Hæstiréttur íslands
Mál nr. 100/2015
Lykilorð
- Lánssamningur
- Aðild
- Sjálfskuldarábyrgð
- Vextir
- Ógilding samnings
|
|
Fimmtudaginn 19. nóvember 2015. |
|
Nr. 100/2015.
|
Þuríður Kristín Halldórsdóttir (sjálf) gegn Timothy John Thexton (Heiðar Ásberg Atlason hrl.) |
Lánssamningur. Aðild. Sjálfskuldarábyrgð. Vextir. Ógilding samnings.
T höfðaði mál þetta til heimtu skuldar á grundvelli lánssamnings frá árinu 2009 milli A, sem lánveitanda, og Þ og V, sem lántaka. Talið var að um gilt framsal kröfu hefði verið að ræða þegar A framseldi T árið 2013 rétt sinn til greiðslu samkvæmt samningnum og því væri T réttur aðili málsins til sóknar. Þá væri Þ réttur aðili til varnar þar sem ljóst væri að hún hefði samþykkt ásamt V með undirritun sinni á samninginn að þær bæru óskipta ábyrgð á endurgreiðslu lánsins og að til þeirra skyldi vísað sem lántaka. Fyrir lá að fjárhæð lánsins samkvæmt samningnum var 60.000 bandaríkjadalir og að lánið skyldi endurgreitt í síðasta lagi þremur vikum síðar með 124.000 bandaríkjadölum. Með hliðsjón af almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og athugasemdum við 2. gr. þeirra var talið að þótt aðilum lánssamnings væri í sjálfsvald sett að semja um vexti eða annað endurgjald sem áskilið væri eða tekið fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar væri því samningsfrelsi settar skorður með ákvæðum III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Með samningsákvæðinu um fjárhæð endurgreiðslunnar hefði lánveitandinn áskilið sér á þriggja vikna tímabili endurgjald fyrir lánveitinguna sem í ljósi atvika málsins og málflutnings T fyrir dómi hefði ekki verið sýnt fram á að gæti með nokkru móti rúmast innan þess frelsis til samningsgerðar um vexti og annað endurgjald sem lög nr. 38/2001 heimila. Var því fallist á með Þ að ósanngjarnt væri og andstætt góðri viðskiptavenju, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936, að bera slíkt samningsákvæði fyrir sig. Breytti það ekki þessari niðurstöðu þótt í samningnum hefði verið vísað til Þ sem lögmanns og fasteigna- og skipasala. Samkvæmt framansögðu var Þ gert að greiða T 60.000 bandaríkjadalir með dráttarvöxtum frá því er málið var höfðað, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. febrúar 2015. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Efni samningsins 21. júlí 2009 sem um ræðir í málinu og fylgiskjals sem var hluti hans er að nokkru lýst í hinum áfrýjaða dómi. Samningurinn sem ásamt fylgiskjalinu var ritaður á ensku er ekki meðal gagna málsins hér fyrir dómi en það er hins vegar íslensk þýðing skjalanna. Fram kom í samningnum að hann lyti íslenskum lögum og samningsaðilar samþykkt að hlíta lögsögu íslenskra dómstóla vegna ágreinings um efni hans. Samningurinn fjallaði meðal annars um lánveitingu af hálfu ónafngreinds aðila að fjárhæð 60.000 bandaríkjadalir en eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi er nú komið fram að upphaflegur lánveitandi var Almar Örn Hilmarsson. Samkvæmt gögnum málsins var lánsfjárhæðin millifærð af tilteknum reikningi Almars í dönskum banka og helmingi hennar í framhaldinu ráðstafað inn á bankareikning í Dubai í eigu A.R.I. Trading LLC og hinum helmingnum inn á reikning áfrýjanda í íslenskum banka. Rétt sinn til greiðslu samkvæmt samningnum framseldi Almar til stefnda 13. mars 2013 með vottfestri yfirlýsingu.
