Hæstiréttur íslands

Mál nr. 576/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Útburðargerð


Þriðjudaginn 12. október 2010.

Nr. 576/2010.

Sveinn Kjartansson

(sjálfur)

gegn

Stangveiðifélaginu Stakkavík

(Árni Árnason formaður)

Kærumál. Útburðargerð.

SK kærði úrskurð héraðsdóms, þar sem fallist var á kröfu SS um að félaginu yrði heimilað að fá sumarhús í eigu SK fjarlægt af landi jarðarinnar S, sem SS hafði á leigu, yrði með beinni aðfarargerð. Óumdeilt var að aðilar gerðu með sér samkomulag á árinu 1984 um að SK fengi að hafa umrætt hús á jörðinni á meðan hann lifði. Þá var óumdeilt að SK missti eignarhald hússins við gjaldþrot sitt og að SS eignaðist húsið með því að kaupa það af þáverandi þrotabúi SK. Var talið að við það hefði nefnt samkomulag fallið niður, enda SK ekki lengur eigandi hússins sem samkomulagið laut að, en samkomulagið var bundið við persónu hans. Hefði SK ekki fært nein haldbær rök fyrir því hvernig samkomulagið hefði átt að öðlast gildi á nýjan leik, án þess að til kæmi nýr samningur eða samkomulag um endurnýjun þess. Þótti engu breyta að SK hefði eignast húsið aftur á nauðungarsölu árið 2007. Var talið að SK gæti ekki byggt rétt sinn á samkomulagi aðila frá 1984 og því ljóst að húsið stæði á jörðinni í óþökk og gegn betri rétti SS. Var því fallist á kröfu SS um að fá húsið fjarlægt af jörðinni með beinni aðfarargerð á kostnað SK.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. september 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 10. september 2010, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að honum yrði heimilað að fá sumarhús í eigu sóknaraðila fjarlægt af landi jarðarinnar Stakkavík í Selvogi með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og sér dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður, en til vara að hvor aðili verði látinn bera sinn kostnað af málinu.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki fyrir sitt leyti kært úrskurð héraðsdóms og kemur því ekki til álita krafa hans um málskostnað í héraði.

Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili leigutaki jarðarinnar Stakkavík. Sóknaraðili hefur ekki borið fyrir sig að þetta valdi því að varnaraðila sé óheimilt að leita útburðargerðar. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Sveinn Kjartansson, greiði varnaraðila, Stangveiðifélaginu Stakkavík, 100.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðs­dóms Suður­lands 10. september 2010.

Sóknaraðili er Stangveiðifélagið Stakkavík, kt. 630491-1699, Fífumýri 13, Garðabæ, en varnaraðili er Sveinn Kjartansson, 170641-3379, Laufvangi 3, Hafnarfirði.

Sóknaraðili krefst dómsúrskurðar um að sumarhús í eigu varnaraðila verði borið út af landi jarðarinnar Stakkavíkur í Selvogi með beinni aðfarargerð. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að mati dómsins auk þess að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.

Varnaraðili krefst þess að málinu verði vísað frá, en ella að kröfu sóknaraðila um útburðargerð verði hafnað og þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins.

Framangreind krafa sóknaraðila, hér eftir gerðarbeiðanda, ásamt meðfylgjandi gögnum barst dóminum 23. apríl s.l., og var málinu úthlutað til undirritaðs dómara 17. maí sl. Málið var þingfest 9. júní 2010 og var þá frestað til framlagningar greinargerða og skriflegra gagna. Málið var næst tekið fyrir 1. júlí 2010 og lagði þá varnaraðili, hér eftir gerðarþoli, fram greinargerð sína. Var málinu þá frestað til 13. ágúst 2010, til aðalmeðferðar. Þann dag var málið munnlega flutt og tekið til úrskurðar.

