Hæstiréttur íslands

Mál nr. 402/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Þinglýsing


Miðvikudaginn 29

 

Miðvikudaginn 29. október 2003.

 

Nr. 402/2003.

Sigurður Ó. Helgason

(Hanna Lára Helgadóttir hrl.)

gegn

dánarbúi Jóhönnu Rannveigar Skaftadóttur

(Jón Finnsson hrl.)

 

Kærumál. Fjárnám. Þinglýsing.

Deilt var um það hvort sýslumanni hefði verið heimilt að afmá fjárnám S úr fasteignabók sem gert var í eignarhluta Æ í tiltekinni fasteign sem hann var þinglýstur eigandi að í óskiptri sameign með J. Var fjárnámið gert á grundvelli skuldabréfs sem Æ var sjálfskuldarábyrgðarmaður á. Tekið var fram að krafa samkvæmt skuldabréfinu hefði ekki verið greidd, en S, sem var kröfuhafi, hefði ekki heldur gefið hana eftir en því var ekki haldið fram að hún væri niður fallin af öðrum ástæðum. Væri því ekki hægt að fallast á að réttaráhrif fjárnámsins hefðu fallið niður vegna brottfalls kröfu S. Samningur þar sem greiðslutilhögun samkvæmt skuldabréfinu var breytt skuldurum til hagsbóta, hefði engin áhrif á þá niðurstöðu. Var sýslumanni því ekki rétt að afmá umrætt fjárnám úr fasteignabók, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 39/1978. Var sú ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir sýslumann að færa fjárnámið að nýju inn í fasteignabók.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. október 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 2003, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að afmá úr fasteignabók fjárnám sóknaraðila frá 5. ágúst 1998 í nánar tilgreindum eignarhluta fasteignarinnar að Engjaseli 85 í Reykjavík. Kæruheimild er í 5. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, sbr. 1. gr. laga nr. 6/1992. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir sýslumanninn í Reykjavík að þinglýsa á ný áðurnefndu fjárnámi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Í máli þessu greinir aðila á um hvort sýslumanninum í Reykjavík hafi verið heimilt að afmá fjárnám sóknaraðila 5. ágúst 1998 úr fasteignabók. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var fjárnámið gert í eignarhluta Ævars S. Hjartarsonar í fasteigninni að Engjaseli 85, en hann mun þá hafa verið þinglýstur eigandi íbúðar þar á 2. hæð til vinstri í óskiptri sameign með Jóhönnu Rannveigu Skaftadóttur og hvort þeirra talist eigandi að helmingshlut í íbúðinni. Munu Ævar og Jóhanna áður hafa verið í hjúskap, en gert samning 19. nóvember 1997 vegna hjónaskilnaðar, þar sem hafi verið kveðið á um að íbúðin kæmi öll í hlut Jóhönnu. Þessum réttindum hennar mun hins vegar ekki hafa verið þinglýst fyrr en 6. október 1998. Fjárnámið var gert á grundvelli skuldabréfs að fjárhæð 2.334.500 krónur, sem gefið var út til handhafa 19. júní 1997 af GMÞ Bílaverkstæðinu hf. og tryggt með sjálfskuldarábyrgð Ævars og annars nafngreinds manns. Var fjárnáminu þinglýst sama dag og það var gert. Þann 22. desember 1998 gerðu skuldari og sjálfskuldarábyrgðarmenn skuldabréfsins annars vegar og eigandi þess hins vegar samning um breytingu á greiðsluskilmálum bréfsins. Samkvæmt samningnum skyldi skuld samkvæmt bréfinu, sem þá var tilgreind 2.667.857 krónur, endurgreidd með 12 jöfnum greiðslum á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. mars 1999. Sérstaklega var tekið fram að önnur ákvæði bréfsins skyldu haldast óbreytt. Sóknaraðili krafðist 18. janúar 2000 nauðungarsölu á eignarhluta Ævars á grundvelli fjárnámsins. Eftir ítrekaðar frestanir stöðvaði sýslumaður nauðungarsöluna 29. janúar 2002 að kröfu Jóhönnu. Jóhanna mun hafa látist 15. júní 2002. Fjárnámið mun hafa verið afmáð úr fasteignabók 24. október 2002. Sóknaðili, sem kveður sér hafa verið ókunnugt um það þangað til  í lok desember sama árs, leitaði eftir því við sýslumann með bréfi 7. janúar 2003 að hann „leiðrétti ofangreind mistök á þann hátt að eydd verði útstrikun fjárnámsins úr veðmálabókum.“ Því hafnaði sýslumaður með bréfi 28. mars 2003, sem tekið er orðrétt upp í hinum kærða úrskurði.