Í samningnum og fylgiskjali með honum sagði að lánsfjárhæðin sem þar var nefnd höfuðstólsfjárhæð næmi 60.000 bandaríkjadölum og skyldi hún endurgreidd með því sem nefnt var endurgreiðslufjárhæð og næmi 124.000 bandaríkjadölum „í síðasta lagi 21 degi eftir höfuðstólsgreiðsludaginn.“ Samkvæmt þessu var gjalddagi endurgreiðslunnar í síðasta lagi 13. ágúst 2009. Þá skyldi lántaki samkvæmt því sem kom fram í fylgiskjalinu greiða 10% dráttarvexti „hvern virkan dag sem bætast við útistandandi upphæð.“ Nánar sagði um það í 6. gr. samningsins sjálfs að endurgreiddi lántaki ekki „endurgreiðsluupphæðina á endurgreiðsludegi eins og kveðið er á um í fylgiskjali 1 munu 10% dráttarvextir á heildarskuldina leggjast daglega við endurgreiðsluupphæðina ásamt uppsöfnuðum dráttarvöxtum. Greiðslu má inna af hendi fyrir 10. virka dag mánaðar eftir endurgreiðslugjaldaga.“
Í málflutningi hér fyrir dómi var lögmaður stefnda inntur eftir hvaða ástæður hefðu legið til grundvallar því hvernig endurgreiðslufjárhæðin var ákvörðuð. Því gat lögmaðurinn ekki svarað með öðrum hætti en þeim að vísa til þess að um þetta hefði verið samið millum aðila.
II
Áfrýjandi hefur ekki hnekkt þeirri staðhæfingu stefnda að um gilt framsal kröfu hafi verið að ræða þegar Almar Örn Hilmarsson framseldi stefnda 13. mars 2013 rétt sinn til greiðslu samkvæmt samningnum 21. júlí 2009. Telst stefndi því réttur aðili málsins til sóknar andstætt því sem áfrýjandi heldur fram.
Aðila málsins greinir einnig á um hvort áfrýjandi sé lántaki samkvæmt samningnum 21. júlí 2009 og fylgiskjali með honum og þannig réttur aðili til varnar. Án tillits til þess hvað um var samið í þeim efnum er hitt ljóst að áfrýjandi samþykkti ásamt annarri nafngreindri konu með undirritun sinni á samninginn að „bera óskipta ábyrgð á því að endurgreiðsluupphæðin verði greidd á gjalddaga samkvæmt skilmálum“ samningsins og hefðu þær samþykkt að til þeirra skyldi vísað í samningnum sem lántaka. Í þessu samningsákvæði fólst yfirlýsing áfrýjanda um sjálfskuldarábyrgð á greiðslu lánsins, sem er í vanskilum, en á því er krafa stefnda á hendur áfrýjanda meðal annars reist. Er áfrýjandi samkvæmt því réttur aðili til varnar.
III
Að fenginni þeirri niðurstöðu um aðild málsins sem áður greinir kemur næst til úrlausnar sú málsástæða áfrýjanda að ákvæði III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga standi því í vegi að krafa stefnda á hendur henni geti náð fram að ganga.
Í héraði var aðalkrafa stefnda sú að áfrýjandi greiddi sér 321.624 bandaríkjadali. Virðist þar hafa verið miðað við hina svokölluðu endurgreiðslufjárhæð lánsins að viðbættum 10% vöxtum á dag í tíu daga. Jafnframt krafðist stefndi dráttarvaxta af þeirri fjárhæð frá 13. ágúst 2009 til greiðsludags. Varakrafa stefnda var sú að áfrýjandi greiddi sér endurgreiðslufjárhæðina, 124.000 bandaríkjadali, með dráttarvöxtum frá 13. ágúst 2009 og til þrautavara krafðist stefndi þess að áfrýjandi greiddi sér lánfjárhæðina, 60.000 bandaríkjadali, með dráttarvöxtum frá sama tímamarki og miðað var við í aðal- og varakröfu. Með hinum áfrýjaða dómi var fallist á varakröfu stefnda og áfrýjanda gert að greiða honum 124.000 bandaríkjadali með dráttarvöxtum frá 13. ágúst 2009 til greiðsludags, að frádregnum 4.000.000 krónum, sem munu hafa verið greiddar inn á lánið 4. september 2012 af konu þeirri sem gerðist sjálfskuldarábyrgðarmaður lánsins ásamt áfrýjanda. Stefndi unir úrlausn héraðsdóms um aðalkröfuna og krefst staðfestingar hans. Kemur því úrlausn héraðsdóms um aðalkröfuna ekki til endurskoðunar hér fyrir dómi.
