Hæstiréttur íslands
Mál nr. 42/2005
Lykilorð
- Lögmaður
- Bókhald
- Uppgjör
|
|
Fimmtudaginn 16. júní 2005. |
|
Nr. 42/2005. |
Ragnar Þ. Guðmundsson(Einar Gautur Steingrímsson hrl.) gegn Jóni Gunnari Zoëga (sjálfur) |
Lögmenn. Bókhald. Uppgjör.
R höfðaði mál gegn J til endurheimtu á vörslufé sem hann tók við frá R sem J hefði borið að halda aðgreindu frá eigin fé og ráðstafa ekki nema í samráði við sig. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að J hefði borið að gera skýra grein fyrir meðferð þeirra fjármuna R, sem um væri að ræða og hann hefði í vörslum sínum. Hefði hann ekki gert það þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir R og dóm Hæstaréttar þar um. Bar J sönnunarbyrði fyrir því hvernig fénu var ráðstafað og að sú ráðstöfun hefði verið með samþykki R. Með hliðsjón af misvísandi skýringum J var talið að hvorki yrði litið svo á að honum hefði tekist sönnun um ráðstöfun fjármunanna né samþykki á slíkri ráðstöfun. Var J því gert að greiða R 3.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. febrúar 2005. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 3.300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. júlí 1992 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi tók stefndi á árinu 1992 við 5.151.830 krónum frá áfrýjanda vegna fasteignaviðskipta þess síðarnefnda. Var ætlun aðila að stefndi myndi aðstoða áfrýjanda vegna fjárhagserfiðleika hans. Er því lýst að stefndi heldur því fram að greiðslur hafi runnið aftur til áfrýjanda á tímabilinu 30. apríl til 10. júlí 1992, samkvæmt uppgjöri sem áfrýjandi kvittaði fyrir án athugasemda.
Að loknum árangurslausum tilraunum áfrýjanda til að fá fullnægjandi gögn um greiðslur þessar höfðaði hann mál á hendur stefnda í því skyni fá að nánar tilgreind gögn og upplýsingar. Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 1998 var lagt fyrir stefnda að láta áfrýjanda í té fylgiskjöl úr bókhaldi sínu varðandi tilteknar greiðslur. Var sá dómur staðfestur í Hæstarétti 29. apríl 1999, sem birtur er í dómasafni það ár á bls. 1855. Skyldi stefndi meðal annars afhenda áfrýjanda fylgiskjöl úr bókhaldi sínu vegna þeirra greiðslna er mál þetta varða og tilgreindar eru á uppgjörsblaðinu, eða vegna 300.000 króna 4. maí, 1.000.000 króna 12. maí og 2.000.000 króna 29. júní 1992.
Áfrýjandi kveðst ekki enn hafa fengið fullnægjandi upplýsingar um greiðslur þessar. Höfðaði hann því málið til endurheimtu á því vörslufé sem stefnda hafi borið að halda aðgreindu frá eigin fé og ráðstafa ekki nema í samráði við sig. Stefndi kveður hins vegar að hér hafi ekki verið um að ræða venjulega umsýslu lögmanns í þágu umbjóðanda síns heldur vinargreiða sem enga þóknun hafi átt að taka fyrir, en áfrýjandi hafi verið í fjárhagslegum hremmingum á þessum tíma. Hafi aðstoð við áfrýjanda ekki verið færð í bækur stefnda öðruvísi en samkvæmt viðskiptaspjaldi þar sem skráð hafi verið ráðstöfun fjárins. Kom fram hjá stefnda við flutning málsins fyrir Hæstarétti að umrætt uppgjörsblað hafi í raun verið viðskiptaspjaldið vélritað upp. Er málavöxtum og málsástæðum nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi.
II.
Stefndi hélt einnig fram framangreindri málsástæðu fyrir Hæstarétti í hinu fyrra máli. Um þetta segir í dóminum að af héraðsdómi, greinargerð í héraði og öðrum gögnum málsins verði ekki ráðið að þessari málsástæðu hafi verið hreyft í héraði. Fyrir liggi að stefndi hafi annast margvíslega aðra umsýslu fyrir áfrýjanda vegna fjárhagsörðugleika hans en í tilteknu bréfi stefnda til áfrýjanda sé rætt um ógreiddar þóknanir fyrir margvísleg störf í hans þágu. Þyki þessi málsástæða stefnda með nokkrum ólíkindum. Verður við úrlausn þessa máls við þetta að miða.
Við skýrslugjöf fyrir dómi í framangreindu máli kvaðst stefndi hafa fengið umræddar 5.151.830 krónur frá áfrýjanda og lagt inn á sinn tékkareikning. Ekki hafi verið ákveðið til hvers nota ætti peningana, en áfrýjandi hafi notað þá eftir þörfum og ugglaust í einhverju samráði við sig. Stefndi kvaðst hafa endurgreitt áfrýjanda umrædda fjárhæð af reikningnum, ýmist með peningum eða tékkum. Í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar er rakið að stefndi, sem er hæstaréttarlögmaður og bókhaldsskyldur samkvæmt lögum nr. 145/1994 um bókhald, sbr. áður lög nr. 51/1968, beri að gera skýra grein fyrir meðferð þeirra fjármuna áfrýjanda, sem um er að ræða, þar á meðal greiðslum til hans sjálfs. Var komist að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi ekki fullnægt nægilega þeirri skyldu sinni með uppgjörsblaðinu 10. júlí 1992, þótt áfrýjandi hafi sjálfur ritað nafn sitt á skjalið. Þá segir í dóminum að gera verði ráð fyrir því að greiðslur samkvæmt því skjali hafi átt sér stað fyrir atbeina banka, að minnsta kosti að meginstefnu til, en stefndi hafi ekki gert sennilega grein fyrir því hvers vegna hann geti ekki framvísað einstökum gögnum er staðfesti sundurliðun greiðslna samkvæmt uppgjörsblaðinu.