Málavextir

Forsaga máls þessa nær aftur til ársins 1984, þegar aðilar málsins gerðu með sér samkomulag, dagsett 23. maí 1984, um heimild gerðarþola til að hafa sumarhús í landi jarðarinnar Stakkavíkur, en óumdeilt er að gerðarbeiðandi sé leigutaki þess lands. Gerðarþoli lýsir í greinargerð sinni deilum vegna jarðarinnar allt frá árinu 1947, en þær deilur stóðu ekki milli aðila þessa máls og hafa ekki sérstaka þýðingu fyrir mál þetta og verða því ekki raktar hér. Gerðarbeiðandi lýsir því í aðfararbeiðni sinni að samkomulag aðila hafi m.a. falið í sér að hús gerðarþola fengi að standa á jörðinni, á þeim stað er það stendur nú, á meðan gerðarþoli lifði. Fyrir afnotin hafi gerðarþoli átt að greiða sömu lóðarleigu og stangveiðifélög þau er einnig leigðu aðstöðu af gerðarbeiðanda við Hlíðarvatn. Þar að auki hafi samkomulagið falið í sér að gerðarþoli hafi átt kost á tilteknum fjölda stangardaga í vatninu árlega og að honum væri heimilt að hlúa að æðarvarpi á tilteknum stað. Samkomulag þetta hafi verið gert með samþykki dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsettu 14. september 1984, enda gæti tímabil samkomulagsins varað lengur en sem nam leigutíma gerðarbeiðanda á jörðinni. Gerðarbeiðandi kveður gerðarþola ekki hafa staðið við sinn hluta samkomulagsins, enda hafi hann aðeins greitt umsamið leigugjald fyrsta árið og engin lóðarleiga sé tekjufærð í reikningum gerðarbeiðanda frá og með árinu 1985. Kveðst gerðarbeiðandi hafa gefist upp á tilraunum sínum til innheimtu leigunnar.

Þá kveður gerðarbeiðandi gerðarþola hafa verið úrskurðaðan gjaldþrota á árinu 2000. Hafi hann þá misst forræði bús síns og þar með á hinu umdeilda húsi. Á húsið hafi þá verið búið að þinglýsa tveimur handhafaskuldabréfum, hvoru að fjárhæð kr. 350.000, en veðhafar hafi ekki séð sér fært að krefjast uppboðs á eigninni við gjaldþrotaskipti bús gerðarþola vegna skorts á lóðarréttindum, svo og vegna þess að þeir hafi talið húsið einskis virði. Gerðarbeiðandi kveðst hafa keypt húsið af þrotabúi gerðarþola fyrir 100.000 kr., en kaupverðið hafi lýst ástandi hússins að nokkru leyti. Með kaupunum kveðst gerðarbeiðandi einnig hafa verið að leysa til sín öll réttindi skv. samkomulaginu frá 23. maí 1984, eins og getið sé um í afsalinu fyrir kaupunum, sem dagsett sé 5. maí 2000.

Gerðarbeiðandi kveðst ekki hafa fengið afhenta lykla að húsinu við kaupin og hafi gerðarþoli og fjölskylda hans haldið áfram að nýta húsið sem sína eign. Hafi gerðarbeiðandi óskað eftir því bréflega 5. apríl 2004 að fá afhenta lykla að húsinu, en því bréfi hafi gerðarþoli aðeins svarað „með skætingi“, eins og gerðarbeiðandi orðar það, með bréfi sínu 29. apríl 2004. Hafi þá gerðarbeiðandi látið skipta um skrá á útihurð, en kveður sóðalegt hafa verið innandyra. Þá tekur gerðarbeiðandi fram að gerðarþoli hafi ekki orðið við óskum um að fjarlægja persónulega muni sína úr húsinu, þrátt fyrir áskoranir þar um.

Gerðarbeiðandi kveður son gerðarþola hafa stefnt föður sínum, með stefnu 20. janúar 2006, til greiðslu skuldar byggðri á áðurnefndum handhafaskuldabréfum sem tryggð höfðu verið með veði í umdeildu sumarhúsi. Þá hafi í málinu verið hafðar uppi kröfur á hendur gerðarbeiðanda um viðurkenningu á veðrétti í húsinu og að viðurkenndur yrði réttur stefnanda málsins til að krefjast fjárnáms í húsinu fyrir fjárkröfu sinni. Kveður gerðarbeiðandi stefnanda málsins síðar hafa fallið frá fyrrgreindum kröfum sínum á hendur gerðarbeiðanda.

