Hæstiréttur íslands
Mál nr. 4/2002
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Refsiákvörðun
- Skilorðsrof
|
|
Fimmtudaginn 16. maí 2002. |
|
Nr. 4/2002. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Tryggva Rúnari Guðjónssyni (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Ávana- og fíkniefni. Refsiákvörðun. Skilorðsrof.
T var ákærður fyrir innflutning á 16.376 töflum og um 59 g af töflumulningi með fíkniefninu MDMA, rúmlega 200 g af kókaíni og rúmlega 8 kg af hassi. T játaði að hafa tekið við fíkniefnunum í Amsterdam og sent þau með pósti til Íslands en búið hafði verið um efnin í hátölurum og bassaboxi. T bar hins vegar að hann hafi talið að 12 kg af hassi hefðu verið í sendingunni en ekki önnur efni. Krafðist T ómerkingar málsins þar sem tvö vitni hefðu ekki komið að nýju fyrir dóm við síðari aðalmeðferð málsins í héraði og hið þriðja hafi þá neitað að tjá sig, en héraðsdómari hafði vikið sæti að lokinni aðalmeðferð og annar héraðsdómari tekið við málinu. Þá hafi borið að kveðja til meðdómendur í samræmi við 5. gr. laga um meðferð opinberra mála. Var ekki talið að efni væru til að ómerkja héraðsdóm af þessum ástæðum eða öðrum. Sannað var að T hafði átt frumkvæði að innflutningnum í hátalaraboxum og að hann hafði haft góða aðstöðu til að kanna hvers kyns efnin voru áður en hann flutti þau til landsins. Var því ekki fallist á þá fullyrðingu T, að til hafi staðið að flytja inn annað og vægara fíkniefni en flutt var inn í raun. Fallist var á forsendur refsiákvörðunar héraðsdóms að öðru leyti en því, að ekki þótti ástæða til þess að beita 2. málslið 2. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga í því skyni að fara út fyrir þann 10 ára refsiramma, sem við var að miða er T framdi brot sitt. Með hliðsjón af skilorðsrofi T, dómaframkvæmd og hinu mikla magni hættulegra fíkniefna, sem T flutti inn í ágóðaskyni, þótti refsing hans hæfilega ákveðin 10 ára fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. janúar 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða og upptöku fíkniefna auk þyngingar á refsingu.
Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist, að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar aðalmeðferðar og dómsálagningar. Til vara krefst ákærði þess, að hann verði sýknaður af sakargiftum, er lúta að innflutningi á 16.376 töflum og 59,33 grömmum af töflumulningi með fíkniefninu MDMA og 200,98 grömmum af kókaíni. Þess er krafist, að refsing ákærða verði milduð verulega.
I.
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi vék héraðsdómari sæti með úrskurði 22. október 2001, en hann hafði dómtekið málið 3. sama mánaðar að lokinni aðalmeðferð. Við málinu tók þá annar héraðsdómari og kvað upp þann dóm, sem hér er til endurskoðunar, að lokinni nýrri aðalmeðferð.
Ákærði reisir kröfu sína um ómerkingu og heimvísun á því, að við síðari aðalmeðferð málsins í héraði hafi tvö vitnanna ekki komið að nýju fyrir dóm og hið þriðja hafi þá neitað að tjá sig. Óheimilt sé að byggja sönnunarmat á skýrslum, sem gefnar hafi verið fyrir öðrum dómara við aðalmeðferð, sem í raun hafi verið ómerkt, þegar sá dómari vék síðar sæti. Þá hafi borið að kveðja til meðdómendur í samræmi við 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar sé lítt rökstudd og kunni að vera röng, svo að einhverju skipti um úrslit málsins, sbr. 5. mgr. 159. gr. sömu laga.
