Hæstiréttur íslands
Mál nr. 192/2016
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Skilorðsrof
- Miskabætur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Karl Axelsson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. febrúar 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst mildunar á refsingu.
Brotaþoli, A, krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 2.577.926 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærða er gefið að sök að hafa aðfaranótt 25. júlí 2015 á tjaldstæðinu í Hrísey farið inn í tjald brotaþola, sem lá þar sofandi, gripið um munn hennar, haldið henni niðri og slegið hana hnefahöggi hægra megin í andlit. Þessu næst hafi hann snúið stúlkunni á magann, ýtt höfði hennar niður í svefnpokann og hótað ítrekað að drepa hana ef hún ekki þegði, slegið hana ítrekað í höfuð og líkama, girt niður um hana og reynt að koma getnaðarlim sínum í leggöng hennar. Ákærði hafi svo fróað sér þar til hann hafi haft sáðlát yfir rass stúlkunnar og læri og reynt aftur að koma getnaðarlim sínum í leggöng hennar með því að lyfta fótum hennar, þrýst höfði hennar fastar niður, sett svefnpokann yfir höfuð hennar og hótað henni öllu illu ef hún liti upp. Af þessu hafi stúlkan hlotið þá áverka sem í ákæru greinir. Er brot ákærða talið varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði fundinn sekur um nauðgun eftir framangreindu ákvæði almennra hegningarlaga og brot gegn barnaverndarlögum. Ákærði hefur játað sakargiftir en varnir hans lúta að því að um tilraunarverknað hafi verið að ræða þar sem brot hans hafi ekki verið fullframið, enda geti verknaður hans ekki fallið undir hugtakið önnur kynferðismök sem 194. gr. almennra hegningarlaga tekur til.
Ákærði reyndi í tvígang að koma getnaðarlim sínum inn í leggöng stúlkunnar og við þessar athafnir snerti ber limur hans leggangaop hennar. Jafnframt hafði hann sáðlát yfir rass hennar og læri. Ótvírætt er að með þessari háttsemi gerðist hann sekur um önnur kynferðismök en samræði og hefur hann því gerst sekur um fullframið nauðgunarbrot. Er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæða í hinum áfrýjaða dómi.
Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir sérstaklega gróft og svívirðilegt kynferðisbrot gegn 17 ára gamalli stúlku, sem svaf í tjaldi sínu þar sem hún taldi sig vera örugga og átti sér einskis ills von. Ákærði beitti hana að auki harðræði og hótaði henni lífláti léti hún ekki að vilja hans. Hann bar fyrst fyrir sig minnisleysi við síðari yfirheyrslur við rannsókn málsins er fyrir lágu óyggjandi gögn um sekt hans og það sama gerði hann fyrir dómi, en kvaðst þó játa sakargiftir í ljósi gagnanna. Hann á sér engar málsbætur. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er refsing hans ákveðin fangelsi í fimm ár. Frá henni skal draga gæsluvarðhald hans 26. júlí 2015 og frá 12. nóvember sama ár.
Þá verður með vísan til forsendna héraðsdóms staðfest sú niðurstaða hans að brotaþoli eigi rétt á miskabótum úr hendi ákærða og bótum vegna útlagðs kostnaðar síns. Miskabætur ákveðast 2.200.000 krónur, en staðfest er niðurstaða héraðsdóms um bætur vegna útlagðs kostnaðar og vexti af skaðabótunum.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, og þóknun og útlagðan kostnað réttargæslumanns brotaþola, Arnbjargar Sigurðardóttur hæstaréttarlögmanns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Eiríkur Fannar Traustason, sæti fangelsi í fimm ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhald hans 26. júlí 2015 og frá 12. nóvember sama ár.
Ákærði greiði A 2.277.926 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 902.562 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Arnbjargar Sigurðardóttur hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur, auk útlagðs kostnaðar hennar, 24.325 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 16. febrúar 2016.
Mál þetta, sem dómtekið var 20. janúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 9. desember 2015, á hendur Eiríki Fannari Traustasyni, kt. [...], Miðbraut 7, Hrísey, nú gæsluvarðhaldsfanga á Litla-Hrauni;
„fyrir nauðgun og barnaverndarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 25. júlí 2015, á tjaldsvæðinu í Hrísey, farið inn í tjald A, sem þá var 17 ára, og lá þar sofandi, gripið um munn hennar, haldið henni niðri og slegið hana hnefahöggi hægra megin í andlit. Því næst sneri ákærði A á magann, ýtti höfði hennar niður í svefnpokann og hótaði ítrekað að drepa hana ef hún ekki þegði, sló hana ítrekað í höfuð og líkama, girti niður um hana og reyndi að koma getnaðarlim sínum í leggöng hennar. Ákærði fróaði sér því næst þar til að hann hafði sáðlát yfir rass stúlkunnar og læri, þá reyndi ákærði aftur að koma getnaðarlim sínum í leggöng hennar með því að lyfta fótum stúlkunnar upp, þrýsti höfði hennar fastar niður, setti svefnpokann yfir höfuð hennar, hótaði henni öllu illu ef hún liti upp og fór svo út úr tjaldinu. Af þessu hlaut A stórt mar undir hægra auga og hliðlægt við það og aftur að eyra og eymsli í kjálkalið hægra megin.
Telst brot þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Í málinu liggur fyrir einkaréttarkrafa B, föður brotaþola, og fyrir hennar hönd, en hún var endanlega sundurliðuð þannig: „... er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni 2.577.926 krónur í miska- og skaðabætur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 25. júlí 2015 til 19. desember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist hæfilegrar þóknunar vegna starfa skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Arnbjargar Sigurðardóttir hrl., samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts.“
Skipaður verjandi, Sveinn Andri Sveinsson hrl., krafðist þess fyrir dómi að ákærði yrði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Verjandinn vísaði m.a. í vörn sinni fyrir ákærða til þess að í ákæru væri lýst tilraunaverknaði, en ekki fullfrömdu broti, sbr. að því leyti ákvæði 20. gr. hegningarlaganna. Þá krafðist verjandinn þess að gæsluvarðhaldsvist ákærða kæmi til frádráttar dæmdri refsingu og að miskabætur yrðu lækkaðar. Loks krafðist verjandinn hæfilegra málsvarnarlauna, en einnig útlagðs ferðakostnaðar.
I
-
Samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu, þ. á m. skýrslum ákærða, brotaþola og vitna, eru helstu atvik máls þessa þau að ákærði, Eiríkur Fannar, rak sumarið 2015 veitingastaðinn Akkerið við Sjávargötu í Hrísey, ásamt sambýliskonu sinni. Ákærði var við störf sín á veitingastaðnum föstudaginn 24. júlí sl., en með honum var þá ungur sonur hans.
Stúlkan A, sem er frönsk að uppruna, var ein á ferðalagi á reiðhjóli sínu hér á landi í júlímánuði sl., þá 17 ára. Hún lagði leið sína til Hríseyjar föstudaginn 24. júlí sl. Eftir skoðunarferð um eyna fór A á tjaldstæðið við Austurveg, þar sem hún kom tjaldi sínu og öðrum búnaði fyrir, en eftir það lagði hún leið sína á veitingastað ákærða, sem er þar tiltölulega skammt frá. Verður ráðið að við komu A hafi verið fremur fámennt á veitingastaðnum, en óumdeilt er að hún keypti veitingar af ákærða og að þau spjölluðu stuttlega saman. Eftir nokkra viðveru fór A aftur á tjaldstæðið, en þar kom hún sér fyrir í svefnpoka í tjaldi sínu og sofnaði.
Eftir að ákærði hafði lokið störfum sínum á veitingastaðnum, um kl. 1:00 aðfaranótt 25. júlí sl., fór hann á dvalarstað sinn í eynni, að Miðbraut 7, ásamt syni sínum.
