Hæstiréttur íslands

Mál nr. 214/2002


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Galli
  • Skaðabætur
  • Afsláttur


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003.

Nr. 214/2002.

Bifreiðar og landbúnaðarvélar hf.

(Ólafur Sigurgeirsson hrl.)

gegn

Sprinkler pípulögnum ehf. og

Agli Ásgrímssyni

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

 

Verksamningur. Galli. Skaðabætur. Afsláttur.

S ehf. var lægstbjóðandi í útboði sem B hf. efndi til á sjálfvirku slökkvikerfi í atvinnuhúsnæði sitt sem var þá í smíðum. Í útboðsgögnum voru meðal annars ákvæði um efni í kerfið og frágang þess, þar á meðal um rör í því. Gerði tilboð S ehf. ráð fyrir að rör yrðu að hluta annarrar gerðar en áskilið var í útboðsgögnum, en félagið hafði tvívegis áður notað slík rör í slökkvikerfi hérlendis og þau hlotið viðurkenningu Brunamálastofnunar ríkisins. B hf. gekk að tilboði S ehf. og var kerfið að verulegu leyti sett upp á árinu 1999. Fljótlega varð vart við leka úr kerfinu. Beiddist B hf. í framhaldi af því dómkvaðningar manns til að skoða og meta til verðs galla á kerfinu. Var niðurstaða hans að rör af umræddri gerð væru ónothæf í vatnsúðakerfi hér á landi vegna efnasamsetningar íslensks vatns. Yrði meðal annars að taka rörin niður og setja í stað þeirra stálrör. Að fenginni niðurstöðu matsmannsins stefndi B hf. annars vegar S ehf. og hins vegar pípulagningameistaranum E til greiðslu á þeim kostnaði sem matsmaðurinn taldi að hlytist af því að koma kerfinu í rétt horf. Héraðsdómur sýknaði S ehf. og E af kröfu B hf. Undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti fékk B hf. dómkvadda yfirmatsmenn til að láta í ljós álit sitt um orsakir annmarkanna, sem komið höfðu í ljós á kerfinu. Niðurstaða þeirra var að rörin, sem notuð voru í kerfið, hefðu ekki þolað efnasnauða og mjúka vatnið í kerfi B hf. Hafi hönnuður kerfisins ekki kannað til hlítar hvort rörin fullnægðu þeim kröfum sem gera þyrfti. Í dómi Hæstaréttar segir að annmarka á kerfinu megi rekja til þess að rör af umræddri gerð séu of efnislítil og sinkhúð í þeim of þunn til að standast tæringu af völdum efnasamsetningar kalds vatns í veitukerfum hér á landi. Sé um að ræða galla á verki S ehf., sem hafi lagt rörin til. S ehf. hafi fengið þær heimildir yfirvalda, sem þörf var á til að nota mætti umrædd rör fyrir slökkvikerfi á árinu 1999. Þótt ætlast verði til að E hafi sem pípulagningameistari átt að hafa sérþekkingu til að meta gæði efnisins, verði ekki horft fram hjá því að í útboðsgögnum hafi verið áskilið að allur búnaður, sem nota átti í verkið, skyldi háður samþykki B hf. Það hafi B hf. gert fyrir atbeina sérfróðra manna, sem hafi annast undirbúning verksins, og hönnun kerfisins ekki sætt athugasemdum yfirvalda. Verði því ekki fallist á að meta megi S ehf. og E til sakar að hafa boðið fram og notað umrædd rör. Verði þeim því ekki gert að greiða B hf. skaðabætur. Aftur á móti beri S ehf. ábyrgð á verkinu án sakar þar sem það hafi lagt til rörin sem reyndust ónothæf. E beri þó ekki ábyrgð á þeim vanefndum þótt hann hafi sem pípulagningameistari tekið að sér ábyrgð á framkvæmd verksins samkvæmt 52. gr. skipulags- og byggingarlaga. Var B hf. því dæmdur afsláttur af verkinu vegna vanefnda S ehf.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. maí 2002. Hann krefst þess að stefndu verði dæmdir í sameiningu til að greiða sér 7.175.800 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 22. janúar 2000 til 1. desember sama árs, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða þeim málskostnað fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt gögnum málsins efndi áfrýjandi um áramót 1998 og 1999 til útboðs á sjálfvirku slökkvikerfi, svokölluðu vatnsúðakerfi, fyrir atvinnuhúsnæði sitt, sem þá var í smíðum að Grjóthálsi 1-3 í Reykjavík. Slökkvikerfi þetta var hannað fyrir áfrýjanda af Tækniþjónustu Ragnars G. Gunnarssonar, sem gerði meðal annars teikningar af því og „drög að verklýsingu til nota við verðkönnun.” Þessum gögnum mun hafa verið dreift til þriggja fyrirtækja, sem höfðu fengist við uppsetningu slökkvikerfa af þessum toga, þar á meðal til stefnda Sprinkler pípulagna ehf. Í drögunum að verklýsingu kom fram að verktaki ætti að taka að sér að leggja og skila fullgerðu og útteknu sjálfvirku slökkvikerfi í húsi áfrýjanda samkvæmt teikningum, sem væru ekki fullgerðar en veittu þó upplýsingar um umfang verksins. Fælist búnaður kerfisins í dælu, pípulögnum, sjálfvirkum vatnsúðurum og tilheyrandi stjórntækjum, en verktaki ætti að leggja til allt efni og vinnu. Skyldi allur búnaður vera viðurkenndur af Brunamálastofnun ríkisins og háður samþykki verkkaupa, en afhenda skyldi með tilboði tæknilegar upplýsingar um sérbúnað, sem boðinn væri. Áskilið var að bjóðendur hefðu „nokkra þekkingu á uppsetningu á vatnsúðakerfum” og jafnframt hlotið viðurkenningu Brunamálastofnunar ríkisins til að leysa slíkt verk af hendi, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 245/1994 um hönnun og uppsetningu sjálfvirkra úðakerfa. Þá var einnig tekið fram að slökkvikerfið væri hannað í samræmi við reglur í enskum staðli, „BS 5306 Part 2:1990 Rules for automatic sprinkler installations”, sbr. 4. gr. fyrrnefndrar reglugerðar. Að öðru leyti voru í drögum að verklýsingu nokkuð ítarleg ákvæði um efni í slökkvikerfið og frágang þess, þar á meðal að rör í kerfinu skyldu vera „svartar stálpípur skv. DIN 2440 en galvaniseraðar í inndælingu fyrir slökkviliðið og öll rör sem standa tóm s.s. frá prófunarlokum, og ýmis smærri rör á lokum.”

Stefndi Egill Ásgrímsson, sem er pípulagningameistari, gerði í nafni stefnda Sprinkler pípulagna ehf. tilboð til áfrýjanda, þar sem boðist var til að vinna framangreint verk fyrir samtals 13.319.314 krónur. Tilboð munu einnig hafa borist í verkið frá tveimur öðrum, annars vegar að fjárhæð 15.819.090 krónur og hins vegar 20.931.900 krónur. Á vegum áfrýjanda hafði kostnaður af verkinu verið áætlaður 17.200.000 krónur. Við opnun tilboða 7. janúar 1999 var rituð fundargerð, þar sem þess var getið um boð stefnda Sprinkler pípulagna ehf. að það væri um „sprinklerkerfi frá POZ-LOK.” Af hálfu áfrýjanda mun hafa verið litið á þetta boð sem frávikstilboð, því þar var miðað við að rör í slökkvikerfið yrðu að hluta af svokallaðri POZ-LOK gerð, en að öðru leyti þeirrar gerðar, sem áskilið var í drögum að verklýsingu og áður er getið. Nánar tiltekið átti samkvæmt tilboðinu að nota þessa sérstöku tegund af rörum í um það bil ¾ hluta slökkvikerfisins, þar sem rör áttu að vera grennst. Samkvæmt aðilaskýrslu stefnda Egils fyrir héraðsdómi hafði hið stefnda félag fyrir þennan tíma flutt inn frá Bandaríkjunum rör af POZ-LOK gerð fyrir slökkvikerfi, sem það hafði sett upp í húsnæði í Spönginni í Reykjavík og Smáratorgi í Kópavogi. Í skýrslu, sem byggingarstjóri húss áfrýjanda gaf fyrir héraðsdómi, kom fram að stefndi Egill hafi greint frá þessu í tengslum við gerð tilboðs síns, auk þess sem hann hafi afhent bækling frá framleiðanda röranna og sýnishorn af þeim. Hann hafi síðan látið jafnframt í té staðfestingu frá Brunamálastofnun ríkisins um að heimilt væri að nota slökkvikerfi, sem gert væri úr þessu efni.

Í málinu liggja fyrir ljósrit af tveimur blaðsíðum úr erlendum bæklingi um rör af POZ-LOK gerð, sem ætla verður að sé sá sami og stefndu afhentu áfrýjanda til skoðunar samkvæmt framansögðu. Þar kemur meðal annars fram að þessi rör hafi hlotið viðurkenningu til notkunar í fjórum mismunandi tegundum slökkvikerfa, þar á meðal bæði í svonefndum blautkerfum og þurrkerfum. Rörin hafi þann kost að þau séu létt og auðvelt sé að vinna úr þeim. Til að auka endingu þeirra séu þau sinkhúðuð að innan og utan eftir nánar tilteknum stöðlum. Á blöðum þessum er sérstaklega vikið að varúðarráðstöfunum, sem mælt sé með að gæta til að forðast tæringu í rörunum ef þau eru notuð í þurrkerfi eða svokölluðu “preaction” kerfi, en samkvæmt gögnum málsins mun vatn aðeins fara inn á þessar tvær tegundir slökkvikerfa ef eldur verður laus í húsnæði, þar sem þau eru, eða reyks verður vart. Þá er jafnframt að finna á blöðum þessum tæknilegar upplýsingar um nánari gerð POZ-LOK röra. Einnig liggur fyrir í málinu bréf Brunamálastofnunar ríkisins 17. nóvember 1997 til stefnda Egils, þar sem viðurkennd eru “rör og samsetningaraðferð í vatnsúðakerfi (sprinkler) frá POZ-LOK”, sem gilda átti til 1. desember 2002. Þar sagði meðal annars eftirfarandi: „Vegna fyrirspurnar sem borist hefur varðandi viðurkenningu á sérstakri samsetningaraðferð á rörum í vatnsúðakerfi, hefur Brunamálastofnun ákveðið að staðfesta skriflega að sá búnaður sem þér hafið til sölu frá POZ-LOK í USA megi skoðast sem viðurkenndur á Íslandi, enda liggi fyrir að hann sé samþykktur af UL eða FM í Bandaríkjunum, VdS í Þýskalandi eða LPC/FOC í Bretlandi. Búnaðurinn viðurkennist til notkunar í vatnsúðakerfi í samræmi við reglugerð nr. 245/1994 ...”.

