Hæstiréttur íslands

Mál nr. 6/2015


Lykilorð

  • Niðurfelling máls
  • Málskostnaður


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 10. september 2015.

Nr. 6/2015.

Sumar ehf.

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

gegn

þrotabúi IceCapital ehf.

(Haukur Örn Birgisson hrl.)

Niðurfelling máls. Málskostnaður.

Eftir kröfu S ehf. var mál þess á hendur þrotabúi I ehf. fellt niður fyrir Hæstarétti. Var S ehf. dæmt til greiðslu málskostnaðar fyrir réttinum að kröfu þrotabús I ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. janúar 2015. Með bréfi til réttarins 29. ágúst 2015 tilkynnti áfrýjandi að hann félli frá áfrýjun málsins. Af hálfu stefnda var með bréfi 1. september sama ár gerð krafa um málskostnað fyrir Hæstarétti.

Með vísan til c. liðar 1. mgr. 105. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður málið fellt niður fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 verður áfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði. 

Dómsorð:

Mál þetta er fellt niður.

Áfrýjandi, Sumar ehf., greiði stefnda, þrotabúi IceCapital ehf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 2. október 2014.

Mál þetta, sem höfðað var með stefnu birtri 28. desember 2012, var tekið til dóms 4. september sl. Stefnandi er Þrotabú IceCapital ehf., Smáratorgi 3, Kópavogi, en stefndi er Sumar ehf., Iðnbúð 6, Garðabæ.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að rift verði með dómi greiðslu IceCapital ehf. til stefnda að fjárhæð 25.000.000 króna sem fram fór þann 25. maí 2010. Í öðru lagi krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 25.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. maí 2010 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Með úrskurði 29. janúar 2014 var frávísunarkröfu stefnda hrundið.

I

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2012 var bú stefnanda IceCapital ehf. tekið til gjaldþrotaskipta en skiptabeiðandi var Arion banki hf. Skiptastjóri var skipaður sama dag í þrotabúinu. Frestdagur í búinu var 26. janúar 2012. Innköllun birtist í Lögbirtingablaði þann 23. mars 2012 og aftur 30. s.m. Skiptafundur um lýstar kröfur var haldinn þann 31. maí s.á. Í júní 2012 barst skiptastjóra bókhald félagsins á rafrænu formi. Deloitte ehf. var falið að rannsaka bókhald félagsins og var samantekt vegna rannsóknarinnar skilað til skiptastjóra í desember 2012. Stefnandi hét áður Sund ehf. Samkvæmt hlutafélagaskrá var tilgangur félagsins umboðs- og heildverslun, eignarhald og viðskipti með verðbréf, rekstur og eignarhald fasteigna, svo og lánastarfsemi. Stefnandi átti hlut í íslensku viðskiptabönkunum. Stefnandi segir að við fall þeirra hafi félagið að mestu orðið eignalaust en setið eftir með háar skuldir. 

Þann 25. maí 2010 millifærði stefnandi 25.000.000 króna inná hið nýstofnaða félag Sumar ehf. Millifærslan var skráð sem lán í bókhaldi félagsins og var gerður lánssamningur milli aðila þann 12. september 2010. Samkvæmt lánssamningnum var um að ræða óverðtryggt lán til sex ára sem IceCapital ehf. veitti Sumri ehf. Engar afborganir eða vaxtagreiðslur áttu að fara fram á lánstímanum en lánið átti að greiðast upp að loknum lánstímanum, þann 1. febrúar 2016. Fjórum dögum áður en millifærslan fór fram, eða þann 21. maí 2010, hafði tollstjóri lagt 109.881.784 krónur inná reikning stefnanda. Félagið Sumar ehf. er í eigu Jóns Kristjánssonar. Hann átti þriðjungshlut í stefnanda á móti móður sinni og systur. Hann var einnig stjórnarformaður beggja félaganna. Stefnandi telur Sumar ehf. því nákominn aðila í skilningi laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Með bréfi stefnanda þann 7. desember 2012 lýsti stefnandi yfir riftun á umræddri millifærslu og skoraði á stefnda að endurgreiða fjárhæðina, að öðrum kosti yrði höfðað dómsmál til að koma á riftun. Erindinu var ekki svarað. Stefnanda sé af þeim sökum nauðugur sá kostur að höfða dómsmál þetta til riftunar á framangreindum ráðstöfunum og til endurgreiðslu þeirra verðmæta sem gengu til stefnda.