Samkvæmt rannsóknargögnum leitaði A ásjár á heimili C að [...], á milli klukkan 3:00 og 3:30, umrædda nótt, en í beinu framhaldi af því tilkynnti C til fjarskiptamiðstöðvar lögreglu að ung stúlka væri stödd á heimili hans og að hún hefði skömmu áður orðið fyrir líkamsárás í tjaldi sínu.
2. Samkvæmt frumskýrslu D, lögreglumanns á Dalvík, hafði hann símasamband við vitnið C er honum barst tilkynningin um hina ætluðu árás í Hrísey. Fékk hann þá frekari upplýsingar um málsatvik og þar á meðal að umrædd stúlka væri með andlitsáverka og hefði sagt frá því að henni hefði verið nauðgað. Í skýrslunni er greint frá því að í kjölfar þessa hafi lögreglumaðurinn gert viðeigandi ráðstafanir, og m.a. fengið liðsauka frá Akureyri, en í framhaldi af því farið með ferju til Hríseyjar, þar sem hann hitti fyrir brotaþolann, A, laust eftir kl. 4:45. Í skýrslunni segir að brotaþoli hafi verið vel mælt á enska tungu og að hún hafi m.a. lýst gjörðum sínum í Hrísey og þar á meðal viðveru á tjaldstæðinu. Haft er eftir brotaþola að hún hefði vaknað upp þá um nóttina eftir að ráðist var að henni með barsmíðum, en hún hefði veitt því eftirtekt að gerandinn var karlmaður, íklæddur svörtum regnstakk með hettu. Hefði hettan verið reimuð að andliti gerandans og hún því ekki séð vel andlit hans, en veitt því eftirtekt að hann var með svart stutt skegg.
Samkvæmt rannsóknargögnum lýsti brotaþoli í hinni óformlegu yfirheyrslu á vettvangi í Hrísey háttsemi gerandans í tjaldinu umrædda nótt. Frásögnin var hljóðrituð og er hljóðdiskur þar um á meðal gagna málsins. Var þessi fyrsta frásögn brotaþola á þá leið að gerandinn hefði slegið hana í höfuðið þar sem hún lá í svefnpoka sínum, og að hann hefði í beinu framhaldi af því snúið henni við og að hún hefði eftir það legið á maganum. Hún greindi frá því að gerandinn hefði talað til hennar á ensku og m.a. fyrirskipað henni að hreyfa sig ekki, en jafnframt hótað henni lífláti. Þá hefði gerandinn opnað svefnpokann, en síðan girt síðbuxur og nærbuxur niður um hana og í framhaldi af því reynt að nauðga henni aftan frá. Gerandanum hefði ekki tekist ætlunarverkið að því leyti að hann hefði ekki náð að setja lim sinn inn í hana, að hún taldi, en hins vegar hefði hann fengið sáðfall yfir rass hennar og læri. Eftir það hefði gerandinn makað sæði sínu á nefnda líkamsparta, en síðan reynt að nauðga henni á ný með sama hætti og áður, en sem fyrr ekki tekist að setja liminn inn í hana. Haft er eftir brotaþola að gerandinn hefði skvett vatni úr flösku, sem var í tjaldinu, yfir rassinn á henni, en í framhaldi af því reynt að þrífa hana. Að þessum verknaði loknum hefði gerandinn horfið á braut.
Haft er eftir brotaþola að allan þann tíma sem gerandinn hafðist við í tjaldinu hefði hann haldið henni niðri, en samhliða lamið hana í höfuðið, á axlir og á bakið. Hún hefði ekki komið neinum vörnum við, en þó reynt að losa um tök mannsins og í þeim átökum náð að bíta hann til blóðs, að hún taldi í vísifingur vinstri handar. Haft er eftir brotaþola að hún hafi verið mjög hrædd á meðan á lýstu athæfi gerandans stóð og hefði hún náð að grípa til hnífs, sem hún var með í tjaldinu, en ekki fengið tækifæri til að beita honum gegn gerandanum.
Í skýrslunni segir að brotaþoli hefði fljótlega eftir brottför gerandans afráðið að leita eftir aðstoð í nærliggjandi einbýlishúsi. Þar hefði hún farið inn um ólæstar útidyr, kallað á hjálp, en eftir það hitt fyrir vitnið C.
Samkvæmt skýrslunni skýrði brotaþoli lögreglu frá því að hún hefði kvöldið fyrir lýstan atburð hitt fyrir starfsmann í tilteknu veitingahúsi í eynni og að hún hefði í samræðum þeirra m.a. skýrt frá þeirri ætlan sinni að gista á tjaldstæðinu þá um nóttina. Í skýrslunni er síðan skráð orðrétt eftir brotaþola um hugleiðingar hennar um gerandann: „I‘m really sure that this was the man in the restaurant“.
Í rannsóknargögnum segir, að eftir fyrstu rannsóknaraðgerðir lögreglu í Hrísey hefði verið afráðið að fara með brotaþola á Sjúkrahúsið á Akureyri. Greint er frá því að á leiðinni til bæjarins hefði brotaþoli endurtekið að hún væri nokkuð viss um að gerandinn hefði verið „kokkurinn“ á veitingastaðnum. Segir að þar um hefði brotaþoli helst vísað til þess að hún hefði þekkt málróm árásarmannsins.
Samkvæmt gögnum lögreglu var vettvangur á tjaldstæðinu í Hrísey, og þar á meðal tjald og annar búnaður brotaþola, rannsakaður og ljósmyndaður. Þá var búnaðurinn, þ. á m. tjald, svefnpoki, tjalddýna, vatnsbrúsi, hnífur og pokar undan farangri, fluttur til frekari rannsóknar á lögreglustöðina á Akureyri. Þar voru m.a. tekin viðeigandi sýni af búnaðinum og hann ljósmyndaður af stjórnanda rannsóknarinnar, E rannsóknarlögreglumanni. Greint er frá því að dýna og svefnpoki brotaþola hafi verið blaut viðkomu.
Við upphaf rannsóknaraðgerða lögreglu voru teknar ljósmyndir af brotaþola, en þær sýna m.a. áverka á hægri hluta andlits hennar. Fram kemur að stjórnandi rannsóknarinnar hefði fyrst hitt brotaþola á Sjúkrahúsinu á Akureyri umræddan morgun, klukkan 6:15, áður en hún fór til skoðunar á bráða- og neyðarmóttökudeild.
Samkvæmt rannsóknargögnum var af hálfu lögreglu fljótlega ákveðið að handtaka ákærða, Eirík Fannar. Liggur af því tilefni fyrir handtökuskýrsla fyrrnefnds lögreglumanns, D, en hann fór ásamt fleiri lögreglumönnum á heimili ákærða í Hrísey, klukkan 8:20, umræddan morgun. Í skýrslunni er greint frá því að lögreglumennirnir hefðu ítrekað bankað á útidyrahurðina og að ákærði hefði komið til dyra eftir nokkur hróp, en þá virst vera nývaknaður. Tekið er fram að ákærða hefði verið kynnt tilefni handtökunnar, en einnig réttarstaða grunaðs manns.
Í skýrslunni segir að ákærði hefði heimilað lögreglumönnunum á handtökuvettvangi að taka ljósmyndir af höndum sínum, en samkvæmt gögnum var það einnig gert síðar þennan dag. Í myndtexta með þessum myndum segir að á þeim megi m.a. sjá að sár er á löngutöng hægri handar ákærða.
