Hæstiréttur íslands

Mál nr. 180/2006


Lykilorð

  • Forkaupsréttur
  • Jörð


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. desember 2006.

Nr. 180/2006.

Inga Helga Björnsdóttir

(Jónas A. Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Braga Sigurði Guðmundssyni

Victori Knúti Björnssyni

Veiðifélaginu Bláskógum sf. og

Veiðifélaginu Bláskógum ehf.

(Gestur Jónsson hrl.)

 

Forkaupsréttur. Jörð.

I, sem er ábúandi jarðarinnar Þ, krafðist þess að B, V og VB sf. yrðu dæmd til að viðurkenna forkaupsrétt hennar að jörðinni vegna framsals jarðarinnar til VB ehf. Hún krafðist þess jafnframt að VB ehf. yrði gert að þola ógildingu á framsalinu. VB sf. hafði eignast jörðina árið 1965, en árið 1996 var stofnað einkahlutafélagið VB ehf. um eignarhald hennar. Eigendur sameignarfélagsins greiddu fyrir hluti sína í einkahlutafélaginu hver með sinni eign í því, en jörðin var eina eign félagsins. Vísað var til þess að forkaupsréttur samkvæmt jarðalögum nr. 65/1976 og núgildandi jarðalögum nr. 81/2004 yrði ekki virkur við það að greitt væri með hlut í sameignarfélagi fyrir hlut í hlutafélagi með þessum hætti eða í raun við breytingu á félagsformi um eignarhald á jörð. Var því ekki fallist á kröfur I.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. mars 2006. Hún krefst þess að stefndu Bragi Sigurður, Victor Knútur og Veiðifélagið Bláskógar sf. verði dæmd til þess að viðurkenna forkaupsrétt hennar að jörðinni Þverfelli í Lundarreykjadal vegna framsals jarðarinnar til stefnda Veiðifélagsins Bláskóga ehf. Þá krefst hún þess að stefnda Veiðifélaginu Bláskógum ehf. verði gert að þola ógildingu á framsalinu. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem hún nýtur á báðum dómstigum.

Stefndu krefjast aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands 17. október 2005 var kröfu stefndu um frávísun málsins hrundið. Málskostnaður var felldur niður í héraði. Hvorki úrskurðinum né héraðsdómi var gagnáfrýjað í því skyni að fá þessum niðurstöðum breytt. Koma þær ekki til endurskoðunar.

Stefndu hafa lagt fyrir Hæstarétt upplýsingar um hluthafa í Veiðifélaginu Bláskógum ehf. Kemur þar fram að hluthafahópurinn hafi að mestu haldist óbreyttur frá stofnun félagsins 1996 þar til í desember 2004 og janúar 2005, en nú séu Bragi Sigurður Guðmundsson og Victor Knútur Björnsson einu hluthafar. Þeir eru hinir sömu sem með yfirlýsingu 16. janúar 2005 lýstu því yfir að þeir væru einu eigendur Veiðifélagsins Bláskóga sf., sem þá hafi einn verið þinglýstur eigandi Þverfells.

Fram kemur í málinu að eigendur sameignarfélagsins greiddu fyrir hluti sína í einkahlutafélaginu hver með sinni eign í því, en Þverfell var eina eign félagsins. Forkaupsréttur bæði samkvæmt jarðalögum nr. 65/1976 og núgildandi jarðalögum nr. 81/2004 verður ekki virkur við það að greitt sé með hlut í sameignarfélagi fyrir hlut í hlutafélagi með þessum hætti eða í raun við breytingu á félagsformi um eignarhald á jörð. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Samkvæmt þessari niðurstöðu verður áfrýjandi dæmd til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem greinir í dómsorði.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Inga Helga Björnsdóttir, greiði stefndu, Braga Sigurði Guðmundssyni, Victori Knúti Björnssyni, Veiðifélaginu Bláskógum sf. og Veiðifélaginu Bláskógum ehf., hverjum fyrir sig 75.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.

         

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 15. febrúar 2006.

Mál þetta var höfðað 12. júlí 2005 og dómtekið 1. febrúar 2006. Stefnandi er Inga Helga Björnsdóttir, Þverfelli í Borgarfjarðarsveit, en stefndu eru Bragi Sigurður Guðmundsson, Hlégerði 33 í Kópavogi, Victor Knútur Björnsson, Selbraut 1 á Seltjarnarnesi, Veiðifélagið Bláskógar sf. og Veiðifélagið Bláskógar ehf., Logafold 150 í Reykjavík.