Af skýrslum, sem gefnar voru fyrir héraðsdómi, er ljóst að áfrýjandi lýsti munnlega yfir samþykki á boði stefnda Sprinkler pípulagna ehf. nokkrum dögum eftir að tilboð höfðu verið opnuð samkvæmt áðursögðu. Skriflegur verksamningur var ekki gerður, en stefndi Egill var skráður 4. mars 1999 hjá byggingarfulltrúa í Reykjavík sem pípulagningarmeistari hússins að Grjóthálsi 1-3 vegna slökkvikerfis. Óumdeilt virðist vera að slökkvikerfið hafi að verulegu leyti verið sett upp á tímabilinu frá 26. janúar til 21. mars 1999, en prófanir gerðar á því milli 18. og 22. síðastnefnds mánaðar. Af gögnum málsins verður ráðið að hönnun slökkvikerfisins hafi að einhverju leyti enn staðið yfir þegar unnið var að uppsetningu þess, en teikningar af því munu fyrst hafa verið áritaðar um samþykki af byggingarfulltrúa í Reykjavík 13. febrúar 2000. Vatni mun hafa verið hleypt á slökkvikerfið í mars og apríl 1999 og áfrýjandi tekið talsverðan hluta hússins í notkun í byrjun síðastnefnds mánaðar. Í skýrslu fyrir héraðsdómi kvað byggingarstjóri hússins vinnu við slökkvikerfið hafa verið haldið áfram eftir það og ekki lokið endanlega fyrr en síðla árs 1999. Þá greindi hann jafnframt frá því að boðað hafi verið til úttekar á kerfinu, sem hafi átt að fara fram meðal annars að viðstöddum starfsmanni byggingarfulltrúa 13. mars 2000, en hætt hafi verið við hana vegna þess að fulltrúi Brunamálastofnunar ríkisins mætti ekki. Hafi aftur verið reynt án árangurs að koma við úttekt, en að endingu verið hætt við það þegar komnir voru fram annmarkar á slökkvikerfinu, sem nánar er greint frá hér á eftir.

II.

Áfrýjandi kveður leka hafa orðið vart í húsi hans að Grjóthálsi 1-3 dagana 22. og 23. janúar 2000 og síðan aftur 17. febrúar sama árs. Í fyrstu hafi ekki verið ljóst af hverju lekinn stafaði, en 18. febrúar 2000 hafi fundist í miðjum vegg leki úr pípu í slökkvikerfinu. Í framhaldi af þessu hafi komið fram leki úr kerfinu á fjórum öðrum stöðum á tímabilinu frá byrjun mars til 7. júní 2000. Eftir að orsök leka varð fyrst ljós samkvæmt framansögðu leitaði áfrýjandi eftir mati Iðntæknistofnunar á ástandi slökkvikerfisins. Fyrir héraðsdómi staðfesti stefndi Egill í aðilaskýrslu sinni að hann hafi veitt starfsmanni Iðntæknistofnunar aðstoð við að taka rör úr kerfinu til nánari athugunar, svo og að hann hafi fylgst með rannsókn stofnunarinnar. Hún lauk rannsókninni með tveimur skýrslum til áfrýjanda 22. mars 2000. Í annarri þeirra var komist að þeirri niðurstöðu að rörin í slökkvikerfinu væru að tærast, bæði sinkhúð innan í þeim og járn utan við hana. Væri ekki eðlilegt að sinkhúðuð rör tærðust á svo skömmum tíma sem hér um ræddi. Var leitt getum að því að tæringin stafaði af súrefni, sem væri með vatninu í slökkvikerfinu. Í hinni skýrslunni var talið að rekja mætti ástand kerfisins til samspils margra þátta, sem í fyrsta lagi fælust í því að kerfið hafi ekki verið lofttæmt við fyllingu, í öðru lagi að þunn sinkhúð í rörum næði ekki að verja þau og í þriðja lagi að rörin væru þunnveggja og því lítill efnismassi til að taka við tæringu. Að fengnum þessum skýrslum leitaði áfrýjandi 29. mars 2000 eftir heimild byggingarfulltrúa, eldvarnareftirlits og Brunamálastofnunar ríkisins til að loka fyrir hluta af slökkvikerfinu og var orðið við því. Samkvæmt málflutningi fyrir Hæstarétti mun kerfið enn vera óvirkt að þessu leyti. Áfrýjandi ritaði jafnframt bréf til stefndu 30. sama mánaðar, þar sem niðurstöður Iðntæknistofnunar voru kynntar og kvörtun komið á framfæri vegna galla. Boðaði áfrýjandi þar kröfu af sinni hendi um skaðabætur eða riftun.

Að beiðni áfrýjanda var 12. maí 2000 dómkvaddur maður til að skoða og meta til verðs galla, sem komið hafi fram í slökkvikerfi hússins að Grjóthálsi 1-3. Í matsgerð, sem lokið var 30. ágúst sama árs, var meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að rörin í efri hluta slökkvikerfisins væru líklega ónýt af ryði, en rör í neðri hluta þess töluvert tærð miðað við aldur. Hafi lofttæmingu kerfisins, hreinsun þess, prófun og úttekt einnig verið áfátt. Rör af POZ-LOK gerð í slökkvikerfinu væru svo illa farin, að minnsta kosti í efri hluta þess, að ekki væri unnt að nota þau áfram í blautkerfi eða breyta því í svokallað “preaction” kerfi. Taldi matsmaðurinn leitt í ljós að þessi gerð röra væri ónothæf í vatnsúðakerfi hér á landi vegna efnasamsetningar íslensks vatns. Yrði því að taka POZ-LOK rörin niður úr slökkvikerfinu og setja í stað þeirra stálrör, sem venja væri að hafa til þeirra nota hér á landi, svo og að koma fyrir búnaði til að unnt yrði að lofttæma kerfið. Matsmaðurinn taldi að kostnaður af þessu yrði alls 7.175.800 krónur. Myndi annars vegar kosta 1.100.000 krónur að taka niður rörin, en hins vegar samtals 6.075.800 krónur að koma síðan slökkvikerfinu í rétt horf. Var þar án nánari sundurliðunar reiknaður allur kostnaður af efni og vinnu vegna viðgerða, hreinsun og prófun kerfisins að þeim loknum, aðstöðu vegna framkvæmda, ráðstöfunum út af hættu á vatnsskemmdum og truflun á starfsemi áfrýjanda í húsinu.

Stefndu mun hafa borist framangreind matsgerð frá áfrýjanda 16. október 2000. Í framhaldi af því buðu þeir áfrýjanda 13. nóvember sama árs að leita samkomulags á þeim grunni að slökkvikerfinu í húsi hans yrði breytt í svokallað „preaction“ kerfi. Um svör áfrýjanda við þessu liggur ekki annað fyrir en að af hans hálfu var stefndu ritað innheimtubréf 6. desember 2000, þar sem krafist var greiðslu framangreindrar fjárhæðar samkvæmt niðurstöðu dómkvadda matsmannsins vegna galla á slökkvikerfinu. Áfrýjandi höfðaði síðan mál þetta 20. febrúar 2001.

Undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti fékk áfrýjandi dómkvadda yfirmatsmenn til að láta í ljós álit um orsakir annmarkanna, sem komið hafi í ljós í slökkvikerfinu í húsi hans, og þá sérstaklega hvort þeir yrðu raktir til efnis í kerfinu eða hönnunar á því. Í yfirmatsgerð 10. febrúar 2003 var komist að þeirri niðurstöðu að POZ-LOK rör, sem notuð voru í slökkvikerfinu, hafi fullnægt þeim stöðlum, sem tilteknir voru af hendi framleiðanda, og verið viðurkennd á nánar tiltekinn hátt erlendis, auk þess sem Brunamálastofnun ríkisins hafi samþykkt notkun þeirra í vatnsúðakerfum. Rörin væru á hinn bóginn háð annmörkum vegna þess hversu efnislítil eða þunnveggja þau væru og sinkhúðin innan í þeim þunn. Þau þyldu af þeim sökum ekki efnasnauða og mjúka vatnið, sem sé í slökkvikerfinu í húsi áfrýjanda. Væri þetta ástæðan fyrir því hvernig farið hafi fyrir kerfinu. Yfirmatsmenn höfnuðu því jafnframt að slökkvikerfinu væri ábótavant fyrir þær sakir að það hafi ekki verið lofttæmt eða sérstökum búnaði komið fyrir í því skyni, enda væri ekki ætlast til slíks í áðurnefndum enskum staðli, sem kerfið var hannað eftir og skírskotað er til í ákvæðum reglugerðar nr. 245/1994. Væri jafnvel óæskilegt að lofttæma kerfið vegna yfirþrýstings, sem leitt gæti af því að kalda vatnið í því hitni. Þá vísuðu yfirmatsmenn til þess að kerfið hafi verið hannað samkvæmt umræddum enskum staðli og teikningar af því samþykktar af byggingarfulltrúa án athugasemda. Á hinn bóginn hafi allt frá árinu 1970 verið opinberar umræða um tæringu í galvanhúðuðum rörum í vatnslögnum hér á landi. Þegar ákveðið hafi verið að nota rör af POZ-LOK gerð í slökkvikerfið í húsi áfrýjanda hafi legið fyrir nægar upplýsingar um skaðsemi íslensks vatns fyrir sinkhúðuð stálrör. POZ-LOK rör hafi verið nýtt lagnaefni hér á landi og hefði hönnuði slökkvikerfisins því verið rétt að kanna til hlítar hvort þau fullnægðu þeim kröfum, sem gera þyrfti. Það töldu yfirmatsmenn hönnuðinn ekki hafa gert og þar með hafi hann látið hjá líða að andmæla notkun þessa efnis í slökkvikerfinu.

III.

