Hæstiréttur íslands
Mál nr. 263/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbússkipti
- Erfðaskrá
- Arfleiðsluhæfi
|
|
Fimmtudaginn 13. júní 2002. |
|
Nr. 263/2002. |
Rakel Ólafsdóttir Sigríður Edda Ólafsdóttir Gunnhildur Ólafsdóttir Sjöfn Ólafsdóttir Ólöf Ólafsdóttir Kjartan Örn Ólafsson og Jónína H. Ólafsdóttir (Kristinn Bjarnason hrl.) gegn Láru Ólafsdóttur og Ólafi Oddi Marteinssyni (Sigurður Sigurjónsson hrl.) |
Kærumál. Dánarbússkipti. Erfðaskrá. Arfleiðsluhæfi.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem því var hafnað að Ó hefði brostið hæfi til að gera erfðaskrá eða að aðrir formgallar væru á henni svo ógildingu varði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 29. maí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. júní sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 21. maí 2002, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að erfðaskrá Ólafs Jónssonar frá 20. janúar 1999 yrði ekki metin gild við skipti á dánarbúi hans. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að umrædd erfðaskrá verði ekki lögð til grundvallar við skipti á dánarbúinu. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður.
Eins og málið liggur fyrir verður ekki fallist á með sóknaraðilum að óvissa sé um að Ólafi heitnum Jónssyni hafi verið nægilega ljóst efni erfðaskrár sinnar þegar hann undirritaði hana 20. janúar 1999 þannig að varðað geti ógildingu hennar. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað, en rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 21. maí 2002.
Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 22. apríl 2002.
Sóknaraðilar eru Rakel Ólafsdóttir, Malmö, Svíþjóð, Sigríður Edda Ólafsdóttir, Winnipeg, Manitoba, Canada, Gunnhildur Ólafsdóttir, Tunguseli 1, Reykjavík, Sjöfn Ólafsdóttir, Langholtsvegi 97, Reykjavík, Ólöf Ólafsdóttir, Efstalandi 2, Reykjavík, Kjartan Örn Ólafsson, Hjallalandi 10, Reykjavík og Jónína H. Ólafsdóttir, Litlagerði 1a, Hvolsvelli.
Varnaraðili er Lára Ólafsdóttir, Tröllhólum 3, Selfossi og Gústaf Lilliendahl vegna ófjárráða sonar Láru, Ólafs Odds Marteinssonar, Tröllhólum 3, Selfossi.
Sóknaraðilar gera þær dómkröfur að erfðaskrá arfláta, Ólafs Jónssonar, verði dæmd ógild og ekki lögð til grundvallar við skipti á dánarbúi hans. Þá er gerð krafa um málskostnað að mati dómsins.
Varnaraðilar krefjast þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að erfðaskrá arfláta, Ólafs Jónssonar, verði metin gild og lögð til grundvallar skiptum á dánarbúi hans.
Þá krefjast varnaraðilar málskostnaðar úr hendi sóknaraðila, samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Málsatvik.
Arfláti, Ólafur Jónsson, sem síðast var til heimilis að Lóurima 23, Selfossi, andaðist 7. júlí 2000. Hann var ekki í hjúskap er hann lést, en skylduerfingjar eru aðilar málsins auk bréferfingja, Ólafs Odds Marteinssonar, sem er ólögráða fyrir æsku sakir. Með bréfi 13. júlí 2000 skipaði Sýslumaðurinn á Selfossi Gústaf Lilliendahl til að vera sérstakur lögráðamaður hans við skipti á dánarbúinu.
Dánarbú arfláta var tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 20. september 2000 og skipaður skiptastjóri við skiptin. Á fyrsta skiptafundi sem haldinn var 20. október 2000, kom upp ágreiningur milli erfingja um gildi erfðaskrár arfláta, frá 20. janúar 1999. Erfðaskráin var færð í notarialbók Sýslumannsins á Selfossi sama dag og hún var undirrituð og er hún svohljóðandi:
,,Ég undirritaður Ólafur Jónsson, kt. 030708-4239, til heimilis að Lóurima 23, Selfossi, geri eftirfarandi
erfðaskrá:
Fyrir utan skylduarf skulu dóttir mín Lára Ólafsdóttir, kt. 090372-5059, og sonur hennar Ólafur Oddur Marteinsson, kt. 110993-2269, bæði til heimilis að Lóurima 23 Selfossi, erfa 1/3 af öllum eignum mínum sbr. 35. gr. erfðalaga nr. 8/1962.
