Hæstiréttur íslands

Mál nr. 372/2005


Lykilorð

  • Eignarréttur
  • Fasteignakaup
  • Námuréttindi
  • Hefð


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. mars 2006.

Nr. 372/2005.

Íslenska ríkið

(Karl Axelsson hrl.                                

Heimir Örn Herbertsson hdl.)

gegn

Jónínu Snorradóttur

Lovísu Sigrúnu Snorradóttur

Unni Björk Snorradóttur og

Þóri Snorrasyni

(Andri Árnason hrl.)

 

Eignarréttur. Fasteignakaup. Námuréttindi. Hefð.

Í krafðist viðurkenningar á því að það væri eigandi að öllum námum og námuréttindum, þar með töldum sandi, möl og grjóti, í landi jarðarinnar Skipalóns í Hörgárbyggð. Reisti Í kröfu sína á ákvæði í afsali frá 1959, sbr. 3. mgr. 1. gr. þágildandi laga nr. 4/1946 um sölu þjóðjarða, þar sem námur og námuréttindi voru undanskilin við sölu jarðarinnar.  Núverandi eigendur hennar töldu aftur á móti að hagnýting á sandi, möl og grjóti félli ekki undir þessa undanþágu. Í dómi  Hæstaréttar var vísað til þess að í tilskipun frá 13. júní 1787, þar sem fjallað hefði verið um hagnýtingu jarðefna almennt, hefði hugtakið námugröftur verið tengt hvers konar nýtingu jarðefna án tillits til þess hvort þau fundust á eða undir yfirborði jarðar. Námulög, sem sett voru hér á landi árið 1907 og 1909, hefðu hins vegar einungis náð til leitar og graftar á málmum og málmblendingum, en síðargreindu lögin voru í gildi þegar afsal jarðarinnar var gefið út.  Með hliðsjón af sérstökum tilgangi þeirra laga var ekki fallist á að skýra bæri hugtakið námuréttindi í 3. mgr. 1. gr.  laga nr. 4/1946 í samræmi þau.  Þá hefði það ekki fallið að tilgangi laga um sölu þjóðjarða að selja réttindi til hvers konar efnistöku úr landinu.  Var því talið að hugtakið námuréttindi í lögunum hefði haft þá merkingu að hagnýting á sandi, möl og grjóti félli þar undir. Þá var ekki fallist á með núverandi eigendum að þau hefðu unnið hefð á að nýta sér þessi jarðefni í landi jarðarinnar, enda hefði kaupandi jarðarinnar árið 1959, faðir núverandi eigenda, gengist undir það skilyrði að öll námuréttindi, þar með talið grjót-, sand- og malarnám, væru undanskilin við söluna. Því bæri að fallast á kröfu Í.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. ágúst 2005 og krefst þess að staðfest verði að hann sé eigandi að öllum námum og námuréttindum, þar með töldum sandi, möl og grjóti í landi jarðarinnar Skipalóns í Hörgárbyggð og að stefndu sé óheimil hvers konar ráðstöfun á námum og námuréttindum í landinu. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Svo sem nánar greinir í héraðsdómi var Snorri Pétursson, faðir stefndu, ábúandi jarðarinnar Skipalóns í Glæsibæjarhreppi, sem var í eigu áfrýjanda, frá fardögum 1948. Hann eignaðist síðan jörðina með afsali frá áfrýjanda 22. maí 1959. Þar segir að salan sé gerð samkvæmt þágildandi lögum nr. 4/1946 um sölu þjóðjarða og kirkjujarða. Fjórða málsgrein afsalsins hljóðar svo: „Námar- og námaréttindi í landi jarðarinnar og sömuleiðis vatns- og jarðhitaréttindi, umfram heimilisþarfir, eru undanskilin sölu jarðarinnar.“ Málsaðilar deila um það hvort sand-, malar- og grjótnám hafi þar með verið undanskilið, svo sem áfrýjandi heldur fram, eða hvort réttur til slíkrar efnistöku í landi jarðarinnar hafi færst til kaupanda hennar við afsalið, svo sem stefndu halda fram og héraðsdómur féllst á. Til vara telja stefndu sig hafa unnið hefð á því að nýta sér efnistöku á sandi, möl og grjóti í landi jarðarinnar.

II.

Áfrýjandi reisir kröfu sína í fyrsta lagi á orðum afsalsbréfsins sjálfs. Þar séu námur og námuréttindi undanskilin sölu og engin takmörkun gerð við tiltekin námuréttindi. Hefði afsalshafi viljað eignast einhverjar námur eða námuréttindi hefði honum borið að áskilja það. Það hafi ekki verið gert og beri þegar af þeirri ástæðu að fallast á kröfu áfrýjanda. Ennfremur bendir hann á, að hann hafi alltaf litið svo á að með þessu orðalagi í afsölum, þar sem jarðir hafi verið seldar á grundvelli löggjafar um sölu þjóðjarða og kirkjujarða, hafi verið átt við hvers konar námur og námuréttindi. Gild rök hafi og verið fyrir því af hálfu áfrýjanda að undanskilja ekki aðeins námur vegna málma og málmgrýtis heldur einnig sand-, malar- og grjótnám, enda hafi hann haft verulega hagsmuni af nýtingu hinna síðarnefndu. Áfrýjandi bendir einnig á, að tilgangurinn með sölu þjóðjarða til bænda hafi einkum verið að efla landbúnað í sveitum landsins, þó þannig að hið opinbera héldi verðmætum réttindum á borð við námuréttindi, vatns- og jarðhitaréttindi, sem nýta mætti í þágu almennings og ættu þá ekki að ganga til einstakra kaupenda jarðanna. Ljóst sé að vatns- og jarðhitaréttindi séu afar verðmæt sem og gullnám eða annars konar málmnám, væri um slíkt að ræða. Jafnframt sé malar- og sandnám mjög verðmætt í hendi áfrýjanda vegna opinberra framkvæmda við vegagerð og fleira.