Í samræmi við framangreindar niðurstöður yfirmatsgerðar verður að leggja til grundvallar að annmarkar, sem komu fram á slökkvikerfi í húsi áfrýjanda að Grjóthálsi 1-3 og áður er lýst, verði raktir til þess eins að rör af gerðinni POZ-LOK, sem stefndi Sprinkler pípulagnir ehf. notaði í verulegan hluta kerfisins, séu of efnislítil og sinkhúð í þeim of þunn til að standast tæringu af völdum efnasamsetningar kalds vatns í veitukerfum hér á landi. Er þetta galli á verki hins stefnda félags, sem lagði rörin til.

Áfrýjandi hefur ekki borið því við í málinu að stefndu hafi verið kunnugt um þennan annmarka á rörunum þegar umrætt verk var leyst af hendi. Af því, sem áður er rakið, verður ekki annað ráðið en að stefndi Sprinkler pípulagnir ehf. hafi byrjað að flytja inn rör af gerðinni POZ-LOK fyrir slökkvikerfi nokkru áður en félagið tók að sér verkið við hús áfrýjanda, en þó aðeins notað þau við tvö önnur stór verk. Hafði því fengist takmörkuð reynsla af þessum rörum hér á landi. Samkvæmt 3. mgr. 42. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 getur byggingarfulltrúi krafið framleiðanda eða innflytjanda um vottorð eða prófunarskýrslu frá faggiltri prófunarstofu á viðkomandi byggingarsviði um að byggingarefni, sem er til sölu, standist kröfur staðla og byggingarreglugerðar. Verður ekki séð af því, sem fram er komið í málinu, að byggingarfulltrúi í Reykjavík hafi gert slíkar kröfur fyrr en með dreifibréfi í maí 2000 að því er varðar efni í lagnakerfi. Stefndi Egill aflaði sem áður segir í nóvember 1997 viðurkenningar Brunamálastofnunar ríkisins á POZ-LOK rörum til notkunar í slökkvikerfi. Liggur þannig ekki annað fyrir en að með þessu hafi verið fengnar þær heimildir yfirvalda, sem þörf var á til að nota mætti þessi rör fyrir slökkvikerfi í húsum í Reykjavík á árinu 1999. Þótt ætlast verði til að stefndi Egill hafi sem pípulagningameistari átt að hafa sérþekkingu til að meta gæði efnis, sem stefndi Sprinkler pípulagnir ehf. lagði til verksins fyrir áfrýjanda, verður ekki horft fram hjá því, sem áður er getið, að í drögum að verklýsingu var meðal annars áskilið að allur búnaður, sem nota átti við verkið, skyldi háður samþykki áfrýjanda. Sérfróðir menn önnuðust undirbúning verksins fyrir hann og fengu sem fyrr segir í hendur tæknilegar upplýsingar um rörin, sem um ræðir í málinu. Fyrir atbeina þeirra samþykkti áfrýjandi síðan boð hins stefnda félags í verkið og sætti hönnun slökkvikerfisins, þar sem gert var ráð fyrir notkun þessa efnis, engum athugasemdum af hálfu yfirvalda, sem hún var lögð fyrir. Að öllu þessu virtu verður ekki fallist á með áfrýjanda að nægilega hafi verið sýnt fram á að meta megi stefndu til sakar að hafa boðið fram og notað rör af gerðinni POZ-LOK við framkvæmd verksins fyrir hann. Verður stefndu því ekki gert að greiða áfrýjanda skaðabætur.

Með verksamningnum, sem komst á við samþykki áfrýjanda á tilboði stefnda Sprinkler pípulagna ehf. í janúar 1999, tók félagið að sér að skila fullgerðu slökkvikerfi í húsi áfrýjanda að Grjóthálsi 1-3. Eins og að framan greinir hefur verið leitt í ljós með matsgerðum dómkvaddra manna að sá galli var á þessu verki að félagið lagði þar til rör í hluta slökkvikerfisins, sem reynst hafa ónothæf. Á þeirri vanefnd á verksamningnum ber félagið ábyrgð án tillits til sakar. Stefndi Egill var ekki aðili að verksamningnum. Þótt hann hafi tekið að sér sem pípulagningameistari þá ábyrgð á framkvæmd verksins, sem um ræðir í 52. gr. skipulags- og byggingarlaga, sbr. 37. gr. og 40. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, ber hann ekki ábyrgð á þeim vanefndum stefnda Sprinkler pípulagna ehf. á verksamningnum, sem um ræðir í málinu. Verður stefndi Egill samkvæmt þessu sýknaður af kröfu áfrýjanda.

Sem fyrr segir tilkynnti áfrýjandi stefnda Sprinkler pípulögnum ehf. með bréfi 30. mars 2000 að gallar væru komnir fram á verkinu, sem lýst var nánar í áðurnefndum skýrslum Iðntæknistofnunar, og áskildi hann sér rétt til skaðabóta eða riftunar vegna þeirrar vanefndar. Í málinu liggur fyrir að félagið gerði áfrýjanda meðal annars reikninga 27. apríl og 25. júní 1999 fyrir hluta verklauna. Var verkinu því sýnilega ekki lokið fyrr en í fyrsta lagi um þær mundir, sem síðastnefndi reikningurinn var gerður. Þegar af þeirri ástæðu getur hið stefnda félag ekki borið fyrir sig ákvæði 54. gr. þágildandi laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup til varnar gegn kröfu áfrýjanda.

Með framangreindum matsgerðum dómkvaddra manna, sem áfrýjandi hefur lagt fram í málinu, er nægilega sýnt fram á að slökkvikerfið í húsi hans sé ónothæft, hvort heldur sem svonefnt blautkerfi eða „preaction“ kerfi, að því leyti, sem stefndi Sprinkler pípulagnir ehf. notaði þar rör af gerðinni POZ-LOK. Í málinu liggja ekki fyrir önnur gögn um verklaunin, sem áfrýjandi innti af hendi til félagsins fyrir þessi rör og vinnu við þau, en verkstöðuyfirlit með áðurnefndum reikningi félagsins frá 25. júní 1999. Samkvæmt yfirliti þessu, sem er í samræmi við málatilbúnað hins stefnda félags fyrir Hæstarétti, námu þau verklaun alls 3.300.050 krónum. Á áfrýjandi samkvæmt öllu framangreindu rétt til afsláttar þeirrar fjárhæðar úr hendi félagsins vegna vanefnda þess á verksamningi þeirra.

Í málinu hefur stefndi Sprinkler pípulagnir ehf. haldið fram gagnkröfu til skuldajafnaðar að fjárhæð samtals 1.549.281 króna vegna nánar tiltekins aukaverks, búnaðar í slökkvikerfið, sem ekki hafi verið gert ráð fyrir þegar samið var um verkið, og útlagðs kostnaðar fyrir leigu á áhöldum. Þessi krafa er engum haldbærum gögnum studd. Gegn andmælum áfrýjanda verður henni því með öllu hafnað og honum dæmd að fullu áðurgreind fjárhæð afsláttar úr hendi hins stefnda félags.

Áfrýjandi krafði sem áður segir stefnda Sprinkler pípulagnir ehf. um greiðslu samkvæmt matsgerð dómkvadds manns frá 30. ágúst 2000 með innheimtubréfi 6. desember sama árs. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. þágildandi vaxtalaga á áfrýjandi því rétt til dráttarvaxta af kröfu sinni frá þeim degi, sem nánar greinir í dómsorði, en ekki eru skilyrði til að verða við kröfu hans um vexti samkvæmt 7. gr. sömu laga fram að þeim tíma, enda eru honum ekki dæmdar skaðabætur í máli þessu.

Rétt er að málskostnaður milli áfrýjanda og stefnda Egils falli niður í héraði og fyrir Hæstarétti. Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi Sprinkler pípulagnir ehf. dæmdur til að greiða áfrýjanda hluta málskostnaðar hans á báðum dómstigum, sem er ákveðinn í einu lagi svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að því er varðar sýknu stefnda, Egils Ásgrímssonar, af kröfu áfrýjanda, Bifreiða og landbúnaðarvéla hf.

Stefndi, Sprinkler pípulagnir ehf., greiði áfrýjanda 3.300.050 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 6. janúar 2001 til 1. júlí sama árs, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi, Sprinkler pípulagnir ehf., greiði áfrýjanda samtals 1.250.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. mars 2002.

Mál þetta, sem dómtekið var 18. janúar s.l., er höfðað með stefnu birtri 20. febrúar 2001.

Stefnandi er Bifreiðar og landbúnaðarvélar hf., kt. 440169-7089, Grjóthálsi 1, Reykjavík.

Stefndu eru Sprinkler pípulagnir ehf., kt. 520194-2079, Bíldshöfða 18, Reykjavík og Egill Ásgrímsson, kt. 311255-2909, Vatnsendabletti 39, Kópavogi.

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða kr. 15.269.785 með dráttarvöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 22. janúar 2000 til 1. desember sama ár, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga til 1. júlí 2001, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 til greiðsludags. Til vara gerir stefnandi þær kröfur að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða kr. 8.657.233 með dráttarvöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 22. janúar 2000 til 1. desember sama ár, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga til 1. júlí 2001, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 til greiðsludags. 

Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu og eigi að bætast við málskostnaðarfjárhæðina kostnaður af skýrslugerð Iðntæknistofnunar kr. 298.234 og kostnaður af matsgerð dómkvadds matsmanns, kr. 747.000.

Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að þeir verði sýknaðir, báðir eða annar, af kröfum stefnanda og þeim dæmdur málskostnaður úr hendi hans.  Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður í því tilviki felldur niður. 

Stefndi Sprinkler pípulagnir ehf. hefur uppi þá gagnkröfu á hendur stefnanda að honum verði gert að greiða stefnda kr. 1.549.281 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. apríl 2001 til 1. júlí 2001, en samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Málavextir.