Í 2. gr. laga nr. 38/2001 er mælt fyrir um að hve miklu leyti ákvæði laganna eru frávíkjanleg. Þar kemur fram að ákvæði II. kafla þeirra um almenna vexti gildi því aðeins að annað leiði ekki af samningum, venju eða lögum. Er mönnum samkvæmt þessu heimilt að semja um vexti af peningakröfum, svo og um annað endurgjald sem áskilið er eða tekið fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 38/2001 segir meðal annars að með vaxtalögum nr. 25/1987 hafi verið staðfest almennt frelsi til samninga manna á milli um vexti, þó ekki dráttarvexti, sem enn séu ákveðnir af Seðlabanka Íslands. Frá því að lög nr. 25/1987 tóku gildi og almennu samningsfrelsi var komið á um aðra vexti en dráttarvexti hafi íslenskur fjármagnsmarkaður tekið margvíslegum breytingum sem nánari grein er gerð fyrir. Þá segir að lagt sé til að í stað þess að Seðlabankinn taki einhliða ákvörðun um dráttarvexti af öllum peningakröfum verði aðilum lánssamninga heimilt að semja um dráttarvexti upp að vissu marki. Sé þeim heimilt að semja um tiltekinn hundraðshluta sem vanefndaálag ofan á ákveðinn grunn dráttarvaxta sem taki mið af vöxtum algengra skammtímalána Seðlabankans til lánastofnana. Einnig geti samningsaðilar samið um fasta dráttarvexti. Lagt sé til að misneytingarákvæði vaxtalaga og ákvæði um endurgreiðslu oftekinna vaxta verði að mestu felld brott. Þau ákvæði eigi rætur sínar að rekja til þess tíma þegar ekki ríkti frjálsræði í samningum um vexti. Þörf fyrir ákvæðin þegar frelsi í samningnum um vexti hafi fest sig í sessi sé lítil. Hafa beri í huga að hið almenna misneytingarákvæði almennra hegningarlaga eigi við um samninga um vexti. Þá beri að hafa í huga að lög nr. 7/1936 taki til þessara samninga. Einnig segir í athugasemdum við 2. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 38/2001 að miðað sé við „fullt samningsfrelsi aðila í þessum efnum með þeim takmörkunum sem leiðir af sjálfu ákvæðinu. Auk þess sætir frelsið að sjálfsögðu þeim almennu takmörkunum sem leiða af III. kafla laga nr. 7/1936 ... og VII. kafla frumvarps þessa.“
Þótt aðilum lánssamnings sé samkvæmt framansögðu í sjálfsvald sett að semja um vexti eða annað endurgjald sem áskilið er eða tekið fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eru því samningsfrelsi settar skorður með ákvæðum III. kafla laga nr. 7/1936. Eins og áður getur var fjárhæð lánsins samkvæmt samningi þeim sem um ræðir í málinu 60.000 bandaríkjadalir en hann var sem fyrr segir gerður 21. júlí 2009 og kvað jafnframt á um að lánið skyldi endurgreitt í síðasta lagi 13. ágúst 2009 með 124.000 bandaríkjadölum sem var ríflega tvöföld lánsfjárhæðin. Með samningsákvæði þessu um fjárhæð endurgreiðslunnar áskildi lánveitandinn sér á þriggja vikna tímabili endurgjald fyrir lánveitinguna sem í ljósi atvika málsins og málflutnings stefnda hér fyrir dómi hefur ekki verið sýnt fram á að geti með nokkru móti rúmast innan þess frelsis til samningsgerðar um vexti og annað endurgjald sem lög nr. 38/2001 heimila. Er því fallist á með áfrýjanda að ósanngjarnt sé og andstætt góðri viðskiptavenju, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936, að bera slíkt samningsákvæði fyrir sig og verður varakröfu stefnda af þeim sökum hafnað. Breytir það ekki þessari niðurstöðu þótt í samningnum sé vísað til áfrýjanda sem lögmanns og fasteigna- og skipasala.
Óumdeilt er að lán að fjárhæð 60.000 bandaríkjadalir var veitt á grundvelli samningsins frá 21. júlí 2009 og með þeim hætti sem áður er lýst. Áfrýjandi samþykkti sem fyrr segir að gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir endurgreiðslu lánsins sem verið hefur í vanskilum frá gjalddaga og verður hún samkvæmt því dæmd til greiðslu þess. Á hinn bóginn getur í ljósi þess sem áður greinir um inntak endurgreiðsluákvæðis samningsins 21. júlí 2009 ekki komið til álita að dæma áfrýjanda til greiðslu hærri fjárhæðar en sem nemur lánsfjárhæðinni sjálfri og þá með dráttarvöxtum frá því er mál þetta var höfðað 6. maí 2013, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Frá tildæmdri fjárhæð ber að draga 4.000.000 krónur sem eins og áður greinir voru greiddar inn á lánið 3. september 2012.
Eftir framangreindum úrslitum er rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri máls þessa í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Þuríður Kristín Halldórsdóttir, greiði stefnda, Timothy John Thexton, 60.000 bandaríkjadali með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. maí 2013 til greiðsludags, allt að frádregnum 4.000.000 krónum sem greiddar voru 3. september 2012.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2015.
I.