Með öllum eignum mínum á ég við allar eigur mínar eins og þær verða við andlát mitt og þær sem hugsanlega verða viðurkenndar sem eign mín síðar, t.d. hitaréttindi á Oddhól.
Skiptist þessi 1/3 hluti þannig að dóttir mín Lára Ólafsdóttir skal fá tvo af þremur pörtum hans en sonur hennar Ólafur Oddur Marteinsson þriðja partinn.
Erfðaskrá þessi fellur úr gildi ef hún er afturkölluð.
Erfðaskrá þessi er undirrituð í viðurvist tveggja votta og gætt er ákvæða 41. gr. og 42. gr. erfðalaga nr. 8/1962.
Selfossi, 20/1 1999
(sign) Ólafur Jónsson
__________________
Ólafur Jónsson
Vottar: Við vottum það með undirskrift okkar að arfleifandi kvaddi okkur til að votta þessa erfðaskrá og hefur arfleifandi ritað undir hana í okkar viðurvist. Við vottum það að arfleifandi hefur gert og undirritað þessa erfðaskrá af fúsum og frjálsum vilja og sé svo heill andlegrar heilsu að hann sé hæfur til að gera hana.
Jörundur Gauksson (sign) kt. 240166-4459
Pálína J. Tómasdóttir (sign) kt. 250143 2579"
Skiptastjóri gat ekki jafnað framkominn ágreining og með bréfi dags. 22. janúar 2001 krafðist skiptastjóri úrlausnar dómsins um gildi hennar.
Við þingfestingu málsins 1. febrúar 2001 krafðist sóknarðili úrskurðar um skyldu Landlæknisembættisins til að láta af hendi gögn um heilsufar hins látna. Með úrskurði dómsins uppkveðnum 22. maí 2001 var kveðið á um að Landlæknisembættið skyldi afhenda fyrir dómi þær sjúkraskrár sem embættið hafði undir höndum og vörðuðu heilsufar arfláta dagana 17.-21. janúar 1999.
Í þessum gögnum er m.a. læknabréf Geirs Friðgeirssonar sérfræðings (óundirritað) varðandi innlögn arfláta á Sjúkrahús Suðurlands en þar var hann lagður inn 15. janúar 1999. Ástæða komu þar er tilgreind ,,akút að morgni v. aðsvifs”. Honum er lýst svo við komu: ,,Níræður maður, rúmlega meðalmaður á vöxt, aðeins þéttholda og með kúluvömb...Húð er þurr, hann er ekki decompenseraður og ekki móður...Neurol. skoðun: Virðist vera eðlileg við komu.”
Í framlögðum athugasemdum hjúkrunarfræðings um veru Ólafs á sjúkrahúsinu kemur fram að ástæða innlagnar hafi verið grunur um blóðtappa við heila og hafi hann verið rænulaus er að honum var komið. Við komu á sjúkrahús hafi hann verið mun hressari og farinn að geta tjáð sig. Um heilsufar hans 16. janúar 1999 er skráð að hann láti vel af sér og öll einkenni virðist horfin og daginn eftir er skráð að hann sé hress og á fótum. Hann láti vel af sér 18. janúar og sé hress og hafi verið mikið á ferðinni. Um heilsufar arfláta 19. sama mánaðar ritar hjúkrunarfræðingur á morgunvakt að arfláti kvarti undan svima og hafi lítið yfirgefið herbergi sitt en á kvöldvakt er skráð að hann láti vel af sér. Um heilsufar hans 20. janúar er ritað að hann kvarti undan svima og hafi ekki farið út úr herbergi sínu.