Vitnið Lucy Emma Louise Green, fyrrum sambúðarkona ákærða, hafði neytt heimildar til að skorast undan skýrslugjöf við fyrri aðalmeðferð málsins, sbr. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 19/1991, og var erlendis, þegar síðari aðalmeðferðin fór fram. Vitnið Pálmi Geir Jónsson gaf skýrslu við fyrri aðalmeðferð málsins, en sinnti ekki kvaðningu um að koma fyrir dóm við síðari aðalmeðferð, og hefur sú neitun ekki verið skýrð. Skýrsla hans hafði einkum lotið að skuldastöðu ákærða gagnvart honum, en ákærði hafði sent hin umræddu fíkniefni frá Amsterdam á nafn fyrirtækis vitnisins í Reykjavík, að sögn beggja að því fornspurðu. Vitnið Sara Reginsdóttir, sambúðarkona Jóns heitins Guðmundssonar, sem einnig gaf skýrslu við fyrri aðalmeðferð málsins, neitaði að tjá sig við síðari aðalmeðferðina vegna hótana, sem hún hefði fengið, og ótta við ákærða og menn, sem honum tengjast, en ákærði hafði ítrekað hringt í vitnið kvöldið áður. Hún kvaðst hins vegar vilja vísa til þess, sem hún hefði áður sagt fyrir dómi, og hefði hún engu við það að bæta.
Þegar framangreindar aðstæður eru virtar verður að telja, að héraðsdómara hafi verið rétt með hliðsjón af 2. og 3. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 að líta til fyrri framburðar þessara vitna fyrir dómi, en sakfelling er þó einkum reist á mati á framburði ákærða sjálfs og vitnisins Bjarka Ríkharðssonar auk sýnilegra sönnunargagna. Þá verður ekki talið, að héraðsdómara hafi verið nauðsynlegt að kveðja til meðdómsmenn, en neitun ákærða á sakargiftum lýtur einkum að því, að honum hafi ekki verið kunnugt um, að í sendingunni hafi verið annað en hass. Verður ekki séð, að efni séu til að ómerkja héraðsdóm af þessum ástæðum eða öðrum.
II.
Með skírskotun til röksemda héraðsdóms er fallist á sakarmat hans og forsendur refsiákvörðunar að öðru leyti en því, að ekki þykir ástæða til þess, eins og hér stendur á, að beita 2. málslið 2. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 í því skyni að fara út fyrir þann 10 ára refsiramma 173. gr. a. sömu laga, sem við var að miða, er ákærði framdi brot sitt, sbr. nú lög nr. 37/2001. Með hliðsjón af skilorðsrofi ákærða á eftirstöðvum tveggja ára og þriggja mánaða fangelsisrefsingar, dómaframkvæmd og hinu mikla magni hættulegra fíkniefna, sem ákærði flutti til landsins í ágóðaskyni, þykir refsing hans hæfilega ákveðin 10 ára fangelsi. Gæsluvarðhald ákærða kemur refsivist til frádráttar, eins og nánar segir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna er staðfest.
Þar sem aðalmeðferð í héraði þurfti að fara fram í tvígang vegna vanhæfis fyrri dómara málsins þykir rétt, að á ríkissjóð verði felldur 1/3 hluti málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða í héraði. Að öðru leyti verður ákvörðun héraðsdóms um sakarkostnað staðfest. Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Tryggvi Rúnar Guðjónsson, sæti fangelsi í 10 ár. Til frádráttar refsivist ákærða komi gæsluvarðhald hans frá 6. apríl 2001.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna er staðfest.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest að öðru leyti en því, að 1/3 hluti málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða skal greiðast úr ríkissjóði.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 170.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2001.
Mál þetta var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 27. júlí 2001, á hendur Tryggva Rúnari Guðjónssyni, kt. 080665-2969, Höfðabakka 1, fyrir „brot gegn almennum hegningarlögum, með því að hafa í mars 2001 í ágóðaskyni staðið að innflutningi á samtals 16.376 töflum og 59,33 g af töflumulningi með fíkniefninu MDMA (3.4 metýlendíoxýmetamfetamíni), 200,98 g af kókaíni og 8.155,20 g af hassi. Ákærði tók við fíkniefnunum í Amsterdam og sendi þau með pósti hingað til lands í tveimur kössum, en búið hafði verið um efnin í hátölurum og bassaboxi. Hinn 5. apríl 2001 sótti ákærði fíkniefnin á flutningsmiðstöð TVG-Zimsen við Héðinsgötu, Reykjavík, en hann var handtekinn skömmu síðar með efnin í vörslum sínum.