Málavextir eru þeir að á árinu 1999 byggði stefnandi atvinnuhúsnæði undir starfsemi sína að Grjóthálsi 1 hér í borg og vegna brunavarna þurfti að setja upp sjálfvirkt úðunarkerfi í húsnæðinu.  Samkvæmt kostnaðaráætlun var gert ráð fyrir að kostnaður vegna þessa næmi kr. 17.200.000.  Leitað var tilboða í verkið og var lægsta tilboðinu tekið, en það var frá stefnda Sprinkler pípulögnum ehf., að fjárhæð kr. 13.319.314.  Samkvæmt drögum að verklýsingu til nota við verðkönnun sem unnin voru af Ragnari G. Gunnarssyni, tæknifræðingi, skyldu pípur í slökkvikerfið að vatnsúðurum vera svartar stálpípur samkvæmt DIN 2440, en galvaniseraðar í inndælingu fyrir slökkviliðið og öll rör sem standa tóm s.s. frá prófunarlokum og ýmis smærri rör á lokum.  Í tilboði stefnda Sprinkler pípulagna ehf. fólst að notuð yrðu svokölluð POZ-LOK rör í stað hefðbundinna stálröra.  Segja stefndu kosti POZ-LOK kerfisins felast í því hversu einfalt sé að setja það saman, því í stað þess að skrúfa rörin saman, séu þau sett saman og tengistykkjum smellt á þau.  Séu þessi rör einfaldari í smíðum en hefðbundnar pípur og þá taki skemmri tíma að setja þau upp og þurfi til þess færri starfsmenn.

Stefndi Egill mun hafa sent stefnanda til skoðunar öll gögn um POZ-LOK rör og þá mun Ragnar G. Gunnarsson hafa skoðað þau.  Í framhaldi af þeirri skoðun sendi stefnandi stefndu teikningar af vatnsúðakerfinu ásamt skýringum.  Kemur þar fram að vatnsúðunarkerfið skuli vera votpípukerfi þar sem pípur séu fylltar með vatni.  Sé kerfið hannað í samræmi við reglur „BS 5306 Part 2; Rules for automatic sprinkler installations” sbr. reglugerð nr. 245/1994.  Þá sé áhættuflokkur venjulegur nr. 3 (OH-3) sem svari til 5 mm vatnsþéttileika á 260 m².  Skuli fylgja ákvæðum reglugerðar og staðals í öllum atriðum auk ákvæða í verklýsingunni og íslenskum reglugerðum og stöðlum sem við eigi.  Nota skuli svartar stálpípur DIN-2440 og samsvarandi tengistykki, Victaulic-tengi fyrir Ø80-100-150 og POZ-LOK pípur, sem viðurkenndar séu af Brunamálastofnun ríkisins.  Í málinu liggur frammi yfirlýsing Guðmundar Gunnarssonar, yfirverkfræðings Brunamálastofnunar ríkisins, en þar kemur fram að Brunamálastofnun hafi ákveðið að staðfesta að umræddur POZ-LOK búnaður megi skoðast sem viðurkenndur á Íslandi, enda liggi fyrir að hann sé samþykktur af UL eða FM í Bandaríkjunum, VdS í Þýskalandi eða LPC/FOC í Bretlandi.  Viðurkennist búnaðurinn því til notkunar í vatnsúðakerfi í samræmi við reglugerð nr. 245/1994 um hönnun og uppsetningu sjálfvirkra úðakerfa.

Tilboði hins stefnda félags dagsettu 8. janúar 1999 var tekið eins og að framan greinir og í sama mánuði var hafist handa um útvegun efnis og uppsetningu kerfisins.  Ekki var gerður skriflegur samningur milli aðila.  Var kerfið sett upp á 1. hæð 26. janúar til 30. sama mánaðar, á 2. hæð 2. febrúar til 3. mars og á milligólfi 1. mars til 21. mars.  Stjórnstöð var sett upp 1. mars til 17. mars og kerfið prófað 18. mars til 22. mars.  Vatn mun hafa verið komið á kerfið í mars og apríl 1999.

Hið stefnda félag heldur því fram að verkið hafi í einu og öllu verið unnið í samræmi við teikningar og verklýsingu sem stefnandi hafi látið honum í té og ekki hafi verið vikið frá þeim.  Hafi þannig verið notaðar svartar stálpípur í hluta kerfisins í samræmi við fyrirmæli teikninga og POZ-LOK pípur þar sem þess hafi verið óskað á teikningum.  Hafi Ragnar G. Gunnarsson, tæknifræðingur, komið reglulega á staðinn af hálfu stefnanda til þess að fylgjast með framvindu verksins.

Í janúarmánuði árið 2000 urðu starfsmenn stefnanda varir við leka í vegg við skrifstofu og munu hafa orðið talsverðar skemmdir á parketi.  Var í fyrstu talið að um væri að ræða leka frá salerni.  Aftur varð vart við leka 17. febrúar sama ár og voru þá rifin göt á vegg milli lagers og skrifstofu og fannst þá leki úr röri í úðunarkerfinu í miðjum vegg.  Stefndi Egill mun þá hafa skipt um pípu í kerfinu þar sem lekans varð vart.  Stefndu halda því fram að stefnandi hafi ekki fyrr en með innheimtubréfi dagsettu 6. desember sama ár gert þeim viðvart um að hann teldi sig eiga kröfur á hendur þeim vegna verksins.  Hið stefnda félag mun hafa boðið stefnanda að breyta votpípukerfinu yfir í svokallað þurrpípukerfi (pre-action kerfi), en því var hafnað.

Stefnandi óskaði eftir því að Iðntæknistofnun skoðaði rör úr kerfinu sem voru tærð í sundur á langsuðu röranna.  Var óskað eftir áliti á tæringunni og ástæðum hennar.  Jafnframt óskaði stefnandi eftir því að stofnunin mæti ástand vatnsúðakerfisins.  Greinargerð stofnunarinnar er í tveimur hlutum, unnin af Einari Jóni Ásbjörnssyni, verkfræðingi og er dagsett 22. mars 2000.  Samkvæmt fyrri hluta greinargerðarinnar taldi hann ástæðu tæringarinnar sennilega vera þá að súrefni hefði komist inn í kerfið.  Súrefni sé í kalda vatninu sem fari inn á kerfið.  Kerfið eigi hins vegar að vera dautt, þ.e. ekkert rennsli á vatninu í kerfinu og ætti þá súrefnið að eyðast og öll tæring að stöðvast.  Hins vegar gæti verið endurnýjun á því og þyrfti að mæla það.  Niðurstaða Einars í seinni hluta greinargerðarinnar var sú að ástand úðakerfisins sé samspil margra þátta sem sennilega megi rekja til eftirfarandi þátta:

1.              Kerfið sé ekki lofttæmt við fyllingu svo að súrefnisríkir lofttappar myndist sem valdi mikilli staðbundinni tæringu á svæðinu þar sem loft og vatn liggja saman.

2.              Þunn sinkhúð nái ekki að verja rörin svo að tæring á suðusaumi og pyttatæring í veggjum hefjist fljótar en ella.

3.              Rörin séu þunnveggja þannig að minni efnismassi sé til að taka við tæringunni.  Tæringin hafi þegar farið gegnum eitt rör í efra kerfinu og önnur rör í því kerfi sem liggi að lofttöppum séu illa farin.

Að mati Einars var neðra kerfið ekki jafn illa farið og efra kerfið miðað við þau sýni sem tekin voru, en miðað við eins árs notkun sé tæringin orðin töluverð.  Tæring sé komin af stað í suðusaum í öllum rörum sem skoðuð hafi verið.  Pyttatæring hafi verið mikil í rörum í miðju efra kerfi, en ekki hafi sést merki um pyttatæringu í neðra kerfi.  Þar hafi hins vegar verið miklar sinkútfellingar.

Með matsbeiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur dagsettri 17. apríl 2000 var þess farið á leit að dómkvaddur yrði hæfur og óvilhallur maður til að skoða og meta til verðs galla á sjálfvirku úðunarkerfi í húsnæði stefnanda.  Á dómþingi 12. maí sama ár var Ragnar Ragnarsson, í dómsendurriti titlaður byggingafræðingur og pípulagningamaður, kvaddur til starfans.  Ragnar titlar sig verkfræðing í matsgerð sinni dagsettri 30. ágúst sama ár.  Matsmaður aflaði sér umsagnar Ragnheiðar Ingu Þórarinsdóttur, verkfræðings hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, varðandi POZ-LOK fyrir vatnsúðakerfi, en  hún mun hafa stundað fræðilegar rannsóknir á ryðmyndun í vatnsrörum.  Hún segir að hefðbundin heitsinkhúðuð rör í neysluvatnslagnir henti ekki vel fyrir mjúka efnasnauða kalda vatnið hérlendis.  Þá segir hún POZ-LOK rörin með mun minni efnisþykkt og mun þynnri sinkhúð en í hefðbundnum heitsinkhúðuðum stálrörum.  Það sé því lítið efnismagn sem megi tærast áður en illa fari.  Að öllum líkindum hafi skortur á lofttæmingu POZ-LOK röra í húsi stefnanda enn frekar flýtt fyrir sundurtæringu, eins og fram komi í skýrslu Iðntæknistofnunar.

Hinn dómkvaddi matsmaður kemst að þeirri niðurstöðu að úttektum, hreinsun, lofttæmingu, prófunum og lokaúttekt á vatnsúðunarkerfinu hafi verið áfátt.  Hafi rannsóknir Iðntæknistofnunar leitt í ljós að þykkt POZ-LOK röranna í kerfinu sé um helmingi minni en staðallinn sem stimplaður er á rörin segi til um og fram komi í bæklingi að eigi að vera.  Þá sé þykkt sinkhúðar einnig helmingi minni en staðlar sem vísað sé til í bæklingi, segi til um.  Hann segir rörin í efra kerfinu líklega ónýt af ryði og rörin í neðra kerfinu séu töluvert tærð miðað við aldur.  Lokaniðurstaða matsmanns er sú að POZ-LOK rörin séu svo illa farin, a.m.k. í efra kerfinu, að ekki væri forsvaranlegt að nota þau áfram, hvorki í blautt né þurrt preaction kerfi.  Fræðilegar niðurstöður athugana séu þær að POZ-LOK rör séu ónothæf í vatnsúðakerfi á Íslandi, eins og reyndar hafi fengist staðfest í vatnsúðakerfi í húsnæði stefnanda.  Lokaniðurstaða sé sú að taka þurfi POZ-LOK rörin úr kerfinu og setja í staðinn svört sinkhúðuð stálrör eins og venja sé að nota í vatnsúðakerfi á Íslandi.