Samkvæmt nefndri skýrslu tjáði ákærði sig stuttlega á vettvangi og þar á meðal um að hann hefði verið við störf sín á veitingastaðnum Akkerinu föstudaginn 24. júlí. Fram kemur að ákærði hefði samkvæmt beiðni lögreglu vísað á þann fatnað sem hann kvaðst hafa verið íklæddur við heimkomu þá um nóttina og hafi verið um að ræða buxur, langermabol og nærbuxur. Var þessi fatnaður á þurrkstandi, en ákærði skýrði það þannig að hann hefði þvegið hann þá um nóttina. Að auki vísaði ákærði á flókaskó, sem hann sagðist einnig hafa íklæðst. Fram kemur að lögreglumennirnir hefðu gætt frekar að fatnaði á heimili ákærða og þá séð í vaskahúsi íþróttaskó, sem hefðu verið rakir viðkomu og með gras undir sólum. Einnig segir frá því að við nánari athugun lögreglumanna á heimili ákærða hefðu þeir veitt því eftirtekt að þvottavélin var lokuð og að þar voru nýþvegin karlmannsföt, þ.e. svartur regnstakkur með hettu, svört hettupeysa, dökkar buxur, svartir sokkar og nærbuxur. Fram kemur að ákærði hefði svarað því til að hann hefði þvegið umræddan fatnað þá um nóttina eftir að hann hefði þvegið hinn fyrri fatnað. Samkvæmt rannsóknargögnum haldlagði lögregla umræddan fatnað, en í framhaldi af því var ákærði færður á lögreglustöðina á Akureyri, í fangahús.
Samkvæmt gögnum gaf ákærði, vegna áfengis- og fíkniefnarannsóknar, þvagsýni á lögreglustöðunni á Akureyri, klukkan 10:23, en blóðsýni var tekið úr honum klukkan 12:51, nefndan dag.
Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, sem dagsett er 18. ágúst 2015, var alkóhól, amfetamín, metamfetamín og kókaín ekki í mælanlegu magni í blóðsýni ákærða. Aftur á móti fundust í þvagsýni hans amfetamín, kókaín og metamfetamín, en einnig 0,31‰ alkóhól.
3. Í málinu liggja fyrir réttarlæknisfræðileg gögn frá bráða- og neyðarmóttöku Sjúkrahússins á Akureyri um brotaþola, A, en þau eru dagsett 25. júlí 2015.
Í læknisvottorði bráðamóttökudeildar, sem F læknir ritaði, er m.a. skráð frásögn brotaþola um atvik máls, en tekið er fram að hún hafi gefið góða sögu á ensku. Frásögnin er í aðalaltriðum í samræmi við það sem hér að framan var rakið, en þess er getið að brotaþoli hafi greinilega verið viðkvæm og tárast við að rifja upp atburðinn. Í vottorðinu segir um áverka og líkamsskoðun brotaþola:
„Höfuð og háls: Stórt mar undir hæ. auga og hliðlægt við það, nær aftur að eyra. Lokar að hluta til fyrir augað þannig [að] hún getur ekki opnað það. Veruleg eymsli við þreifingu. Eymsli í kjálkalið hæ. megin. Ekki sjáanlegir aðrir áverkar. Eðl. hreyfigeta í háls, vægir verkir við að líta til hægri. Engin eymsli yfir hálshrygg.
Bak: Engir sjáanlegir áverkar eða mar. Engin eymsli við þreifingu á hryggtindum.
Taugaskoðun: Pupillur eðl. víðar og bregðast eðl. við ljósi. Eðl augnhreyfingar. Eðl. kraftur í masseter og temporalis vöðvum. Eðl. skyn í andliti. Eðl. andlitsmímik. Eðl. hreyfing á gómbogum. Eðl. kraftur í trapezius og SCM vöðvum. Eðl. hreyfing á tungu.
Efri útlimur: Ekki sjáanlegir áverkar. Eðl. og symmetrískt skyn og kraftar proximalt og distalt.
Neðri útlimur: Er í buxum, sé ekki hvort eru áverkamerki eður ei, eru engin að sögn sjúklings. Eðl. og symmetrískt skyn og kraftar proximalt og distalt.“
Í niðurlagi læknisvottorðsins segir að við athugun með höfuðskanna hafi engin greinileg brot komið fram.
Í skýrslum neyðarmóttöku Sjúkrahússins á Akureyri, sem skráðar eru af G hjúkrunarfræðingi, segir að brotaþoli hafi komið í fylgd lögreglu til skoðunar umræddan morgun. Í skýrslunum er skráð frásögn brotaþola um atvik máls. Tekið er fram að brotaþoli hafi gefið góða sögu, en haft er eftir henni, að hún treysti sér ekki alveg til að fullyrða um atvikaröðina og í því sambandi hafi hún vísað til minnisleysis. Haft er eftir brotaþola að árásarmaðurinn hefði ekki haft kynmök um kynfæri hennar og ekki reynt að komast í þau né látið hana sjúga sig eða strjúka á neinn hátt. Aftur á móti hafi hann sprautað yfir hana sæði, sem hann hefði síðan þvegið af henni með vatni. Þá er haft eftir brotaþola að árásarmaðurinn hafi verið íslenskur og að hún hefði séð hann áður, á veitingahúsi eyjarinnar, þar sem hún hefði snætt kvöldverð, og hann þá gefið sig á tal við hana.
Í skýrslunni segir að brotaþoli hafi verið róleg og yfirveguð og án áfengis- og lyfjaáhrifa, en að hún hafi verið með stórt glóðarauga á hægra auga, skrámur á nefi vinstra megin og með mikið mar á hægra gagnauga. Lýst er sýnatökum úr bletti á vinstri handlegg brotaþola, en einnig úr hári hennar, af baki og bringu svo og af augabrún. Greint er frá því að vegna verknaðarlýsingar brotaþola um að engin kynmök hefðu átt sér stað að öðru leyti en áðurlýst sáðlát hefði ekki verið talin þörf á því að kalla til kvensjúkdómalækni.
Í gögnum neyðarmóttökunnar lýsir hjúkrunarfræðingurinn nánar andlegu ástandi brotaþola. Áréttað er að hún hafi verið í ótrúlega góðu jafnvægi. Þá hafi hún ekki verið fjarræn, með dofa eða í losti, en engu að síður hefði hún sýnt merki um óróleika og fengið grátköst/tárast og lýst yfir ráðaleysi. Hún hafi ekki verið með sjálfsásakanir eða sýnt merki um bjargarleysi, en þó lýst yfir óraunveruleikakennd. Tekið er fram að brotaþoli hafi ekki þolað snertingu, en að auki sýnt merki um reiði, lífshræðslu og ótta, en að öðru leyti ekki sýnt sállíkamleg einkenni.
Í málinu liggur fyrir læknisvottorð H augnlæknis, sem dagsett er 30. júlí 2015. Í vottorðinu segir frá því að brotaþoli, A, hafi komið á læknastofu nefnds læknis í [...] umræddan dag vegna líkamsárásar, sem hún hefði mátt þola 25. sama mánaðar. Fram kemur að við skoðun hafi komið í ljós að brotaþoli var með margúl í kringum auga, við efra og neðra augnlok vinstra megin, en einnig við gagnauga. Við nánari skoðun með augnsjá hafi sést blæðingar undir augnslímhúð hægra megin, en að svæðið hefði að öðru leyti verið óskaddað. Enn fremur segir að ekkert hafi fundist athugavert í augnbotni og þá hefði ekki verið truflun á augnhreyfingum. Tekið er fram að leiðrétt sjónskerpa brotaþola hafi mælst 10/10 á báðum augum, en sagt er að vöðvaspenna í auga hafi verið eðlilegt. Í niðurlagi vottorðsins er það álit látið í ljós að brotaþoli hefði ekki þurft á veikindaleyfi að halda vegna hinna líkamlegu áverka.
