Hæstiréttur íslands
Mál nr. 319/2002
Lykilorð
- Sjómaður
- Ráðningarsamningur
- Uppsagnarfrestur
- Laun
- Aflahlutur
|
|
Fimmtudaginn 12. desember 2002. |
|
Nr. 319/2002. |
Sjólaskip hf. (Kristján Þorbergsson hrl.) gegn Hans Schröder (Jónas Haraldsson hrl.) |
Sjómenn. Ráðningarsamningur. Uppsagnarfrestur. Laun. Aflahlutur.
H, sem starfað hafði sem vélstjóri á togara S hf. frá janúar 2000, var sagt upp störfum í ágúst sama ár þegar skipinu var lagt og fiskveiðum hætt og því breytt í flutningaskip. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við H en óumdeilt var að hann hefði verið ráðinn til starfa ótímabundið. S hf. greiddi H lágmarkslaun, kauptryggingu og orlof, á uppsagnarfrestinum sem H tók við án athugasemda. Í júní 2001 krafðist H hins vegar greiðslu meðallauna í uppsagnarfresti með vísan til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 326/2000. Talið var að H hefði mátt vænta þess að skipið stundaði fiskveiðar á ráðningartíma hans. Breyting skipsins í flutningaskip hefði mátt jafna til þess að því hefði verið lagt sem fiskiskipi en H hafði verið ráðinn sem vélstjóri á slíkt skip. Var fallist á með héraðsdómi að fyrrnefndur dómur hefði fordæmisgildi í málinu en S hf. hefði getað hagað ráðstöfunum sínum á þann veg að starfslok H féllu saman við stöðvun á úthaldi skipsins til veiða. Var krafa H til meðallauna á uppsagnarfresti því tekin til greina, en miðað var við meðallaun hans á öllu ráðningartímabilinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 10. júlí 2002. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að kröfur stefnda verði lækkaðar og ekki látnar bera dráttarvexti fyrr en frá þingfestingardegi málsins í héraði og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verði látinn niður falla.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og fram kemur í héraðsdómi starfaði stefndi sem vélstjóri á togara áfrýjanda, Sjóla HF-1, frá 11. janúar 2000 til 3. ágúst sama ár. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnda, en óumdeilt er, að hann hafi verið ráðinn til starfa ótímabundið. Þann 3. ágúst 2000 var stefnda sagt upp störfum, skipinu lagt og fiskveiðum hætt. Var hafist handa um að breyta skipinu úr fiskiskipi í flutningaskip og stóðu þær breytingar yfir fram til 19. september. Ekki var óskað eftir því að stefndi ynni á uppsagnartímanum nema í þrjá daga. Stefndi vann við stjórn vinnuvéla, akstur og viðgerðir fram í desember 2000 og er ekki ágreiningur um það, að laun hans vegna vinnu meðan uppsagnarfrestur stóð hafi numið 120.000 krónum. Á uppsagnarfrestinum greiddi áfrýjandi stefnda lágmarkslaun, kauptryggingu og orlof, sem stefndi tók við án athugasemda, en með bréfi lögmanns hans 12. júní 2001 var krafist greiðslu meðallauna í uppsagnarfresti með vísan til dóms Hæstaréttar 29. mars 2001 í máli nr. 326/2000: Róbert Pálsson gegn Þormóði ramma-Sæbergi hf. Stefndi miðar kröfu sína við þau laun, sem hann hafði á tímabilinu 18. apríl til 3. ágúst 2000, svo sem nánar greinir í héraðsdómi.