             Stefnandi gerir þær kröfur á hendur stefnda Braga, Victori og Veiðifélaginu Bláskógum sf. að viðurkenndur verði með dómi forkaupsréttur stefnanda að jörðinni Þverfelli í Lundarreykjadal vegna framsals jarðarinnar til stefnda Veiðifélagsins Bláskóga ehf. Jafnframt gerir stefnandi þá kröfu að stefnda Veiðifélaginu Bláskógum ehf. verði gert að þola ógildingu á framsali jarðarinnar til félagsins. Þá gerir stefnandi kröfu um að stefndu verði in solidum gert að greiða málskostnað án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

             Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda, auk þess sem stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað.

             Af hálfu stefndu var gerð krafa um frávísun málsins en þeirri kröfu var hrundið með úrskurði dómsins 17. október 2005.

I.

Stefnandi er ábúandi jarðarinnar Þverfells í Lundarreykjadal. Til grundvallar ábúðinni liggur erfðafestusamningur frá 27. mars 1951, en með honum seldi Sveinbjörn Finnsson jörðina á erfðaleigu til Björns Davíðssonar, föður stefnanda. Er stefnandi rétthafi samkvæmt þeim samningi.

             Með afsali 19. febrúar 1963 seldi Sveinbjörn Finnsson jörðina til Guðmundar Agnars Ásgeirssonar. Í afsalinu var tekið fram að jörðin hefði verið leigð á erfðaábúð og að ábúandi væri eigandi allra húsa á jörðinni, auk þess sem hann hefði grasnytjar og veiði fyrir heimili sitt í Reyðarvatni.

Hinn 3. júlí 1965 afsalaði Guðmundur síðan stefnda Veiðifélaginu Bláskógum sf. jörðinni. Í afsalinu var samhljóða ákvæði um réttindi ábúenda jarðarinnar og í fyrra afsali. Fyrir hönd stefnda Veiðifélagsins Bláskóga sf. var afsalið undirritað af tólf einstaklingum en þeir voru Birgir Ásgeirsson, Björn Björgvinsson, Guðmundur Ásgeirsson, Hálfdán Steingrímsson, Haukur Jóhannsson, Halldór Snorrason, Þórhallur Sigurjónsson, Jóhann Elíasson, Jón L. Dahlmann, Kolbeinn Jóhannsson, Óskar Sveinbjörnsson og Hreinn Hauksson. Stefnda Veiðifélagið Bláskógar sf. var ekki tilkynnt til skráningar í samræmi við lög um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, nr. 42/1903.

Með tilboði stefnanda 8. nóvember 2004 bauðst hún til að kaupa jörðina af stefnda Veiðifélaginu Bláskógum sf. Stefndi tók ekki tilboðinu en gerði stefnanda gagntilboð 10. sama mánaðar með fyrirvara um samþykki félagsfundar stefnda Veiðifélagsins Bláskóga sf. Ekki náðist samkomulag milli aðila um kaup jarðarinnar. 

II.

             Um árabil hefur verið ágreiningur milli stefnanda og jarðeiganda um rétt til andvirðis fullvirðisréttar sem seldur var frá jörðinni til ríkisins og hvort jarðeigandi eða ábúandi ætti rétt á arðgreiðslum vegna veiði í Tunguá, sem rennur um land jarðarinnar. Af þessu tilefni var höfðað mál á hendur stefnanda á árinu 2004 og var málinu stefnt í nafni stefnda Veiðifélagsins Bláskóga ehf. Þar sem jörðin var þinglýst eign stefnda Veiðifélagsins Bláskóga sf. krafðist stefnandi sýknu á grundvelli aðildarskorts. Vegna þessarar málsástæðu var lögð fram yfirlýsing stefndu Braga og Victors frá 16. janúar 2005 um að núverandi eigandi jarðarinnar væri stefnda Veiðifélagið Bláskógar ehf. og að félagið hefði öll réttindi eiganda yfir jörðinni. Jafnframt kom fram í yfirlýsingunni að stefndu Bragi og Victor væru einu eigendur stefnda Veiðifélagsins Bláskóga sf.