4. Samkvæmt rannsóknarskýrslum lögreglu var brotaþoli yfirheyrð um atvik máls 25. júlí sl., kl. 13:07. Viðstaddir voru túlkur og tilnefndur réttargæslumaður brotaþola, sem síðar var skipaður til starfans fyrir dómi. Frásögn brotaþola við skýrslutökuna var í aðalatriðum í samræmi við það sem áður var rakið og þar á meðal að hún hefði síðdegis daginn áður lagt leið sína í veitingahús í Hrísey, en þá um kvöldið lagst til hvílu á tjaldsvæði eyjarinnar. Brotaþoli lýsti við yfirheyrsluna þeirri árás sem hún kvaðst hafa orðið fyrir í tjaldinu og var lýsingin í öllum aðalatriðum í samræmi við verknaðarlýsingu ákæru. Nánar um verknaðinn sagði brotaþoli að gerandanum hefði ekki tekist að koma lim sínum inn í kynfæri hennar þar sem limur hans hefði í fyrstu verið linur og að hann hefði þurft að runka sér til að ná honum hörðum. Hún sagði að gerandinn hefði haldið áfram að runka sér þar til hann hefði fengið sáðfall yfir rassinn á henni og læri. Og eftir það hefði gerandinn enn haldið áfram að runka sér, en einnig reynt að komast inn í hana með því að lyfta upp fótum hennar, en hún hefði á meðan á athæfi hans stóð legið á maganum. Hún sagði að sem fyrr hefði gerandanum ekki tekist ætlunarverkið, en hún ætlaði að gerandanum hefði á ný orðið sáðfall. Eftir þennan síðasta verknað kvað hún gerandann hafa hellt yfir hana vatni og þvegið sér um hendur. Undir lokin hefði hann þrýst höfði hennar meira niður, sett svefnpokann yfir höfuð hennar og hótað öllu illu ef hún liti upp. Eftir það hefði gerandinn horfið út úr tjaldinu.
Skýrslutaka brotaþola hjá lögreglu var tekin upp með hljóði og mynd og eru gögn þar um á meðal þeirra sakargagna sem ákæruvaldið lagði fyrir dóminn.
Við frumrannsókn lögreglu var ákærði yfirheyrður tvívegis, þann 25. og 26. júlí sl., í bæði skiptin að viðstöddum tilnefndum verjanda. Við yfirheyrslurnar neitaði ákærði sakarefninu. Hann lýsti gjörðum sínum með líkum hætti og hér að framan var rakið, m.a. að því er varðaði viðveru á eigin veitingastað. Hann staðfesti frásögn brotaþola um að hann hefði haft stutt samskipti við hana og verið kunnugt um dvalarstað hennar á tjaldstæði eyjarinnar umrædda nótt. Hann áréttaði einnig fyrri frásögn um heimferð að lokinni vinnu skömmu eftir miðnættið svo og um eigin klæðaburð. Eftir heimkomuna kvaðst hann hafa farið út með hundinn í stutta stund, en síðan hefði hann þvegið eigin fatnað. Ákærði skýrði frá því að eftir heimkomuna hefði hann drukkið lítils háttar af áfengi, en kvaðst að auki, tveimur dögum fyrr, hafa neytt kókaíns.
Eftir hina fyrri yfirheyrslu lögreglu var ákærði úrskurðaður fyrir dómi í gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna. Ákærða var sleppt úr haldi lögreglu eftir síðari yfirheyrsluna, en áður hafði hann gefið DNA-sýni vegna rannsóknar málsins.
Við frumrannsókn lögreglu gaf fyrrnefnt vitni C skýrslu, en að auki voru þá einnig yfirheyrð fjögur önnur vitni.
Auk áðurnefndra sýna úr ákærða voru við frumrannsókn lögreglu tekin DNA-sýni úr tveimur karlmönnum, en tekið er fram að engar vísbendingar hafi í raun tengt þá aðila við sakarefni málsins.
Samkvæmt rannsóknargögnum voru nefnd DNA-sýni úr ákærða, brotaþola og öðrum aðilum, en einnig þau sýni sem tekin höfðu verið úr haldlögðum munum, send til tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þann 28. júlí sl.
5. Í skýrslu og greinargerð I, sérfræðings hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, dagsettum 21. ágúst og 11. nóvember sl., er lýst rannsóknum og meðferð á hinum haldlögðu munum og DNA-sýnum. Í skýrslunni segir frá því að á innanverðum svefnpoka brotaþola, hægra megin á neðri hlið fyrir miðju, hafi komið í ljós tveir blettir. Segir frá því að viðeigandi sýni hafi verið tekin úr báðum blettunum, þau prófuð með APA p30 sæðisprófi, og hafi þau gefið jákvæða svörun við for- og staðfestingarprófun sem sæði, en einnig við smásjárskoðun.
Í skýrslu sérfræðingsins er lýst meðferð sýnanna, en fyrir liggur að þau voru send til rannsóknar, ásamt samanburðarsýnum úr ákærða, brotaþola og tveimur öðrum aðilum, þann 26. ágúst sl., til greiningar hjá rannsóknastofunni Nationellt forensiskt centrum (NFC) í Linköping í Svíþjóð. Niðurstöðum rannsóknastofunnar er lýst í skýrslu hennar, sem dagsett er 10. nóvember sl., en einnig í skýrslu og greinargerð hins íslenska sérfræðings.
Í greinargerð I, sem dagsett er 11. nóvember 2015, segir að rannsókn rannsóknastofunnar NFC hafi beinst að sýnunum tveimur úr svefnpokanum og fyrrnefndum samanburðarsýnum. Er niðurstöðum rannsóknastofunnar lýst þannig:
„Í máli þessu voru send til rannsóknar tvö sýni, sem varðveitt voru við rannsókn á svefnpoka í eigu brotaþola. Frumrannsókn á sýnum staðfesti að sáðfrumur voru til staðar í þeim og voru þau þá rannsökuð áfram og þau greind með DNA greiningaraðferðum. Niðurstöður þeirra greininga leiddu í ljós að bæði sýnin höfðu sama DNA snið, og var það snið eins og DNA snið grunaðs Eiríks Fannars Traustasonar.
Miðað við þá tækni og aðferðarfræði sem rannsóknarstofa NFC notar, má ganga út frá því um áreiðanleika niðurstöðunnar, að líkurnar á að finna samskonar snið frá óskyldum einstaklingi eru ávallt minni en 1:1.000.000.000. Unnt er að reikna líkurnar í hverju máli fyrir sig ef þurfa þykir.“
Samkvæmt rannsóknargögnum var ákærði, eftir að niðurstöður DNA-rannsóknar bárust lögreglu, handtekinn á heimili sínu síðdegis 11. nóvember sl. Hann var í framhaldi af því yfirheyrður á ný um sakarefnið, að viðstöddum tilnefndum verjanda. Við yfirheyrsluna lýsti ákærði yfir verulegu minnisleysi um gjörðir sínar aðfaranótt 25. júlí 2015 vegna mikillar áfengis- og fíkniefnaneyslu.
Að kröfu lögreglu var ákærði að lokinni yfirheyrslu úrskurðaður í gæsluvarðhald, en það hefur síðan verið framlengt með ítrekuðum dómsúrskurðum allt til þessa dags.
6. Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Fyrir dómi játaði ákærði sakargiftir samkvæmt ákæru, en jafnframt samþykkti hann bótaskyldu gagnvart brotaþola. Um afstöðu vísaði ákærði til áðurrakinnar niðurstöðu DNA-rannsóknar, sem hann kvaðst ekki vefengja. Ákærði vísaði um heimfærslu háttseminnar til áðurrakinnar kröfugerðar og varnarræðu verjanda síns, en einnig varðandi fjárhæð miskabóta. Ákærði staðhæfði að vegna minnisleysis af völdum áfengis- og fíkniefnaneyslu treysti hann sér ekki til, nema að takmörkuðu leyti, að gera grein fyrir eigin athöfnum eftir heimkomu aðfaranótt 25. júlí sl.
Ákærði skýrði frá því að hann hefði hafið rekstur á veitingastaðnum Akkerinu í Hrísey í janúarmánuði 2015. Föstudaginn 24. júlí 2015 kvaðst hann hafa verið einn að störfum á veitingastaðnum, en verið með ungan son sinn hjá sér. Þá um kvöldið kvað hann unga erlenda stúlku hafa komið inn á veitingastaðinn og var það ætlan hans að hún hefði dvalið þar í allt að eina og hálfa klukkustund. Ákærði kvaðst lítillega hafa spjallað við stúlkuna og m.a. spurst fyrir um ferðir hennar, en þá fengið vitneskju um að hún var einsömul og ætlaði að gista á tjaldstæðinu í eynni þá um nóttina. Ákærði sagði að það hefði enn fremur verið ætlan stúlkunnar að koma á veitingastaðinn daginn eftir til að snæða eigið nesti og þá vegna veðurs.
