Hæstiréttur íslands

Mál nr. 212/2000


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Ítrekun
  • Hegningarauki


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. október 2000.

Nr. 212/2000.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Helga Þór Kristínarsyni

Hilmar Ingimundarson hrl.)

                                              

Þjófnaður. Ítrekun. Hegningarauki.

H var ákærður fyrir þjófnað með því að hafa brotist inn í skrifstofuhúsnæði, tvær verslanir og þrjár bifreiðar og stolið þaðan verðmætum. H játaði þjófnað úr skrifstofuhúsnæðinu og var þjófnaður úr verslununum tveimur einnig talinn sannaður. Hins vegar þóttu ekki fram komnar sönnur fyrir því að hann hefði átt þátt í þjófnaði úr bílunum og var hann sýknaður af sakargiftum samkvæmt þeim hluta ákærunnar. Var niðurstaða héraðsdóms um að dæma H til fangelsisrefsingar staðfest, en um ítrekuð brot var að ræða.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Björn Þ. Guðmundsson prófessor.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. maí 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd frá því, sem ákveðið var í héraðsdómi.

Ákærði krefst sýknu af sakargiftum samkvæmt III. og IV. kafla ákæru, en að öðru leyti að refsing verði milduð.

Í II. kafla ákæru í máli þessu, sem var gefin út 23. nóvember 1999, var ákærða gefið að sök brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa aðfaranótt 17. nóvember 1999 brotist inn í skrifstofuhúsnæði að Skipholti 50b í Reykjavík og stolið þaðan tölvu að andvirði 87.990 krónur. Með III. kafla ákærunnar var ákærði ásamt öðrum nafngreindum manni borinn sökum um brot gegn sama ákvæði með því að hafa brotist inn í tvær verslanir að Álfheimum 74 í Reykjavík hinn 9. júlí 1999 og tekið þar varning að andvirði samtals 136.000 krónur. Í IV. kafla ákærunnar var ákærða loks gefið að sök brot gegn sama ákvæði með því að hafa 9. ágúst 1999 ásamt tveimur nafngreindum mönnum brotist inn í þrjár bifreiðir við Ingólfsstræti og Sölvhólsgötu í Reykjavík og stolið úr þeim munum að verðmæti alls 163.000 krónur. Við meðferð málsins í héraði kom fram að ætluð brot samkvæmt síðastnefndum kafla ákæru hafi verið framin 8. ágúst 1999.

Fyrir héraðsdómi gekkst ákærði við verknaðinum samkvæmt II. kafla ákæru. Verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða fyrir það brot.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt III. kafla ákæru.

Fyrir dómi neitaði ákærði að hafa framið þau brot, sem greinir í IV. kafla ákæru. Viðurkenndi hann að hafa verið á vettvangi þegar annar meðákærðu samkvæmt þeim kafla ákæru braust inn í bifreiðirnar þrjár, sem þar um ræðir, en sá hafi ætlað að kenna ákærða og hinum meðákærða til verka í þeim efnum. Er sá framburður í samræmi við framburð beggja meðákærðu samkvæmt þessum kafla ákærunnar. Ekki liggja fyrir í málinu haldbær sönnunargögn, sem byggt verður á samkvæmt 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, til að tengja ákærða við þessi brot frekar en hann hefur sjálfur gengist við. Verður því að sýkna hann af sakargiftum samkvæmt IV. kafla ákærunnar.

Ákærði er fæddur 1972. Þar til héraðsdómur gekk í máli þessu hafði ákærði frá árinu 1989 þrívegis gengist undir sátt og tólf sinnum hlotið dóm fyrir skjalafals, auðgunarbrot, nytjastuld, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot. Eftir að ákærði framdi þau brot, sem hann er nú sakfelldur fyrir, og þar til héraðsdómur var upp kveðinn höfðu þrívegis gengið refsidómar á hendur honum. Verður refsing hans því ákveðin sem hegningarauki við þá dóma, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Á árinu 1996 var ákærði tvisvar dæmdur fyrir auðgunarbrot og gætir nú ítrekunaráhrifa af þeim dómum við ákvörðun refsingar, sbr. 71. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga, auk þess að ákvæði 2. mgr. 70. gr. sömu laga eiga hér við um hluta af brotum ákærða. Að öllu þessu gættu og að teknu tilliti til ákvæðis 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, er rétt að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um refsingu ákærða, svo og um sakarkostnað.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Helgi Þór Kristínarson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 30.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2000.