Í málinu liggur fyrir að umrætt fjárnám 5. ágúst 1998 var gert í eignarhluta Ævars í fasteigninni að Engjaseli 85, sem hann var þinglýstur eigandi að. Var fjárnámið gert á grundvelli skuldabréfs, sem Ævar var sjálfskuldarábyrgðarmaður á. Hefur krafa samkvæmt skuldabréfinu ekki verið greidd og hefur sóknaraðili, sem er kröfuhafi samkvæmt því, heldur ekki gefið kröfu sína eftir. Þá er því ekki haldið fram að krafa samkvæmt bréfinu sé niður fallin af öðrum ástæðum. Er því ekki hægt að fallast á að réttaráhrif fjárnámsins hafi fallið niður vegna brottfalls kröfu sóknaraðila. Fyrrnefndur samningur 22. desember 1998, þar sem greiðslutilhögun samkvæmt skuldabréfinu var breytt skuldurum til hagsbóta, hefur engin áhrif á þá niðurstöðu. Sýslumanni var því ekki rétt að afmá margnefnt fjárnám úr fasteignabók, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 39/1978 með áorðinni breytingu. Verður samkvæmt þessu að fella úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík, sem um ræðir í málinu, og leggja fyrir hann að færa umrætt fjárnám sóknaraðila að nýju inn í fasteignabók.

Eftir þessum úrslitum verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. Lagt er fyrir sýslumanninn í Reykjavík að færa að nýju í fasteignabók fjárnám sóknaraðila, Sigurðar Ó. Helgasonar, frá 5. ágúst 1998 í fyrrum eignarhluta Ævars S. Hjartarsonar í íbúð á 2. hæð til vinstri í fasteigninni að Engjaseli 85 í Reykjavík.

Varnaraðili, dánarbú Jóhönnu Rannveigar Skaftadóttur, greiði sóknaraðila samtals 200.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 2003.

Mál þetta var þingfest 5. maí 2003 og tekið til úrskurðar sama dag og vísað frá dómi.  Með dómi Hæstaréttar 27. sama mánaðar var úrskurður héraðsdóms ómerktur ásamt meðferð málsins fyrir héraðsdómi frá og með þinghaldi 5. maí 2003 og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

                Sóknaraðili er Sigurður O. Helgason, [...] St. Vinsent/Grenadines, en varnaraðili dánarbú Jóhönnu Rannveigar Skaftadóttur, [...].

                Dómkröfur sóknaraðila eru að sýslumannsembættinu í Reykjavík verði gert skylt að þinglýsa á ný fjárnámi frá 5. ágúst 1998 á 5. veðrétt eignarinnar Engjasel 85, mhl. 0201 í Reykjavík sem sýslumaðurinn aflétti 24. október 2002.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

                Dómkröfur varnaraðila eru að hafnað verði kröfum sóknaraðila og staðfest verði ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík að afmá fjárnám sóknaraðila frá 5. ágúst 1998 af 5. veðrétti eignarinnar Engjasel 85, mhl. 0201 í Reykjavík.  Þá er krafist málskostnaðar.

 

Helstu málavextir eru að gert var fjárnám 5. ágúst 1998 að kröfu sóknaraðila hjá Ævari S. Hjartarsyni á grundvelli skuldabréfs að fjárhæð 2.334.500 kr., sem gefið var út til handhafa 19. júní 1997 af GMÞ Bílaverkstæðinu hf. og tryggt með sjálfskuldarábyrgð Ævars og annars nafngreinds manns.  Fjárnámið var gert í eignarhluta Ævars í fyrrnefndri fasteign að Engjaseli 85, en hann mun þá hafa verið þinglýstur eigandi íbúðar þar á 2. hæð til vinstri í óskiptri sameign með Jóhönnu Rannveigu Skaftadóttur og hvort þeirra talist eigandi að helmingshlut í íbúðinni.  Munu þau Ævar og Jóhanna áður hafa verið í hjúskap, en gert samning 19. nóvember 1997 vegna hjónskilnaðar, þar sem hafi verið kveðið á um að íbúðin kæmi öll í hlut Jóhönnu.  Þessum réttindum hennar mun hins vegar ekki hafa verð þinglýst fyrr en 6. október 1998, en fjárnámi sóknaraðila var þinglýst sama dag og það var gert.  Sóknaraðili krafðist 18. nóvember 2000 nauðungarsölu á eignarhlutanum á grundvelli fjárnámsins.  Aðgerðum við nauðungarsöluna mun ítrekað hafa verið frestað, en með bréfi sýslumannsins í Reykjavík 23. desember 2001 krafðist Jóhanna þess að hún yrði felld niður vegna nánar tiltekinna annmarka á réttindum sóknaraðila.  Sýslumaður tók nauðungarsöluna fyrir 29. janúar 2002 og ákvað þá gegn mótmælum sóknaraðila að stöðva hana.