Ákærði staðhæfði að samhliða starfi sínu umræddan dag hefði hann drukkið áfengi og neytt kókaíns. Hann kvaðst hafa hætt störfum um klukkan 1:00 aðfaranótt 25. júlí, en eftir það haldið á dvalarstað sinn í eynni, ásamt hinum unga syni sínum. Þar á heimilinu kvaðst hann hafa komið syninum í rúmið, en einnig rætt við þáverandi sambýliskonu sína í síma, en eftir það farið út með hundinn og síðan þvegið þvott. Ákærði staðhæfði að það síðasta sem hann myndi þessa nótt hefði verið það, að hann hefði setið einn við áfengisdrykkju í sófa á heimili sínu, en að auki neytt fíkniefna. Hann sagði að það næsta sem hann myndi hefði verið er lögreglumenn knúðu dyra daginn eftir. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa farið á tjaldstæðið eða hafa átt samskipti við brotaþola umrædda nótt, en áréttaði að hann vefengdi ekki, í ljósi DNA-rannsóknar, verknaðarlýsingu ákæru.
Ákærði skýrði frá því að það hefði áður gerst að hann missti minnið vegna mikillar neyslu vímugjafa og þá vegna svokallaðs blackouts. Var það ætlan hans að það hefði einmitt gerst þessa nótt, en hann kvaðst þá hafa neytt kókaíns auk lítils háttar af áfengi. Ákærði skýrði frá því að hann hefði misst tökin á fíkniefnaneyslu sinni og í raun neytt slíkra efna í miklu magni sumarið 2015. Hann staðhæfði að neysla hans hefði í raun verið mun meiri en hann hafði áður greint frá við skýrslutökur hjá lögreglu.
Fyrir dómi kannaðist ákærði við að hafa átt þann fatnað sem lögreglan haldlagði við rannsókn málsins og þar á meðal hettustakkinn og skótauið. Ákærði kvaðst ekki geta skýrt það hvernig hann fékk þann finguráverka, sem hann var með við handtöku, að öðru leyti en því að hann hefði oft skorið sig við störf sín á veitingastaðnum.
Fyrir dómi lýsti ákærði yfir iðran og áréttaði að auki fyrri afstöðu um bótaskyldu sína gagnvart brotaþola.
Brotaþolinn, A, lýsti fyrir dómi ferðum sínum um Ísland með líkum hætti og hún hafði áður gert hjá lögreglu. Hún skýrði jafnframt frá því að eftir að hún kom til Hríseyjar hefði hún farið í skoðunarferð, en í framhaldi af því komið sér fyrir á tjaldstæði eyjarinnar. Þá um kvöldið kvaðst hún hafa farið á veitingastað og ætlaði að þar hefði hún haldið til í nokkrar klukkustundir. Hún kvaðst þar m.a. hafa snætt kvöldverð og átt stuttar samræður við „kokkinn“, en að auki skoðað tölvupóst og lesið. Um klukkan 21:00 kvaðst hún hafa farið út af veitingastaðnum, en í framhaldi af því komið sér fyrir í tjaldi sínu á tjaldstæðinu, í svefnpoka, og síðan sofnað um klukkan 22:30. Hún kvaðst hafa vaknað við það að lásnum á tjaldinu var rennt upp, en í beinu framhaldi af því kvað hún ókunnugan karlmann hafa ráðist á sig. Brotaþoli greindi frá því að þegar þetta gerðist hefði verið frekar bjart í tjaldinu og hún því í raun séð vel til miðað við það að hún hefði legið fyrir í upprenndum svefnpokanum og verið án gleraugna sinna. Hún kvaðst hafa veitt því eftirtekt að aðkomumaðurinn var íklæddur úlpu og að hettan var reimuð að andliti hans.
Brotaþoli skýrði frá því að árásaraðilinn, gerandinn, hefði umsvifalaust slegið hana fast högg hægra megin á andlitið og er hún hefði öskrað hefði hann tekið fyrir vit hennar. Hún sagði að gerandinn hefði því næst snúið henni við og að hún hefði eftir það legið á maganum, enda hefði hann haldið höfði hennar fast að jörðinni. Vegna athæfis gerandans kvaðst brotaþoli í fyrstu hafa átt erfitt með andardrátt, en henni hefði tekist að losa um hendur sínar og að auki náð að bíta fast í aðra hvora hönd gerandans, en eftir það hefði hún getað andað eðlilega. Hún kvað gerandann hafa haldið áfram barsmíðunum, en af þeim sökum hefði hún orðið hálfringluð. Hún kvaðst engu að síður hafa reynt að halda ró sinni, enda þótt maðurinn hefði hótað henni lífláti. Hún kvað gerandann hafa opnað svefnpokann, en í framhaldi af því hefði hann dregið hana úr buxum og sokkabuxum. Við þessar aðstæður kvaðst hún hafa heyrt að gerandinn fór að einhverju leyti úr eigin buxum, en eftir það hefði hann fært fætur hennar í sundur. Brotaþoli staðhæfði að hún hefði fundið fyrir berum getnaðarlim gerandans við leggangaopið þegar hann hefði reynt að koma limnum inn í kynfæri hennar. Hún sagði að gerandanum hefði ekki tekist það ætlunarverk, en þá hefði hann reynt að koma lim sínum inn í endaþarm hennar og bar að það hefði honum tekist að hluta til. Hún sagði að eftir þetta hefði gerandinn aðeins fært sig frá henni, en engu að síður haldið henni fastri og við þær aðstæður heyrt að gerandinn var að fróa sér og síðan fundið að sæði hans kom á rassinn og lærin. Hún sagði að í framhaldi af þessu hefði gerandinn á ný reynt að koma lim sínum inn í kynfæri hennar og þegar það hefði ekki tekist hefði hann aftur reynt að koma limnum inn í endaþarminn, en þá ekki tekist það. Hún kvaðst ekki hafa fengið áverka á nefndum stöðum vegna athæfis gerandans.
Brotaþoli skýrði frá því að verknaður gerandans hefði staðið yfir í um 15-20 mínútur og bar að hún hefði verið mjög angistarfull og m.a. stífnað upp, enda óttast um líf sitt. Vísaði hún til þess að gerandinn hefði haft á orði að hún ætti að halda kjafti, en jafnframt hefði hann hótað henni lífláti. Hún kvaðst hafa reynt að tala gerandann til og minntist þess að hafa skýrt honum frá því að hún hefði aldrei haft kynmök. Hún kvað gerandann að lokum hafa sagt að hann ætlaði að fara út úr tjaldinu, en aðeins með því skilyrði að hún myndi ekki líta til hans. Hún sagði að gerandinn hefði talað til hennar með árásargjörnum tón, en jafnframt stöðugt haldið höfði hennar niðri. Hún sagði að gerandinn hefði skolað neðri hluta líkama hennar með vatni, en eftir það hefði hann horfið út úr tjaldinu, en hún legið eftir á grúfu og því ekki séð hvert hann fór.
Brotaþoli greindi frá því að vegna nærsýni þyrfti hún að nota gleraugu. Hún sagði að eftir að gerandinn var horfinn á braut hefði hún fundið gleraugun í tjaldinu, en bar að þá hefðu þau verið skemmd. Engu að síður kvaðst hún hafa veitt því athygli að klukkan var 3:00.
Brotaþoli kvaðst fljótlega hafa hætt sér út úr tjaldinu og í framhaldi af því afráðið að hlaupa að nálægu húsi og leita eftir aðstoð. Þar kvaðst hún m.a. hafa hitt fyrir fjölskylduföðurinn, sem hefði hringt eftir aðstoð lögreglu.