III.
Að gegnum dómi Hæstaréttar óskaði áfrýjandi eftir afhendingu þeirra gagna sem dómurinn tók til. Stefndi svaraði því þá hins vegar svo til að umbeðin gögn væru ekki til staðar. Er því nú haldið fram af hálfu stefnda að umræddar greiðslur hafi ekki verið greiddar áfrýjanda, eins og ráða mátti af framangreindum framburði hans fyrir dómi. Hafi hann ráðstafað þeim í þágu áfrýjanda þannig að 1.300.000 krónur hafi farið til Sverris Hermannssonar, sem rekið hafi Eignaskrifstofuna, vegna aðstoðar Sverris við áfrýjanda. Einnig hafi 2.000.000 króna verið varið til kaupa á kröfu sem notuð hafi verið til skuldajöfnuðar við kröfu á hendur áfrýjanda, án þess að gögn hafi verið sýnd áfrýjanda því til sönnunar þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir hans þar um. Vegna mótmæla áfrýjanda hafnaði héraðsdómur framlagningu gagna frá stefnda til stuðnings fullyrðingum hans um umræddan skuldajöfnuð á þeim grunni að stefndi hefði áður lýst gagnaöflun lokið. Eigi að síður verður héraðsdómur ekki öðruvísi skilinn en svo að hann reisi niðurstöðu sína að hluta til á gögnum þessum. Stefndi vísaði til þess í greinargerð sinni í héraði að hann hefði þegar gefið fullnægjandi skýringar á ráðstöfun fjárins, en hélt því fram við upphaf aðalmeðferðar að hann hefði ekki haft undir höndum gögn um skuldajöfnuðinn fyrr en vitnið Valdimar Steinþórsson, fyrrum meðeigandi áfrýjanda að Hlunnum hf., hafi afhent sé þau. Staðfesti Valdimar fyrir dómi að hann hefði haft gögnin undir höndum.
Eins og að framan greinir kveðst stefndi hafa ráðstafað 2.000.000 króna af fé áfrýjanda til kaupa á kröfu sem notuð hafi verið til skuldajöfnuðar við leiguskuld Hlunna hf. sem áfrýjandi hafi verið ábyrgðarmaður að. Til stuðnings fullyrðingu sinni lagði stefndi fram ljósrit af skuldabréfi, útgefnu af Pólaris hf. 6. desember 1988 til Álstoðar hf. upphaflega að fjárhæð 3.000.000 krónur, framseldu til stefnda 9. maí 1991. Þá lagði hann fram yfirlit um stöðu kröfunnar 27. október 1992, að fjárhæð 7.976.147 krónur að meðtöldum vöxtum og kostnaði, þar sem fram kemur að stefndi sé kröfuhafi samkvæmt bréfinu sem gjaldfellt hafi verið 1. júní 1989. Jafnframt lagði stefndi fram óundirrituð yfirlit frá 29. október 1992 frá tilgreindum lögmanni þar sem fram kemur skuld Hlunna hf. við Pólaris hf. vegna húsaleigu. Annars vegar á 1.216.565 krónum að meðtöldum vöxtum og kostnaði, vegna leigu fyrir mars til maí 1990 en hins vegar samkvæmt dómi 3.266.866 krónur að meðtöldum vöxtum og kostnaði, vegna leigu febrúar til maí 1991. Er áfrýjandi tilgreindur sem meðskuldari síðarnefndu kröfunnar. Á framangreind gögn hefur stefndi ritað að skuldabréfið hafi verið notað til greiðslu á umræddri húsaleiguskuld. Áðurnefndur Valdimar Steinþórsson bar fyrir héraðsdómi að dæmd krafa á hendur Hlunnum hf. vegna húsaleigu hafi verið látin mæta kröfu samkvæmt umræddu skuldabréfi. Ekki kvaðst vitnið þó hafa komið sjálfur að þeim viðskiptum og gat ekkert frekar um þau sagt. Ekki liggja fyrir gögn um við hvaða verði umrædd krafa var keypt.
Stefnda bar eins og áður segir að gera skýra grein fyrir meðferð þeirra fjármuna áfrýjanda, sem um er að ræða og hann hafði í vörslum sínum. Það gerði stefndi ekki þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir áfrýjanda og dóm Hæstaréttar þar um. Ber stefndi sönnunarbyrði fyrir því hvernig fénu var ráðstafað og að sú ráðstöfun hafi verið með samþykki áfrýjanda. Með hliðsjón af misvísandi skýringum stefnda verður hvorki litið svo á að honum hafi með framlagningu framangreindra gagna tekist sönnun um ráðstöfun fjármunanna né samþykki áfrýjanda á slíkri ráðstöfun.