Stefnandi telur þann lánssamning sem gerður var milli aðila þann 12. september 2010 hafa verið málamyndagerning og til þess gerðan að koma fjármunum undan fullnustugerðum skuldheimtumanna. Lánssamningurinn hafi verið gerður tæpum fjórum mánuðum eftir að millifærslan átti sér stað. Lánssamningurinn hafi í reynd verið gjöf og til hagsbóta fyrir stefnda. Í öllu falli hafi skilmálar hins meinta lánssamnings verið afar óvenjulegir og verulega óhagstæðir fyrir stefnanda en vænlegir fyrir stefnda, enda átti ekki að greiða afborganir eða vexti af láninu á lánstímanum og gjalddagi þess var ekki fyrr en árið 2016. Lán með engum tryggingum, engum afborgunum og engum vaxtagreiðslum sé óvenjulegt. Slíkt lán sé ómögulegt að fá á frjálsum lánamarkaði. Stefnandi byggir á að þetta bendi til þess að lánssamningurinn hafi verið gerður eftirá til þess að gera endurheimur gjafar stefnanda til stefnda erfiðari.

Á því er byggt af hálfu stefnanda að stefnandi hafi verið ógjaldfært félag í skilningi laga nr. 21/1991 frá septembermánuði 2008 og þar af leiðandi ógjaldfært þegar hinar riftanlegu ráðstafanir áttu sér stað. Á þessum tíma hafi stefnandi verið nær eignalaust félag en skuldir félagsins numið mörgum milljörðum króna. Þessu til stuðnings megi t.d. benda á að samkvæmt ársreikningum stefnanda 2008 og 2009 hafi eigið fé stefnanda verið neikvætt um 17,5 milljarða króna í lok árs 2008 og um rúma 24,6 milljarða króna í árslok 2009. Í ársreikningi félagsins 2008 segi m.a. að tap ársins 2008 nemi rúmlega 32,2 milljörðum króna og eigið fé félagsins sé neikvætt í árslok um 17.579.000 króna. Þessi atriði valdi því að vafi leiki á um rekstrarhæfi félagsins.

Þessu til frekari stuðnings vísist til þess að fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 að á tímabilinu frá 1. janúar 2007 til 30. september 2008 hafi skuldir stefnanda og tengdra félaga hækkað um 44,7 milljarða króna. Í evrum talið hafi skuldbindingar félaganna hækkað um 236,5 milljónir eða 117%. Á sama tímabili hafi nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda numið 43,3 milljörðum króna.

Fyrirsvarsmönnum stefnanda hafi augljóslega verið ljóst að félagið var ógjaldfært þegar hinar riftanlegu ráðstafanir áttu sér stað. Í raun hafi stjórnarformaður stefnanda viðurkennt þetta í skýrslutöku hjá skiptastjóra þegar hann lýsti því hvernig eignahlið stefnanda hafi þurrkast út við hrun viðskiptabankanna haustið 2008 og aðeins skuldir staðið eftir. Það hafi verið undir þessum kringumstæðum sem hinar riftanlegu ráðstafanir hafi verið gerðar.

Augljóst sé að gerningurinn hafi ekki verið nauðsynlegur í þágu atvinnurekstrar stefnanda og hvorki eðlilegur með tilliti til sameiginlegra hagsmuna lánardrottna né til að fullnægja daglegum þörfum. Þvert á móti hafi tilgangurinn verið að koma verðmætum undan gjaldþrotaskiptum með því að setja þau yfir í félag í eigu sömu aðila og nákominna. Þetta hafi fyrirsvarsmanni félaganna verið ljóst, enda honum ekki dulist að fjárhagsleg staða stefnanda var orðin verulega slæm.

