Hæstiréttur íslands
Mál nr. 580/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Fimmtudaginn 6. nóvember 2008. |
|
Nr. 580/2008. |
Saga verktakar ehf. (Björn Líndal hdl.) gegn Dögg Pálsdóttur (sjálf) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
S krafði D um greiðslu skuldar vegna þjónustu sem hann innti af hendi fyrir D við endurbætur á íbúðum hennar og sonar hennar. D krafðist fyrir héraðsdómi dómkvaðningar matsmanns til að meta: „Hvaða heildarverð, sbr. 28. gr. laga nr. 42/2000, telst sanngjarnt og eðlilegt fyrir vinnu þá sem starfsmenn stefnanda og undirverktakar á hans vegum inntu af hendi í íbúðum stefndu og sonar hennar [...], með hliðsjón af umfangi vinnunnar og hvers eðlis hún var. [...]“. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, sagði að telja yrði að nægilega skýrt kæmi fram í beiðninni hver tilgangurinn með hinu umbeðna mati væri og að afmörkun þess sem meta skyldi væri nægilega ljós, með tilliti til tilvitnaðs ákvæðis 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Var því ekki fallist á með S að matsbeiðni D væri slíkum annmörkum háð að hafna bæri að taka hana til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. september 2008, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila verði hafnað og henni gert að greiða málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Ekki verður séð að sóknaraðili hafi gert kröfu um málskostnað í héraði og kemur krafa hans þar að lútandi því ekki til álita fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsenda hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Saga verktakar ehf., greiði varnaraðila, Dögg Pálsdóttur, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. september 2008.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar þriðjudaginn 9. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 26. febrúar 2008 af Saga verktökum ehf., Gauksási 8, Hafnarfirði á hendur Dögg Pálsdóttur, Laugarnesvegi 89, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði gert að greiða honum skuld að fjárhæð 31.860.042 krónur ásamt tilgreindum dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 7. júní 2007 að fjárhæð 9.000.000 króna og 17. júlí 2007 að fjárhæð 7.000.000 króna miðað við stöðu skuldarinnar á innborgunardegi. Stefnandi krefst og málskostnaðar að mati dómsins.
Stefnda krefst þess aðallega að verða sýknuð af kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að þær verði stórlega lækkaðar og að endurkröfum stefndu verði skuldajafnað á móti lækkuðum kröfum og að dráttarvaxtakröfu stefnanda verði vísað frá dómi. Þá krefst stefnda og málskostnaðar úr hendi stefnanda verði aðalkrafan tekin til greina en að málskostnaður verði látinn niður falla verði varakrafan tekin til greina.
Í þinghaldi hinn 24. júní 2008 lagði stefnda, hér eftir nefndur sóknaraðili, fram beiðni um að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta eftirfarandi:
„Hvaða heildarverð, sbr. 28. gr. laga nr. 42/2000, telst sanngjarnt og eðlilegt fyrir vinnu þá sem starfsmenn og undirverktakar á hans vegum inntu af hendi í íbúðum stefndu og sonar hennar (samtals 250 m²) í húsinu nr. 6 við Hátún í Reykjavík, frá janúar til ágúst 2007, með hliðsjón af umfangi vinnunnar og hvers eðlis hún var og að teknu tilliti til þeirrar staðreyndar að við upphaf verksins í janúar 2007 gaf starfsmaður stefnanda stefndu og syni hennar upp þá verðáætlun, sbr. 29. gr. laga nr. 42/2000, að kostnaður á hvern m² yrði allt að 180.000 kr. (með innréttingum og gólfefnum en án rafmagnstækja).
Allar matsfjárhæðir skulu miðast við verðlag framkvæmdatímabilsins sem var janúar til ágúst 2007.“
Stefnandi, hér eftir nefndur varnaraðili, mótmælti matsbeiðninni í þinghaldi hinn 25. júní 2008 og fór fram munnlegur málflutningur um kröfu sóknaraðila 9. september 2008. Við upphaf málflutnings lýsti sóknaraðili því yfir að hún óskaði eftir að breyta lýsingu á því til hvers hið umbeðna mat skuli ná. Félli hún því frá seinni hluta tilgreiningarinnar á því hvað meta skuli. Eftir breytinguna stæði þannig eftir eftirfarandi afmörkun á því hvað meta skuli:
„Hvaða heildarverð, sbr. 28. gr. laga nr. 42/2000, telst sanngjarnt og eðlilegt fyrir vinnu þá sem starfsmenn stefnanda og undirverktakar á hans vegum inntu af hendi í íbúðum stefndu og sonar hennar í húsinu nr. 6 við Hátún í Reykjavík, frá janúar til ágúst 2007 með hliðsjón af umfangi vinnunnar og hvers eðlis hún var.
