Hæstiréttur íslands

Mál nr. 106/2005


Lykilorð

  • Rán


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. júní 2005.

Nr. 106/2005.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Jóni Þorra Jónssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Rán.

J var ákærður fyrir rán. J játaði sök og viðurkenndi bótaskyldu sína vegna brotanna. Var háttsemi J talin fullframið rán samkvæmt 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fyrir Hæstarétti krafðist J lækkunar á refsingu. Var refsing J ákveðin 15 mánaða fangelsi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. febrúar 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds sem krefst þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.

Fallist er á forsendur hins áfrýjaða dóms um atriði sem skipta máli við ákvörðun refsingar ákærða að öðru leyti en því að einnig ber að vísa til 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þar sem ákærði framdi brot sitt í félagi við annan mann.

Á hinn bóginn verður refsing ákærða milduð og er hún ákveðin 15 mánaða fangelsi.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Með vísan til 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður ákærði dæmdur til að greiða ¾ hluta kostnaðar af áfrýjun málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Jón Þorri Jónsson, sæti fangelsi í 15 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað ákærða skal vera óraskað.

Ákærði greiði ¾ hluta áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talið málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 króna.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 12. nóvember sl., er höfðað með ákæru útgef­inni af ríkissaksóknara 1. júní 2004, á hendur Jóni Þorra Jónssyni, [...], Hlíðarvegi 55, Kópavogi og A [...], fyrir rán í útibúi Búnaðarbanka Íslands, Vesturgötu 54, Reykjavík, mánudaginn 17. nóvember 2003 sem þeir framkvæmdu eins og hér greinir:  Ákærði A lét ákærða Jóni Þorra í té hníf og lambhúshettu sem hann huldi andlit sitt með er hann fór inn í bankann, ógnaði gjaldkerunum B, fæddri 1973, og C, fæddri 1938, með hnífnum og neyddi B til að láta af hendi kr. 430.000 í peningaseðlum sem ákærði Jón Þorri hafði á brott með sér. Ákærði A ók ákærða Jóni Þorra að Búnaðarbankanum áðurgreindan dag, beið hans í bifreiðinni skammt frá á meðan ákærði Jón Þorri fór inn í bankann og ók honum frá vettvangi með ránsfenginn.

Er þetta talið varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

Vátryggingafélag Íslands hf. krefst bóta að fjárhæð kr. 396.500 auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum til greiðsludags.

Ákærði, Jón Þorri, játar sök og viðurkennir bótaskyldu sína vegna brota sinna.  Af hálfu verjanda hans er þess krafist að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa og að dæmd refsing verði skilorðsbundin. Einnig krefst hann réttargæslu- og málsvarnarlauna.

Ákærði, A, neitar sök. Af hálfu verjanda er þess krafist að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Til vara er gerð krafa um vægustu refsingu er lög leyfa. Þess er aðallega krafist að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara er gerð krafa um að ákærði verði sýknaður af skaðabótakröfunni. Loks er gerð krafa um málsvarnarlaun.

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar í Reykjavík var hún 17. nóvember 2003 kvödd að Vesturgötu 54 í Reykjavík, vegna tilkynningar um yfirvofandi rán í útibúi Búnaðarbanka Íslands. Er lögregla var á leið á vettvang bárust upplýsingar um að viðkomandi einstaklingur hafi farið úr bankanum og hafi hann haldið áleiðis vestur Vesturgötu. Er lögregla kom á vettvang var búið að loka bankanum. Var upplýst að einstaklingurinn hafi verið einn á ferð er hann hafi komið inn í bankann og gert kröfu um að fá afhenta peninga. Hafi hann verið með hníf í hendi. Gjaldkerar gáfu lögreglu lýsingu á viðkomandi einstakling. Eftirlitsmyndavélar voru í bankanum. Á mynd­skeiðum úr eftirlitskerfinu sést karlmaður koma inn í bankann og fara út aftur skömmu síðar. Er hann með hettu á höfði og hníf í hægri hendi. Á myndskeiði kemur fram að maðurinn hallar sér yfir gler er aðskilur gjaldkera og viðskiptavini, beinir hnífi í átt að gjaldkera og réttir að honum poka. Fram kemur að maðurinn yfirgefur bankann með poka í hendi. Grunur beindist fljótlega að ákærða, Jóni Þorra, um að hafa farið í útibú Búnaðarbankans að Vesturgötunni umrætt sinn. Knúði lögregla dyra á dvalarstað hans síðar þennan sama dag. Í kjölfarið var hann handtekinn af lögreglu, grunaður um rán. Að kvöldi mánudagsins 17. nóvember var ákærði, A, einnig handtekinn vegna gruns um aðild að ráninu að Vesturgötu 54.