Mál þetta var höfðað þann 6. maí 2013 og dómtekið 9. janúar 2015 að loknum munnlegum málflutningi.
Stefnandi er Timothy John Thexton, 32A Collins Road, Exeter, EX4 5DE, Englandi, en stefndi er Þuríður Kristín Halldórsdóttir, Birkigrund 48, Kópavogi.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þessar:
Aðallega að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda 321.624 Bandaríkjadali ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. ágúst 2009 til greiðsludags, allt að frádregnum 4.000.000 króna þann 3. september 2012.
Til vara að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda 124.000 Bandaríkjadali ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. ágúst 2009 til greiðsludags, allt að frádregnum 4.000.000 króna þann 4. september 2012.
Til þrautavara að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda 60.000 Bandaríkjadali ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. ágúst 2009 til greiðsludags, allt að frádregnum 4.000.000 króna þann 4. september 2012. Þá krefst stefnandi málskostnaðar í öllum tilvikum.
Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar.
II.
Málsatvik
Samningur með fyrirsögninni FYRIRSVAR OG LÁNSSAMNINGUR var undirritaður 21. júlí 2009 milli Miltex Corporation annars vegar og stefndu og Vilborgar Eddu Lárusdóttur hins vegar. Í upphafi samningsins, sem er á ensku en þýðing löggilts skjalaþýðanda er meðal málsskjala, kemur fram að hann sé gerður milli Miltex Corporation, Lögfræðistofu Þuríðar Halldórsdóttur héraðsdómslögmanns og áðurnefndrar Vilborgar Eddu. Jafnframt segir að stefnda hafi óskað aðstoðar við að finna aflandslán fyrir hönd viðskiptavinar og Miltex Corporation hafi fundið lánveitanda sem sé reiðubúinn að lána stefndu fé en sá óski um leið nafnleyndar. Hafi aðilarnir ákveðið í framhaldi af þessu að stofna til viðskiptasambands. Síðan segir: Ætlunin er að lánveitandi greiði höfuðstólinn með milligöngu Miltex til Þuríðar og Vilborgar og þær endurgreiða höfuðstólinn ásamt áföllnum vöxtum og þóknunum til Miltex innan áskilds tíma. Miltex greiðir síðan lánveitanda höfuðstólinn með samþykktum vöxtum en að frádreginni þóknun og miðlaragjaldi. Þá segir í 1. gr. samningsins: Þuríður og Vilborg hafa samþykkt að þær bera óskipta ábyrgð á því að endurgreiðsluupphæðin verði greidd á gjalddaga ... Þær hafa samþykkt að til þeirra skuli vísað hér eftir í þessum samningi sem „lántaka“.
Í fylgiskjali samningsins er höfuðstólsupphæð tilgreind 60.000 Bandaríkjadala og endurgreiðsluupphæð 124.000 Bandaríkjadalir. Þá var mælt fyrir um endurgreiðsludag sem var þannig orðað: Fyrir, en í síðasta lagi 21 degi eftir höfuðstólsgreiðsludaginn. Höfuðstólsgreiðsludagur var 23. júlí 2009. Undir liðnum höfuðstólsgreiðslureikningur kemur fram að 30.000 Bandaríkjadali skuli greiða inn á bankareikning A.R.I. TRADING LLC í Dúbaí. Þá skyldu 30.000 Bandaríkjadalir greiðast inn á tilgreindan bankareikning stefndu, sem að sögn stefndu er fjárvörslureikningur hennar.
Í 2. gr. samningsins segir að Miltex Corporation skuli vera í fyrirsvari fyrir lántaka í leit að aflandsfé fyrir hönd umbjóðenda hans. Þá segir í 5. gr.: vextir og þóknun Miltex og lánveitanda skulu vera innifalin í endurgreiðsluupphæð, sjá fylgiskjal 1. Endurgreiðsla skal fara fram samkvæmt endurgreiðsludegi sem tiltekinn er í fylgiskjali 1. Í 6. gr. samningsins segir svo að ef lántaki endurgreiðir ekki endurgreiðsluupphæðina á endurgreiðsludegi munu 10% dráttarvextir á heildarskuldina leggjast daglega við endurgreiðsluupphæðina ásamt uppsöfnuðum dráttarvöxtum.