             Með bréfi lögmanns stefnanda 3. febrúar 2005 til stefndu Braga og Victors var því haldið fram að fyrrgreind yfirlýsing um eignarhald jarðarinnar yrði ekki skilin á annan veg en að eigandaskipti hefðu orðið á jörðinni. Var vísað til þess að stefnanda hefði ekki verið boðið að neyta forkaupsréttar samkvæmt 1. mgr. 27. gr. jarðalaga nr. 81/2004. Einnig var því lýst yfir að stefnandi hefði í hyggju að neyta forkaupsréttar og var því skorað á stefndu að leggja þegar fram forkaupsréttartilboð í samræmi við 1. mgr. 29. gr. sömu laga innan tíu daga frá dagsetningu bréfsins en ella yrði tafarlaust höfðað mál til að fylgja þeim rétti eftir. Þessu erindi svarði lögmaður stefndu með bréfi 17. mars sama ár. Þar var því haldið fram að aldrei hefði formlega verið gengið frá skráningu Veiðifélagsins Bláskógum sf. og því hefði að réttu lagi átt að skrá jörðina í þinglýsingabókum sem eign þeirra einstaklinga sem áttu hana í óskiptri sameign á þeim tíma. Einnig kom fram í bréfinu að eigendur jarðarinnar hefðu snemma árs 1996 ákveðið að formbinda félag sitt um eignarhald á jörðinni með því að stofna stefnda Veiðifélagið Bláskóga ehf., sem væri í raun eigandi jarðarinnar. Við stofnun félagsins hefðu eigendur lagt fram eignarhluta sinn í jörðinni sem hlutafé, sem skiptist milli stofnenda í samræmi við eignarhluta þeirra í jörðinni. Samkvæmt þessu hefði jörðin því ekki verið seld þannig að forkaupsréttur hefði stofnast á grundvelli eldri jarðalaga nr. 65/1976. Með umræddu bréfi lögmanns stefndu fylgdu gögn um stofnun einkahlutafélagsins.

Samkvæmt stofnsamningi félagsins frá 6. janúar 1996 nemur hlutfé þess 2.109.000 krónum og skiptist það þannig milli stofnenda:

                                                Guðmundur Ásgeirsson                            351.500

                                                Haukur Jóhannsson                                   175.750

                                                Halldór Snorrason                                       175.750

                                                Jón Dahlmann                                              175.750

                                                Rannver Stefán Sveinsson                        175.500

                                                Jóhannes Elíasson                                        35.150

                                                Leó Garðar Ingólfsson                                 35.150

                                                Haukur Þórðarson                                         35.150

                                                Árni Guðmundsson                                      70.300

                                                Kolbeinn Jóhannsson                                117.167

                                                Sigurður Stefánsson                                   117.167

                                                Óskar Sveinbjörnsson                                117.167

                                                Hálfdán Steingrímsson                               117.167

                                                Victor Knútur Björnsson                             58.582

                                                Karl Ómar Björnsson                                    58.582

                                                Guðlaug Björnsdóttir                                    29.292

                                                Árni Björnsson                                              29.292

                                                Anna Björnsdóttir                                         29.292

                                                Kristín Erla Björnsdóttir                               29.292

                                                Margrét Sigurjónsdóttir                             175.750

                                                                                        Samtals              2.109.000

             Í stofnsamningnum kemur fram að allt hlutafé hafi þegar verið greitt með jörðinni. Með stofnsamningnum fylgir skýrsla samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, en þar kemur fram að stofnendur hafi lagt fram sem hlutafé eignarhluta sinn í jörðinni og að hlutaféð miðist við fasteignarmat jarðarinnar 1. desember 1995. Undir skýrsluna ritar stjórn félagsins, auk þess sem löggiltur endurskoðandi þess vottar réttmæti skýrslunnar.

III.

             Stefnandi byggir kröfur sínar á því að aðilaskipti hafi orðið að jörðinni Þverfelli sem leiði til þess að stefnandi hafi sem ábúandi öðlast forkaupsrétt að jörðinni í samræmi við ákvæði gildandi jarðalaga nr. 81/2004 og eldri laga um sama efni nr. 65/1976. Af þeim sökum beri stefndu að gera stefnanda forkaupsréttartilboð.

             Með hliðsjón af yfirlýsingu stefndu Braga og Victors frá 16. janúar 2005 telur stefnandi ljóst að aðilaskipti hafi orðið að jörðinni. Í því sambandi bendir stefnandi á að aðeins tveimur mánuðum áður en yfirlýsingin var rituð hafi borist gagntilboð frá stefnda Veiðifélaginu Bláskógum sf. Varla geti talist trúverðugt að það félag hefði gert slíkt tilboð ef það væri ekki eigandi jarðarinnar á þeim tíma. Þá bendir stefnandi á að ekki verði séð að aðilaskipti að jörðinni hafi verið tilkynnt til sveitarstjórnar og jarðanefndar svo sem skylt var samkvæmt 1. mgr. 6. gr. eldri jarðalaga nr. 65/1976.