Ákærði, Jón Þorri, hefur hjá lögreglu og fyrir dómi játað að hafa framið bankarán í útibúi Búnaðarbanka Íslands að Vesturgötu. Atvik hafi verið með þeim hætti að meðákærði hafi sótt ákærða á bifreið er hann hafi haft til umráða á dvalarstað ákærða í Garðabænum mánudaginn 17. nóvember 2003. Á þeirri stundu hafi ákærði verið búinn að taka þá ákvörðun að ræna fjármunum úr umræddu útibúi. Hafi hann í því skyni áður verið búinn að skoða aðstæður á Vesturgötunni. Ekki hafi hann upplýst meðákærða um þessi áform sín er hann hafi verið sóttur í Garðabæinn. Hafi ákærði þurft á bifreið að halda til að framkvæma verknaðinn og því leitað til meðákærða. Ákærði hafi ætlað að nota lambhúshettu við verknaðinn Hafi meðákærði hringt í tiltekinn einstakling til að grennslast fyrir um fyrir ákærða hvort sá einstaklingur hefði lambhúshettu aflögu. Það hafi ekki verið. Því hafi verið brugðið á það ráð að nálgast slíka lambhúshettu í Ellingsen. Meðákærði hafi verið ákærða samferða þangað og að beiðni hans stolið slíkri húfu í versluninni, á meðan ákærði hafi fangað athygli starfsmanna verslunarinnar. Ákærði hafi því næst beðið meðákærða um að aka bifreið sinni inn á bifreiðastæði við verslunina 10-11, en bifreiðastæði fyrir verslunina sé fyrir neðan útibú Búnaðarbankans á Vesturgötunni. Fyrst þá hafi ákærði upplýst meðákærða um áform sín um að ræna bankann. Hafi ákærði gripið hníf er meðákærði hafi átt og hafi verið í hanskahólfi bifreiðarinnar. Því næst hafi hann farið úr bifreiðinni og haldið rakleitt inn í útibú bankans. Á leið inn í bankann hafi ákærði sett yfir höfuð sitt lamb­húshettuna, gengið að gjaldkerastúku í bankanum og hrópað á gjaldkerann um að setja peninga í poka, er ákærði hafi haft meðferðis og rétt gjaldkeranum. Einnig hafi hann hrópað á næsta gjaldkera í næstu stúku um að setja peninga í poka og afhenda sér. Af því hafi ekki orðið þar sem viðkomandi gjaldkeri hafi ekki haft poka við hlið sér. Í framhaldi þessa hafi ákærði tekið til sín poka með peningum og því næst hlaupið út úr bankanum. Er hann hafi komið út hafi hann tekið af sér hettuna og haldið að bifreið meðákærða. Hafi hann sest inn í bifreiðina og meðákærði því næst ekið á brott. Leið þeirra hafi legið um Sæbraut og Reykjanesbraut að dvalarstað ákærða í Garðabæ. Ákærðu hafi þar í sameiningu talið þá fjármuni er ákærði hafi haft með sér á brott úr bankanum og hafi fjárhæð þeirra reynst vera 430.000 krónur. Eftir það hafi ákærðu farið saman úr íbúð ákærða. Ákærði hafi farið til fundar við tiltekinn einstakling, er hann hafi skuldað fjármuni vegna kaupa á fíkniefnum. Hafi ákærði greitt honum 330.000 krónur af fjárhæðinni. Því næst hafi ákærðu farið saman í Smáralindina, þar sem ákærði hafi fest kaup á tölvuleikjum fyrir hluta af fjárhæðinni. Hafi ákærði einnig fest kaup á tölvuleikjum í verslun í Skeifunni í Reykjavík. Eftir þetta hafi meðákærði ekið ákærða á ný í Garðabæinn og hafi ákærði verið byrjaður í tölvuleik er lögregla hafi knúið dyra. Eftir það hafi ákærði verið handtekinn. Ákærði kvað aðgerðir sínar hafa komið til vegna fíkniefnaskulda. Þá kvaðst hann hafa haft hníf í hendi í bankanum til að ,,sýnast” en aldrei hefði komið til þess að hann hefði beitt honum. Tók ákærði skýrlega fram að meðákærði hafi ekki haft vitneskju um áform ákærða fyrr en er meðákærði hafi stöðvað bifreiðina við verslunina 10-11 umrætt sinn. Þá kvað ákærði meðákærða einskis hafa notið af þeim fjármunum er ákærði hafi haft á brott með sér úr bankanum.  