Á árinu 2006 kveðst gerðarbeiðandi hafa fengið greiðsluáskorun vegna skuldar gerðarþola sem gerðarbeiðandi kveðst ekki hafa greitt, það eð hann hafi ekki verið skuldari og veðrétturinn véfengdur. Síðla þess árs hafi gerðarbeiðandi sent lögmanni sonar gerðarþola bréf þar sem honum hafi verið boðið að taka til sín persónulega muni gerðarþola sem enn voru í húsinu, ella kynni þeim að verða fargað. Einnig hafi syninum verið boðið húsið til eignar, án endurgjalds, gegn því að það yrði flutt á brott. Hafi tilboð gerðarbeiðanda staðið til 16. október 2006. Tilboðinu hafi verið hafnað með tölvuskeyti frá lögmanninum þann 26. september þess árs. Þann sama dag hafi félaginu verið send tilkynning um nauðungarsölu frá sýslumannsembættinu á Selfossi. Gerðarbeiðandi kveðst hafa mótmælt nauðungarsölunni þar sem ekki væri um fasteign, heldur lausafé að ræða. Kvað sýslumaður um að nauðungarsalan skyldi ekki fara fram. Var ákvörðun sýslumanns lögð fyrir héraðsdóm Suðurlands, sem staðfesti ákvörðunina. Þá hafi málið verið kært til Hæstaréttar sem kveðið hafi upp dóm sinn þann 23. mars 2007 í máli réttarins nr. 115/2007, þar sem felld hafi verið úr gildi ákvörðun sýslumanns. Með því hafi uppboðið náð fram á ganga og var húsið selt á nauðungarsölu til gerðarþola þann 22. maí 2007.

Áður en til uppboðs kom kveðst gerðarbeiðandi hafa sent gerðarþola bréf, hinn 4. maí 2007, þess efnis að áðurnefnt samkomulag þeirra frá 1984 væri úr gildi fallið og léki einhver vafi á því rifti félagið samkomulaginu með vísan til vanefnda gerðarþola. Með bréfi dagsettu 9. maí 2007, hafi gerðarþoli staðfest að hann teldi samkomulagið enn í gildi, þrátt fyrir riftun, aðilaskipti að eigninni og það sem á undan hefði gengið. Hafi gerðarbeiðandi þá á ný sent gerðarþola bréf, dagsett 18. maí 2007, þar sem félagið gerði honum ljóst að samkomulagið væri úr gildi fallið og að ef hann byði í eignina á nauðungaruppboði væri hún án lóðarréttinda og skyldi flutt á brott að uppboði loknu.

Eins og fyrr segir keypti gerðarþoli húsið á nauðungaruppboði þann 22. maí 2007 og voru þar bréf gerðarbeiðanda, dagsett 4. og 18. maí 2007, bókuð sem málsskjöl. Fyrir uppboðið hafi gerðarbeiðandi farið fram á það við sýslumann að bjóðendum í eignina yrði gert að leggja fram tryggingu fyrir brottflutningi hennar, væru þeir með óþekkta greiðslugetu. Var ekki fallist á þá kröfu gerðarbeiðanda. Í fundargerð uppboðsins hafi þó komið fram að húsið skyldi fjarlægt án tafar og hafi gerðarþoli undirritað þá fundargerð. Engu að síður hafi gerðarþoli enga tilraun gert til þess að flytja húsið að brott. Þvert á móti hafi í bréfi frá lögmanni hans, dagsettu 24. maí 2007 komið fram að gerðarþoli teldi sig vera í fullum rétti og hygðist ekki flytja húsið á brott. Hafi þessi afstaða gerðarþola verið ítrekuð með bréfi dagsettu 29. október 2007, sem svar við bréfi gerðarbeiðanda, dagsettu 15. október 2007 þar sem gerðarþola hafi verið veittur lokafrestur til að fjarlægja húsið, að öðrum kosti yrði það fjarlægt á kostnað gerðarþola. Þá kveður gerðarbeiðandi gerðarþola hafa sent sýslumannsembættinu á Selfossi lögbannsbeiðni áður en veittur lokafrestur rann út. Hafi það verið niðurstaða sýslumanns að synja lögbanni á brottflutningi hússins og sú ákvörðun ekki verið borin undir dómstóla. Hafi þá gerðarbeiðandi enn skorað á gerðarþola að fjarlægja húsið og veitt honum frest til 13. desember 2007. Gerðarþoli hafi ekkert aðhafst og standi húsið enn í óleyfi á jörðinni.