Stefnandi byggir riftunarkröfu sína aðallega á því að millifærslan þann 25. maí 2010 að fjárhæð 25.000.000 króna hafi verið gjafagerningur sem sé riftanlegur á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi og stefndi séu nákomnir í skilningi 3. gr. laganna og þar af leiðandi eigi ákvæði 2. mgr. 131. gr. laganna, sbr. bráðabirgðaákvæði 1. mgr. 194. gr. laganna, við um gjafagerninginn. Þá hafi stefnandi á þeim tíma er ráðstöfunin fór fram verið ógjaldfær í skilningi 64. gr. laganna.

Stefnandi byggir riftunarkröfu sína einnig á ákvæði 141. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi byggir á að umrædd ráðstöfun hafi verið ótilhlýðileg og leitt til þess að eignir hins gjaldþrota félags hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum auk þess sem stefnandi hafi verið ógjaldfær á þeim tíma sem gerningurinn átti sér stað og fyrirsvarsmaður félaganna vitað eða mátti vita af ógjaldfærni stefnanda og þeim aðstæðum sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg.

Fjárkrafa stefnanda byggist á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 verði henni rift á grundvelli ákvæðis 131. gr. laganna. Þar sé mælt fyrir um að sá sem hag hefur af riftanlegri ráðstöfun skuli greiða þrotabúi fé sem svari til þess sem greiðsla þrotamanns hafi orðið honum að notum. Stefnandi byggir á því að hin riftanlega ráðstöfun hafi komið stefnda að sömu notum og svari til fjárhæðar hennar þar sem um peningagreiðslu hafi verið að ræða.

Verði á hinn bóginn fallist á riftun á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 sé endurgreiðslukrafa stefnanda reist á 3. mgr. 142. gr. laganna. Síðarnefnda ákvæðið mæli fyrir um að sá sem hag hafi haft af riftanlegri ráðstöfun greiði bætur eftir almennum reglum. Stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni sem nemi fjárhæð hinnar riftanlegu ráðstöfunar, enda hefðu fjármunirnir nýst stefnanda að fullu til úthlutunar upp í lýstar kröfur í þrotabú stefnanda. Bæði reglur 1. og 3. mgr. 142. gr. laganna leiði til sömu fjárkröfu sem sé stefnufjárhæð þessa máls.

Stefnandi byggir fjárkröfu sína einnig á ákvæðum 51. gr., 70. gr. og 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Við gjaldþrotaskiptin hafi stefnandi eignast skaðabótakröfu hins gjaldþrota félags á hendur stefnda, sbr. XII. kafla laga nr. 21/1991. Stefnandi bendir á að stefndi hafi vitað, eða mátt vita, að greiðsla eða lánveiting stefnanda til stefnda hafi verið brot á ákvæðum laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, sbr. 2. tl. 1. mgr. 52. gr. laganna. Stefnandi byggir á því að ráðstöfunin hafi verið bæði hluthöfum stefnanda eða öðrum, það er hluthöfum stefnda, til ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað stefnanda og kröfuhafa hans. Með sömu rökum vísar stefnandi til 70. gr. laganna. Stefnandi vísar einnig til 79. gr. laganna en greiðsla stefnanda til stefnda brjóti gegn ákvæðum 1. mgr. 79. gr. þar sem um sé að ræða greiðslu til aðila sem stendur hluthafanum Jóni Kristjánssyni sérstaklega nærri þar sem hann er einnig hluthafi og stjórnarmaður í stefnda. Vísar stefnandi til 4. mgr. 79. gr. um greiðsluskyldu stefnda vegna brota á 79. gr.

Enn fremur byggir stefnandi á meginreglu gjaldþrotaskiptaréttar um jafnræði kröfuhafa og á almennum reglum kröfuréttar.