Málið er höfðað með ákæruskjali dagsettu 23. nóvember 1999 á hendur:

A, Helga Þór Kristínarsyni, kt. 240872-3319, Flókagötu 13, Reykjavík, B og C, "fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 1999, nema annað sé tekið fram:

I

Ákærða B:

[...]

II

Ákærða Helga Þór fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 17. nóvember brotist inn í húsnæði lögfræðiskrifstofu Ásgeirs Magnússonar, Skipholti 50b, og stolið tölvu, að verðmæti um kr. 87.990.  

(Mál nr. 010-1999-27910)

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.

III

Ákærðu A og Helga Þór, með því að hafa í félagi að morgni föstudagsins 9. júlí [á að vera 8. júlí. Innskot dómara] farið inn í verslunar- og þjónustumiðstöðina Glæsibæ, Álfheimum 74 og síðan brotist inn í eftirtaldar verslanir með því að spenna upp rennihurðir þeirra:

1.

Cos, og stolið reiknivél, áfengisflösku, hljómtækjum, penna og lyklum, samtals að verðmæti kr. 35.000.

2.

More & More, og stolið síma, 2 töskum og 9 peysum, samtals að verðmæti kr. 101.000.

(Mál nr. 010-1999-16157)

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.

 

IV

Ákærðu Helga Þór, B og C fyrir þjófnaði framda í félagi aðfaranótt mánudagsins 9. ágúst:

1.

Með því að hafa farið inn í eftirtaldar bifreiðir, við Ingólfsstræti:

1.1.

TZ-268 og stolið farsíma og geislaspilara, samtals að verðmæti kr. 100.000.

(Mál nr. 010-1999-18894)

1.2.

MK-203 og stolið borvél ásamt hleðslutæki og sjónauka, samtals að verðmæti kr. 18.000.

(Mál nr. 010-1999-18909)

2.

Brotist inn í bifreiðina VP-382, við Sölvhólsgötu 7, með því að spenna upp hægri hurð hennar, og stolið geislaspilara, 12 geisladiskum með tónlist, seðlaveski, sem innihélt persónuskilríki, greiðslukort auk persónulegra muna, samtals að verðmæti um kr. 45.000.

(Mál nr. 010-1999-18814)

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.

 

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og að ofangreint fíkniefni, sem getið er í kafla I, 2 verði gert upptækt samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16, 1986.

 [...]

Verjandi ákærðu, Helga Þórs, B og C, gerir eftirfarandi kröfur:

Vegna ákærða, Helga Þórs, að hann verði sýknaður af III og IV. kafla ákærunnar.  Enn fremur að ákærða verði að öðru leyti ekki gerð sérstök refsing í máli þessu.  Þá verði allur sakarkostnaður greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun.

[...]

Ákæruatriðin verða nú rakin í sömu röð og í ákæru.

[...]

Kafli II

Ákærði, Helgi Þór, hefur viðurkennt að hafa framið brot það, sem honum er þar gefið að sök.

Með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við gögn málsins, þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um brot það sem honum er gefið að sök og réttilega er fært til refsiákvæða.

 

Kafli III

Föstudaginn 9. júlí 1999 var lögreglu tilkynnt um innbrot í verslanirnar Cos og More & More í Glæsibæ.  Samkvæmt framburði Sigrúnar Elvarsdóttur, starfsmanns í Cos, kvaðst hún hafa veitt því athygli þegar hún mætti til starfa að rennihurð sem er fyrir versluninni hafði verið spennt upp og tvö til þrjú þúsund krónum verið stolið úr peningakassa.  Eitthvað hafi verið rótað til í fatarekkum en Sigrún kvaðst ekki geta gert sér grein fyrir hvort eitthvað hefði horfið.  Í versluninni More & More var í fyrirsvari Lovísa Þorleifsdóttir.  Hún kvaðst hafa orðið vör við að rennihurð á versluninni hafi verið spennt upp.  Símtæki verslunarinnar hafi verið stolið, 5920 krónum úr kassa og 12 peysur horfnar úr hillu á lager.  Einnig hafi verið rótað mikið til í versluninni og nokkurt magn af plastpokum hafi horfið.