             Stefnandi heldur því fram að hún hafi jafnframt öðlast forkaupsrétt að jörðinni í samræmi við 2. mgr. 30. gr. þágildandi laga nr. 65/1976 verði lagt til grundvallar að jörðin hafi verið framseld til stefnda Veiðifélagsins Bláskóga ehf. sem hlutfé við stofnun einkahlutafélagsins. Telur stefnanda engum vafa undirorpið að slík ráðstöfun feli í sér framsal til nýs aðila þannig að forkaupsréttur stefnanda hafi orðið virkur.

             Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur stefnandi að jörðin hafi skipt um eigendur án þess að henni hafi sem ábúanda verið boðið að neyta forkaupsréttar lögum samkvæmt. Einnig bendir stefnandi á að stefndu hafi af einhverjum ástæðum hvorki haft fyrir því að þinglýsa eignarheimildum né heldur að tilkynna framsal jarðarinnar í samræmi við ákvæði jarðalaga. Allt telur stefnandi þetta bera keim af því að stefndu hafi verið að freista þess að koma í veg fyrir að upplýst yrði um breytt eignarhald jarðarinnar. Af þessum sökum sé ljóst að stefnanda hafi verið ókleift að kynna sér gögn um eignarhald jarðarinnar.

             Stefnandi tekur fram að henni sé ekki fært að svo komnu máli að gera kröfu um að fá afsal fyrir jörðinni þar sem hún hafi ekki átt þess kost að kynna sér skilmála við framsal jarðarinnar. Stefnandi gerir hins vegar ráð fyrir að henni verði gert forkaupsréttartilboð að gengnum dómi um viðurkenningu forkaupsréttar. Auk þess áskilur stefnandi sér rétt til að afla mats í samræmi við 30. gr. jarðalaga nr. 81/2004 eða samsvarandi ákvæði eldri jarðalaga.

IV.

             Stefndu telja að ekki verði lagt að jöfnu við sölu jarðarinnar Þverfells þótt eigendur hafi stofnað einkahlutafélag um eignarhald jarðarinnar árið 1996. Stefndi Veiðifélagið Bláskógar ehf. sé enn eigandi að jörðinni og því hafi ekki orðið aðilaskipti að eignarréttindum.

             Stefndu benda á að við kaup jarðarinnar árið 1965 hafi staðið til að stofna og skrá félag um eignina en þau áform hafi ekki orðið að veruleika þá með opinberri skráningu á stefnda Veiðifélaginu Bláskógum sf. Frá þessu hafi hins vegar verið gengið formlega rúmum þremur áratugum síðar með stofnun stefnda Veiðifélagsins Bláskógar ehf. Stofnendur þess félags hafi verið 20 einstaklingar og flestir þeir sömu og keyptu jörðina árið 1965 og afkomendur þeirra sem síðar höfðu fallið frá.

             Stefndu halda því fram að allt frá kaupum jarðarinnar árið 1965 til dagsins í dag hafi forkaupsréttur ábúenda jarðarinnar ekki orðið virkur. Í því sambandi benda stefndu á að forkaupsréttar verði einungis neytt þegar eigandi selur eign sem háð er forkaupsrétti til þriðja aðila. Jafnframt verði að hafa hugfast að forkaupsréttur verði túlkaður þröngt þar sem hann felur í sér takmörkun á eignarrétti og þeirri meginreglu eignarréttar að eiganda sé frjálst að ráðstafa eign sinni eins og hann kýs.

             Stefndu benda á að í forkaupsrétti felist að rétthafi gangi inn í kaup með sömu kjörum og upphaflegur kaupandi. Þannig verði eigandi eignar ekki lakar settur vegna forkaupsréttar. Það eigi hins vegar ekki við í þessu tilviki þar sem ráðstöfun sú sem stefnandi byggi á fól eingöngu í sér að sameigendur stofnuðu einkahlutafélag um jörðina og lögðu eignarhlut sinn í jörðinni til félagsins en eignuðust á móti hlutafé. Af því leiði að stefnandi geti ekki gengið inn í kaup á þann veg að „seljendur“, þ.e. sameigendur jarðarinnar, fái í hendur sams konar greiðslu og þeir fengu við stofnun félagsins, sem var hlutdeild í félagi um rekstur og eignarhald jarðarinnar. Með öðrum orðum geti stefnandi ekki beitt forkaupsrétti sínum þannig að „seljendur“ fái sömu kjör og samkvæmt upphaflega „samningnum“.