Þetta er talið varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. lög nr. 64, 1974.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Ennfremur er þess krafist að ofangreind fíkniefni verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitisskyld lyf nr. 233, 2001.“
Verjandi ákærða gerir þær kröfur aðallega að ákærði verði sýknaður af ákæruefnum og að sakarkostnaður, þ. m. t. hæfileg málsvarnarlaun skipaðs verjanda, greiðist úr ríkissjóði. Til vara að ákærði verði sýknaður af innflutningi á 16.376 MDMA töflum og 59,63 g af töflumulningi og 200,98 g af kókaíni. Verði ákærði sakfelldur er þess krafist að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist frá 6. apríl 2001 dragist frá dæmdri refsingu auk þess sem hann verði einungis dæmdur til að greiða hluta sakarkostnaðar.
Með úrskurði uppkveðnum 22. október sl. vék Jón Finnbjörnsson héraðsdómari, sæti í málinu en hann hafði farið með málið og dómtekið það 3. október sl.
Fór aðalmeðferð fram að nýju og málið að því búnu dómtekið.
Málavextir.
Samkvæmt lögregluskýrslum er upphaf þessa máls það, að snemma árs 2001 bárust lögreglu upplýsingar sem bentu til þess að Tryggvi Rúnar Guðjónsson, ákærði í máli þessu, hefði í hyggju að flytja talsvert magn af fíkniefnum hingað til lands. Á grundvelli þeirra veitti Héraðsdómur Reykjavíkur í mars síðastliðnum lögreglu heimild til þess að hlusta á og hljóðrita símtöl um síma ákærða. Hinn 29. mars hélt ákærði út til Amsterdam og taldi lögregla að þar hygðist hann kaupa fíkniefni sem hann ætlaði sér að senda til Íslands. Ákærði kom til landsins hinn 3. apríl og fylgdist lögregla upp frá því með ferðum hans. Hinn 5. apríl veitti lögregla ákærða eftirför þar sem ákærði var farþegi í bifreiðinni PO-082, en ökumaður var Bjarki Ríkharðsson. Fylgdist lögregla með bifreiðinni er henni var ekið að afgreiðslu TVG-Zimsen við Héðinsgötu en ákærði fór inn í afgreiðsluna. Nokkru síðar kom ákærði út í bifreiðina sem ekið var um í stutta stund. Stuttu síðar fór ákærði í port flugfraktar Flugleiða. Þar sá lögregla ákærða setja tvo brúna pappakassa í farangursrými bifreiðarinnar. Bifreiðinni var því næst ekið brott, en lögregla stöðvaði hana nokkrum mínútum síðar og handtók ákærða og Bjarka.
Sending sú sem ákærði sótti var stíluð á fyrirtækið P&P ehf., kt. 630799-2289. Fyrirsvarsmaður þess er Pálmi Geir Jónsson, kt. 280346-2179. Í pappakössum þeim sem ákærði hafði meðferðis reyndust vera tveir hátalarar. Þegar þeir höfðu verið opnaðir kom í ljós að í hvorum um sig voru 5 pakkningar skorðaðar af með klæðaefni. Pakkningar þessar voru átta pakkar ferhyrndir þ. e. sex með gráu plastefni og tveir með svörtu og tveir pakkar í svörtu plastefni en án skarpra brúna. Reyndist efnið vera 16.376 töflur, 59,33 g af töflumulningi, með fíkniefninu MDMA, 200,98 g af kókaíni og 8.155,20 g af hassi en fyrir liggur í málinu matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum við Háskóla Íslands um innihald efnanna.
Ákærði, svo og þeir Bjarki Ríkharðsson og Pálmi Geir Jónsson, voru í framhaldi af þessu úrskurðaðir í gæsluvarðhald og hefur ákærði sætt gæsluvarðhaldi óslitið síðan.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Fyrir dómi játaði ákærði að hafa sent umrædda sendingu af stað frá Amsterdam og að hafa tekið við henni hér á landi. Hann bar hins vegar að hann hefði talið að 12 kg af hassi hefðu verið í hátalaraboxunum, en ekki nein önnur efni.