Stefnandi segir að 27. nóvember 2000 hafi orðið vart við frekari leka í söludeild fyrirtækisins á 2. hæð, suðausturhlið og hafi orðið að loka fyrir það svæði, svo og varahlutalager.  Segir stefnandi ekkert vatnsúðunarkerfi  nú á 2. hæð húsnæðisins.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því að efni í umræddum vatnsúðunarkerfi hafi við sölu verið haldið verulegum leyndum göllum, sem seljandi kerfisins, stefndi Sprinkler pípulagnir ehf. og stefndi Egill, sem skrifaði upp á verkið, beri ábyrgð á in solidum, hvort heldur eftir reglum um afslátt af kaupverði eða reglum um skaðabætur.   Hafi seljanda verið eða átt að vera kunnugt um þá galla, sem voru á þeim rörum sem sett hafi verið upp, en stefnandi hafi enga ástæðu haft til að efast um gæði vörunnar.  Bendir stefnandi sérstaklega á viðurkenningu Brunamálastofnunar sem hafi vakið sérstakt traust hjá stefnanda og beri að skoða með hliðsjón af reglunni um áskilda kosti.

Stefnandi byggir kröfu sína um afslátt eða skaðabætur á því að kerfið hafi ekki verið lofttæmt við uppsetningu með þeim afleiðingum að súrefnisríkir lofttappar hafi myndast og valdið mikilli staðbundinni tæringu á svæðinu þar sem loft og vatn liggja saman.  Hljóti ábyrgð efnis og framkvæmdar að liggja hjá seljanda sem hafi tekið að sér að leggja til og setja upp kerfið og einnig hjá meistaranum sem hafi tekið á sig skriflega ábyrgð á því, en stefndi Egill sé pípulagningameistari, sem hafi staðfest ábyrgð sína á lögninni með sérstakri staðfestingu hjá byggingafulltrúa, sbr. ákvæði byggingarreglugerðar og skipulags- og byggingarlaga.

Matsmaður hafi komist að þeirri niðurstöðu að með samanburði á upplýsingum úr bæklingi sem fylgdi POZ-LOK rörunum og mælingum Iðntæknistofnunar hafi komið í ljós að rörin hafi ekki verið í samræmi við lýsingar seljanda.  Samkvæmt lýsingu eigi 40 mm rör að vera með 2.6 mm efnisþykkt, en sýni af rörum sömu stærðar hafi samkvæmt mælingu Iðntæknistofnunar aðeins vera með 1.4 mm efnisþykkt.  Þá hafi þykkt sinkhúðar mælst um 23 mm, en það sé helmingi minna en staðlarnir ASTM A795-97 og EN 10240:1997 gefi upp, þ.e. 64 mm.  Verði því ekki annað séð en rörin séu verulega gölluð, bæði að því er efnisþykkt og þykkt galvanhúðar varði.  Þegar við bætist mistök við lofttæmingu sé ekki hægt að sjá annað en bæði efni og vinna séu stórlega gölluð.

Stefnandi byggir einnig á umsögn Ragnheiðar Ingu Þórarinsdóttur, verkfræðings hjá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins, en að hennar mati henti hefðbundin heitsinkhúðuð rör í neysluvatnslagnir ekki vel fyrir mjúka efnasnauða kalda vatnið hérlendis.  Að hennar áliti séu POZ-LOK rörin með mun minni efnisþykkt og mun þynnri sinkhúð en í hefðbundnum heitsinkhúðuðum stálrörum.  Það sé því lítið efnismagn sem megi tærast áður en illa fer.  Þá komi fram í skýrslu Iðntæknistofnunar að skortur á lofttæmingu hafi enn fremur flýtt fyrir sundurtæringu.

Stefnandi byggir kröfur sínar um afslátt eða skaðabætur á matsgerð hins dómkvadda matsmanns.  Hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að úttektum, hreinsun, lofttæmingu og lokaúttekt á vatnsúðunarkerfinu hafi verið áfátt.  Hafi rannsóknir Iðntæknistofnunar leitt í ljós að þykkt POZ-LOK röranna sé um helmingi minni en staðallinn, sem stimplaður er á rörin, segi til um og fram komi í bæklingi að eigi að vera.  Þá sé þykkt sinkhúðar helmingi minni en staðlar sem vísað sé til í bæklingi segi til um.  Að hans mati séu rörin í efra kerfinu líklega ónýt af ryði og rörin í neðra kerfinu töluvert tærð miðað við aldur.  Þá hafi víða í niðurhengdum loftum verið notaðar röraupphengjur og festingar með gúmmífóðringum, sem ætlaðar séu fyrir venjuleg vatnsrör, en ekki pípur í úðunarkerfi, en óheimilt sé að nota brennanlegt efni í upphengjur fyrir slík kerfi.  Því verði nýjar festingar að uppfylla kröfur um brunavarnir þegar settar verði upp nýjar úðunarpípur í stað POZ-LOK röranna.

Aðalkrafa stefnanda er byggð á kostnaðarmati Ragnars G. Gunnarssonar, tæknifræðings en varakrafan er byggð á kostnaðaráætlun hins dómkvadda matsmanns.  Hinir einstöku kröfuliðir eru sundurliðaðir í stefnu og þykir ekki ástæða til að tíunda það hér nema fallist verði á dómkröfur stefnanda.

Stefnandi byggir á kaup- og verksamningi aðila.  Kröfur á hendur hinu stefnda félagi eru reistar á meginreglum kauparéttar um vanefndaheimildir vegna galla og byggðar á 42. gr. laga nr. 39/1922.  Um fjárhæð afsláttarkröfu vísar stefnandi til þess að venja sé að beita sömu sjónarmiðum og um fjárhæð skaðabótakröfu.  Krafa stefnanda á hendur stefnda Agli byggist á almennu skaðabótareglunni og ákvæðum laga um ábyrgð hans og skyldur sem pípulagningameistara, sem lög nr. 73/1997, 52. gr. og byggingarreglugerð nr. 441/1998, 40. gr.  Þá er vísað til laga nr. 25/1991.  Vaxtakröfur eru reistar á vaxtalögum nr. 25/1987 og lögum nr. 38/2001.  Málskostnaðarkrafa er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefndu.

Stefndi Egill byggir sýknukröfu sína einkum á því að hann hafi ekki verið aðili að samningi stefnanda og hins stefnda félags um uppsetningu umrædds úðarakerfis.  Hafi samningur þar að lútandi verið gerður á milli stefnanda og hins stefnda félags á grundvelli tilboðs félagsins.  Hafi stefndi Egill hvorki verið aðili að þeim samningi né tilboði og verði því ekki gerður persónulega ábyrgur í máli þessu.  Stefndi Egill hafi við framkvæmd verksins einungis komið fram sem starfsmaður  verktakans,  hins stefnda félags, sem sé sjálfstæður lögaðili og beri réttindi og skyldur sem slíkur.  Eigi almenna skaðabótareglan ekki við um stefnda Egil og þá eigi hún heldur ekki við um vanefndaúrræði í samningssambandi stefnanda og hins stefnda félags, enda taki hún einungis til skaðabótaábyrgðar utan samninga.

Stefndi Egill mótmælir vísan stefnanda til ákvæða skipulags- og byggingarlaga og byggingarreglugerðar.  Þau lög og reglugerð feli ekki í sér að staðfesting stefnda Egils fyrir byggingarfulltrúa vegna verksins leiði til þess að hann taki á sig eða beri skaðabótaábyrgð á verkinu.  Stefndi Egill hafi komið fram fyrir hönd félagsins sem pípulagningameistari til að fullnægja lagaáskilnaði og sé fráleitt að með því taki hann persónulega á sig skaðabótaábyrgð á verki, sem hann hafi ekki tekið að sér persónulega að framkvæma. 

Þá mótmælir stefndi Egill vísan stefnanda til laga nr. 25/1991 um skaðsemisábyrgð.  Þau lög eigi ekki við í máli þessu, þar sem þau taki einungis til tjóns sem verði á munum sem ætlaðir séu til einkanota, en þar sem eignir stefnanda séu einungis ætlaðar til atvinnurekstrar hans, falli þær utan gildissviðs laganna.

Telur stefndi Egill því að sýkna beri hann af kröfum stefnanda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.  Verði ekki á það fallist, byggir stefndi Egill sýknukröfur sínar á sömu málsástæðum og hið stefnda félag eins og hér verður rakið.

Stefndu byggja á því að stefnandi hafi ekki skýrt stefndu frá því innan þess frests sem áskilinn sé í 54. gr. laga nr. 39/1922 á hvern hátt hann teldi úðunarkerfinu ábótavant og séu kröfur stefnanda því með öllu fyrndar, enda séu þær eingöngu byggðar á vanefndaúrræðum kauparéttar.  Hið stefnda félag hafi fyrst við móttöku innheimtubréfs dagsettu 6. desember 2000 fengið vitneskju um að stefnandi hefði athugasemdir við verkið.  Hafi þá verið liðnir 20 mánuðir frá því verkinu hafi verið að fullu lokið og vatn komið á það.  Stefndi Egill hafi hins vegar ekki fengið vitneskju um að stefnandi hygðist bera fyrir sig galla á verkinu fyrr en við höfðun máls þessa.  Þá hafi ekki verið óskað eftir dómkvaðningu matsmanns fyrr en rúmum 13 mánuðum eftir afhendingu verksins.  Af þessu leiði að kröfur stefnanda séu fyrndar með vísan til fyrrgreinds lagaákvæðis og langrar dómvenju um túlkun þess.

Þá byggja stefndu á því að ekki hafi verið í ljós leitt hverjar séu orsakir leka í kerfinu og á hvaða hátt efni það sem sett var upp í úðunarkerfið hafi verið gallað.  Umræddar pípur séu viðurkenndar víða um heim og hafi hlotið viðurkenningu Brunamálastofnunar ríkisins.  Telja stefndu að nær liggi að kenna megi aðstæðum í húsnæði stefnanda um að leka varð þar vart.  Þá telja stefndu alls ósannað að myndast hafi lofttappar í úðunarkerfinu og hafi engin gögn verið lögð fram því til stuðnings.  Hafi slíka lofttappa verið að finna benda stefndu á að kerfið hafi verið hannað og teiknað af Ragnari G. Gunnarssyni, tæknifræðingi, sem vann í þágu stefnanda og hafi í engu verið vikið frá teikningum hans eða fyrirmælum um uppsetninguna.  Hafi lofttappar myndast sé því ekki við stefndu að sakast heldur stefnanda sjálfan eða hönnuð kerfisins.  Geti stefndu ekki borið ábyrgð á þeim hönnunargalla og benda á að engu hefði breytt að þessu leyti hvaða efni hefði verið notað í kerfið.  Þá sé ekki útilokað að rekja megi leka til aðstæðna í húsnæði stefnanda, t.d. samsetningu vatns, frágangs rafmagns og fleiri þátta.