Dráttarvaxtakrafa er reist á III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafa um riftun er einkum reist á 131. og 141. gr. laganna. Fjárkrafa stefnanda byggir á 1. og 3. mgr. 142. gr. gjaldþrotalaga, almennum reglum skaðabótaréttarins sem og ákvæðum laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og reglum kröfuréttar. Um vexti og dráttarvexti er vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá er krafa um málskostnað reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing er vísað V. kafla sömu laga. Þá bendir stefnandi á að samkvæmt 1. mgr. 148. gr., sbr. bráðabirgðaákvæði 194. gr. gjaldþrotalaga, er mál þetta höfðað innan málshöfðunarfrests.

II

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi lánað sér fé þann 25. maí 2010 en ekki ætlað sér að gefa honum það. Tilgangurinn með gerningnum hafi ekki verið sá að gefa. Fjárhæðin, sem stefnandi millifærði til stefnda, beri svokallaða 12 mánaða REIBOR vexti auk 5% álags frá og með 25. maí 2010 til greiðsludags. Samkvæmt lánssamningnum sé féð lánað til sex ára. Lánið eigi að endurgreiða með einum gjalddaga afborgunar og vaxta 1. febrúar 2016. Stefndi hafi þó heimild til að greiða lánið upp fyrr án sérstaks uppgreiðslugjalds, sbr. 2. gr. lánssamningsins. Um gjafafé sé því ekki að ræða í neinni merkingu orðsins gjöf í 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Ráðstöfun fjárins hafi ekki með nokkrum hætti rýrt eignir stefnanda sem hvergi hafi getað ávaxtað fé sitt með REIBOR  vöxtum auk 5% álags í maí 2010 eða síðar.

                Fé sem afhent er með skilmálum um endurgreiðslu og háa vexti feli hvorki í sér málamyndagerning né sé gjöf í skilningi 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 og verður því ekki rift á grundvelli ákvæðisins. Ráðstöfun fjárins af hálfu stefnanda hafi ekki verið gerð til að koma verðmætum undan gjaldþrotaskiptum eins og haldið er fram í stefnu. Verðmætin séu enn til staðar í formi lánssamnings sem beri háa vexti. Stefndi hafi boðist til að breyta skilmálum hans, m.a. í þá veru að greiða áfallna vexti frá 25. maí 2010 til 25. maí 2012 og síðan áfallna vexti frá 25. maí 2012 til 25. maí 2013 og svo framvegis. Hjá stefnda skorti því ekki vilja til að gera breytingar á efni lánssamningsins stefnanda til hagsbóta teljist lánaskilmálarnir ósanngjarnir eða andstæðir góðum viðskiptaháttum.

                Stefnandi byggi riftunarkröfu sína á hendur stefnda í annan stað á 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Er á því byggt af hálfu stefnanda að lánveitingin hafi verið ótilhlýðileg og leitt til þess að eignir stefnanda hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum og stefnandi verið ógjaldfær á þeim tíma sem gerningurinn hafi verið gerður.

Stefndi hafnar því að eignir stefnanda séu ekki til reiðu fyrir kröfuhafa hans. Fyrir liggi lánssamningur að fjárhæð 25.000.000 króna sem beri háa vexti og sé á gjalddaga eftir þrjú ár. Samkvæmt framlagðri kröfuskrá liggi fyrir að lýst hafi verið 22 kröfum í bú stefnanda. Af þeim séu kröfur að fjárhæð liðlega 14,7 milljarðar sagðar vera veðkröfur sem þó sé ekki tekin afstaða til. Almennar kröfur séu að fjárhæð liðlega 36,4 milljarðar. Einni þeirra að fjárhæð liðlega 225 milljónir hafi verið hafnað. Engin mótmæli hafi borist við þeirri höfnun ef marka megi fundargerð kröfuhafafundar. Sex almennar kröfur að fjárhæð 2.375.448 krónur hafi verið samþykktar. Til annarra lýstra krafna hafi skiptastjóri ekki tekið afstöðu og því sé með öllu óljóst hverjir hafi átt kröfur á hendur stefnanda og hvað þær hafi verið háar 25. maí 2010 þegar lánið var veitt.