Ákærði lýsti tildrögum málsins svo að vinur hans, Jón Elís Guðmundsson, sem nú er látinn, hefði stofnað til skulda í Amsterdam og hefði ákærði verið gerður ábyrgur fyrir þeim skuldum. Jón heitinn hefði á árinu 2000 farið með ákærða einn dag til Amsterdam, en ákærði hafði þá verið í Þýskalandi vegna bifreiðaviðskipta. Hann hefði ekið Jóni á fund og hefði ákærði þá hitt tvo menn í um 10 mínútur. Ákærði sagði, að sér skildist að Jón hefði sagt þessum mönnum að ákærði væri samstarfsmaður sinn en það hefði hann gert til að auka lánstraust sitt hjá þeim. Að Jóni látnum hefðu þessir menn sagt ákærða að Jón hefði sagt þá í samstarfi og að ákærði væri ábyrgur fyrir skuldum Jóns til jafns við Jón sjálfan. Hefði ákærði flogið til Amsterdam í desember til að hitta þessa lánardrottna Jóns og þá hefði hann staðið frammi fyrir tveimur kostum, annað hvort að greiða skuldina, eitthvað um níu milljónir króna, eða þá að „flytja eina ferð“ fyrir þessa aðila. Ákærði sagði, að fyrst hefði hann alls ekki verið tilbúinn til slíks en sér hafi verið gert það ljóst að skuldin yrði innheimt af þeirri hörku sem þyrfti og yrðu sendir menn til Íslands til að herja á ákærða, fjölskyldu ákærða og ekkju Jóns. Að endingu hefði ákærði fallist á að flytja 12 kg af hassi til Íslands gegn því að skuldin yrði úr sögunni auk þess sem hann fengi greiddar 2 milljónir króna í peningum.
Í lok mars hafi hann svo farið út til fundar við þessa aðila en þeir hefðu gengið frá fikniefnunum og pakkað þeim inn. Hefði ákærði farið með manni að nafni Carlos og keypt hátalara og bassabox sem gætu rúmað efnin. Þegar gengið hafði verið frá kössunum hefði ákærði farið við annan mann á flutningamiðstöð í Amsterdam. Hann hefði merkt pakkana P og P ehf., sem væri fyrirtæki Pálma Jónssonar en þeim aðila hafi verið alls ókunnugt um þetta.
Ákærði kveðst sjálfur hafa átt þá hugmynd að flytja efnin í hátölurunum en ekki hafa séð efnin sjálfur. Þetta hefðu hins vegar átt að vera 12 kg af hassi og hefði sér verið sýndur hlutur sem hefði átt að vera sambærilegur að stærð. Ákærði og mennirnir hefðu tekið hátalarana úr umbúðunum en því næst hefðu mennirnir komið fíkniefnunum fyrir og lokað kössunum. Þetta hefði verið gert í íbúð þeirra, en ákærði kvaðst hafa haldið þar til þá fimm daga sem hann dvaldi í borginni. Mennirnir hefðu farið í annað herbergi til að ganga frá kössunum en ákærði kveðst hafa beðið annars staðar í íbúðinni á meðan. Mennirnir hefðu pakkað öllu og kveðst ákærði aldrei hafa séð innihald pakkanna heldur aðeins ferkantaðar pakkningar, umvafðar svörtu límbandi. Ákærði hefði ekki óskað eftir því að skoða pakkana en það hefði verið skýrt af sinni hálfu og margrætt að eingöngu yrði um hass að ræða. Bögglarnir hefðu verið ferkantaðir eins og hass-sendingar væru venjulega. Ákærði kveðst hafa séð ofan í pappakassa þar sem bögglunum hefði verið raðað en aðeins séð ofan á pakkana.