Áfrýjandi andmælir þeirri lögskýringu héraðsdóms að ákvæði 3. gr. laga nr. 31/1905 um sölu þjóðjarða sé túlkað með hliðsjón af námulögum nr. 61/1907. Með þessari aðferð komist héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að hugtakið náma í lögum nr. 31/1905 taki aðeins til málma og málmgrýtis. Þessi lögskýring fái ekki staðist. Fyrstu námulög hér á landi hafi verið lög nr. 61/1907 og síðan 50/1909. Þeim hafi verið ætlað þröngt gildissvið og aðeins tekið til málma og málmgrýtis. Það sjáist af því tilefni lagasetningarinnar, að líkur hafi verið taldar á að finna mætti hér gull eða aðra góðmálma í jörðu. Í aðdraganda setningar fyrstu námulaganna hafi komið fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um námur. Af henni og umræðum um hana megi ljóslega ráða að þingmenn hafi talið námurétt vera til á þessum tíma og að hann væri eign landeiganda. Þar hafi meðal annars verið vikið að silfurbergs- og brennisteinsnámum sem landssjóður hafi keypt af landeigendum. Af þessu sé ljóst að á Alþingi hafi verið gert ráð fyrir því að hugtakið náma næði yfir margvísleg jarðefni sem nema mætti úr jörðu og vitað hafi verið á þessum tíma að fyndust hér á landi. Þess vegna hljóti hugtakið náma í lögum nr. 31/1905 að hafa þessa merkingu. Umræðurnar renni stoðum undir það sem áfrýjandi haldi fram, að aðeins hafi vafi þótt leika á því hvernig skipa bæri leit að málmum, enda hefðu slík jarðefni ekki áður fundist hér á landi og því hvergi að þeim vikið sérstaklega í lögum.

 Í námulögum nr. 24/1973, sem leyst hafi af hólmi lög nr. 50/1909, komi glögglega fram að þau nái til hvers konar jarðefna sem finnast í jörðu og sé ljóst að þau séu heildarlöggjöf um námur, ekki aðeins málma og málmgrýti, sem eldri lög hafi verið takmörkuð við. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna sé rakið hvernig námuréttindum hafi frá öndverðu verið háttað í íslenskum lögum. Þar segi að eftir lögtöku Jónsbókar hafi engin almenn ákvæði um námurétt verið tekin í lög fyrr en með tilskipun 13. júní 1787 um þá íslenzku kauphöndlun og skipaferð, en í 9. gr. III. kapítula hennar segi: „Þá námagrepti, sem finnaz í landinu, hvort heldr þat eru jarðar- sand- eðr steintegundir, má hver og einn að friálsu hagnýta ser, til hvers sem hann bezt veit og getr, svo framarlega sem þeir finnaz á fiöllum, þióðvegum og öðrum stöðum, sem í einkis eign eru.“ Síðan sé vikið að námarétti á landi í einkaeign. Áfrýjandi telur ljóst, að með lögum nr. 24/1973 hafi þess verið freistað í fyrsta sinn að fjalla með heildstæðum hætti um námur í lögum og að sú löggjafarstefna hafi haldist síðan. Yfirlit yfir löggjöfina sýni að hugtakið náma hafi hvergi verið túlkað svo þröngt að það taki aðeins til málma og málmblendinga nema í námulögum frá 1907 og 1909. Vegna þessa telji áfrýjandi hafið yfir allan vafa að hugtakið námuréttindi í lögum nr. 4/1946, sem og hugtakið námar í lögum nr. 31/1905, taki til sand-, malar- og grjótnáms.

Stefndu andmæla því að ákvæði tilskipunar frá 13. júní 1787  hafi nokkurt gildi í máli þessu, enda hafi áfrýjandi með engu móti leitt í ljós að þau hafi legið til grundvallar hugtakinu náma við setningu laga nr. 31/1905. Stefndu vísa að öðru leyti til forsendna héraðsdóms, sem fallist hafi á málsrök þeirra. Til vara byggja stefndu á því að þau og sá sem þau leiði rétt sinn frá hafi unnið hefð á umræddum réttindum með því að nýta sér efnistöku í landi Skipalóns, að minnsta kosti frá því að faðir þeirra keypti jörðina árið 1959. Gögn málsins og framburður vitna sýni óslitna efnistöku um margra áratuga skeið og séu skilyrði hefðar því uppfyllt.

III.

Svo sem í héraðsdómi greinir er ákvæði afsalsins 22. maí 1959 um að „námar- og námaréttindi“ í landi Skipalóns séu undanskilin sölunni í samræmi við ákvæði 3. mgr. 1. gr. þágildandi laga nr. 4/1946. Snýst því deila málsaðila um hvaða skilning beri að leggja í orðið námuréttindi í lögum þessum.