Auk framangreindra gagna um heilsufar arfláta liggur fyrir í málinu bréf Sigurðar Guðmundssonar landlæknis, dags 20. október 2000. Þar segir m.a. að arfláti hafi fengið ruglköst fyrir átta til níu árum en á þeim tíma sem um ræði sé honum lýst vel áttuðum. Hann hafi venjulega verið glöggur og skýr. Lítillega hafi borið á gleymsku öðru hvoru, en hvorki rugli né merkjum um elliglöp. Í janúar 1999 hafi hann lagst inn á Sjúkrahúsið á Selfossi vegna svimakasts sem talið var stafa annað hvort af skammtíma blóðþurrð í heila (transient ischaemic attack) eða tímabundinni blóðþrýstingslækkun vegna undirliggjandi sjúkdóms. Skömmu eftir komu á deildina hafi hann hins vegar verið kominn í sitt venjulega ástand.
Fyrir dóminn hefur einnig verið lagt vottorð Jens Þórissonar augnlæknis, þar sem hann staðfestir að arfláti hafði afar slæma sjón á vinstra auga og hafi sjón á hægra auga einnig hrakað vegna rýrnunar í augnbotni. Árið 1998 hafi sjón hans dugað til að lesa stórt letur og ,,stauta smærra letur með stækkun”. Árið 1999 hafi sjón hans ekki dugað til lestrar, jafnvel ekki með stækkunargleri.
Jörundur Gauksson héraðsdómslögmaður samdi erfðaskrá þá sem deilt er um í málinu. Aðspurður um tilurð erfðaskrárinnar, kvað hann Brynjólf heitinn frá Hreiðurborg hafa haft samband við sig og beðið sig um að annast gerð erfðaskrárinnar, en Brynjólfur hafi verið vinur arfláta. Hann kvaðst telja að hann hefði farið tvær ferðir á Sjúkrahús Suðurlands til arfláta, fyrst til að fá upplýsingar um efni erfðaskrárinnar, en í þeirri síðari hefði hann gengið frá henni og arfláti undirritað hana. Efni erfðaskrárinnar hafi verið samið að fyrirmælum arfláta og komi vilji hans til arfleiðslu þar skýrt fram. Hann kvað staðreyndavillu í erfðaskrá, þar sem kveðið er á um hitaréttindi í Oddhól, stafa frá sér. Hann kvaðst hafa talið að sú villa skipti engu máli, þar sem kveðið er á um í erfðaskránni að arfþegar erfðu öll réttindi. Hann kvaðst nánast geta fullyrt að hann hefði lesið erfðaskrána upp fyrir arfláta. Vitnið kvað Ólaf hafa gert sér fulla grein fyrir því hvað hann var að gera.
Í vitnisburði Pálínu Tómasdóttur, hjúkrunarfræðings kom fram að Jörundur hefði fengið hana til að vera arfleiðsluvott á erfðaskrá arfláta, en hún hafi verið aðstoðardeildarstjóri á sjúkrahúsinu á þeim tíma. Hún kvaðst hafa annast Ólaf mikið í veikindum hans er hann dvaldist á sjúkrahúsinu. Hún kvað Jörund hafa sýnt Ólafi erfðaskrána eða hann spurt Ólaf hvort honum væri kunnugt um efni erfðaskrárinnar og hafi hann játað því. Hún kvaðst muna að þetta hafi verið síðdegis og hafi Ólafur verið nokkuð hress þennan dag. Hann hafi verið skýr í kollinum þessa daga og ekki hafi verið dagamunur á honum. Hún taldi að hann hefði vitað nákvæmlega hvað erfðaskráin fæli í sér og kvaðst ekki hafa orðið vör við annað en að hann undirritaði hana af fúsum og frjálsum vilja.
Ásta Stefánsdóttir, fulltrúi Sýslumannsins á Selfossi, kom fyrir dóm. Hún kvað arfláta hafa komið á sýsluskrifstofuna í janúar 1999 og óskað eftir því að hún gerði fyrir hann erfðaskrá. Hún hafi neitað því og bent honum á það samrýmdist ekki starfsskyldum hennar, en jafnframt bent honum á fá lögmann til að annast gerð erfðaskrárinnar. Hann hafi brugðist illur við neitun hennar, en nokkru síðar hafi verið komið með vottaða erfðaskrá arfláta til innfærslu hjá sýslumanninum. Hún kvað sig reka minni til að arfláti hefði lýst vilja sínum varðandi erfðaskrána, er hann kom til hennar og kvað hann hafa vitað fullkomlega hvað hann vildi. Vilji hans hefði verið mjög skýr og eindreginn. Hún kvaðst ekki muna hvers efnis erfðaskráin átti að vera, en kvaðst halda að hún myndi það ef efni hennar hefði verið mjög frábrugðið þeim vilja sem arfláti lýsti við hana.