Við yfirheyrslu hjá lögreglunni 10. júlí 1999 viðurkenndi ákærði A að hafa brotist inn í verslanirnar Cos og More & More ásamt ákærða Helga Þór.  Við yfirheyrslu hjá lögreglu sama dag kvaðst ákærði, Helgi Þór, aðspurður um aðild sína að málinu ekki vilja svara neinu um það.

Hér fyrir dómi viðurkenndi ákærði, A, að hafa framið brot þau, sem honum eru þar gefin að sök.  Hann kvaðst hafa verið í mikilli fíkniefnaneyslu á þessum tíma og lítið munað eftir umræddum morgni.  Ákærði kvaðst ekki muna eftir því að meðákærði, Helgi Þór, hefði verið með honum í þessu innbroti.

Með skýlausri játningu ákærða, A, sem er í samræmi við gögn málsins, þykir sannað að hann hafi gerst sekur um brot það sem honum er gefið að sök og réttilega er fært til 244. gr. almennra hegningarlaga.

Vitnið, Þorsteinn Þór Guðjónsson lögreglumaður, kom fyrir dóminn.  Hann kvaðst hafa komið að þeim A, S og Helga Þór Kristínarsyni í bifreið við Hótel Ísland en lögreglu hafði verið tilkynnt um bifreiðina.  Vitnið sagði að hann hafi leitað á þeim þremur ásamt lögreglumanni sem var með honum og tveimur öðrum lögreglumönnum.  Hann kvað ástæðu leitarinnar hafa verið þá að grunur lék á að þessir aðilar hefðu fíkniefni í fórum sínum.  Vitnið sagði að lögreglumenn hafi fundið ýmsa muni í bifreiðinni og því flutt mennina niður á lögreglustöð.

Ákærði, Helgi Þór, neitaði fyrir dómi að hafa framið brot það, sem honum er hér gefið að sök.  Hann kvaðst hafa verið á einhverjum þvælingi með meðákærða, A og S, þegar hann var handtekinn.  Ákærði viðurkenndi að hafa verið í Glæsibæ um morguninn með meðákærða, A, en ákærði mundi ekki eftir því að hafa brotist neins staðar inn og ekki hafi hann verið vitni að neinu innbroti.  Hann kvaðst ekki hafa stolið neinu né heldur hafa sett þýfi það sem ákært er fyrir í bílinn.  Aðspurður um hvernig á því stóð að lyklar að versluninni Cos, bíllyklar og heimilislykar sem tengdust þessum verslunum, voru í vösum ákærða, sagði ákærði að þetta hlyti að hafa verið í bílnum og hann hafi stungið þessu í vasann.  Ákærði kvaðst ekki hafa haft hugmynd um hvaðan lyklarnir komu.

Ákærði, Helgi Þór, viðurkenndi fyrir dómi að hafa verið í Glæsibæ umræddan morgun ásamt meðákærða, A, en kvaðst ekki muna eftir því að hafa brotist neins staðar inn.  Við leit á ákærða, Helga Þór, skömmu síðar fannst hins vegar hluti af því þýfi sem stolið hafði verið úr verslununum auk þess sem annað þýfi var í bifreiðinni.  Þegar litið er til framburðar vitnisins, Þorsteins Þórs Guðjónssonar, lögreglumanns, og annarra gagna málsins þykir ótrúverðugur sá framburður ákærða að hann hafi ekki átt hlut að máli þessu.  Er því ekki óvarlegt að telja sannað að ákærði, Helgi Þór, hafi gerst sekur um háttsemi þá sem honum er gefin að sök í þessum kafla ákærunnar og réttilega er heimfærð til 244. gr. almennra hegningarlaga.

 

Kafli IV liður 1.