Í greinargerð sinni mótmælir gerðarþoli ekki málsatvikalýsingu gerðarbeiðanda né lýsir málsatvikum hvað varðar deilu aðila þessa máls með öðrum hætti. Þó bendir gerðarþoli á að staðhæfing gerðarbeiðenda um innheimtutilraunir sé ekki studd gögnum og fullyrðir að hann hafi greitt alla reikninga sem honum hafi borist, ekki síst frá gerðarbeiðanda.

Málsástæður og lagarök gerðarbeiðanda

Kröfu sína byggir gerðarbeiðandi á því að sumarhús gerðarþola sé lausafé sem njóti engra lóðarréttinda og standi húsið í óleyfi á jörðinni.

Þá byggir hann á því að samkomulag aðila sem áður hafi veitt gerðarþola rétt til að hafa húsið á lóðinni, hafi fallið úr gildi við eigendaskipti á húsinu og þar að auki hafi því, til að taka af öll tvímæli, verið rift.  Þá hafi gerðarþoli vanefnt stórkostlega þann samning sem áður hafi verið í gildi milli aðila, með því að greiða aðeins leigu fyrsta árið en ekki eftir það. Gerðarþola sé þar að auki skylt að fjarlægja húsið enda hafi hann keypt húsið á nauðungarsölu gegn því að það yrði flutt á brott, en gerðarþoli hafi í engu sinnt tilmælum um að fjarlægja húsið.

Varðandi lagarök vísar gerðarbeiðandi til 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og ákvæðis norsku laga Kristján V. frá 1687, nánar tiltekið 6. gr. 14. kapítula VI. bókar.

Málsástæður og lagarök gerðarþola

Gerðarþoli styður kröfu sína um frávísun þeim rökum að málið sé vanreifað auk þess sem undirskrift leigusala vanti á aðfararbeiðnina, en hann telur hana nauðsynlega samkvæmt ákvæði leigusamnings gerðarbeiðanda við eiganda jarðarinnar.  Þá vísar gerðarþoli til þess að stangveiðifélagið Stakkavík hafi ekki kennitölu og sé því sennilegt að leigusamningur gerður við það félag sé ólöglegur.

Kröfu sína um synjun aðfararbeiðninnar styður gerðarþoli þeim rökum að Stangveiðifélagið Stakkavík sé félag án kennitölu. Segir hann félagið með kennitöluna 630491-1699 heita Veiðifélagið Stakkavík og telur rétt að það félag stæði að beiðninni

Kröfu sína um synjun beiðninnar styður gerðarþoli jafnframt þeim rökum að hann sé í fullum rétti til að hafa húsið á þeim stað er það er nú enda telji hann samkomulag aðila frá 1984 í fullu gildi. Má skilja greinargerð gerðarþola, sem er ólöglærður eins og raunar fyrirsvarsmaður gerðarbeiðanda einnig, á þann veg að hann mótmæli riftun gerðarbeiðanda á samkomulaginu og ýjar að því að hann hafi greitt alla sína reikninga á umræddum tíma, þ. á m. reikninga frá Veiðifélaginu Stakkavík. Þá bendir hann á það að skortur sé á sönnun þess að félagið hafi reynt innheimtu, án þess þó að mótmæla þeirri málsatvikalýsingu berum orðum.