Áfrýjandi heldur því fram, að laun stefnda í uppsagnarfrestinum hafi verið gerð upp með réttum hætti og telur framangreindan dóm Hæstaréttar ekki hafa fordæmisgildi í máli þessu. Í máli því, sem hér sé til úrlausnar hafi skipinu ekki verið lagt endanlega eins og gert var í máli nr. 326/2000. Sjóla HF-1 hafi verið lagt vegna þess að skipið hafði engar veiðiheimildir. Ákveðið hafi verið að breyta því úr fiskiskipi í flutningaskip og að því loknu hafi því verið siglt til Kanaríeyja þar sem það stundaði flutninga þar til það kom aftur til Íslands vorið 2001. Þá hafi því verið breytt aftur í fiskiskip og haldið til veiða. Skipinu hafi því aldrei verið lagt varanlega heldur hafi aðeins verið um breytingu á útgerðarháttum að ræða. Ákvæði kjarasamnings milli Vinnuveitendasambands Íslands og Vélstjórafélags Íslands um kaup og kjör á fiskiskipum, gr. 1.30, 1.31 og 1.33, eigi hér við, en þar sé kveðið á um rétt vélstjóra til vinnu og launa, sé skipi ekki haldið til veiða eftir hafnarfrí og milli veiðitímabila. Sá réttur sé bundinn við kauptryggingu frá 7. degi eftir að hafnarfríi ljúki.
Eins og að framan er rakið var útgerð Sjóla HF-1 sem fiskiskips hætt 3. ágúst 2000. Skipið hafði stundað fiskveiðar árið 1999, en stefndi þá farið nokkrar veiðiferðir í afleysingum. Mátti hann vænta þess, að skipið stundaði fiskveiðar á ráðningartíma hans. Breytingu skipsins í flutningaskip má jafna til þess, að því hafi verið lagt sem fiskiskipi, en stefndi hafði verið ráðinn sem vélstjóri á fiskiskip.
Framangreind ákvæði kjarasamningsins taka eingöngu til þess, þegar dráttur verður á því, að skipið fari í næstu veiðiferð en ekki til þess að útgerð skips til fiskveiða sé hætt. Í kjarasamningnum eru engin ákvæði um hvernig með launagreiðslur skuli fara, þegar þannig stendur á. Er fallist á með héraðsdómi, að dómur Hæstaréttar í máli nr. 326/2000 hafi fordæmisgildi í þessu máli. Áfrýjandi hefði getað hagað ráðstöfunum sínum á þann veg, að starfslok stefnda féllu saman við stöðvun á úthaldi skipsins til veiða. Krafa stefnda til meðallauna undanfarandi mánaða á uppsagnarfresti þykir því eiga rétt á sér.
II.
Eins og að framan greinir miðar stefndi kröfu sína við þau laun, sem hann hafði á 80 daga tímabili frá 18. apríl til 3. ágúst 2000, en þau voru að meðaltali 35.986 krónur á dag.
Áfrýjandi krefst þess til vara hér fyrir dómi, að krafa stefnda verði lækkuð.
Launaseðlar stefnda þann tíma, sem hann var á Sjóla HF-1 liggja fyrir í málinu og samkvæmt þeim er ljóst, að tekjur hans hafa ekki fallið jafnt til yfir árið. Þykir rétt, eins og hér stendur á, að miða laun stefnda á uppsagnarfrestinum við meðallaun hans á öllu ráðningartímabilinu. Miðað við 182 skráningardaga var meðaltal launa stefnda frá 11. janúar til 3. ágúst 2000 21.856 krónur á dag. Samkvæmt því átti hann að fá 1.967.040 krónur í laun á uppsagnartíma. Við þá fjárhæð bætast aukagreiðslur samkvæmt lið I.b í úrskurði samkvæmt 10. gr. fylgiskjals nr. III með lögum nr. 10/1998 um kjaramál fiskimanna, 20.000 krónur á mánuði, eða samtals 60.000 krónur. Frá þeirri fjárhæð dragast 363.374 krónur, sem áfrýjandi greiddi stefnda á uppsagnarfresti hans, og 120.000 krónur, sem stefndi aflaði sér annars staðar frá á uppsagnarfrestinum, eða samtals 483.374 krónur. Áfrýjanda ber því að greiða stefnda 1.543.666 krónur. Rétt þykir að dráttarvextir greiðist frá 12. júlí 2001, þegar mánuður var liðinn frá því að stefndi krafði áfrýjanda um greiðslu.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Sjólaskip hf., greiði stefnda, Hans Schröder, 1.543.666 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. júlí 2001 til greiðsludags.