Ákvæði á þessa lund var fyrst sett í 3. gr. laga nr. 31/1905, sem hljóðaði svo: „Þegar þjóðjörð er seld samkvæmt lögum þessum, skal ávallt undanskilja náma, sem vera kunna í jörðu eða finnast þar síðar, svo og rjett til að nota þá, en ábúanda bera fullar bætur eptir óvilhallra manna mati fyrir átroðning og jarðarusla, er af því leiðir, að þeir eru notaðir.“ Byggðu lögin á frumvarpi sem milliþinganefnd hafði samið. Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpinu, sagði um þessa grein: „Eins er það, að þótt námar kunni að felast í jörðu, mönnum óafvitandi nú, þá verður engin jörð seld dýrar fyrir það, og er því rétt, að landssjóður eigi náma, ef upp koma. Þar að auki liggur það utan við tilgang þjóðjarðasölunnar að láta af hendi náma.“

Lög nr. 31/1905 voru felld úr gildi með lögum nr. 8/1936 um erfðaábúð og óðalsrétt. Samkvæmt 1. gr. þeirra laga skyldi framvegis byggja allar jarðir og hjáleigur, sem voru í eigu ríkisins, kirkna landsins eða sjóða í almannaeign, á erfðaleigu næst þegar þær losnuðu úr ábúð eða þegar ábúandi óskaði þess, nema þær væru sérstaklega undanskildar. Í 27. gr. laganna var ennfremur veitt heimild til að selja þjóð- og kirkjujarðir, sem byggja mátti eftir lögunum, ef þær voru jafnframt gerðar að ættaróðali þegar sala færi fram. Engin fyrirmæli voru þar um að námuréttindi skyldu undanskilin við sölu jarðanna, eða hver hefði nýtingarrétt á námum þegar þær voru byggðar á erfðaleigu. Ýmis dæmi eru þó um að í lögum um sölu á einstökum jörðum í eigu ríkisins frá þessum tíma hafi verið mælt fyrir um að námuréttindi skyldu undanskilin við söluna, sbr. meðal annars lög nr. 28/1939 og lög nr. 70/1942.

Lög nr. 8/1936 voru numin úr gildi með lögum nr. 116/1943 um ættaróðal og erfðaábúð. Reglur þeirra um erfðaleigu voru hliðstæðar eldri lögum um sama efni. Með þeim voru hins vegar gerðar nokkrar breytingar á reglum um sölu þjóð- og kirkjujarða til ábúenda og meðal annars kveðið á um að námuréttindi skyldu undanskilin við söluna. Þetta skilyrði var síðan tekið upp í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 4/1946, sem skilmáli afsalsins 22. maí 1959 byggðist á.

Orðalag 3. gr laga nr. 31/1905, þar sem sagði að náma í jörðu skyldi undanskilja við sölu, er samkvæmt framansögðu ekki það sama og síðar var notað í lögum þar sem fjallað var um ráðstöfun námuréttinda við sölu jarða í eigu ríkisins. Af þeim sökum, og þar sem að ekki er um samfellda löggjöf á þessu sviði að ræða, verður 3. gr. laga nr. 31/1905 ekki lögð til grundvallar skýringu 3. mgr. 1. gr. laga nr. 4/1946.

Eins og að framan er rakið er á því byggt af hálfu áfrýjanda að almenn ákvæði um námurétt hafi fyrst, eftir lögtöku Jónsbókar, verið lögfest með tilskipun frá 13. júní 1787. Af orðalagi 9. gr. hennar, sem rakið hefur verið hér að framan, má ráða að þar hafi verið átt við hagnýtingu jarðefna almennt og að á þeim tíma hafi hugtakið námagröftur verið tengt hvers konar nýtingu jarðefna án tillits til þess hvort þau fundust á eða undir yfirborði jarðar. Frá setningu þessarar tilskipunar virðast ekki hafa verið leidd í lög reglur um námur og námuréttindi hér á landi fyrr en með lögum nr. 61/1907. Þau tóku einungis til leitar og graftar á málmum og málmblendingum og byggðust að nokkru leyti á frumvarpi, sem lagt hafði verið fyrir Alþingi árið 1905 um sama efni. Þessum lögum var síðar breytt og þau gefin út sem lög nr. 50/1909, sem voru í gildi uns lög nr. 24/1973 voru sett. Síðastgreindu lögin tóku til hvers konar hagnýtingar jarðefna sem fundust í jörðu eða á, sbr. 1. gr. þeirra. Í 3. gr. sömu laga var kveðið á um að landeigandi hefði rétt til að vinna án leyfis á eða í landareign sinni jarðefni, svo sem grjót, möl, mó, surtarbrand, leir og önnur slík jarðefni. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna sagði um ákvæðið að þessi jarðefni hefðu „frá fornu fari verið hagnýtt af jarðeigendum“. Samkvæmt þessu virðist ekki hafa leikið vafi á því þegar lög nr. 24/1973 voru sett, að réttur til að nýta sand, möl og grjót teldist til námuréttinda.