Brotaþoli skýrði frá því að hún hefði rætt við hjúkrunarfræðing á Sjúkrahúsinu á Akureyri og bar að samræður þeirra hefðu farið fram í einrúmi á ensku og ekki varað lengi. Hún sagði að hjúkrunarfræðingurinn hefði talað góða ensku og bar að orðræðan hefði m.a. varðað DNA-sýnatökur og þá af kynfærum og endaþarmi hennar. Hún kvaðst hafa upplýst hjúkrunarfræðinginn um að hún hefði ekki hlotið áverka á nefndum stöðum þrátt fyrir að gerandinn hefði komið við þá með lim sínum.
Brotaþoli skýrði frá því að hún hefði eftir lýsta árás verið með yfirborðsáverka á hægri hluta andlits, en að auki verið með verki og strengi í öllum líkamanum í eina til tvær vikur, en þá helst í fótleggjum og öxlum. Vegna þessa kvaðst hún m.a. hafa leitað til spjaldhryggjarfræðings í heimalandi sínu og bar að hann hefði upplýst hana um að vegna árásarinnar hefðu sex hryggjarliðir hennar færst til. Fyrir dómi kvaðst brotaþoli hafa náð sér af líkamlegum áverkum sínum.
Fyrir dómi lýsti brotaþoli nánar högum sínum, en einnig andlegri líðan eftir árásina. Hún kvaðst skömmu eftir heimkomu hafa farið í nafnlaust eyðnipróf á sjúkrahúsi í [...], en bar að prófið hefði reynst neikvætt. Hún sagði að fyrst eftir árásina hefði hún verið mjög reið og hrædd og átt erfitt með svefn og af þeim sökum m.a. ekki treyst sér til að vera einsömul. Vegna þessa ástands kvaðst hún hafa leitað til sálfræðings í alls fimm skipti. Hún sagði að andleg heilsa hennar hefði farið batnandi er frá leið, en bar að meðferð sálfræðingsins stæði þó enn yfir.
Fyrir dómi áréttaði brotaþoli að hún hefði ekki séð andlit gerandans umrædda nótt, en aftur á móti séð líkamsbyggingu hans og veitt því eftirtekt að hann var með skegg. Á verknaðarstundu kvaðst hún enn fremur hafa talið sig hafa þekkt rödd gerandans og vísaði til þess að hann hefði talað ensku með sterkum íslenskum hreim. Þá kvaðst hún hafa áttað sig á því smám saman að gerandinn hefði verið sá aðili sem hún hafði haft samskipti við á veitingastaðnum í Hrísey kvöldið áður, en hún kvaðst ekki hafa gefið sig á tal við aðra karlmenn í eynni. Hún sagði að samræðurnar hefðu m.a. varðað það að hún væri ein á ferð og að hún hefði í hyggju að gista á tjaldstæði eyjarinnar þá um nóttina.
C, fæddur [...], skýrði frá því fyrir dómi að hann hefði vaknað á heimili sínu í Hrísey umrædda nótt við öskur og þá strax gætt að því hverju það sætti. Hann kvaðst strax hafa hitt fyrir unga erlenda stúlku í forstofu heimilisins og bar að hún hefði greinilega verið stokkbólgin í andliti, en að auki verið berfætt. Hann kvaðst hafa hlýtt á frásögn stúlkunnar um að hún hefði gist í tjaldi á tjaldstæðinu, nærri heimili hans, og að þar hefði karlmaður ráðist á hana og reynt að nauðga henni. Hann kvaðst strax hafa tilkynnt lögreglu um atburðinn, en síðan hlýtt enn frekar á frásögn stúlkunnar og þar á meðal að árásarmaðurinn hefði runkað sér yfir hana, en síðan tekið vatnsflösku og reynt að þvo af henni sæðið og eftir það reynt að nauðga henni aftur. Hann sagði að stúlkan hefði greint frá því að hún hefði reynt að verja sig og náð að bíta árásarmanninn, og hann að lokum farið út úr tjaldinu. Hann sagði að stúlkan hefði haft orð á því að árásarmaðurinn hefði verið karlmaður sem hún hefði hitt á veitingastaðnum Akkerinu þá um kvöldið, þar sem hún hefði snætt kvöldverð. Hann kvað stúlkuna hafa bent á veitingastaðinn, en jafnframt haft orð á því að kokkurinn hefði haft vitneskju um að hún var ein á ferð. Hann sagði að nánar aðspurð hefði stúlkan ekki verið alveg hundrað prósent viss um að umræddur maður hefði átt hlut að máli, en þó haft á orði að hún hefði þekkt rödd hans og að hann hefði verið með skegg. Hann sagði að stúlkan hefði verið mjög hrædd og í miklu uppnámi, en auk þess grátið stöðugt. Hann hefði því reynt að hlúa að henni þar til lögreglan kom á vettvang.
G, hjúkrunarfræðingur á Sjúkrahúsinu á Akureyri, gerði fyrir dómi grein fyrir áðurröktum skýrslum neyðarmóttökunnar um brotaþola, A, og staðfesti jafnframt efni þeirra. Hún sagði að við komu hefði brotaþoli verið með sýnilega áverka á annarri kinninni og verið beygð, en þrátt fyrir það verið ótrúlega yfirveguð í allri framkomu. Hún kvaðst hafa rætt við brotaþola á ensku, en hún kvaðst skilja það tungumál mjög vel. Hún kvaðst því hafa hlýtt á frásögn brotaþola um atvik máls og staðhæfði að hún hefði sagt það mjög skýrt að árásaraðilinn hefði ekki reynt að komast inn í kynfæri hennar, en hefði aftur á móti „spreyjað“ yfir hana sæði.
F, læknir á Sjúkrahúsinu á Akureyri, staðfesti efni áðurrakins læknisvottorðs um áverka brotaþola. Hann kvaðst við skoðun hafa ætlað að andlitsáverki brotaþola hefði komið til af höggi, líklega hnefahöggi, og að til þess hefði þurft að beita þó nokkru afli. Hann sagði að vegna hugsanlegs brots á andlitsbeinum hefði brotaþoli farið í sneiðmyndatöku, en staðfesti að þá hefði komið í ljós að hún var óbrotin. Hann sagði að brotaþoli hefði kvartað um stífleika í hálsi og kjálkalið og ætlaði að það hefði einnig verið að völdum þungs höggs á hægri hlið andlits hennar. Hann lýsti þeirri skoðun að vegna hinna líkamlegu áverka brotaþola hefði hún verið óvinnufær í u.þ.b. 1-3 vikur. Hann sagði að við umrædda skoðun á bráðamóttöku hefði brotaþoli verið í uppnámi, en að hún hefði þrátt fyrir það skýrt vel og greinilega frá atvikum máls.
D lögreglumaður og E rannsóknar-lögreglumaður komu fyrir dóminn og lýstu rannsókn málsins, en staðfestu einnig efni áðurrakinna gagna. Hið sama gerðu I, sérfræðingur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, og J, deildarstjóri á Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði.
7. Í málinu liggur fyrir vottorð K, sálfræðings/sálgreinis, sem dagsett er 18. janúar 2016, en það var ritað vegna meðferðar brotaþola, A, frá 2. desember 2015. Í vottorðinu segir m.a. frá því að brotaþoli hafi komið í meðferðina að eigin ósk, og að tilefnið hefði verið harkaleg árás, sem hún varð fyrir í Hrísey aðfaranótt 25. júlí 2015. Greint er frá því að í fyrstu samskiptum hafi brotaþoli virst vera atorkusöm, brosmild og íþróttaleg í fasi, en að þau einkenni hafi vikið mjög skyndilega þegar rætt hafi verið um árásina, en þá hefði hún sýnt mikla viðkvæmni, kvíða og öryggisleysi. Það álit er látið í ljós að við árásina hafi brotaþoli orðið fyrir sálrænu losti og mjög alvarlegu streituástandi, sem síðan hefði ágerst við upplifun um yfirvofandi dauða. Um þetta er vísað til eftirfarandi orða hennar: „Ég gat næstum ekki andað lengur en sem betur fer tókst mér, með því að beita síðustu kröftum mínum, að bíta hann annars ...“.
