Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-107
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Nauðgun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
Með beiðni 16. mars 2021 leitar Sindri Örn Garðarsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 19. febrúar 2021 í málinu nr. 596/2019: Ákæruvaldið gegn Sindra Erni Garðarssyni á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haft samræði við brotaþola án hennar samþykkis með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við verknaði hans þar sem hún var sofandi þegar hann hóf að brjóta á henni. Með hliðsjón af niðurstöðu DNA-rannsóknar á sýni sem tekið var á innanverðum nærbuxum ákærða og af getnaðarlim hans, framburði sérfræðings hjá tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og frásögn brotaþola, taldi Landsréttur, gegn neitun leyfisbeiðanda, hafið yfir skynsamlegan vafa að hann hafi sett lim sinn í leggöng brotaþola. Þá þótti sannað með trúverðugum framburði brotaþola að hún hefði verið sofandi þegar leyfisbeiðandi hóf að brjóta á henni og að hann hefði ekki með nokkru móti getað gert ráð fyrir að brotaþoli væri samþykk þeim kynmökum sem hann þannig átti við hana. Refsing leyfisbeiðanda var ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði auk þess sem honum var gert að greiða brotaþola miskabætur.
Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Hann telur að Landsrétti hafi borið að ómerkja dóm héraðsdóms í málinu þar sem samning dómsins hafi ekki verið með þeim hætti sem sé áskilið í 183. gr. laga nr. 88/2008, en ella að vísa hefði átt málinu frá héraðsdómi. Hann byggir á því að skýrsla Nationellt forensiskt centrum í Svíþjóð um DNA-rannsókn á sýnum hafi aðeins verið lögð fram á sænsku í bága við 12. gr. laga nr. 88/2008 auk þess sem rannsókn málsins hafi verið haldin ágöllum sem ekki verði úr bætt við meðferð þess fyrir dómi. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að rökstuðningur Landsréttar fyrir sakfellingu hans sé ófullnægjandi. Hann vísar til þess að brotaþoli hafi fyrir dómi lýst því að leyfisbeiðandi hefði ekki sett getnaðarlim sinn inn í leggöng hennar heldur reynt það. Þá hafi brotaþoli jafnframt skýrt svo frá að hún hefði vaknað við að ákærði snerti hana með höndum. Brotaþoli hafi því verið vöknuð áður en sú háttsemi sem hann sé sakaður um hafi átt að eiga sér stað. Þá telur leyfisbeiðandi að það að „þora ekki að bregðast við“ falli ekki undir þá verknaðarlýsingu 2. mgr. 194. gr. laga nr. 88/2008 að þannig sé ástatt um brotaþola að öðru leyti að hann geti ekki spornað við verknaðinum.
Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni og tekur undir það mat Landsréttar að annmarkar á dómi héraðsdóms séu ekki með þeim hætti að leitt geti til ómerkingar. Ákæruvaldið vísar jafnframt til 4. og 6. málsliðar 3. mgr. 207. gr. laga nr. 88/2008. Þá sé hvorki efni til frávísunar málsins vegna ætlaðra annmarka á rannsókn þess né á þeim grunni að skýrsla Nationellt forensiskt centrum hafi ekki verið lögð fram í íslenskri þýðingu. Í málinu liggi fyrir, líkt og í fjölda annarra mála sem dæmd hafi verið í Landsrétti og Hæstarétti, skýrsla sérfræðings hjá tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á íslensku um niðurstöður DNA- rannsóknarinnar.
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þótt samningu héraðsdóms sé í nokkru ábótavant eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu á þeim grundvelli að málsmeðferð fyrir héraðsdómi hafi verið stórlega ábótavant. Er þá litið til þess að dómur Landsréttar er ekki bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.