Áfrýjandi greiði stefnda 500.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 17. apríl 2002.
Mál þetta var þingfest 31. október 2001 og tekið til dóms 21. mars sl. Stefnandi er Hans Schröder, kt. 210643-2309, Funahöfða 7, Reykjavík en stefndi er Sjólaskip hf., kt. 510592-2129, Bæjarhrauni 12, Hafnarfirði.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verið dæmdur til greiðslu 2.815.366 króna auk vaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 4. nóvember 2000 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags. Stefnandi krefst auk þess málskostnaðar.
Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður. Til vara krefst hann lækkunar á stefnukröfum og að málskostnaður verði felldur niður.
I.
Stefnandi starfaði ýmist sem yfir- eða fyrsti vélstjóri á togaranum Sjóla HF-1. Stefnandi sinnti afleysingastörfum á skipinu á árinu 1999 en var fastráðinn sem 1. vélstjóri og yfirvélstjóri í afleysingum þann 11. janúar 2000. Enginn skriflegur ráðningarsamningur var gerður við stefnanda eftir ákvæðum 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.
Stefnandi sinnti störfum sínum hjá stefnda sleitulaust frá 11. janúar 2000 til 3. ágúst 2000, að frátöldu sumarfríi hans í júní það ár. Þann 3. ágúst 2000 var stefnanda sagt upp störfum og var togaranum lagt við bryggju þann dag og veiðum hanns hætt. Ekki var óskað eftir frekara vinnuframlagi stefnanda í uppsagnarfrestinum en þó brá svo við í byrjun október 2000 að einn fyrirsvarsmanna stefnda óskaði eftir vinnuframlagi stefnanda um borð í Sjóla HF-1 í þrjá daga og varð stefnandi við þeirri bón enda taldi hann sig enn vera í ráðningarsambandi við stefnda.
Stefndi greiddi stefnanda kauptryggingu í uppsagnarfrestinum og orlof, þ.e. lágmarkslaun vélstjóra á fiskiskipum, samtals 363.374 krónur. Óumdeilt er að stefnandi tók við þessari greiðslu án þess að gera fyrirvara og gerði ekki athugasemdir við þennan uppgjörsmáta fyrr en með innheimtubréfum lögmanns 12. júní 2001. Tilefnið var nýgenginn dómur Hæstaréttar í málinu 326/2000: Róbert Pálsson gegn Þormóði Ramma-Sæbergi hf., sem kveðinn var upp 29. mars 2001. Telur stefnandi að með þessum dómi hafi verið viðurkenndar efndabætur miðað við þriggja mánaða veiðreynslu togarans.
Stefnandi byggir kröfu sína á 2. mgr. 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og kjarasamningi aðila um að stefndi skuli tryggja stefnanda hlut úr afla. Í kjarasamningnum sé ekki kveðið sérstaklega á um hvernig eigi að fara með launagreiðslur þegar skipi sé endanlega lagt á uppsagnartíma. Fyrir liggi í málinu að veiðum Sjóla hafi verið hætt þar sem fyrirhugað hafi verið að breyta rekstrarháttum skipsins. Aflaheimildir hafi verið leigðar eða seldar frá stefnda. Ákvörðun stefnda að hætta veiðum skipsins hafi verið tekin í hagræðingarskyni fyrir stefnda. Þessar ráðstafanir stefnda hafi leitt til þess að stefnandi hafi ekki lengur fengið greiddan hluta af afla skipsins og hafi laun hans í uppsagnarfresti lækkað verulega frá því sem verið hafi miðað við hefðbundið úthald skipsins til fiskveiða.