Í vottorðinu segir að greinilega séu til staðar hjá brotaþola endurupplifanir á því ofbeldi sem hún varð fyrir og að það hafi haft í för með sér mikla þjáningu fyrir hana. Þá hafi þetta ástand viðhaldið tilfinningu hennar um hættu og óöryggi, en í því sambandi er vísað til orða hennar um að hún hafi átt mjög erfitt með að vera ein. Það álit er látið í ljós að hinn kynferðislegi ásetningur árásarmannsins hefði haft áhrif á hin sálrænu eftirköst og þá ekki síst vegna ungs aldurs brotaþola. Að því er varðar síðari áhrif er það álit látið í ljós að allar athafnir og hugsanir sem hafi kynferðislega merkingu séu líklegar til að endurvekja minningar og framkalla vanlíðan og kvíða eða tilfinningu um hættu.
Samandregið segir í umræddu vottorði að klínískt verði m.a. vart við eftirfarandi einkenni hjá brotaþola: Upplifun um aðsteðjandi dauða, sem eigi rætur að rekja til áfallastreitu, þráláta viðleitni til að forðast áreitni, sem brotaþoli tengir við árásina, hugsanir sem ryðjist að henni, sem komi fram m.a. í lýsingu á atvikum máls líkt og þau séu að gerast á meðan hún tali um þau, fælni og kvíðaröskun ásamt hegðun sem beri vott um hræðslu. Að auki eru nefnd önnur einkenni, svo sem svefntruflanir og röskun á kynferðis- og tilfinningaþroska.
Að því er varðar framtíðarhorfur segir í vottorðinu að jafnvel þótt klínískt ástand brotaþola sýni merki um dvínandi kvíða, sem þakka megi góðum fjölskyldu- og vinatengslum, hafi hún enn þörf fyrir sálræna meðferð til að koma í veg fyrir langvarandi áhrif af verknaðinum. Er helst vísað til þess að hætta geti verið á því að brotaþoli forðist í framtíðinni náin sambönd, en einnig geti komið fram áhættu- og sjálfskaðandi hegðun, skap- og persónuleikatruflanir, svefntruflanir, lélegur árangur í skóla og tíð líkamleg einkenni, svo sem langvarandi þreyta, höfuðverkir, ógleði og hjartsláttartruflanir.
K, sálfræðingur, staðfesti í símaskýrslu fyrir dómi efni vottorðsins.
II
Í máli þessu er ákærða gefið að sök nauðgun og barnaverndarlagabrot aðfaranótt 25. júlí sl. Í ákærunni er ætlaðri háttsemi nánar lýst þannig, að ákærði hafi ráðist á brotaþola, sem þá var 17 ára, umrædda nótt þar sem hún var sofandi í tjaldi sínu, og að hann hafi þar haldið henni og veitt henni högg, m.a. á höfuð, en enn fremur hótað henni lífláti. Þá hafi hann fært hana úr fötum að neðanverðu. Í ákærunni er ætlaðri kynferðislegri háttsemi ákærða lýst þannig, að hann hafi reynt að koma getnaðarlim sínum inn í kynfæri brotaþola, að hann hafi því næst fróað sér og fengið sáðlát yfir rass hennar og læri, en eftir það reynt á nýjan leik að koma lim sínum inn í kynfæri hennar.
Að áliti dómsins er samhljómur með frásögn ákærða og brotaþola um að þau hafi átt samskipti síðdegis eða að kveldi 24. júlí sl., í veitingastað, sem ákærði rak í Hrísey er atvik máls þessa gerðust. Að virtum framburði þeirra er að mati dómsins óumdeilt að brotaþoli upplýsti ákærða við þetta tækifæri um þá fyrirætlan sína að gista einsömul í tjaldi á tjaldstæði eyjarinnar þá um nóttina.
Ákærði hefur greint frá því að hann hafi neytt áfengis við störf sín á veitingastaðnum. Þá hefur hann greint frá gjörðum sínum eftir að hann lauk þar störfum laust eftir miðnættið 25. júlí sl., og þar á meðal um að hann hafi komið ungum syni sínum í rúmið á dvalarstað þeirra, en eftir það farið út með hundinn og þvegið eigin fatnað.
Ákærði hefur borið að hann hafi neytt lítils háttar af áfengi á heimili sínu, en því til viðbótar neytt sterkra fíkniefna, kókaíns, og verður ráðið að það hafi eftir atvikum verði í talsverðu magni. Að virtum áðurröktum niðurstöðum rannsóknastofu Háskóla Íslands, en einnig vitnisburði deildarstjóra rannsóknastofunnar, verður að mati dómsins að leggja þennan framburð hans til grundvallar í málinu.
Fyrir dómi hefur ákærði um eigin gjörðir umrædda nótt að öðru leyti en að ofan er rakið borið við algjöru minnisleysi vegna vímuástands síns og þar á meðal um sakaratriði málsins. Ákærði staðfesti aftur á móti eignarhald á þeim fatnaði, sem lögregla lagði hald á við frumrannsóknina, en þar á meðal var svartur reimaður hettustakkur.
Fyrir dómi hefur ákærði játað sök samkvæmt ákæru, en þar um hefur hann vísað til áðurrakinnar niðurstöðu DNA-rannsóknar.
Fyrir dómi hefur brotaþoli borið að hún hafi fljótlega eftir þann verknað sem lýst er í ákæru haft grunsemdir um að þar hafi ákærði átt hlut að máli. Vitnið C og sá lögreglumaður sem ræddi við brotaþola nærri vettvangi umrædda nótt hafa skýrlega borið um að þeir hafi hlýtt á rökstudda orðræðu brotaþola í þessa veru. Liggur þannig fyrir að grunsemdir brotaþola beindust strax á fyrstu stigum að ákærða. Að mati dómsins er finguráverki ákærða og sá fatnaður sem lögregla lagði hald á á heimili hans framburði brotaþola til styrktar.
Nefnd vitni hafa borið að brotaþoli hafi verið miður sín og með sýnilega andlitsáverka. Sérfræðigögn, þ. á m. áðurrakin sjúkrahúsgögn og sálfræðiskýrsla, eru að mati dómsins vafalaus um að brotaþoli hafi auk líkamlegra áverka orðið fyrir verulegu andlegu áfalli þessa nótt.
Fyrir dómi hefur brotaþoli greint frá hinni kynferðislegu háttsemi ákærða, sem hún varð fyrir í tjaldi sínu. Hún lýsti athæfi gerandans m.a. á þannig veg, að auk þess sem hann hafi beitt hana ofbeldi og viðhaft alvarlegar hótanir, hefði hann fært hana úr fötum, en í beinu framhaldi af því hafi hann reynt að koma lim sínum inn í kynfæri hennar. Brotaþoli staðhæfði fyrir dómi að hún hefði fundið fyrir berum lim gerandans við leggangaopið. Brotaþoli lýsti því enn fremur að eftir að gerandanum hafði ekki tekist ætlunarverkið hafi hann fróað sér við bakhluta hennar uns honum varð sáðlát, en eftir það á nýjan leik og á sama hátt reynt að koma lim sínum inn í kynfæri hennar og endaþarm, en að auki hafi hann hellt vatni yfir bakhluta hennar. Brotaþoli staðhæfði að hún hefði lýst athæfi gerandans með líkum hætti í stuttu samtali á neyðarmóttöku Sjúkrahússins á Akureyri, en að auki farið á sjúkrahús í heimlandi sínu skömmu síðar vegna ótta um eyðnismit.
