Hæstiréttur íslands
Mál nr. 79/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
- Skýrslugjöf
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Davíð Þór Björgvinsson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. febrúar 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2017, þar sem fallist var á kröfu brotaþola, A, um að varnaraðila skuli vikið úr dómsal meðan hún gefur skýrslu. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Brotaþoli krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2017.
Mál þetta, sem tekiðvar til úrskurðar í dag, er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 25. nóvember 2016, á hendur X, kt. [...], [...], [...] fyrir nauðgun, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 18. janúar 2015 í aftursæti bifreiðarinnar [...] á bifreiðastæði við [...] við [...] í [...], beitt A ólögmætri nauðung og haft samræði við hana í leggöng gegn vilja hennar, en ákærði tók niður um hana buxurnar fyrir utan bifreiðina, hún girti þær aftur upp um sig og féll í aftursæti bifreiðarinnar þar sem ákærði lagðist ofan á hana, tók á ný niður um hana buxurnar og hafði við hana samræði, þrátt fyrir að hún segði honum ítrekað að hún vildi það ekki. Hlaut A af verknaðinum lítinn skurð við leggangaop. Er þessi háttsemi talin varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er í ákærunni tilgreind einkaréttarkrafa brotaþola.
Með tölvuskeyti í gær boðaði réttargæslumaður brotaþola að hún myndi krefjast þess fyrir hönd brotaþola að ákærði viki úr dómsal á meðan hún gefi skýrslu við aðalmeðferð málsins í dag. Verjandi upplýsti með tölvuskeyti að ákærði hefði hafnað kröfunni. Við upphaf aðalmeðferðar í dag ítrekaði réttargæslumaður kröfu sína um að ákærði viki úr dómsal við skýrslugjöf brotaþola og ákærði hafnaði því. Var málflytjendum þá gefinn kostur á að tjá sig um kröfuna. Var krafan að því loknu tekin til úrskurðar.
Krafa brotaþola byggist á 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Brotaþoli telur að nærvera ákærða í dómsal myndi verða henni þungbær og hafa áhrif á framburð hennar fyrir dómi. Brotaþoli vísar kröfu sinni til stuðnings til vottorðs sálfræðings. Sækjandi tekur ekki afstöðu til kröfunnar. Ákærði hafnar því að skilyrðum 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 sé mætt í málinu.
Samkvæmt 1. mgr. 166. gr. laga nr. 88/2008 á ákærði rétt á að vera við aðalmeðferð máls. Dómara er þó heimilt að ákveða að ákærði víki af þingi meðan vitni gefur skýrslu í máli. Samkvæmt 1. mgr. 123. gr. sömu laga getur dómari að kröfu ákæranda eða vitnis ákveðið að ákærða verði vikið úr þinghaldi meðan vitnið gefur skýrslu telji dómari að nærvera ákærða geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess. Það er meginregla sakamálaréttarfars að ákærði eigi þess kost að vera viðstaddur aðalmeðferð og önnur þinghöld í máli sem höfðað hefur verið gegn honum. Undantekningar frá þeirri meginreglu ber að skýra þröngt og þurfa því ríkar ástæður að vera fyrir hendi til að unnt sé að víkja frá henni.
Ákærði er í málinu borinn alvarlegum sökum af brotaþola. Honum er í málinu gefið að sök að hafa nauðgað brotaþola þegar hún var 17 ára að aldri. Í málinu liggur fyrir vottorð sálfræðings sem greinir meðal annars frá því að brotaþoli hafi verið greind með áfallastreituröskun og alvarlega geðlægð. Þá lýsir hún því að þau einkenni sem hafi truflað brotaþola hvað mest hafi verið upplifun á ágengum minningum um meint kynferðisofbeldi. Að broti því sem ákærða er gefið að sök virtu og framlögðu vottorði sálfræðingsins þykir sýnt að nærvera ákærða við skýrslugjöf getur orðið brotaþola sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð hennar.
Að framangreindu virtu telur dómari að hagsmunir brotaþola, af því að geta gefið skýrslu án nærveru ákærða, vegi þyngra en hagsmunir ákærða af því að vera viðstaddur skýrslugjöf hennar. Verður því fallist á kröfu brotaþola og ákærða gert að víkja úr þinghaldi á meðan hún gefur skýrslu við aðalmeðferð í málinu. Þess verður gætt að ákærði geti fylgst með skýrslutökunni um leið og hún fer fram og jafnframt að lagðar verði fyrir brotaþola þær spurningar sem ákærði kann að óska eftir að lagðar verði fyrir hana, sbr. 3. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008.
Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Ákærði, X, skal víkja úr þinghaldi meðan brotaþoli, A, gefur skýrslu.