                Rannsóknarskýrsla Alþingis sé ekkert sönnunargagn um fjárhagsstöðu stefnanda eins og byggt virðist á af hálfu stefnanda í stefnu. Efnahagur stefnda hafi vissulega orðið fyrir höggi þegar íslenskt efnahagslíf hrundi í kjölfar setningar neyðarlaganna 7. október 2008, eins og framlagðir ársreikningar beri með sér. Varðandi skuldir við lánastofnanir bendir stefndi þó sérstaklega á skýringu 17 í ársreikningi 2009. Á stjórnendum stefnanda hafi hvílt sú skylda að reyna að takmarka tjón hluthafa og lánardrottna og að því hafi verið unnið allt þar til félagið hafi verið knúið í þrot af Arion banka hf. sem tekið hafði við lánssamningum Kaupþings banka hf. á hendur stefnanda en ekki þeim eignum sem stefnandi átti og hafði átt í eignastýringu hjá Kaupþingi banka hf. Formlegt uppgjör á þeim viðskiptum við Kaupþing banka hf. hafi aldrei fengist en slitabú bankans muni enn vera að reyna að ná til sínum eignum sem fjárfest hafði verið í fyrir stefnda á erlendri grundu. Krafa LBI hf. á hendur stefnanda að fjárhæð um 27,5 milljarðar króna sé hrein markleysa og geti aldrei fengist samþykkt á hendur búi stefnanda. Svo kunni einnig að vera um fleiri kröfur sem lýst hefur verið.

Stefndi byggir á því að meðan ekkert liggi fyrir um hverjar séu raunverulegar skuldir búsins verði ráðstöfun þeirri sem krafist er riftunar á í máli þessu ekki rift á grundvelli 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

                Verði riftunarkrafa stefnanda tekin til greina eignist stefnandi fjárkröfu á hendur stefnda. Verði rift á grundvelli 1. mgr. 131. gr. beri stefnda að endurgreiða stefnanda þá peninga sem hann fékk. Verði rift á grundvelli 141. gr. beri stefnda að greiða bætur eftir almennum reglum. Á stefnanda hvíli sönnun um tjón hans.

                Stefndi verði hins vegar ekki dæmdur til að greiða dráttarvexti þar sem dómkrafa stefnanda um dráttarvexti sé hvorki í samræmi við ákvæði d liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 né ákvæði III. kafla og 11. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, hvað þá dómafordæmi Hæstaréttar Íslands um heimila framsetningu dráttarvaxtakrafna í málum. Stefndi mótmælir því að stefnandi fái bætt úr þessum hnökrum á málatilbúnaði sínum. Beri dómara því að vísa dráttarvaxtakröfunni frá dómi ex offico, enda verði hún ekki tekin upp óbreytt sem ályktunarorð dómsniðurstöðu í málinu.

                Stefnda sé með öllu óskiljanleg sú málsástæða stefnanda að fjárkrafa hans í málinu styðjist einnig við ákvæði 51., 70. og 79. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 og almennu skaðabótaregluna. Undir dómkröfum í stefnu sé gerð krafa um riftun á greiðslu sem fór fram 25. maí 2010 að fjárhæð 25.000.000 króna og greiðslu þess fjár með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Engin sjálfstæð krafa sé höfð uppi um það í málinu að stefnandi sé óbundinn af löggerningi sínum og stefnda. Þvert á móti virðist sem umfjöllun í stefnu geri ráð fyrir því að stefnandi eigi einhvers konar skaðabótakröfu á hendur stefnda þar sem forsvarsmenn stefnanda hafi við lánveitinguna hyglað stefnda á kostnað annarra hlutahafa eða félagsins. Tilvísun stefnanda til 51., 70. og 79. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 sé hreinlega út úr kú og hafi engin tengsl við sakarefni máls þessa. Engin grein sé gerð fyrir því í stefnunni hvernig almenna skaðabótareglan eigi að geta leitt til bótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda í máli þessu. Þá beri þess einnig að geta að í 71. gr. laga um einkahlutafélög sé að finna sérstakt málshöfðunarákvæði.