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar, dags. 9. ágúst 1999, var tilkynnt um innbrot í bifreið frá landbúnaðarráðuneytinu.  Tilkynnandinn, Hreinn Pálmason, sagði að er hann kom að bifreiðinni TZ-268 um morguninn hafi afturhleri verið ólæstur og farið hefði verið inn um hann.  Hann kvað geislaspilara, farsíma og Esso korti hafa verið stolið.  Þá fundust í bifreiðinni ýmsir munir sem tilkynnandi kannaðist ekki við.  Í ljós kom að það voru munir úr bifreiðinni MK-203 sem brotist hafði verið inn í á sömu slóðum.  Samkvæmt skýrslu lögreglunnar, sama dag, var tilkynnt um innbrot í bifreið frá Fiskistofu.  Tilkynnandinn, Ólafur Ólafsson, sagði að þegar hann kom að bifreiðinni MK-203 um morguninn hafi verið búið að stela úr henni myndavél, sjónauka, hitamæli, mælitæki.  Þá hafi innrétting í kringum útvarp verið skemmd.  Einnig hafi þrjú bensínkort verið horfin.

Fyrir dómi hefur ákærði, B, viðurkennt að hafa framið brot það, sem honum er gefið að sök í þessum kafla ákærunnar.  Þar kvaðst hann hafa staðið einn að þessum innbrotum í bifreiðarnar og þjófnuðum en meðákærðu, Helgi Þór og C, hefðu ekki farið inn í bifreiðarnar.  Ákærði kvaðst hafa verið að keyra með strákunum.  Hann hafi skuldað þeim einhverja peninga og hafi því farið og farið inn í bílana. 

Fyrir dóminum var ákærði ítrekað spurður út í framburð hans hjá lögreglu 9. ágúst sl. og varðandi þátt meðákærðu þar sem hann sagði:  "förum þar inn í tvo bíla, ég var að sýna Helga og C, sem var með okkur, hvernig ætti að fara inn í bíla án þess að skemma þá".  Þá var hann spurður um eftirfarandi ummæli sín í sömu skýrslu:  "C og Helgi stóðu álengdar og horfðu á þegar ég var að kenna þeim hvernig ætti að gera þetta án þess að skemma og fá á sig háa bótakröfu" og "ég held þó að þeir hafi báðir komið inn í bílana, ég man að ég stöðvaði þá einu sinni í að skemma með því að rífa í snúrur".  Fyrir dóminum hefur ákærði sagt að meðákærðu hafi ekki farið inn í bifreiðarnar og aðeins verið áhorfendur að þessu.  Ákærði kvaðst sjálfur hafa tekið þjónustukort og fleiri hluti úr þessum bílum en þegar þessu var lokið hafi þeir allir farið upp að Rauðarárstíg 13.  Ákærði kvaðst hafa lent í gæsluvarðhaldi þarna um kvöldið eða morguninn og þegar hann losnaði hafi hann ekkert vitað hvað varð um þessa muni.  Ákærði sagði það vel geta verið að fundist hafi á Rauðarárstíg 13 hleðslutæki og borvél sem var úr bifreiðinni MK-203 en hann kvaðst ekki minnast þess að hafa afhent meðákærða, Erni Þó,r þessa muni.

Með skýlausri játningu ákærða, B, sem er í samræmi við gögn málsins, þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um brot það sem honum er gefið að sök og réttilega er fært til refsiákvæða.

Ákærði, C, neitaði sakargiftum fyrir dómi.  Hann sagðist hafa verið ásamt meðákærðu á Njálsgötu 5 heima hjá H og farið í göngutúr með þeim.  Meðákærði, B, hafi slegið um sig og ætlað að sýna þeim hvað hann væri góður í að brjótast inn í bíla.  Ákærði kvaðst hafa verið tilbúinn að horfa á B þar sem hann neiti aldrei góðri sýningu og sé alltaf tilbúinn til að læra eitthvað nýtt.  Ákærði kvaðst ekki hafa tekið þátt í neinum af þessum þjófnuðum heldur einungis horft á.  Hann hafi ekki farið inn í bifreiðarnar.  Ákærði kvaðst hafa stolið korti því, sem tekið var úr bifreiðinni TZ-268, af H.  Hann sagðist hafa komið næsta dag á Rauðarárstíg 13 til þess að ná í eigur sínar og fengið þann dag veglykil þennan þar sem hann búi á Akranesi, en veglykill þessi mun hafa verið úr bifreiðinni MK-203.