Samkvæmt skriflegu samkomulagi áfrýjanda og Sverris Hermannssonar fyrir hönd Eignaskrifstofunnar 27. apríl 1992 skyldi Sverrir taka að sér fyrir áfrýjanda „að greiða úr deilum og flækjum um kaup og sölu Borgartúns 32“ er varðaði áfrýjanda. Segir meðal annars í samkomulaginu: „Fyrir þetta greiðir Ragnar Sverri kr. 300.000,- , ef tilraunir mistakast og Ragnar verði í sömu sporum og hann er í dag. Ragnar greiðir Sverri kr. 1.300.000,- ef árangur næst þar sem viðurkennt verði afsal til Ragnars á Borgartúni 32 með aðgengilegum hætti fyrir Ragnar.“ Hefur stefndi haldið fram að Sverrir hafi fengið að fullu greitt samkvæmt ofangreindu samkomulagi. Í því sambandi vísar stefndi til ódagsettrar yfirlýsingar Sverris þess efnis að áfrýjandi hafi greitt honum vegna Eignaskrifstofunnar 1.300.000 krónur í tvennu lagi í maí 1992, 300.000 krónur og 1.000.000 krónur.
Samkvæmt framangreindu samkomulagi féllst áfrýjandi sjálfur án skilyrða á greiðslu 300.000 króna til Sverris, en telja verður upplýst að þeir peningar voru teknir af þeim 5.151.830 krónum sem áfrýjandi afhenti stefnda. Verður stefndi því sýknaður af þeim hluta kröfu áfrýjanda. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram hjá stefnda að Sverrir hefði sérstaklega gefið út hina ódagsettu yfirlýsingu í tilefni þessa máls en Sverrir gaf ekki skýrslu fyrir dómi. Gegn mótmælum áfrýjanda telst samkvæmt framanrituðu hvorki upplýst að Sverrir hafi innt það verk af hendi sem um ræðir né sannað með þessu skjali einu saman að áfrýjandi hafi tekið við umræddum peningum úr hendi stefnda og afhent Sverri.
Þá hefur stefndi borið því við að krafa áfrýjanda á hendur honum sé fyrnd, en að því frágengnu verði að líta svo á að hún sé fallin niður vegna tómlætis áfrýjanda. Krafa áfrýjanda fyrnist á 10 árum samkvæmt 2. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Miðast upphaf fyrningarfrests við 10. júlí 1992 er áfrýjandi fékk framangreint uppgjörsblað frá stefnda. Fyrning kröfunnar var rofin með stefnu birtri 8. júlí 2002 í máli þar sem gerðar voru sömu kröfur á hendur stefnda og í þessu máli. Það mál var fellt niður 24. febrúar 2003, en áfrýjandi höfðaði nýtt mál innan sex mánaða frá þeim degi með birtingu stefnu 9. maí 2003, sem var innan frests samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 14/1905. Þegar litið er til gagna málsins sést að áfrýjandi hefur margítrekað óskað eftir greiðslum og fullnægjandi upplýsingum og gögnum frá stefnda varðandi uppgjör þeirra, en án árangurs. Verður því ekki talið að hann hafi sýnt af sér tómlæti þannig að áhrif hafi á niðurstöðu málsins. Hins vegar verður ekki talið að 7. gr. laga nr. 14/1905 eigi við um kröfu áfrýjanda og eru því áfallnir vextir fyrir 8. júlí 1998 fyrndir.
Samkvæmt öllu framanrituðu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 3.000.000 króna með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði frá 8. júlí 1998 til greiðsludags.
Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, Jón Gunnar Zoëga, greiði áfrýjanda, Ragnari Þ. Guðmundssyni, 3.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. júlí 1998 til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 27. október sl., er höfðað 9. maí 2003 af Ragnari Þ. Guðmundssyni, kt. [...], Skólavörðustíg 12, Reykjavík, á hendur Jóni G. Zoëga, kt. [...], Reynimel 29, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 3.300.000 krónur auk vanskilavaxta samkvæmt 10. gr., sbr. 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. júlí 1992 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar að skaðlausu. Í stefnu kveðst stefnandi höfða málið til vara á hendur stefnda fyrir hönd þrotabús Ragnars Þ. Guðmundssonar. Engar athugasemdir hafa komið fram varðandi aðild stefnanda að málinu. Fram hefur komið að bú stefnanda var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 26. júní 1995 og að skiptum var lokið 6. mars 1996.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti. Í greinargerð stefnda var þess krafist að málinu yrði vísað frá dómi, en fallið var frá þeirri kröfu í þinghaldi 16. október sl.
Þingsókn féll niður af stefnda hálfu 29. mars sl. og var málið dæmt samkvæmt 3. mgr. 96. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 hinn 6. maí sl. Málið var endurupptekið að beiðni stefnda 30. júní sl. og verður það nú dæmt samkvæmt XXIII. kafla sömu laga.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Óumdeilt er að stefndi tók við fjármunum stefnanda á árinu 1992 að fjárhæð 5.551.830 krónur, þar á meðal 5.151.830 krónum sem voru vegna fasteignaviðskipta stefnanda. Málsaðilar eru sammála um að stefndi hafi gert þetta í því skyni að veita stefnanda aðstoð í fjármálum hans, en stefnandi átti á þeim tíma í nokkrum erfiðleikum í því sambandi. Stefndi heldur því fram að greiðslur hafi svo runnið aftur til stefnanda á tímabilinu frá 30. apríl til 10. júlí 1992 samkvæmt sundurliðun sem stefnandi hafi kvittað fyrir síðarnefnda daginn. Daginn áður, 9. júlí 1992, hafði stefnandi krafist uppgjörs en hann heldur því fram að stefndi hafi sagt honum að kvitta á uppgjörsblaðið og það hafi hann gert án þess að hann fengi að sjá gögn um greiðslur sem fram komi á blaðinu.