Ákærði sagði að íbúð mannanna hefði verið í húsi í úthverfi, en ákærði gat ekki staðsett íbúðina nánar. Sagði hann að annar mannanna héti Carlos, hinn Ratz. Þeir væru báðir um þrítugt og gaf ákærði nánari lýsingu á útliti þeirra. Ákærði kvaðst síðan hafa farið með Carlosi á flutningamiðlun og sent pakkann.
Ákærði kvaðst ítrekað ekki geta gert grein fyrir þeim e-töflum og því kókaíni sem var falið í kössunum. Það hefði ekki verið í samræmi við samning þann sem hann hefði gert.
Ákærði var spurður um samræður sínar við Pálma Geir Jónsson í bifreið sinni og lögreglan hafði hlustað á samkvæmt heimild. Í samræðunum hafði ákærði sagt við Pálma: „Ég er að koma upp stöðugum flutningum. Ég var bara að koma þessu heim núna. Ég gat ekki borgað flutninginn þú skilur.“ Ákærði sagði, að hér hefði hann verið að telja Pálma trú um að hann ætti von á fé, en hann skuldaði Pálma umtalsverðar fjárhæðir auk þess að afsaka að hafa notað nafn hans. Skuld sín við Pálma næmi sennilega um 10-12 milljónum króna. Ákærði var því næst spurður um orð sín: „Ég er alveg klár á því sko, ég hef mjög góða tilfinningu fyrir þessu svona. Ég gekk frá þessu öllu sjálfur.“ Ákærði sagðist hér hafa átt við að hann hefði farið með pakkann út á flugvöll ytra og hafi ætlað sér að ná í hann hér heima og gert sér góðar vonir um að þetta tækist vel.
Ákærði var spurður um tengsl sín við Bjarka Ríkharðsson og sagði ákærði kynni þeirra hafa staðið í átta til tíu ár og þekktust þeir vel. Ákærði var spurður um þann framburð Bjarka, að skömmu fyrir ferð sína til Amsterdam 29. mars hefði ákærði talað um að hann hefði kredit fyrir 10.000 e-töflum og þyrfti að greiða skuldir. Hefði ákærði talað um að hann þyrfti að flytja inn 30.000 e-töflur og hálft kílógramm af kókaíni til að losa sig úr skuldunum. Ákærði hefði sagt að hann hefði ekki nægilegt lánstraust ytra til slíkra kaupa. Ákærði sagði þennan framburð Bjarka úr samhengi við þær viðræður sem þeir hefðu átt. Ákærði sagðist engar skýringar hafa á því hvað Bjarka gengi til með þessum framburði.
Ákærði var spurður hvað hann teldi hafa verið sennilegt söluverð 12 kílógramma af hassi. Ákærði taldi að grammið hefði selst á 1.500 krónur.
Ákærði sagði að Ratz og Carlos hefðu sagt að hann skyldi grafa efnið í jörð og bíða þess að í hann yrði hringt. Skyldi hann svo fara með þeim sem hringdi og sýna honum felustaðinn.
Ákærði var spurður hvernig þessir menn í Amsterdam hefðu haft samband við hann hér á landi. Ákærði sagði, að í nóvember og desember hefðu þeir hringt bæði á heimili sitt sem og í gsm-síma sinn. Númerin hefðu verið óskráð en þeir hefðu sjálfsagt fengið upplýsingar um þau hjá Jóni heitnum.
Vitnið, Bjarki Ríkharðsson, sagðist vera vinur ákærða og hafa þekkt hann síðan 1994. Vitnið var spurt um fjárhagsstöðu ákærða og sagðist vitnið hafa það frá ákærða að hann væri mjög skuldugur. Hluti af því, en alls ekki allt, væri skuld ákærða við áðurnefndan Pálma Geir Jónsson.