Miltex Corporation höfðaði mál á hendur stefndu og Vilborgu Eddu í október 2009 á grundvelli áðurnefnds samnings. Frávísunarkröfu stefndu og Vilborgar Eddu var hafnað með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 2010. Málinu var svo með úrskurði héraðsdóms vísað frá dómi af sjálfsdáðum 29. apríl 2011, en Hæstiréttur Íslands felldi þann úrskurð úr gildi með dómi 15. júní 2011 í máli nr. 315/2011. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 14. september 2011 voru stefnda og Vilborg Edda sýknaðar af kröfu Miltex Corporation á grundvelli aðildarskorts þess síðastnefnda. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar og mun Miltex Corporation hafa fallið frá kröfu sinni á hendur Vilborgu Eddu á meðan málið var þar til meðferðar. Með dómi 20. september 2012 í máli nr. 667/2011 staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um sýknu stefndu vegna aðildarskorts stefnanda Miltex Corporation.
Krafa stefnanda á hendur stefndu í máli þessu er reist á áðurnefndum fyrirsvars og lánssamningi. Kveðst stefnandi með vísan til yfirlýsingar sem liggur fyrir í gögnum málsins hafa fengið kröfu sína á hendur stefndu framselda frá upphaflegum lánveitanda samningsins, Almari Hilmarssyni, þann 13. mars 2013. Hafi 60.000 Bandaríkjadala verið greiddar út af reikningi upphaflegs lánveitanda þ.e. fyrrgreinds Almars inn á reikning Miltex. Þaðan hafi fjárhæðin verið millifærð í tveimur færslum inn á reikninga fyrrgreindra aðila, þ.e. helmingur inn á reikning stefndu Þuríðar Halldórsdóttur og hinn helmingurinn inn á bankareikning A.R.I. TRADING LLC í Dúbaí. Þá hafi Miltex Corporation lýst því yfir 13. mars 2013 að það afsalaði sér öllum rétti, réttindum, hagsmunum og ábata samkvæmt og í tengslum við samninginn og eigi það enga kröfu samkvæmt samningnum.
III.
1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir aðild sína á grundvelli áðurgreinds framsals, dags. 13. mars 2013 frá upphaflegum lánveitanda, Almari Hilmarssyni. Stefnandi fari því, eftir framsal kröfunnar frá upphaflegum lánveitanda, með fullt forræði á þeim hagsmunum sem um er deilt í máli þessu.
Um aðild stefndu vísar stefnandi til 1. gr. samnings milli Miltex Corporation, stefndu og Vilborgar Eddu. Stefnda hafi samkvæmt samningnum samþykkt að til hennar væri vísað sem lántaka í samningnum og hún sé því réttur lántaki og skuldari. Stefnda hafi samþykkt að bera óskipta ábyrgð á því að endurgreiðsluupphæðin verði greidd á gjalddaga í samræmi við skilmála samningsins. Helmingur lánsfjárhæðarinnar hafi verið greiddur inn á reikning stefndu og helmingur inn á reikning erlends félags samkvæmt fyrirmælum stefndu.
Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að hann eigi fjárkröfu á hendur stefndu samkvæmt umræddum fyrirsvars- og lánssamningi. Samkvæmt 1. gr. samningsins hafi stefnda samþykkt að bera ábyrgð á því að endurgreiðsluupphæð samningsins yrði greidd á gjalddaga auk þess að samþykkja að vísa til sín í samningnum sem lántaka. Endurgreiðsluupphæð samningsins sé 124.000 Bandaríkjadalir, sbr. 2. tölulið fylgiskjals 1 við samninginn, auk umsaminna dráttarvaxta og þóknana. Samkvæmt 4. tölulið fylgiskjals 1 við samninginn sé endurgreiðsludagur fyrir, en í síðasta lagi 21 degi eftir höfuðstólsgreiðsludaginn. Það sé óumdeilt að höfuðstólsgreiðsludagur hafi verið 23. júlí 2009. Þessu til samræmis hafi umsaminn gjalddagi samningsins í síðasta lagi verið 13. ágúst 2009. Miðast dómkröfur stefnanda við þetta. Þar sem endurgreiðsluupphæðin hafi ekki fengist greidd, að frátalinni innborgun 4.000.000 króna 3. september 2012 frá Vilborgu Eddu, beri stefnda ábyrgð á því að skuldin ásamt dráttarvöxtum til greiðsludags verði greidd stefnanda.
Stefnandi byggir á því að hann þurfi ekki að beina kröfu að A.R.I. TRADING LLC sem hafi fengið greiddan inn á sinn reikning hluta höfuðstólsupphæðarinnar, þ.e. 30.000 Bandaríkjadali. Beint réttarsamband sé við stefndu, en hún hafi tekið á sig ábyrgð á allri fjárhæðinni sem lántaki væri. Stefnandi byggir á því að stefnda hafi notið góðs af allri umstefndri fjárhæð, enda hafi helmingur fjárhæðarinnar verið lagður inn á reikning hennar og hinn helmingurinn inn á erlent félag sem stefnda hafi tilgreint. Stefndi skori á stefndu að upplýsa hver sé eigandi A.R.I. Trading LLC og leggja fram gögn til sönnunar því. Verði ekki orðið við þeirri áskorun sé á því byggt af hálfu stefnanda að um sé að ræða skúffufyrirtæki undir stjórn stefndu og að fjármunirnir hafi sannanlega runnið til hennar.