Ákærði, A, kvaðst ekki hafa átt þátt í ráni útibús Búnaðarbanka Íslands 17. nóvember 2003. Kvaðst hann hafa verið staddur á heimili sínu umræddan dag er meðákærði hafi hringt. Hafi meðákærið farið þess á leit að ákærði myndi aka meðákærða á tvo staði í Reykjavík þann dag. Hafi ákærði tekið vel í það og tekið meðákærða upp í bifreið er hann hafi haft til umráða í nágrenni við dvalarstað meðákærða í Garðabænum. Hafi ákærðu ekið um í Reykjavík. Meðákærði hafi innt ákærða eftir því hvort ákærði þekkti einhvern er ætti lambhúshettu. Hafi ákærði í þeim tilgangi hringt í tiltekinn einstakling. Sá hafi ekki átt lambhúshettu. Þegar það hafi legið fyrir hafi ákærði ekið meðákærða að versluninni Ellingsen. Þar hafi ákærðu farið inn og ákærði stolið lambhúshettu á meðan meðákærði hafi dregið að sér athygli starfsmanna verslunarinnar. Ákærði kvað sér ,,nokkurn vegin” hafa verið ljóst í hvaða tilgangi meðákærði hafi ætlað að nota hettuna, en meðákærði hafi þó ekki verið búinn að skýra frá þeim áformum sínum að ræna útibú Búnaðarbankans á Vesturgötunni. Ákærði hafi ekið bifreið sinni inn á bifreiðastæði við verslunina 10-11 í Héðinshúsinu við Mýrargötu. Þar hafi meðákærði farið út úr bifreiðinni. Hafi hann komið skömmu síðar til baka eftir að hafa rænt bankann. Í kjölfarið hafi ákærði ekið á brott. Um atvik eftir það bar ákærði á sama veg og meðákærði. Kvað hann lögreglu hafa handtekið sig um kvöldið þennan sama dag. Ákærði fullyrti að hann hafi aldrei veitt því athygli að meðákærði hafi tekið hníf ákærða úr hanskahólfi bifreiðarinnar. Þá kvað hann meðákærða hafa lýst yfir nokkru fyrir bankaránið að hann ætlaði sér að ræna banka. Hafi það verið áður en ákærðu hafi tekið lambhúshettuna í Ellingsen. Hafi ákærði þrátt fyrir það talið að meðákærði myndi ekki láta verða af slíku. Annað hafi komið á daginn.