Niðurstaða

Krafa gerðarþola um frávísun er studd þeim rökum að málið sé vanreifað.  Eru fullyrðingar um vanreifun þeim rökum studdar, að á aðfararbeiðninni sé ekki undirskrift vegna leigusala sem leigir gerðarbeiðanda jörðina Stakkavík.  Sú staðreynd að leigusali hafi ekki undirritað gerðarbeiðni ásamt gerðarbeiðanda þykir ekki valda því að málið sé vanreifað.  Kom fram í munnlegum flutningi málsins að þann 28. febrúar 2008 ályktaði Kirkjuráð að sú aðgerð að láta fjarlægja umrætt hús félli ekki undir það ákvæði leigusamningsins sem greinir frá því að um framkvæmdir við byggingar og/eða önnur mannvirki á jörðinni þurfi samþykki kirkjuráðs, og að kirkjuráð geti því ekki haft afskipti af málinu.  Umrædd röksemdafærsla gerðarþola þykir heldur ekki þess eðlis að hún geti rennt stoðum undir vanreifun.  Þá vísar gerðarþoli til þess að Stangveiðifélagið Stakkavík, sem er heiti gerðarbeiðanda skv. upplýsingum gerðarbeiðanda sjálfs, sé án kennitölu og geti því ekki verið til sem persóna að lögum.  Upplýst er í málinu að gerðarbeiðandi heitir Stangveiðifélagið Stakkavík og hefur heitið það samkvæmt samþykktum sínum um langt skeið.  Þykir engu breyta að hjá Fasteignaskrá Íslands kunni félagið  að vera nefnt Veiðifélagið Stakkavík.  Er ljóst af gögnum málsins að um er að ræða eitt og sama félag, með sömu kennitöluna, en þess er að geta að í gögnum málsins er víða vísað til gerðarbeiðanda sem „Stangveiðifélagsins Stakkavíkur“, m.a. í bréfum þáverandi lögmanns gerðarþola, afsali þegar gerðarbeiðandi keypti umrætt hús, sem og leigusamningi milli gerðarbeiðanda og Biskups Íslands, sem gerðarþoli lagði fram og vísaði til við munnlega flutning málsins.  Breytir engu eins og málið er vaxið að samþykktir félagsins hafi ekki verið lagðar fram.  Er því hafnað að málið sé vanreifað af þessum sökum, en jafnframt ber að geta þess að röksemdir af þessu tagi snúa í raun að aðildarhæfi en ekki vanreifun, en ekki verður talið að gerðarbeiðanda skorti aðildarhæfi.

Þá hefur gerðarþoli vísað til þess að samningur leigusala við gerðarbeiðanda sé sennilega ólöglegur þar sem Stangveiðifélagið Stakkavík sé án kennitölu.  Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki fallist á þetta, en upplýst er að gerðarbeiðandi, með þessu tilfærða heiti, er leigutaki jarðarinnar og fékk á sínum tíma húsinu afsalað til eignar.

Ber því að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Gerðarbeiðandi byggir á því að margnefnt hús standi í óleyfi á jörðinni, sem er óumdeilt að gerðarbeiðandi hefur á leigu.  Gerðarbeiðandi kveður gerðarþola enga leigu hafa greitt fyrir húsið, að frátöldu fyrsta árinu.  Hefur gerðarþoli mótmælt því, en ekki hefur hann sýnt fram á að hann hafi greitt leiguna, með kvittunum eða öðrum gögnum.  Telst því ósannað að gerðarþoli hafi innt af hendi sínar skyldur samkvæmt umræddum samningi frá 1984, en fyrir því hefur hann sönnunarbyrði. 

Gerðarþoli kveðst byggja rétt sinn til að hafa húsið þar sem það stendur á umræddum samningi frá 1984.  Hjá gerðarbeiðanda hefur það komið fram að hann hafi lýst yfir riftun umrædds samnings með bréfi 4. maí 2007.  Hefur þessu hvorki verið mótmælt af hálfu gerðarþola í skriflegri greinargerð né í málflutningi.  Verður að byggja á frásögn aðila um þetta og það þótt umrætt bréf hafi ekki verið lagt fram í dóminum.  Þá hefur það jafnframt ítrekað komið fram hjá gerðarbeiðanda að þess sé krafist að húsið verði fjarlægt og það standi í óþökk gerðarbeiðanda.  Kom þetta fram við fyrirtöku hjá sýslumanninum á Selfossi 22. maí 2007 þegar húsið var selt á nauðungarsölu og þá jafnframt bókað af hálfu sýslumanns að húsið skyldi fjarlægt án tafar þar sem það væri án lóðarréttinda, en þetta kom einnig fram í bréfum gerðarbeiðanda til þáverandi lögmanns gerðarþola og gerðarþola sjálfs 8. júní, 15. október og 3. desember  2007 og gat gerðarþoli ekki gengið þess dulinn að húsið stæði í óþökk gerðarbeiðanda og að gerðarbeiðandi liti svo á að samkomulaginu hefði verið rift.