Allar matsfjárhæðir skulu miðast við verðlag framkvæmdatímabilsins sem var janúar til ágúst 2007.“
Í þinghaldinu hinn 3. september sl. kvaðst sóknaraðili, til stuðnings kröfu sinni, vísa til þess að ágreiningur sé með aðilum um greiðslu fyrir þá þjónustu sem varnaraðili innti af hendi fyrir sóknaraðila við endurbætur á íbúðum hennar og sonar hennar að Hátúni 6 í Reykjavík. Sóknaraðili byggi sýknukröfu sína í málinu sjálfu fyrst og fremst á því að varnaraðili krefji hana um kostnað sem sé verulega hærri en uppgefin verðáætlun varnaraðila hafi miðast við. Sýknukrafa sóknaraðila byggist þó einnig á því að það heildarverð sem hún hafi þegar greitt til varnaraðila, liðlega 45.000.000 króna, sé bæði sanngjarnt og eðlilegt fyrir þá vinnu sem starfsmenn varnaraðila hafi innt af hendi. Vísar sóknaraðili í þessu sambandi til ákv. 28. gr. laga um þjónustukaup nr. 42/2000 og kveður sér nauðsynlegt að fá dómkvaddan matsmann, með heimild í 61. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að meta hvað telja megi sanngjarnt verð fyrir þjónustu varnaraðila með hliðsjón af umfangi hennar og eðli.
Varnaraðili byggir mótmæli sín við framkominni matsbeiðni á því að beiðnin sé óljós og uppfylli ekki kröfur um form. Þannig sé ekki getið í beiðninni sjálfri þeirrar lagaheimildar sem hún byggist á, tilgangurinn með beiðninni sé óljós og afmörkun þess sem meta skuli sé ekki næg. Þá hafi óvissuþættir verksins í upphafi verið allt of margir til þess að hægt sé að meta verkið eftir á. Engin gögn hafi heldur fylgt beiðninni, þar á meðal teikningar, og sé óljóst hvar matsmaðurinn eigi að byrja og hvernig hann eigi að afla upplýsinga um framkvæmd verks. Fjöldi undirverktaka hafi komið að verkinu og um marga verkþætti að ræða. Geti því hvorki talist sanngjarnt né eðlilegt að verk varnaraðila verði metið eftir á eins og matsbeiðnin geri ráð fyrir.
Niðurstaða.
Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 á aðili dómsmáls rétt á að afla þeirra gagna sem hann telur málstað sínum til framdráttar. Með 1. mgr. 61. gr. laganna er og kveðið á um að aðili hafi heimild til að óska eftir að dómari kveðji til einn eða tvo matsmenn til að framkvæma mat. Skal í beiðninni koma skýrlega fram hvað eigi að meta, hvar það sé sem meta eigi og hvað aðili hyggist sanna með mati. Enda þótt ekki sé áskilið í ákvæðinu að geta skuli í beiðninni þeirrar lagaheimildar sem beiðnin styðst við þá hlýtur slík tilgreining að teljast æskilegt svo að sem skýrast liggi fyrir hver tilgangurinn með beiðninni sé. Sóknaraðili vísar í beiðni sinni til ákv. 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup, sem sýknukrafa hans er að hluta studd við, og verður af því ráðið að hann hyggist með matsgerðinni færa sönnur fyrir málsástæðum sínum með hliðsjón af þeim viðmiðum sem tilgreind eru í ákvæðinu. Þá hefur sóknaraðili og gert grein fyrir því undir rekstri málsins að hann styðji beiðni sína við 60. og 61. gr. laga nr. 91/1991. Verður að telja að nægilega skýrt komi fram í beiðninni hver tilgangurinn með hinu umbeðna mati sé og að afmörkun þess sem meta skal sé nægilega ljós, með tilliti til tilvitnaðs ákvæðis 28. gr. laga nr. 42/2000. Breytir engu í því sambandi þó beiðninni hafi hvorki fylgt nein gögn né hafi þar verið vísað til sérgreindra gagna enda vísað þar til málavaxta í máli varnaraðila gegn sóknaraðila og ráð fyrir því gert í 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 að matsmaður afli þeirra gagna sem sem hann telur vera þörf fyrir.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki á það fallist með varnaraðila að matsbeiðni sóknaraðila sé slíkum annmörkum háð að hafna beri að taka hana til greina. Skal hin umbeðna dómkvaðning því fara fram.
Úrskurð þennan kveður upp Ásgeir Magnússon héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Umbeðin dómkvaðning skal fara fram.