Eins og fyrr segir náðu námulögin frá 1907 og 1909 einungis til leitar og graftar á málmum og málmblendingum. Af lögskýringargögnum má ráða að þessi afmörkun hafi stafað af því að málmnám hafði ekki verið stundað hér á landi og nauðsynlegt hafi þótt að löggjafinn mælti fyrir um hver skyldi eiga hagnýtingarrétt á þessum jarðefnum. Skýrir það hvers vegna þau tóku ekki til leitar og nýtingar á annars konar jarðefnum, sem þó var ekki unnt að vinna úr jörðu til hagnýtingar nema með hliðstæðum ráðstöfunum og tíðkast við vinnslu málma og málmblendinga. Verður því ekki talið að skýra beri hugtakið námuréttindi í lögum nr. 4/1946 á þann hátt að það nái einungis til nýtingar á málmum og málmblendingum í samræmi við þágildandi námulög. Þegar ennfremur er litið til þess að frá öndverðu miðuðu lög um sölu þjóðjarða að því að fjölga þeim bændum, sem eiga sjálfir það land sem þeir rækta, verður að telja að ekki hafi þjónað tilgangi þeirra að selja réttindi til hvers konar efnistöku úr landinu. Verður að skýra 3. mgr. 1. gr. laga nr. 4/1946 í samræmi við það. Með hliðsjón af framangreindu er fallist á með áfrýjanda að hugtakið námuréttindi í þeim lögum hafi haft þá merkingu, sem hann heldur fram.

Stefndu byggja til vara á því að þau hafi unnið hefð á að nýta sér sand, möl og grjót í landi Skipalóns, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð, sem hafi leitt til þess að þau réttindi áfrýjanda hafi fallið niður. Í því sambandi er meðal annars vísað til framburðar fjögurra vitna, sem hafa borið um að þau hafi með leyfi eiganda Skipalóns stundað sandtöku úr landinu að minnsta kosti frá árinu 1959. Því er ekki í móti mælt að stefndu hafi stundað jarðefnavinnslu á afmörkuðum stöðum á jörðinni árum saman. Með dómi þessum er komist að þeirri niðurstöðu að faðir stefndu hafi með afsalsbréfinu 22. maí 1959 gengist undir það skilyrði að öll námuréttindi, þar með talin sand-, malar- og grjótnám, væru undanskilin sölu jarðarinnar, og að um skilyrði þetta hafi verið mælt fyrir í lögum nr. 4/1946. Þegar svo er ástatt geta réttindi ekki unnist fyrir hefð.

Ber því að fallast á kröfu áfrýjanda.

Rétt er að málskostnaður falli niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, íslenska ríkið, er eigandi að öllum námum og námuréttindum, þar með töldum sandi, möl og grjóti í landi jarðarinnar Skipalóns í Hörgárbyggð og er stefndu, Jónínu Snorradóttur, Lovísu Sigrúnu Snorradóttur, Unni Björk Snorradóttur og Þóri Snorrasyni, óheimil hvers konar ráðstöfun á námum og námuréttindum í landi jarðarinnar.

Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 20 júní 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 6. júní s.l., hefur Landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, Sölvhólsgötu 7 Reykjavík, fyrir hönd íslenska ríkisins höfðað hér fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra með stefnu þingfestri 19. febrúar 2004 á hendur Þóri Snorrasyni, kt. [...], Smárabraut 9, Höfn, Lovísu S. Snorradóttur, kt. [...], Seljahlíð 1 c, Akureyri, Jónínu Snorradóttur, kt. [...], Fögrusíðu 11 c, Akureyri og Unni B. Snorradóttur, kt. [...], Tjarnarlundi 6 d, Akureyri.

Eru dómkröfur stefnanda þær að staðfest verði með dómi að stefnandi, íslenska ríkið sé eigandi að öllum námum og námuréttindum, þ.m.t. sandi, möl og grjóti í landi jarðarinnar Skipalóns í Hörgárbyggð, að staðfest verði með dómi að stefndu sé óheimil hvers konar ráðstöfun á námum og námuréttindum, þ.m.t. sandi, möl og grjóti í landi jarðarinnar Skipalóns í Hörgárbyggð.  Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði, in solidum, dæmd til að greiða honum málskostnað.

Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og jafnframt verði stefnandi dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

Í máli þessu er um að deilt hvor aðila sé eigandi að rétti til malar- og sandnáms á jörðinni Skipalóni í Hörgárbyggð og hvort slík réttindi séu innifalin í námuréttindunum, sem undanskilin voru við sölu stefnanda á jörðinni.

I.

Málsatvik eru þau, að með afsali, dags. 17. maí 1939, seldi Sigurjón Kristinsson jarðakaupasjóði ríkisins eignarjörð sína Skipalón í Glæsibæjarhreppi í Eyjafjarðarsýslu og varð stefnandi, íslenska ríkið, þar með eigandi jarðarinnar.  Með byggingarbréfi, dags. 26. ágúst 1940, var sama Sigurjóni síðan byggð jörðin til ábúðar og erfðaleigu frá fardögum 1939.  Með byggingarbréfi, dags. 27. maí 1948 var Snorra Péturssyni byggð jörðin frá og með fardögum 1948.