Kröfu um samningsbundna dráttarvexti, sem hafi verið uppreiknuð og höfuðstólsfærð í aðalkröfu byggir stefnandi á 6. gr. samningsins og 5. tölulið í fylgiskjali 1. Samkvæmt ákvæðum þessum skuli endurgreiðsluupphæðin bera 10% dráttarvexti daglega verði hún ekki greidd af lántaka á endurgreiðsludegi. Stefnandi byggir á því að honum hafi verið heimilt að semja um slíkan fastan hundraðshluta dráttarvaxta með vísan til 2. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 enda falli lán það sem um ræðir í þessu máli ekki undir lög um neytendalán nr. 121/1994, sbr. a-lið 2. gr. laganna. Stefnandi reikni og höfuðstólsfæri samningsbundna 10% dráttarvexti af endurgreiðsluupphæð 124.000 Bandaríkjadala í tíu daga en geri svo kröfu um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá umsömdum gjalddaga kröfunnar, 13. ágúst 2009, til greiðsludags. Stefnandi bendir á að upphaflegt lán hafi verið áhættusamt, eins og sagan hafi sýnt. Ekkert hafi verið greitt upp í lánið, utan 4.000.000 króna sem séu fastar í viðjum gjaldeyrishafta á Íslandi. Þau vaxtakjör sem samið hafi verið um í upphafi standi hins vegar og sé aðalkrafa stefnanda byggð á þeim samningi sem lagt hafi verið af stað með í upphafi. Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda þá krefst stefnandi þess til vara að honum verði endurgreidd endurgreiðsluupphæð samningsins að fjárhæð 124.000 Bandaríkjadalir, sbr. 2. lið fylgiskjals 1 við samninginn, án samningsbundinna dráttarvaxta en ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá umsömdum gjalddaga kröfunnar 13. ágúst 2009 til greiðsludags. Í varakröfu fellur stefnandi því frá kröfu um samningsbundna dráttarvexti en að öðru leyti vísar stefnandi um varakröfu sína til sömu raka og tiltekin hafa verið fyrir aðalkröfu hans.
Verði hvorki fallist á aðalkröfu né varakröfu stefnanda þá krefst stefnanda þess til þrautavara að honum verði endurgreidd höfuðstólsupphæð samningsins, sbr. 1. lið fylgiskjals 1, að fjárhæð 60.000 Bandaríkjadalir, þ.e. sú fjárhæð sem upphaflegur lánveitandi sannanlega reiddi af hendi, án samningsbundinna dráttarvaxta en ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá umsömdum gjalddaga kröfunnar 13. ágúst 2009 til greiðsludags. Í þrautavarakröfu fellur stefnandi frá kröfu um samningsbundna dráttarvexti og mismunar milli höfuðstólsupphæðar samningsins og endurgreiðsluupphæðar en að öðru leyti vísar stefnandi til sömu raka og tiltekin hafa verið fyrir aðalkröfu hans.
Að öðru leyti en að ofan greinir reisir stefnandi kröfur sínar á almennum reglum fjármunaréttarins um ábyrgð á fjárskuldbindingum og meginreglum samningaréttar.
2. Helstu málsástæður og lagarök stefndu
Stefnda byggir á því að skuldarasamband hafi aldrei komist á milli málsaðila. Lánveitandi Almar Hilmarsson sé ekki aðili að viðskiptasamningi milli Miltex Corporation og stefndu. Engu breyti þó að lánveitandi hafi framselt kröfu sína til stefnanda.
Umræddur samningur sé viðskiptasamningur á milli Miltex Corporation og stefndu. Í samningnum séu villur sem lofað hafi verið að leiðrétta og verði að túlka samninginn í því ljósi. Fasteign hafi verið sett til tryggingar endurgreiðslu á kröfu lánveitanda. Þá sé það rangt að lánið hafi verið greitt inn á hlaupareikning stefndu, heldur hafi það verið greitt inn á fjárvörslureikning á nafni og kennitölu stefndu vegna starfsemi stefndu lögum samkvæmt. Samningurinn hafi verið gerður við Lögfræðiskrifstofu Þuríðar Halldórsdóttur hdl., en ekki Híbýli og skip ehf., sem stefnda starfaði hjá á þeim tíma.