Vitnið var spurt hvenær það hefði orðið þess áskynja að ákærði hygðist flytja inn bíla og jafnvel fíkniefni og sagðist vitnið ekki muna það nákvæmlega. Spurt hvort það hafi verið áður en vitnið var handtekið sagði vitnið að ákærði hefði ekki sagt sér skýrt að hann hygði á fíkniefnainnflutning. Vitnið sagðist ekki muna þetta nákvæmlega, en ákærði hefði talað um að þar væri kannski komin leið til að bjarga fjármálunum. Vitnið var spurt um þau orð sín í lögregluskýrslu að ákærði hefði sagst hafa lánstraust fyrir allt að 10.000 e-töflum og að ákærði þyrfti að flytja inn 30.000 töflur og hálft kílógramm af kókaíni til þess að ná sér úr skuldum og staðfesti vitnið að ákærði hefði sagt þetta við sig nokkrum dögum áður en ákærði hefði farið utan. Vitnið sagði að ákærði hefði ekki sagst vera á förum til útlanda þar og þá til þess að kaupa og flytja inn fíkniefni og vitnið tók fram að ákærði hefði sagst þurfa að flytja inn slík efni en ekki að ákærði hygðist gera það. Ákærði og vitnið hefðu á þessum tíma verið undir miklu álagi og slíkur fíkniefnainnflutningur hafi verið meðal þess sem til greina hafi komið til að komast á réttan kjöl. Einnig hefðu aðrir möguleikar komið til greina og nefndi vitnið sérstaklega að ákærði væri fær bifreiðasali og hefði talsverðar tekjur af slíkri starfsemi.
Vitninu var kynnt að ákærði neitaði alfarið að hafa nokkru sinni rætt við vitnið á þeim nótum sem vitnið bæri. Vitnið sagðist ekkert hafa að segja um þá neitun ákærða.
Vitnið var spurt hvort því hefði verið kunnugt um að fíkniefni væru í sendingunni sem þeir hefðu sótt í TVG-Zimsen og sagðist vitnið ekkert hafa vitað um það en ákærði hefði gefið í skyn að eitthvað kæmi til landsins þann sama dag. Ákærði hefði komið á heimili vitnisins og beðið það um að aka sér að sækja einhverjar vörur. Ákærði hefði ekkert talað um hvað hann væri að sækja en hefði gefið í skyn að hann væri „eitthvað að fara að standa í svona einhverjum innflutningi“.
Vitnið sagðist ekki hafa átt mikil samskipti við ákærða eftir að ákærði kom frá Hollandi en fram hefði komið hjá ákærða að hann hefði verið ánægður með ferðina. Ákærði hefði talað um að ferðin hefði verið farin vegna bifreiðaviðskipta en vitnið hefði áður beðið ákærða um að útvega sér bifreið.
Vitnið sagði að ákærði hefði sagt sér að vinur sinn, „Jón massi“, hefði stofnað til einhverra skulda í Hollandi og að ákærði hefði lent í „vandræðum“ vegna þeirra. Hefði ákærði sagt að einhverjir Hollendingar hefðu í raun fært skuldir Jóns yfir á ákærða og þyrfti ákærði að finna einhverja leið til að ljúka því máli. Einn möguleikinn til þess hefði verið að flytja fíkniefni hingað til lands fyrir Hollendingana og annar möguleiki hefði verið að kaupa efni til þess að selja hér. Ákærði hefði verið hræddur við þessa skuld. Vitnið sagðist hafa skilið ákærða þannig að vegna þessarar skuldar Jóns hefði ákærði misst lánstraust sitt hjá Hollendingunum.
Vitnið, Pálmi Geir Jónsson, fyrirsvarsmaður P & P ehf., kom fyrir dóm við fyrri aðalmeðferð málsins og sagði að ákærði hefði aldrei leitað leyfis hjá sér fyrir því að flytja vörur eða annað til landsins í nafni fyrirtækis vitnisins. Vitnið hefði ekkert af innflutningi ákærða vitað fyrr en TVG-Zimsen hefði haft samband við sig.