Árið 1959 seldi landbúnaðarráðherra f.h. ríkissjóðs nefndum Snorra Péturssyni jörðina Skipalón í Glæsibæjarhreppi, en hann hafði þá setið jörðina sem leiguliði frá fardögum 1948.  Afsal fyrir jörðinni undirritaði Snorri sem kaupandi hinn 22. maí 1959.  Í afsalsbréfinu er vísað til þess að salan sé gerð skv. þágildandi lögum um sölu þjóðjarða og kirkjujarða nr. 4 frá 26. febrúar 1946.  Í 4. mgr. afsalsins er eftirfarandi ákvæði:  „Námar- og námaréttindi í landi jarðarinnar og sömuleiðis vatns- og hitaréttindi umfram heimilisþarfir eru undanskilin við sölu jarðarinnar.“  Snorri Pétursson var faðir stefndu í máli þessu.  Hann lést 17. janúar 1995 og urðu stefndu eigendur jarðarinnar skv. skiptayfirlýsingu sem dags. er 1. mars 1999 og móttekin til þinglýsingar 17. s.m.  Hinn 21. nóvember 2001 var athygli stefnanda vakin á því að stefndu seldu jarðefni af jörðinni.  Í framhaldi af því var af hálfu stefnanda haft samband við Arngrím Ævar Ármannsson, sem er eiginmaður stefndu Jónínu Snorradóttur.  Var þess farið á leit við hann að stefndu hættu efnissölu af jörðinni, en téður Arngrímur Ævar kom fram sem umboðsmaður stefndu í málinu.  Stefndu urðu ekki við þessari málaleitun og sendi Arngrímur Ævar stefnanda bréf hinn 21. febrúar 2002 þar sem hann leitaðist við að rökstyðja að möl, sandur og grjót hefði verið selt með jörðinni þegar Snorri keypti hana, enda séu það ekki námur.  Með bréfi stefnanda, dags. 10. apríl 2002 var formlega farið fram á við stefndu að þau hættu sölu á efni úr malarnámi í landi Skipalóns eigi síðar en 1. maí 2002, enda væri hún gerð í heimildarleysi.  Stefndu neituðu að verða við þessu og áttu sér stað nokkur bréfaskipti milli stefnanda annars vegar og umboðsmanns og lögmanns stefndu hins vegar af því tilefni.  Hinn 20. september 2002 lagði stefnandi fram hjá sýslumanninum á Akureyri beiðni um að lögbann yrði lagt við því að stefndu seldu eða ráðstöfuðu með öðrum hætti efni (sandi og/eða möl) úr landi jarðarinnar Skipalóns.  Sýslumaðurinn á Akureyri ákvað hinn 11. október 2002, með vísan til 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31, 1990 að lögbann næði ekki fram að ganga, en gerði stefndu (gerðarþolum) að setja fram tryggingu kr. 2.000.000.  Lögbannsmálið var fellt niður hjá sýslumanni og tryggingu skilað hinn 15. nóvember 2002.

Til viðbótar framangreindum málsatvikum segja stefndu að efnistaka á Gáseyri í landi jarðarinnar Skipalóns hafi hafist árið 1941 að tilhlutan Friðjóns Axfjörð, byggingameistara á Akureyri.  Efnistaka af jörðinni hafi verið stöðug allt frá þeim tíma.  Frá því að Snorri Pétursson, faðir stefndu varð eigandi jarðarinnar árið 1959 hafi hann haldið efnistöku áfram af jörðinni án nokkurra afskipta frá ríkisvaldinu.  Efnistaka hafi haldist eftir að jörðin komst í eigu stefndu.  Það hafi ekki verið fyrr en 16. nóvember 2001 að stefndu hafi borist bréf frá Náttúruvernd ríkisins þar sem þess hafi verið krafist að stefndu hættu að selja möl af jörðinni og hafi sú krafa verið á því byggð, að samkvæmt afsalsbréfinu fyrir jörðina Skipalón hafi námar og námaréttindi í landi jarðarinnar umfram heimilisþarfir verið undanskilin við sölu jarðarinnar.  Í framhaldi af þessu hafi verið haldinn fundur á Akureyri hinn 12. desember 2001 þar sem mættir hafi verið m.a. landeigendur ásamt lögmanni sínum, fulltrúar frá náttúruvernd ríkisins og lögfræðingur úr Landbúnaðarráðuneytinu.  Áður hafi farið fram vettvangsskoðun þar sem í ljós hafi komið að efnistaka hafði ekki nein áhrif á það svæði sem tilgreint er í náttúruminjaskrá og áframhaldandi efnistaka mundi heldur engin áhrif hafa.  Á þessum fundi og við vettvangsskoðun hafi lögfræðingur Landbúnaðarráðuneytisins virst sáttur við hvernig staðið var að efnistökunni og hafi því ekki verið gert ráð fyrir frekari aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins.  Í febrúar 2002 hafi hins vegar verið haft samband símleiðis við landeigendur frá Landbúnaðarráðuneytinu og þeir beðnir um að láta af efnistökunni.  Því hafi verið mótmælt með bréfi, dags. 21. febrúar 2002.  Landbúnaðarráðuneytið hafi ítrekað kröfur sínar um að efnistöku yrði hætt og reynt m.a. að fá sett lögbann á efnistökuna, sem ekki hafi náð fram að ganga.  Öllum kröfum ráðuneytisins um að efnistöku yrði hætt hafi verið mótmælt jafnóðum.  Ekki hafi verið um frekari aðgerðir af hálfu Landbúnaðarráðuneytisins að ræða fyrr en með útgáfu stefnu í máli þessu.

II.