                Stefndi mótmælir þessum málatilbúnaði stefnanda, enda eigi hann engin tengsl við atvik málsins og málsástæður stefnanda að öðru leyti.

Varðandi lagarök vísar stefndi til 148. gr, sbr. 194. gr., laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, 131., 141. og 142. gr. laga nr. 21/1991, III. kafla og 11. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu svo og til laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Krafa um málskostnað byggist á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslu Páll Þór Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnanda. Þá gaf einnig skýrslu Sif Einarsdóttir, löggiltur endurskoðandi, en hún stjórnaði vinnu við gerð skýrslu um bókhald stefnanda sem gerð var að tilhlutan skiptastjóra stefnanda.

III

IceCapital ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 14. mars 2012 og var frestdagur í búinu 26. janúar 2012. Þrotabúið höfðaði mál þetta til riftunar á ráðstöfun sem það telur að hafi falist í lánveitingu til stefnda 25. maí 2010 samkvæmt lánssamningi milli aðila 12. september 2010. Lánið skyldi endurgreiða í lok samningstímans með einni afborgun þann 1. febrúar 2016. Lánið bar vexti frá 25. maí 2010, 5% álag ofan á 12 M REIBOR vexti, en engar tryggingar voru settar. Ekki er deilt um í málinu að lánssamningurinn var milli nákominna í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991.

Stefnandi reisir kröfu sína í fyrsta lagi á því að í ráðstöfuninni hafi falist gjöf í skilningi 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991, sbr. bráðabirgðaákvæði 1. mgr. 194. gr. laganna.

Í gögnum málsins liggur fyrir lánssamningur milli aðila og í bókhaldi stefnanda er millifærsla að fjárhæð 25.000.000 króna skráð sem lán til stefnda. Þó að þessi lánafyrirgreiðsla hafi verið óvenjuleg bar lánið þó vexti og hafði gjalddaga. Ráðstöfunin byggðist á samningi þar sem gert var ráð fyrir að fullt endurgjald kæmi fyrir þau verðmæti sem afhent voru. Er því ekki unnt að fallast á með stefnanda að um gjöf hafi verið að ræða í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991 en um það atriði ber stefnandi sönnunarbyrðina eftir almennum reglum. Riftunarkrafa stefnanda verður því ekki reist á þessum grunni.

Í öðru lagi reisir stefnandi riftunarkröfu sína á ákvæðum 141. gr. laganna og byggir á því að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg og stefnda til hagsbóta á kostnað kröfuhafa í búinu.

Deilt er um gjaldfærni stefnanda en í því sambandi ber að miða við 25. maí 2010 er lánið var veitt en ekki er lánssamningur var undirritaður 12. september 2010. Samkvæmt ársreikningum stefnanda var eigið fé stefnanda neikvætt um 17,5 milljarða króna í lok árs 2008 og rúma 24,6 milljarða króna í árslok 2009. Í ársreikningi stefnanda 2008 segir að tap ársins 2008 nemi 32.262 milljónum króna og eigið fé félagsins sé neikvætt í árslok 2008 um 17.579 milljónir króna. Segir endurskoðandi félagsins í ársskýrslunni að framangreint valdi því að vafi leiki á um rekstrarhæfi félagsins. Í ársreikningi 2009 segir m.a. í skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra að 7.028 milljóna króna tap hafi orðið á rekstri félagsins árið 2009 samkvæmt rekstrarreikningi og að eigið fé félagsins hafi í árslok verið neikvætt um 24.607 milljónir króna. Ársreikningur fyrir 2009 var ekki endurskoðaður af endurskoðanda. Fram kom í skýrslu Páls Þórs Magnússonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra stefnanda, að félagið hafi verið stór hluthafi í íslensku bönkunum þremur og Byr sparisjóði. Við hrun bankanna í byrjun október 2008 hafi þessar eignir þurrkast út. Fljótlega eftir bankahrunið hafi verið haldinn fundur með lögmönnum og endurskoðanda félagsins í þeim tilgangi að bjarga verðmætum. Hafi verið ákveðið að stofna sjö félög og eignir verið fluttar frá stefnanda til þessara félaga á bókfærðu verði. Páll Þór sagðist hafa hætt sem framkvæmdastjóri stefnanda og hafið störf við rekstur þessara sjö félaga. Því er haldið fram af skiptastjóra stefnanda að eftir þessar ráðstafanir á eignum stefnanda hafi stefnandi verið með öllu eignalaus og ógjaldfær. Af framangreindu öllu virtu telur dómurinn ekki leika vafa á að stefnandi hafi verið ógjaldfær á árinu 2010 og þá ekki getað staðið við skuldbindingar sínar.