Vitnið kvað ákærða skulda sér verulegt fé og giskaði á að skuldin næmi um 15-20 milljónum króna. Vitnið hefði þó ekki reiknað það nákvæmlega. Hefði þetta gengið svo í 15 ár. Vitnið var spurt hvort ákærði hefði, áður en ákærði fór til Hollands hinn 29. mars, sagt nokkuð við vitnið sem kynni að benda til þess að ákærði hefði von til að úr sínum fjármálum rættist á næstunni. Vitnið kvaðst hafa talað við ákærða eftir að ákærði kom að utan og áður en ákærði var hnepptur í gæsluvarðhald og hefðu þeir reyndar verið mikið í sambandi. Vitnið mundi ekki hvort ákærði hefði þá haft uppi nokkur orð þess efnis að hlaupið hefði á snærið hjá ákærða í Hollandsferðinni. Vitnið mundi ekki til þess að ákærði hefði haft fleiri orð um slíkt en venja hefði verið. Vitnið mætti ekki til skýrslugjafar við síðari aðalmeðferð málsins.
Fyrir dómi við fyrri aðalmeðferð málisins bar vitnið, Sara Reginsdóttir, sem var sambýliskona Jóns heitins Guðmundssonar, að ákærði hefði nefnt við sig, að Jóni látnum, að Jón hefði verið stórskuldugur. Ákærði hefði ekki sagt hvort lánardrottnar Jóns væru íslenskir eða erlendir en ákærði hefði reynt að fá vitnið til að greiða skuldirnar. Vitnið vissi ekki hvernig þessar skuldir hefðu stofnast eða hverjir lánardrottnarnir væru. Vitnið sagðist hafa talið að þessar skuldir væru tilkomnar vegna fíkniefnaneyslu Jóns. Hins vegar hefðu hinir og þessir knúið dyra hjá sér í innheimtuerindum og krafist greiðslu skulda sem vitnið hefði aldrei heyrt talað um. Enginn þeirra hefði hins vegar kynnt sig sem fulltrúa nokkurra erlendra aðila. Dánarbú Jóns ætti engar eignir og sjálft væri vitnið gjaldþrota. Fram kom að vitnið og Jón hefðu farið til Mexíkó seint á síðastliðnu ári. Vitnið var spurt hvort Jón og ákærði hefðu verið í símasambandi á meðan sú ferð stóð og sagðist vitnið ekkert vita um það. Vitnið sagðist vita til þess, að um þetta leyti, í nóvember 2000, hefði Jón verið „rosalega pirraður á“ ákærða en hins vegar hefðu ekki verið mikil samskipti þeirra í millum þá en þeir hefðu þó eitthvað ræðst við. Vitnið vissi hins vegar ekki hvað þeim hefði farið á milli og hefði ákærði aldrei komið á heimili vitnisins.
Vitnið var spurt hvort það hefði setið fund á heimili ákærða þar sem hefðu verið menn sem hefðu fíkniefnaskuldir til innheimtu. Vitnið kvaðst hafa komið á heimili ákærða og þangað hefðu svo komið tveir menn en ekki hefðu verið sérstök fundahöld. Erindi sitt hafi verið það, að ákærði hefði átt að endurgreiða vitninu skuldir vegna bifreiðaviðskipta. Vitnið hefði greitt „einhverjar tryggingar og [ákærði] átti að borga það til baka.“ Vitnið kom fyrir dóminn við síðari aðalmeðferð málsins en neitaði að tjá sig og bar við ótta vegna símahótana.
Lucy Emma Louise Green, sambýliskona ákærða, var kvödd fyrir dóminn við fyrri aðalmeðferð málsins. Hún baðst undan því að bera vitni með vísan til 2. mgr. 50. gr. laga nr. 19/1991 og var fallist á þá ósk. Vitnið var boðað að nýju við aðalmeðferð 19. nóvember sl. en mætti ekki þar sem vitnið var statt á Englandi.
Niðurstaða.
Ákærði hefur játað að hafa flutt til landsins fíkniefni með þeim hætti sem í ákæru greinir. Hann hefur hins vegar frá öndverðu neitað því að hafa vitað hvers kyns efni um var að ræða og ber að hann hafi talið efnið vera hass.