Stefndu benda á að í matsgerð sé að finna alvarlegan misskilning matsmanns á þykkt POZ-LOK röranna.  Telji matsmaður efnisþykktina vera helmingi minni en segi í bæklingi um rörin.  Matsmaður leiðrétti þetta við skýrslutöku fyrir dómi og er því óumdeilt að efnisþykkt röranna sé 1.4 mm.

Stefndu byggja á því að verkið hafi alfarið verið unnið eftir fyrirmælum stefnanda, bæði um efnisval og verktilhögun.  Hafi stefnandi gefið fyrirmæli um efnisval á teikningum og hafi því það verið að frumkvæði stefnanda að notaðar voru POZ-LOK pípur í kerfið.  Þá hafi kerfið verið hannað af Ragnari G. Gunnarssyni, tæknifræðingi, fyrir stefnanda og hafi stefndu alfarið fylgt fyrirmælum stefnanda í þessum efnum.  Hafi einhverju verið ábótavant við kerfið beri stefnandi sjálfur eða sérfræðingar á hans vegum ábyrgð á því.  Í verklýsingu hafi verið gert ráð fyrir að úðunarkerfið skyldi vera votpípukerfi, þ.e. vatnsfyllt, í stað þess að vera þurrpípukerfi.  POZ-LOK rörin henti vel í bæði þessi kerfi og verði lekinn rakinn til þess að valið hafi verið votpípukerfi, sé þar einungis við stefnanda sjálfan að sakast.

Stefndu mótmæla því að stefnandi eigi rétt til afsláttar þar sem rörin hafi skort áskilda kosti.  Það hugtak taki einungis til  þeirra tilvika þegar seljandi vöru hafi staðhæft eða lofað ákveðnum kostum vörunnar fyrir eða við kaupsamningsgerð.  Stefndu hafi engar slíkar ábyrgðaryfirlýsingar gefið og eigi það enn síður við í ljósi þess frumkvæðis sem stefnandi átti við val á efni í úðunarkerfið.  Þá verði viðurkenningu Brunamálastofnunar fráleitt jafnað til slíkra loforða stefndu.

Stefndu vekja athygli á því að stefnandi byggi ekki á því að stefndu hafi sýnt af sér sök við uppsetningu kerfisins, hvorki við val á efni né að öðru leyti.  Þá byggja stefndu á því að úðunarkerfi eins og hér um ræðir séu aldrei lofttæmd.  Þess sé ekki þörf og hvorki mælst til þess af hálfu framleiðanda né eftirlitsaðila.  Þá benda stefndu á að fylgt hafi verið til hins ítrasta leiðbeiningum stefnanda og hafi kerfið verið hreinsað, prófað og þrýstiprófað ítarlega upp í 10 bar undir eftirliti Ragnars G. Gunnarssonar og Kjartans Rafnssonar, byggingarstjóra, en lokaúttekt kerfisins hvíli á byggingarstjóra í tilvikum sem þessum.

Stefndu telja slíka annmarka á matsgerð hins dómkvadda matsmanns að ekki verði á henni byggt í máli þessu.  Ekki sé rétt að Brunamálastofnun annist lokaúttekt á úðunarkerfum.  Vottun stofnunarinnar taki einungis til brunaöryggis vöru, sbr. 17. gr. eldri laga um brunavarnir og 25. gr. núgildandi laga nr. 75/2000.  Það sé ekki á verksviði stofnunarinnar að meta aðra þætti viðkomandi vöru.

Stefndu segja það ekki rétt hjá matsmanni að því fylgi vandamál að breyta úðunarkerfinu í þurrpípukerfi sökum loftþrýstings sem þurfi að vera á kerfinu.  Hið rétta sé að loftþrýstingur á slíkum kerfum þurfi aðeins að vera um 0,5 bar og sé einungis hafður til þess að fylgjast með því að rör og úðarar séu heilir.  Komi fram gat eða leki á kerfinu eða úðari opnist, láti lágþrýstiviðvörun slíkra kerfa vita af því, en ekkert vatn komi úr kerfinu.

Þá skilja stefndu ekki þá athugasemd matsmanns að vatnstæma þurfi þurrpípukerfi algjörlega eftir hvert skipti sem það fyllist af vatni og láti hann að því liggja að þar sé um að ræða vankanta á kerfinu.  Stefndu telja þess ekki að vænta að slík kerfi fyllist af vatni nema við bruna og því óvíst að nokkurn tíma þurfi til þess að koma að tæma þurfi það af vatni.

Stefndu benda á að kerfi með POZ-LOK rörum starfi fullkomlega, hvort sem notuð eru vot- eða þurrpípukerfi.  Sé því ekki rétt sú niðurstaða matsmanns að það sé ýmsum vandkvæðum bundið að breyta kerfinu í þurrpípukerfi.  Benda stefndu á að í Smáratorgi hafi kerfi með POZ-LOK pípum verið breytt í þurrpípukerfi og slík kerfi séu notuð á Bessastöðum, Þjóðarbókhlöðunni, Reykholti og víðar.

Þá byggja stefndu á því að matsmaður staðreyni ekki og leiði engar sönnur að því að rekja megi vankanta þá er hann telur vera á kerfinu til þess að notuð voru POZ-LOK rör í kerfið.  Þá sé merkilegt að matsmaður mæli með því að notuð séu svört sinkhúðuð stálrör í ljósi niðurstöðu Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins þar sem fram komi að heitsinkhúðuð stálrör tærist alvarlega af völdum íslenska vatnsins.  Þá sé matsgerðin ekki einhlít að þessu leyti, því matsmaður leggi einnig til grundvallar að notaðar verði venjulegar skrúfaðar galvanhúðaðar stálpípur.  Þá liggi ekkert fyrir um raunverulegt efnismagn í POZ-LOK rörunum eða samanburð á heildarefnismagni þeirra röra annars vegar og sinkhúðaðra stálröra hins vegar.  Séu engar tilraunir gerðar til þess að leiða í ljós mun á rörunum að þessu leyti.  Megi af matsgerð ráða að íslenska vatnið eyðileggi öll lagnaefni í úðunarkerfum.

Varakrafa stefndu er á því reist að kröfur stefnanda séu allt of háar og órökstuddar.  Benda stefndu á að aðalkrafa stefnanda sé mun hærri en heildarkostnaður við uppsetningu kerfisins nam.  Fái það varla staðist þar sem stór hluti kerfisins yrði notaður áfram samkvæmt kostnaðaráætlun þeirri er stefnandi byggir á. 

Þá telja stefndu matsgerð hins dómkvadda matsmanna svo gallaða með vísan til þess sem rakið hefur verið hér að framan að hún geti ekki verið grundvöllur fyrir útreikningi á bóta- eða afsláttarkröfu stefnanda.  Yrði því að dæma bætur eða afslátt að álitum með hliðsjón af þeim miklu annmörkum sem á matsgerðinni séu og þeim vafa sem uppi sé um kröfu stefnanda.

Stefndu telja ágalla á útreikningi á kröfu stefnanda.  Tjón sem verður vegna truflunar á starfsemi í húsnæði stefnanda verði einungis bætt á grundvelli skaðabótaábyrgðar.  Slíkt tjón falli hins vegar utan þess sem skylt sé að bæta á grundvelli afsláttar samkvæmt almennum reglum kröfuréttar.  Kröfur stefnanda gangi hins vegar mun lengra en reglur um afslátt heimili.  Þá telja stefndu ógjörning að átta sig á því hvernig einingaverð í matsgerðinni sé reiknað, þar sem það sé ekki sundurliðað.  Í matsgerðinni ægi saman öllum hugsanlegum kostnaðarliðum án þess að gerð sé viðhlítandi grein fyrir því hvert vægi þeirra sé í einingarverðinu.

Stefndu telja það ganga þvert gegn öllum meginreglum kröfuréttar að stefnandi ætli sér að hagnast á kostnað stefndu og krefjast bóta sem nemi kostnaði við nýjar pípur sem séu miklu dýrari en þær pípur sem settar voru upp.

Stefndu byggja á því að stefnanda beri að takmarka tjón sitt eftir föngum.  Því geti hann ekki krafist þess að stefndu bæti honum kostnað vegna yfirvinnu við uppsetningu nýs úðunarkerfis. 

Þá mótmæla stefndu 8% álagi í kostnaðaráætlun vegna óvissu.  Stefnandi beri alfarið sönnunarbyrðina fyrir ætluðu tjóni sínu og fjárhæð afsláttar í samræmi við almennar reglur kröfuréttar.  Óvissa um útreikninga verði því alls ekki skýrð stefndu í óhag, heldur verði stefnandi að bera hallann af þeirri óvissu sem felist í útreikningum hans og kröfugerð.

Stefndu segjast hafa boðið stefnanda þá lausn að breyta votpípukerfinu í þurrpípukerfi, en í slíkum kerfum sé ekkert vatn í pípum nema elds verði vart.  Stefnandi hafi hafnað þessari málaleitan og í stað þess höfðað mál þetta.  Stefndu telja að tillögur þeirra til úrbóta með þessum hætti hefðu haft sáralítinn kostnað í för með sér.  Stefnandi hafi því virt að vettugi skyldu sína til að takmarka tjón sitt og verði að horfa til þess við mat á þeirri fjárhæð sem stefnanda yrði dæmd úr hendi stefndu.

Stefndu mótmæla dráttarvaxtakröfu stefnanda og upphafstíma dráttarvaxta.