Gústaf Lilliendahl kvaðst hafa verið vinur arfláta og vitað að honum þótti mjög vænt um nafna sinn, Ólaf Odd, og hefði viljað gera erfðaskrá honum til hagsbóta. Arfláti hafi tjáð sér að hann hygðist arfleiða þau Láru að þeim hluta sem honum væri heimilt.
Valgarður Snæbjörnsson kom fyrir dóm. Hann kvaðst hafa verið vinur arfláta og kvað arfláta hafa rætt við sig að Lára og sonur hennar, Ólafur Oddur, ættu að hljóta arf eftir arfláta.
Kristjana Ragnarsdóttir kom fyrir dóm. Hún kvaðst hafa annast arfláta í heimahjúkrun bæði fyrir og eftir sjúkrahúslegu hans árið 1999. Hún kvaðst telja að hann hafi haldið andlegri heilsu alveg til síðasta dags.
Helga Ásta Jónsdóttir kvaðst hafa starfað hjá arfláta sem heimilishjálp eftir að hann kom af sjúkrahúsinu í ársbyrjun 1999. Hann hafi verið vel áttaður og hress og ekkert hafi borið á rugli hjá honum. Hún kvað Láru dóttur hans hafa hjálpað honum mest og verið mest með hann.
Fyrir dóminn komu einnig aðilar málsins þau Lára Ólafsdóttir, Ólöf Ólafsdóttir, Gunnhildur Ólafsdóttir og Jónína Ólafsdóttir, auk vitnisins Ólafs Benediktssonar.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila.
Sóknaraðilar kveða arfláta fyrst hafa fengið heilablóðfall árið 1992 og hafi hann ekki verið samur maður síðan. Þegar erfðaskrá hafi verið gerð hafi arfláti legið á sjúkrahúsi í 5 daga og hafi þá bæði verið mjög sjóndapur og ekki andlega fær um að gera erfðaskrá. Erfðaskráin sé ógildanleg m.a. vegna þess að arfláti hafi verið ólæs vegna sjóndepurðar þegar erfðaskrá var undirrituð. Þá kveða sóknaraðilar erfðaskrána hafa verið gerða að frumkvæði varnaraðila, Láru, sem hafi nýtt sér andlega og líkamlega annmarka arfláta við gerð hennar. Sóknaraðilar byggja og á því að arfleiðsluvottorð erfðaskrárinnar fullnægi ekki skilyrðum erfðalaga að formi til. Þrátt fyrir að um formskilyrði sé að ræða, verði að gera þá kröfu til votta að þeir gangi sjálfstætt úr skugga um þau atriði er fram komi í 42. gr. erfðalaga, og ekki sé nægilegt að arfleiðsluvottorð sé ritað á erfðaskrána og vottar riti undir. Sóknaraðilar byggja á því að slíka sjálfstæða rannsókn skorti af hálfu vottanna, m.a. með tilliti til 2. mgr. 40. gr. erfðalaga. Þá veiki það vottun erfðaskrárinnar að annar vottanna sé lögmaður sá sem augljóslega hafi samið erfðaskrána.
