Hæstiréttur íslands

Mál nr. 60/1999


Lykilorð

  • Tékkar


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. mars 2000.

Nr. 60/1999.

Kolbrún Elsa Jónasdóttir

(Kristinn Bjarnason  hrl.)

gegn

Sjávardýrum ehf.

(Ólafur Sigurgeirsson hrl.)

 

Tékkamál.

K, sem var prókúruhafi fyrir einkahlutafélagið R, lét J, fyrirsvarsmanni einkahlutafélagsins S, í hendur tékkaeyðublöð með undirritun sinni, þar sem ávísað var á reikning R. Ekki kom fram á tékkanum að hann væri gefinn út fyrir hönd R. S höfðaði mál gegn K til innheimtu eins tékka, sem ekki hafði reynst innistæða fyrir og S hafði orðið að leysa til sín, sem framseljandi. Talið var, að tékkinn hefði verið gefinn út af K og útfylltur í samræmi við 1. gr. laga nr. 94/1933 um tékka og því fullgildur. Á það var fallist með héraðsdómara, að K gæti ekki borið fyrir sig aðildarskort í málinu, sem rekið var samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Talið var, að andmæli K að öðru leyti lytu að því hvort S hefði misfarið með tékkaeyðublaðið, sem leiddi til þess að K yrði ekki skuldbundin af undirritun sinni. Þótti þessi varnarástæða varða lögskipti að baki því að til varð fullgildur tékki og gæti hún ekki komist að í málinu samkvæmt 118. gr. laga nr. 91/1991. Var K dæmd til að greiða S andvirði tékkans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. febrúar 1999 og krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Í kjölfar áfrýjunar héraðsdóms var af hálfu áfrýjanda leitað eftir því við ríkislögreglustjóra að fram færi rannsókn vegna ætlaðra brota Jóns Pálma Pálmasonar, fyrirsvarsmanns stefnda, á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 í tengslum við notkun tékka þess, sem ágreiningur málsaðila er sprottinn af. Hefur áfrýjandi jafnframt lagt fyrir Hæstarétt ýmis ný gögn, en þeirra á meðal eru skýrslur, sem gefnar voru fyrir lögreglu af þessu tilefni, og bréf lögreglustjórans í Reykjavík 25. febrúar 2000 til lögmanns áfrýjanda, þar sem því er lýst yfir að rannsóknargögn þyki ekki gefa tilefni til frekari aðgerða af hans hálfu.

 

II.

Tékkinn, sem um ræðir í málinu, var gefinn út af áfrýjanda og útfylltur í samræmi við 1. gr. laga nr. 94/1933 um tékka og því fullgildur. Lúta varnir áfrýjanda að því í fyrsta lagi að hún sé ekki réttur aðili málsins, svo sem nánar er rakið í héraðsdómi. Með vísan til forsendna hans verður fallist á þá niðurstöðu að þessi varnarástæða áfrýjanda komi henni ekki að haldi í málinu, sem rekið er eftir ákvæðum XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einnig dóm Hæstaréttar í dómasafni 1994, bls. 2149.

Áfrýjandi reisir varnir sínar í annan stað á því að efni umrædds tékka sé falsað og því beri að sýkna hana. Hafi fyrirsvarsmaður stefnda fengið í hendur nokkur tékkaeyðublöð um sumarið 1997, sem voru þá óútfyllt að öðru leyti en því að áfrýjandi hafði ritað nafn sitt á þau sem útgefandi. Hinn fyrrnefndi hafi útfyllt eyðublað það, sem um ræðir í málinu, án nokkurrar heimildar og í andstöðu við samkomulag þess efnis að tékkaeyðublöðin yrðu einungis útfyllt og notuð til að greiða kostnað af viðgerð fiskiskipsins Guðmundar Kristins SU 404. Af hálfu stefnda er á hinn bóginn haldið fram að tékkinn hafi að öllu leyti verið útfylltur, er fyrirsvarsmaður stefnda tók við honum af áfrýjanda, og að heimilt hafi verið að framvísa honum í banka um vorið 1998.

Óumdeilt er að áfrýjandi lét tékkaeyðublaðið af hendi með undirritun sinni, þótt ágreiningur sé um hvort það hafi þá verið útfyllt að öðru leyti. Lúta andmæli áfrýjanda að því að stefndi hafi misfarið með tékkaeyðublaðið, sem leiða eigi til þess að útgefandi verði ekki skuldbundinn af undirritun sinni. Þessi varnarástæða varðar lögskiptin að baki því að til varð fullgildur tékki og kemst ekki að í málinu samkvæmt 118. gr. laga nr. 91/1991.

Að því virtu, sem að framan er rakið, verður héraðsdómur staðfestur. Skal áfrýjandi greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Kolbrún Elsa Jónasdóttir, greiði stefnda, Sjávardýrum ehf., 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 23. nóvember 1998.

I.