Á framangreindu uppgjörsblaði kemur fram að það sé lokauppgjör vegna stefnanda en mótteknir peningar frá honum hafi verið vegna frágangs á Þingholtsstræti og Laugavegi að fjárhæð 5.151.830 krónur og greiðsla frá Herluf Clausen 18. júní 1992 að fjárhæð 400.000 krónur. Á móti eru taldar greiðslur til stefnanda, samtals sömu fjárhæðar, þar með talinn mismunur, 250.068 krónur, en óumdeilt er að stefnandi fékk þá fjárhæð hjá stefnda þegar hann fékk uppgjörið. Einnig er óumdeilt að hann fékk allar aðrar greiðslur, sem fram koma á uppgjörsblaðinu, aðrar en þær sem deilt er um í málinu, en þær eru samtals að fjárhæð 3.300.000 krónur.
Stefnandi kveðst ítrekað hafa gengið eftir að fá undirgögn og skjöl frá stefnda til að hann gæti staðreynt greiðslurnar, sem talið er á uppgjörsblaðinu að hann hafi fengið, en ekki fengið nein svör. Stefnandi höfðaði mál á hendur stefnda 14. júlí 1997 þar sem hann krafðist þess meðal annars að stefndi yrði dæmdur til að láta honum í té tiltekin gögn. Með dómi héraðsdóms 25. mars 1998 voru kröfur stefnanda að hluta til teknar til greina. Stefndi áfrýjaði dóminum en með dómi Hæstaréttar 29. apríl 1999 var stefnda gert að láta stefnanda í té fylgiskjöl úr bókhaldi sínu um eftirtaldar greiðslur samkvæmt lokauppgjörinu frá 10. júlí 1992: Greiðslu á 300.000 krónum 4. maí 1992, greiðslu á 1.000.000 króna 12. maí sama ár, greiðslu á 400.000 krónum 18. maí s.á. og greiðslu á 2.000.000 króna 29. (sic.) júní s.á. Stefnandi hefur leitað eftir því að fá umrædd gögn úr bókhaldi stefnda en stefndi kveðst ekki hafa fært umræddar greiðslur í bókhald sitt enda hafi hann tekið að sér að aðstoða stefnanda í vandræðum hans vegna vináttu þeirra en ekki sem lögmaður. Greiðslur komi því aðeins fram á viðskiptaspjaldi en ekki í bókhaldi stefnda.
Í máli þessu telur stefnandi að stefndi hafi ekki staðið honum skil á þremur af ofantöldum greiðslum, þ.e. 300.000 krónum 4. maí, 1.000.000 króna 12. maí og 2.000.000 króna 20. júní, samtals 3.300.000 krónum. Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi fengið þessar greiðslur og kvittað fyrir þeim. Enn fremur heldur stefndi því fram að krafa stefnanda sé fyrnd en því er mótmælt af hálfu stefnanda.
Skriflegri gagnaöflun var lýst lokið í málinu 7. nóvember 2003. Við upphaf aðalmeðferðar 27. október sl. óskaði stefndi eftir því að fá að leggja fram gögn sem hann taldi varða greiðslu til stefnanda 20. júní 1992 að fjárhæð 2.000.000 króna. Stefnandi mótmælti því að gögnin fengju að komast að í málinu þar sem það raskaði grundvelli þess. Dómarinn hafnaði því að stefndi fengi að leggja gögnin fram með vísan til þess að skriflegri gagnaöflun hefði verið lýst lokið og ekki var fallist á að gögnin hefðu þýðingu fyrir úrlausn málsins.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Af stefnanda hálfu er því haldið fram að stefndi hafi tekið að sér ýmis lögmannsstörf fyrir stefnanda og fyrirtæki sem hann hafi tengst, m.a. Hlunna ehf. Stefnandi hafi fengið stefnda fé í hendur á árinu 1992, þar á meðal 5.151.800 krónur 2. apríl og 400.000 krónur 18. júní. Á þeim tíma hafi fjárhagur stefnanda staðið á heljarþröm og hafi átt að nota þessa peninga, sem fengist hafi úr fasteignaviðskiptum, til að semja við lánardrottna um greiðslu hluta krafna og forða stefnanda þannig frá gjaldþroti. Stefnandi hafi verið illa í stakk búinn til að sjá um fjármál sín. Hann hafi því fengið stefnda til að sjá um þau, en hann hafi lítið fylgst með þeim sjálfur enda hafi hann treyst stefnda fullkomlega. Öðru hvoru hafi hann þó spurt stefnda um gang mála, en hann hafi ekki fengið viðhlítandi svör. Hann hafi krafið stefnda um uppgjör 9. júlí 1992 og hafi þeir hist daginn eftir til að ræða málin. Á fundinum hafi stefndi afhent stefnanda uppgjör á framangreindum fjárhæðum. Stefndi hafi tjáð stefnanda að hann hefði ráðstafað öllum fjármununum í hans þágu, öðrum en 250.068 krónum. Skyldi hann kvitta undir og fara svo fram og sjá öll gögn um það. Stefnandi hafi í barnaskap undirritað uppgjörið og farið síðan fram til að sjá gögnin en þar hafi ekkert verið að sjá. Stefnandi hafi gengið fast eftir þessu við stefnda en engin svör fengið. Stefndi hefði getað sannreynt að uppgjörið væri rétt, þar sem greiðslur stefnanda hefðu verið lagðar inn á tékkareikning stefnda og þar með hefði mátt rekja allar færslurnar út af honum. Slíkra gagna hefði mátt afla hjá banka. Stefndi sé bókhaldsskyldur og hafi ríkari skyldur en ella við að halda utan um fé skjólstæðinga sinna sem lögmaður. Stefnandi hafi beðið um undirgögn og nákvæmar skilagreinar, enda eigi hann skýlausan rétt til að sjá þau til að sannreyna uppgjör.