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar einkum á skýrri og ótvíræðri eignarheimild sinni að öllum námaréttindum í landi jarðarinnar Skipalóns, þ.m.t. sand-, malar- og grjótnámi, þar sem réttindi þessi hafi skýrlega verið undanskilin við sölu jarðarinnar til föður stefndu árið 1959.  Stefndu leiði eignarrétt sinn að jörðinni fyrir erfðir af eignarétti þeim sem faðir þeirra hafði öðlast með afsalsbréfinu árið 1959 og geti því ekki öðlast betri rétt en hann átti.  Í afsalsbréfinu segi orðrétt:  „Námar og námaréttindi í landi jarðarinnar og sömuleiðis vatns- og jarðhitaréttindi umfram heimilisþarfir eru undanskilin sölu jarðarinnar.“  Stefnandi telur hafið yfir allan vafa að orðin „námar og námaréttindi” nái yfir hvers konar jarðefni, sem séu fjárverðmæti, þ.m.t. sand, möl og grjót.  Þessi sama málsgrein hafi um áratugaskeið verið í öllum afsalsbréfum þegar ríkisjarðir hafi verið seldar.  Hafi það byggst á lagaákvæði sem verið hafi mjög lengi í lögum og sé nú að finna í 3. mgr. 38. gr. jarðalaga nr. 65, 1976.  Þegar Skipalón hafi verið selt Snorra Péturssyni árið 1959 hafi lög nr. 4, 1946 veri í gildi um sölu þjóðjarða og kirkjujarða.  3. mgr. 1. gr. þeirra laga hafi hljóðað svo:  „Námaréttindi á þjóð- og kirkjujörðum skulu undanskilin sölu og sömuleiðis vatns- og jarðhitaréttindi umfram heimilisþarfir.“

III.

Stefndu kveðast byggja sýknukröfu sína á því að efnistaka á malarefni og sandi úr jarðarinnar Skipalóns í Hörgárbyggð sé þeim heimil lögum samkvæmt sem eigendum jarðarinnar.  Stefnandi byggi kröfugerð sína á því að hann sé eigandi að öllum námaréttindum í landi jarðarinnar Skipalóns, þ.m.t. sand-, malar- og grjótnámi, þar sem réttindi þessi hafi verið undanskilin við sölu jarðarinnar til föður stefndu árið 1959.  Þessu sé mótmælt sem röngu.  Í framangreindu afsali fyrir jörðinni Skipalóni hafi námar- og námaréttindi í landi jarðarinnar verið undanskilin við sölu hennar, en það sé skilningur stefndu að námar- og námaréttindi taki ekki til slíkrar efnistöku sem hafi farið fram á vegum stefndu og sé grundvöllur þessarar málshöfðunar.  Við sölu ríkisjarða hafi ávallt verið gerður skýr greinarmunur á náma og námarétti annars vegar og svo og efnistöku svo sem sand-, malar- og grjótnámi hins vegar.  Sú regla að undanskilja náma- og námaréttindi við sölu ríkisjarða hafi þannig verið til komin að koma hafi átt í veg fyrir að kaupendur ríkisjarða gætu hagnast með óhóflegum ætti á því að verða eigendur að góðmálmum sem kynnu að vera til staðar á jörðinni.  Með sama hætti hafi vatns- og jarðhitaréttindi verið undanskilin í sölu ríkisjarða enda ljóst að um mikilsverð verðmæti gæti verið að ræða.  Sala á sand- og malarefni geti vart fallið undir slíka skilgreiningu verðmæta, enda hagnaður af flutningi efnisins oftast meiri heldur en af sölu þess.  Þá benda stefndu á að í byggingarbréfi Snorra Péturssonar frá 27. maí 1948 hafi verið tekið fram að ábúanda væri óheimilt að selja eða flytja burt af jörðinni sand, möl og annað byggingarefni.  Í því tilviki geri stefnandi mikinn greinarmun á námum og námaréttindum annars vegar og sand-, malar- og grjótnámi hins vegar, sem hann þó velji að nefna byggingarefni.  Telja stefndu að túlka beri ákvæði í afsali með hliðsjón af ákvæði þessu í byggingarbréfinu.  Þá benda stefndu á að árið 1905 hafi verið lagt fram á alþingi frumvarp til námulaga.  Það hafi síðan verið lagt fram á alþingi aftur árið 1907.  Frumvarpið hafi verið til komið vegna þess að menn höfðu talið að gull hefði fundist í Vatnsmýrinni í Reykjavík.  Í umræðum um þetta frumvarp, sem síðar hafi orðið að námulögum nr. 61, 1907 hafi eingöngu verið fjallað um málma og málmgrýti þegar rætt hafi verið um náma.  Samhliða þessu frumvarpi hafi verið til meðferðar frumvarp um sölu þjóðjarða.  Í frumvarpinu um sölu þjóðjarða, sem síðar hafi orðið að lögum nr. 31, 1905 hafi fyrst komið fram það ákvæði að námar og námaréttindi skyldu undanskilin við sölu þjóðjarða.  Það verði að teljast eðlileg ályktun að segja að sami skilningur hafi verið á orðinu námar í báðum þessum frumvörpum.  Í lögum nr. 4, 1946 um sölu þjóðjarða og kirkjujarða hafi ákvæðinu um náma verið breytt og þar standi:  „Námar- og námaréttindi í landi jarðarinnar og sömuleiðis vatns- og hitaréttindi umfram heimilisþarfir eru undanskilin sölu jarðarinnar.“  Í umræðum um frumvarpið komi greinilega fram að þegar talað sé um „umfram heimilisþarfir“ sé átt við vatns- og jarðhitaréttindi en ekki náma- og námaréttindi.  Það komi einnig fram hjá Sigurði Thoroddsen:  „Það er ætlast til að undanskilja námuréttindi og af hverju þá ekki að undanskilja vatnsréttindi og jarðhitaréttindi ef þau eru einhvers virði og þau eru miklu frekar einhvers virði en námuréttindi það vitum við allir, en það er undantekning ef vitað er um námuréttindi sem eru nokkurs virði hér á landi en allir vita hvers virði vatnsréttindi og jarðhitaréttindi eru.“

Það verði að teljast ólíklegt að ríkisvaldið hafi ætlað að banna landeigendum efnistöku í sínu landi til heimilisþarfa.  Á þessum árum hafi efnistaka verið orðin töluverð í landinu, bæði vegna vegagerðar og steypu, svo það sé greinilegt að Sigurður Thoroddsen eigi við námur í sama skilningi og stefndu þ.e.a. málmblendinga.