Óumdeilt er að aðilar þessa máls gerðu með sér samkomulag á árinu 1984 um að gerðarþoli fengi að hafa umrætt hús á jörðinni og var þá samið um að gerðarþoli fengi að hafa húsið meðan hann lifði.  Jafnljóst er og óumdeilt að gerðarbeiðandi missti eignarhald hússins við gjaldþrot sitt og að gerðarbeiðandi eignaðist húsið á löglegan hátt með því að kaupa það af þáverandi þrotabúi gerðarþola.  Verður að mati dómsins að líta svo á að við það hafi nefnt samkomulag milli aðila málsins fallið niður, enda gerðarþoli þá ekki lengur eigandi hússins sem samkomulagið laut að, en samkomulagið var bundið við persónu gerðarþola.  Hefur gerðarþoli ekki fært nein haldbær rök fyrir því hvernig samkomulagið hefði átt að geta öðlast gildi á nýjan leik, án þess að til kæmi nýr samningur eða samkomulag um endurnýjun þess.  Breytir engu að mati dómsins að gerðarþoli hafi aftur eignast húsið á nauðungarsölu 22. maí 2007, en þá var sérstaklega tekið fram við uppboðið að húsið skyldi fjarlægt án tafar.  Gat fyrra samkomulag ekki öðlast gildi á ný við kaupin án þess að til kæmi einhver athöfn eða löggerningur milli gerðarþola og gerðarbeiðanda, en líta ber til þess að gerðarþoli keypti húsið ekki af gerðarbeiðanda.  Þess utan hefur komið fram að gerðarbeiðandi hafi eftir það, til að taka af öll tvímæli, lýst sérstaklega yfir riftun samkomulagsins vegna stórfelldra vanefnda gerðarþola á því, en þessu hefur gerðarbeiðandi ekki mótmælt í málinu. 

Er það því mat dómsins að gerðarþoli geti ekki byggt rétt sinn á samkomulagi aðila frá 1984, en að þeirri niðurstöðu fenginni er ljóst að húsið stendur á jörðinni í óþökk gerðarbeiðanda og gegn betri rétti gerðarbeiðanda, enda vísar gerðarþoli ekki til annarrar heimildar en samkomulagsins frá 1984 til að fá að hafa húsið þar sem það nú stendur. 

Verður því að telja að gerðarbeiðanda sé, með ólögmætum hætti aftrað að neyta fullra réttinda sinna sem leigutaka jarðarinnar, með því að húsið stendur á jörðinni í óleyfi og ber því að fallast á að gerðarbeiðanda verði heimilað að fá umrætt hús borið út af jörðinni með beinni aðfarargerð, sbr. 78. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 og skal gerðin fara fram á ábyrgð gerðarbeiðanda en kostnað gerðarþola og er rétt að fallast á að fjárnám verði heimilað vegna kostnaðar af væntanlegri gerð.

Aðilar fluttu mál sitt sjálfir, en ekki hefur verið lagt fram neitt um útlagðan kostnað sem þeir hafi haft af málarekstrinum.  Þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Sigurður G. Gíslason, héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Gerðarbeiðanda, Stangveiðifélaginu Stakkavík, er heimilt að fá sumarhús í eigu gerðarþola, Sveins Kjartanssonar, borið út af landi jarðarinnar Stakkavíkur í Selvogi með beinni aðfarargerð

Gerðin fer fram á ábyrgð gerðarbeiðanda en á kostnað gerðarþola.  Heimilt er að gera fjárnám hjá gerðarþola vegna kostnaðar við hina umkröfðu aðfarargerð.

Málskostnaður fellur niður.