             Stefndu telja að ráða megi af 29. gr. jarðalaga nr. 81/2004 að forkaupsréttur verði ekki virkur við það eitt að sameigendur stofni félag um eignarhald jarðar. Samkvæmt því ákvæði skal tilgreina í forkaupsréttartilboði nöfn, kennitölur og heimilisföng seljanda og kaupanda, auk greinargóðrar lýsingar á seldri fasteign ásamt kaupverði, greiðsluskilmálum, afhendingartíma og öðrum söluskilmálum sem skilgreina skal á tæmandi hátt. Þegar um makaskipti er að ræða skuli jafnframt tilgreina hversu hátt framboðin eign er metin til peningaverðs. Af þessu telja stefndu augljóst að hér sé miðað við sölu til þriðja aðila en ekki samkomulag sameigenda um að stofna félag um eign sína. Jafnframt standi ómöguleiki til þess að lýsa grundvallaratriðum eins og kaupverði og greiðsluskilmálum þar sem ekki var um neitt slíkt samið.

             Stefndu benda á að höfða beri mál til ógildingar ráðstöfunar innan sex mánaða frá því forkaupsréttarhafa varð kunnugt um ráðstöfunina, sbr. 32. gr. laga nr. 81/2004. Í kjölfar þess að stefnda Veiðifélagið Bláskógar ehf. var stofnað fyrir áratug hafi opinber tilkynning verið birt í Lögbirtingablaði. Stefnanda hafi því mátt vera kunnugt um stofnun félagsins og því sé löngu liðinn málshöfðunarfrestur.

             Verði talið að stefnda Veiðifélagið Bláskógar sf. hafi verið eigandi jarðarinnar og hún hafi gengið kaupum og sölum halda stefndu því fram að stefnandi hafi engu að síður ekki öðlast forkaupsrétt að jörðinni. Ákvæði eldri jarðalaga nr. 65/1976 hafi átt við um þann löggerning en þau lög hafi fallið úr gildi við setningu nýrra jarðalaga nr. 81/2004. Þar með hafi fallið niður forkaupsréttur stefnanda og skipti engu þótt ætlun löggjafans hafi verið önnur, sbr. Hrd. frá 2. desember 2004 í máli nr. 465/2004.

             Loks benda stefndu á að ákvæði jarðalaga um forkaupsrétt séu afar íþyngjandi í garð jarðeigenda og vefengja stefndu að sú kvöð fái samrýmst 72. gr. stjórnarskrárinnar og þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands samkvæmt 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttinda sáttmála Evrópu. Einnig benda stefndu á að forkaupsréttur sveitarfélaga samkvæmt eldri jarðalögum hafi verið talin í andstöðu við 40. gr. EES-samningsins og því verið afnumin. Sama eigi við um forkaupsrétt ábúanda sem ekki hafi verið numin úr lögum.

V.

             Hinn 3. júlí 1965 afsalaði Guðmundur Ásgeirsson jörðinni Þverfelli til stefnda Veiðifélagsins Bláskóga sf. Af hálfu sameignarfélagsins var afsalið undirritað af 12 einstaklingum. Afsalinu var þinglýst og er félagið þinglýstur eigandi jarðarinnar. Í málinu liggur ekki fyrir hvort gerður var skriflegur samningur um stofnun félagsins. Í öllu falli getur ekki leikið vafi á því að fyrir hendi var samningur milli þeirra sem undirrita afsalið um stofnun sameignarfélagsins til að fara með eignarhaldið en það eitt var nægjanleg til að félagið gæti átt þau réttindi. Að þessu gættu verður ekki fallist á það með stefndu að sýslumaður hafi átt að tilgreina umrædda einstaklinga eigendur jarðarinnar í þinglýsingabókum en ekki sameignarfélagið sem var afsalshafi. Þá liggur fyrir að stefndi Veiðifélagið Bláskógar sf. hefur komið fram vegna jarðarinnar í dómsmálum, sbr. Hrd. 1971/1137, auk þess sem stefnanda var gert gagntilboð um kaup jarðarinnar 10. nóvember 2004 í nafni stefnda Veiðifélagsins Bláskóga sf. Loks hefur verið lögð fram í málinu yfirlýsing 16. janúar 2005 þar sem stefndu Bragi og Victor fullyrða að þeir séu einu eigendur sameignarfélagsins. Samkvæmt öllu þessu getur aðildarhæfi stefnda Veiðifélagsins Bláskóga sf. ekki orkað tvímælis.