Á því er byggt að það sé andstætt almennum reglum vinnuréttar að samningsbundnum kjörum launþega sé breytt á uppsagnarfresti með þessum hætti. Stefnda hafi verið í lófa lagið að haga ráðstöfunum sínum með þeim hætti að starfslok stefnanda féllu saman við stöðvun á úthaldi skipsins til veiða. Telur stefnandi óeðlilegt að hann þurfi að þola skerðingu á launum vegna ráðstafana sem stefndi hafi gripið til einhliða sér til hagsbóta. Stefnandi hafi mátt vænta þess að halda óskertum ráðningarkjörum þar til ráðningartíma hans lyki. Væntingar hans um aflahlut hafi verið fyllilega raunhæfar miðað við launagreiðslur áður en til uppsagnar kom. Stefnandi telur því að með hliðsjón á 2. mgr. 27. gr. sjómannalaga eigi stefnandi rétt á meðallaunum í uppsagnarfresti. Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til hæstaréttardóms nr. 326/2000.
Stefnandi vísar ennfremur til þess að skipi stefnda hafi verið úthlutað veiðiheimildum þann 1. september 2000 en stefndi hafi hins vegar kosið að færa þessar heimildir yfir á önnur skip í sinni eigu.
Stefnandi byggir dómkröfuna á launum sínum frá 18. apríl 2000 til starfsloka 3. ágúst 2000. Stefnandi hefur reiknað út að heildarlaun hans hafi numið 2.878.909 krónum á 80 daga tímabili eða að meðaltali 35.986 krónur á dag. Þriggja mánaða meðaltalslaun hafi því numið 3.238.740 krónum. Frá dragist kaup stefnanda í uppsagnarfresti, 363.374 krónur og 120.000 krónur sem stefnandi aflaði sér annars staðar í uppsagnarfrestinum eða samtals 483.374 krónur. Heildarkrafan nemi því 2.815.366 krónum.
II.
Stefndi kveður Sjóla HF-1 hafa fyrst og fremst verið keyptan til að veiða hluta af úthafskarfakvóta skips stefnda, Haraldar Kristjánssonar HF-2. Sjóli HF-1 hafi því verið án veiðiheimilda á því tímabili sem stefnandi hafi starfað sem vélstjóri um borð í skipinu. Allri áhöfninni hafi verið fullkunnugt um það. Skipinu hafi síðan verið lagt í byrjun ágúst eins og legið hafi fyrir allt sumarið. Hafi þá verið búið að veiða það magn af úthafskarfa sem því hafi verið ætlað að veiða. Allri áhöfn hafi verið sagt upp 3. ágúst og hafi verið sjálfhætt þar sem kvótinn hafi verið búinn. Sjóli hafi verið við bryggju frá 3. ágúst til 19. september 2000 og hafi verið unnið að viðhaldi og viðgerðum um borð í skipinu.
Stefndi mótmælir kröfum stefnanda og byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi fengið sömu greiðslur út uppsagnarfrest sinn og hann hefði fengið ef hann hefði haldið áfram á skipinu. Hafi stefndi því efnt í einu og öllu skyldur sínar samkvæmt kjarasamningum og sjómannalögum.
Stefndi mótmælir kröfum stefnanda sem röngum og órökstuddum. Kröfurnar séu byggðar á dómi Hæstaréttar í óskyldu máli. Sjóli HF-1 hafi verið á úthafskarfaveiðum sumarið 2000 og hafi öllum skipverjum verið ljós óvissan um framhaldið. Skipið hafi verið kvótalaust þegar stefnanda hafi verið sagt upp og hafi stefnandi virst skilja þá ákvörðun stefnda. Þá hafi stefnandi fengið greidda kauptryggingu út uppsagnartímann, sem hafi verið það sama og hann hefði fengið ef hann hefði haldið áfram á skipinu.
Það breyti engu þó skipið hafi fengið veiðiheimildir á árinu sem hófst 1. september 2000, þar sem aldrei hafi verið ætlunin að Sjóli nýtti þær heimildir. Þessar heimildir hafi áður tilheyrt Haraldi Kristjánssyni HF-2, en hann hafi verið seldur. Sjóla hafi verið lagt 3. ágúst 2000 og frá þeim tíma og út uppsagnarfrestinn hafi ekki verið um nein aflaverðmæti að ræða til að skipta á milli stefnanda og stefnda. Stefndi hafi því uppfyllt kjarasamning aðila og beri því að sýkna hann af kröfum stefnanda í málinu.
Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður telur stefndi að sýkna beri hann vegna tómlætis stefnanda. Stefnandi hafi tekið við launum athugasemdalaust og engar athugasemdir gert fyrr en tæpu ári eftir að hann hætti störfum hjá stefnda.
Í varakröfu sinni gerir stefndi þá kröfu að stefnukrafa verði lækkuð og stefnda verði ekki gert að greiða stefnanda hærri fjárhæð en sem svarar 367.255 krónum að frádregnum tekjum stefnanda fyrir mánuðina september og október 2000. Þar sem fiskveiðar séu sveiflukenndar og árstíðabundnar sé krafan byggð á útreikningi á meðaltekjum í stöðu 1. vélstjóra á Sjóla HF-1 fyrir september og október 1999. Sjóli hafi ekki haft kvóta þegar hann hætti veiðum í byrjun ágúst 2000 og því hafi hann legið í höfn það sem eftir var ágústmánaðar. Það hafi ekki verið fyrr en 1. september sem skipið hafi fengið veiðiheimildir á ný.
III.
Stefnandi starfaði ýmist sem yfir eða 1. vélstjóri á ístogaranum Sjóla HF-1 tímabilið 11. janúar 2000 til 3. ágúst 2000, en þá var skipinu lagt, veiðum hætt og stefnanda sagt upp störfum. Stefnanda var greidd kauptrygging í þriggja mánaða uppsagnarfresti en telur sig eiga rétt á meðallaunum síðustu þriggja mánaða í starfi. Þessa kröfu sína byggir stefnandi á 2. mgr. 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og túlkun Hæstaréttar á því ákvæði í málinu nr. 326/2000: Róbert Pálsson gegn Þormóði Ramma-Sæberg hf.
Það er álit dómsins að þessi dómur Hæstaréttar hafi fordæmisgildi í þessu máli. Verður talið, eins og í fyrrnefndum dómi segir, að það sé andstætt almennum reglum vinnuréttar að samningsbundnum kjörum launþega sé breytt á uppsagnarfresti eins og hér var gert. Stefndi hefði getað hagað ráðstöfunum sínum þannig að starfslok stefnanda féllu saman við stöðvun á úthaldi skipsins til veiða. Stefnandi mátti vænta þess að halda óskertum ráðningarkjörum þar til ráðningartíma hans lyki samkvæmt ráðningar- og kjarasamningi. Væntingar hans um aflahlut voru raunhæfar miðað við launagreiðslur áður en til uppsagnar kom. Með hliðsjón af 2. mgr. 27. gr. sjómannalaga þykir krafa hans um meðallaun undanfarandi mánaða eiga rétt á sér.
Ekki verður fallist á að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum sakir tómlætis. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að síðustu launagreiðslur til stefnanda hafi falið í sér samkomulag um fullnaðaruppgjör í þeim skilningi, að hann hafi eftir starfslok sín hjá stefnda afsalað sér rétti til frekari launagreiðslna, sem honum hefði ella borið samkvæmt kjarasamningi.
Stefnandi miðar kröfu sína við meðalaflahlut á Sjóla HF-1 frá 18. apríl 2000 til 3. ágúst sama ár. Er gerð grein fyrir kröfum stefnanda hér að framan og hefur stefndi ekki mótmælt þeim útreikningi tölulega. Samkvæmt því átti stefnandi að fá 3.298.740 krónur í laun á uppsagnartíma. Frá þeirri fjárhæð dragast þau laun er hann fékk á þessu tímabili og er ekki ágreiningur um að þau hafi numið samtals 483.374 krónum. Stefnda ber því að greiða stefnanda 2.815.366 krónur og þykir rétt að dráttarvextir reiknist frá ráðningarlokum 4. nóvember 2000.
Samkvæmt þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur og er þar meðtalinn virðisaukaskattur.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndi, Sjólaskip hf., greiði stefnanda, Hans Schröder, 2.815.366 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 4. nóvember 2000 til 1. júlí 2001 en frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags og 350.000 krónur í málskostnað.