Eins og áður sagði lánaði stefnandi stefnda 25.000.000 króna án tryggingar og án afborgana fyrr en eftir sex ár. Slík lánafyrirgreiðsla telst óvenjuleg og til þess fallin að hygla nákomnum í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 á kostnað kröfuhafa búsins. Fyrirsvarsmaður stefnda mátti vita um ógjaldfærni stefnanda. Greiðsla stefnanda til stefnda var því ótilhlýðileg eins og á stóð. Verður því talið að framangreindur gerningur sé riftanlegur í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991.

Samkvæmt framansögðu verður tekin til greina krafa stefnanda um riftun á greiðslu stefnanda til stefnda að fjárhæð 25.000.000 króna sem fram fór 25. maí 2010 samkvæmt lánssamningi 12. september 2010 en ekki er deilt um tímafresti í málinu. Ekki skiptir máli í þessu sambandi þótt skiptastjóri hafi ekki tekið afstöðu til lýstra krafna en því er haldið fram af hálfu stefnda.

Með skírskotun til 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 verður stefnda jafnframt gert að endurgreiða stefnanda 25.000.000 króna.

                Stefnandi byggir fjárkröfu sína einnig á 51., 70. og 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Þessi kröfugerð stefnanda er ekki í tengslum við málatilbúnað stefnanda að öðru leyti og tengist ekki málsástæðum stefnanda og kröfugerð sem byggist á XX. kafla laga nr. 21/1991 um riftun á ráðstöfunum þrotamanns og endurheimt verðmæta við gjaldþrot. Fjárkrafa stefnanda verður því ekki reist á fyrrgreindum ákvæðum laga um einkahlutafélög.

                Í kröfugerð sinni í stefnu krefst stefnandi dráttarvaxta án frekari tilvísunar. Í lagarökum sínum í stefnu vísar hann til III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu án þess að tiltaka hundraðshluta vaxta eða vísa til 1. mgr. 6. gr. laganna. Undir rekstri málsins var bókað af hálfu stefnanda að dráttarvaxtakrafan væri byggð á 1. mgr. 6. laga nr. 38/2001 og mótmælti stefndi að þessi breyting á kröfugerð kæmist að í málinu þar sem hún væri of seint fram komin. Talið verður í samræmi við fordæmi Hæstaréttar, t.d. í dómi nr. 522/2008, að tilvísun til III. kafla nefndra laga í stefnunni hafi verið fullnægjandi og stefnanda leiðréttingin heimil. Dráttarvextir verða dæmdir frá 7. janúar 2013 en þá var liðinn mánuður frá því að stefnandi krafði stefnda um greiðslu kröfunnar, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

                Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda 350.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til fimm annarra riftunarmála stefnanda sem flutt voru sama dag.

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð

                Rift er greiðslu IceCapital ehf. til stefnda, Sumars ehf., að fjárhæð 25.000.000 króna sem fram fór 25. maí 2010.

                Stefndi greiði stefnanda 25.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 7. janúar 2013 til greiðsludags og 350.000 krónur í málskostnað.