Ákærði, Helgi Þór, neitaði sakargiftum fyrir dómi og bar á sömu lund og meðákærði, C að hann hefði aðeins verið áhorfandi að innbrotum meðákærða ,B, í bifreiðarnar.  Hann kvaðst hafa, ásamt C, hitt B sem ákveðið hafi að taka þá í kennslu með því að sýna þeim hvernig best væri að fara inn í bíla án þess að skemma þá og það hafi hann gert.  Ákærði kvaðst hafa horft á þetta eins og lærlingur.  Aðspurður um það sem hann sagði í skýrslu fyrir lögreglu, dags. 10. ágúst 1999, að þeir B, C og ákærði hafi brotist inn í tvær bifreiðar sem stóðu í Ingólfsstræti, kvaðst ákærði ekki muna eftir því að hafa sagt þetta eða brotist inn í bifreiðar þessar.

Vitnið, Eiríkur Beck rannsóknarlögreglumaður, bar fyrir dómi að brotist hafi verið inn í bifreiðar þær sem í ákæru greinir.  Hann sagði að munir úr þessum bifreiðum hafi fundist að Rauðarárstíg 13 og í aðstöðu í verbúð á Akranesi sem ákærði C hafði aðgang að.  Vitnið staðfesti fyrir dómi að hafa ritað skýrslur um þessi innbrot.

Vitnið, Árni Þór Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður, kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslur sem hann gerði um þessi innbrot.  Ekki þykir ástæða til þess að rekja framburð hans frekar hér.

Vitnið, Börkur Skúlason lögreglumaður, kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslur sem hann gerði um þessi innbrot.  Ekki þykir ástæða til þess að rekja framburð hans frekar hér.

Ákærði, Helgi Þór Kristínarson, kvaðst engu hafa stolið úr bifreiðum þeim sem ákært er út af í kafla IV í ákæru.  Hann kvaðst einungis hafa verið áhorfandi að sýnikennslu meðákærða, B, um það hvernig brjótast ætti inn í bifreiðar.

Sannað er að ákærðu voru allir saman á vettvangi við innbrotin í bifreiðarnar TZ-268 og MK-203 þrátt fyrir að ákærði, B, hafi borið að hann hafi einn opnað þær.  Hann bar fyrir lögreglu að þeir hafi allir farið inn í bifreiðarnar og hafi hann meðal annars gert athugasemdir við að meðákærðu skemmdu snúrur.  Breyting á framburði ákærða, B, um það atriði hér fyrir dómi þykir ekki trúverðug.  Verður því ekki byggt á hinum breytta framburði hér fyrir dómi.  Þá er til þess að líta að hluti af munum þeim sem teknir voru í innbrotum þessum fundust í aðstöðu sem ákærði, C, hafði í verbúð á Akranesi.  Þykir ekki óvarlegt að telja sannað að þeir hafi staðið saman að innbroti í bifreiðarnar í auðgunartilgangi svo sem þeim er gefið að sök í þessum kafla ákærunnar og réttilega er færður til 244. gr. almennra hegningarlaga.

 

Kafli IV liður 2.

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar, dags. 8. ágúst 1999, var tilkynnt um innbrot í bifreið á bifreiðastæði austan við Arnarhvol.  Þar var fyrir tilkynnandi, Svavar Gunnar Jónsson, sem kvað brotist hafa verið inn í bifreiðina VP-382.  Lögreglumenn sáu ummerki þess að hægri hurð hafi verið spengd upp og búið var að brjóta upp hanskahólfið.  Þar sem hljómflutningstæki áttu að vera stóðu vírar út úr mælaborðinu.  Gerði tilkynnandi grein fyrir þeim munum sem stolið hafði verið úr bifreiðinni.

Ákærði, B, hefur viðurkennt að hafa framið brot það, sem honum er þar gefið að sök.  Með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við gögn málsins, þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um brot það sem honum er gefið að sök og réttilega er fært til refsiákvæða.

Ákærði, C, neitaði sakargiftum. Hann kvaðst hafa verið með þeim Helga Þór og B í sýnikennslu, en ekki tekið neitt sjálfur.  Hann kvaðst hafa stolið munum þeim, sem teknir voru úr bifreiðinni VP-382, af H.