Bú stefnanda hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 28. ágúst 1995. Við það hafi stefnandi misst forræði á því og hafi hann verið fjárhagslega illa í stakk búinn að hafa lögmann í vinnu við að ná fram uppgjöri við stefnda. Þar sem stefndi hafi þverneitað að veita upplýsingar og gögn hafi málinu verið vísað til dómstóla með stefnu þingfestri 4. september 1997. Þess hafi verið krafist að stefndi léti í té tilteknar skilagreinar, upplýsingar og gögn. Með dómi héraðsdóms 25. mars 1998 hafi verið lagt fyrir stefnda að láta stefnanda í té fylgiskjöl úr bókhaldi sínu vegna greiðslna stefnda til stefnanda samkvæmt lokauppgjöri 10. júlí 1992. Stefndi hafi áfrýjað málinu til Hæstaréttar og með dómi réttarins hafi stefnda verið gert að láta stefnanda í té fylgiskjöl úr bókhaldi sínu um eftirfarandi greiðslur til stefnda samkvæmt sama lokauppgjöri: Greiðslu á 300.000 krónum 4. maí 1992, greiðslu á 1.000.000 króna 12. maí s.á., greiðslu á 400.000 krónum 18. maí s.á. og greiðslu á 2.000.000 króna 29. (sic.) júní s.á.
Þegar stefndi hafi gefið aðilaskýrslu í héraði í ofangreindu máli 9. febrúar 1998 hafi hann lýst því yfir skýrt og skorinort að hann hefði afhent stefnanda umrædda fjármuni í peningum eða tékkum og aldrei neinum öðrum. Eftirtalin atriði í niðurstöðu Hæstaréttar hafi sönnunargildi í málinu samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála. Í fyrsta lagi að stefnda sé unnt að veita umkrafðar upplýsingar. Í öðru lagi hafi þeirri málsástæðu verið hafnað að um vinargreiða hafi verið að ræða, en hún hafi verið talin of seint fram komin og tekið sé fram að hún þyki "með nokkrum ólíkindum." Í þriðja lagi beri stefnda að gera grein fyrir meðferð fjármunanna samkvæmt ákvæðum þágildandi bókhaldslaga, en hann hafi ekki fullnægt þeirri skyldu nægilega. Með dómi Hæstaréttar hafi héraðsdómurinn verið staðfestur með skírskotun til forsendna að öðru leyti, en í þeim komi fram að auk laga um bókhald verði að líta til 3. mgr. 14. gr. Codex Ethicus fyrir Lögmannafélag Íslands, en skilagreinin sem gerð var leysi stefnda ekki undan skyldum sínum til að gera skilmerkilega grein fyrir ráðstöfun fjármunanna.
Eftir að dómur Hæstaréttar féll hafi ekki bólað á neinum tilburðum stefnda til að fullnægja ákvæðum hans. Fundir hafi verið haldnir en á þeim tíma hafi stefndi gjörsamlega snúið við blaðinu og sagt, þvert á það sem hann hafi sagt fyrir dómi, að 1.300.000 krónur hefðu verið greiddar Sverri Hermannssyni og 2.000.000 króna hafi verið notaðar til einhverra kröfukaupa sem hafi verið notaðar til skuldajöfnunar. Engin ummerki eða gögn hafi komið fram um að staðhæfingar þessar væru réttar. Hinar nýju staðhæfingar stefnda og yfirlýsingar hans áður fyrir dómi geti ekki báðar verið sannar. Viðsnúningur þessi styðji enn frekar þá sannfæringu stefnanda að komi sannleikurinn í ljós verði hann sá að greiðslur þessar hafi aldrei verið inntar af hendi. Stefnandi hafi höfðað málið til að heimta þessa fjármuni úr höndum stefnda, en stefndi haldi fram að hann hafi skilað stefnanda þeim í ávísun eða peningum án þess að gera næga grein fyrir því með viðhlítandi gögnum.
Krafa stefnanda sé byggð á því að hann sé vanhaldinn um 3.300.000 krónur sem stefndi hafi ekki staðið honum skil á, en stefndi hafi tekið við greiðslum að fjárhæð 5.551.830 krónur. Stefnandi vísi í því sambandi til uppgjörsins frá 1992. Krafan sé eftirfarandi:
4. maí 1992 300.000 krónur
12. “ “ 1.000.000 “
20. júní “ 2.000.000 “
Samtals 3.300.000 krónur.
Málið hafi verið höfðað þar sem stefndi hafi ekki staðið skil á þessum fjármunum eins og honum hafi borið að gera samkvæmt lögum og réttarsambandi aðilanna. Stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi skilað umræddum fjármunum í ávísunum eða peningum. Sannað sé að stefndi hafi móttekið peninga stefnanda, að þeir hafi verið lagðir inn á bankareikning stefnda og að stefnda beri samkvæmt bókhaldslögum og Codex Ethicus að sýna með gögnum hver ráðstöfun fjárins hafi verið, en það hafi hann ekki gert þrátt fyrir dóm Hæstaréttar þar um. Hæstiréttur hafi staðhæft að stefndi geti orðið við þessu og að honum sé það skylt sem lögmanni. Stefndi hafi orðið tvísaga um það hvað hafi orðið um fjármunina. Auk þess liggi fyrir að hægt sé að fá útskriftir úr banka og fylgiskjöl á bak við bankafærslur. Framangreint gefi staðhæfingum stefnanda, um að hann sé vanhaldinn um greiðslurnar, byr undir báða vængi, enda engin frambærileg skýring önnur á því að stefndi vilji frekar óhlýðnast dómi Hæstaréttar en veita umbeðnar upplýsingar og að hann sé tvísaga um afdrif fjármunanna. Mál þetta sé rekið á þeim grundvelli að stefndi hafi ekki skilað stefnanda umræddum greiðslum í peningum eða tékkum eins og stefndi haldi fram. Ekki sé byggt á því að stefndi hafi greitt þessa fjármuni með öðrum hætti enda haldi stefndi því ekki fram í málinu.