Í athugasemdum við frumvarp til námulaga sem lagt hafi verið fram á Alþingi 1972 og síðar orðið að lögum nr. 24, 1973 hafi flutningsmaður Magnús Kjartansson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og iðnaðarráðherra, sagt m.a. eftirfarandi: „Námulög nr. 50, 30. júlí 1909, með breytingum samkvæmt lögum nr. 8, 31. maí 1927 og lögum nr. 20, 20. júní 1939 eru orðin úrelt.  Þau eru takmörkuð við málma og málmblendinga en taka eigi yfir önnur jarðefni.  Þá gilda þau einungis um námuréttindi „í jörðu eða landi sem er óskipt eign landssjóðs eða lénskirkjujarðar svo og í almenningum, öræfum og afréttum sem eigi liggja undir jarðeignir einstakra manna eða sveitafélaga sem metnar eru til dýrðleika“.  Þá skulu og lögin taka til námuréttinda í landssjóðs og lénskirkjujörðum sem seldar kynnu að verða eftir að lögin tóku gildi“.

Í jarðalögum nr. 65, 1976 sé einnig gerður greinarmunur á námaréttindum og rétti til efnistöku, sbr. 38. gr. laganna sem sé til stuðnings kröfugerð stefndu.  Þá benda stefndu á að í Orðabók Háskólans sé ekki að finna orðið malarnáma.  Í orðabókum þýði hins vegar orðið „náma“ svæði þar sem verðmæt efni eru grafin úr jörðu.  Þetta sé nákvæmlega sami skilningur og löggjafinn hafi haft á orðinu námar til þessa.

Af framangreindu sé ljóst að löggjafinn hafi alltaf lagt þann skilning í náma- og námaréttindi að þar væri einungis átt við málma og málmblendinga og geri það enn þótt öðru sé haldið fram í þessu máli.  Jörð stefndu, Skipalón, hafi enga sérstöðu í þessu máli.  Sandur, möl og grjót hafi verið selt frá jörðum um allt land sem eiga það sameiginlegt með Skipalóni að hafa verið í eigu ríkisins og jarðirnar verið keyptar með nákvæmlega sömu skilmálum og Skipalón.  Í fjölmörgum tilvikum hafi byggingarefni sandur, möl eða grjót verið keypt af stefnanda sjálfum eða stofnunum á hans vegum af þessum jörðum og til séu dæmi þess að beitt hafi verið fyrir sig ákvæði 45. gr. laga nr. 45, 1994, en samkvæmt því sé landeigandi skyldur til að leyfa að efni til vega sé tekið í landi hans, hvort heldur sé grjót, möl eða önnur jarðefni.  Þá vilji stefndu einnig taka fram, verði ekki fallist á framangreindar málsástæður og lagarök, beri eftir sem áður að taka kröfugerð þeirra til greina að fullu, því þeir hafi unnið hefð á því að nýta sér efnistöku í landi jarðarinnar Skipalóns samkvæmt 1. sbr. 2. gr. laga nr. 46, 1905 um hefð.  Eins og áður hafi verið rakið þá hafi óslitin efnistaka átt sér stað á landi jarðarinnar Skipalóns allt frá því að Snorri Pétursson varð eigandi að jörðinni árið 1959 fram til þessa dags.

IV.

Með afsali dags. 22. maí 1959 keypti Snorri Pétursson jörðina Skipalón af ríkinu og er í afsalinu svofellt ákvæði: „Námar- og námaréttindi í landi jarðarinnar og sömuleiðis vatns- og hitaréttindi umfram heimilisþarfir eru undanskilin sölu jarðarinnar.“  Ákvæði þetta er í samræmi við þágildandi lög um sölu þjóðjarða og kirkjujarða nr. 4, 1946 og sett í afsalið að boði þeirra laga.  Verður að skýra ákvæði afsalsins í samræmi við skýringu lagaákvæðisins.

Ákvæði laganna um námar- og námaréttindi var óbreytt frá lögum nr. 31, 1905 er það fyrst var sett í lög.  Verður því við þau lög að miða við skýringu á ákvæðinu.

Í greinargerð með frumvarpi téðra laga er ekki að finna skilgreiningu á orðinu námar, sem notað er í ákvæðinu.  Á svipuðum tíma og frumvarp þetta var til meðferðar á alþingi var þar til meðferðar frumvarp til námulaga svo sem greinir í rökstuðningi stefnda, en eins og þar segir fjallaði að frumvarp eingöngu um málma og málmgrýti.  Þá ber til þess að líta að þegar bætt var inn í ákvæðið, með lögum nr. 4, 1946, að undanskilja skyldi við sölu þjóðjarða og kirkjujarða vatns- og hitaréttindi, var tekið fram að átt vær við umfram heimilisþarfir, gagnstætt því er varðaði ákvæði um námar-og námaréttindi.  Verður fallist á það með stefndu að ólíklegt er að löggjafinn hafi ætlað að meina jarðareiganda nýtingu byggingarefna á jörð sinni til eigin nota.