                Jóhanna Rannveig Skaftadóttir lést 15. júní 2002.  Af gögnum málsins verður ráðið að ákvörðun sýslumanns um að stöðva nauðungarsöluna hafði ekki verið skotið til héraðsdóms 5. september 2002, sbr. bréf frá Héraðsdómi Reykjavíkur frá þeim tíma er liggur fyrir í málinu.  Og 24. október 2002 var fjárnámið afmáð úr þinglýsingabók eftir því sem næst verður komist af öðrum gögnum málsins.

                Með bréfi 7. janúar 2003 til sýslumannsins í Reykjavík krafðist lögmaður sóknaraðila að sýslumaður leiðrétti færsluna frá 24. október þar sem réttur sóknaraðili samkvæmt fjárnáminu væri ekki fallinn niður og hann hefði ekki heimilað útstrikun fjárnámsins úr veðmálabókum.

                Með bréfi 28. mars 2003 svaraði sýslumaður tilmælum sóknaraðila en þar segir:

 

Það er skoðun þinglýsingarstjóra að hann hafi ekki gert mistök er hann féllst á afmáningu fjárnáms Sigurðar O. Helgasonar af ofangreindri eign eftir kröfu Óskars Norðmann hdl.  Sú ákvörðun var tekin eftir vandlega athugun og því telur þinglýsingastjóri að ákvæði 1. mgr. 27. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 eigi ekki við um ákvörðunina.  Það er ljóst að gerðarbeiðandi neytti ekki þeirra réttarúrræða sem honum voru tæk í kjölfar ákvörðunar fullnustudeildar sýslumannsins þ. 29.01.2002 um að stöðva nauðungarsölu á grundvelli fjárnámsins.  Þegar af þeirri ástæðu og með vísan í 1. mgr. 38. gr. laga nr. 39/1978 er beiðni yðar hafnað.

 

Sóknaraðili byggir á því að fyrst í árslok 2002 hafi honum verið ljóst að fjárnáminu hafði verið aflýst af umræddri eign varnaraðila.  Fjárnámið sé tryggt með 5. veðrétti í eigninni Engjaseli 85, mhl. 0201, í Reykjavík.  Krafan að baki fjárnáminu sé hvorki að fullu greidd né hafi sóknaraðili gefið hana eftir enda þótt greiðsluskilmálum hafi verið breytt til hagræðis fyrir skuldarann síðar.  Af  hálfu sóknaraðila er staðhæft að munnlegt samkomulag hafi verið um að fjárnáminu yrði ekki aflétt fyrr en skuldin væri að fullu greidd.

                Þá reisir sóknaraðili kröfu sína í málinu á því að sýslumaður hafi vanrækt að senda honum tilkynningu um væntanlega afmáningu svo hann ætti þess kost að varna því að áhrif þinglýsingar hyrfi, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 39/1978.  Þannig hafi verið brotið gegn andmælarétti sóknaraðila, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1993.  Og að öllu samanlögðu sé því ljóst að sýslumaður hafði ekki fullgilda heimild til að má haftið úr fasteignabók svo sem hann gerði.

 

Varnaraðili byggir á því að með skuldbreytingu 22. desember 1998 hafi greiðslum skuldabréfsins, sem hér um ræðir, verið breytt þannig að skuldin, að fjárhæð 2.667.857 kr., greiddist með 12 jöfnum greiðslum á 3 mánaða fresti, næst 1. mars 1999.   Mælt hafi verið fyrir um það í samningi um skuldbreytinguna að önnur ákvæði skuldabréfsins stæðu óbreytt og ekkert tekið fram um að fjárnámið, sem gert var 5. ágúst 1998, stæði engu að síður þó skuldin teldist ekki lengur í vanskilum.