Að mati dómsins hefur frásögn brotaþola í öllum aðalatriðum verið einlæg, greinargóð og trúverðug. Þá hefur frásögn hennar um sumt verið nákvæmari en við skýrslugjöf hjá lögreglu. Að mati dómsins eru áðurrakin rannsóknargögn lögreglu, en einnig önnur gögn, frásögn brotaþola í öllum aðalatriðum til stuðnings.
Að öllu ofangreindu virtu er að mati dómsins ekki varhugavert að leggja frásögn brotaþola til grundvallar um málsatvik.
Í máli þessu liggur fyrir niðurstaða rannsóknastofu vegna DNA-rannsóknar, sem gerð var á sýnum og samanburðarsýnum sem tekin voru af ákærða og úr blettum sem fundust á svefnpoka brotaþola. Leiddi greining og rannsókn í ljós að bæði sýnin höfðu sama DNA-snið, og að það var eins og DNA-snið ákærða. Ákærði hefur enga haldbæra skýringu gefið á þessum sýnilegu gögnum eða á rannsóknarniðurstöðunni, en í þess stað vísað til áðurgreinds minnisleysis um eigin gjörðir aðfaranótt 25. júlí sl.
Það er álit dómsins þegar allt framangreint er virt í heild, ásamt játningu ákærða fyrir dómi, að lögfull sönnun sé fram komin fyrir því að ákærði hafi viðhaft þá háttsemi sem lýst er í ákæru, en miða ber við þá verknaðarlýsingu sem þar er rakin.
Í ákæru ríkissaksóknara er ákærða gefið að sök brot gegn 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002 og 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. breytingarlög nr. 61, 2007. Ákvæði barnaverndarlaganna hljóðar svo: Hver sem sýnir barni yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, særir það eða móðgar skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.
Ákvæði 1. mgr. 194. gr. hegningarlaganna með síðari breytingum hljóðar svo: Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innlokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.
Samkvæmt nefndri lagagrein hegningarlaganna eru önnur kynferðismök lögð að jöfnu við samræði eða háttsemi sem hefur gildi sem slíkt.
Þegar hin kynferðislega háttsemi ákærða samkvæmt ákæru er virt í heild og þá í ljósi frásagnar brotaþola, og til þess litið að um samfelldan verknað var að ræða, er það niðurstaða dómsins að ákærði hafi eins og hér stendur á gerst sekur um fullframið brot í skilningi 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Jafnframt varðar brot hans gegn brotaþola, og þá vegna ungs aldurs hennar, við 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002, líkt og segir í ákæru. Vörn skipaðs verjanda ákærða, að um tilraunarverknað hafi verið að ræða, er því hafnað.
III
Ákærði, sem er 30 ára, hefur samkvæmt sakavottorði áður verið dæmdur til refsingar, sem áhrif hefur í máli þessu, en hann var þann 13. júní 2014 dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöfinni. Ákærði hefur með lýstri háttsemi rofið skilorð dómsins og ber því samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga að taka dóminn upp og dæma með þeirri refsingu sem honum verður nú gerð.
Ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gagnvart ungmenni, en einnig fyrir brot gegn barnaverndarlögum. Brot ákærða er mjög alvarlegt. Að mati dómsins sýndi hann einbeittan brotavilja, en með háttseminni braut hann á sérlega grófan hátt gegn kynfrelsi brotaþola. Við ákvörðun refsingar verður að þessu virtu m.a. litið til ákvæða 1., 2., 6. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr., en einnig a- og c-liða 195. gr. hegningarlaganna, sbr. og 77. gr. sömu laga. Til málsbóta þykir m.a. mega líta til játningar ákærða fyrir dómi, iðrunar hans og yfirlýsingar um bótakröfu brotaþola, sbr. 8. tl. 1. mgr. 70. gr. hegningarlaganna.
Þykir refsing ákærða að öllu ofangreindu virtu hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur ár og sex mánuði. Til frádráttar refsingunni skal koma gæsluvarðhald ákærða þann 26. júlí 2015, en síðan óslitið gæsluvarðhald hans frá 12. nóvember 2015 til þessa dags.
Í málinu er höfð uppi einkaréttarkrafa, sem getið er í ákæru. Krafan er sundurliðuð, en endanlega var krafist miskabóta að fjárhæð 2.500.000 krónur, bóta vegna útlagðs kostnaðar, vegna sálfræðiviðtala, lækniskostnaðar og munatjóns að fjárhæð 68.876 krónur og loks þjáningabóta í fimm daga að fjárhæð 9.050 krónur. Krafan var reifuð og rökstudd við munnlegan málflutning af hálfu skipaðs réttargæslumanns brotaþola, en um lagarök er vísað til 1. mgr. 1. gr., 3. gr., 1. mgr. 15. gr. og 26. gr. laga nr. 50, 1993 með síðari breytingum, auk tilgreindra ákvæða vaxtalaga eins og segir í ákæru. Krafan var birt ákærða 19. nóvember sl.
Eins og fyrr var rakið samþykkti ákærði fyrir dómi bótaskyldu gagnvart brotaþola. Hann hafði ekki uppi athugasemdir um hið fjárhagslega tjón brotaþola, samtals að fjárhæð 77.926 krónur, og eru ekki efni til annars en að taka þá kröfuliði til greina að fullu. Ákærði andmælti aftur á móti miskabótakröfunni sem of hárri og lagði þann ágreining í mat dómsins.
Ákærði hefur bakað sér bótaskyldu gagnvart brotaþola, sbr. ákvæði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993. Við ákvörðun bóta verður litið til áðurrakinna læknisvottorða, vottorðs sálfræðings og fleiri gagna, sem að áliti dómsins styðja frásögn brotaþola um að hún hafi orðið fyrir verulegri tilfinningaröskun og andlegum þjáningum vegna háttsemi ákærða. Þá verður litið til áðurrakinna sjónarmiða varðandi ákvörðun refsingar ákærða og loks þess að samkvæmt gögnum hefur brotaþoli enn þörf fyrir sálfræðimeðferð vegna afleiðinga háttseminnar. Ákveðast miskabætur að þessu virtu til brotaþola 1.600.000 krónur, auk áðurgreinds fjárhagslegs tjóns hennar, 77.936 krónur, og því samtals 1.677.936 krónur. Verður ákærði dæmdur til að greiða þá fjárhæð með vöxtum eins og þeir eru nánar greindir í dómsorði. Upphafstími dráttarvaxta er ákveðinn samkvæmt reglu 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38, 2001.
Ákæruvaldið hefur í málinu gert kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu alls útlagðs sakarkostnaðar, sem samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti, sbr. dskj. nr. 13, nemur 1.135.524 krónum, en þar með er m.a. talin þegar greidd þóknun til tilnefnds verjanda ákærða á rannsóknarstigi málsins. Að auki er um að ræða málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir dómi, en einnig ferðakostnað hans og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola við alla meðferð málsins, sbr. ákvæði 218. gr. laga nr. 88, 2008. Verður við ákvörðun launanna m.a. litið til umfangs málsins og lýstra starfa lögmannanna við meðferð þess, sbr. og sundurliðaðra skýrslna þar um. Einnig verður litið til þeirra sjónarmiða sem fram koma t.d. í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 290/2000 um hlutverk réttargæslumanna, en til þess er þó einnig að líta að það hlutverk var eftir atvikum talsvert umfangsmikið, þar sem brotaþoli er erlendur ríkisborgari. Launin eru ákvörðuð að meðtöldum virðisaukaskatti.
Af hálfu ákæruvalds flutti málið Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari.
Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, Eiríkur Fannar Traustason, sæti fangelsi í fjögur ár og sex mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald hans þann 26. júlí 2015 og frá 12. nóvember sama árs og allt til þessa dags.
Ákærði greiði B, fyrir hönd dóttur hans, A, 1.677.936 krónur í miska- og skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu, frá 25. júlí 2015 til 19. desember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 2.546.424 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 777.480 krónur, en einnig ferðakostnað hans að fjárhæð 81.000 krónur og réttargæslulaun Arnbjargar Sigurðardóttur hrl., 552.420 krónur.