Vitnið, B, kvaðst hafa verið við störf í gjaldkerastúku nr. 2 í útibúi Búnaðarbankans á Vesturgötunni 17. nóvember 2003. Sú stúka sé fyrir miðju af gjaldkerastúkum er komið sé inn í bankann. Laust fyrir kl. 15.30 þann dag hafi ungur hávaxinn maður komið inn í bankann og hafi vitnið veitt því athygli að maðurinn hafi verið með lambhúshettu á höfði. Hafi vitnið orðið skelkað við þetta og því ekki veitt athygli klæðnaði mannsins að öðru leyti. Viðkomandi hafi gengið hratt að gjaldkerastúku vitnisins og rétt vitninu hvítan poka. Hafi vitnið veitt athygli hnífi er maðurinn hafi haldið á í hægri hendi. Hafi hann otað hnífnum að vitninu um leið og hann hafi skipað því að afhenda peninga. Hafi vitnið sett fjármuni í pokann og afhent manninum. Vitnið hafi orðið mjög hrætt og átt erfitt með andardrátt. Hafi maðurinn sífellt otað hnífnum að vitninu á meðan það hafi verið að setja peninga í pokann. Maðurinn hafi einnig gengið að næstu gjaldkerastúku og skipað öðrum gjaldkera að setja einnig peninga í poka. Hafi hann orðið reiður er sá gjaldkeri hafi lýst yfir að enginn poki væri til staðar til að setja peninga í. Eftir að hafa tekið peninga hjá vitninu hafi maðurinn haldið á brott. Síðar þennan dag hafi komið í ljós, eftir talningu, að viðkomandi einstaklingur hafi haft á brott með sér 430.000 krónur, aðallega í 5.000 króna seðlum. Hafi vitnið orðið mjög óttaslegið er það hafi komið heim til sín 17. nóvember, auk þess sem það hafi átt erfiðan tíma lengi þar á eftir. Vitnið kvað sálfræðing bankans hafa aðstoðað starfsmenn eftir atvikið. Hafi vitnið einnig leitað sér meðferðar hjá öðrum sálfræðingi vegna þessa atviks.

Vitnið, C, kvaðst hafa veitt athygli grímuklæddum manni er hafi komið inn í útibú bankans. Hafi vitnið einnig veitt því athygli að maðurinn hafi verið óvenjulega hávaxinn. Maðurinn hafi gengið rakleitt að þeirri gjaldkerastúku er B hafi verið í, rétt B plastpoka og skipað henni að láta sig fá peninga. Um svipað leyti hafi vitnið tekið eftir því að maðurinn hafi verið með hníf í hendi, er hann hafi otað að B innan við gler á afgreiðslubásnum. Hafi maðurinn verið mjög æstur og einnig snúið sér til vitnisins og skipað því að láta sig fá peninga. Um leið hafi hann otað hnífnum að vitninu. Hafi vitnið þá lýst því að það hefði engan plastpoka, en við það hafi maðurinn orðið mjög reiður. Er vitnið hafi verið að leita að poka hafi maðurinn hrifsað til sín þann poka er B hafi rétt honum og því næst hlaupið út. Hafi vitninu fundist atburðarásin fjarstæðukennd í fyrstu. Maðurinn hafi verið mjög ógnandi. Ekki hafi vitninu þó fundist sem lífshættuleg ógn hafi stafað af honum. Hafi vitnið notið aðstoðar sálfræðings bankans eftir atvikið.

Vitnið, Árni Þór Sigmundsson lögreglumaður, staðfesti rannsóknargögn sín fyrir dóminum.

 

Niðurstaða:

Ákærði, Jón Þorri, hefur við rannsókn og meðferð málsins viðurkennt að hafa haft 430.000 krónur á brott með sér úr útibúi Búnaðarbanka Íslands við Vesturgötu 54 í Reykjavík. Hann hefur jafnframt viðurkennt að hafa verið með hníf í hendi og lambhúshettu á höfði er hann hafi skipað gjaldkera að afhenda sér þessa fjármuni. Atvikið hafi átt sér nokkurn aðdraganda, en hann hafi notið aðstoðar meðákærða við að útvega lambhúshettu þá er ákærði hafi haft á höfði. Myndir úr öryggismynda­vélakerfi bankans sýna þessa atburðarás. Þar sést glögglega að ákærði kemur inn í bankann með hníf í hægri hendi og hettu á höfði. Gengur hann að gjaldkerastúku þeirri er B var í og afhendir henni poka. Myndskeið sýnir að ákærði hafi haft hnífinn á lofti og að hann hafi otað honum að B. Þá sýna myndirnar sömu­leiðis að ákærði hafi gengið að gjaldkerastúku C með hettu á höfði. Háttsemi þessi er ótvíræð hótun um líkamlegt ofbeldi, svo sem vitnin B og C hafa borið að ákærði hafi haft í frammi. Er háttsemi ákærða því fullframið rán samkvæmt 252. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærði, A, hefur viðurkennt að hafa aðstoðað meðákærða við að útvega lambhúshettu áður en atburðir áttu sér stað og að hafa ekið honum í nágrenni við útibú Búnaðarbankans. Hefur hann jafnframt viðurkennt að hafa ekið honum á brott eftir verknaðinn. Kvað hann meðákærða hafa lýst yfir fyrir fram, að hann hefði í hyggju að ræna útibú Búnaðarbankans, en á þau áform hafi ákærði ekki trúað. Það hafi ekki verið fyrr en meðákærði hafi komið úr bankanum með fjármunina að ákærða hafi orðið ljóst hvers kyns var. Þá hefur ákærði fullyrt að hann hafi ekki afhent meðákærða hnífinn, heldur hafi meðákærði tekið hann úr hanskahólfi bifreiðarinnar án þess að ákærði hafi veitt því athygli. Jafnframt hefur hann fullyrt að hann hafi einskis notið af ránsfengnum. Framburður ákærða, sem sækir jafnframt stoð í framburð meðákærða, fellur að háttsemi í verknaðarlýsingu ákærðu utan að ákærði hafi látið meðákærða í té hníf. Í ljósi framburðar beggja ákærðu og þeirrar stöðu að ákærði, Jón Þorri, sat í framsæti bifreiðarinnar í farþegasæti, þykir varhugavert að slá föstu að ákærði, A, hafi afhent meðákærða hníf, svo sem ákæra byggir á.

Samkvæmt 252. gr. laga nr. 19/1940 verður rán fullframið með því að beita líkamlegu ofbeldi eða hóta slíku ofbeldi og taka með því eða neyða út fjármuni. Háttsemi ákærða, Jóns Þorra, fellur að þessari verknaðarlýsingu, svo sem áður er rakið. Ákærði, A, beitti hvorki né hótaði að beita líkamlegu ofbeldi er meðákærði hafði fjármunina á brott með sér. Háttsemi hans fólst í því aka meðákærða að brotavettvangi og frá honum aftur. Slík háttsemi telst ekki vera aðalmennska. Hefur ákæruvald ekki sýnt fram á að í ákvæðum laga nr. 19/1940 um rán, felist frávik frá almennum reglum laga nr. 19/1940 um til hverra refsiábyrgð samkvæmt verknaðar­lýsingu taki. Með ákvæðum laga nr. 19/1940 um hlutdeild, sbr. 22. gr. laganna, tekur refsiábyrgð til fleiri aðila en þeirra sem fullfremja það sem brotalýsing ákvæðis tiltekur. Háttsemi ákærða, A, fólst í liðsinni við verkið, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 19/1940, og átti hann með þeim hætti þátt í því að brotið var framið. Verður samkvæmt því að telja að í háttsemi ákærða, A, felist hlutdeild í broti meðákærða. Samkvæmt því hefur hann gerst brotlegur við 252. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 19/1940. 