Stefndi Sprinkler pípulagnir ehf. segja gagnkröfu sína á hendur stefnanda til komna vegna ógreidds endurgjalds á grundvelli samnings stefnanda og stefnda um uppsetningu úðakerfisins.  Er gagnkrafan fjórþætt.  Í fyrsta lagi segir stefndi að lagnir á milliloftum hafi verið lagðar án teikninga frá stefnanda.  Hafi verið munnlegt samkomulag um að telja lagnir þessar til aukaverks, sem yrði greitt samkvæmt tímagjaldi.  Hafi verkið tekið þrjá menn á þriðju viku og nemur krafa vegna þessa með virðisaukaskatti kr. 886.440.  Í öðru lagi hafi af hálfu stefnanda verið óskað eftir því að stefndi pantaði 6” öryggisloka vegna dælu.  Ógreiddur kostnaður vegna þessa nemi með virðisaukaskatti kr. 424.112.  Í þriðja lagi hafi dæla í úðunarkerfið, sem flutt hafi verið sérstaklega inn fyrir stefnanda, kostað kr. 140.996 með virðisaukaskatti.  Að lokum hafi stefnandi ekki greitt stefnda útlagðan kostnað vegna leigu á lyftu, kr. 97.733 að meðtöldum virðisaukaskatti.

Stefndu byggja á almennum reglum samningaréttar og reglum kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga, galla og vanefndaúrræði.  Þá vísa stefndu til laga nr. 39/1922.  Málskostnaðarkrafa stefndu er byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa stefnda Egils um virðisaukaskatt á máflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988.

Niðurstaða.

Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um vatnsúðakerfi sem stefndu settu upp í húsnæði stefnanda að Grjóthálsi 1 hér í borg fyrri hluta ársins 1999.  Óumdeilt er að leka varð vart í kerfinu en aðila greinir á um orsök lekans og hvort stefndu beri ábyrgð á honum.

Stefndi Egill reisir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að hann sé ekki réttur aðili máls þessa.  Stefnandi reisir kröfur sína á hendur stefnda Agli á almennu skaðabótareglunni og er óumdeilt að hann hann átti hlut að máli þegar ákveðið var að nota POZ-LOK rör í kerfið og þá annaðist hann uppsetningu kerfisins.  Er málshöfðun stefnanda því réttilega beint að stefnda Agli og verður því ekki fallist á sýknukröfu hans á grundvelli aðildarskorts.

Vatnsúðakerfi eru þannig upp byggð að vatnsrör eru lögð um húsnæðið samkvæmt sérstökum reglum. Á rörin eru settir sjálfvirkir úðastútar með vissu millibili. Innbyggt í þá er hitavar sem bráðnar eða brotnar við ákveðið hitastig og opnast þá fyrir rennsli vatns. Tvær gerðir vatnsúðakerfa eru algengust, annars vegar blautkerfi og hins vegar þurrkerfi. Í húsnæði þar sem hiti er yfir frostmarki eru notuð blautkerfi en þurrkerfi í óupphituðu húsnæði.  Vatnsúðakerfið í húsi stefnanda er blautkerfi.

Í verklýsingu fyrir vatnsúðakerfið er kveðið á um notaðar skuli svartar stálpípur samkvæmt þýskum staðli DIN 2440. Sá staðall tilgreinir efnisþykkt fyrir pípur í stöðluðum stærðum. Hann segir ekki til um efnisgæði pípuefnis að öðru leyti. Pípur skv. DIN 2440 eru gerðar fyrir raf – eða logsuðu eða til þess að snitta (búa til gengjur) og nota skrúfuð tengi til samsetningar og hamp og þéttiefni (“makefni”) til þéttinga.

Stefndi bauð í verkið samkvæmt verklýsingu hönnuða að því undanskildu að boðnar voru pípur af gerðinni POZ-LOK fyrir minni pípustærðir eða ø25-ø40 mm. POZ-LOK pípur eru sinkhúðaðar þunnveggja pípur með sérstökum samsetningum með gúmmíhring til þéttingar og haldið saman með klemmu sem slegin er yfir pípur. Efnisgæðum og samsetningu á pípum er lýst í bæklingi frá framleiðanda og var efnið samþykkt af verkkaupa, stefnanda í máli þessu.

Hönnun vatnsúðakerfisins og uppsetning er í samræmi við breska staðalinn BS 5306. Allar teikningar og allt efni var samþykkt af Brunamálastofnun Íslands.

Iðntæknistofnun Íslands hefur staðfest að tæring hafi myndast á POZ-LOK pípunum, en þær eru efst í kerfinu.  Í stuttu máli er um að ræða samspil súrefnis og vatns. Súrefni kemur frá lofti sem sest í efstu hluta kerfis við áfyllingu. Almennt er talið að loft sé fyrir hendi á vatnsúðakerfum í meira eða minna mæli og fer eftir legu röra í kerfinu og hvernig áfylling á sér stað. Eins og venja er voru hvorki í verklýsingu né hönnun á umræddu vatnsúðakerfi gerðar sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir loftsöfnun.

Þrýstiprófa skal vatnsúðakerfi til að sannreyna þéttleika kerfis. Það var gert fyrir vatnsúðakerfi í húsnæði stefnanda og er hluti af verki því sem stefndu inntu af höndum.

Vatnsúðakerfi skal prófa og fylgjast með reglulega eftir að það hefur verið tekið í notkun skv. reglugerð um hönnun og uppsetningu sjálfvirkra úðakerfa nr. 245/1994. Fylgja skal leiðbeiningum sem Brunamálastofnun hefur gefið út.  Ábyrgð á eftirliti og prófun og viðhaldi vatnsúðakerfi er á hendi eiganda. Þar er m.a. lýst hvernig prófa skal kerfið með því að líkja eftir raunverulegu ástandi þegar vatnsúðahaus opnast eins og gerist við bruna. Vatni er hleypt af kerfi og nýtt vatn kemur í staðinn frá kaldavatnsheimæð og viðvörunarbúnaður kerfis fer í gang.  Rennsli vatns við prófun á sér stað staðbundið við varðloka neðst í kerfi við stjórnbúnað og hefur þessi vatnsendurnýjun engin áhrif á súrefnissöfnun í pípukerfinu almennt. Þessi prófun er gerð ársfjórðungslega. Útskolun á kerfi með kröftugu vatnsrennsli er einnig hluti  eftirlits með kerfi.  Engar fastar reglur eru um tíðni skolunar en í nefndum reglum er talað um skolun á 5-10 ára fresti. Skolun veldur því að allir hlutar kerfis fá vatnsrennsli sem hreinsar óhreinindi innan úr pípum. Engin trygging er fyrir því að kerfið verði lofttæmt frekar en við uppsetningu þess.

Stefnandi byggir málssókn sína m.a. á því að POZ-LOK rörin séu afar þunnveggja eða um helmingi þynnri en gefið sé upp í bæklingi.  Í matsgerð hins dómkvadda matsmanns kemur fram, að veggþykkt röranna hafi við rannsókn Iðntæknistofnunar mælst vera 1,4 mm, að í POZ-LOK-bæklingnum sé gefin upp þykktin 2,6 mm og að skv. staðlinum, sem stimplaður sé á rörin, ASTM A-975-97, eigi þykktin að vera annað hvort 2,77 mm eða 3,68 mm.

Við yfirheyrslu fyrir dómi staðfesti matsmaður að veggþykkt röranna ætti samkvæmt POZ-LOK-bæklingnum í raun að vera 1,3 mm, en reikna má veggþykkt út frá mismun á utan- og innanmáli röra í töflu í bæklingnum.

Í umræddum bæklingi, sem dómendur hafa skoðað, er veggþykkt röranna reyndar gefin upp beint á einum stað (General Specifications) í þumlungamáli (brot úr tommu: 0,050” x 25,4 = 1,3 mm). Ofar á sömu síðu segir enn fremur að rörin skuli vera framleidd samkvæmt ASTM A-795 með frávikum að því er varðar stærðarkröfur  (dimensional requirements).

Ekki er annað í ljós leitt en að stefnandi hafi skoðað eða gefist kostur á að skoða umræddar upplýsingar um POZ-LOK rörin áður en hann tók þá ákvörðun að taka tilboði stefndu.  Verður því ekki fallist á að rörin hafi verið gölluð að þessu leyti, enda er upplýst að mæld þykkt reyndist ekki vera minni en sú sem gefin var upp í þeim gögnum sem stefnanda gafst kostur á að skoða áður en til samninga var gengið.

Stefnandi byggir einnig á því að sinkhúð POZ-LOK röranna sé um helmingi þynnri en samkvæmt stöðlum sem framleiðandi kveðst fylgja.  Í matsgerðinni stendur:  „Þykkt sinkhúðarinnar mældist um 23 mm sem er helmingi minna en ASTM A975-97 og EN 10240:1997 gefa upp fyrir sinkhúðuð rör, þ.e. 64 mm.” Þetta er tekið úr umfjöllun um skýrslu Iðntæknistofnunar, en í skýrslunni sjálfri kemur á hinn bóginn fram að þykktin eigi skv. ASTM A795-97 að vera um 64 mm og skv. EN 10240:1997 eigi hún eftir flokkun að vera 45-55 mm. Þá sagði höfundur skýrslunnar aðspurður við skýrslutöku fyrir dómi, að mæligildið 23 mm væri meðaltal mælinga á nokkrum bútasýnum umræddra röra, teknum á ýmsum stöðum, að gildin hefðu yfirleitt legið á bilinu 21-25 mm og að þau ættu við sinkhúðina bæði innan- og utanvert á öllum hringferli röranna.

Í matsgerð segir svo um POZ-LOK-bæklinginn:  „Innra og ytra byrði röranna er heitgalvanhúðað samkvæmt (ASTM A-525) ...” og í næstu málsgrein: „Annars staðar í bæklingnum kemur fram að POZ-LOK-rörin séu húðuð bæði að utan og innan með sinki samkvæmt ASTM-verklýsingu A-653 G-90 fyrir heitgalvaníserað stál.  Sem ISO 9002 framleiðandi er POZ-LOK skylt að fylgja ströngu eftirlitsferli til að tryggja stöðuga hágæðaframleiðslu.“ Efnislega er fyrri tilvitnunin þýdd úr þeirri síðu bæklingsins, sem er afrituð sem síða 1 af 2 í fylgiskjali nr. 25 með matsgerðinni, en sú síðari úr síðu 2 af 2 í fylgiskjalinu.