Stefnandi telji undirritun sína á umrætt uppgjör léttvæga í ljósi framanritaðs, enda taki ákvæði 2. mgr. 50. gr. laga um meðferð einkamála til þess að skýra verði hinar óljósu og þversagnakenndu staðhæfingar stefnda á þann hátt sem stefnanda sé hagfelldast. Þar sem stefndi hafi neitað að hlýða lögum og dómi um að afhenda upplýsingar geri það sjónarmið hans tortryggileg og hljóti sönnunarbyrðin fyrir því að stefndi hafi skilað stefnanda umræddum greiðslum að hvíla á honum.
Stefnandi vísi til þess að hér sé um að ræða vörslufé, sem sé undirorpið eignarétti, og geti því ekki hafa fyrnst, allt fram til þess dags að uppgjörs var krafist 9. júlí 1992. Innan hæfilegs tíma þaðan í frá hafi krafan gjaldfallið og sé rétt að miða upphaf fyrningarfrests við 10. júlí sama ár þegar stefndi hafi lagt fram uppgjör. Um þetta vísist m.a. til meginreglna vaxtalaga og Hæstaréttardóms 1996:2482.
Vextir séu ófyrndir, en samkvæmt 2. mgr. 3. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905 fyrnist vextir á fjórum árum. Af 7. gr. laganna leiði hins vegar að vextir af kröfu stefnanda séu ófyrndir, enda hafi stefndi ekki skýrt frá þeim atvikum, sem krafan hafi getað byggst á, þrátt fyrir að hann hafi verið dæmdur til þess.
Á sama hátt sé höfuðstóllinn ófyrndur enda hafi stefnda borið að halda vörslufé stefnanda aðgreindu frá eigin fé. Krafa þessi geti því aldrei fyrnst. Fyrningarfrestur teljist frá gjalddaga, sbr. 1. mgr. 5. gr. fyrningarlaga. Samkvæmt framangreindum dómi Hæstaréttar frá 1996 hafi krafan ekki getað byrjað að fyrnast fyrr en 10. júlí 1992 í allra fyrsta lagi. Mál út af þessu sakarefni hafi verið höfðað með birtingu stefnu 8. júlí 2002, eða innan 10 ára frá því að krafan hafi gjaldfallið, en krafan geti ekki fyrnst á skemmri tíma en 10 árum, sbr. 2. mgr. 4. gr. fyrningarlaga. Málið hafi fallið niður vegna útivistar af hálfu stefnanda 24. febrúar sl. og sé nú höfðað innan sex mánaða frá því að það féll niður, sbr. 11. gr. fyrningarlaga. Stefndi haldi því fram að um sé að ræða endurgreiðslukröfu sem fyrnist á fjórum árum samkvæmt 3. gr. fyrningarlaga. Það ákvæði eigi ekki við hér, en það fjalli um endurgreiðslukröfur milli ábyrgðarmanna og endurgreiðslu ofgoldins fjár og þess háttar. Stefndi geti ekki neitað að skila fé stefnanda og borið svo fyrir sig fyrningu.
Um lagarök sé vísað til reglunnar um skuldbindingargildi loforða, reglna um vernd eignaréttar þar sem um vörslufé sé að ræða og til meginreglna lögmannalaga og siðareglna lögmanna um að lögmanni beri að standa skjólstæðingum skil á fé þeirra, auk almennra reglna, sem gildi um meðferð vörslufjár, og til réttar eiganda yfir fé sínu. Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, sérstaklega 129. gr. og 130. gr. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og þurfi því aðfararhæfan dóm fyrir skattinum.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi vísi til þess að hann hafi aðstoðað stefnanda á árinu 1992 við ýmis verkefni, aðallega við fjármál hans og fyrirtækis hans, Hlunna ehf. Á sama ári hafi farið fram lokauppgjör milli aðila þar sem fullnægjandi skýringar á greiðslum fyrir 5.551.830 krónum hafi verið lagðar fram, sem stefnandi hafi skrifað undir. Hann hafi um leið móttekið greiðslu að fjárhæð 250.068 krónur og hann hafi jafnframt móttekið öll fylgigögn. Engin óuppgerð mál séu á milli aðila, eins og undirritun stefnanda á lokauppgjörinu frá 10. júlí 1992 beri með sér. Stefndi hafi þann dag verið búinn að greiða stefnanda allt sem hann hafi átt hjá honum. Stefnandi hafi tíu árum síðar krafist greiðslu á því sem þegar hefði verið greitt samkvæmt uppgjörinu. Þar sé um algert tómlæti af stefnanda hálfu að ræða en stefndi hafi mátt ætla að fyrir 11 árum hefði málið verið uppgert.