Arfláti hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað hann var að undirrita, enda sé staðreyndavilla í erfðaskránni, þar sem talað sé um hitaréttindi á Oddhóli, en ekki á Álfsnesi. Hlutafélagið Hiti er eigandi hitaréttinda á Álfsnesi og hefði því með réttu átt að taka fram í erfðaskrá að um væri að ræða hlutabréf arfláta í Hita hf. Þessi staðreyndavilla sýni fram á að arfláti hafi ekki vitað hvað hann ritaði undir á sjúkrahúsinu á Selfossi 20. janúar 1999, hvort sem það var vegna þess að hann hafi ekki vitað efni skjalsins, þar sem það hafi ekki verið lesið fyrir hann, eða vegna þess að hann hafi ekki gert sér grein fyrir efni þess vegna andlegra annmarka. Sóknaraðilar benda einnig á að faðir þeirra hafi ávallt ætlast til að erfingjar hans tækju jafnan arf eftir sinn dag, en með erfðaskrá hafi arfláti ráðstafað verulegum hluta eigna sinna. Þá kveða sóknaraðilar að sönnunarbyrði um andlegt og líkamlegt hæfi arfláta hvíli á varnaraðilum og einnig sönnunarbyrði fyrir því að erfðaskráin og arfleiðsluvottorðið fullnægi skilyrðum erfðalaga.
Sóknaraðilar telja að erfðaskrá arfláta sé haldin svo miklum annmörkum að hana beri að ógilda.
Um lagarök vísa sóknaraðilar til erfðalaga nr. 8/1962, einkum VI. kafla laganna, 2. mgr. 34. gr., 40-43. gr., 45 og 46. gr. sömu laga.
Málsástæður og lagarök varnaraðila.
Varnaraðilar mótmæla fullyrðingum um andlegt vanhæfi arfláta, enda hafi ekki verið sýnt fram á sannleiksgildi þeirra. Öll gögn málsins bendi til þess að arfláti hafi verið fullkomlega fær um að ráðstafa réttindum sínum sjálfur og hann hafi verið svo heill heilsu andlega að hann hafi verið hæfur til að gera erfðaskrá.
Í málinu liggi ekki frammi nein læknisfræðileg gögn er sýni að arfláti hafi ekki verið andlega hæfur til að gera erfðaskrá. Þvert á móti staðfesti þau gögn að arfláti hafi verið svo heill heilsu að hann hafi verið til þess hæfur, sbr. 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Í því sambandi vísa varnaraðilar til læknabréfs, þar sem fram kemur að arfláti hafi upphaflega verið lagður inn á sjúkrahús vegna gruns um heilablóðfall, en sá grunur hafi ekki átt við rök að styðjast, heldur hafi um tímabundinn súrefnisskort verið að ræða, sem eigi ekkert skylt við heilablóðfall eða heilablóðtappa. Einungis hafi verið um að ræða skammvinnan súrefnisskort í heila (transient inschemia). Þá beri læknabréfið með sér að arfláti hafi verið kominn í sitt venjulega ástand skömmu eftir komu á sjúkrahúsið. Arfláti hafi svo verið útskrifaður 25. janúar 1999.
Hvorki liggi frammi í málinu gögn um heilablóðfall hjá arfláta 1992, eins og sóknaraðilar haldi fram, né læknisfræðileg gögn um að arfláti hafi ekki verið samur maður eftir það.
Varnaraðilar byggja á því að arfláti hafi einn átt frumkvæði að gerð erfðaskrárinnar og mótmæla þeirri fullyrðingu sóknaraðila að erfðaskráin hafi verið gerð að frumkvæði varnaraðila, Láru. Í gögnum málsins sé ekkert sem bendi til þess, og hafi Lára fyrst fengið vitneskju um tilvist erfðaskrárinnar þegar hún hafi tilkynnt andlát föður síns.
Varnaraðilar mótmæla því ekki að arfláti hafi átt við sjóndepurð að stríða þegar hann gerði erfðaskrá sína, en kveða sjóndepurð hans engu máli skipta um andlegt eða líkamlegt hæfi hans til að gera erfðaskrá. Varnaraðilar byggja á því að erfðaskráin fullnægi bæði efnis- og formkröfum sem gerðar eru til þess að erfðaskrá teljist gild, sbr. ákvæði VI. kafla erfðalaga nr. 8/1962.
