Hæstiréttur íslands

Mál nr. 113/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


                                                                 

Mánudaginn 15. mars 1999.

Nr. 113/1999.

Ríkislögreglustjóri

(Helgi Magnús Gunnarsson fulltrúi)

gegn

X

(Halldór Jónsson hdl.)

                                                                           

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður og B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X, erlendur ríkisborgari búsettur á Íslandi, var grunaður um að hafa aðstoðað Y við að innleysa falsaða tékka fyrir háar fjárhæðir. Fallist var á að fullnægt væri skilyrðum a. og b. liða 1.  mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til þess að X sætti gæsluvarðhaldi. Þá var fallist á kröfu rannsóknara um að gæsluvarðhaldstíminn yrði lengdur frá því sem ákveðið hafði verið í héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. mars 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 18. mars nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 1. apríl nk. kl. 16.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti 11. mars 1999. Hann krefst þess aðallega að úrskurðurinn verði felldur úr gildi, til vara að í stað gæsluvarðhalds verði sér gert að halda sig á ákveðnu svæði eða bönnuð brottför af landinu, en til þrautavara að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur. Varnaraðili krefst einnig kærumálskostnaðar.

Í málinu er fram kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi ásamt Y framið verknað, sem fangelsisrefsing er lögð við og nánar er gerð grein fyrir í hinum kærða úrskurði. Sóknaraðili kveðst eiga eftir að afla skýrslna frá vitnum um nánar tiltekin atriði málsins. Þá sé enn ekki lokið rannsókn á því hvað kunni að hafa orðið af fjármunum, sem fyrrnefndur Y hafi borið að varnaraðili hafi fengið í sinn hlut af ágóða af ætluðum brotum. Samkvæmt þessu verður fallist á að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds.

Varnaraðili er erlendur ríkisborgari. Samkvæmt framburði hans fyrir lögreglu hugði hann á för úr landi og hafði þegar aflað sér vegabréfsáritunar til Englands í því skyni. Vegabréf varnaraðila mun ekki hafa fundist þrátt fyrir eftirgrennslan. Að þessu virtu og með hliðsjón af eðli sakargifta á hendur varnaraðila verður á það fallist að skilyrðum b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé jafnframt fullnægt til gæsluvarðhalds.

Með vísan til þess, sem að framan greinir, verður að fallast á kröfu sóknaraðila um að gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila verði markaður tími allt til fimmtudagsins 1. apríl nk., eins og nánar greinir í dómsorði.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 1. apríl 1999 kl. 16.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 1999.             

Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess með vísan til a- og b- liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, að X verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi frá lokum fyrra gæsluvarðhalds miðvikudaginn 10. mars 1999 kl. 16.00, til fimmtudagsins 1. apríl 1999 kl. 16.00.

[...]

Í þágu rannsóknar málsins þykir með vísan til þess að framan er rakið og a- og b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, brýna nauðsyn bera til að kærða verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar sem ætla má að hann muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að skjóta undan þeim peningum sem sviknir voru út og hann er talinn hafa aðgang að, jafnframt að hann muni hafa samband við vitorðsmann eða menn, ef hann fær að halda frelsi sínu og reyna að komast úr landi til að koma sér undan málssókn. Þó þykir ekki ástæða til að gæsluvarðhaldið vari lengur en til fimmtudagsins 18. mars n.k. klukkan 16:00

Úrskurð þennan kvað upp Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari.

Úrskurðarorð :

                Kærði X sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 18. mars nk. kl. 16.00.