Í málinu sé krafið um peningagreiðslu sem stefnandi eigi ekkert tilkall til. Lögmaður stefnanda hafi fengið fullan og ótakmarkaðan aðgang að bókhaldi stefnda. Hann hafi einnig fengið fullnægjandi upplýsingar um það með hvaða hætti stefnandi hafi ráðstafað því fé sem hann hafi tekið við og krefjist nú greiðslu á. Stefndi hafi aðstoðað stefnanda í greiðaskyni og án nokkurrar kröfu um endurgjald. Stefndi mótmæli því að hann hafi í því tilviki sem hér um ræði unnið fyrir stefnanda sem lögmaður. Þeir hafi unnið að því að greiða úr málum stefnanda í sameiningu og greiðslur, sem hafi runnið til stefnanda af fénu, sem stefndi hafði móttekið, hafi allar verið inntar af hendi í samráði við stefnanda og að hans beiðni. Hann mótmæli því að hann hafi átt að forða stefnanda frá gjaldþroti en ekkert slíkt hafi verið komið upp þá. Stefndi hafi hins vegar hjálpað stefnanda við persónuleg vandamál hans. Aðstoð stefnda við stefnanda hafi ekki verið færð í bækur stefnda öðruvísi en samkvæmt viðskiptaspjaldi, en þar komi fram sömu upplýsingar og á uppgjörsblaðinu sem stefnandi kvittaði á 10. júlí 1992. Stefndi hafi verið dæmdur í Hæstarétti til að afhenda stefnanda nokkrar kvittanir úr bókhaldi sínu, sem honum væri ómögulegt að gera þar sem stefnandi hefði þá þegar fengið þær afhentar, en þær hefðu aldrei í bókhald stefnda farið.
Við munnlegan málflutning vísaði stefndi til samkomulags Sverris Hermannssonar og stefnanda frá 27. apríl 1992 þar sem fram komi að Sverrir taki að sér að greiða úr deilum og flækjum um kaup og sölu á Borgartúni 32 og uppgjörs við Húsatryggingar Reykjavíkur. Fyrir þetta skyldi stefnandi greiða Sverri 300.000 krónur ef tilraunir mistækjust, en 1.300.000 krónur ef árangur næðist og viðurkennt yrði afsal til stefnanda vegna fasteignarinnar. Stefndi haldi því fram að Sverri hafi verið greitt vegna þessa samkvæmt fyrirmælum stefnanda af fjármunum hans 300.000 krónur 4. maí sama ár og 1.000.000 króna 12. sama mánaðar. Einnig vísaði stefndi til þess að með bréfi lögmanns stefnanda 1. febrúar 1995 hafi verið skorað á hann að leggja fram gögn vegna greiðslu að fjárhæð 2.000.000 króna 20. júní 1992, þar með talið ljósrit af skuldabréfi. Stefnandi hafi hins vegar neitað því í þinghaldinu 27. október 2004 að gögn þessi kæmust að í málinu. Valdimar Steinþórsson hafi skýrt þetta fyrir dóminum og sagt að tveimur milljónum króna hafi verið varið til að kaupa skuldabréf þar sem stefnandi hafi verið í ábyrgð.
Að öðru leyti sé stefnda fyrirmunað að tjá sig um málsatvik þar sem grundvöllur málshöfðunar sé óskýr og án nokkurra frekari tilgreininga um einstök atriði sem snerti krafðar greiðslur. Stefndi hafi enga möguleika á að gera sér grein fyrir á hverju mál þetta sé byggt eins og málatilbúnaði stefnanda sé háttað, en í stefnu sé um málavexti og málsástæður aðallega vísað til fyrra dóms í lögskiptum aðila sem varði ekki fjárkröfuna sem hér sé deilt um.
Allar kröfur stefnanda, er byggðust á móttöku 5.551.800 króna, séu í öllu falli fyrndar, en endurgreiðslukröfur fyrnist á 4 árum og skaðabótakröfur á 10 árum. Í báðum tilvikum séu kröfur stefnanda fyrndar, en málið sé ekki rekið sem skaðabótamál. Vísað sé til 3. gr., sbr. 4. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905. Upphaf fyrningar sé í síðasta lagi við móttöku uppgjörs frá stefnda og dómur í Hæstaréttarmálinu rjúfi ekki fyrningarfrestinn þar sem hann varði ekki þessa fjárkröfu.
Niðurstaða
Krafa stefnanda í málinu er byggð á því að stefndi hafi ekki staðið honum skil á 3.300.000 krónum af 5.551.830 króna greiðslum til stefnanda sem stefndi hafi tekið við. Stefnandi kveðst reka málið á þeim grundvelli að stefndi hafi sjálfur lýst því yfir fyrir dómi í öðru máli milli málsaðila að hann hafi staðið stefnanda skil á fénu, sem hér er deilt um, með því að afhenda stefnanda það í peningum eða tékkum en það hafi stefndi ekki gert. Framburður stefnda fyrir dómi í málinu sem stefnandi vísar þarna til getur ekki talist bindandi málflutningsyfirlýsing af stefnda hálfu í þessu máli varðandi uppgjörið frá 10. júlí 1992. Leyst verður úr málinu eins og endranær á grundvelli málsástæðna sem fram hafa verið færðar af hálfu málsaðila. Málsástæðum stefnda er lýst í greinargerð hans og þær voru útskýrðar nánar undir rekstri málsins. Byggt er á því að stefndi hafi þegar staðið stefnanda skil á fjármunum sem stefnandi krefst úr hans hendi í málinu. Stefndi hafi látið stefnanda í té lokauppgjör 10. júlí 1992 sem stefnandi hafi sjálfur skrifað undir. Stefndi hafi veitt lögmanni stefnanda fullnægjandi upplýsingar um það með hvaða hætti umræddu fé stefnanda hafi verið ráðstafað. Stefndi kveðst hafa reynt að afla gagna um þessar greiðslur og hafi það tekist að svo miklu leyti sem þau séu fyrir hendi, hefðu ekki þegar verið afhent stefnanda eða hefðu fengið að komast að í málinu.