Varnaraðilar kveða sóknaraðila bera sönnunarbyrði fyrir þeim fullyrðingum sem þeir byggi á varðandi ógildingarkröfu erfðaskrárinnar. Þeir hafi ekki sýnt fram á að arfleiðsluvottorð fullnægi ekki nauðsynlegum formskilyrðum. Arfleiðsluvottorð erfðaskrárinnar beri þvert á móti með sér að öll formskilyrði 42. gr. erfðalaga séu uppfyllt. Þá sé annar vottanna hjúkrunarfræðingur, er annast hafi arfláta á sjúkrahúsinu. Hinn votturinn sé lögmaður, sem hafi annast gerð erfðaskrárinnar. Vottun hans sé til þess fallin að styrkja erfðaskrána, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998.
Varðandi þá staðreyndavillu sem er í erfðaskránni um hitaréttindi í Oddhóli benda varnaraðilar á að Jörundur Gauksson hafi upplýst að villan stafi frá sér. Varnaraðilar benda og á 2. mgr. 37 gr. erfðalaga til stuðnings máli sínu. Þessi staðreyndavilla sýni með engum hætti að arfleifandi hafi ekki skilið eða vitað hvað hann hafi ritað undir 20. janúar 1999.
Varnaraðilar mótmæla þeirri fullyrðingu sóknaraðila að arfláti hafi ávallt ætlast til að erfingjar hans tækju jafnan arf eftir sig og hafi aðrir sóknaraðilar en Gunnhildur Ólafsdóttir engin samskipti haft við arfláta síðustu árin. Það hafi ekki verið fyrr en arfláti átti stutt eftir að að sóknaraðilar hafi skipt sér af honum.
Varnaraðili, Lára, kveðst hafa annast föður sinn um árabil og hafi samband þeirra verið afar náið. Aðdróttanir um andlegt vanhæfi arfláta eigi ekki nein rök að styðjast. Um svipað leyti og hann gerði erfðaskrá sína hafi verið tekin við hann viðtöl bæði í útvarpi og sjónvarpi, þar sem hann lýsi skoðunum sínum á mönnum og málefnum.
Um lagarök vísa varnaraðilar til ákvæða erfðalaga, einkum VI. kafla laganna.
Niðurstaða.
Í máli þessu er deilt um hvort formskilyrðum erfðalaga hafi verið fullnægt við gerð erfðaskrár Ólafs Jónssonar dags. 20. janúar 1999, en Ólafur lést 7. júlí 2000. Þá er dregið í efa arfleiðsluhæfi arfláta.
Í vottorði arfleiðsluvottanna Jörundar Gaukssonar og Pálínu Tómasdóttur á erfðaskrá hans segir: ,,Við vottum það með undirskrift okkar að arfleifandi kvaddi okkur til að votta þessa erfðaskrá og hefur arfleifandi ritað undir hana í okkar viðurvist. Við vottum það að arfleifandi hefur gert og undirritað þessa erfðaskrá af fúsum og frjálsum vilja og sé svo heill andlegrar heilsu að hann sé hæfur til að gera hana.”
Arfleiðsluvottarnir komu báðir fyrir dóm og kvaðst Jörundur Gauksson héraðsdómslögmaður hafa samið erfðaskrána að beiðni og eftir fyrirmælum arfláta. Hann hafi talið arfláta vera við fulla andlega heilsu er hann undirritaði hana. Þá kvað Jörundur vilja hans til þeirrar arfleiðslu er erfðaskráin mælir fyrir um hafa verið skýran og eindreginn. Hann kvaðst telja nokkuð öruggt að hann hefði lesið erfðaskrána fyrir arfláta áður en hann undirritaði hana.
Pálína Tómasdóttir hjúkrunarfræðingur bar fyrir dómi að hún hefði annast arfláta mikið í veikindum hans er hann lá á sjúkrahúsinu. Hún kvað hann hafa verið við fulla andlega heilsu þann dag sem hann undirritaði erfðaskrána. Hún kvað Jörund hafa spurt arfláta hvort honum væri kunnugt um efni erfðaskrárinnar og arfláti játað því.