Sé rétt greint frá, að POZ-LOK-rörin séu framleidd undir alþjóðlega staðlinum ISO 9002, vottað af  „UL”, eins og gefið er til kynna með  „stimpli” neðst á síðunni (2 af 2), verður að teljast með ólíkindum að sinkgalvanhúðin mælist nær þrisvar sinnum þynnri en hún ætti að vera miðað við það sem framleiðandi gefur upp, og það á  „nokkrum bútasýnum umræddra röra, teknum á ýmsum stöðum”.  Líta verður svo á að upplýsingar sem þessar hefðu átt að gefa tilefni til að kanna gaumgæfilega, hvað fram kemur í stöðlunum ASTM A-525 og ASTM A-653, einkum merkingu “G-90”, úr því að sérstaklega er skírskotað til þessara staðla, en ekki láta nægja að skoða það sem stendur í ASTM A-795. 

Á sömu síðu í bæklingnum og veggþykkt röranna er gefin upp beint í þumlungamáli, á sama stað og stendur að rörin skuli vera framleidd skv. ASTM A-795 með frávikum að því er varðar kröfur um stærðir (dimensional requirements), er einnig getið um frávik frá staðli þessum varðandi kröfur um húðun (coating requirements).  Neðar á síðunni er þessum kröfum nánar lýst: „The inside coating of the pipe shall be G-90 hot-dip galvanized (ASTM A-653) and the outside shall be coated with a polymer coating over a G-90 hot dip galvanized coating.”

Í staðlinum ASTM A-525, sem fjallar um galvanhúðun á plötum (sheets) en ekki sérstaklega rörum, kemur fram að G-90 tákni að sinkhúðin sjálf skuli vega minnst 0,90 oz/ft2 samanlagt báðum megin á plötunni, þ. e. 0,45 oz/m2 á hvorri hlið. Lauslega umreiknað samsvarar þetta tæplega 20 mm þykkt sinkhúðar. 

Í staðlinum ASTM A-653, sem fjallar um galvanhúðun á rörum, kemur fram hliðstætt og í ASTM A-525, þ. e. að G-90 tákni að sinkhúðin sjálf skuli vega minnst 0,90 oz/ft2 samanlagt að innan- og utanverðu á rörinu, sem á sama hátt samsvarar tæplega 20 mm þykkt sinkhúðar bæði að innan og utan.

Eins og að framan er rakið er ekki annað í ljós leitt að stefnandi hafi skoðað eða gefist kostur á að skoða umræddar upplýsingar um POZ-LOK rörin áður en hann tók þá ákvörðun að taka tilboði stefndu.  Verður því ekki fallist á að rörin hafi verið gölluð að þessu leyti, enda verður að telja nægilega sannað að þykkt sinkhúðar hafi ekki reynst vera minni en sú sem gefin var upp í þeim gögnum sem stefnanda gafst kostur á að skoða áður en til samninga var gengið.

Af hálfu stefnanda er einnig á því byggt að kerfið hafi ekki verið lofttæmt við fyllingu, svo að súrefnisríkir lofttappar hafi myndast sem valdið hafi mikilli staðbundinni tæringu á svæðinu þar sem loft og vatn liggja saman.  Í skýrslu Iðntæknistofnunar segir:  „Kerfið er ekki lofttæmt við fylllingu svo að súrefnisríkir tappar myndast …”  Í matsgerð segir hins vegar: „Fyrirspurnir hafa leitt í ljós að vatnsúðakerfið var ekki lofttæmt að lokinni uppsetningu og áður en það var tekið í notkun.”  Í fyrra tilvikinu virðist einungis sem verið sé að útskýra almennt orsakir tæringar, með skírskotun í að lofttæma þyrfti ávallt þegar rörin eru vatnsfyllt, eigi að koma í veg fyrir að loft valdi  „mikilli staðbundinni tæringu”.  Í síðara tilvikinu virðist aftur á móti að verið sé að gefa til kynna, að tæringarskemmdir á rörunum stafi einungis af því að þau hafi ekki verið lofttæmd um leið og vatni var hleypt á þau í fyrsta skipti.

Til þess að lofttæma megi kerfi röra af umræddu tagi við vatnsfyllingu þeirra þarf að vera fyrir hendi einhvers konar afloftunarbúnaður, en fram hefur komið að slíkur búnaður hafi hvorki verið fyrir hendi né gert ráð fyrir honum við hönnun úðakerfisins.  Ekki hefur í þessu sambandi verið sýnt fram á að verktaka, pípulagningameistara eða seljanda vatnsúðakerfis beri skv. lögum eða reglugerðum að lofttæma rör vatnsúðakerfa að lokinni uppsetningu.  Þá verður ekki talið að ofangreindum sé skylt að benda á þörf fyrir afloftunarbúnað vegna sérstakra aðstæðna hér á landi, t.d. vegna skorts á vissum uppleystum efni í fersku veituvatni, sbr. skýrslu Rannsóknarstofnunar byggingariðnarins.

Hluti af stjórnbúnaði umræddra vatnsúðakerfa voru tveir stórir sveifarlokar, sem eru aftæmingarlokar, annar fyrir efra og hinn fyrir neðra kerfið, og voru þeir skoðaðir við vettvangsgöngu. Hvorugur reyndist vera innsiglaður og má af því ráða að búnaðurinn sé þannig hannaður að í raun geti hver sem er hvenær sem er átt við lokana og hleypt vatni af eða á kerfi vatnsúðaröranna. Væri stefnda skylt að sjá til þess að rörin væru stöðugt lofttæmd, þ. e. á milli eftirlitsaðgerða, gæti hann ekki talist hafa slíkt á sínu valdi við þessar aðstæður.  Við ársfjórðungslegt eftirlit samkvæmt reglum Brunamálastofnunar með vatnsúðakerfum er m. a. gert ráð fyrir að aftæmingarlokar séu hreyfðir við prófun á kerfinu, svolitlu vatni hleypt af og síðan á.

Hvort vatnsúðakerfið er lofttæmt að lokinni uppsetningu eða ekki, áður en það er tekið í notkun, hverjum svo sem bæri að sjá um það, getur að mati hinna sérfróðu meðdómenda litlu sem engu breytt varðandi tæringu röranna að innan, þar eð innan þriggja mánaða skal prófa kerfið. Sé talin þörf á að hafa rör vatnsúðakerfis lofttæmd, þyrfti þannig að lofttæma þau í hvert skipti sem prófað er við eftirlit. 

Af rannsókn Iðntæknistofnunar má ráða, að meginorsök pyttatæringar, og þar með leka á nokkrum stöðum, sé sambland af loftrými og vatni, þ. e. loftfasa og vökvafasa, í POZ-LOK-rörunum eftst í efra úðakerfi hússins. Ekki verður séð að ástæða sé til að ætla að niðurstaða þessi sé ekki rétt, enda er á slíkum tilvikum tekið í POZ-LOK-bæklingnum á síðu 2 af 2 í fylgiskjali nr. 25 með matsgerðinni. Er þar skýrt varað við skilyrðum, sem sagt er að valdi hraðari tæringu röranna, eins og þurru og blautu ástandi inni í þeim á víxl, þ. e. þannig að vatn og loft snertist. Enda þótt á þessum stað í bæklingnum sé einungis lýst í smáatriðum hvað gera skuli til þess að koma í veg fyrir slíka snertingu vatns og lofts, þegar um er að ræða þurrpípukerfi, hefði stefnanda (ráðgjafa hans eða hönnuði úðakerfisins) mátt ljóst vera, áður en tilboði stefndu var tekið, að mikilvægt væri að hafa rörin ávallt rækilega lofttæmd á milli prófana við reglubundið eftirlit með kerfinu.

Í máli þessu hafa ekki komið fram fullnægjandi skýringar á því að rörin efst í efra úðakerfinu, þar sem staðfest er að loftrými hafi myndast í þeim, hafa tærst svo víða og eftir eins skamman tíma og greint er frá.  Þannig hefur ekki komið fram hvort rannsakað hafi verið t.d. hvort á rörum úðakerfisins gæti verið eða hafa verið jafnstraumsspenna vegna útleiðslu, sem gæti valdið galvanískri tæringu og ekki liggur fyrir hvort lofthitastig umhverfis rörin ofan til í efra kerfinu gæti hafa legið tiltölulega hátt langtímum saman.  Frekari rannsókna virðist þurfa með til þess að finna megi fullnægjandi skýringar.  Af gögnum málsins má ráða að hvergi hafi fundist mælanleg tæring í POZ-LOK rörum nema þar sem ljóst þótti vera, að þau hefðu ekki verið full af vatni við sýnatöku.  Í skýrslu Iðntæknistofnunar segir að þar sem ætla mætti að rörin hefðu lengi staðið fyllt af vatni hefði sinkhúð þeirra mælst jafnþykk á öllum hringferli þversniða röranna bæði að innan- og utanverðu, en framleiðsluferlið við heitgalvanhúðun væri þess eðlis að jafnþykkt lag sinks legðist á stálið að innan- og utanverðu.  Af þessu má ráða, að eftir um það bil eitt ár eftir fyrstu áfyllingu röranna hafi engin mælanleg eyðing fundist á 21-25 mm þykkri sinkhúð af völdum tæringar, þar sem ætla megi að vatn hafi jafnvel ávallt fyllt rörin eins og í neðra úðakerfinu.  Gagnstætti áliti sérfræðinga, sem um mál þetta hafa fjallað, ætti slíkt að gefa fyrirheit um langa endingu röranna ef þess er gætt að þau séu ávallt full af vatni, einkum ef lítil endurnýjun er á vatninu. 

Með vísan til alls framanritaðs þykir stefnandi því ekki hafa sýnt fram á að umrætt vatnsúðunarkerfi hafi verið haldið neinum þeim göllum sem stefndu beri ábyrgð á og þá hefur stefnanda ekki tekist að sanna að uppsetningu þess hafi á einhvern hátt verið ábótavant.  Ber því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.  Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

                Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn ásamt meðdómsmönnunum Rögnvaldi S. Gíslasyni, efnaverkfræðingi og Sveini Áka Sverrissyni, véltæknifræðingi.  Dómsuppkvaðning dróst fram yfir lögbundinn frest vegna umfangs málsins og anna dómenda, en dómendur og lögmenn aðila töldu ekki þörf á endurflutningi málsins.

DÓMSORÐ:

Stefndu, Sprinkler pípulagnir ehf. og Egill Ásgrímsson, skulu vera sýknir af öllum kröfum stefnanda, Bifreiða og landbúnaðarvéla hf. í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.