Samkvæmt gögnum málsins var Snorra Péturssyni byggð jörðin Skipalón með byggingarbréfi, dags. 27. maí 1948.  Í byggingarbréfinu segir í 9. gr. að undanskilið sé erfðaleiguábúð:  a)  Vatnsorka og vatnsréttindi, hveravatn og hveraorka, málmar, málmgrýti, kol í jörðu, ölkeldur og önnur slík verðmæti, nema til heimilisnota, búsþarfa og jarðræktar svo sem til upphitunar, rafstöðva, áveitu og gróðurhúsa.  Enn fremur nauðsynlegt land til málmvinnslu fyrir aflstöðvar og orkuver er landsdrottinn kann að setja upp og láta setja upp til atvinnureksturs eða starfrækslu í sambandi við slíkar aflstöðvar eða námur, en ábúanda ber bætur fyrir jarðrask og átroðning er leiðir af virkjun vatns eða starfrækslu slíkra fyrirtækja.“  Í grein 11. a. segir:  „Erfðaleiguábúanda er óheimilt að selja eða flytja burt af jörðinni grassvörð, þökur, mó, viðarkol, möl, sand og grjót, málmgrýti, hveraleðju, hverahrúður, þang og þara, og önnur slík jarðefni og búfjáráburð.  Slík jarðefni og nytjar má ekki selja eða flytja burtu af jörðinni nema að fengnu leyfi landsdrottins eða til opinberra þarfa.“

Í 25. gr. byggingarbréfsins, lið 2 segir:  „Ábúanda er óheimilt að selja eða flytja burt frá jörðinni sand, möl og annað byggingarefni, en ráðuneytið áskilur sér rétt til að ráðstafa slíku byggingarefni án samþykkis ábúenda.“  Síðar í greininni segir að landsdrottinn fallist á að takmarka rétt sinn til ráðstöfunar á byggingarefni á Gáseyri. Virðist þarna gerður greinarmunur á málmum og málmgrýti annars vegar og hins vegar sandi, möl og grjóti svo sem stefndu halda fram.

Eins og stefndu benda á er í jarðalögum nr. 65, 1976 gerður greinarmunur á námuréttindum og rétti til efnistöku, sbr. 38. gr. laganna en þar segir:  „Námuréttindi og réttur til efnistöku skulu undanskilin við sölu.  Sömuleiðis vatns- og jarðhitaréttindi umfram heimilisþörf, ásamt nauðsynlegri aðstöðu til að hagnýta þau réttindi.“  Þykir þetta benda til að löggjafinn hafi litið svo á þessum tíma að efnistaka á jörð fælist ekki í námaréttindum samkvæmt eldri lögum.

Í málinu hafa verið lögð fram fjögur afsöl ríkisins á jörðum, hið fyrsta dags. 24. október 1928, annað 5. október 1946, hið þriðja 18. maí 1949 og hið fjórða 17. ágúst 1966, sem öll innihalda samhljóða ákvæði um að námar- og námaréttindi í landi viðkomandi jarða fylgi ekki með í sölunni.  Þá hafa verið lögð fram fjögur afsöl ríkisins á jörðum, hið fyrsta dags. 25. nóvember 1966, annað 13. mars 1973, hið þriðja dags. 6. maí 1987 og hið fjórða dags. 23. desember 1993, þar sem tekið er fram að auk námar- og námaréttinda sé réttur til efnistöku undanskilinn í sölunni.  Virðist mega ráða af þessu að af hálfu ríkisins hafi texta afsala að þessu leyti verið breytt á árinu 1966, sem bendir til þess að stefnanda hafi þótt a.m.k. vafi leika á því að efnistaka, svo sem malar- og sandtaka, væri innifalin í fyrra ákvæði um námar- og námaréttindi.

Ákvæði laga nr. 31, 1905 svo og síðari laga er í stað þeirra komu um að námar- og námaréttindi fylgdu ekki með í sölu ríkisjarða fólu í sér takmörkun á eignarétti þeirra er jarðirnar keyptu.  Þykja almenn lögskýringasjónarmið leiða til þess að túlka beri lagaákvæði þetta þröngt.

Að öllu framangreindu virtu þykir verða að skýra nefnt ákvæði í lögum nr. 4, 1946 þannig að með ákvæðinu um námar- og námaréttindi sé einungis átt við málma, málmgrýti og önnur slík efni, en ekki almenn byggingarefni svo sem möl, sand og grjót.

Verður samkvæmt framansögðu talið að réttur til malar- og sandtekju á jörðinni Skipalóni hafi ekki verið undanskilinn er jörðin var seld Snorra Péturssyni, sem stefndu leiða rétt sinn frá.  Teljast réttindi þessi því eign stefndu í máli þessu og verða þau því sýknuð af kröfum stefnanda.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefndu málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 400.000.

Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefndu, Þórir Snorrason, Lovísa Snorradóttir, Jónína Snorradóttir og Unnur B. Snorradóttir skulu sýkn af kröfum stefnanda, íslenska ríkisins í máli þessu.

Stefnandi greiði stefndu kr. 400.000 í málskostnað.