Í málinu er óumdeilt að arfláti var mjög sjóndapur síðustu æviár sín og átti afar
erfitt með að lesa hjálparlaust. Í erfðaskrá hans er þess getið að hún sé undirrituð í viðurvist tveggja votta og að gætt sé ákvæða 41. og 42. gr. erfðalaga nr. 8/1962, en þess ekki getið að erfðaskráin hafi verið lesin upp fyrir arfláta, sbr. 2. mgr. 40. gr. erfðalaga. Þrátt fyrir það verður að telja sannað með framburði arfleiðsluvottanna að arfláta hafi verið fullkunnugt um efni erfðaskrár sinnar, er hann undirritaði hana, enda bar Jörundur Gauksson og fyrir dómi að efni hennar endurspeglaði skýran vilja arfláta, og fyrirmæli um efni erfðaskrár hefðu komið frá arfláta einum. Í ljósi framangreinds verður ekki fallist á að ógildingarkröfu á grundvelli þess að formskilyrða erfðalaga hafi ekki verið gætt við gerð erfðaskrárinnar.
Í málinu hafa verið lögð fram gögn frá læknum og hjúkrunarfræðingum um heilsufar arfláta dagana 17.-21. janúar 1999. Í þeim er ekkert að finna er rennt geti stoðum undir staðhæfingar sóknaraðila um að arfláti hafi ekki verið við fulla andlega heilsu er hann undirritaði erfðaskrá sína. Í framburði Pálínu Tómasdóttur, hjúkrunarfræðings, kom fram að þann dag hafi hann verið andlega hress sem endranær. Jörundur Gauksson bar á sama veg. Þá báru Kristjana Ragnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur, sem annaðist arfláta heima, og Helga Ásta Jónsdóttir, sem starfaði hjá arfláta við heimilishjálp, að arfláti hafi verið heill heilsu andlega fram á síðasta dag.
Þannig þykja gögn þau sem lögð hafa verið fyrir dóminn um andlegt heilsufar arfláta er hann undirritaði erfðaskrá sína, sem og framburður vitna fyrir dómi taka af allan vafa um að arfláti hafi verið svo heill heilsu andlega að hann hafi verið fullfær um að gera þá ráðstöfun eigna sinna sem fram kemur í erfðaskránni.
Þegar litið er til framburðar vitnanna Jörundar Gaukssonar og Valgarðs Snæbjörnssonar um vilja arfláta til þeirrar arfleiðslu sem kemur fram í erfðaskrá hans, sem og framburðar Helgu Ástu Jónsdóttur um hver hafi annast varnaraðila mest í veikindum hans, þykir ráðstöfun hans með erfðaskránni hvorki óeðlileg né óskynsamleg.
Í erfðaskránni er staðreyndavilla, en þar segir m.a.: Með öllum eignum mínum á ég við allar eigur mínar eins og þær verða við andlát mitt og þær sem hugsanlega verða viðurkenndar sem eign mín síðar, t.d. hitaréttindi á Oddhól.”
Komið hefur fram í málinu að arfláti átti hitaréttindi í Álfsnesi, en ekki að Oddhóli. Jörundur Gauksson bar fyrir dómi að villa þessi stafaði frá sér, en hann hafi ekki talið hana skipta máli, þar sem kveðið væri á um í erfðaskránni að hún tæki til allra eigna arfláta. Með hliðsjón af framangreindu verður ákvæði þetta framkvæmt í samræmi við það sem talið er að vakað hafi fyrir arfleifanda, þ.e. að arfleiða varnaraðila að 1/3 hluta að öllum eigum sínum, sbr. og 2. ml. 1. mgr. 37. gr. erfðalaga.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið verður kröfu sóknaraðila í máli þessu hafnað og hin umdeilda erfðaskrá Ólafs Jónssonar metin gild.
Í ljósi þessarar niðurstöðu greiði sóknaraðilar málskostnað in solidum til varnaraðila, en hann þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur
Úrskurð þennan kveður upp Ingveldur Einarsdóttir, héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfum sóknaraðila Rakelar Ólafsdóttur, Sigríðar Eddu Ólafsdóttur, Gunnhildar Ólafsdóttur, Sjafnar Ólafsdóttur, Ólafar Ólafsdóttur, Kjartans Arnar Ólafssonar og Jónínu H. Ólafsdóttur er hafnað og metin er gild erfðaskrá Ólafs Jónssonar frá 20. janúar 1999.
Sóknaraðilar greiði in solidum varnaraðilum 300.000 krónur í málskostnað.