Stefnda byggir á því að hún hafi aðeins átt að hafa milligöngu í umræddum viðskiptum. Aldrei hafi staðið til að hún bæri persónulega ábyrgð. Samningurinn hafi borið með sér að vera fyrirsvarssamningur og þar segi að aðilar hafi ákveðið að stofna viðskiptasamband. Ekkert skuldarasambandi hafi stofnast á milli samningsaðila. Í samtölum sínum við stefnanda hafi hún ítrekað bent á að hún bæri ekki persónulega ábyrgð, hún væri ekki lántakandi auk þess að mótmæla 10% okurdráttarvöxtum á dag í 10 daga sem engan veginn gátu staðist íslensk lög. Stefnandi hafi ætlað að leiðrétta samninginn í samræmi við athugasemdir sem stefnda hafi gert við hann og senda samninginn aftur til stefndu, en síðar þann sama dag hafi stefnandi verið kominn í frí og ekki komist í tölvu til að laga samninginn. Hann hafi fallist á í samtölum við stefndu að samningurinn ætti að vera eins og rætt hefði verið, en að hann yrði að fá að standa eins hann hafi verið úr garði gerður, en þau hafi bæði vitað um hvað hefði verið samið. Stefnda mótmælir því að stefnandi eigi kröfu á stefndu þar sem hann hafi ekki verið aðili að umræddum samningi sem byggt sé á í málinu. Kröfuframsal hafi þar engin áhrif. Vísar stefnda í því sambandi til 8. gr. samningsins. Ekki hafi verið leitað samþykkis stefndu fyrir framsalinu.
Þá bendir stefnda á að samkvæmt 7. tölulið samningsins undir fyrirsögninni „RIFTUN“ gildir samningurinn upphaflega í eitt ár frá undirskrift og eftir það, ef honum er ekki rift skriflega, er hann endurnýjaður í samsvarandi tímabil nema honum sé rift með tólf mánaða fyrirvara.
Stefnda byggir kröfur sínar á lögum nr. 7 frá 1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 36. gr., sbr. og 32. og 33. gr. sömu laga, og að ekki sé um skuldarasamband að ræða milli stefndu og stefnanda.
IV.
Samningur með fyrirsögninni „FYRIRSVAR OG LÁNSSAMNINGUR“ var undirritaður 21. júlí 2009. Í upphafi samningsins kemur fram að hann sé gerður milli Miltex Corporation, Lögfræðistofu Þuríðar Halldórsdóttur héraðsdómslögmanns og áðurnefndrar Vilborgar Eddu. Jafnframt segir að stefnda hafi óskað aðstoðar við að finna aflandslán fyrir hönd viðskiptavinar og Miltex Corporation hafi fundið lánveitanda sem sé reiðubúinn að lána stefndu fé en sá óski um leið nafnleyndar. Hafi aðilarnir ákveðið í framhaldi af þessu að stofna til viðskiptasambands. Fram kemur að ætlunin sé að lánveitandi greiði Þuríði og Vilborgu höfuðstólinn með milligöngu Miltex og þær endurgreiði svo Miltex höfuðstólinn ásamt áföllnum vöxtum og þóknunum innan áskilins tíma. Miltex greiði síðan lánveitanda höfuðstólinn með samþykktum vöxtum en að frádreginni þóknun og miðlaragjaldi.
Samkvæmt gögnum málsins fékk stefnandi þá fjárkröfu sem deilt er um í máli þessu framselda frá upphaflegum lánveitanda, með kröfuframsali, dags. 13. mars 2013. Telur dómurinn hann því réttan aðila að máli þessu. Telur dómurinn að þau rök stefndu að upphaflegur lánveitandi hafi ekki verið aðili að fyrirsvars- og lánssamningi stefndu og stefnanda skipti ekki máli varðandi kröfuframsalið til stefnanda máls þessa.
Í 1. gr. fyrirsvars- og lánssamningsins á milli Miltex Corporation og stefndu, sem mælir fyrir um samband lántaka, kemur fram að stefnda hafi samþykkt að bera óskipta ábyrgð á því að endurgreiðsluupphæð samkvæmt samningum verði greidd á gjalddaga, auk þess sem hún hafi samþykkt að til hennar yrði vísað sem „lántaka í samningnum“. Er samningurinn, sem dagsettur er 20. júlí 2009, undirritaður af stefndu persónulega og fyrir hönd lántaka, eins og það er orðað. Með vísan til þess telur dómurinn stefndu einnig réttan aðila að máli þessu.