                Mál þetta, sem dómtekið var hinn 18. nóvember 1998 hafa Sjávardýr ehf., kt. 551193-2419, Gerðhömrum 17, Reykjavík, höfðað fyrir dóminum með stefnu birtri 8. september 1998 á hendur Kolbrúnu Elsu Jónasdóttur, kt. 140373-5329, Lækjarsmára 96, Kópavogi.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 4.000.000, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 4.000.000, frá 19.5.1998 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

                Af hálfu stefndu er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti.

II.

                Málavöxtum er svo lýst í stefnu:

Krafa stefnanda er byggð á ávísun nr. 4252975 upp á kr. 4.000.000 sem Kolbrún gaf út 18.5.98 af tékkareikningi nr. 123 í Landsbanka Íslands, Ísafirði. Kolbrún gaf tékkann út til Sjávardýra ehf., stefnanda málsins, sem innleysti tékkann í Búnaðarbanka Íslands, miðbæjarútibúi þann 19.5.98 en varð að innleysa hann aftur þar sem að tékkinn var innistæðulaus, sbr. áritanir þess efnis frá Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

                Stefnandi kveðst reka málið samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá vísar stefnandi til tékkalaga nr. 94/1933, einkum VII. kafla laganna um fullnustu vegna greiðslufalls. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum Krafan um málskostnað styðst við 1.mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing vísast til 32. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Stefnda lýsir málavöxtum með eftirfarandi hætti í greinargerð sinni.

                Hinn 25. júlí 1997 festi einkahlutafélagið Reykjaneshryggur ehf., Vegmúla 2, Reykjavík, kaup á bátnum Guðmundi Kristni SU-404 af stefnanda máls þessa Sjávardýrum ehf. Framkvæmdastjóri og annar stjórnarmaður stefnanda er Jón Pálmi Pálmason, Gerðhömrum 17, Reykjavík. Eigendur Reykjaneshryggs ehf. eru Ásberg Pétursson og Gunnlaugur Bjarnason. Stjórnarmaður félagsins er Gunnlaugur Bjarnason, en varamaður í stjórn er stefnda Kolbrún Elsa Jónasdóttir. Stefnda og Gunnlaugur hafa bæði prókúru fyrir félagið.

                Þann 25. júlí 1997 opnaði Reykjaneshryggur ehf. tékkareikning þann sem umrædd ávísun er gefin út á í útibúi Landsbanka Íslands á Ísafirði. Stefnda Kolbrún hefur ein heimild til þess að ávísa á umræddan tékkareikning, en Reykjaneshryggur ehf. er skráður reikningshafi.

Stefnda kveður það hafa orðið að samkomulagi milli forsvarsmanna Reykjaneshryggs ehf. og Jóns Pálma Pálmasonar forsvarsmanns stefnanda, að Jón Pálmi annaðist lagfæringar á bátnum til þess að búa hann á veiðar. Hafi hann unnið við þessar lagfæringar í samráði við eigendur Reykjaneshryggs ehf. og jafnframt séð um að kaupa ýmsa smáhluti til viðgerðanna. Hafi það orðið að samkomulagi milli stefndu og Jóns Pálma að hann fengi í hendur tékkhefti Reykjaneshryggs ehf. með tékkum undirrituðum af stefndu sem honum væri síðan heimilt að nota til þess að kaupa ýmsa smáhluti til viðgerðanna og skila stefndu reikningum og greiðslukvittunum í samræmi við þá tékka sem notaðir væru. Hefur stefnda lagt fram ljósrit frá Landsbankanum af 14 tékkum sem allir bera nafnritun stefndu Kolbrúnar en eru að öðru leyti útfylltir með annarri rithönd, handskrifaðir að öllu leyti.

                Stefnda byggir sýknukröfu fyrst og fremst á því að hún sé ekki aðili að máli því sem hér um ræðir og vísar til a- liðar 1. mgr. laga nr. 91/1991 og málinu því ranglega beint gegn sér. Eigandi tékkareikningsins nr. 123 í Landsbanka Íslands hf á Ísafirði sé Reykjaneshryggur ehf. Þrátt fyrir að stefnda hafi haft heimild til að ávísa út af reikningnum þá geti hún ekki orðið ábyrg fyrir greiðslu á umræddum tékka. Þessi niðurstaða styðjist einnig við þá staðreynd að stefnandi vissi eða mátti vita að Reykjaneshryggur ehf. var eigandi reikningsins, enda hafi stefnandi átt viðskipti við þann aðila, með sölu á skipinu Guðmundi Kristni SU-404. Stefnanda mátti því vera kunnugt að undirskrift stefndu á tékkann hafi ekki verið skuldbindandi fyrir hana persónulega, heldur einungis skrifuð fyrir hönd Reykjaneshryggs ehf.