             Málatilbúnaður stefndu er reistur á því að stefnda Veiðifélagið Bláskógar ehf. sé að réttu lagi eigandi jarðarinnar þótt þinglýstur eigandi sé stefndi Veiðifélagið Bláskógar sf. Kemur þetta bæði fram í fyrrgreindri yfirlýsingu stefndu Braga og Victors og í stofnsamningi stefnda Veiðifélagsins Bláskóga ehf. frá 6. janúar 1996, en samkvæmt honum var hlutafé þeirra 20 einstaklinga sem stofnuðu félagði greitt með eignarhluta þeirra í jörðinni. Hefur komið fram hjá stefndu að umræddir einstaklingar séu flesti þeir sömu og keyptu jörðina árið 1965 og afkomendur þeirra sem síðar féllu frá. Nánari gögn um þau aðilaskipti liggja hins vegar ekki fyrir í málinu.

             Í málinu er því haldið fram að stefndu Bragi og Victor séu eigendur stefnda Veiðifélagsins Bláskóga sf., auk þess sem stefndi Victor var einn af stofnendum stefnda Veiðifélaginu Bláskógum ehf. Í krafti eignaraðildar stefndu að félögum sem talið hafa til eignarréttar yfir jörðinni verður ekki máli beint að þeim vegna forkaupsréttar að jörðinni. Verða stefndu Bragi og Victor því sýknaðir af kröfum stefnanda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

             Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. jarðalaga nr. 81/2004 á ábúandi sem hefur haft ábúðarrétt í sjö ár eða lengri tíma forkaupsrétt að ábúðarjörð sinni, enda taki ábúandi jörðina til ábúðar og landbúnaðarstarfsemi. Hliðstætt ákvæði var í 2. mgr. 30. gr. eldri ábúðarlaga, nr. 65/1976, en þar var þó miðað við að leiguliði hefði setið jörðina í 10 ár eða lengur.

             Forkaupsréttur felur í sér rétt aðila til að kaupa eign, sem eigandi selur, oftast með sömu skilmálum og í kaupsamningi eigandans og viðsemjanda hans. Samkvæmt þessu verður forkaupsréttur virkur við sölu eignar. Hins vegar gildir sú meginregla að forkaupsréttur verði ekki virkur við önnur aðilaskipti að eignarréttindum nema til þess standi sérstök heimild. Er þá jafnframt til þess að líta að forkaupsréttur felur í sér takmörkun á eignarrétti og því verður slík lagaheimild venjulega ekki skýrð rýmra en eftir orðanna hljóðan.

Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 81/2004 skal seljandi greina í tilboði um forkaupsrétt hversu hátt hann metur framboðna eign til peningaverðs ef um er að ræða makaskipti. Hliðstætt ákvæði var að finna í 1. mgr. 32. gr. eldri laga nr. 65/1976. Af þessu leiðir að forkaupsréttur á grundvelli jarðalaga verður ekki eingöngu virkur við kaup heldur nær hann einnig til þess að andvirði jarðar sé greitt með annarri fasteign. Aftur á móti stendur ekki heimild til samkvæmt lögunum að forkaupsréttur verði virkur við það að greitt sé með jörð fyrir hlut í hlutafélagi. Kemur heldur ekki til álita að forkaupsréttur verði virkur af því tilefni að félagsformi um eignarhald sé breytt úr sameignarfélagi í einkahlutafélag. Samkvæmt þessu verða stefndu Veiðifélagið Bláskógar sf. og Veiðifélagið Bláskógar ehf. sýknuð af kröfum stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Stefnandi hefur gjafsókn í málinu og greiðist gjafsóknarkostnaður hennar úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar sem þykir hæfilega ákveðin, svo sem í dómsorði greinir.

Benedikt Bogason, héraðsdómara, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

             Stefndu, Bragi Sigurður Guðmundson, Victor Knútur Björnsson, Veiðifélagið Bláskógar sf. og Veiðifélagið Bláskógar ehf., eru sýknuð af kröfum stefnanda, Ingu Helgu Björnsdóttur.

             Málskostnaður fellur niður.

             Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Vífils Harðarsonar, héraðsdómslögmanns, 630.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.