Svo sem rakið hefur verið hér að framan átti ákærði frumkvæði að því að flytja fíkniefnin til landsins í hátalaraboxum og sá meðal annars um kaup á hæfilegri stærð þeirra sem rúmað gætu efnið. Þá var ákærði á staðnum þegar efnunum var pakkað í þessar umbúðir og viðurkennir að hafa séð þær pakkningar sem efnið var í. Ákærði hafði því góða aðstöðu til að kanna, hvers kyns efnin voru, áður en hann flutti þau til landsins. Það kvaðst hann ekki hafa gert þar sem hann hefði verið fullvissaður um að aðeins væri um hass að ræða. Framburður ákærða um þetta atriði þykir einkar ótrúverðugur og fær enga stoð í framburði vitnisins, Bjarka Ríkharðssonar, sem ber þvert á móti að ákærði hafi hugleitt að flytja inn mikið magn af e-töflum til að ná sér út úr skuldum. Fellst dómurinn ekki á þá fullyrðingu ákærða að til hafi staðið að flytja inn annað og vægara fíkniefni.
Ákærði hefur viðurkennt að hafa átt á fá greiddar tvær milljónir króna fyrir að flytja inn fíkniefnin auk þess sem hann kvaðst fá niðurfellda skuld sem nam milljónum króna sem sölumenn fíkniefnanna hafi talið hann ábyrgan fyrir. Hvað sem líður þeirri fullyrðingu ákærða að hann hafi ekki stofnað til þeirrar skuldar er ljóst að innflutningur efnisins var í ágóðaskyni. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið ber að sakfella ákærða fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir og þar er réttilega heimfærð til refsingar.
Ákærði hefur allnokkurn afbrotaferil að baki, meðal annars vegna brota gegn almennum hegningarlögum. Hér ber einkum að líta til dóms Hæstaréttar frá 4. nóvember 1999, sem staðfesti dóm héraðsdóms frá maí 1999, þar sem ákærði var dæmdur til að sæta fangelsi í tvö og hálft ár vegna brots gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Var fullnustu tveggja ára og þriggja mánaða af refsingunni frestað með almennu skilorði til þriggja ára vegna dráttar á að ákæra væri gefin út. Reiknast skilorðstími frá 10. maí 1999 og var hann því ekki liðinn þegar ákærði framdi brot sitt. Hefur ákærði, með broti því sem hann hefur hér verið fundinn sekur um, rofið skilorð þessa dóms og verður skilorðsbundni hluti refsingarinnar dæmdur með, skv. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og refsing tiltekin í einu lagi eftir reglum 77. gr. sömu laga.
Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafa á síðustu árum verið ákveðin þung refsiviðurlög vegna meðferðar á fíkniefninu MDMA hér á landi, en það hefur verið álitið eitt hið hættulegasta á fíkniefnamarkaði, sbr. H.1997.328. Til refsiþyngingar ber að líta til hins gríðarlega magns þessa hættulega fíkniefnis sem ákærði hefur verið fundinn sekur um að flytja til landsins en það var til þess fallið að eyðileggja heilbrigði ótiltekins fjölda manna hefði það komist í dreifingu eins og að var stefnt. Brotið var þaulskipulagt og framdi ákærði það á skilorði vegna dóms fyrir að hafa haft í vörslum sínum verulegt magn fíkniefna. Þykir þetta sýna styrkan og einbeittan brotavilja hans. Þá þykir, miðað við málavexti alla, ástæða til að beita 2. málslið 2. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga. Að mati dómsins eru engin atriði fram komin sem virða beri ákærða til málsbóta. Að þessu virtu og með hliðsjón af 1., 3., 5., 6. og 7. tölul. 1. mgr. 70. gr. svo og 71. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 11 ár. Frá refsingu ber að draga óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 6. apríl 2001.
Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur.
Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001 skulu gerð upptæk í ríkissjóð umrædd fíkniefni.
Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Ákærði, Tryggvi Rúnar Guðjónsson, sæti fangelsi í 11 ár. Frá refsingu ber að draga gæsluvarðhald hans frá 6. apríl 2001.
Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur.
Gera skal upptækar 16.376 MDMA-töflum, 59,33 g af töflumulningi með fíkniefninu MDMA, 200,98 g af kókaíni og 8.155,20 g af hassi.