                Ennfremur byggir stefnda sýknukröfu sína á því að efni umrædds tékka sé falsað og vísar hér til c-liðar 1.mgr. 118. gr. laga nr. 91/1991. Eins og fram komi í málavaxtalýsingu hafi stefnandi fengið í hendur óútfylltan tékka til að greiða ýmsan kostnað vegna standsetningar skipsins Guðmundar Kristins SU-404. Útfylling stefnanda á umræddu tékkaeyðublaði hafi verið án heimildar og teljist því samkvæmt kenningum á sviði refsiréttar skjalafals og brot gegn XVII. kafla hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara umboðssvik og brot gegn XXVI. kafla hegningarlaga. Megi í því sambandi hafa til hliðsjónar hæstaréttardóm frá 1939, bls. 456. Þá hyggst stefnda kæra brot þetta til lögreglu, svo fljótt sem verða má, og þegar hún hefur fengið öll nauðsynleg gögn í hendur. Málskostnaðarkrafa stefndu er byggð á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr 130. gr. laga nr. 91/1991, en krafan um virðisaukaskatts á lögmannsþóknun er byggð á lögum nr. 50/1988, en stefnda er ekki virðisaukaskattskyldur aðili.

                Fyrir dómi gáfu aðilaskýrslu þau Jón Pálmi Pálmason og Kolbrún Elsa Jónasdóttir. Vitnaskýrslur gáfu Jón Pálmi Steingrímsson og Ásberg Pétursson.

                Það kom fram hjá Jóni Pálma fyrir dómi að Ásberg Pétursson hafi afhent honum umrædda ávísun sjálfur u.þ.b. tveimur dögum fyrir útgáfudag tékkans, þ.e.a.s. 16. maí 1998 á skrifstofu Hafex að Vegmúla 2, Reykjavík. Af hálfu Ásbergs Péturssonar var þessum framburði Jóns Pálma mótmælt sem röngum. Á þessum tíma kvaðst Ásberg hafa verið erlendis. Þá hafi skrifstofur Reykjaneshryggs verið í Kópavogi á þessum tíma. Fyrir dómi hélt Jón Pálmi því ennfremur fram að hann hafi ávallt fyllt út tékkana í viðurvist Kolbrúnar á skrifstofu Reykjaneshryggs. Var þessum framburði Jóns Pálma mótmælt af hálfu Kolbrúnar. Með afhendingu tékkans útgefinum af stefndu kvaðst stefnandi hafa litið svo á, að stefnda hafi sjálf verið að kaupa hlut í bátnum Guðmundi Kristni SU-404. Af hálfu Kolbrúnar var þessum framburði mótmælt og því haldið fram að stefnanda hafi verið vel kunnugt um það að eigandi umrædds tékkareiknings hafi verið Reykjaneshryggur ehf.

III.

Mál þetta er svonefnt tékkamál, sem rekið er samkvæmt réttarfarsreglum XVII. kafla laga um meðferð einkamála. Af hálfu stefnanda er mótmælt að aðrar varnir fái komist að í máli þessu, en lög heimila.

                Af hálfu stefndu er sýknukrafa á því byggð að málið sé höfðað gegn röngum aðila, og efni tékkans sé falsað.

                Framlagður tékki í máli þessu er útfylltur í samræmi við 1. gr. tékkalaga nr. 94/1993 og er því fullgildur tékki í skilningi tékkalaga.Samkvæmt 12. gr. laga s.l. er útgefandi bundinn að tékkarétti gagnvart tékkhafa.

                Umræddur tékki ber ekki með sér að hafa verið gefinn út f.h. Reykjaneshryggs ehf., en stefnda hefur gefið tékkann út og ber því sjálf ábyrgð á greiðslu þeirri gagnvart tékkhafa. Hefur hér enga þýðingu í máli þessu, sem rekið er samkvæmt XVII. kafla einkamálalaga, hver sé eigandi tékkareikningsins, enda er útgefandi tékka skyldur að hafa til umráða fé hjá greiðslubanka, sbr. 4. gr. laga nr. 94/1933.

                Stefnandi sem handhafi tékkans sýndi hann innan lögboðins frests, en hann hefur ekki fengist greiddur. Stefnandi hefur því haldið við tékkarétti sínum á lögboðinn hátt. Var stefnanda því rétt samkvæmt 40. gr. tékkalaga nr. 94/1933 að krefjast fullnustu hjá útgefanda.

                Samkvæmt þessum úrslitum ber stefnda Kolbrún Elsa Jónasdóttir, ábyrgð á greiðslu tékkans gagnvart stefnanda, Sjávardýrum ehf., sem handhafa tékkans. Dómkrafa stefnanda er tekin til greina að öllu leyti. Stefnda greiði stefnanda kr. 4.000.000, ásamt dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

                Eftir þessum úrslitum skal stefnda greiða stefnanda kr. 60.000.- í málskostnað og hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

                Ólöf Pétursdóttir, dómstjóri, kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

                Stefnda, Kolbrún Elsa Jónsdóttir, greiði stefnanda, Sjávardýrum ehf, kr. 4.000.000, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalag nr. 25/1987 frá 19. maí 1998 til greiðsludags.

                Stefnda greiði stefnanda kr. 60.000.- í málskostnað.