða­bóta­laga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, nemi 5.848.258 krónum á grundvelli svo­fellds útreikn­ings:

Mánaðarlaun skv. töflu Félags íslenskra hjúkr­un­ar­fræðinga

sem gilti frá 1. júní 2011, 4. þrepi og 9. flokki.

400.677 kr.

Árslaun (12 mán. x 400.677 kr.)

4.808.124 kr.

Framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð (8% af árslaunum)

384.650 kr.

Samtals árslaun og framlag til lífeyrissjóðs

5.192.774 kr.

Árslaun skv. 2. mgr. 7. gr. margfölduð með stuðli skv. 6. gr.  (16,089)

83.546.540 kr.

Árslaun margfölduð með stuðli skv. 6. gr. og örorkustigi   (7%)

5.848.258 kr.

                Stefndi greiddi stefnanda 668.080 krónur fyrir varanlegan miska og 37.035 krónur í vexti frá tjónsdegi til uppgjörsdags. Með málsaðilum er ekki ágreiningur um þá greiðslu. Fyrir varanlega örorku greiddi stefndi stefnanda 3.126.977 krónur og 101.006 krónur í vexti frá tjónsdegi til greiðsludags. Þá samanlögðu fjárhæð, höfuð­stól­inn og vextina, 3.227.983 krónur, ber að draga frá fjár­kröfu stefnanda.

                Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi byggt upphaflega fjárkröfu sína á því að hún ætti rétt til launa samkvæmt launatöflu Útgarðs, félags háskólamanna, en hafi nú fallið frá því við­miði og vilji byggja fjárkröfu sína á launatöflu Félags íslenskra hjúkr­unar­fræð­inga. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu beri skaða­bóta­kröfur dráttarvexti, skv. 1. mgr. 6. gr. laganna, að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfu­hafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjóns­atvik og fjár­hæð bóta. Þar sem stefnandi hafi ekki lagt fram fullnægjandi gögn fyrir fjárkröfu sinni fyrr en við aðalmeðferð geti hún ekki krafist dráttarvaxta fyrr en frá dóms­upp­sögu­degi.

                Þær launatöflur sem stefnandi hefur miðað við, hvort heldur er launatafla Útgarðs, félags háskólamanna, eða Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, eru birtar á heima­síðu Fjársýslunnar. Jafnframt eru niðurstöður rannsókna á meðallaunum starfs­manna ríkisins, langlíklegasta vinnu­veit­anda stefnanda, birtar á heimasíðu fjár­mála­ráðu­neytis­ins. Þessar upplýsingar eru öllum aðgengilegar og hefði stefndi getað flett þeim upp hefði hann kært sig um.

                Sú matsgerð, sem báðir aðilar leggja til grundvallar í málinu, lá fyrir 8. sept­em­ber 2012. Þá lá tjónsatvikið fyrir og umfang tjóns stefnanda. Þegar matinu var lokið hafði stefnandi hafið sitt síðasta námsár í hjúkrun og gengu matsmenn út frá því að starfs­vettvangur hennar yrði í því fagi. Það gerði stefnandi einnig. Ríkið var lang­lík­leg­asti vinnu­veit­andi stefnanda og allar upplýsingar um meðallaun hjúkrunarfræðinga hjá þeim vinnu­veit­anda voru öllum aðgengilegar. Stefnandi krafði stefnda um greiðslu, 13. sept­em­ber 2012, á þeim grundvelli að í framtíðinni þægi hún greiðslur sem hjúkr­un­ar­fræð­ingur sam­kvæmt launatöflu Útgarðs. Að mati dómsins lágu þá fyrir allar þær forsendur sem stefndi þurfti, í skilningi 9. gr. laga nr. 38/2001, til þess að taka afstöðu til þess hvort fjár­krafa stefnanda væri of há. Af þessum sökum þykir rétt að fjárkrafa stefn­anda beri drátt­ar­vexti frá 13. október 2012 en þá var liðinn mán­uður frá því að stefn­andi krafði stefnda um bætur.

                Þar sem fallist hefur verið á fjárkröfu stefnanda að mestu leyti verður, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda máls­kostnað. Þegar litið er til umfangs málsins þykir málflutningsþóknun, að teknu til­liti til virðis­auka­skatts, hæfilega ákveðin 903.600 krónur.

                Stefnanda var með bréfi innanríkisráðuneytisins, 31. maí 2013, veitt gjafsókn til þess að höfða þetta mál og reka fyrir héraðsdómi. Af þeim sökum verður stefndi dæmdur til þess að greiða ofangreinda fjárhæð í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður stefn­anda, þar með talin málflutnings­þóknun lögmanns hennar, greiðist úr ríkissjóði.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.

D Ó M s o r ð

                Stefndi, Tryggingamiðstöðin ehf., greiði stefnanda, A, 5.848.258 krónur með 4,5% vöxtum, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá 20. janúar 2012 til 13. október 2012 en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni greiðslu stefnda, 8. október 2012, að fjárhæð 3.227.983 krónur.

                Stefndi greiði stefnanda 903.600 krónur í málskostnað sem renni til ríkissjóðs.

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Bergrúnar Elínar Benediktsdóttur, 903.600 krónur, greiðist úr ríkissjóði.