Ákærði, Jón Þorri, er fæddur 1982. Samkvæmt sakavottorði hefur hann frá árinu 2001 þrisvar sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Frá sama tíma hefur hann tvisvar sinnum gengist undir sáttir vegna brota á umferðarlögum. Í dómi Héraðsdóms Reykjaness 14. nóvember 2002 var ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið í 2 ár vegna brota ákærða á 249. gr. laga nr. 19/1940. Hefur ákærði rofið skilorð héraðsdóms og ber því að ákvarða honum refsingu nú með hliðsjón af 60. gr. laga nr. 1940, sbr. 77. gr. laganna. Þá er brot ákærða nú hegningarauki við tvo dóma Héraðsdóms Norðurlands eystra frá árinu 2004, sem báðir eru vegna brota á lögum um ávana- og fíkniefni. Ber því einnig að tiltaka refsingu eftir 78. gr. laga nr. 19/1940. Í framangreindum dómi Héraðs­dóms Reykjaness var ákærða gefið að sök að hafa framvísað greiðslukorti annars manns í viðskiptum og að hafa greitt með því vörur og þjónustu fyrir samtals 20.989 krónur. Er til þessara brota horft við ákvörðun refsingar. Refsirammi fyrir brot á ákvæðum 252. gr. laga nr. 19/1940 er fangelsi, ekki skemur en 6 mánuði og allt að 10 árum. Hafi mjög mikil hætta verið samfara ráni, getur refsing orðið allt að 16 ára fangelsi. Svo sem refsirammi 252. gr. ber vitni um fellur rán í þann flokk ákvæða almennra hegningarlaga sem einna þyngst refsing liggur við. Er það í samræmi við alvarleika slíkra brota. Ákærði, Jón Þorri, réðst grímuklæddur og með hníf í hendi inn í útibú Búnaðarbankans. Stóð starfsmönnum bankans mikil ógn af honum, svo sem vitnin B og C hafa lýst. Brotin voru ósvífin, en þau hafði ákærði skipulagt fyrir fram. Er eingöngu til þess að líta ákærða til hagsbóta að hann hefur greið­lega játað brot sín. Í ljósi þeirra verndarhagsmuna er búa að baki ákvæðum 252. gr. og framferðis ákærða að öðru leyti er refsing hans ákveðin fangelsi í 2 ár. 

Ákærði, A, er fæddur 1978. Samkvæmt sakavottorði hefur hann í tvígang gengist undir sáttir vegna brota á umferðarlögum. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir hlutdeild, en fram er komið að hann hefur einskis ávinnings notið af ránsfengnum. Með hliðsjón af þessu, sakaferli hans og þess að hann hefur viðurkennt sinn þátt í málinu, er refsing hans ákveðin fangelsi í 8 mánuði, en heimilt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 3 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Vátryggingafélag Íslands hf. hefur krafist skaðabóta að fjárhæð 396.500 krónur, auk vaxta. Ákærði, Jón Þorri, hefur samþykkt skaðabótakröfuna, en ákærði A, hefur mótmælt henni. Skaðabótakrafan byggir á því er tryggingafélagið hefur greitt Búnaðarbanka Íslands í kjölfar ránsins 17. nóvember. Nemur krafan fjár­hæð er ákærði, Jón Þorri, tók til sín, að frádregnu því er endurheimt var af hinum teknu fjármunum. Er skaðabótakrafan og gögn málsins skýr um þetta atriði og verður krafan því tekin til greina. Svo sem áður hefur komið fram hefur ákærði, Jón Þorri, staðhæft að meðákærði hafi einskis notið af hinum teknu fjármunum. Er það í samræmi við framburð meðákærða. Í því ljósi og þar sem brot ákærða, A, felur í sér hlutdeild í broti meðákærða, verður bótaábyrgð alfarið lögð á ákærða, Jón Þorra, og skaðabætur dæmdar eins og í dómsorði greinir. Dráttarvextir miðast við þingfestingu málsins fyrir dómi, þar sem skaðabótakrafan var ekki borin undir ákærða fyrr. 

Ákærði, Jón Þorri, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Höskuldssonar héraðsdómslögmanns, 120.000 krónur.

Ákærði, A, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur.

Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.

Af hálfu ákæruvalds flutti málið Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Jón Þorri Jónsson, sæti fangelsi í  2 ár.

Ákærði, A, sæti fangelsi í 8 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 3 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði, Jón Þorri, greiði Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, 396.500 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verð­tryggingu, nr. 38/2001, frá 17. nóvember 2003 til 22. júní 2004, en dráttarvöxtum skv. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði, Jón Þorri, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Höskuldssonar héraðsdómslögmanns, 120.000 krónur.

Ákærði, A, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur.

Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.