Þá er byggt á því að sóknaraðila hafi 29. janúar 2002 verið ljós afstaða sýslumanns til gildis fjárnámsins frá 5. ágúst 1998, er varnaraðili mótmælti nauðungarsölu á fasteigninni að Engjaseli 85 á grundvelli fjárnámsins.  Mótmæli, er reist voru á því að skuldin, sem tryggð var með fjárnáminu, hefði verið komið í skil með skuldbreytingu og sóknaraðila hefði sjálfum borið að falla frá fjárnáminu.  Sýslumaður hafi fallist á mótmæli varnaraðila og stöðvað nauðungarsöluna, en sóknaraðili hafi þá lýst því yfir að hann myndi skjóta þeirri ákvörðun sýslumannsins til héraðsdóms.  Og er ljóst hefði verið að sóknaraðili gerði ekki reka að því að bera þessa ákvörðun sýslumanns undir héraðsdóm innan fjögurra vikna, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991, hafi sýslumanni sem þinglýsingarstjóra verið rétt að eigin frumkvæði að má haftið úr fasteignabók, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 39/1978.

 

Niðurstaða:  Það er almenn regla að réttaráhrif fjárnáms fellur niður er krafan, sem fjárnáminu er ætlað að tryggja, fellur niður.  Með umræddri skuldbreytingu 22. desember 1998 var ákveðið að skuldin greiddist með 12 jöfnum greiðslum á 3 mánaða fresti, en fyrsta greiðsla yrði 1. mars 1999.  Fjárnámið 5. ágúst 1998, sem þá var reist á vanskilum á greiðslum samkvæmt skuldabréfi er hér um ræðir, féll sjálfkrafa úr gildi við skuldbreytinguna 22. desember 1998, þar sem ekki fær staðist að saman fari skuldbreyting, er m.a. fela í sér að fyrsta greiðsla er ákveðin 1. mars 1999, og gjaldfallin skuld samkvæmt upphaflegum skilmálum skuldabréfsins.  Með öðrum orðum það verður ekki bæði sleppt og haldið.

                Í 1. mgr. 38. gr. gildandi þinglýsingalaga segir:

 

Þinglýsingarstjóri fylgist með því eftir föngum, hvort réttaráhrif tiltekinnar þinglýsingar séu fallin brott, og ber honum að má haftið úr fasteignabók, ef því er að skipta, að eigin frumkvæði.  Sama máli gegnir, ef rétti er bersýnilega lokið.  Þinglýsingarstjóri skal þó jafnan senda rétthafa sérstaka tilkynningu um væntanlega afmáningu, svo rétthafa sé kostur að varna því, að áhrif þinglýsingar eyðist.

 

                Ekki er hér fortakslaust lagt á þinglýsingarstjóra að senda rétthafa sérstaka tilkynningu um væntanlega afmáningu, en mælt fyrir um að hann skuli jafnan gera það.  Í þessu sambandi verður að líta til þess að sóknaraðila mátti vera ljóst, er sýslumaður ákvað að stöðva nauðungarsölu 29. janúar 2002, á grundvelli þess að skuldinni hafði með skuldbreytingu verið komið í skil, að ekki yrði lengi við það eitt setið.  Strax þá var viðbúið að sýslumaður myndi að eigin frumkvæði sem þinglýsingarstjóri fyrr en seinna afmá haft þinglýsingar hinnar ómerku fjárnámsgerðar úr fasteignabók, yrði ákvörðun hans um að stöðva nauðungarsöluna á þessum grundvelli ekki borin undir héraðsdóm.

                Samkvæmt framangreindu verður kröfum sóknaraðila hafnað en fallist á kröfur varnaraðila svo sem segir í úrskurðarorði.

                Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

                Hafnað er kröfum sóknaraðila, Sigurðar O. Helgasonar.

                Staðfest er ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík að afmá fjárnám sóknaraðila frá 5. ágúst 1998 af 5. veðrétti eignarinnar Engjasel 85, mhl.0201, í Reykjavík.

                Sóknaraðili greiði varnaraðila, dánarbúi Jóhönnu Rannveigar Skaftadóttur, 160.000 kr. í málskostnað.