Í bréfi lögmanns stefnanda til lögmanns stefnda 25. nóvember 1999 kemur fram að stefndi hafi látið lögmanni stefnanda í té ódagsetta yfirlýsingu Sverris Hermannssonar þess efnis að stefnandi hafi greitt Sverri vegna Eignaskrifstofunnar 1.300.000 krónur í tvennu lagi í maí 1992 og að Sverrir hafi gefið stefnanda kvittun fyrir að hafa móttekið þessar greiðslur. Í yfirlýsingunni kemur fram að greiðslurnar hafi verið vegna samkomulags frá apríl 1992. Staðfesting Sverris á að hafa gefið stefnanda slíka kvittun hefur verið lögð fram í málinu svo og umrætt samkomulag, sem er dagsett 27. apríl 1992, undirritað af Sverri og stefnanda. Yfirlýsingunni hefur verið mótmælt sem rangri og óstaðfestri af hálfu stefnanda, en stefndi kvaðst ekki hafa getað fengið Sverri til skýrslugjafar fyrir dóminn þar sem hann búi nú í Bandaríkjunum. Samkomulaginu frá 27. apríl er hins vegar ómótmælt af hálfu stefnda, en í ofangreindu bréfi lögmanns stefnanda 25. nóvember 1999 kemur þó fram að greiðsla til Sverris, að fjárhæð 1.000.000 króna, hafi verið óheimil. Einnig kemur fram í bréfinu að stefndi hafi veitt stefnanda þá skýringu varðandi greiðslu 20. júní 1992 að fjárhæð 2.000.000 króna, að þeir fjármunir hafi verið notaðir til kröfukaupa og að sú krafa hafi verið notuð til að skuldajafna á móti annarri kröfu er beindist að stefnanda. Lögmaðurinn tekur fram í bréfinu að hann hafni þessari skýringu en hún sé engum gögnum studd. Óheimilt hafi verið að ráðstafa fjármunum stefnanda með þessum hætti. Við upphaf aðalmeðferðar málsins 27. október sl. óskaði stefndi eftir því að fá að leggja fram gögn þessu viðkomandi, en stefnandi andmælti því að þau kæmust að í málinu og var kröfu stefnda um að leggja þau fram hafnað, eins og áður er fram komið.
Staðhæfingar stefnanda um að fjármuni hans, sem stefndi hafði fengið í hendur og hér er deilt um, hafi átt að nota til að semja við lánardrottna um greiðslu hluta krafna og forða stefnanda þannig frá gjaldþroti eru engum gögnum studdar en stefndi hefur mótmælt því að stefnandi hafi falið honum að forða stefnanda frá gjaldþroti. Þegar litið er að öðru leyti til þess sem fram hefur komið í málinu verður að telja óljóst hvað það var nákvæmlega sem stefnandi fól stefnda að gera með því að fela honum vörslur þessara fjármuna. Við það verður þó að miða að samkomulag hafi verið um að stefndi veitti stefnanda aðstoð við að greiða úr vandamálum í sambandi við fjármál stefnanda. Stefndi heldur því fram að allar greiðslur, sem taldar eru á uppgjörsblaðinu frá 10. júlí 1992, hafi verið inntar af hendi í samráði við stefnanda og að hans beiðni. Skýringar stefnda á umræddum greiðslum hafa verið óljósar og stefnandi virðist hafa haft af því mikla fyrirhöfn að fá þær og viðeigandi gögn í hendur frá stefnda þrátt fyrir ótvíræðar skyldur stefnda í þeim efnum. Þessi málsatvik verða þó ekki túlkuð þannig að stefndi hafi ráðstafað umræddum fjármunum stefnanda á annan hátt en með greiðslum til stefnanda, þar á meðal þannig að greiða kröfur á hendur stefnanda. Hér verður einnig að líta til þess hve langur tími leið frá atvikum, er dómkrafa stefnanda er í meginatriðum byggð á, þar til hann höfðaði mál á hendur stefnda til innheimtu kröfunnar, en tafirnar verða ekki eingöngu raktar til tafa á því að stefnandi fengi viðhlítandi gögn og skýringar frá stefnda. Stefndi hefur hér fyrir dóminum leitast við að útskýra hvers vegna gögn hafi ekki komið fram. Hann hefur einnig vísað til þess að þegar honum hafi loks tekist að afla viðeigandi gagna hafi stefnandi komið í veg fyrir að þau yrðu lögð fram þar sem það raskaði grundvelli málsins.
Þegar virt eru þau atriði sem hér hafa verið rakin verður að leggja sönnunarbyrðina á stefnanda fyrir því að stefndi hafi ekki staðið honum skil á hinum umdeildu greiðslum. Þar sem staðhæfing stefnanda um það þykir ekki studd nægilegum gögnum verður að telja hana ósannaða. Kröfu stefnanda í málinu, sem byggð er á þessu, skortir því lagastoð og ber með vísan til þess að sýkna stefnda af henni.
Samkvæmt 3. mgr. 141. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn í einu lagi vegna málsins í heild 300.000 krónur.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Jón G. Zoëga, skal sýkn vera af kröfum stefnanda, Ragnars Þ. Guðmundssonar, í máli þessu.
Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.