Víkur þá að aðalkröfu stefnanda. Stefnandi telur sig eiga fjárkröfu á hendur stefndu samkvæmt umræddum fyrirsvars- og lánssamningi. Stefnda byggir á því að ekkert skuldarasamband hafi stofnast á milli hennar og samningsaðila samkvæmt samningnum, hún beri því ekki persónulega ábyrgð á endurgreiðslu lánsins til stefnanda. Hefur stefnda lagt á það áherslu að aðeins hafi verið um viðskiptasamning að ræða og aldrei hafi staðið til að hún bæri persónulega ábyrgð á endurgreiðslu þess. Hafi þessi skilningur stefndu komið fram í samtölum hennar við stefnanda málsins. Vegna þess hversu mikilvægt það hafi verið fyrir umbjóðendur hennar að fá lánið greitt út hafi ekki gefist tími til að ganga frá samningi á milli aðila í samræmi við það sem rætt hefði verið munnlega á milli þeirra.
Samkvæmt greindum fyrirsvars- og lánssamningi var höfuðstólsupphæð lánsins 60.000 Bandaríkjadalir. Var lánið greitt út þann 23. júlí 2009 og var helmingur þess, 30.000 Bandaríkjadalir, lagður inn á tilgreindan fjárvörslureikning stefndu og hinn helmingur þess, 30.000 Bandaríkjadalir, var lagður inn á bankareikning A.R.I. TRADING LLC í Dúbaí samkvæmt ákvæðum fylgiskjals 1 með samningnum. Samkvæmt fylgiskjalinu skyldi endurgreiðslufjárhæðin nema 124.000 Bandaríkjadölum og endurgreiðsludagur þess „Fyrir, en í síðasta lagi 21 degi eftir höfuðstólsgreiðsludaginn“ eða þann 13. ágúst 2009. Þá var í samningnum kveðið á um að „Ef lántaki endurgreiðir ekki endurgreiðslufjárhæðina á endurgreiðsludegi munu 10% dráttarvextir á heildarskuldina leggjast daglega við endurgreiðsluupphæðina ásamt uppsöfnuðum dráttarvöxtum“.
Eins og áður segir mælir 1. gr. samningsins fyrir um að stefnda hafi samþykkt að bera óskipta ábyrgð á því að endurgreiðsluupphæðin yrði greidd á gjalddaga. Er samningurinn undirritaður af stefndu og hefur stefnda ekki mótmælt því að lánsfjárhæðin hafi verið greidd samkvæmt fyrirmælum samningsins.
Stefnda hefur byggt á því að hún hafi aðeins verið í fyrirsvari fyrir þriðju aðila sem væru hinir eiginlegu lántakendur. Þessi málsástæða er haldlaus í ljósi þess að hún tók að sér að greiða skuldina, sbr. 1. gr. fyrirsvars- og lánssamningsins á milli stefnanda og stefndu sem undirritaður er af stefndu. Telur dómurinn ljóst að stefnda hafi tekið á sig ábyrgð á því að endurgreiðslufjárhæð lánsins yrði greidd á gjalddaga og hefur hún ekki sýnt fram á að þeim skuldbindingum hafi verið breytt með munnlegu samkomulagi.
Stefnda mótmælir sérstaklega vaxtaútreikningi lánsins, samkvæmt aðalkröfu stefnanda, en samningurinn hafi mælt fyrir um 10% vexti á dag í 10 daga. Vísar stefnda m.a. til 36. gr. samningalaga í því sambandi. Stefnda er héraðsdómslögmaður og þekki því vel til samningsgerðar og reglna um skuldbindingargildi samninga. Á hinn bóginn verður að telja vexti þessa óhóflega jafnvel þótt áhætta lánveitanda sé tekin með í reikninginn og í ljósi þess að fasteign var lögð til tryggingar endurgreiðsluupphæðinni. Hefur stefnandi ekki sýnt fram á að umrædd vaxtafærsla sé í samræmi við góðar viðskiptavenjur hér á landi, auk þess sem aðalkrafa er í meira lagi óskýr. Þannig liggur ekki fyrir útreikningur á aðalkröfu stefnanda og lýsing á því hvernig krafan er að öðru leyti samsett. Var ekki úr þessu bætt við aðalmeðferð málsins. Ber því að taka varakröfu stefnanda til greina eins og nánar greinir í dómsorði.
Eftir niðurstöðum málsins og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndu gert að greiða stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.
Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Stefnda, Þuríður Halldórsdóttir, er dæmd til að greiða stefnanda, Timothy John Thexton, 124.000 Bandaríkjadali ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. ágúst 2009 til greiðsludags, allt að frádregnum 4.000.000 króna þann 4. september 2012.
Stefnda greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.