Ákærðu, C og Helgi Þór, hafa báðir neitað sakargiftum.  Eins og að framan er rakið kvað C að um sýnikennslu hafi verið að ræða af hálfu ákærða, B en þeir ekki tekið neitt úr bifreiðinni.  Breyting á framburði hér fyrir dómi þykir ekki trúverðug.  Sannað þykir að ákærðu hafi allir tekið þátt í innbrotinu þrátt fyrir að ákærði, B, hafi einn opnað bifreiðina.  Er til þess að líta að þeir voru allir saman á innbrotsstað.  Þykir því ekki varhugavert að telja sannað að ákærðu hafi staðið saman að þeim verknaði sem þeim er gefið að sök í þessum kafla ákærunnar og réttilega er færður til 244. gr. almennra hegningarlaga.

 

Refsingar

[...]

Ákærði, Helgi Þór Kristínarson

Ákærði, Helgi Þór, er fæddur 1972 og hefur ítrekað síðan árið 1989 gerst brotlegur gegn refsilögum og á langan sakarferil að baki.  Ákærði hefur samtals hlotið tólf dóma og gengist undir þrjár sáttir fyrir ýmis brot.  Hann gekkst tvívegis á árunum 1989 og 1990 undir viðurlög fyrir ölvunarakstur og nytjastuld og viðurlög 1995 fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. 

Frá 18 ára aldri hefur ákærði hlotið tólf refsidóma fyrir umferðarlagabrot, nytjastuld, skjalafals, fíkniefnalagabrot og þjófnað.  Þar er helst að nefna að í september 1993 var ákærði dæmdur í 60 daga varðhald fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot en í júní 1994 var ákærða veitt reynslulausn í eitt ár á eftirstöðvum refsingar, 30 dögum.  Í ágúst 1994 var ákærði dæmdur fyrir skjalafals en um hegningarauka var að ræða og ákærða var ekki gerð sérstök refsing.  Þá var ákærði dæmdur í júlí 1995 í 60 daga fangelsi fyrir skjalafals og var fyrrgreind reynslulausn dæmd með.  Með dómi 29. febrúar 1996 var ákærði dæmdur í 3 mánaða fangelsi skilorðsbundið í tvö ár fyrir þjófnað.  Næst var ákærði dæmdur með dómi Hæstaréttar 21. nóvember 1996 í 6 mánaða fangelsi fyrir þjófnað og var dómurinn frá 29. febrúar 1996 dæmdur með.  Ákærða var veitt reynslulausn 5. mars 1997 í eitt ár á eftirstöðvum refsingar, 120 dögum. 

Ákærði hlaut, þann 12. mars 1999, dóm, 100.000 króna sekt fyrir fíkniefnalagabrot og einnig dóm þann 18. maí 1999, 250.000 króna sekt auk ævilangrar ökuleyfissviptingar, fyrir umferðarlagabrot. 

Ákærði hlaut dóm 17. nóvember 1999, 6 mánaða fangelsi, þar af 3 mánuðir skilorðsbundnir í þrjú ár, fyrir þjófnað og hylminguu.  Ákærði hlaut síðan dóm 19. janúar 2000, 6 mánaða fangelsi fyrir umferðarlagabrot, þjófnað og nytjastuld.  Síðast hlaut hann dóm 16. febrúar sl., 3 mánaða fangelsi, fyrir þjófnað og nytjastuld, hegningarauka við dóm 19. janúar 2000. 

Brot þau sem ákærði, Helgi Þór, hefur nú verið fundinn sekur um teljast hegningarauki við dóma frá 19. janúar og 16. febrúar sl.  Ber því að tiltaka ákærða refsingu eftir reglum 78. gr. almennra hegningarlaga.  Þykir refsing ákærða, þegar tillit er tekið til sakaferils hans, verðmæta þeirra sem í húfi voru og hliðsjón höfð af 77. gr. almennra hegningarlaga, hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði.

                [...]

Ákærðu, Helgi Þór, C og B, dæmast til að greiða óskipt málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.  Ekki hefur verið upplýst um annan sakarkostnað í máli þessu.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hjalti Pálmason, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.

Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

[...]

Ákærði, Helgi Þór Kristínarson, sæti fangelsi í 3 mánuði.

[...]

Ákærðu, Helgi Þór, C og B, greiði óskipt málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

            [...]