Hæstiréttur íslands
Mál nr. 433/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
|
|
Fimmtudaginn 11. nóvember 2004. |
|
Nr. 433/2004. |
Ellen Stefanía Björnsdóttir og Regin Grímsson (Karl Axelsson hrl.) gegn Samstarfi, starfsmannafélagi
Samskipa hf. (Lúðvík Örn Steinarsson hrl.) |
Kærumál. Málskostnaður.
Máli S á hendur E og R var fellt niður í
héraðsdómi að kröfu þess fyrrnefnda eftir að E og R höfðu lagt fram greinargerð
í málinu. E og R kröfðust þess fyrir Hæstarétti að S yrði gert að greiða þeim
hærri málskostnað en í úrskurði héraðsdóms. Með vísan til umfangs málsins í
heild var talið hæfilegt að S greiddi E og R 150.000 krónur í
málskostnað fyrir héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og
Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 20. október 2004, sem
barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður
Héraðsdóms Reykjaness 8. október 2004, þar sem mál varnaraðila gegn
sóknaraðilum var fellt niður og varnaraðila gert að greiða þeim 70.000 krónur í
málskostnað. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um
meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að varnaraðila verði gert að
greiða 361.050 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi, „eða aðra fjárhæð
samkvæmt mati Hæstaréttar.“ Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér
dæmdur kærumálskostnaður.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði varnaraðili mál á hendur sóknaraðilum þar sem hann krafðist meðal annars skaðabóta að fjárhæð 3.055.676 krónur. Málið var þingfest 21. apríl 2004. Sóknaraðilar tóku til varna í málinu og lögðu fram greinargerð. Þar kröfðust þau aðallega að málinu yrði vísað frá dómi með vísan til þess að það væri höfðað á röngu varnarþingi. Varnaraðili féllst á þessa kröfu sóknaraðila og óskaði eftir því á dómþingi 14. september 2004 að málið yrði fellt niður. Gerðu sóknaraðilar þá kröfu um að þeim yrði úrskurðaður málskostnaður úr hendi varnaraðila. Gekk hinn kærði úrskurður í framhaldi af því.
Af gögnum málsins má ráða að krafa sóknaraðila sé reist á því að dæma beri
þeim málskostnað í samræmi við málskostnaðaryfirlit, sem lagt var fram í
þinghaldi 14. september sl. Þar kemur fram að þóknun lögmanns þeirra sé 361.050
krónur, en miðað er við vinnu í 27 klukkustundir og 10.000 krónur fyrir hverja
klukkustund, auk virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar. Varnaraðili mótmælir
kröfunni og bendir á að líta verði til umfangs máls og þess sérstaklega að mál
vegna sama sakarefnis hafi þegar verið höfðað á réttu varnarþingi.
Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 skal stefnanda gert að greiða
stefnda málskostnað ef máli er vísað frá dómi eða það er fellt niður af annarri
ástæðu en þeirri að stefndi efni þá skyldu, sem hann er krafinn um. Þá er aðila
rétt að krefjast greiðslu málskostnaðar úr hendi gagnaðila síns eftir mati
dómsins eða samkvæmt sundurliðuðum reikningi, sem er lagður fram ekki síðar en
við aðalmeðferð máls, sbr. 3. mgr. 129. gr. laganna. Þegar umfang máls þessa er
virt í heild er hæfilegt að varnaraðili greiði sóknaraðilum 150.000 krónur í
málskostnað fyrir héraðsdómi.
Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Varnaraðili, Samstarf, starfsmannafélag Samskipa hf., greiði sóknaraðilum, Ellen Stefaníu Björnsdóttur og Regin Grímssyni, samtals 150.000 krónur í málskostnað í héraði.
Varnaraðili greiði sóknaraðilum samtals 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms
Reykjaness 8. október 2004.
Dómkröfur
stefnanda Samstarfs starfsmannafélags Samskipa hf., kt. [...], Holtavegi við
Holtabakka í Reykjavík eru þær, að stefndu Ellen Stefaníu Björnsdóttur, kt.
[...] og Regin Grímssyni, kt. [...], báðum til heimilis að Skjólvangi 8,
Hafnarfirði verði gert að greiða honum kr. 3.055.676,- í skaðabætur auk dráttarvaxta
skv. III. kafla lafa nr. 38,2001 frá 3. desember 2003 til greiðsludags. Þá
verði honum gert að gefa út afsal fyrir bátnum Litlafelli, skipaskrárnúmer 2201
og greiða honum málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu
verði vísað frá dómi en til vara að stefndu verði sýknuð af kröfum
stefnanda. Í báðum tilvikum er krafist
málskostnaðar að skaðlausu að teknu tilliti til skyldu stefndu til greiðslu
virðisaukaskatts.
Mál
þetta er um efndir á kaupsamningi sem málaðilar gerðu með sér 10. apríl 2002 um
sölu stefndu á bátnum Dalvík (nú Litlafell) með skipaskránúmerinu 2201 til
stefnanda, sem telur stefndu ekki hafa uppfyllt samningsskyldur sínar.
Í
niðurlagi kaupsamningsins kemur fram, að rísi ágreiningur vegna efnis eða
túlkunar á kaupsamningnum skuli bera þann ágreining undir Héraðsdóm
Reykjavíkur. Stefndu byggja því
frávísunarkröfu sína á því að málið sé höfðað á röngu varnarþingi, það hafi átt
að höfða fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, en ekki Héraðsdómi Reykjaness.
Í
þinghaldi 14. september s.l. fellst stefnandi á þessa kröfu stefndu og óskaði
þess jafnframt með bókun að málið yrði fellt niður. Fram kom að ágreiningur væri um kostnað stefndu af málinu og
hefur ágreiningur þess verið lagður í úrskurð dómsins, en stefndu krefjat
361.050 krónur í málkostnað í málinu miðað við vinnuframlag og útlagðan
kostnað.
Stefnandi
hefur mótmælt þessari kröfu sem miðist við að málið fái efnilega umfjöllun, en
miða verði kostnaðinn nú við að einungis sé nú tekist á um formhlið málsins.
Rétt
þykir að miða málskostnað nú eingöngu við lyktir um formhlið þess, en í bókun
stefnanda kemur fram, að nýtt mál verði fljótlega höfðað á réttu varnarþingi og
muni þá efnisrök stefndu koma til álita.
Mál
þetta er því með vísun til c-liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 fellt
niður og úrskurðast stefnandi til að greiða stefndu 70.000 krónur í málskostnað
að meðtöldum virðisaukaskatti.
Guðmundur
L. Jóhannesson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Mál
þetta er fellt niður. Stefnandi,
Samstarf, starfsmannafélag Samskipta hf., greiði stefndu Ellen Stefaníu
Björnsdóttur og Regin Grímssyni 70.000 krónur í málskostnað að meðtöldum
virðisaukaskatti.